Straumur

Nokkrir sumarbústaðir voru byggðir í Hraunum við Straumsvík nokkru fyrir miðja 20. öldina.
Meðal þeirra sem heilluðust af þessu sérstæða og að margra mati fallega landsvæði voru þrír félagar, straum-792bræðurnir Marinó og Kristinn Guðmundssynir sem voru báðir málarameistarar og Björn Jóhannesson doktor í jarðvegsfræði sem hafði mikinn áhuga á hegðun laxfiska. Þeir voru afar heillaðir af Lónakoti og tjörnunum sem þar eru en þar gátu þeir ekki fengið land á leigu eða til kaups. Gengu þeir þá eftir strandlengjunni frá Lónakoti og inn fyrir Straumsvík til Hafnarfjarðar og þaðan út á Álftanes í leit að ákjósanlegum stað til að reisa sumarkofa eins og þeir kölluðu það. Eftir að hafa grandskoðað strandlengjuna voru þeir sammála um að innsti hlutinn við norðaustanverða Straumsvík væri ákjósanlegasti staðurinn. Þar hafði staðið kotbýlið Litli-Lambhagi á tanga sem heitir Stróki og skammt frá honum voru Hólmarnir og Straumsvatnagarðar. Þar voru aflögð útihús og merkiklega vel hlaðið eldhús úr hraungrjóti frá því seint á 19. öld. Eftir nokkra eftirgrenslan  fengu þremenningarnir leyfi til að reisa lítið íveruhús innarlega á Stróka.
straum-793Bjarni Bjarnason skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni átti þetta land allt, en hann eignaðist jarðirnar Straum og Þorbjarnarstaði ásamt Litla- og Stóra-Lambhaga árið 1919. Rak hann um árabil ágætis bú í Straumi og nytjaði allar jarðirnar til heyskapar og beitar. Bjarni lét byggja Straumshúsið sem enn stendur árið 1927 úr steinsteypu eftir að gamli bærinn brann. Sá sem teiknaði húsið var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, en húsið ber svipmót burstabæjar, en Guðjón hafði áhuga á að skapa nýja íslenska byggingarhefð með skírskotun til fyrri tíma.
Þegar Bjarni ákvað að selja jarðir sínar við Straumsvík rétt eftir seinni heimsstyrjöldina keypti Björn landspilduna umhverfis sumarkofa þeirra félaga, með landamerkjum nokkru austan Stróka. Höfðu þeir stækkað húsið það mikið að hægt var með sanni að tala um sumarhús enda dvöldu þeir oft ásamt vinum og ættingjum á þessum slóðum sumarlangt og lengur ef aðstæður leyfðu. 

straum-794

Ástæðan fyrir staðarvalinu var sú að við Stróka fannst þeim ríkja fágæt náttúrufegurð. Spilaði þar inn í  hversu merkilegt náttúrufarið er við hina lygnu og friðsælu Straumsvík þar sem ferskt vatn rennur framundan hrauninu og veldur því að sjórinn er afar tær á þessum slóðum. Grashólmar og sker innst í Straumsvík skipta stöðugt um svipmót þar sem sjórinn á það til að hylja landið á flóði og svo birtist það aftur þegar fellur út og fjarar. Fallaskiptin og mismunandi sjávarstaða eftir því hvernig stendur á flóði og fjöru hafa veruleg áhrif á umhverfi Stróka og valda síbreytilegu náttúruspili. Þarna var líka fjölskrúðugt fuglalíf, stundum sáust selir á sundi eða þeir sóluðu sig á skerjum rétt hjá Stróka alveg óhræddir. Sólarlagið var líka töfrandi og myndaði Snæfellsjökul og Snæfellsfjallgarðurinn handan Faxaflóans einskonar ramma sem sólin settist á bak við. Litbrigði náttúrunnar breyttust árið um kring og stundum var hafið ólgandi og skolaði þara og fiski upp á hólmana en á öðrum tímum var þetta kyrrðarinnar staður þar sem tíminn stóð nánast í stað. Refur átti það til að sjást á vappi í fjörunni og minkar gerðu sér greni framarlega á tanganum þar sem fiskur lónaði stutt frá landi.

