Færslur

Gálgaklettar

Í ritinu “Keflavíkurgangan“, 1. tbl. 19.06.1960, er “Samtíningur um Suðurnes” eftir Björn Þorsteinsson:

Landið
“Helztu jarðfræðileg atriði á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur. — Að mestu samkvæmt frásögn Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings.

Grímshóll

Á Grímshól.

Eitt helzta kennileiti á leiðinni er Vogastapi; hann er úr grágrýti, svipuðu Hafnarfjarðar- og Reykjavíkurgrágrýtinu. Á hæstu bungu hans, Grímshól, stefna jökulrispur til norðurs, en yzt á kjálkanum til vesturs, og eru þær eldri. Þær jökulrákir sýna, að á ísöld hefur Faxaflói verið hulinn jökli, en í lok hennar hefur flóinn myndazt og jöklar ekizt út af Suðurkjálkanum til norðurs og suðurs. Upp af Njarðvíkum sjást skýr fjörumörk á stapanum í um 20 metra hæð yfir núverandi sjávarmál. Á Hvaleyrarholti við Hafnarfjörð eru slík fjörumörk í 33 m hæð, en 45 m hæð við Reykjavík. Þetta sýnir, að landið hefur risið úr sjó því meir sem innar dregur, en jökulfargið hefur auðvitað hvílt þyngra á miðbiki þess en útnesjum.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígurinn.

Inn af stapa taka við Vatnsleysustrandarhraun. Þau eru einna forlegust hrauna á Suðurkjálka, sennilega um 8000 til 9000 ára; helztu aldursmerki eru m. a. fjörumörk hjá Kúagerði í um 10 m hæð. Það er eini staðurinn á Íslandi, þar sem þess sjást merki, að sjór hafi staðið hærra en nú á hrauni, sem runnið er eftir ísöld. Hrafnagjá og Aragjá, stóra og litla, vitna einnig um aldur hraunsins, því að þær hverfa undir önnur hraun yngri. Vatnsleysustrandarhraun eru runnin frá mikilli dyngju nafnlausri suður af Keili. Hún er mjög flöt, svo að ófróðum mönnum sést yfir, að hér er um eldfjall að ræða.

Kúagerði 1912

Í Kúagerði 1912.

Um Suðurkjálka liðast engar ár, þar falla ekki einu sinni lækir; regn hripar í gegnum hraunin, og jarðvatn fellur eftir neðanjarðaræðum til sjávar. Við Straum eru miklar uppsprettur í fjörunni, en Vatnsleysuströndin ber nafn með rentu, því að þar er víða ekkert ferskt vatn að fá nema regnvatn af þökum. Við Kúagerði er dálítil tjörn; þar er forn áningarstaður, en betra þótti ferðamönnum að hafa eitthvað meðferðis til þess að blanda drykkjarvatnið.
Norður af Höskuldarvöllum við Trölladyngju er snotur eldborg, en úr henni hefur Afstapahraun runnið. Höskuldarvellir eru eitt mesta graslendi Suðurkjálka, og var vegur lagður þangað fyrir nokkrum árum og tekið að rækta vellina; því miður var þá gígnum spillt með malarnámi.

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Afstapahraun mun runnið nokkru fyrir landnámsöld, og hefur þá sennilega nefnzt Hvassahraun, samnefnt bæ sem stendur austan við hraunið. Vafasamt er, hvernig heitið Afstapahraun er til orðið. Handan Afstapahrauns taka við fornleg hraun að nýju, þó hvergi nærri jafngömul og Vatnsleysustrandarhraunin. Þau munu runnin frá ýmsum eldstöðvum undir Sveifluhálsi, m. a. við Mávahlíðar.
Við Straum er einna náttúrufegurst á leiðinni sunnan af strönd. Þa r eru miklar uppsprettur í fjöru, eins og áður segir.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

Kapelluhraun nefnist hraunflákinn norðan vegar austur af Straumi, en heildarnafn á hrauni þessu er Bruninn. Það nefnist Nýjahraun í Kjalnesingasögu og máldögum fornum og mun runnið á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Það er komið upp í um 7 km langri gossprungu við Undirhlíðar norðaustur frá Vatnsskarði. Kapelluhraun dregur nafn af kapellu, dálitlu byrgi við gamla veginn í hrauninu. Við rannsókn fyrir fáum árum fannst þar lítið líkneski heilagrar Barböru. Á þeim stað hefur voveiflegur atburður gerzt fyrir siðaskipti, en engar öruggar sögur greina þar frá tíðindum. — Hraunið hefur steypzt fram af sjávarhömrum, en ægir lítt unnið á því til þessa, af því hve það er ungt.
Milli Hvaleyrarholts og Brunans er Hvaleyrarhraun, fremur flatt helluhraun og mjög ellilegt. Til marks um aldur þess eru bergstallar, sem sjór hefur klappað í hraunið í flæðarmáli, þar sem heitir Gjögrin. Þar eru miklar lindir, sprettur fram vatn 4.3° heitt sumar og vetur. Trúlegt er, að þar komi fram vatnið úr Kaldá, sem hverfur í hraunið upp af Hafnarfirði, eins og kunnugt er.

Hvaleyri

Hvaleyri t.v., Holtið í miðið og Hraunhóll lengst t.h.

Austast í Hvaleyrarhrauni við vegamót Krísuvíkurvegar er gryfja, sem nefnist Rauðhóll. Þarna var áður lítið snoturt eldfjall, eflaust eitt hið minnsta hér á landi, og er víst réttar að tala um gíghól. Hann hefur nú verið numinn burt til vegagerðar, en gígtappinn stendur þó eftir. í miðju eldvarpinu, hefur reynzt mokstrarvélum of harður undir tönn. Rauðhóll er eða raunar var eldri en Hvaleyrarhraun, því að það lá utan á honum á alla vegu og ofan á rauðamölinni, en þunnt moldarlag og brunnir lyngstönglar finnast á mótum malar og hrauns. Undirlag rauðamalarinnar er barnamold, sem myndazt hefur í ósöltu vatni. Þarna hefur því verið tjörn endur fyrir löngu, en undir barnamoldinni er ægisandur með skeljabrotum, svo að hingað hefur ægir einhverntíma teygt arma sína.
Þá hefst Hvaleyrarholt með fjörumörkum í 33 m hæð. Er þar komið í Hafnarfjarðarblágrýtið, en það nær austur yfir Hamarinn að Hamarskotslæk, sem fellur með suðurjaðri Hafnarfjarðarhrauns. Það er runnið úr Búrfellisgíginn af Helgadal og greinist að nöfnum í Vífilsstaðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Ef til vill var Álftanes eyja, áður en Hafnarfjarðarhraun rann og fyllti sundið milli lands og eyjar. Hraunsholtslækur, sem fellur úr Vífilsstaðavatni fylgir norðurbrún hraunsins.

Sagan

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Um aldaraðir hafa Íslendingar lagt leið sína suður með sjó, þrammað þar eftir götutroðningum oft með drápsklyfjar í illri færð um miðjan vetur á leið í verið og haldið til baka með mikinn eða lítinn afla að vori. Á síðustu öld var ein ferð suður á nes öðrum frægari. Haustið 1870 fór Oddur Vigfús Gíslason prestaskólakandidat gangandi úr Reykjavík suður í Njarðvíkur eins og margir aðrir og kom þar að Þórukoti til Björns vinar síns síðla dags. Oddur var 34 ára og hafði lagt gjörva hönd á margt, meðal annars unnið við lýsisbræðslu suður í Höfnum. Þar hafði hann kynnzt Önnu Vilhjálmsdóttur, 19 ára heimasætu í Kirkjuvogi, og felldu þau hugi saman. Svo kom, að Oddur bað meyjarinnar, en Vilhjálmur Hákonarson, faðir hennar, synjaði honum ráðahagsins, taldi Odd lítinn reglumann, efnalausan og eigi Iíklegan til auðsælda. Vilhjálmur var héraðshöfðingi suður þar, þótti ráðríkur og bar ægishjálm yfir sveitunga sína.
Erindi Odds kvöldið góða var að fá Björn í Þórukoti til þess að aðstoða sig við að nema Önnu í Kirkjuvogi að heiman næstu nótt. Björn léði honum tvo röska menn til fararinnar. Þeim tókst að ná önnu og komast með hana inn í Njarðvíkur undir morgun. Þegar þangað kom, hafði Björn hrundið fram sexæringi albúnum til siglingar. Þau Oddur stigu strax á skip, en í sömu svifum bar þar að eftirreiðarmenn Vilhjálms bónda, en þeir fengu ekkert að gert. Oddur sigldi með heitmey sína til Reykjavíkur og voru þau þar gefin saman af dómkirkjuprestinum á gamlársdag 1870.

Erlendar bækistöðvar, ofríki og orustur

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Klaustrið ofar á Ófriðarhæð.

