Arnarnes

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ 2009 er m.a fjallað um Arnarnesbæina, Arnarnes og Litla-Arnarnes:

1703: Konungseign. JÁM, III, 227.
1918: “Tún er …sléttað, farið að þýfast, telst 4 teigar. Kálg. 900 m2”

Arnarnes

Arnarnesbærin og nágrenni.

“Arnarnesbær stóð í Arnarnestúni, …” segir í örnefnalýsingu GS. Á túnakorti frá 1918 eru sýnd á bæjarstæðinu allmörg lítil hús, aðallega í tveimur röðum samhliða. Arnarnesbærinn var áður um miðja vegu á útivistarsvæði sem liggur suðvestur af baklóðum Blikaness 5 og 7 og niður að sjó.
Þar sem Arnarnesbærinn var áður er nú sléttað, grænt útivistarsvæði, með fótboltavelli og róluvelli.
Útivistarsvæðið er rammað inn af íbúðabyggð til allra átta, nema að suðvestan en þar liggur það að Arnarnesvogi.
Ekki sést til bæjarhólsins, en flötin er þó ekki fullkomlega rennislétt heldur eru á henni nokkrar mjög lágar aflíðandi bungur sem renna fyllilega inn í umhverfið. E-ð af þeim misfellum gætu verið leifar þess efnis sem rutt var þegar bæjarhólinn var sléttaður, en það gerðist að líkindum þegar farið var að byggja á Arnarnesinu á sjöunda áratugnum.

Í fógetareikningum fyrir árin 1547-48,1548-49, 1549-50, og 1550 er getið um 2 kirkjukúgildi í Arnarnesi. Staðsetning bænhússins/kirkjunnar er ekki þekkt, en þó er hugsanlegt að bænhúsið/kirkjan sé í Smiðjuhól, sbr. álögin.

Arnarnes

Arnarnes – túnakort 1918.

Á túnakorti frá 1918 sést útihús 120-130 m norður af bæjarhúsum Arnarness. Útihúsið var líklega þar sem nú stendur íbúðarhúsið að Blikanesi 11 eða 13. Þar sem útihúsið var áður eru nú steypt einbýlishús með kjallara, umkringd trjágrónum lóðum.

Á túnakorti frá 1918 sést útihús áfast við túngarð um 140 m norður af bæjarhúsum Arnarness. Útihúsið var líklega þar sem nú stendur íbúðarhús að Blikanesi 10. Þar sem útihúsið var áður stendur nú steypt einbýlishús með kjallara, umkringt trjágróinni lóð.

Arnarnes

Þormóðsleiði.

Þormóðsleiði/Þormóðsdys er “á háholtinu vestan [Hafnarfjarðarvegar]. Þar er stór þúfa, og liggur alfaraleiðin rétt hjá. Hér er Þormóðsleiði eða Þormóðsdys. Enn vestar er svo Kulhesleiði eða Kulhesdys. Þormóður var dæmdur á Kópavogsþingi til lífláts fyrir þjófnað, en Kulhes, þýzkur maður, dæmdur þar fyrir mannvíg. Vó mann, íslenzkan, á Bessastöðum,” segir í örnefnalýsingu.

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll við Arnarnes.

“Smiðjuhóll er hóll suðaustur frá bænum í túninu. Á hólnum eiga að vera mikil álög og hörð ummæli. Við honum má ekki hrófla, og hann mátti ekki slá.” segir í örnefnalýsingu. Smiðjuhóll var áður þar sem nú er sléttað útivistarsvæði á vestanverðu Arnarnesi. Smiðjuhóll var norðvestur af Hegranesi 24 og suðvestur af Blikanesi 3. Hóllinn hefur að líkindum verið um 50 – 60 m ASA af bæ.
Smiðjuhóll sést ekki í dag og hefur honum að líkindum verið rutt niður og jafnaður út.

Arnarnes

Arnarnessker.

