Smalaholt

Valdimar Samúelsson fann “tvær holur upp á Smalahól/hæð fyrir ofan Garðabæ og norðan við Vífilstaðavatn. Önnur var á bergi undir steini sem var auðsjáanlega grunnur ásamt öðrum steinum af ókláraði vörðu en hin var austan til í hæðinni sem snýr að radíómöstrunum. Hjá þeirri holu var auðsjáanlega mjög gömul meitluð mynd að krjúpandi meyju í bænastöðu. Við þennan stað voru líka tveir skútar, líklega fyrir smalastráka eða ferðamenn.”

Myndin

FERLIR fór á staðinn til að skoða aðstæður sem og verksummerki.
Smalaholt er að mestu leyti (vestanvert) í landi Garðabæjar, upp af Vífilsstaðavatni, en austasti hluti þess er í Kópavogi. Mörkin eru um háhæðina (steinsteyptur stöpull – hæðarpunktur). Af henni sést vel til vesturs niður að Vífilsstöðum. Vestan við landamerkjastöpulinn eru hleðslur vestan undir hloti. Þær eru greinilega nýlegar og lítt vandað til verksins.
Í austur frá stöplinum (Kópavogsmegin) er afmörkuð lág klapparhæð í holtinu mót Rjúpnahæð. Klöppin er jökulsorfin líkt og aðrar klappir þarna – en vel afrúnuð. Hallar undan til austurs, að Rjúpnahæð. Þannig er klapparholtið hæst mót austri. Útsýni er þarna allt til Vífilsfells.
Þar sem klappirnar eru hæstar í holtinu er klöppuð nokkuð stór mynd á vegginn. Myndin er af sitjandi konu að því er virðist á bæn. Hún er formleg og vandað hefur verð til verksins. Myndin er duglega klöppuð í harða grágrýtisklöppina. Inn með henni er sprunga – gott skjól. Austan við hana er lítill skúti, sem myndast hefur þegar jökullinn færði til og lagði stein yfir annan.
Staðsetning myndarinnar á bergveggnum er sennilega engin tilviljun. Hún hefur verið meitluð þarna í ákveðnum tilgangi. Um aldur hennar er erfitt að segja, en hún virðist hvorki vera mjög gömul né nýleg. Vegna þess hve djúpt myndin er mörkuð og útlínur, t.d. höfuðsins þar sem þurft hefur til góð áhöld, er sennilegt að hún hafi verið gerð á fyrri hluta eða um miðja 20. öldina. Annars væri fróðlegt að fá upplýsingar frá einhverjum sem þekkir til eða veit umtilvist þessarar myndari á klapparholti Smalaholts. Ekki er ólíklegt að hún geti tengst einhverju (einhverri) er dvaldi vegna berklasjúkdóms að Vífilsstöðum og hefur viljað eiga þarna stund með sjálfum sér.
Svæðið Árið 1906 var Heilsuhælisfélagið stofnað að forgöngu Guðmundar Björnssonar þáverandi landlæknis með það að markmiði að reisa fullkomið heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Miklu fé var safnað á skömmum tíma víðs vegar um land og jafnvel Íslendingar í Vesturheimi tóku þátt í fjársöfnunni. Hælinu var valinn staður á Vífilsstöðum og gengu framkvæmdir það vel að hægt var að vígja það árið 1910. Árið 1916 tók hið opinbera við rekstri hælisins en fram að því sá Heilsuhælisfélagið um reksturinn með styrk úr landssjóði. Vífilsstaðir voru byggðir fyrir um 80 sjúklinga en árið 1922 voru sjúklingar að meðaltali 130 á dag og átti þeim en eftir að fjölga. Á árunum 1919-1920 var byggt íbúðarhús fyrir yfirlækni en við það jókst húsnæði á hælinu og barnadeild tók til starfa. Börn urðu oft fórnarlömb berklanna. Töluvert bar á því að fólk sem hafði fengið góðan bata eftir langa hælisvist, veiktist aftur af völdum lélegs aðbúnaðar. Kom því upp sú hugmynd meðal berklasjúklinga að stofna samtök sem myndu vinna að hagsmunamálum sjúklinga. Stofnuð voru hagsmunasamtök berklasjúklinga á Vífilsstöðum þann 24. október árið 1938 og fengu hin nýju samtök nafnið Samtök íslenskra berklasjúklinga, skammstafað SÍBS. Fyrsti yfirlæknir hælisins var Sigurður Magnússon.