straum-795

Landspildan var tekin eignarnámi þegar undirbúningur að álverinu hófst um miðjan sjöunda áratuginn en þá höfðu Björn og félagar stundað tilraunir með laxeldi í Straumsvík um nokkurt skeið. Þessar tilraunir grundvölluðust á einstæðum vatnabúskap svæðisins. Stuttu eftir að félagarnir byggðu sumarhúsið fóru þeir að mæla og efnagreina ferskt grunnvatnið sem fellur út í Straumsvík undan hrauninu við botn víkurinnar. Reiknuðu þeir út að talsverður hluti Kaldár, sem hverfur ofan í hraunið rúmlega kílómetra neðan upptaka sinna, félli til sjávar rétt vestan við Stróka. Allavega töldu þeir sig geta greint það á fjöru að allstraumhörð ferskvatnskvísl félli í þröngum stokki meðfram nyrsta hluta tangans. Þeir mældu hitastig grunnvatnsins sem streymdi undan hrauninu margsinnis og reyndist það vera nákvæmlega 4 gráður á Celsíus árið um kring. Stóðu mælingarnar árum saman og alltaf voru niðurstöðurnar þær sömu. Björn var sannfærður um að vatnið hefði hagstæða efnaeiginleika fyrir laxaklak og sökkti hann vírkörfum í lón við hraunjaðarinn til að sannreyna þetta. 

straum-796

Niðurstaðan var sú að laxaklakið skilað góðum árangri en ekki var alveg ljóst hvernig nýta mætti aðstöðuna við Straumsvík til laxaframleiðslu.
Þeir prófuðu sig áfram og fljótlega gerðu þeir tilraunapoll í litlu lóni sunnanvert við Stróka nálægt Keflavíkurveginum sem hlaut nafnið Pollurinn. Hann var dýpkaður með jarðýtu en þannig háttaði til að lónið tæmdist ekki þó að fjaraði út vegna þess hversu mikill vatnsstraumurinn var undan hraunjaðrinum. Steyptu þeir félagar einskonar hlið eða dyraumbúnað við mynni Pollsins þar sem hægt var að koma fyrir gildru. Laxar gátu þar með gengið í Pollinn en áttu þaðan ekki undankomu nema þeim væri hreinlega sleppt lausum í sjóinn. Pollurinn var hreinn og moldarlaus til að byrja með, en þegar vegur var lagður að álverinu rétt við hliðina á Pollinum barst talsvert magn af fokefnum í hann. Þar með varð botninn þakinn þykku leðjulagi sem hefði þurft að moka í burtu eða reyna að skola út með útfallinu. Þetta var hinsvegar ekki gert þannig að aðstæður í Pollinum breyttust með tíð og tíma.
Félagarnir eyddu mikilli vinnu, tíma og fjármunum í að flytja bleiklax frá Alaska til Íslands 1965 til 1966. Árangurinn varð neikvæður að öðru leyti en því að flutningur á 120.000 aughrognum frá Kódakeyju til Íslands tókst vel. Samvinna við Veiðimálastofnun tókst ekki um framkvæmd þessarar tilraunar, en vorið 1966 sýndu þeir fram á að laxaseiði silfrast við 4 gráðu hita á 6 vikum. Þegar Marinó og Kristinn féllu frá hélt Björn áfram að nýta aðstöðuna á Stróka og stunda þarna tilraunir sínar.
straum-797Sumarið 1980 var sjógönguseiðum sleppt úr Pollinum eftir 56 daga dvöl í körfu og sneri ein 4,5 punda hrygna aftur í Pollinn sumarið eftir. Gerð var hafbeitartilraun í Pollinum 1981 til 1982 og kom í ljós að eftir 84 daga svelti sjógönguseiða í körfu lifðu næstum því öll sumarið 1982. Sumarið áður var sjógönguseiðum haldið í körfu í Pollinum með sáralítilli fóðrun í 56 daga áður en þeim var sleppt til sjávar. Aðeins eitt af þessum seiðum rataði aftur heim í Pollinn árið eftir. Þá var búið að koma fyrir nokkrum laxaseiðum í körfu í Pollinum, en norðmaðurinn Nordeng varpaði þeirri tilgátu fram að lax gangi ekki í vatn nema þar séu fyrir laxaseiði eða lax. Taldi Björn að hrygnan sem skilaði sér í Pollinn um sumarið hefði sennilega ekki gert það ef þar hefðu ekki verið fyrir laxaseiði.
Laxeldisfyrirtækið Pólarlax var um árabil með aðstöðu Hafnarfjaðrarmegin við álverið og notaði meðal annars hvalalaug Sædýrasafnsins í eldisstarfinu. Sumarið 1981, sem var sama sumar og hrygnan skilaði sér í Pollinn, sleppti Pólarlax þó nokkrum stórum laxaseiðum úr kví sem var í Straumsvík. Sumarið eftir komu miklar laxagöngur inn í Straumsvík og stökk laxinn í víkinni svo að ekki fór á milli mála að þarna var eitthvað um að vera. Kom það fyrir þegar mest gekk á að hálfgert umferðaröngþveiti skapaðist á Reykjanesbrautinni því vegfarendur snarhemluðu og hlupu út úr bílum sínum til að fylgjast með þessari óvenjulegu sjón. Laxinn var að koma heim eftir vetrardvöl í hafinu og þetta sjónarspil var alveg einstakt.
straum-798Vonir manna um að laxinn gengi upp í ferskvatnslónin í Straumsvík gengu ekki eftir þar til Björn lagði til að komið yrði fyrir körfu með laxaseiðum í Pollinum. Þetta virkaði eins og segull og 5. ágúst 1982 höfðu 170 laxar gengið í Pollinn. Endurheimtur sjógönguseiðanna sem sleppt var 1981 og komu sem sjógengnir laxar sumarið eftir voru um 20% til 30% en stórar torfur gengu í ystu lónin í lok veiðitímans án þess að hægt væri að handsama þær. Heimtur reyndust ekki eins vel og reiknað var með en menn voru sannfærðir um að þær gætu gengið betur þar sem laxinn skilaði sér aftur á heimaslóðir þó hann gengi ekki allur inn Pollinn. Niðurstaðan var því sú að heimtur gætu vaxið með árunum ef réttum aðferðum væri beitt. Prófað var að sleppa seiðum næstu árin úr kvíunum utan við hvalalaugina en heimtur voru ekkert sérstakar.