Fæstar ferðir manna suður með sjó hafa verið jafnrómantískar og séra Odds. Þótt Suðurkjálkinn sé ekki ýkjafrjósamur, þá hefur hann um langan aldur haft töluvert seiðmagn sökum auðsældar. Þar og í Vestmannaeyjum hafa erlend ríki og erlendir menn verið ásælnastir og ágengastir á Íslandi, og eru af því langar frásögur. Á 15. öld settust Englendingar að i hverri krummavík á Suðurnesjum og sátu þar sums staðar innan víggirðinga eins og til dæmis í Grindavík. Eftir nærfellt 150 ára setu tókst að lokum að flæma þá burt, en það kostaði blóðfórnir. Hæðin, sem klaustrið í Hafnarfirði stendur á, hét að fornu Ófriðarhæð. Eigi er vitað, hve sú nafngiftar mötur koma til Njarðvíkur eftir skipan umboðsmannsins á Bessastöðum fluttar með bændanna kostnað bæ frá bæinn að Bessastöðum, en flytjast frá Ytri Njarðvík á hestum til Stafness yfir heiðina. — En nú að auki — setti umboðsmaður bát hingað — í fyrstu með bón og síðan með skyldu, tveggja manna far, sem ganga skyldi um vertíð, en ábúandinn að vertíðarlokum meðtaka skipsábata, verka hann og vakta til kauptíðar, ábyrgjast að öllu og flytja í kaupstað. Item hefur ábúandinn til þessa báts svo oft sem nauðsyn hefur krafið, orðið að leggja árar, keipla, drög, dagshálsa og austurtrog, og fyrir allt þetta enga betaling þegið”. — Við Innri-Njarðvík segir m. a.: „Kvaðir eru mannslán um vertíð suður á Stafnes. — Hér að auk að gegna gisting þeirra á Bessastöðum, umboðsmannsins, sýslumannsins og þeirra fylgdarmanna, hvenær sem þá að ber, vetur eða sumar, vor eða haust, og hvað fjölmennir sem eru, hafa þeir í næstu 16 ár með sjálfskyldu þegið mat, drykk og hús fyrir menn, hey, vatn og gras fyrir hesta svo langa stund og skamma, sem sjálfir þeir vilja”, auk margra annarra kvaða. Þannig voru álögurnar á hverri jörð nema kirkjustaðnum.

Kaupþrælkun

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Á dögum illræmdrar kaupþrælkunar voru Suðurnesjamenn oft hart leiknir af hálfu kaupmanna. Alkunn er sagan um Hólmfast Guðmundsson, hjáleigumann á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, en bærinn stendur milli Kálfatjarnar og Voga. Hann drýgði það ódæði að selja 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd í Keflavík árið 1698, en samkvæmt kaupsvæðaskiptingu átti hann að verzla í Hafnarfirði, en kaupmaður hans þar vildi ekki nýta þessa vöru. Fyrir þennan glæp var Hólmfastur húðstrýktur miskunnarlaust, bundinn við staur á Kálfatjarnarþingi í viðurvist Múllers amtmanns, af því að hann átti ekki annað til þess að greiða með sektina en gamalt bátskrifli, sem kaupmaður vildi ekki líta við. Hinn dyggðum prýddi Hafnarfjarðarkaupmaður, sem stóð fyrir málshöfðun og refsingu hét Knud Storm. Nokkru siðar lét hann menn á sama þingstað veita sér siðferðisvottorð, þar sem segir m. a., “að Knud Storm hafi umgengizt frómlega og friðsamlega við sérhvern mann og sína kauphöndlun haldið og gjört í allan máta eftir Kgl. Mts. taksta og forordningum og sérhvers manns nauðsynjum jafnan góðviljuglega gegnt og tilbærilega hjálpað og fullnægt með góðri kaupmannsvöru í allan máta, svo sem sérhver óskað hefur og sérhverjum af oss er vitanlegt. Hvers vegna vér sklduglega viljum gjarna óska, að fyrr vel nefndur kaupmaður mætti vel og lengi með lukku og blessun sömu höndlan fram halda og hljóta (bæði hér á landi og annars staðar) guðs náð og gleðileg velfelli til lífs og sálar æ jafnan fyrir Jesum Kristum”.

Návígi

Jón Thorkellis

Jón Thorchilius – minnismerki.

Ekkert hérað á Islandi hefur jafnrækilega fengið að kenna á alls konar erlendri áþján og siðspillingu að fornu og nýju og Suðurnesin. En allir dagar eiga kvöld. Suðurnesjamenn hafa skapað þessari þjóð mikinn auð með afla sínum og alið henni marga ágætismenn á ýmsum sviðum. Sveinbjörn Egilsson rektor var frá Innri-Njarðvíkum, Jón Thorchillius rektor frá sama stað, svo að tveir afburðamenn séu nefndir. Hér hafa Íslendingar löngum staðið í návígi við ofureflið, en ávallt unnið sigur að lokum, þess vegna er íslenzk þjóð til í dag. Það eru til margs konar orustuvellir á Íslandi, en utan Suðurnesja eru þeir eingöngu tengdir minningum um bræðravíg, hryggilega sundrungu Islendinga sjálfra, sem leiddi til þess að þeir fóru flokkum um landið og drápu hverir aðra. Hér réðust þeir gegn erlendum óvinum og báru ávallt að lokum sigur úr býtum.

„Gullkista”

Vogastapi

Kvíguvogabjarg.

Suðurkjálkinn eða Reykjanesskaginn eins og sumir kalla hann skagar eins og tröllaukinn öldubrjótur út á einhver beztu fiskimið veraldar. Hann er þakinn eldhraunum, flestum runnum nokkru fyrir landnámsöld, hrjóstrugur og grettur, en þó einhver mesta landkostasveit á Islandi. Um Suðurkjálkann liðast engar ár, og þar er jarðvegur svo grunnur, að engjalönd eru nær engin og túnrækt hefur verið miklum erfiðleikum bundin til þessa; hér þarf jafnvel að flytja mold að til þess að hægt sé að hylja kistur í kirkjugörðum. Engu að síður eru kjarngóð beitilönd á Suðurkjálkanum og bújarðir góðar. Þar hefur búpeningur gengið sjálfala á vetrum allt frá dögum Ingólfs Arnarsonar, þangað til Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum sællar minningar. En skorti hér túnstæði og akurlönd, þá hafa löngum verið hér gullkistur í hafinu við túnfótinn. Eitt frægasta kennileiti á leiðinni suður á nes er Vogastapi, sem nefnist Kvíguvágabjörg í Landnámu, en Gullkista í sóknarlýsingu frá 19. öld “af því mikla fiskiríi, er tíðkað var á færi á hrauninu þar rétt upp undir í útilegum á nóttum”. Skúli Magnússon landfógeti segir í Lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu: ,,Nú á tímum eru beztu fiskimið í Gullbringusýslu á vetrarvertíð á svæðinu frá Keflavík um Njarðvík, Stapa og inn eftir ströndinni til Brunnastaða. En bezt eru þau talin undir stapa, þar sem þorskurinn gýtur jafnvel á þriggja faðma dýpi; tekur hann þar beztu beitu að næturlagi, þegar dimmt er. Þarna hafa fiskiveiðar tekið miklum framförum síðan 1756, vegna þess að þorskanet hafa verið tekin
í notkun”.
Löngum hefur margs konar hjátrú verið tengd stapanum, hann verið talinn bústaður álfa, og þar hefur þótt reimt; einhverra þeirra sagna verður siðar getið.
Undir Vogastapa eru Njarðvíkur, einn af þeim fáu stöðum á landi hér, sem kenndur er við auðsæla siglingaguðinn Njörð. Sennilega hefur þeim, sem nafnið gaf, þótt guð auðsældarinnar eiga hér nokkurn samastað. En tímarnir breytast og mennirnir með. Botnvörpungar eyðilögðu miðin á flóanum og menn tóku til við vígvallargerð á Miðnesheiði og mál er að linni.

Stapadraugur og steinar

Stapadraugurinn

Stapadraugurinn.

Löngum hefur verið talið reimt mjög á Vogastapa, en afturgöngur þar eru taldar drauga kurteisastar, taka jafnvel ofan höfuðin fyrir tækni nútimans. Á fyrri helmingi 19. aldar bjó Jón Daníelsson hinn ríki á Stóru-Vogum. Þá voru þar miklir reimleikar. Þeir voru þannig til komnir, að bóndinn, sem bjó á Vogum á undan Jóni, úthýsti manni, köldum og svöngum í misjöfnu veðri, en sá var á leið út í Njarðvíkur.
Þessi maður varð úti á Vogastapa nærri Grímshól. Líkið var borið heim að Vogum, og varð bónda svo bilt, er hann leit það, að hann hneig niður. Sumir segja, að hann hafi rankað við aftur, en aldrei orðið jafngóður og andazt skömmu síðar, en aðrir, að hann hafi orðið bráðkvaddur. Sá er úti varð gekk aftur og gerði mönnum skráveifur, en að lokum flæmdi Jón Daníelsson draugsa að búð einni í Vogum, sem hét Tuðra.
„Þar kom hann honum fyrir og bað hann sökkva þar niður til hins neðsta og versta helvítis, þaðan sem hann væri kominn, og gera aldrei framar mein af sér í Vogum”. Eftir það hurfu reimleikarnir, og telja menn draugsa hafa hlýtt fyrirmælunum.
Voga-Jón var talinn framsýnn og margfróður. Eitt sinn á gamalsaldri kom til hans maður, sem jafnan var óheppinn með afla, og bað hann kenna sér ráð gegn óheppninni. Jón sagði honum að fara með austurtrog út í Mölvík undir Vogastapa, en hún er niður undan Grímshól, og koma með það fullt af malarsteinum, og færa sér. Sá óheppni gerði svo. Jón leitaði í austurtroginu, brá steinunum í munn sér og þefaði af þeim. Loks fann hann einn stein, sem honum líkaði, og fékk manninum, og sagði að hann skyldi jafnan hafa hann með sér er hann réri til fiskjar. Eftir þetta brá svo við, í hvert skipti, sem maðurinn reri, að hann dró stanslausan fisk með háseta sínum, en hann var jafnan við annan mann. Þegar svo hafði gengið um hríð, sagði karl hásetanum, hvað Jón Daníelsson hefði gefið sér og sýndi honum steininn. Eftir það brá svo við, að hann fékk aldrei bein úr sjó, og kenndi hann það mælgi sinni.

Hafnarfjörður

Hvaleyri

Minnismerki um Hrafna-Flóka á Hvaleyri.

Til Hafnarfjarðar bar Herjólf og Hrafnaflóka fyrsta manna endur fyrir löngu og fundu þeir hvali á eyri einni, er við þá er kennd. Ekki er vitað hvort Flóki hefur skírt fjörðinn, en þar hefur löngum þótt góð höfn. Hafnarfjörður er í senn eitt elzta og yngsta kauptún landsins. Þar var höfuðbækistöð Englendinga hér á 15. öld og helzti verzlunarstaður landsins. Um 1470 tóku Þjóðverjar eða Hansamenn, eins og kaupmenn þeirra nefndust í þann tíð, að venja hingað komu sína og boluðu Englendingum smám saman burt úr Hafnarfirði. Talið er, að úrslitaorustan hafi staðið um 1518. Eftir það réðu Þjóðverjar einkum frá Hamborg mestu í Hafnarfirði um skeið, og þar mun siðabót Lúthers fyrst hafa fest rætur hér á landi. Árið 1537 stendur þar vönduð kirkja, sem Þjóðverjar höfðu reist. Um þær mundir og lengi síðan var Reykjavik bóndabýli, venjulega nefnd Vík á Seltjarnarnesi.
Bjarni SívertsenFram til loka 18. aldar var utanríkisverzlun Íslendinga og aðflutningur til landsins nær eingöngu í höndum útlendinga, sem sátu hér í helztu verzlunarhöfnunum. Íslenzk borgarastétt á upphaf sitt í Hafnarfirði eins og svo margt annað.

Fyrsti íslenzki kaupmaðurinn, Bjarni Sivertsen, hóf verzlun í Firðinum 1793. Hann stundaði einnig útgerð og skipasmíðar, og hljóp fyrsta skipið af stokkunum í skipasmíðastöð hans árið 1803. Atvinnusaga Íslendinga var um skeið mjög tengd Hafnarfirði. Allt um það er borgin ung, því að kaupstaðarréttindi fær hún fyrst árið 1907.
Flensborgarskólinn er elzti gagnfræðaskóli landsins, stofnaður 1877, kenndur við verzlunarhús kaupmanna frá Flensborg. Þau stóðu út með firði að sunnan, og var skólinn þar fyrst til húsa. — Í Hafnarfirði var sett fyrsta rafmagnsstöðin hér á landi, 1904.

Milli Hafnarfjarðar og Kópavogs

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Þegar kemur út úr Hafnarfjarðarhrauni við Engidal, hefst Garðahreppur og hverfið Silfurtún. Uppi á ásnum við Vífilsstaðaveg standa Hofstaðir. Þar hefur verið hof í heiðni; Ingólfur Arnarson og niðjar hans hafa gengið þar að blótum. Þarna er sennilega elzti helgistaður i nágrenni höfuðborgarinnar. Þaðan blasir Helgafell vel við, en menn trúðu því sennilega hér um slóðir, að þeir settust þar að eftir dauðann.
Vífilsstaðir eru kenndir við leysingja Ingólfs, en sá fann að lokum öndvegissúlur húsbónda síns reknar fyrir neðan heiði.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Þjóðsögur herma, að hann hafi brugðið sér á morgnana upp á Vífilsfell til þess að skyggnast til veðurs, en litist honum það bærilegt, tók hann annað Maraþonhlaup út á Gróttu til róðra. — Vífilsstaðahælið tók til starfa 1910.
Hraunið gegnt Bessastöðum austan Lambhúsatjarnar nefnist Gálgahraun, en Gálgaklettar eru allháir nær hraunbrúninni. Þeir blasa vel við úr stofugluggum á Bessastöðum, og er sagt, að þessi aftökustaður hafi verið ákveðinn, til þess að höfðingjar staðarins þyrftu ekki að ómaka sig að heiman, en gætu fylgzt með athöfnum við Gálgakletta úr híbýlum sínum. Í nágrenni klettanna hefur fundizt mikið af mannabeinum.

Dysjar sakamanna

Arnarnes

Gamla þjóðleiðin frá Kópavogi yfir Arnarnesháls. Litla-Arnarnes t.v. og Kópavogsþingstaður þar fyrir ofan.

Arnarneslækur fellur í Arnarnesvog, en býlið Arnarnes stóð við vogsbotn. Uppi á nesinu stendur steinstólpi mælingamanna, en skammt frá er dálítil þúst; þar er huslaður Hinrik nokkur Kules, þýzkur maður, en hann drap mann nokkurn á Bessastöðum á jólanótt 1581, og var sjálfur tekinn af „á almennilegu þriggjahreppa þingi” í Kópavogi.
Arnarnes, Hofstaðir og Vífilsstaðir eru í Garðahreppi, en Kópavogur og Fífuhvammur í Kópavogskaupstað, og verða mörk kaupstaðar og hrepps á landamerkjum þessara jarða.

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

Nokkru utar við Hafnarfjarðarveg liggur „gamli vegurinn” yfir Arnarnesið, en kotið Litla-Arnarnes stóð við Kópavog, og sér þar móta fyrir tóftum. Austan gamla vegar ofan við Litla-Arnarnes er dys, sem nefnist Þorgarður. Þar á að liggja vinnumaður frá Bústöðum, er Þorgarður hét. Talið er að vingott hafi verið með honum og húsfreyju, nyti Þorgarður góðs atlætis heima í koti er húsbónda mæddi vosbúð við gegningar.
Þegar bóndi fannst drukknaður í Elliðaám, var Þorgarður tekinn og kærður fyrir morð. Ekkert sást á líkinu og Þorgarður þrætti. Hann var þó dæmdur til dauða af líkum, en leyfðist að leysa höfuð sitt með allhárri fjárhæð, af því að sönnunargögn skorti. Ekki átti Þorgarður fé, og í nauðum leitaði hann til bóndans á Seli á Seltjarnarnesi og hét að þjóna honum og niðjum hans af trú og dyggð meðan sér ynnist aldur og orka, ef hann leysti líf sitt. Bónda gekkst svo hugur við vandræðum Þorgarðar, að hann tók fram sjóði sína, en hann var ríkur, og fór að telja fram lausnargjaldið. Í því kom kona hans inn í stofuna og spurði, hvað hann vildi með allt þetta fé. Bóndi segir sem var. Gekk þá konan að borðinu, tók upp bæði svuntuhorn sín að neðan og sópar með annarri hendinni öllum peningunum þar ofan í og segir: „Líði hver fyrir sínar gjörðir.” Þorgarður segir: „Ekki mun hér skilið með okkur, því að ekki er það meira fyrir mig að sjá svo um, að kveðja mín fylgi ykkur hjónum og ætt ykkar í níunda lið.” — Hann var tekinn af, en gekk aftur og fylgdi Selsfólkinu og hlaut afturgangan af því nafnið Sels-Móri.

Kópavogseiðar

Kópavogur

Kópavogsþingstaður – skilti.

Þingstaður við Kópavog lá undir handarjaðri danska valdsins á Bessastöðum; þess vegna bauð Friðrik II. 1574 að flytja alþingi frá Þingvelli til Kópavogs, en Islendingar hlíttu aldrei þeim konungsboðskap. Hér voru hinir illræmdu Kópavogseiðar unnir, mánudaginn 28. júlí 1662. Þar setti Árni lögmaður Oddsson þing, en Hinrik Bjelke höfuðsmaður, sem þá var nýkominn til landsins á herskipi, lét vopnaða hermenn standa hringinn í kringum þingheim. Höfuðsmaður beiddist af þingheimi, að hann hyllti Friðrik konung III., og virðist það hafa gengið fram mótspyrnulítið. Þá lagði Bjelke fram eiðyaldsskuldbindinguna til staðfestingar, en þar „staðfestum og styrkjum vér (Íslendingar) honum (konungi) allir og einhver til samans með öðrum hans Majestatis trúum undirsátum með þessu voru opnu bréfi háverðugri hans Majst sem einum fullkomnum einvaldsstjóra og arfaherra hans arfsrétt til Íslands og þess undirliggjandi insuler og eyjar, sem og allan Majestatis rétt og fullkomna stjórnun og allt konungsvald, sem hans konungl. Majst. og hans Majst. skilgetnum lífserfingjum og skilgetnu afkvæmi og eftirkomendum svo lengi sem nokkur af þeim er til í karllegg eða kvenlegg, er í fyrrnefndum act og gjörningi bæði af Danmerkur og Norvegsríkis stéttum er gefið og eftir látið.

Kópavogur

Minningarsteinn um erfðahyllinguna á Kópavogsþingstað.

Hér með afleggjum vér fyrir oss og vora erfingja og eftirkomendur allt það, sem í fyrri vorum fríheitum, landslögum, Recess og Ordinanzíu kann finnast stríða í móti Majestatis rétti ellegar maklega má þýðast að vera í mót Majestatis réttri einvaldsstjórn og fullkomnum ríkisráðum.”

Brynjólfur biskup Sveinsson virðist fyrstur hafa orðið fyrir svörum af hálfu landsmanna, og tjáði hann Bjelke höfuðsmanni, að Íslendingar væru ófúsir að afsala sér öllum réttindum í hendur annarra. Bjelke svaraði biskupi einungis með því að spyrja, hvort hann sæi ekki hermennina. Eftir það fara ekki sögur af neinum mótþróa biskups eða klerka hans gegn staðfestingu einveldisins. Árni Oddsson lögmaður stóð þá á sjötugu. Hann neitaði að skrifa undir og stóð svo allan daginn. Loks kom svo, að hann lét undan hótunum höfuðsmanns og skrifaði undir tárfellandi. — Var þá slegið upp ypparlegri veizlu, sem stóð langt fram á nótt. Þeir sýsluðu upp á hljóðfæri til veizlunnar, trometa, filur og bumbur og hleyptu skotum af feldstykkjum 3 í senn. — Þá gengu rachetter og fýrverk af um nóttina. —

Kópavogur

Kópavogur – minjar.