HoltiðVífilsstaðir voru berklahæli fram undir 1970 en þá var nafninu breytt í Vífilsstaðaspítala. Vífilsstaðir eru nú hluti af Landsspítala – háskólasjúkrahúsi og eru þar starfræktar nokkrar deildir t.d lungnadeild og húðlækningadeild.
Ástæða myndarinnar gæti t.d. verið sú að þarna hafi einhverjum (einhverri), líklega frá heilsuhælinu að Vífilsstöðum, þótt við hæfi að eiga hljóða stund með sjálfum (sjálfri) sér, ekki síst vegna veikinda sinna. Myndin hefur þá verið til áminningar eða áheits um væntingar viðkomandi. Hún gæti og verið til minningar um atburð eða upplifun eða jafnvel, sem ekki er ólíklegt miðað við höfuðumbúnað myndarinnar, að einhver hafi, eftir upplifun eða skynjun, viljað benda öðrum á að þarna kynni að búa vera eða verur, sem ástæða væri til að sýna nærgætni, t.d. álfar eða huldufólk.
Víða í Kópavogi eru m.a. þekktir búsetustaðir álfa og huldufólks, s.s. í Einbúa, Álfhól, Digranesi og Kársnesi. Bæjaryfirvöld og íbúar bæjarins hafa staðið dyggan vörð um þá staði, sem þeirra hefur orðið vart, og gætt þess að raska þeim ekki umfram brýnustu nauðsyn.
MyndinVegna staðsetningarinnar, jafnvel þótt myndin hafi verið gerð í kristni, er við hæfi að rifja upp elstu og nærtækustu sagnir Smalaholtsins, enda útsýni þaðan frábært til yfirlits þeirrar söguskoðunnar.
Eins og flestum er orðið kunnugt þá var Vífill annar þræll Ingólfs, þess fyrsta norræna landnámsmanns á þessu svæði, og var augljóslega sáttari en Karli þrælsfélagi hans við þau heimkynni sem öndvegissúlurnar ákvörðuðu. Vífill fékk frelsi af húsbónda sínum og farnaðist honum vel. Við hann eru kennd Vífilsfell og Vífilsstaðir þar sem hann átti bú. Er hann í Landnámu kallaður “skilríkr maðr”, líkt og svo margir Garðbæingar er á eftir komu.
Í Landnámu (Sturlubók) segir um Vífil þennan: “Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár…
Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs…
Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði…
Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út…
Þá mælti Karli: “Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta. Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.”
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir af Sviða nokkrum svo og nefndum Vífli: “Eitt með dýpstu fiskimiðum á Faxaflóa er nefnt Svið. Er þangað sóttur sjór af öllum Innnesjum sem að flóanum liggja, Akranesi, Seltjarnarnesi, Álftanesi, Hafnarfirði, Hraunum og jafnvel af Vatnsleysuströnd. Sviðið hefur jafnan verið eitthvert fiskisælasta djúpmið á flóa þessum og er til þess saga sú sem nú skal greina.
Sviðholt er bær nefndur; hann stendur hér um bil á miðju Álftanesi. Það er talin landnámsjörð þó hennar sé ekki getið í Landnámu. Þar byggði sá maður fyrst er Sviði hét og kallaði bæinn eftir sér Sviðholt.
Bær heitir Vífilsstaðir og er landnámsjörð; þar gaf Ingólfur Arnarson í Reykjavík Vífil húskarli sínum bústað; en Vífill gaf bænum aftur nafn af sér og bjó þar síðan.
Vífilsstaðir er efstur bær og austastur upp með Garðahrauni að norðan og lengst frá sjó af öllum bæjum í Garðasókn á Álftanesi og hér um bil hálfa aðra mílu frá Sviðholti.
Það er mælt að þeir Vífill og Sviði hafi róið saman tveir einir á áttæringi og hafi Vífill, þó hann ætti margfalt lengri skipgötu en Sviði sem bjó á sjávarbakkanum að kalla, ávallt farið heim og heiman í hvert sinn sem þeir réru.
