Tag Archive for: Vífilsstaðir

Búrfell

Í Listinni að lifa árið 2007 er grein eftir Sigurð Björnsson; „Gengið um Garðabæ„.

„Garðabær er hluti af Álftaneshreppi hinum forna, sem fyrst var skipt árið 1878 í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Síðar var Hafnarfjörður skilinn frá Garðahreppi og fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Þessi sveitarfélög heita nú Garðabær, Hafharfjarðarkaupstaður og Sveitarfélagið Álftanes.

Garðabær

Umhverfi og ásýnd Garðabæjar mótast að verulegu leyti af hrauninu, sem brann fyrir um það bil 7200 árum og rúmlega 3000 árum eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Hraun þetta rann frá eldvarpinu Búrfelli, sem er suðvestan Heiðmerkur, 7,2 km í suðaustur frá Garðatorgi og 2,5 km norðaustur frá Helgafelli, sem er móbergsfjall myndað í eldgosi undir jökli á síðustu ísöld. Búrfellshraunið heitir ýmsum nöfnum eftir því hvar menn eru staddir hverju sinni, svo sem Smyrlabúðarhraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Garðahraun og Gálgahraun. Hluti Búrfellshrauns rann einnig vestar og heitir þar ýmsum nöfnum, sem ekki verða rakin hér, nema hvað Hafnarfjarðarhraunið er hluti þess.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Hér er því hvorki skortur á hraunum né örnefnum. Tómas Guðmundsson skáld komst snilldarlega að orði þegar hann sagði í kvæði sínu, Fjallganga: „Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt.“
Mér er ætlað að rekja hér örnefni og greina frá kennileitum í Garðabæ frá fjöru og fram til fjalla. í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar eftir Guðlaug Rúnar Guðmundsson er örnefnaskrá á 78 blaðsíðum svo ljóst má vera, að hér verður aðeins stiklað á stóru í stuttri grein. í þeirri bók geta þeir, sem áhuga hafa, aflað sér nánari fróðleiks um Garðabæ og örnefni þar.

Skógtjörn

Við Skógtjörn.

Mörk Garðabæjar og Álftaness liggja um tvær tjarnir, Lambhúsatjörn og Skógtjörn. Eiðin, sem áður skildu þessar tjarnir frá sjó, eru nú horfin í hafið, þannig að þær eru raunar báðar orðnar að vogum. Afrennsli frá Skógtjörn var til suðurs um Oddakotsós við miðbik tjarnarinnar og lágu hreppamörkin um ósinn. Vestan óssins var Hliðsnesið í Bessastaðahreppi með samnefndum bæ, og lá nesið til suðurs frá Álftanesinu. Hafið rauf eiðið norðan bæjarins og stóð hann þá á eyju, erfiðara varð um aðföng og róa þurfti með börnin á báti til þess að þau kæmust í Bjarnastaðaskóla.

Hliðsnes

Hliðsnes – loftmynd 2023.

Fyrstu jarðýturnar í eigu Íslendinga komu til landsins 1942 og eina þeirra, e.t.v. þá fyrstu, áttu bræðurnir Eyþór og Gunnar Stefánssynir frá Eyvindarstöðum á Álftanesi. Þeir voru fengnir með ýtuna til þess ýta upp í gamla ósinn og koma Hliðsnesinu í vegasamband inn í Garðahrepp. Bæjamörkin liggja hins vegar óbreytt, þar sem áður var ósinn suður úr Skógtjörninni. Hér er land allt hægt og sígandi að hverfa í hafið eins og sjá má af því, að bæði á botnum tjarnanna og úti fyrir ströndinni suður af Garðaholti og umhverfis Álftanes eru víða myndarlegir móhleifar, en mór myndast af gróðurleifum í mýrum inni á landi en aldrei í söltu vatni, enda engar gróðurlendur þar.

Álftanes

Álftanes – herforningaráðskort 1903. Hér sjást landamerkimum Skógtjörnina.

Á báðum þessum tjörnum er fjölskrúðugt fuglalíf, einkum vor og haust, þegar norðlægir farfuglar hafa þar viðkomu og er margæsin þar áberandi. Á eiðinu milli Lambhúsatjarnar og Skógtjarnar, hægra megin við veginn þegar ekið er út á Álftanes, er lágur hóll með tóftarbroti. Þarna stóð bærinn Selskarð. Sunnan við Selskarð og austur af Skógtjörninni, vestan Álftanesvegar, heitir Álamýri. Suð-austur frá Skógtjörn rís Garðaholtið. Vestan í holtinu standa Garðar, höfuðból og kirkjustaður frá fornu fari. Garðakirkja var aflögð árið 1914 og um miðja öldina var svo komið að aðeins stóðu eftir grjótveggirnir opnir fyrir veðri og vindum, gluggalausir og þaklausir. Til tals kom að brjóta veggina niður og nota í hafnargarð við Hafnarfjarðarhöfn.
GarðakirkjaÞví menningarslysi var þó forðað, sem betur fer, fyrir atbeina nokkurra góðra manna og þó einkum vegna atorku kvennanna í nýstofnuðu Kvenfélagi Garðahrepps, og fórnfúsra starfa þeirra. Þær endurreistu Garðakirkju og var hún vígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966.
Sunnan og vestan í Garðaholtinu er Garðahverfið. Þarna voru 25 býli og þurrabúðir árið 1868. Mörg þessi býli standa þar enn.
Nyrst i Garðahverfinu, niður undir Skógtjörn, eru Hausastaðir. Þar er minnisvarði um einn fyrsta vísi að reglulegu skólahaldi fyrir börn og unglinga hér á landi.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki.