“Vestan túns er svo Nesið og fer lækkandi niður að sjó. Framan við það er Arnarnessker. Þar var þangtekja býlisins,” segir í örnefnalýsingu. Arnarnessker (Arnarneshólmi) gengur norðvestur út af Arnarnesi, nánar tiltekið norðvestur af götunni Mávanesi, en baklóðir hennar liggja að sjó.
Lágur tangi og sker skammt undan honum, sem er laust frá landi. Tanginn er alþakinn fersku þangi og fer hann undir sjó á flóði.

Arnarnes

Arnarnes – Gvendarbrunnur.

“Nokkru þar fyrir innan [Bæjarsker], spöl uppi í holtinu, er Gvendarbrunnur, lind sem Guðmundur biskup góði á að hafa vígt. Frá brunninum rennur Brunnlækurinn til sjávar,” segir í örnefnalýsingu. “Gvendarbrunnur er á há-Arnarneshálsi.” segir í örnefnalýsingu AG. “Gvendarbrunnur er sunnan vogsins, í hálsbrúninni, rétt upp af svo-kölluðum Bæjarsteinum, sem eru þar úti í leirunni, og er lítil laug skammt framar í vognum, að sögn Þuríðar [Guðmundsdóttur, f. 21.9.1855 í Kópavogi]. Þarna á að hafa verið bær í fyrndinni [líklega átt við Arnarneskot]. Mun það hafa verið þar sem enn er mjög grasgefinn mói, rétt við voginn. Ekkert sést þar til tófta. Við brunninn, sem er raunar dálítil lind, er lagleg eggslétt grasflöt. Brunnurinn er sjálfsagt kenndur við Guðmund biskup góða, eins og aðrir Gvendarbrunnar.” Gvendarbrunnur er um 10 m austur af Súlunesi 27, á óbyggðri lóð Súluness 29.

Garðabær

Þorgautsdys.

“Þar enn innar með fjöru er svo Arnarneskot, Arnarnes gamla eða Arnarnes litla,” segir í örnefnalýsingu. “[Þorgautsdys] er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður [Guðmundsdóttir, f. Í Kópavogi 21.9.1855] kvað svo heita. Þar sést enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.” Bæjarstæði Litla Arnarness er ríflega 50 m NA af Súlunesi 33, á austurströnd Arnarness við Kópavog suðanverðan.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði. Kópavogur fjær.

Bæjarhóllinn er algróinn grasi og lyngi. Næstum fast við hólinn að norðanverðu er ógróinn, rofinn bakki, 4 m hár, sem liggur niður að strönd.
Hóllinn er sýnilega 13×13 m að stærð, en fornleifarnar kunna að ná yfir stærra svæði þótt hóllinn renni saman við umhverfið. Hann er mest um 1,3 m á hæð. Hólinn er þýfður og ójafn, en þó er greinilegt eitt hólf á honum miðjum, sem er um 3×2 m og snýr N-S. Þó er hólf þetta jafnframt þýft og ólögulegt. Ekkert grjót sést í hólnum og ekkert sem bendir til fornleifa (s.s. Viðarkol eða aska) sést í sárinu á rofabarðinu norðan við hólinn. Gömul leið liggur framhjá hólnum að sunnan (snýr A-V) og leifar túngarðs eru skammt frá.

Arnarnes

Arnarnes – Kulhesdys.

“Ofan til við [Arnarneskot] er dys, nefnist Þorgautsdys. Þar var réttaður þjófur, og gekk hann mjög aftur og var lengi á ferli í Seltjarnar- og Álftaneshreppum,” segir í örnefnalýsingu. “Neðar [en Kulhesdys], á norðanverðum hálsinum. Kvað [Þuríður Guðmundsdóttir, f. Í Kópavogi 21.9.1855] vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388-91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá að sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaksmál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi …”

Arnarnes

Arnarnes 1958 – loftmynd. Gatan upp frá Litla-Arnarnesi sést vel vestan Hafnarfjarðarvegar.