Sumir segja að Sviði hafi verið formaðurinn, en aðrir að Vífill hafi verið það og þykir mega marka það af því sem nú skal greina að Vífill hafi verið formaður:
Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn. Vífilfell er hæst af fjöllum þeim sem verða á vinstri hönd þegar riðið er yfir Hellisheiði suður í Reykjavík, og dregst það mjög að sér ofan.
VífilsstaðirÞó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum en til sjávar gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið til að gá til veðurs áður en hann fór að róa og réri ekki ef hann sá nokkra skýská á lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum.
En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og réri með Sviða, og þykir þetta benda til þess að Vífill hafi álitið það skyldu sína sem formaður að gá að útliti lofts áður en róið væri.
Einhverju sinni kom þeim lagsmönnum Vífil og Sviða ásamt um að þeir skyldu búa til mið þar sem þeir yrðu best fiskvarir. Er þá sagt að Sviði hafi kastað heiman að frá sér langlegg einum og kom hann niður fjórar vikur sjávar frá landi, og heitir þar nú Sviðsbrúnin vestri. Vífill kastaði og öðrum langlegg heiman að frá sér og kom hann niður viku sjávar grynnra eða nær landi; dró hann af því ekki eins langt út og Sviði að vegamunur er svo mikill milli Sviðholts og Vífilsstaða á landi. Þar heitir nú Sviðsbrún (hin grynnri) sem leggur Vífils kom niður. Var þannig vika sjávar milli leggjanna, eins langt og nú er talið að Sviðið nái yfir frá austri til vesturs. Allt svæðið milli leggjanna kölluðu þeir Svið og mæltu svo um að þar skyldi jafnan fiskvart verða ef ekki væri dauður sjór í Faxaflóa.”
Sagan segir að á þenna hátt mynduðust Sviðsbrúnirnar, fræg fiskimið Álftnesinga. Til fróðleiks má geta þess að ef Vífill hefur þurft að ganga á Vílfilsfell frá Vílfilsstöðum til að gá til veðurs fyrir róður hefur honum alls ekki unnist tími til róðra – jafnvel þótt hann hafi bæði vaknað snemma og farið hratt yfir. Ef Vífill hefur hins vegar látið sér nægja að ganga upp á Smalaholt, sem gæti hafa heitið Vífilsholt (-fell) fyrrum, hefur hann vel getað séð allt það skýafar eða veður er hann annars hefði séð af Vífilsfelli – snökktum styttri vegarleng, en hún hefði nægt honum til áframhald þeirra starfa svo sem sagan segir.
En aftur að Smalaholti. Skammt austan við klapparhæðina hefur verið tekin prufuhola, líklega til að kanna jarðveginn. Samkvæmt fundargerð skipulagsnefndar Kópavogs 8. mars 2006 kemur fram að breyting á aðalskipulaginu. “Breytingin felst í því að skilgreind eru ný íbúðarsvæði í Hnoðraholti, Smalaholti og Rjúpnahæð.” Af þessum áætlunum að dæma er vá fyrir dyrum, nema vitund vakni og vandað verði til verka í næsta nágrenni holtsins margnefnda. Yfirvöldum og starfsfólki Kópavogsbæjar ætti að vera vel treystandi til þess ef tekið er mið af fyrri verkum þess.
Ljóst er að myndin á hinni litlu og afmörkuðu klöpp Smalaholts er minning, áheit, von eða áminning um eitthvað, sem hugur viðkomandi “listamanns” hefur viljað tjá í steininn. Það er okkar, eftirlifandi við sæmilega heilsu, að virða ábendinguna og varðveita svæðið er nemur klapparholtinu.

Heimildir m.a.:
-Landnáma (Sturlubók).
-http://saga.khi.is/valkostir/heilsuhaelin.htm
-gardabaer.is
-kopavogur.is

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir.