Sótaleiði

Kristján Eldjárn skrifar í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1981 um “Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi”. Þar getur hann m.a. um svonefnt “Sótaleiði”:

sotarleidi-1“Ath.: Ekki er nú vitað hvar Grímur Thomsen lét heygja hest sinn Sóta, framar en segir í Sjósókn, bls. 46, ,,í túninu fyrir norðaustan staðinn”. Í umtali er þetta stundum kallað Sótaleiði (47) [51], sem virðist mega telja með örnefnum.
Ókunnugt er mér, hvar Fálkahúsið stóð, eins og svo margt í fyrri tíðar húsaskipan á Bessastöðum.”

Í Sjósókn segir: “Árið 1663 skipaði konungur svo fyrir, að bjóða skyldi höfuðsmanninum á Bessastöðum alla hesta, sem ætlað væri að selja til útlanda. Nokkrum árum seinna (1574) bað konungur að senda sér til Hafnar 10 eða 12 graðfola og reiðhest góðan, og átti hann þá allmargt fyrir íslenska hesta. Kristján IV. fékk einnig íslenska hesta. Herluf Daa keypti fyrir hann á Bessastaðaárum sínum 10 hesta og greiddi 12 rd. fyrir hvern þeirra. Oft er endranær getið um hesta á Bessastöðum.
Sotaleidi-3Einn frægur gæðingur var þar löngu seinna, og er hann heygður með öllum reiðtygum í túninu á Bessastöðum. Það er Sóti Gríms Thomsen, einn frægasti góðhestur síns tíma, hornfirzkur að ætt. Hann var hár og langur, faxfagur og taglprúður, bar sig hátt að framan og greiddi sig vel, afburða skeiðhestur, fótviss og fótsterkur, ferðmikill og vakur, en styggur nokkuð og geðríkur og bráður, og þýddist ekki aðra en Grím sjálfan. Grímur hafði haft hann með sér til útlanda og síðan aftur heim til Bessastaða og hélt hann þar í 15 ár í miklu eftirlæti og ól hann á úrvalstöðu og nýmjólk.
Um Sóta orti Grímur þetta:
Sanda þylur, sverfir mél,
Sóti mylur grjótið vel,
fótaskilin fljót sem él,
fer sem bylur yfir mel.
Sjálfsagt er það einnig hugsunin um Sóta, sem kemur óbeinlínis fram í kvæðinu um Skúlaskeið. – Sóti var felldur 27 vetra, árið 1882, og kom Grímur þar hvergi nærri, en gekk síðan að opinni gröfinni og stóð þar agndofa um stund, og flóðu tár um vanga hans. Síðan gekk hann þögull inn í bæ aftur, en haugur var orpinn yfir Sóta.”
Bessastadanes-230Þegar loftmynd var skoðuð af Bessastöðum mátti sjá tvær greinilegar haugmyndanir í túninu norðaustan við Bessastaðastofu, hlið við hlið. Eftir að haft hafði verið samband við ráðsfólkið á Bessastöðum var ákveðið að skoða vettvanginn með hliðsjón af framangreindu. Myndanirnar reyndust vera þrær (þó sennilega sú vestari gamall byrgður brunnur). Norðaustar var hins vegar komið að manngerðum hól í túninu er líklegur megi telja “Sótaleiði”.
Dr. Gr. Th. minnist á ratvísi hesta, skýrir frá ýmsu og segir svo: „Hest hefi eg átt, sem var svo veg viss og ekki einasta vegvís, að hann tók sína vanaspretti, eins í dimmu sem björtu, og vissi eg á stundum ekki, hvar eg var, fyrr en hann tók sprettinn; eg var sem sé vanur að láta hann skeiða og stökkva til skiftis, og vissi eg þá hvað leið, eftir því sem hann gfeip stökk eða skeið. Aldrei varð eg þess var, að hann drægi neitt af sér skeiðið, þótt niðamyrkur væri, en hann stökk hægra. Einu sinni datt hann með mig í alla þá tíð, sem eg átti hann (25 ár). Svo stóð á, að eg lét eitt sumar heyja á Elliðavatnsengjum; reið eg upp eftir í bezta veðri, en um daginn gerði nokkrar skúrir, og urðu götur sleipar; á heimferðinni um daginn missti hann allra fjögra fóta utan í Vífilsstaðahálsi og skall með mig á hliðina. Reið eg sömu leið eftir það, en svo var klárinn minnugur, að nær sem hann kom á þann stað á hálsinum, sem hann fallið hafði, fór hann að frísa og skjálfa. Seinasta sumarið, sem hann hann lifði, lofaði eg honum að standa í túninu; var hann orðinn svo tannlaus, að hann náði ekki til grasa, nema loðið væri.