Merki dysjarinnar eru enn greinileg um 20 m norðan við Hafnarfjarðarvegi en um 5 m norðan við hljóðeinangrandi upphækkun sem liggur meðfram veginum. Dysin er um 65 m austan við Súlunes 26 og hefur að líkindum verið 10-20 m suðaustan við gömlu alfaraleiðina. Að líkindum er þetta Þorgarðs-/Þorgautsdys en sagnir eru um þrjár dysjar á þessum slóðum. Hinar tvær hafa líklega verið ofar á hálsinum. Guðmundur Ólafsson skráði staðinn 1983 fyrir Þjóðminjasafn Íslands og taldi að um Þorgarðsdys væri að ræða.
Umhverfis eru lyngi, mosa og grasi vaxnir móar í aflíðandi halla að sjó.
Dysin er sporöskjulaga og samanstendur af fremur smáum, ávölum steinum. Flestir steinanna eru um 20 cm í þvermál en nokkrir stærri steinar eru í ysta lagi dysjarinnar. Steinarnir eru vaxnir mosa og skófum. Svo virðist sem einhvern tíma hafi verið rutt úr dysinni eða hún rænd/skemmd með öðrum hætti. Þó stendur hún hærra en umhverfið, mest um 0,3 á hæð. Lyng og annar gróður vex yfir jaðar dyjarinnar. Stærð hennar nú er um 5X4 m.

Arnarnes

Gamla þjóðleiðin frá Kópavogi yfir Arnarnesháls. Litla-Arnarnes t.v.

“Frá Danskavaði lá alfaraleiðin með vognum sunnan og ofan Arnarneskots upp holtið á Arnarneshálsi.” – “Framan í Arnarnesbrekku var á veginum, fram til áranna 1940 – 1945, Arnarnesess.” – “Síðan lá gatan áfram inn með holtinu, sem nefndist Móholt.” – “Alfaraleiðin lá niður af holtinu, niður með túngarði, niður að Arnarneslæk,” segir í örnefnalýsingu. Gamla alfaraleiðin er enn greinileg austan við Súlunes og að Hafnarfjarðarbraut. Samkvæmt heimildamanni lá leiðin þaðan framhjá Tjaldhól, yfir Arnarneslækjarvað, meðfram ströndinni yfir Strympumel, Neðrifossavað og út á Garðabæjarhraun og áfram út á Álftanes (og kallaðist þá Álftanesgata).

Arnarnes

Arnarnesbærinn 1958 – loftmynd.

Greinilegust er leiðin vestast. Þar sést hún fyrst skammt austan við Súlunes 26 og liggur í rúma 30 m áður en hún er rofin af vegruðningi sem rutt hefur verið upp í framhaldi af malbikaðri götu Súluness. Þessi vestasti hluti er mjög skýr. Þar er gatan nokkuð breið og allt að 1,4 m frá botni hennar og upp á norðurbarminn. Leiðin er rofin á um 25 kafla en heldur svo áfram til austurs, nokkuð grynnri og ógreinilegri en vestast. Gatan liggur þaðan, óslitin allt að Hafnarfjarðarbraut eða tæpa 200 m. Á þessum kafla er slóðinn yfirleitt fremur grunnur eða innan við 10 cm djúpur. Undantekning er þar sem slóðinn liggur sunnan í bæjarhól Litla-Arnarness frá áætluðum lóðamörkum lóðar 33 við Súlunes og að túngarði Litla-Arnarness. Á þessum slóðum eru allt að 1,5 m frá botni slóðans og að brúnum hans.
Greinilegt er hvar slóðinn liggur yfir túngarðinn. Slóðinn sást á Strympumel þar til fyrir um 20 árum, en var skt. heimildamanni eyðilagður af jarðýtum í e-m framkvæmdum.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Wegenerstöpull er á horni Hegarness og Arnarness. Stöpullinn stendur við gangstétt. Steinsteyptur stöpull, ferkantaður. Rúmlega 3 m hár og um 1×1 m að flatarmáli. Reistur af Alfred Wegener í apríl 1930 í tengslum við landrekskenninguna. Stöpullinn er ekki fornleif en hefur ótvírætt menningarsögulegt gildi.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Arnarnes

Arnarnes 1968.