Færslur

Kristjánsdalir

Kofatóft úr torfi og grjóti undir Bollum, utan í Kristjánsdölum, við hraunkantinn milli Kerlingaskarðsvegar og Grindaskarðsvegar, hefur löngum vakið forvitni göngufólks, en fátt er vitað um tilurð hans og tilgang. Þorvaldur Thoroddsen getur kofans í skrifum sínum í Andvara árið 1884 í lýsingu sinni um “Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883“:

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala.

“Frá Kaldárseli fórum við fyrst Grindaskarðsveg upp að fjöllunum og síðan austur á við milli hrauns og hlíða um svo kallaða Kristjánsdali; þar er mjög grasgefið land, en ekkert vatn neinstaðar; þar höfðu lestamenn hesta sína, þeir er sóttu brennistein í Brennisteinsfjöll, og er þar dálítill kofi síðan. Dólerít er hjer ofan til í fjöllum, en móberg undir. Mjög illt var að klöngrast yfir hraunfossana, sem fallið hafa niður hjá Kóngsfelli, því bæði eru þeir breiðir og hraunið mjög umsnúið og erfitt yfirferðar.”

Kristjánsdalir

Tóft við vatnsstæði í Kristjánsdölum.

Þrátt fyrir framangreind orð Þorvaldar er ágætt vatnsstæði í Kristjánsdölum, skammt norðan Grindaskarðsvegar. Við það er nánast jarðlæg tóft, sem væntanlega hefur verið afdrep Selvogsmanna á leið þeirra millum Vogs og Fjarðar fyrrum. Þar höfðu rjúpnaskyttur úr Hafnarfirði afdrep undir það síðasta. Enn önnur tóftin, grunnur undir timburhús, tengd brennisteinsnáminu í Fjöllunum, er ofar og austar, upp undir Kerlingarskarði.

Heimild:
-Andvari – 1. tölublað 01.01.1884, “Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883”; Þorvaldur Thoroddsen, bls. 30.

Kerlingarskarð

Búð námumanna undir Kerlingaskarði.

Selvogsgata

Gengið var frá Bláfjallavegi áleiðis í Kristjánsdali. Á leiðinni eru tvær vörður. Á milli þeirra er markaður gamall stígur í klöppina. Sést hann vel á nokkrum kafla. Þarna mun vera um að ræða þann hluta Selvogsgötu er lá að veginum um Grindarskörð, en á seinni tímum hefur legið beinna við að fylgja stígnum upp Kerlingarskarð.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Skömmu áður en komið er í sjálfa dalina er komið að vatnsstæði. Í dalverpi eru síðan tvær tóttir. Önnur er húslaga en hin virðist vera hleðslur beggja vegna veggja timburhúss. Þarna var lengi sæluhús Selvogsmanna áður en þeir lögðu á heiðina í misjöfnum veðrum. Lengi vel voru hús þessi notuð af rúpna- og refaskyttum, sem þá höfðust við um skamman tíma í Kristjánsdölum þegar þeir voru við veiðar í Hlíðunum. Þegar haldið er upp krikann í dalbotninum er eins og ruddur stígur á ská upp hlíðina. Stígnum var fylgt upp, en áður en brúninni er náð virtist stígurinn enda. Ástæðan gæti verið hrun að ofan efst við brúnina eða hreinlega að engin stígur hafi verið þarna.

Bollar

Kóngsfell.

Haldið var áfram á ská upp brúnina og var þá komið að Stórabolla, einum bollanna sem Tvíbollahraun er komið úr og sjá má fyrir neðan. Varða var á brúninni norðan Bollans. Gengið var inn og niður með honum og inn að Kóngsfelli. Fellið er nokkuð sérstakt. Bæði stendur það eitt og sér austan við Grindarskörðin og í því miðju er hvilft þar sem fjárkóngar fyrrum hittust og réðu ráðum sínum. Í hvilftinni er gott skjól og því góður samkomustaður. Haldið var í suður frá fellinu og inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg). Nokkrar vörður eru á þeirri leið.

Stakkavíkurstígur

Á Stakkavíkurstíg efst í Selsskarði.

Selvogsgötunni var síðan fylgt niður með Draugahlíðum og í gegnum skarðið vestan Austurása. Þar skammt sunnar eru gatnamót. Í stað þess að vinda um og fylgja götunni áfram niður í Strandardal eða áfram niður að Hlíðarskarði var ákveðið að beygja til hægri og halda niður Stakkavíkurselsstíg. Gengið var vestur með Vesturásum og síðan niður með Dýjabrekkum og áfram niður með Grænubrekkum. Ofan þeirra er Stakkavíkurselið. Við stíginn eru einnig tóttir af enn eldra seli. Þegar komið var niður á brún Stakkavíkurfjall ofan við Hlíðarvatn tók Selsstígurinn við niður hlíðina. Þá var komið á Herdísarvíkurveg, u.þ.b. fjórum klukkustunum eftir að lagt var af stað frá Bláfjallavegi.
Veður var frábært – logn og sól.

Selvogsgata

Selvogsgatan.

Valaból

Gengið var um gömlu Selvogsgötuna frá Helgadal, upp með Valahnjúkum án viðkomu í Valabóli og Músarhelli, en þess í stað haldið áfram upp Mygludali (sem sumir segja að heiti eftir hryssu Ingólfs Arnarssonar, en aðrir að þeir dragi nafn sitt af myglunni, sem þarna legst yfir sem grá slæða á ákv. árstímum), inn með Kaplatór, öðru nafni Strandartorfum og áfram upp hraunið. Gatan er þarna mjög skemmtileg á köflum. Markað er ofan í klappirnar eftir hófa, klaufir og fætur margra alda.

Selvogsgata

Selvogsgatan.

Um þennan veg (nefndur Suðurfararvegur af Selvogsbúum) fór meginumferðin til og frá Selvogi, Hlíð og Herdísarvík, auk þess sem lestarferðirnar ofan úr Brennisteinsfjöllum á seinni hluta 19. aldar fóru um götuna. Gatan er vel vörðuð og greinileg alveg upp í Kerlingarskarð.
Þegar komið var á Bláfjallaveginn var vent til suðausturs, upp í Tvíbollahraunið í átt að Stórabolla. Þar hefur gömul leið legið upp hraunið og má sjá markað þar í klappirnar á nokkrum stöðum. (Síðar kom í ljós að þar gæti verið um gömlu leiðina áleiðis upp í Grindarskörð að ræða). Gatan liggur að Vatnsstæði vestast í Kristjánsdölum, undir Lönguhlíðinni. Þaðan liggur svo gata til suðvesturs í átt að Kerlingaskarði. Birtan var slík að mosinn var grænni en ella og ýmsar fallegar myndanir birtust í hlíðunum. Vegna hitans frá sólinni liðuðust gufur upp frá honum í logninu.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Nokkru frá vatnsstæðinu var gengið fram á sást greinilegt uppstreymi úr gati í mosanum. Þegar stungið var þar niður höfði sást að þar undir er djúpur gígur, annað hvort hraungígur eða gasuppstreymisgígur. Hann virtist ósnertur með öllu og ekki var að sjá að þarna hafi verið gengið um áður. Dýpið í holunni er a.m.k. 6-7 metrar, en ljós, sem notað var til að lýsa niður í það, náði ekki botninum. Veggirnir voru sléttir að sjá. Nánari skoðun mun verða verkefni fyrir Hellarannsóknarfélagið. Mun sérstök ferð verða farin þangað á allra næstu dögum.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Norðaustar með hlíðum Kristjánsdala, í átt að Krisjánsdalahorni, í dalverpi, sem þar er, var gengið fram á gamla tótt. Þarna eru leifar húss, sem refa- og rjúpnaskyttur höfðust við í á sínum tíma. Þarna skammt frá eru nokkur greini, sem gaman er að sjá. Norðar er gamalt hlaðið skotbyrgi refaskyttu, en um mosana liggja víða slóðir refsins og sjást margar þeirra ennþá. Svo var að sjá að grenin í Kristjánsdölum væru flest yfirgefin, en í bakaleiðinni sást grár skolli skjótast yfir Bláfjallaveginn – með hertan fiskhaus í kjaftinum. Hann virðist því hafa farið um langan veg eftir æti, eða alla leið niður í trönurnar niður við Krýsuvíkurveg.
Gangan tók 4 klst og 2 mín. Frábært veður.