Fólk mitt reyndi stundum til að reka hannskolavardan-2 úr túninu; þótti því, eins og von var, ekki beysinn búskapur, að láta hest standa í túninu um hásláttinn. En klárinn hafði tekið eftir því, að eg amaðist ekki við honum, þótt hann leitaði sér bjargar, þar sem hana var að fá, því að eg kom stundum út í tún til hans og spjallaði við hann. Gaf hann því engan gaum að því, þótt sigað væri á hann hundum; hann hljóp að eins heim á hlað, eins og hann væri að skjóta máli sínu til æðra dóms, enda vann hann málið.” Orð dr. Gr. Th. um Sóta í „Dýravininum” ná eigi lengra en þetta. En hér er að líta frásögn merkismanns, byggða á orðum dr. Gr.: „Þessa sögu kann eg um Bessastaða-Sóta, og sagði Grímur Thomsen mér sjálfur. Þeir Grímur og Sóti áttu oft leið saman milli Bessastaða og Reykjavíkur. Það varð að fastri venju á þeirri leið, að Sóti skifti um gang á vissum stöðum, svo að í hverri ferð fór hann sama spölinn á sama gangi. Milli Eskihlíðar og Skólavörðu fór hann t. d. ávallt á stökki. Þetta var Sóta orðið svo tamt, að ekki þurfti á að minna. En annars hafði Grímur þann sið að gefa Sóta merki með því að skella tungu í góm, þegar hann vildi láta hann taka til stökksins.
Einu sinni reið Grímur með kunningja sínum frá Bessastöðum til Reykjavíkur. Ekki man eg nú, hver sá maður var, en hann var hestamaður og reiðmaður góður. Fannst honum til um Sóta, dáðist að skeiði hans, og mátti heyra, að hann fýsti að koma á bak honum. Ekki segir af ferðum þeirra, fyrr en þeir komu á þann stað, er Sóti var vanur að taka síðasta stökk-sprettinn á leið til Reykjavíkur. Eg man ekki hvort það var hæst í Eskihlíð eða vestan við hlíðina. Þar stigu þeir af baki, og bauð þá Grímur samferðamanni sínum að koma á bak Sóta, og ríða honum ofan að Skólavörðu. Því boði var tekið með þökkum. „En ekki mun Sóti skeiða undir þér,” segir Grímur. Hinum þótti sú spá ekki trúleg, því að ekki hafði Sóti verið tregur til kostanna undir Grími, og það á verra vegi en nú var fram undan. „Eg heiti á þig,” segir Grímur, „þú mátt eiga klárinn, ef þú nær skeiðspori úr honum áður en við komum niður hjá Skólavörðu.”
Bessastadanes-229Ekki ræddu þeir þetta lengur, en höfðu hestaskifti og stigu á bak. Grímur var á hlið við Sóta, þegar þeir lögðu af stað, og skellti í góm, svo að lítið bar á, en þó svo, að Sóti myndi heyra. Sóti tók sprettinn og linnti ekki stökkinu, fyrr en þeir námu staðar hjá Skólavörðunni, og ónýtti þannig áheit Gríms, eins og til var ætlað. (Hruna, 11. júlí 1929. – Kjartan Helgason.)”
Örkula vonar er eigi um að enn kunni að geymast meðal góðra manna sagnir um Sóta, þær sem byggðar eru á orðum dr. Gr. Th. Verða þær fluttar, eftir því sem við má komast, áður en raktar yrði aðrar sagnir um Sóta, svo sem á var vikið að framan. – E.Þ.”

Kristján minnist hins vegar í skráningu sinni ekki á hugsanlega selstöðu minjar undir lágum ísaldarhrygg sunnan við Litlumýri. Þar vottar fyrir tveimur þúfnagrónum þyrpingum. Ekki er hægt að greina veggi í þeim svo, ef þetta eru minjar, virðast þær mjög gamlar. Ofar, á hryggnum, eru greinilegar leifar vörðu. Á milli hennar og þyrpinganna efst í mýrinni, má merkja leifar af garðhleðslum.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska forleifafélags, Kristján Eldjárn, Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi, 78. árg. 1981, bls. 139.
-Sjósókn, bls. 46.

Bessastaðir

Bessastaðir.