Neðst í túninu á Kópavogi við veginn eru rústir hins fræga Kópavogsþings: Þinggerði og Þinghústóft. Fyrstu sögur af Kópavogsþingi eru frá fyrri hluta 16. aldar og tengdar landsölumáli. Kristján II. Danakonungur hafði lagt sig allan fram um það að selja hinum fræga Hinriki VIII. Englandskonungi eyjuna Ísland með öllum gögnum, gæðum og réttindum. Einhverjir samningar virðast hafa tekizt laust eftir 1520. Þá kemur hingað Týli Pétursson frá Flensborg og telur sig hafa eitthvert umboð yfir landi. Ekki leizt Íslending- […?] fullkominni óbótamaður á Kópavogsþingi og síðar tekinn af lífi; sumar heimildir segja, að aftakan hafi verið framkvæmd heima á Bessastöðum. Þegar Hinrik frétti þetta, sendi hann vini sínum, Kristjáni II. orðsendingu þess efnis, að hann væri afhuga öllum Íslandskaupum, af því að sér væri orðið kunnugt, að Íslendingar væru búnir að drepa alla styrktarmenn þeirrar höndlunar.
Kópavogur
Við vegbrúnina austur af Þinghústóft er aflöng dys, gróin grjóthrúga, og nefnist Hjónadysjar, en þar rétt norðaustur af voru svonefnd Systkinaleiði. Þau hafa nú lent undir húsum við Fífuhvammsveg. Í Hjónadysjum er talið, að þjófar tveir liggi, maður og kona, sem Árni Magnússon segir, að legið hafi í Hraunhelli fyrir sunnan gamla örfiriseyjarsel um 1677, en náðust og voru tekin af. Engar áreiðanlegar sagnir eru um, hverjir hafi átt að hvíla í Systkinleiðum, en ágizkanir greina frá sakafólki frá Árbæ. Um 1700 bjó þar ungur og ókvæntur maður með móður sinni, Sigurður Arason að nafni. Á móti honum sátu jörðina Sæmundur Þórarinsson og Steinunn Guðmundsdóttir. Er ekki orðlengja, að ástir takast með Sigurði og Steinunni. Þann 21. sept. 1704 fannst Sæmundur örendur í Skötufossi í Elliðaám; Sigurður var grunaður um morð, tekinn og meðgekk hann að hafa unnið á Sæmundi að undirlagi konu hans. Steinunn játaði hlutdeild sína og voru þau tekin af 15. nóv. 1704, „Sigurður höggvinn skammt frá túngarði í landnorður frá þinghúsinu, en Steinunni drekkt í læknum þar fyrir austan. Hafði höggstaðurinn ávallt áður verið uppi á hálsinum, en drekkt i Elliðaá syðri,” segir í gömlum annál.
Árbæjarmálið minnir óneitanlega mjög á þjóðsögurnar um Þorgarð.
Allmiklar heimildir eru til um fólk, sem lét lífið á þessum stað á dögum erlendrar harðstjórnar og kaupþrælkunar, sumt fyrir engar sakir að okkar dómi. Þannig fæddi Guðrún Oddsdóttir vinnukona í Kirkjuvogi andvana barn, en faðir þess var giftur maður. Hún reyndi að leyna fæðingunni, en upp komst og var hún tekin af lífi, drekkt sennilega í Elliðaám.
Hér var fjallað um hin illræmdu Hvassafellsmál og Swartskopfsmál, morðmál á Bessastöðum. En það skiptir ávallt nokkru hverjir glæpina drýgja. Höfðingjarnir, sem létu sálga Appolloniu Swartskopf voru auðvitað sýknaðir. Um þetta mál fjallar Guðmundur Daníelsson í skáldsögunni Hrafnhetta.”

Heimild:
-Keflavíkurgangan, 1. tbl. 19.06.1960, Samtíningur um Suðurnes – Björn Þorsteinsson, bls. 42-50.

Kapella

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2017 er m.a. fjallað um “Kapelluhraun og Heilaga Barböru“:

“Á hverjum degi bruna þúsundir bíla um Keflavíkurveginn með ökumenn og farþega sem eru óvitandi um einstaka náttúru- og menningarperlu sem leynist nánast alveg við veginn. Þessi perla er lítil kapella sem stendur á örlítilli hæð sunnan við álverið í Straumsvík. Hæð, sem er hluti af Kapelluhrauninu, sem hefur verið skafið og eyðilegt á stóru svæði umhverfis þessar einstöku minjar.

Kapellan

Kapellan í Kapelluhrauni áður en hún var grafin upp.

Í annálum er sagt frá miklu eldgosi í Trölladyngju árið 1151 og rann þaðan hraun frá Undirhlíðum til sjávar. Gosið var hluti af svo kölluðum Krýsuvíkureldum, sem urðu á langri gossprungu á Reykjanesskaganum. Þá er einnig talið að Ögmundarhraun, suðvestur af Krýsuvík, eins og við þekkjum hana í dag, hafi runnið yfir gamla Krýsuvíkurbæinn sem stóð niður undir sjó. Þar er að finna mjög merkar mannvistarleifar og óbrennishólma.

Kapellan

Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.

Margt styður aldursgreiningar hraunanna, m.a. annálar og geislakolsmælingar. Í Kjalnesingasögu, sem er talin skráð eftir 1300, er einnig minnst á hraunið, sem þar er kallað Nýjahraun. En einmitt sú nafngift bendir til þess að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist, og trúlega að mönnum ásjáandi. Nýjahraunsnafnið var notað allar miðaldirnar en síðar einnig nafnið Bruni. Á síðustu öldum fóru menn að kalla hraunið Kapelluhraun eftir lítilli hálfhruninni kapellu sem fannst í hrauninu. Kapellan er í landi Þorbjarnarstaða, eyðibýlis nálægt Straumi. Hún stendur við mjóa götuslóð sem rudd hefur verið yfir hraunið, og var alfaraleið suður með sjó öldum saman.
Kapellan er talin vera frá kaþólskum tíma. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellurústina, ásamt fleirum, árið 1950. Þar fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af Heilagri Barböru, verndardýrlingi gegn eldi, hruni, jarðhræringum og hita. Barbara var píslarvottur sem dó fyrir trúna, og var hálshöggvin af föður sínum, Hún var samkvæmt helgisögum uppi í lok 3. aldar e. Kr. Faðir hennar á að hafa læst hana inn í turni til að gæta meydóms hennar, og því er turn eins konar einkennistákn hennar. Líkneskið sem fannst í kapellunni sýnir einmitt Heilaga Barböru með vitann í fanginu. Það var brotið og aðeins fannst efri hluti þess í þrem pörtum. Styttubrotið er um 3,3 cm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 cm þegar styttan var í heilu lagi.

Kapellan

Kapellan – endurgerð.

Allt bendir til þess að hér hafi menn gert bæn sína í kaþólskum sið, áður en lagt var á hraunið, minnugir sagna um eldflóð og óáran, og heitið á Heilaga Barböru sér til verndar. Kapellan, sem er endurhlaðin, er opin í vest-suðvestur, og inni í henni hefur verið komið fyrir stækkaðri eftirmynd af líkneskinu. Það er sannarlega vel þess virði að heimsækja Heilaga Barböru þegar menn eiga leið suður með sjó, hvort sem þeir gera þar bæn sína eða ekki. Þótt eldgosahrinur einkenni Reykjanesskagann og um 850 ár séu frá þeirri síðustu, er fátt sem bendir til þess að eldur verði þar fljótlega uppi, eins og segir í fornum skræðum. En í hrauninu og kapellunni tengjast sagan og jarðfræðin, trúin og lífskjörin, og þar getum við einnig dregið lærdóm af því hvernig ekki á að fara með umhverfi einstakra og dýrmætra minja.”

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 1. tbl. 01.02.2017, Kapelluhraun og Heilög Barbara, bls. 2.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðiarinnar, sem lá framhjá henni.

Selhóll

Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir reyndu að ráða gátuna í skrifum þeirra um aldur Eldra- og Yngra Hellnahrauns í ritinu Jökli árið 1991:

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

“Samkvœmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvakerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatarmál hraunanna er 36,5 km2 og rúmmálið er áœtlað um 0,22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68,3% líkur á að hraunin hafi runnið á einhverju tímabilanna 1026-1045 (12%), 1052-1065 (35%), 1089-1125 (35%) og 1138-1153 (18%).
Traðarfjöll
Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar er í rauninni tvö hraun og eru bœði komin frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Yngra hraunið er sama hraun og Jón Jónsson (1977) hefur nefnt Tvíbollahraun. Það er að öllum líkindum runnið ísömu goshrinu og hraun sem Jón Jónsson (1978a) hefurnefnt Breiðdalshraun.
Vegið meðaltalfjögurra geislakolsgreininga á sýnum undan Yngra Hellnahrauni, Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni (tvö sýni) gefur 68,3% líkur á að hraunin hafi runnið annaðhvort á árabilinu 894-923 eða, sem er mun líklegra, á árunum 938-983.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Helluhraunið sunnan og vestan við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði heitir Hellnahraun (Guðmundur Kjartansson hefur nefnt hraunið Hvaleyrarhraun þar sem hann minnist á það í sínum greinum og það nafn hefur hraunið fengið á kortum Landmælinga Íslands. Í fyrri grein okkar um Krýsuvíkurelda er hraunið einnig nefnt Flatahraun). Flestir jarðfræðingar sem um það hafa fjallað hafa álitið hraunið mjög gamalt, án þess þó að færa fyrir því haldbær rök. Hraunið er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og þess sjást engin merki að það hafi nokkum tíma verið gróið að marki. Allt var á huldu um aldur hraunsins þar til sumarið 1986, en þá tókst okkur að finna nothæft jarðvegssnið sem liggur inn undir hraunið, norðvestan við Stórhöfða. Þar kom í ljós að Landnámslagið liggur inn undir hraunið. Áður töldum við að Hellnahraun hefði runnið í sama gosi og Kapelluhraun og einnig að Hellnahraun og hraunið frá Óbrinnishólum væru eitt og sama hraunið (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980).