Mygludalir

Mygludalir.

Kristjánsdalir

Ekið var að Kristjánsdalahorni og þaðan gengið til suðurs inn með hlíðinni, inn Kristjánsdalina.

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala.

Þegar komið var í dalverpi fyrir miðjum dölum blöstu við tvær tóttir. Sú nyrðri er hlaðið hús, greinilega gamal. Hin syðri eru tveir veggjastubbar og hleðsla bakvið. Á milli þeirra hefur sennilega staðið timburhús. Skv. upplýsingum Ólafs Guðmundssonar og Sigurðar Arnórssonar voru þessi hús notuð ar- og rjúpnaskyttum er lágu þarna úti við veiðar. Hlaðið byrgi refaskyttu er norðar í hrauninu, en þarna eru augsjáanlega nokkur greni í hrauninu. Nyrðri tóttin gæti einnig verið frá tímum brennisteinsnámsins því þarna eru ágætir bithagar. Vatnsstæði er norðvestar, en frá því liggur stígur á ská niður að Selvogsgötu.

Grindaskarðavegur

Selvogsgatan um Grindarskörð.

Á miðri þeirri leið er gatan klöppuð í bergið, greinilega fjölfarin eða farin um langan tíma. Líklega er þarna um hluta af svonefndum Grindarkarðsvegi að ræða, en hann lá norðar en Kerlingarkarðsvegurinn, sem nú er svo til eingöngu farinn.
Kerlingaskarðið er við Grindarskarðshnúka, en Grindarskarðsvegur nokkru norðar. Grindarkarðsvegur virðist liggja þarna á ská niður hlíðina og því gæti staðsetningin á þessum götustubb vel passað við lýsingu á þeim gamla vegi. Hann er varðaður á þessum kafla með tveimur vörðum, sem virðast standa einar sér. Á milli þeirra er þó þessi sýnilegi vegur, sem fyrr segir. Efst á brúninni er varða.
Við Kerlingarskarðsveg er hlaðið skýli brennisteinsnámumanna, sem skiptu þar á hestum. Annars vegar var lest, sem kom neðan úr Brennisteinsfjöllum með brennistein, og hins vegar var lest, sem kom frá Hafnarfirði og sótti brennisteininn upp í þessa skiptistöð. Meira síðar.
Gengið var til baka um Kerlingarskarðsleið að upphafsstað.
Gangan tók 2 klst og 11 mín.
Fábært veður.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsötu.

Hjartartröð

Gengið var eftir Hjartartröðinni í Stórabollahrauni og skoðaðir hellastubbarnir á leiðinni. Úr vestasta niðurfallinu heldur rásin, víð og breið, áfram til vesturs undir nýrra hraun. Innan í henni er mikið hrun, en hægt er að komast áfram hægra megin í rásinni, fast við hellisvegginn. Þar fyrir innan er nokkurt hrun, en ef vilji er fyrir hendi er hægt að halda áfram yfir það og innar í rásina.

Þríhnúkar

Þrihnúkar – skjól.

Í Kristjánsdölum fannst hlaðið refabyrgi og greni þar nálægt. Gengið var á hraunrás undir Lönguhlíðum inn af Þjófadölum. Í henni er rás, nokkuð mjó, en mjög falleg. Hún var skoðuð lítillega. Þá var haldið á Þríhnúka og litið ofan í dýpsta helli á landinu, Þríhnúkahelli. Aðalgígur Þríhnúka er á milli hnúkanna, fallega sléttur hraundalur. Sunnan undir austasta hnúknum er hraunhóll, holur að innan og er hurð fyrir opinu. Inni var steinbekkur og borð. Yfir hólinn hafði verið lagður dúkur og hann hulinn. Einnig var hraunhóllinn klæddur plastdúk að innan. Svo virðist sem einhver, eða einhverjir, hafi notað stað þennan sem skjól um tíma. Norðan hólsins er mjög fallegur gervigígur.

Þríhnúkahellir

Sigið í Þríhnúkahelli.