Þessi skóli var starfræktur á vegum Thorkillisjóðsins árin 1791-1812, en sjóður sá varð til samkvæmt ákvæði í arfleiðslubréfi Jóns Þorkelssonar fyrrum skólameistara í Skálholti og átti hann að standa straum af skólahaldi fyrir fátækustu og mest þurfandi börn í Kjalarnesþingi.
Skammt suðaustur frá Garðakirkju stendur félagsheimilið Garðaholt, sem upphaflega var reist árin 1908-11 sem skóli og þinghús hreppsins. Aukið hefur verið við húsið nokkrum sinnum og hefur það í mörg ár þjónað sem samkomuhús bæjarins. Kvenfélagið sér um rekstur Garðaholts. Örskammt til vesturs frá Garðaholti, neðan við veginn til Hafnarfjarðar, stendir býlið Krókur, sem Garðabær á nú og rekur þar byggðasafn. Fyrri eigendur gáfu bænum húsin ásamt öllu innbúi.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Efst á Garðaholtinu er fagur og mikill skógarreitur. Holtið var áður autt, grýtt og gróðurvana, því þarna næða norðanvindar. Árið 1955 fékk Sigurður Þorkelsson, skipasmiður, þarna land á leigu, girti það og hóf uppgræðslu og trjáplöntun. Hann byggði sér bústað ásamt konu sinni, Kristínu Gestsdóttur, sem nú er nýlátin. Þennan stað gerðu þau að þeim unaðsreit, sem þar er orðinn, og nefndu hann Grænagarð. Á Garðaholti er hringsjá, sem Rótarýklúbburinn í Görðum lét gera. Sigurður Björnsson, verkfræðingur, sá er ritar þessa grein, mældi á holtinu og hannaði hringsjána. Hún sýnir fjallahringinn, hæðir fjallanna og fjarlægðir frá Garðaholtinu. Á skífunni er sólúr.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Nyrst í Garðahrauni, skammt frá Lambhúsatjörn, er hraungúll, sem klofnað hefur og myndar tvo kletta eða þrjá. Klettana notaði Bessastaðavaldið sem aftökustað þeirra ógæfumanna, sem þeir töldu dauðaseka að þeirra tíma reglum og lagabókstaf.

Gálgahraun

Í Gálgahrauni.

Klettarnir nefndust Gálgaklettar eða Gálgaklofningar og hraunið Gálgahraun. Austan Gálgahrauns er Arnarnesvogur. Nyrsta spýja Garðahraunsins skagar í mjóum tanga út milli Arnarnesvogar og Lambhúsatjarnar og heitir þar Eskines.
Suður frá Arnarnesvogi rís Hraunsholtið og austan þess rennur Hraunsholtslækur til sjávar. Hann á upptök sín í Vífilsstaðavatni og nefnist efri hluti hans Vífilsstaðalækur. Lækurinn rennur með hraunjaðrinum sunnan við Flatahverfið. Úti í hrauninu er stakur hóll er nefnist Hádegishóll, eyktamark frá bænum Hraunsholti, og er á bæjamörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Austan við Arnarnesvog er Arnarnesið. Þar sem nú skerast göturnar Arnarnes og Hegranes, stendur „Wegenersúlan“, einn þeirra mælingastöpla, sem þýski visindamaðurinn Alfred Wegener lét steypa vorið 1930 í þeim rilgangi að mæla gliðnun landsins og sanna þar með landrekskenningu sína um rek meginlandanna á jarðarkringlunni. Honum auðnaðist ekki að færa sönnur á þá kenningu, hann varð úti á Grænlandsjökli það sama ár. Kenning Wegeners hefur nú fyrir löngu verið sannreynd með þeim nákvæmu mælingaaðferðum, sem nú eru tiltækar. Flekamót liggja um jarðeldabelti Íslands og Austur- og Vesturland gliðna í sundur til jafnaðar um 2 sentímetra á ári hverju.

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ.

Upp frá Arnarnesvogi og ofan Hafnarfjarðarvegar var byggður fyrsti þéttbýliskjarninn í Garðahreppi og nefnist hverfið Silfurtún. Í suðvestur frá Silfurtúninu rís Hofsstaðahæðin með bænum Hofsstöðum. í Hofsstaðalandi, norður af bænum, er nú risin Vídalínskirkja og safnaðarheimilið Kirkjuhvoll. Örskammt austur af kirkjunni og bænum og við hliðina á nýjum Tónlistarskóla Garðabæjar hafa verið grafnar upp minjar um forna byggð, sem talin er vera frá landnámsöld. Þar hafa bæjaryfirvöld látið gera minjagarð og er allur frágangur til fyrirmyndar og bæði skemmtilegt og stórfróðlegt að kynna sér þá sögu, er þar býr að baki. Suður frá Hofsstöðum stóð býlið Hagakot. Bærinn stóð þar sem nú er Tjarnarflöt 10. Gatan dregur nafn sitt af seftjörn, sem fyrrum var í ofanverðu túninu.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Gunnhildur.

Drjúgan spöl fyrir austan er sagt að Vífill, leysingi Ingólfs Arnarsonar, hafi reist bæ sinn og nefndi Vífilsstaði. Á Vífilsstöðum var reist berklahæli árið 1910. Nokkru austar er svo Vífilsstaðavatnið, en sunnan við vatnið eru Dýjakrókar með uppsprettulindum. Þar er nú vatnsból Garðabæjar og Álftaness, en í vændum er að það verði aflagt innan skamms. Umhverfis vatnið liggur fjölfarinn göngustígur. Frá Vífilsstaðavatni rennur Vífilsstaðalækur, sem fyrr segir, og um mýri suður af Vífilsstöðum, sem nefnist Vatnsmýri. Austur frá Vífilsstöðum og norður af vatninu er hæð, sem nefnist Skyggnir. Smalaholtið rís norðaustan vatnsins, en sunnan þess er Vífilsstaðahlíð og nefndist hún áður Svínahlíð.

Arnarnes

Arnarnes (MWL).

Inn frá Arnarnesi gengur Arnarnesholt og þar fyrir austan er Nónhæð, nú innan bæjarmarka Kópavogs, en eftir að Garðabær og Kópavogur sömdu um breytt bæjamörk hinn 18. maí 1983 skiptir Arnarnesvegurinn nýi löndum inn eftir holtunum innan við Bæjarbraut. Sunnan holtsins rennur Arnarneslækur. Hann á upptök sín í Vetrarmýri, norðan Vífilsstaða, þar sem nú er golfvöllurinn, og rann þaðan norðan Dýjakróka í Stórakrók og niður í Arnarnesvog. Dýjakrókar voru á því svæði þar sem nú er iðnaðarhverfið við Iðnbúð.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Norðan Vetrarmýrar rís Hnoðraholt og dregur nafn sitt af Hnoðranum á norðurbrún holtsins, sem er brattur hóll með dritþúfu. Um Hnoðrann lá fyrrum markalínan milli Vífilsstaða í Garðahreppi og Hvammkots í Seltjarnarneshreppi, en Hvammkot nefndist síðar Fífuhvammur.

Smalaholt

Smalaholt – lágmynd.

Austur af Hnoðraholti er Leirdalur, sem fyrrum virðist að mestu hafa verið í eigu Vífilsstaða en hefur í áranna rás fallið til Fífuhvamms. Suður af Leirdal rís Smalaholtið, sem fyrr er nefnt. Suðaustur frá Smalaholti eru Kjóavellir. Þar er nú hesthúsabyggð.
Sunnan Kjóavalla og suðaustanvert við Vífilsstaðavatn rís Sandahlíðin, hæst hæða á þessum slóðum, 160 m yfir sjávarmáli. Þar uppi er fagurt útsýni til allra átta og blasa þar suðurfjöllin við göngumönnum. Norðan undir Sandahlíðinni er útivistar- og leikjavæði Skógræktarfélags Garðabæjar.

Grunnuvötn

Tóftir við Grunnuvötn.

Lægðin milli Sandahlíðar og Vífilsstaðahlíðar nefnist Grunnuvatnaskarð, en í suðaustur eru Grunnuvötn, tvær tjarnir, sem nú þorna upp á sumrum. Austan við Grunnuvötn rís hæð eða hóll, sem nefnist Arnarbæli, hefur einnig verið nefndur Arnarstapi og Arnarsetur. Á Arnarbæli eru landamörk milli Garðabæjar og Kópavogs og liggja þaðan suður í Húsfell. Suðvestan Grunnuvatna er hæð uppi á Vífilsstaðahlíðinni er nefnist Selás. Suðvestan undir Selási stóð Vífilsstaðasel. Þegar haldið er til suðurs frá Selási göngum við yfir Víkurholt, en þau eru tvö, og komum að Hjöllum. Hjallarnir er misgengisstallur, sem er allt að 60 m hár þar sem hann er hæstur sunnan undir Vífilsstaðahlíð.

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Sprungan við rætur Hjallanna er nærri 5 km á lengd. Berggrunnurinn er grágrýti og hinn sami bæði uppi á Hjöllunum og á landinu, sem sigið hefur sunnan þeirra. Á Hjallabrún, sunnan við Víkurholt, lét Skógræktarfélag Reykjavíkur árið 1967 gera hringsjá, þar sem skoða má fjallahringinn. Næst eru Húsfell, Búrfell, Valahnúkar og Helgafell. Fjær blasa við Hengillinn, Vífilsfell, Bláfjöll, Þríhnúkar, Stóribolli eða Bollinn, Tvíbollar, og Syðstubollar. Vestan við Stórabolla er Kerlingarskarð en milli Tvíbolla og Syðstubolla er Grindarskarð, um það liggur Selvogsgata. Þar fyrir vestan komu Langahlíð, Hellutindar, Fjallið eina, Grænadyngja, Trölladyngja og Keilir.

Grásteinn

Grásteinn í Urriðakotshrauni.

Nú höldum við að nýju norður á móts við norðurenda Vífilsstaðahlíðar, er nefnist Hlíðarhorn. Uppi á Hlíðarhorni stendur varða, sem kallast Gunnhildur. Sjúklingar á Vífilsstöðum, þeir sem voru sæmilega rólfærir, gengu gjarnan upp að Gunnhildi, var haft til marks um heilsufar þeirra, að kæmust þeir þangað upp án þess að spýta blóði, þá væru þeir á batavegi og gætu jafnvel farið heim.

Gunnhildur

Gunnhildur.

Vestur frá Hlíðarhorni rís Urriðakotsholt og vestan undir því er Urriðakotsvatn, vestan þess eru svo Setbergshamar og Setbergsholt. Um þau holt liggja nú bæjamörk Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Áður fyrr var Setbergshverfið í Garðabæ.
Sunnan við Urriðakotsvatn heitir Dýjamýri og sunnan hennar rís Flóðahjalli og syðsti og hæsti hluti þeirrar hæðar nefnist Klif. Sunnan við Klifið kemur svo önnur Sandahlíð, því þær eru tvær með sama nafni á þessum slóðum. Sunnan Urriðakotsholts og norð-austan Flóðahjalla eru Urriðakotsdalir, þar og allt suður undir Sandahlíð hefur regla Oddfellowa búið sér glæsilegan golfvöll. Sunnan þess golfvallar eru þrjár hæðir, sem nefhast Tjarnholt. Sunnan Tjarnholta hefst Reykjanesfólkvangur og þar þekur Smyrlabúðarhraun stórt svæði og nær suður að Smyrlabúð, sem er hæð á Hjallabrún, rúman kílómeter vestan Búrfells.

