Færslur

Þrínúkar

Farið var í hellana í Þríhnúkahrauni og Húsfellsbruna upp úr Þjófakrikum undir hlíðunum vestan við Eyra.

Þríhnúkar

Í Þríhnúkum.

Eyra er lítill gígur utan í hlíðinni. Hellarnir eru þarna í sléttu helluhrauni, en Húsfellsbruni hefur runnið yfir þá að hluta þannig að a.m.k. tveir hellanna liggja undir hann.

Haldið var upp hlíðina og þá komið að fallegum litskrúðugum uppstreymisgíg á brúninni. Frá því sést vel í Þríhnúka nokkru sunnar. Austar eru miklar hrauntraðir, sem ætlunin var að skoða í bakaleiðinni. Gengið var því beint á hæstu hæð, sem hefur að geyma hinn þekkta Þríhnúkahelli.

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur – op.

Þríhnúkar eru þrjú eldvörp ásamt hraunum á lögsagnarmörkum Kópavogs og Garðabæjar í Bláfjallafólkvangi. Þríhnúkar eru meðal sérstæðustu eldstöðva á Íslandi. Tveir austari hnúkarnir eru eldgígar frá nútíma, en þriðji gígurinn og sá vestasti er úr móbergi frá ísöld. Í austasta gígnum, Þríhnúkagíg, sem er innan Kópavogslands, er geysistór, tómur gígketill, um 120 m djúpur. Þetta er dýpsti lóðrétti hraunhellirinn á Íslandi sem vitað er um og jafnvel þótt víðar væri leitað. Á gígbotninum tekur við um 115 m langur hellir með 50° halla. Gígketillinn er einstaklega fallegur, botnsléttur og litadýr. Gott útsýni er frá Þríhnúkum til allra átta.

Sunnan við gígana er hraunbóla með hurð fyrir, en skammt norðvestan við hana er fallegt uppstreymisop. Gengið var austan við sunnanverða Þríhnúka, að mikilli hrauntröð, sem þar er. Fyrst var fyrir djúp gjá. Í hana verður ekki farið nema á bandi. Fróðlegt væri að vita hvað hún hefur að geyma.

Þríhnúkar

Skilti við Þríhnúka.

Hraunhaft er austan gjárinnar, en síðan tekur við opin hrauntröð er sveigist til norðurs undan hallanum og fram af brúninni þar sem áður var komið upp. Í tröðinni eru brýr og brúnir. Nyrst utan í rásinni, áður en hún fer fram af hlíðinni, er fallegur hellir.
Blanka logn og hiti. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.
-http://www.kopavogur.is/displayer.asp?cat_id=418

Eyra

Eyra.

Hjartartröð

Gengið var eftir Hjartartröðinni í Stórabollahrauni og skoðaðir hellastubbarnir á leiðinni. Úr vestasta niðurfallinu heldur rásin, víð og breið, áfram til vesturs undir nýrra hraun. Innan í henni er mikið hrun, en hægt er að komast áfram hægra megin í rásinni, fast við hellisvegginn. Þar fyrir innan er nokkurt hrun, en ef vilji er fyrir hendi er hægt að halda áfram yfir það og innar í rásina.

Þríhnúkar

Þrihnúkar – skjól.

Í Kristjánsdölum fannst hlaðið refabyrgi og greni þar nálægt. Gengið var á hraunrás undir Lönguhlíðum inn af Þjófadölum. Í henni er rás, nokkuð mjó, en mjög falleg. Hún var skoðuð lítillega. Þá var haldið á Þríhnúka og litið ofan í dýpsta helli á landinu, Þríhnúkahelli. Aðalgígur Þríhnúka er á milli hnúkanna, fallega sléttur hraundalur. Sunnan undir austasta hnúknum er hraunhóll, holur að innan og er hurð fyrir opinu. Inni var steinbekkur og borð. Yfir hólinn hafði verið lagður dúkur og hann hulinn. Einnig var hraunhóllinn klæddur plastdúk að innan. Svo virðist sem einhver, eða einhverjir, hafi notað stað þennan sem skjól um tíma. Norðan hólsins er mjög fallegur gervigígur.

Þríhnúkahellir

Sigið í Þríhnúkahelli.

Haldið var austur með sunnanverðu Þríhnúkahrauni, norðan Stórkonugjár, að mjög djúpu jarðfalli við enda mikillar hrauntraðar, milli hennar og Þríhnúkahellis. Ekki er hægt að komast þar niður nema á bandi. Þarna niðri gætu leynst göng til vesturs, í átt að hellinum. Við austurenda hrauntraðainnar er mikill gígur. Norður af honum liggur hrikaleg gjá. Við enda hennar, austanmegin, er hellisop; falleg hraunrás er liggur í beygju til vinstri og hallar niður með hlíðinni. Hún var skoðuð að hluta. Gólfið er grófur brúnleitur hraunfoss.
Á leið niður hlíðina vestan við Eyra var litið á Kristjánsdalahellana. Einn þeirra, sá austasti undir hraunbrún, er sá fallegasti af þeim. Hinir eru fremur lágir.
Dýrindisveður, logn og sól og útsýnið eftir því.

Hjartartröð

Hjartartröð.