Haldið var austur með sunnanverðu Þríhnúkahrauni, norðan Stórkonugjár, að mjög djúpu jarðfalli við enda mikillar hrauntraðar, milli hennar og Þríhnúkahellis. Ekki er hægt að komast þar niður nema á bandi. Þarna niðri gætu leynst göng til vesturs, í átt að hellinum. Við austurenda hrauntraðainnar er mikill gígur. Norður af honum liggur hrikaleg gjá. Við enda hennar, austanmegin, er hellisop; falleg hraunrás er liggur í beygju til vinstri og hallar niður með hlíðinni. Hún var skoðuð að hluta. Gólfið er grófur brúnleitur hraunfoss.
Á leið niður hlíðina vestan við Eyra var litið á Kristjánsdalahellana. Einn þeirra, sá austasti undir hraunbrún, er sá fallegasti af þeim. Hinir eru fremur lágir.
Dýrindisveður, logn og sól og útsýnið eftir því.

Hjartartröð

Hjartartröð.

Bollar

Selvogsgatan var gengin frá Bláfjallavegi áleiðis að Grindarskörðum við Kristjánsdali.

Ekkitilvatn

Ekkitilvatn.

Gamla þjóðleiðin var fetuð upp skörðin, upp á brún og síðan haldið áfram til vesturs ofan hennar. Komið var inn í tiltölulega sléttan dal, opinn til suðurs. Haldið var upp úr honum að norðanverðu. Þegar komið var upp yfir brúnina að austanverðu blasti við fallegt lítið ónafngreint vatn. Á vatninu var gullkista.
Sú saga fylgdi kistunni að hún sæist á vatninu einungis einn dag á ári. Reyndar væri vatnið ekki til, stundum nefnt Ekkitilvatn, en hér verður það nefnt Gullkistuvatn.

Ekkitilvatn

Við Ekkitilvatn.

Sagan segir að í fyrndinni hafi bóndi nokkur, vel efnum búinn, staðið í búferlaflutningum að vetrarlagi. Á leiðinni suður með sjóð sinn hafi hann villst af leið í ófærð, orðið hræddur og ákveðið að sökkva kistlinum, sem sjóðinn geymdi, í vatnið í von um að enginn myndi verða hans var. Auðnaðist honum að komast til byggða myndi hann koma aftur síðar og sækja sjóðinn. Það gekk eftir, en er hann ætlaði að leita vatnsins nokkrum dögum síðar, fann hann það hvergi. Kom hann þá þeirri sögu á framfæri að ef einhver kæmi að vatni á þessum slóðum skyldi hinn sá sami varast að snerta það því vatnið væri eitrað.

Kóngsfell

Kóngsfell.

Nú voru góð ráð dýr. Þarna var gullkista úti á vatninu, en ekki mátti snerta vatnið. Á bakkanum lágu nokkrir bandspottar. Einhverjum datt í hug að binda þá saman í einn langan, ganga síðan með annan endann yfir á öndverðan bakka og reyna að slæða kistuna þannig yfir vatnið. Það gekk eftir. Þegar kistan var opnuð leyndist í henni bréf frá bóndanum forna, en hins vegar engin veraldleg verðmæti. Kistunni ásamt bréfinu góða var því komið fyrir aftur á sama stað á vatninu. Þess skal getið að er FERLIR kom þarna að nokkrum dögum seinna var ekkert vatn þar að sjá.

 

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli (Konungsfelli).

Gengið var niður af hlíðunum að sunnanverðu og strikið síðan tekið að Kóngsfelli, landamerkjum Gullbringu- og Árnessýslu. Sumir segja þau reyndar vera í Stóra-Kóngsfellið við Drottningu í Bláfjöllum og enn aðrir í Litla-Kóngsfell undir Stórkonugjá, sem er suðaustan við fyrstnefnda Kóngsfellið. Kóngsfellið er fallegur eldgígur, klofinn og auðveldur gegnumgöngu. Í miðju hans er laut, gott skjól fyrir öllum áttum. Segir sagan að nafngiftin sé komin til vegna þess að þarna hafi fjárkóngarnir hist í upphafi leita, ráðið ráðum sínum og skipt liði.
Þá var gengið til vesturs sunnan við Stórabolla og Miðbolla að Kerlingarskarði, niður það með stuttu stoppi við Drykkjarsteininn efst í því og götunni síðan fylgt uns komið var að upphafsstað við Bláfjallaveginn.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Bollar

Bollar.