Heiðmörk

Heiðmörk – tóft.

Suðvestan í Vífilsstaðahlíð hefur vaxið upp gróskumikill skógur sem er hluti Heiðmerkur. Í fyrstu var land Heiðmerkur aðeins innan Reykjavíkur. Sunnudaginn 25. júní 1950 var Heiðmörk opnuð almenningi við hátíðlega athöfn. Hinn 17. október 1957 jók Skógræktarfélag Reykjavíkur við upphaflegt svæði með samningi við stjórn ríkisspítalanna, sem leigði félaginu verulegt land frá Vífilsstöðum, m.a. Vífilsstaðahlíðina. Þessi hluti Heiðmerkur er innan Garðabæjar og 10. maí 1997 keypti bærinn það land af ríkinu.

Maríhellar

Maríuhellar.

Þarna er vinsælt útivistarsvæði og gönguleiðir í skjóli í norðannæðingi. Norður á móts við Hlíðarhorn er ekið inn í Heiðmörkina og liggur vegurinn um hraunið allt suður undir Hjalla. Þegar ekið er inn, þar sem áður var hlið á Heiðmerkurgirðingu, og upp á hraunkambinn verða Maríuhellar á vinstri hönd, rétt við veginn. Þetta voru fjárhellar frá Vífilsstöðum og Urriðakoti. Vestast í Maríuhellum er þröngur gangur niður í manngengan helli, sem liggur langt til norðurs undir Vífilsstaðahrauninu. Gegnt Maríuhellum, sunnan við veginn, er myndarlegur hraunhóll, Dyngjuhóll eða Hádegishóll, eyktamark frá Vífilsstöðum. Vestan undir miðri Vífilsstaðahlíðinni er bílastæði og grillaðstaða og í hlíðinni þar fyrir ofan er trjásýnireitur Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem fróðlegt er að skoða. Göngustígur liggur frá Maríuhellum suður eftir hrauntungunni. Á móts við Tjarnholtin komum við að Selgjá, sem er grunn en nokkuð breið hrauntröð mynduð í Búrfellsgosinu. Nyrst í gjánni vestanverðri er Selgjárhellir. Upp við barma Selgjár hafa menn fundið margar vallgrónar seljarústir. Jarðabók 1703 greinir frá selstöðu þarna og virðast átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Þegar komið er suður á Hjallabrún sést, að

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Selgjá er í beinu framhaldi af Búrfellsgjá, og eru þær því í raun sama hrauntröðin. Búrfellsgjá er mjög áhugaverð hrauntröð frá Búrfellsgíg og er vel þess virði að ganga eftir henni suður í Búrfell og að skoða sköpunarverk náttúrunnar í leiðinni. Samfelldur hraunstraumur hefur runnið eftir gjánum báðum.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Hér blasir við að þessi stórleikur náttúrunnar, myndun Hjallanna og landsigið sunnan þeirra, hefur orðið eftir að eldar brunnu í Búrfelli fyrir rúmlega 7000 árum. Sprungan, sem liggur yfir hraunið í misgengisstallinum milli Selgjár og Búrfellsgjár, heitir Hrafnagjá. Niðri á flötinni í Búrfellsgjá, sunnan Hrafhagjár, er Gjárrétt. Hér var lögskilarétt fram til 1920 en réttin var notuð eitthvað lengur. Gjárrétt var friðlýst árið 1964. Við hamravegginn norðan réttarinnar er Vatnsgjá, þar eru nokkur þrep niður í ágætt vatnsból. Nær miðja vegu milli Gjárréttar og Búrfells heita Garðaflatir. Kringlóttagjá er hrauntjarnarstæði sunnan við Búrfell, sem myndast hefur seint í Búrfellsgosinu. Góðan spöl suðvestur af Kringlóttugjá eru Mygludalir. Við sérstök veðurskilyrði myndast þarna eitthvað, sem líkist mygluskán, kynnu að vera kísilþörungar.

Mygludalir

Mygludalir. Valahnúkar fjær.

Suður af Húsfelli er sameiginlegt umráðasvæði Garðabæjar og Álftaness. Það nefndist fyrrum „Almenningsskógur Álptaneshrepps.“ Mörk Almenningsskógarins liggja frá Húsfelli suður á Hæstaholt á Dauðadölum og kallast markapunkturinn nú á seinni tímum Markraki. Af Markraka liggja mörkin til vesturs sunnanvert við Leirdalshöfða í Markrakagil í Undirhlíðum eða Melrakkaskarð. Þetta eru jafnframt austur- og suðurmörk Hafnarfjarðarkaupstaðar. Eins og nafnið „Almenningsskógur“ ber með sér var gróðurfar hér fyrrum allt annað en nú. Þarna óx gróskumikill skógur því sagnir herma, að úr honum hafi árlega verið fluttir hestburðir af trjám og hrísi til eldiviðar á Bessastöðum. í Leirdal milli Leirdalshöfða og Lönguhlíðar hefur Skógræktarfélag Garðabæjar hafið uppgræðslu og trjárækt.

Þríhnúkar

Þríhnúkar – þverskurður.

Austur- og suðurmörk Almenningsskógar Álftaneshrepps liggja af Húsfelli upp í Þríhnúka. Austasti hnúkurinn kallast Strompur og er innan stjórnsýslumarka Kópavogs. Hann er sérstætt náttúruundur. Hnúkurinn er hár og brattur klepragígur og í toppnum er brekka niður að gígopi um 10 m að þvermáli.

Þríhnúkagígur

Í Þríhnúkagíg.

Við lok gossins hefur bráðið hraunið runnið brott og við það myndast um 110 m djúpur hellir með lóðréttum veggjum. Þarna ber að fara með mikilli gát því hrasi maður í brekkunni ofan við gígopið og falli niður í hellinn þarf ekki að spyrja að leikslokum. Jón heitinn Jónsson, jarðfræðingur, nefndi hellinn Svartholið. Frá Þríhnúkum liggja mörk Almenningsskógarins í Bláfjallahorn, þ.e. suðurenda Bláfjalla, þaðan vestur í Litla-Kóngsfell, sem er, eins og segir í markalýsingu Krýsuvíkurlands 1890, „lág, mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum.“ Stórkonugjá er norðaustan við Kóngsfell. [Hér fer höfundur villu vegar því nefnt „Kóngsfell“ er hægra megin við gamla Kerlingarskarðsveginn úr Selvogi, ofan skarðsins, en það er ekki „Stóra-Kóngsfell“, eins og ætla mætti af lýsingunni. Það er miklu mun norðaustar og fjarri „gömlu götunni“. „Litla-Kóngsfell“ er gígur, hægra megin við „gömlu götuna“ á Grindaskarðsleiðinni frá Selvogi, allnokkru sunnar en „Kóngsfellið“. Þá er „Konungsfellið“, öðru nafni „Stóribolli“, efst í Grindarskörðum. Um þau lág Selvogsgatan, öðru nafni Grindaskarðavegur, fyrrum.]

Litla-Kóngsfell

Litla-Kóngsfell – Selvogsgatan.

Hér upphefst nokkur vandi. Markalýsingum fyrri tíma til vesturs frá Litla-Kóngsfelli ber ekki saman og deila menn um eignamörk. Landamerkjadómur frá 1971 og Hæstaréttardómur um sýslumörk frá 1996 eru misvísandi. Hér stangast hvað á annars horn. Óbyggðanefnd tók ekki, í úrskurði sínum hinn 31. maí 2006, afstöðu til ágreinings um staðarmörk sveitarfélaga og þar með ekki til þessa vanda. Bráðnauðsynlegt er að fá botn í málin, rugling þennan leiðréttan, og að ágreiningi verði rutt úr vegi. Læt ég svo lokið frekari bollaleggingum í bili.“  – Sigurður Björnsson, verkfræðingur.

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.

Heimild:
-Listin að lifa, 2. tbl. 01.06.2007, Gengið um Garðabæ, Sigurður Björnsson, bls. 44-47.

Kóngsfell

Kóngsfell.

Beitarhús

Hér á eftir verður m.a. fjallað um beitarhús sem og slík hús frá Elliðavatni, Vatnsenda, Fífuhvammi, Vífilsstöðum, Urriðakoti, Setbergi, Hvaleyri, Jófríðarstöðum og Krýsuvík.

Beitarhús

Beitarhús.

Beitarhús hafa jafnan verið skilgreind sem „fjárhús (langt frá bæjarhúsum þar sem vetrarbeit er fyrir sauðféð).“ Húsin voru ákveðin gerð af fjárhúsum sem notuð voru á Íslandi fyrr á öldum. Þau voru oft langt frá bæjum og var ástæðan sú að ærnar eða sauðirnir sem þar voru hýstir voru settar út um veturinn og látnar bíta á meðan smalinn stóð yfir. Ef mikill snjór var mokaði hann ofan vellinum af fyrir sauðunum með varreku. Hugmyndin með staðsetningunni, oft við ystu mörk bæja, var að dreifa beitarálaginu og eyja jafnframt möguleika að beita inn á land nágrannans. Beitarhús stóðu einnig víða við fjöruna til að ærnar kæmust í fjörubeit og rústir af slíkum húsum er mjög víða að finna.

Skammidalur

Skammidalur – beitarhús.

Eftir að seljabúskapur og stekkjartíð lagðist af í lok 19 aldar voru selstöðurnar eða nálægð þeirra gjarnan nýttar fyrir beitarhús. Áður höfðu hús ekki verið byggð sérstaklega fyrir sauðfé, a.m.k. ekki á Suðvesturlandi. Í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns ofan Hafnarfjarðar eru t.d. beitarhús frá Jófríðarstöðum. Þar var áður selstaða frá sama bæ. Tóftir hússins er allgreinilegar. Þeim hefur verið hlíft að mestu við skógræktinni umleikis. Leifar selsins eru norðvestan við beitarhússtóftina. Þær eru mun eldri og því ógreinilegri.

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

Í Gráhelluhrauni má sjá dæmigert útihús fyrri tíma; hlaðið hús með gerði til beggja hliða. Mannvirkið er byggt utan í náttúrulegan hraunstand; Gráhellu. Útihúsið var frá Setbergi. „Syðra sauðahúsið“ var útihús frá Urriðakoti skammt vestan Selgjár, byggt utan í háan hraunstand, líkt og við Gráhellu. „Nyðra sauðahúsið“ var grjóthlaðið útihús, einnig frá Urriðakoti í Urriðakotshrauni.

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – beitarhús frá Elliðavatni.

Elliðavatnsfjárhúsin voru á Beitarhúsahæð skammt ofan við Þingnes. Vatnsendi hafði beitarhús á Vatnsendaheiði og síðar í gróinni dallægð undir Vatnsendahlíð. Fífuhvammur (Hvammkot) byggði beitarhús í Rjúpnadalshæð, Vífilsstaðir byggðu beitarhús í Finnsstöðum og síðar norðaustan Svínahrauns, Setbergsbóndinn reisti síðar beitahús í Húsatúni á Setbergshlíð, Hvaleyri átti beitarhús suðvestan við Grísanes, Jófríðarstaðir byggðu beitarhús í Beitarhúsahöfða (nú Höfðaskógur) og Krýsuvík átti beitarhús á Krýsuvíkurheiði – svo einhver slíks séu upp talin.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Elstu menn segjast hafa heyrt af því að í Jónsbúð hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum, Árna Gíslasyni.

Eftir því sem best verður séð er lítill munur á beitarhúsum og sauðahúsum. Beitarhúsin voru fjárhús, sem voru yfirleitt í nokkurri fjarlægð frá bænum, stundum alllangt. Orðið sauðhús eða sauðahús var notað í tvenns konar merkingu. Annars vegar almennt um fjárhús fyrir sauðfé en hins vegar um fjárhús sérstaklega ætlað geldfé. Þau voru oftar en ekki nálægt bæjum, líkt og sjá má t.d. við Lónakot.

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús.

Í Búnaðarritinu árið 1916 er m.a. fjallað um beitarhús: „Ekki er langt síðan að beitarhús voru algeng mjög um land ait til ómetanlegs gagns fyrir sauðfjárbændur. Nú eru þau að mestu horfin, og er margt, sem því veldur. Sauðir voru mest hafðir á beitarhúsum, enda bezt að beita þeim. Nú eru þeir að mestu horfnir. Þó svo sé, er ekkert vit í því að hætta að beita gemlingum og ám; það má fara vel með féð fyrir því, og skynsamleg beit er skepnunni miklu hollari en kyrstaða í loftillum fjárhúsum. Þá vantar ieitarhúsamennina. Þeir eru horfnir eins og sauðirnir. Hvert? Líklega á eftir kvenfólkinu i kaupstaðinn, þar sem pilsin þjóta. Þykir þeim annað ómaksminna og notalegra en að standa yfir fé og í snjómokstri.
Þá var víða langt og erfitt að jlytja hey á beitarhúsin. En víða hagar svo til, að vel mætti byggja beitarhús, þar sem auðvelt væri að rubba upp á stuttum tíma talsverðum fóðurforða í mýrum og fjallalöndum og flytja í votheystóft heim á beitarhúsin“.

Grísanes

Grísanes – beitarhús.

Í Höldur árið 1861 eru skrif um „Búnað- og verkaskipun í lands- og sveitarjörðum“ eftir Halldór Þorgrímsson: „Þeir húsbændur, sem ekki eru lagaðir
til fjárhirðingar eða ekki geta sinnt þess konar störfum vegna áðurtaldra kringumstæða, ætti að útvega sjer trúan, vanan og glöggan fjármann til vetrarhirðingar. Þar sem svo er hátt að með beit og landslag, að beitarhúsa þarf við, er áríðandi, að fjármaður sje viss og einbeittur að rata í hríðum og dimmu veðri, og að hann hafi heilsu og þrek til að standa úti yfir fje, hvernig sem viðrar. Er tilvinnandi að hlynna aö slíkum mönuum fram yfir hin hjúin með kinda fóðrum eður einhverri annari ívilnun, stundi þeir verk sitt með dyggð og dugnaði.

Kaldársel

Kaldársel – ófullgert beitarhús, líklega byggt af Kristmundi Þorlákssyni, síðar bónda í Stakkavík.

Á öllum útbeitarjörðum, eins þó þar sje ekki haldið upp á beitarhús, er áríðandi, að fjármenn sje gæddir þessum hæfilegleikum eigi fjárhirðingin að vera í góðu lagi“.

Í Skagfirðingabók 1985 segir í grein Eiríks Eiríkssonar frá Skatastöðum, „Viðurværi – Lifnaðarhættir Skagfirðinga á 19. öld„: „Engvir karlmenn fengu þá morgunbita nema þeir, er gengu á beitarhús“.

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – stekkur.

Tímarit kaupfjelaga og samvinnufjelaga 1908 fjallar um „Sauðfjárverslunina„: „Bændur lögðu því einkum stund á það að hafa sauðfje sitt feitlagið og ullarmikið að svo miklu leyti sem þetta var samrýmanlegt. Jafnhliða þessu var kostað kapps um það að sauðfje kæmist af með sem allraminnst innifóður. Vetrarbeit var því sótt með kappi og áhuga. Þá voru »beitarhús« mjög víða notuð.“

Blaðið Lögfræðingur 1897 taldi ástæðu til að fjalla um „Ágang búfjár„. Páll Briem skrifaði: „Enginn má byggja nær annars landamerkjum, er nú var sagt, sel, beitarhús, fjárrjettir eða nokkur önnur peningshús, nema það hafi staðið þar áður, eða sá, sem land á á móti, leyfi“.

Álfsnes

Álfsnes – beitarhús.

Björn Bjarnason í Gröf skrifaði um „Að beita sauðfé“ í Frey árið 1904: „Menn, er fyrir 30—40 árum voru aldraðir höfðu uppalist við þann sið, að beita sauðfé svo mikið sem unt var. Var það látið liggja við beitarhús (hagahús), er oft voru jötulaus, og fénu „gefið á gadd“, þá sjaldan því var gefið. Þessi beitarhús eru mjög víða lögð niður, en í þeirra stað komin innigjafahús heima við bæinn“.

Jónas Jónsson frá Hrafnagili lýsir beitarhúsamanninum í bók sinni „Íslenskir þjóðhættir“ frá árinu 1961: „“Sauði höfðu menn víða og gerðu þá gamla, 5 til 6 vetra. Sú trú var almenn, að þeir skærust betur á ójöfnu árunum en þeim jöfnu – þrevetrir og fimmvetra en fjögra vetra eða sex.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – beitarhús.

Víða voru beitarhús, og það sumsstaðar langt frá bæjum; þurfti þá beitarhúasmaðurinn að fara af stað fyrir dag að láta féð út, ef gott var og næg jörð, en gefa því fyrst, ef lítið var um jörð. Svo létu þeir út og stóðu yfir því, ef viðlit var veðurs vegna, og var það kaldstætt verk í harðindum. En víða áttu þeir skinnhempur með ullinni innan á til þess að standa yfir í og duglegar hettur yfir, þykkar og hlýjar; sumir höfðu hattgarm yfir hettunni, og oftast voru menn í skinnleistunum við það starf. Ef svo var kalt og illt, að féð fór að halfa uppi fótunum fyrir kulda, ráku þeir það dálítinn sprett til, ef hægt var. Ef fanndýpi var mikið, svo að tæplega var krafsturfært, höfðu þeir reku litla með sér og mokuðu oft ofan af, því til léttis.

Vatnsendaheiði

Vatnsendaheiði – beitarhús.

Í rökkri byrgðu menn svo féð og héldu heim á vökunni. Oft komust þeir í hann krappan í hríðum og dimmviðrum, en harðneskjan var mikil, og vaninn gaf listina og gerðu menn einbeitta og örugga að rata“.

Bjarni F. Einarsson skrifaði „Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður“ í Sveitarstjórnarmál árið1996: „Ef við tökum sem dæmi fomleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeirn beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir.

Húsatún

Húsatún – beitarhús.

Þessum húsum var gjaman komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og aðra tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurs konar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið hvers gagnvart öðrum.
Þegar skipuleggja á eitthvert svæði eða jarðrask er í vændum vegna húsbygginga, vegagerðar o.s.frv. er nauðsynlegt að viðkomandi aðilar séu meðvitaðir um þær minjar sem kunna að vera á svæðinu.

Suður-Reykir

Suður-Reykir – beitarhús.

Til að svo megi vera þarf fornleifaskráning að hafa farið fram og niðurstaða þeirrar skráningar verður einnig að vera aðgengileg þeim sem hennar kunna að þurfa við. Án þessarar skráningar er minjavarslan einfaldlega máttlausari en ella í ráðgjöf sinni til einstakra aðila, svo sem skipulagsyfirvalda, framkvæmdaraðila ýmiss konar og jafnvel einkaaðila.
Fyrsta vinnuregla niinjavörslunnar í þessum efnum er að allar fornleifar beri að varðveita, enda er það tekið fram í lögum. Þegar því verður hins vegar ekki við komið er það minjavarslan ein sem ákvarðar hvað skuli gera, eða hversu ítarleg rannsókn þurft að vera eigi slík að fara fram að áliti minjavörslunnar“.

Jónatan Garðarson fjallaði um „Selja- og beitarhúsatóftir í lögsögu Garðabæjar“ á vef Hraunavina árið 2010:

Straumssel

Straumssel.

„Selin voru stór þáttur í bændasamfélaginu á Íslandi frá fyrstu tíð og virðist sem selvenjur hafi að mestu flust hingað til lands frá Noregi. Selstöður voru einnig þekktar víðsvegar í mið og suður Evrópu, þannig að seljabúskapur var greinilega viðtekin venja um aldir. Hér á landi þróaðist seljabúskapurinn með álíka hætti og á norðurlöndum og átti drjúgan þátt í að beitarstýring var með allgóðu móti lengi vel, þó svo að það hafi ekki verið einhlítt. Á nokkrum stöðum voru byggð beitarhús þar sem áður voru sel en sum beitarhúsanna voru reist þar sem haglendi var gott, stundum í námunda við gamla fjárhella eða sauðaskjól.

Setbergssel

Setbergs- og Hamarkotssel. Helgafell fjær.

Landslag í kringum selin er keimlíkt og hægt að gera sér nokkra grein fyrir því hvernig landið var umhorfs á meðan það var nýtt fyrir seljabúskap. Talið er að selfarir hafi að mestu lagst af í hreppnum um eða eftir 1865, sem er ekki alveg öruggt því sagnir hafa verið á kreiki um að fært hafi verið frá fram undir 1910-20 á bæjum í Hraunum og haft í seli á sumrin þó svo að það hafi verið í mun smærri stíl en áður tíðkaðist.
Finnsstaðir nefnast rústir tvískiptra beitarhúsa í hraunbrúninni undir Hlíðarhorni Vífisstaðahlíðar skammt suður af Vífilsstöðum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – beitarhús.

Björn Konráðsson ráðsmaður á Vífilsstöðum taldi að þarna hefði verið býli og peningshús, sem var seinna breytt í beitarhús. Húsatóftin stendur skammt frá mýrlendinu suðvestan Vífilsstaðalækjar eins og Hraunsholtslækur nefnist þar sem hann rennur úr Vífilsstaðavatni í gegnum land Vífilsstaða. Göngustígur liggur þétt við Finnsstaðatóftina og þar er bekkur til að hvíla lúin bein.