straum-799

Næsta skipti sem sjógönguseiðum var slepp úr kvíum í Straumsvík var sumarið 1985. Sami háttur var hafður og fyrr. Seiðum komið fyrir í körfu í Pollinum sumarið 1986 sem hafði þau áhrif að laxar gengu í Pollinn og tilraunin sannaði sig í raun og veru. Eftir þetta gerðist ýmislegt sem varð til þess að fiskeldisfyrirtækið Pólarlax var tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 1989 og lauk skiptunum 20. desember 1991 án þess að nokkuð hefði fengist greitt af lýstum kröfum. Þar með var botninn farinn úr þessum merku tilraunum með laxfiska í Straumsvík. Sumarhúsið á innanverðum Stróka grotnaði smám saman niður þar til það var ekki talið forsvaranlegt að láta það standa og var það rifið og efniviðurinn fjarlægður. Nú er ekkert annað eftir en steinsteyptar gólfplötur og gamla eldhúsið sem hlaðið var fyrir rúmlega einni öld. Þetta hús er nákvæmlega eins í lögun og að allri gerð og samsvarandi hús við Óttarstaði eystir og vestri, bara örlítið minna umfangs. Löngu var búið að breyta steinhlaðna húsinu í svefnhýsi með tilheyrandi veggklæðningum úr viði og innanstokksmunum. Húsið stendur nú opið fyrir veðrum, vindum og spellvirkjum og bíður þess sem koma skal, en það væri gustukaverk að halda því við og sjá til þess að síðasta heillega steinhlaðna húsið í Hraunum fengi að standa áfram um ókomna tíð.


Heimildir:
-Laxaseiði ganga til sjávar úr fjögurra stiga jafnheitu vatni eftir að hafa klæðst sjógöngubúningi. Veiðimaðurinn, 1966.
-Tilraunir með flutning á bleiklaxi frá Alaska til Íslands. Árbók áhugamanna um fiskirækt, 1968.
-Lax leitar á bernskustöðvarnar þótt kaldar séu. Veiðimaðurinn, 1982.
-Um laxalykt. Veiðimaðurinn, 1986.
-Straumsvík og leyndardómar laxins. Ægir, 1988.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.