Hellnahraun

Mannvirki í Óbrinnishólahrauni. Sjá má í Eldra-Hellnahraun fjær.

Við nánari könnun á Óbrinnishólum sumarið 1989 kom í ljós að athuganir Jóns Jónssonar (1974) á þeim standa óhaggaðar. Þá var aðeins eftir að kanna mót Hellnahrauns og Obrinnishólahrauns nánar, en á jarðfræðikorti Jóns Jónssonar (1978a) er Hellnahraunið talið eldra. Könnunin leiddi í ljós að vestur af Stórhöfða hefur Hellnahraunið augsýnilega runnið út yfir hraunið frá Óbrinnishólum og er því örugglega yngra. Að fenginni þessari niðurstöðu þótti ljóst að Hellnahraun hlaut að hafa komið upp nærri nyrsta hluta Undirhlíða. Þar er þó engum eldstöðvum til að dreifa nema Gvendarselsgígunum en hraunið frá þeim hefur greinilega runnið út yfir Hellnahraunið. Hægt er að ímynda sér að gígarnir hafi horfið undir Gvendarselshraun en sú skýring er ekki sennileg í ljósi þess hversu þunnt Gvendarselshraunið er. Einnig má hugsa sér að Hellnahraun hafi komið úr sjálfum Gvendarselsgígum í byrjun goss en sú skýring verður að teljast langsótt.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Eftir allmiklar vangaveltur um uppruna Hellnahrauns fannst, eins og stundum vill verða, einföld og augljós skýring. Hraunið er einfaldlega ekki komið úr eldstöðvakerfi Trölladyngju, heldur eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Sunnan undir Helgafelli er allmikill helluhraunsfláki. Næst Helgafelli liggur ofan á honum tiltölulega mjór taumur af yngra helluhrauni sem hverfur inn undir Gvendarselshraun.
Jón Jónsson (1977) hefur fjallað um hraun þetta og telur það komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum. Ekki verður annað séð en að Hellnahraun sé framhald Tvíbollahrauns til vesturs. Í Krýsuvíkureldum flæddi hraunið frá Gvendarselsgígum yfir hluta hrauntaumsins þannig að samhengið rofnaði og hefur það villt mönnum sýn. Hellnahraun er auk þess einsdæmi á Reykjanesskaga að því leyti að það hefur runnið þvert yfir eitt eldstöðvakerfi og langleiðina yfir í það næsta, þ.e.a.s. hraunið kemur upp í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, rennur þvert yfir eldstöðvakerfi Trölladyngju og þar sem það liggur næst sjó við Hvaleyrarholt er það í aðeins um 5 km fjarlægð frá austustu sprungunum sem þekktar eru í eldstöðvakerfi Reykjaness.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Þegar Hellnahraunið var kannað nánar sumarið 1991 kom ýmislegt nýtt í ljós. Sem fyrr segir liggur Hellnahraunið út á hraunið frá Óbrinnishólum vestur af Stórhöfða. Við könnun á neðri hluta hraunsins reyndist aldursafstaðan þveröfug, þ.e. Óbrinnishólahraunið hefur runnið út yfir Hellnahraun. Þegar betur er að gáð reynist Hellnahraun samanstanda af tveimur hraunum sem hér á eftir verða nefnd Yngra og Eldra Hellnahraun. Hraunin eru ákaflega lík í ytri ásýnd og var nokkrum erfiðleikum bundið að greina þau að, en það tókst. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur að öðru leyti en því að það er eldra en hraunið frá Óbrinnishólum og yngra en Búrfellshraunið. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-1000 ára. Hraunið er líkt og Yngra Hellnahraunið komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið í átt til sjávar

Aldur Yngra Hellnahraunsins

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun í sjó fram sunnan Hvaleyrar.

Jón Jónsson (1977) fann Landnámslagið undir Tvíbollahrauni og einnig kolaðarjurtaleifar sem hann lét aldursgreina. Taldi Jón hraunið hafa runnið á fyrstu árum Íslandsbyggðar. Árið 1988 tókum við sýni af koluðum jurtaleifum á sama stað og Jón hafði tekið sín sýni, við suðvesturhorn Helgafells. Einnig var tekið sýni af koluðum jurtaleifum undan Yngra Hellnahrauninu, í rústum af gömlum gervigíg, Rauðhól, skammt frá mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.

Fagridalur

Gengið upp úr Fagradal um Breiðdalshraun.

Frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla hefur á sögulegum tíma runnið annar helluhraunstaumur, sem minnir mjög á Yngra Hellnahraunið. Hraunið kom upp sunnan við Kistufell í Brennisteinsfjöllum, rann til norðvesturs eftir Lönguhlíðarfjöllum og síðan fram af þeim niður í Fagradal og Breiðdal við Undirhlíðar. Þetta hraun hefur Jón Jónsson (1978a) nefnt Breiðdalshraun. Aldursgreining, sem Jón lét gera, bendir sterklega til að það hafi runnið í sömu goshrinu og Yngra Hellnahraun.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Geislakolsgreiningar hafa verið gerðar á hraunum sem talin eru mynduð í sama gosi eða goshrinu og Yngra Hellnahraun. Greiningar á Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni eru ættaðar frá Jóni Jónssyni (1977, 1978a), en okkar sýni, sem tekið var undan Tvíbollahrauni á sama stað og sýni Jóns, er kennt við Helgafell. Sýnin frá Helgafelli og Rauðhól voru meðhöndluð til geislakolsmælingar á Raunvísindastofnun Háskólans, en sjálf mælingin fór fram á tandemhraðli Árósaháskóla. Líklegast hafa öll þessi hraun runnið á sama tíma á 9. eða 10. öld.”

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar II; Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, bls. 61-74.

Hellnahraun

Yngra-Hellnahraun ofan Hafnarfjarðar.

Reykjanesskagi

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um “Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga” í Náttúrufræðinginn árið 1983:

Inngangur
Reykjanesskagi er hluti af gosbeitinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi. Er það efni þessarar greinar að draga saman nokkrar staðreyndir í því sambandi. Jarðvísindalega séð er Reykjanesskagi hreinasti dýrgripur því hann er einn aðgengilegasti hluti hins virka gosbeltis og dæmi um það hvernig slíkir hryggir byggjast upp.

Heimildir um eldgos á Reykjanesskaga

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Tvíbollahrauni – Jón Jónsson.

Fyrsta heimild um gos á umræddu svæði er hin alkunna frásögn Kristnisögu: „Þá kom maðr hlaupandi ok sagði að jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þorodds goða” (Kristnisaga, bls. 270). Kristnisaga er talin vera „að stofni til frá 12. öld” (sama heimild bls. 29) og gæti því verið rituð rösklega öld eftir að atburðir þessir áttu sér stað. Hér er að sjálfsögðu látið liggja milli hluta hvort kristnitakan hafi verið árið 1000 eða 999.
Lengi hefur verið fullyrt að gos þetta hafi verið í gígaröð austan við Hveradali. Svo gerir Hálfdán Jónsson (1703, útg. 1979), Sveinn Pálsson (1945) og svo hver af öðrum, m. a. hefur það slæðst inni í sögu Íslands I (Sigurður Líndal 1974, bls. 241) og er þar til áréttingar sýnd mynd af hrauntungu þeirri sem „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða” að Hjalla.
Síðari heimildir um eldgos á Reykjanesskaga eru með afbrigðum óljósar og torráðnar. Þannig er t. d. getið um gos í Trölladyngju eða Trölladyngjum 1151, 1188, 1340, 1360 og 1389-90 og um hraun, sem runnið hafi niður í Selvog 1340 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, 1958). Líkur eru til að það, sem nú er nefnt Brennisteinsfjöll hafi áður fyrr verið nefnt Trölladyngjur, en sannanlega hefur þar verið eldvirkni mikil — og líka á sögulegum tíma og verður að því vikið síðar.
Ljóst er að Ögmundarhraun hefur runnið á sögulegum tíma þar eð það hefur runnið yfir bæ og hluti af rústum hans sést ennþá, en skráðar heimildir um það gos munu ekki vera fyrir hendi. Vafalaust hafa skráðar heimildir um ýmsa atburði á þessum landshluta, þar á meðal eldgos, glatast í aldanna rás. Má í því sambandi minna á afdrif bóka Viðeyjarklausturs (Árni Óla 1969).
Nú hefur, eftir mismunandi leiðum, verið mögulegt að sýna fram á, að a. m. k. 12 eða 13 eldgos hafa átt sér stað á Reykjanesskaga frá því að norrænt landnám hófst hér.

Aldursákvarðanir
Aðferðum, sem notaðar hafa verið til þess að flokka aldur hrauna á Reykjanesskaga má skipta í 4 flokka:
1) Sögulegar heimildir.
2) Geislakolsákvarðanir, C14.
3) Öskulög.
4) Afstaða til hrauna með þekktan aldur.
Eins og áður er sagt, eru sögulegar heimildir um eldgos á þessum landshluta bæði mjög fátæklegar og auk þess svo ruglingslegar að vant er að vita hverju má treysta. Örnefnið Nýjahraun (Kapelluhraun) bendir til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma.
Bæjarrústirnar í Ögmundarhrauni tala sínu máli, en þar með eru sannanir á þrotum. Um vitnisburð annála er áður getið. Ákvarðanir aldurs gróðurleifa (C14) hafa reynst notadrjúgar þar sem þeim verður við komið. Öskulög með þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar eins og sýnt verður hér á eftir. Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900 (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1978) og öskulag frá Kötlu um 1495 (Jón Jónsson 1978). Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg. Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

SÖGULEG HRAUN Á REYKJANESI
Svínahraun — Kristnitökuhraunið

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Sýnt hefur verið fram á að yngsta hraunið austan við Hveradali getur ekki verið frá gosi því, er Kristnisaga getur um, ekki heldur hraunið úr Eldborg undir Meitli, er runnið hefur þannig, að það stefnið á Hjalla í Ölfusi og kemur að því leyti vel heim við söguna. Hins vegar er landnámslagið ofan á Eldborg, og mosakol undan hrauninu við Hveradali sýna að það er um 800 árum eldra en kristnitakan (Jón Jónsson 1977). Þetta leiddi til þess að gerðar voru athuganir á yngsta hrauninu milli Lambafells og Bláhnúks, en það er augljóslega yngra en það, sem talið var vera Kristnitökuhraunið. Kom brátt í ljós að landnámslagið er undir þessu hrauni, en Kötlu-lagið frá um 1495 ofan á því (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1979). Endurteknar athuganir í óbrennishólmanum í Svínahrauni leiddu í ljós, að ekki verður greindur minnsti vottur af jarðvegi eða gróðurleifum milli öskulagsins og hraunsins. Það, sem hér er nefnt Svínahraun, er hraunið úr Nyrðri Eldborg, en hraunið úr Syðri Eldborg er nefnt Lambafellshraun. Það hraun er eitthvað yngra, en talið vera nær samtíma, þ. e. úr sömu goshrinu. Þó er þetta enn ekki sannað mál. Bæði þessi hraun ná yfir 11,9 km2 svæði (Þorleifur Einarsson 1960, Jón Jónsson 1978) og teljast um 0,24 km\. Þetta eru ólivínþóleíthraun og innihalda rösklega 14% ólivín.

Rjúpnadyngnahraun

Í nær miðjum Húsfellsbruna milli Þríhnúka og Sandfells er eldstöð, sem mjög lítið ber á, en nefnist Rjúpnadyngjur. Húsfellsbruni er örnefni, sem nær til margra hrauna, sem flest eru runnin fyrir landnám, en einnig eru þar yngri hraun. Naumast verður það talið, að augljóst sé við fyrstu sýn, að Rjúpnadyngjur séu eldvörp. Þarna er óvenju stórbrotið hraun með djúpum sprungum og illfærum gjám. Eitt hringlaga niðurfall er á þessu svæði og er talið líklegast að það sé yfir uppvarpinu. Gjall kemur aðeins fyrir á litlum hól miðsvæðis. Við nánari athugun sést að þarna er um eldstöð og um dæmigert hraungos að ræða, en yngri hraun hafa runnið upp að henni sunnan frá og verið langt komin með að færa hana í kaf. Hraun frá Rjúpnadyngjum hefur runnið norður og norð-vestur. Nyrsti tangi þess endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell og hefur þar runnið út á Búrfellshraun. Leysingavatn hefur grafið dálítinn farveg meðfram hraunröndinni norðaustur af Búrfelli og þar reyndist mögulegt að grafa inn undir hraunið. Komu þá í ljós bæði öskulögin, sem áður var minnst á. Landnámslagið liggur inn undir hraunið, en svarta Kötlulagið er ofan á því. Þar með er ljóst að þarna hefur gosið eftir 900. Annað, sem sannar þetta, er að hraunið hefur á einum stað runnið út á Tvíbollahraun, en það var áður aldursákvarðað (sjá síðar). Gróðurleifar undir þessu hrauni eru afar fátæklegar og því hefur enn ekki verið hægt að koma C14 athugunum við.

Kóngsfellshraun
Vestan við Stóra Kóngsfell er stutt gígaröð, sem nær upp í fellið og er á sprungu, sem gengur gegnum það. Þarna hafa einkum tveir gígir verið virkir. Hraunið hefur runnið báðum megin við Kóngsfell norður og niður á við. Það hefur runnið upp að Rjúpnadyngjum og báðum megin við þær og er því yngra en sú gosstöð og þar með frá sögulegum tíma. Nánari aldursákvörðun á þessu gosi liggur ekki enn fyrir.

Breiðdalshraun

Á Brennisteinsfjöllum er feiknamikil eldstöð, sem ég hef nefnt Kistu og sem sent hefur hraunstrauma bæði suður og norður af fjallinu. Það hraun, sem til norðurs rann, er dæmigert helluhraun. Unun er að ganga þessar svörtu klappir, sem bjóða upp á hin furðulegustu mynstur í formi straumgára, fellinga og hraunreipa. Það hefur runnið í fremur mjóum straumi norðvestur fjallið milli eldri hrauna og fallið í bröttum fossi ofan í Fagradal, þar sem það hefur hrifið með sér stór björg og steina úr brúninni og liggja þeir nú í tugatali ofan á hrauninu í dalnum, meðal grjóts sem síðar hefur hrunið úr fjallinu út á hraunið. Það hefur svo haldið áfram allt að Undirhlíðum og loks staðnæmst í Breiðdal og þekur allan dalbotninn með sléttu hrauni. Þar sem það fellur niður í dalinn austan við Breiðdalshnjúk er það örþunnt. Leysingavatn hefur þar grafið sér farveg meðfram því og nokkuð inn undir rönd þess. Þar má sjá jarðveg þann, sem hraunið rann yfir og finna leifar þess gróðurs, sem þar var þá og raunar liggja þær gróðurleifar í sjálfu landnámslaginu. Liggur því tvöföld sönnun fyrir aldri þessa hrauns, enda gaf C” ákvörðun um ár 910. Meðal gróðurleifa virtist vera beitilyng, víðir, bláberjalyng og einír, en þetta allt vex á staðnum enn í dag.

Selvogshraun
Skammt eitt austan við hina fornu brennisteinsnámu, sem raunar mun hafa gefið þessum fjallaslóðum nafn, rís á fjallsbrún hár og brattur gígur, sem ég í dagbókum mínum hef nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, en fram til þess nota ég hitt nafnið enda hef ég áður notað það (Jón Jónsson 1978). Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma.
Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, bls. 188-189). Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

Tvíbollahraun

Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins og hef ég áður fjallað um þá (Jón Jónsson 1977a). Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 4 0 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu. Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C’4 ár, (Jón Jónsson 1977a) en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.

Gvendarselshraun

Norðurendi Undirhlíða er nefndur Gvendarselshæð. Hún endar við Kaldárbotna. Austan í hæðinni gegnt Helgafelli er gígaröð, sem ég hef nefnt Gvendarselsgígi. Þeir eru á misgengi því, sem liggur eftir endilöngum Undirhlíðum, klýfur Kaldárhnúk, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur Búrfellsgíginn um þvert og heldur áfram um Heiðmörk. Hraun frá þessari litlu gígaröð þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Víðast er það dæmigert helluhraun. Það hefur runnið niður í Kaldárbotna að norðaustan í smátotu, sem hangir þar níður, en hefur staðnæmst neðan við hjallann. Annar straumur hefur fallið vestur um skarðíð milli Kaldárbotna og Hlíðarhorns og nær nokkuð vestur fyrir Kaldársel. Vestast er það svo þunnt að talsverða nákvæmni þarf til þess að rekja ystu mörk þess. Þriðja hraunkvíslin hefur svo fallið um Kýrskarð við suðurenda megin gígaraðarinnar, og út á Óbrinnishólahraun, og myndar smá hraunbleðil vestan undir hæðinni. Eins og áður er sagt hverfur Tvíbollahraun inn undir Gvendarselshraun við suðurenda Helgafells.
Gvendarselshraun er því yngra. Auk þess grófum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur inn undir hraunið syðst og fundum þar bæði landnámslagið og gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst vera frá því um 1075.

Nýjahraun — Kapelluhraun

Kapelluhraun

Kapelluhraun – loftmynd.

Eins og áður er sagt bendir upprunalegt nafn þessa hrauns ótvírætt til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma. Um aldur þess hefur að öðru leyti ekki verið vitað. Í sambandi við rauðamalarnám við gígina, sem hraunið er komið úr, opnaðist möguleiki til þess að komast að jarðvegslögum undir því og ná þar í kolaðar gróðurleifar. Þar voru tekin alls 3 sýni á jafnmörgum mismunandi stöðum. Aldursákvarðanir á þeim sýndu að gosið hafi þarna um 1005. Þrátt fyrir þær skekkjur, sem loða við þessar aldursákvarðanir er með þeim staðfest að hraunið er frá sögulegum tíma og næsta ljóst að gosið hafi orðið snemma á 11. öld.

Ögmundarhraun
Ekki er kunnugt um uppruna nafnsins á hrauni þessu, en langt er síðan að ljóst var að það hafði runnið á sögulegum tíma. Það sanna rústir bæjar, sem eyðst hafði í gosinu. Ögmundarhraun er komið úr gígaröðum austan í og austanundir Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Samanlögð lengd þessara gígaraða er nær 5 km. Næsta ljóst er að allar hafa þær verið virkar aðeins í byrjun gossins, en fljótlega hefur hraunrennslið færst yfir í, einkum þrjá gígi, nálægt austurenda gígaraðarinnar og þaðan hefur megin hraunflóðið runnið suður dalinn milli Krýsuvíkurmælifells og Latsfjalls alla leið í sjó fram. Þarna hefur það farið yfir gróið land og eyðilagt a. m. k. eitt býli eins og rústirnar sanna, en vel gætu þau hafa verið fleiri og raunar ekki ólíklegt að svo hafi verið (lón Jónsson 1981).

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun.

Hraunið hefur fallið í sjó fram á um 7,5 km strandlengju og hugsanlegt gæti verið að þar hafi sú vík verið, sem Krýsuvík er kennd við — sé það á annað borð nauðsynlegt að skýra nafnið svo – og hafi hraunið fyllt hana. Um þetta skal ekkert fullyrt.
Lengi hefur því verið haldið fram að þetta gos hafi orðið árið 1340. Þetta ártal er komið frá Jónasi Hallgrímssyni, en ekki getur hann heimilda fyrir því. Á öðrum stað hef ég rakið það, sem vitað er um aldur hraunsins og er ekki ástæða til að endurtaka það hér (Jón Jónsson 1981). Því má aðeins bæta við hér að engar mannvistarleifar er að finna í tveim smá óbrennishólmum ofar í hrauninu. Þess skal hér einnig getið að svo virðist sem Ögmundarhraun, Nýjahraun (Kapelluhraun) og Gvendarselshraun hafi öll orðið í einni goshrinu, sem þá hafi orðið á fyrri hluta 11. aldar. Því má svo bæta við, að vel gætu fleiri gos hafa orðið um svipað leyti eða samtímis víðar á Reykjanesskaga og skal nánar að því vikið síðar.

Afstapahraun

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Áður hef ég leitt nokkur rök að því (Jón Jónsson 1978) að nafnið á þessu hrauni sé afbökun úr Arnstapa — enda er hitt nafnið lítt skiljanlegt. Ekkert hefur verið vitað með vissu um aldur þessa hrauns. Þorvaldur Thoroddsen (1925, bls. 187) segir raunar að það sé „In aller Wahrscheinlich nach bei Ausbrúcken in historischer Zeit hervorgebrochen”, en ekki fer hann í þessu eftir öðru en unglegu útliti hraunsins.
Í norðanverðu hrauninu eru nokkrir óbrennishólmar og eftir að athuganir meðfram vesturbrún hraunsins höfðu ekki borið árangur, leituðum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fyrir okkur nyrst í einum þessara hólma. Eftir að hafa grafið á nokkrum stöðum við hraunröndina töldum við okkur hafa fundið landnámslagið, sem liggur inn undir hraunið. Þar eð ég var ekki fyllilega ánægður með sniðið fór ég aftur á staðinn og gróf lengra inn undir hraunið. Þar fann ég landnámslagið mjög greinilegt með þess einkennum, ljóst að neðan en dökkt að ofan. Þetta má vel greina á ljósmyndinni ef hún prentast sæmilega. Þar með er ljóst að Afstapahraun er runnið á sögulegum tíma. Ekki heppnaðist að finna gróðurleifar nothæfar til aldursákvörðunar.

Arnarseturshraun
Hraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur. Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2  og telst samkvæmt því 0,44 km\ en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.
Út frá þeim skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár. Sú var og niðurstaða mín (Jón Jónsson 1978, bls. 258-9). Hins vegar hafa nú rannsóknir leitt í ljós að svo getur ekki verið, og er hraunið talsvert eldra, en eigi að síður frá sögulegum tíma.
Óbrennishólmi einn lítill er skammt fyrir neðan Litla-Skógfell og eftir árangurslausa leit á nokkrum stöðum fórum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og grófum þar við hraunröndina. Fundum við þar bæði landnámslagið og Kötlulagið, hið fyrra undir, hið síðara ofan á hrauninu. Af jarðvegssniðinu má ráða að talsvert lengri tími hafi liðið frá því að landnámslagið féll til þess að hraunið rann, en frá því til þess að Kötlulagið féll. Sýnist því að þetta gos gæti vel hafa orðið eitthvað nálægt 1300.

Eldborg við Trölladyngju

Eldborg

Eldborg norðan Trölladyngja.

Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða. Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.

Traðarfjöll

Eftir að þessi grein var búin til prentunar, fannst enn ein eldstöð, sem telja verður óvéfengjanlegt að sé frá sögulegum tíma. Þessi eldstöð er sunnan í Traðarfjöllum, skammt sunnan við Djúpavatn. í riti mínu um jarðfræði Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978, bls. 165-166) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e.t.v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var lagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg. Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða. Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt. Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld. Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast.

Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.

Umræða
Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að gos hafa orðið á Reykjanesskaga a.m.k. 12 sinnum eða 13 frá þeim tíma að norrænt landnám hófst. Mjög sennilegt virðist að Eldborg við Bláfjöll hafi gosið á sögulegum tíma þó ekki verði það fullsannað. Vel gætu gosin verið enn fleiri og ber því að líta á þessar tölur sem lágmark en ekki  endanlegar. Svo virðist sem eldvirkni hafi verið mikil á tímabilinu 1000-1400 og raunar eins skömmu fyrir landnám. Hraun frá sögulegum tíma þekja um 143 km2 og rúmtak þeirra ætti að vera um 2,3 km’. Einnig þetta eru lágmarkstölur. Það skal tekið fram að enda þótt hraunin 6, sem talin eru í efri hluta töflunnar, séu sett í ákveðna aldursröð er engan veginn víst að hún sé rétt.
Ljóst er að Kóngsfellshraun er yngra en Rjúpnadyngjur, en þær aftur yngri en Tvíbollahraun. Arnarseturshraun og Afstapahraun gætu vel verið frá sama tíma.

Spursmál sem þessi hljóta að bíða úrlausnar. Af sumum hraunanna eru til nokkrar aldursákvarðanir gerðar með nokkurra ára millibili, aðrar samtímis. Nokkrum sinnum hafa verið gerðar tvær ákvarðanir á efni frá sama stað. Er þá annað sýnið að jafnaði leifar kolaðs kvistgróðurs, stöku sinnum örugglega leifar birkikjarrs, en hins vegar kolaðar leifar gróðurs, sem ekki verður nánar ákvarðaður, væntanlega einkum leifar mosa og grasa.
Ófrávíkjanlega hefur slíkt efni sýnt hærri – stundum verulega hærri aldur. Hefur það því ekki verið notað við gerð töflunnar, enda oft í ósamræmi við staðreyndir fengnar frá öskulögunum eða hreint jarðfræðilegum staðreyndum (t. d. jarðlagafræðilegum „stratigrafiskum”). Þessi mismunur er ofur eðlilegur þar eð lífrænar leifar efst í jarðveginum hafa líka náð að kolast, þegar hraunið rann yfir gróið land. Slíkt lag er 3- 4 cm þykkt eða meir.
Þess má geta að hraunið úr Eldborgum undir Meitlum, það er runnið hefur niður í Ölfus og bæði ég (Jón Jónsson 1977) og Þorleifur Einarsson (1960) höfum talið vera nær samtíma gosinu í Reykjafellsgígum (Hellisheiðarhraun IV hjá Þorleifi), er samkvæmt C14  ákvörðuninni verulega eldra. Af innbyrðis afstöðu hraunanna er ljóst að hraunið úr Eldborgum er eldra.

Af innbyrðis afstöðu annarra hrauna til þeirra, sem aldursákvörðuð hafa verið, má nokkuð ráða um lágmarksaldur þeirra. Sem dæmi má nefna að hraunin frá Hrútagjárdyngjunni, en þau þekja svæðið frá Hvaleyrarholti vestur að Vatnsleysuvík, eru yngri en Búrfellshraun, þ. e. minna en ca. 7000 ára. Sama gildir um hraun það er ég hef kennt við Helgadal, en það hefur runnið út á Búrfellshraun, er brotið af misgengi eins og það og því sennilega óverulega yngra.
Margt fleira mætti telja, en hér skal nú staðar numið.!”

Sjá Jarðfræðikort ÍSOR HÉR.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 1983 – 52. árgangur 1983, 1.-4. tölublað, “Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga” – Jón Jónsson, blaðsíða 127-138.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR.

Rauðhóll

Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um “Hraun í nágrenni Straumsvíkur” í Náttúrfræðinginn árið 1998.

Hraun í nágrenni Straumsvíkur
HraunÞegar fjallað er um hraunstrauma þá sem á síðustu árþúsundum hafa runnið í átt til sjávar í Straumsvík og næsta nágrenni er óhjákvæmilegt að sú umfjöllun teygi sig til upptakanna, eldgíganna sjálfra. Af þeim sökum nær umfjöllunin yfir um 200 ferkílómetra svæði, þ.e. ströndina frá Hvaleyrarholti til vesturs að Vatnsleysuvik (Kúagerði) og frá ströndinni suður í Reykjanesfjallgarð milli Grindarskarða og Trölladyngju. Á þessu svæði er fjöldi hrauna og sum sjást ekki á yfirborði, því yngri hraun þekja þau alveg. Þeirra verður aftur á móti vart í borholum, m.a. á athafnasvæði álversins í Straumsvík. Leitast er við að draga upp einfalda mynd af því hvaða leið hraunin hafa runnið og hvernig þau hafa, eitt af öðru, lagt sitt af mörkum til að færa ströndina til núverandi horfs. Örnefni á þessu svæði eru fjölmörg og þau eru ekki bundin við einstaka hraunstrauma heldur ákveðin svæði. Þannig getur sama hraunið heitið mörgum nöfnum og nöfn geta einnig náð yfir hluta úr mörgum hraunum. Þau nöfn sem hér eru notuð á einstökum hraunum ber ekki að taka sem örnefni heldur sem sérheiti á jarðmyndunum.

Hraun frá fyrri hluta nútíma
HraunÞað tímaskeið jarðsögunnar sem tók við er ísöld lauk, fyrir 10.000 árum, nefnist nútími og varir hann enn. Á þeim tíma runnu hraunstraumar þeir sem almennt kallast hraun f dag (2. mynd). Elst þeirra hrauna sem sjást á yfirborði á þessu svæði er Búrfellshraun en það rann fyrir um 7.300 árum (Guðmundur Kjartansson 1973).

Búrfellshraun

Hraunið rann frá stórum gíg ofan við Hafnarfjörð sem Búrfell heitir og er hann nyrsti gígurinn í Krýsuvíkurrein. Frá Búrfelli rann hraunið til norðvesturs í tveimur meginkvíslum og fór önnur niður í Hafnarfjörð (Hafnarfjarðarhraun) en hin í Arnarnesvog (Gálgahraun). Að líkindum hefur á sama tíma runnið hraun til norðurs frá öðrum gíg, Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð. Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram. Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út. Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvfk. Upptök þessa hrauns eru lfklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Langmesta hraunið á þessum slóðum er Hrútagjárdyngja. Upptök þess eru nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.

Skúlatúnshraun – Hellnahraunið eldra

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Fyrir um 2.000 árum varð mikil goshrina á Reykjanesskaga og gaus þá m.a. í Brennisteinsfjallareininni. Frá einum gígnum, Stórabolla í Grindarskörðum, rann mikið hraun niður í átt að Straumsvík. Það breiddist út yfir stórt svæði ofan við Helgafell og Húsfell. Ein kvísl hraunsins rann sunnan og vestan við Helgafell og þaðan niður á milli Helgafells og Gvendarselshæðar og síðan vestur fyrir Stórhöfða, allt tíl sjávar og myndaði núverandi strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Þetta hraun stíflaði uppi Hvaleyrarvatn. Suður af Helgafelli heitir hraunið Skúlatúnshraun en við Hvaleyrarholt myndar það meginhluta Hellnahrauns.

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Fyrir um 1800 árum varð gos í Krýsuvíkurrein og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg (Jón Jónsson 1974). Hraunið frá þeim, sem að hluta heitir Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi langleiðina niður undir Straumsvík. Gígarnir í Óbrinnishólum eru nú aðeins svipur hjá sjón því þeir hafa verið grafnir út.

Hellnahraunið yngra

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Fyrir um eitt þúsund árum hófst goshrina á Reykjanesskaga (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991). Hrinan hófst með gosum í Brennisteinsfjallarein á tíundu öld. Þá runnu m.a. Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell (Kristnitökuhraun), stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum; runnu þau m.a til sjávar í Herdísarvík. Þá gaus í Tvíbollum í Grindarskörðum og rann einn hrauntaumurinn nánast sömu leið og Skúlatúnshraun í átt til Straumsvíkur. Hrauntaumurinn endaði skammt frá Sædýrasafninu sáluga og átti þá ófarna um 300 m til sjávar.

Kapelluhraun

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess.
Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvfkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík. í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna. Kapelluhraun er úfið apalhraun og hefur verið hinn versti farartálmi nýrunnið. Því hafa menn tekið það ráð að ryðja braut í gegnum það. Brautin hefur nú verið eyðilögð með öllu, að undanskildum um tuttugu metra kafla við svonefnda Kapellu sem er lítil rúst í hrauninu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellu þessa 1950 (Kristján Eldjárn 1956) og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Heilög Barbara var góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Hún var einnig verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðsmannna og námumanna og raunar einnig verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá. Kapelluhraunið var ákaflega fallegt, úfið og mosagróið, en nú hefur karganum verið flett af yfirborði þess á stórum svæðum svo hörmung er á að líta. Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.

Gervigígar

Þorbjarnastaðarauðamelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Á svæðinu eru nokkrir gervigígar sem stinga kollinum upp úr yngri hraunum. Gervigígarnir hafa myndast við það að hraun runnu í sjó og sýna þeir því legu strandarinnar á myndunartímanum. Gervigígunum í nágrenni Straumsvíkur má skipta í þrjá hópa eftir útbreiðslu.
Austast var Rauðhóll við Hvaleyrarholt, sem stóð upp úr Hellnahrauninu eldra, en langt er síðan hóllinn hvarf vegna efnisnáms og þar er nú geil í hraunið. Nokkru sunnar og vestar standa tveir gervigíar upp úrsamahrauni.
Í Selhrauni, skammt suður af kvartmílubrautinni, hefur verið numið töluvert magn af gjalli úr gervigígum sem standa þar upp úr einu af elstu hraununum á svæðinu (Selhraun 4, Helgi Torfason o.fl. 1993).
Skammt suður og vestur af Straumsvík er mikil rauðamalargryfja í Hrútagjárdyngju. Þar var upphaflega rauðamalarbunga upp úr hrauninu, Rauðimelur sem svo var nefndur. Nokkru vestar má sjá í kollinn á allmiklum gjallhól og enn vestar hefur hinn þriðji verið numinn brott.
Í flestum þessara gervigíga hafa fundist skeljar sem þeyst hafa upp úr þeim er hraun rann út yfir setlög við þáverandi strönd. Ekkert er vitað um aldur gíganna annað en að þeir eru örugglega myndaðir eftir ísöld og eru eldri en hraunin sem upp að þeim hafa runnið.

Niðurlag

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Núverandi strönd við Straumsvík er mynduð af þremur hraunum. Elst og vestast eru hraun Hrútagjárdyngju, sem runnu frá stórum dyngjugíg nyrst í Móhálsadal fyrir um 5.000 árum. Vestast er Hellnahraunið eldra, sem er langt að komið, upprunnið í Grindarskörðum í Brennisteinsfjallareininni fyrir um 2.000 árum. Bæði þessi hraun eru helluhraun og fremur auðveld yfirferðar.
Yngsta hraunið er Kapelluhraun, úfið apalhraun, sem rann árið 1151 frá gígum suður undir Vatnsskarði. Það rann til sjávar um lægð sem myndast hafði á mótum Hrútagjárdyngju og Hellnahraunsins eldra. Á síðustu 10.000 árum hafa hraunstraumar smám saman fært ströndina fram sem nemur allt að 2 km.
Eldgos á Reykjanesskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár.
Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240.1 hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krýsuvíkurrein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hinsvegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.

Helstu heimildir höfunda:
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989.
-Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87. Helgi Torfason, Árni Hjartarson, Haukur Jóhannesson, Jón Jónsson & Kristján Sæmundsson 1993.
-Berggrunnskort: Elliðavatn 1613 III-SV-B 1:25.000. Landmælingar Íslands, Orkustofnun, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. kortamappa.
-Jón Jónsson 1974. Óbrinnishólar. Náttúrufræðingurinn 44. 109-119.
-Kristján Eldjárn 1956. Kapelluhraun og Kapellulág. Árbók Fornaleifafélagsins 1955-56. 5-8.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krýsuvíkureldar ll. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg., 3.-4. tbl., 01.05.1998, Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1960-1961, bls. 171-177.

Hraun

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Kapella

Tvö upplýsingaskilti eru við uppgerða kapellu í Kapelluhrauni, gegnt álverinu; annað frá Þjóðminjasafninu og hitt frá Byggðasafni Hafnarfjarðar.
Á fyrrnefnda skiltinu stendur:

Kapella

Upplýsinagskilti Þjóðminjasafnsins við kapelluna.

“Rústir smákapellu frá miðöldum, sem reist hefur verið til skjóls fyrir ferðamenn í illveðrum við hina fornu alfaraleið um Nýjahraun (Kapelluhraun), sem mun hafa runnið á 14. öld. Kapellan var rannsökuð 1950 og fannst þar lítið líkneski úr leir af heilagri Barböru, hollenskt að uppruna. Heldur Barbara á turni, einkennistákni sínu, en hún var efir helgisögunni lokuð inni í turni og leið þar píslavættisdauða. Gott þótti að heita á heilaga Barböru gegn eldsvoða og gæti hún hafa orðið fyrir valinu vegna eldhraunsins.”

Á síðarnefnda skiltinu stendur:

“Árið 1950 var rústin rannsökuð af þeim dr, Kristjáni Eldjárn þjóðminjaverði, Gísla Gestssyni safnverði, Jóhanni Briem listmálara og dr. Jóni Jóhannessyni. Fundust þá nokkrir munir í rústinnni og ber þar helst að nefna hluta af líkneski heilagrar Barböru. Líkneskið var úr grágulum leirsteini og var einungs um 3.3. cm á hæð, en hefur líklega verið um 5.5. cm heilt. Þar sem hraunið sem kapellan stendur á er yngra en landnám var það vel við hæfi að einmitt heilög Barbara fanst þarna, sem e.t.v. stendur í sambandi við bæn um það, að svona hrikalegt hraunrennsli endurtaki sig ekki. Styttan sem fannst við rannsóknina er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands, en þessi hérna er eftir líking, svipuð en lítið eitt stærri.
Kapella þessi var alveg við gamla veginn og hefur því líklega einnig verið eins konar sæluhús. menn hafa farið þar inn til að bilja bæn sína, en líka til að hvílast eða leita skjóls í vondum veðrum.

Kapella

Upplýsingaskilti Byggðasafnsins við kapelluna.

Kapella þessi er á skrá yfir friðlýstar fornminjar og er talið að hún sé frá kaþólskum tíma en ekki hefur hún verið aldursgreind nánar. Hraunið umhverfis kapelluna hefur verið kallað Kapelluhraun eða Nýjahraun og er talið að það hafi runnið einhvern tímann á tímabilinu 1100-1300. Kapellan er rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur var fljótlega eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið úr á nes öldum saman.

Saga heilagrar Barböru:
Snemma á 3. öld var höfðingi í borginni Nikódemdíu í Litlu-Asíu, þar sem nú er Izmid í Tyrklandi. Átti hann forkunnarfríða dóttur er Barbara hét. Hún var í æsku lokuð inni í turni einum til að forðast biðla en þrátt fyrir einangrunina tókst Origenes kirkjuföður að komast inn til hennar og fyrir fortölur hans tók hún kristna trú. Barbara lét aldrei af trú sinni, þrátt fyrir pyntingar sem að stærstum hluta voru gerðar að kröfu föður hennar, sem vildi snúa henni aftur til heiðinnar trúar. Að lokum var hún leidd fyrir dómara og dæmd til lífláts í ofsóknum á kristna menn.
Hún varð snemma kaþólskur dýrlingur, aðallega ákölluð við óvænta hættu, eldsvoða, sprengingar og þess háttar. Hérlendis lá því beint við að ákalla hana í sambandi við jarðelda og hraunflóð.”

Sjá meira um kapelluna HÉR.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.