Setberg var stórbýli á sínum tíma og eru þrennar fjárhúsa- og beitarhúsatóftir uppistandandi sem áhugavert er að líta á. Sú sem er næst Setbergshverfinu er Svínholtsmegin á Norðlingahálsi í jaðri Oddsmýrardalstúnsins rétt handan við Vífilsstaðaveginn.

Oddsmýri

Oddsmýri – beitarhús.

Oddsmýrarfjárhús var notað vel fram yfir miðja 20. öldina. Gráhellubeitarhús stóð vestan við hraundranginn Gráhellu í Gráhelluhrauni. Þetta var ekki mjög stórt beitarhús og sennilega verið notað sem sauðakofi þegar þeim var haldið á vetrarbeit í hrauninu. Veggirnir standa enn og hægt að ganga inn í tóftina sem er án þekju. Beitarhúsið er stærst að ummáli en það lét Jóhannes Reykdal reisa í hæðarslakka Setbergshlíðinni mitt á milli Sandahlíðar og Þverhlíðar.

Oddsmýri

Oddsmýri – beitarhús.

Þar má enn sjá vegghleðslur úr holtagrjóti og hefur húsið átt að hýsa vel yfir 100 fjár. Umhverfis húsatóftina var Húsatún sem sker sig rækilega úr umhverfinu.“

Hér á eftir er fjallað stuttlega um nokkur framangreindra beitarhúsa. Upplýsingarnar eru m.a. fengnar úr opinberum fornleifaskráningum. Hafa ber í huga að skráningarnar eru misgóðar eða áreiðanlegar. Á meðan vel er vandað til sumra þeirra virðist annað hvort kastað til höndunum við aðrar eða þekking skráningaraðila hafi verið takmörkuð.

Vatnsendaheiði – Beitarhús

Vatnsendaheiði

Vatnsendaheiði – beitarhús.

10×14 m (N – S). Veggir úr grjóti, 1- 1,8 m breiðir og 0,3-0,6 m háir. Þrjú hólf eru á rústinni (A-C) og eru dyr á þeim öllum til austurs. Í hólfi C er garður eftir því endilöngu og áberandi stór og ferhyrndur steinn fyrir endanum. Garðlög eru víða greinileg, en rústin er farin að falla talsvert. Kampsteinar all áberandi. Gólf rústarinnar eru vel gróin og nánasta umhverfi einnig. Þar fyrir utan er talsver!ur uppblástur. Um 60 m vestan við rústina, neðar í brekkunni, er slóði sem gæti verið gamall. Hann var ekki skráður.

Rjúpnadalaháls – Beitarhús

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

8,5×14 m stórt. Veggir úr grjóti og torfi, 1,5-2,5 m breiðir og 03-0,7 m háir. Þrjú hólf eru á rústinni. Í vestasta hólfinu mót NV, á austasta hólfinu mót NA og á syðsta hólfinu eru dyr inn í austasta hólfið. Syðsta hólfið er hlaða. Víða sést í garðlög að innanverðu. Rústin er gróin grasi og mosa.

Norðan húsa nr. 76-78 við Austurkór í Rjúpnadalshlíð í Kópavogi er tóft beitarhúss frá Fífuhvammi (Hvammkoti). Við tóftina er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:
„Minjar um eldri byggð í landi Kópavogs er víða að finna. Helstar sem enn eru greinilegar ber kannski að nefna rústir gamla bæjarins í Digranesi og tóftirnar á þingstaðnum við ósa Kópavogslækjarins.

Fífuhvammur

Skilti við beitarhús á Rjúpnadalshlíð.

En víða eru merki um hversdagslíf Kópavogsbúa fyrr á öldum þótt ekki beri mikið á þeim. Eitt af þeim er þessi tóft hér í Rjúpnadalshlíð.

Tóftin er um 10×15 metrar og er innan landamerkja Fífuhvamms. Svo heitir jörðin frá árinu 1891, áður hét hún Hvammkot. Um þessa tóft hafa engar ritheimildir fundist. Fólkið sem gerði hleðsluna og stafaði hér er og verður því miður nafnlaust og ástæður hennar á huldu.

En þótt ekki finnist heimildir um þennan stað hindrar það okkur ekki við að velta vöngum yfir tilgangi mannvirkjanna. Í seljum var búfénaður haldinn á sumrin í bithaga, þar var mjólkað og mjólkin unnin. Oft voru þrjú hús í seljum, búið í einu, mjólkin geymd í öðru og það þriðja eldhús. En þessi tóft er ekki nema í rétt tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem bæjarhúsin í Hvammkoti stóðu (þar er nú bílastæði við Melalid 8 og 10).

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

Um selstöður segir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, en þeir ferðuðust um landið á árunum 1752-1757, að sel séu oft í tveggja mílna fjarlægð eða lengra frá bæjum. Ein dönsk míla var rúmlega sjö og hálfur kílómetri og því er þesssi tóft of nálægt bænum til að sennilegt megi telja að hér sé um sel að ræða.
Líklegra er að þetta hafi verið kvíar frá Hvammkoti. Kvíar voru réttir fyrir ær sem lömbin höfðu verið færð frá. Þegar fráfærurnar höfðu borið um vorið voru lömbin alin við heimajörðina en ærnar mjólkaðar í kvíum.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

Vegna nálægðarinnar við bæjarhúsin og stærðar tóftarinnar verður það að teljast sennileg skýring á tilgangi þessara húsa.“

Rétt er að benda á að tóftirnar bera þess merki að þarna hafi fyrrum verið beitarhús með heimkumli að baki.
Bjarni F. Einarsson skráði minjarnar sem „beitarhús“ í endurskoðaðri Fornleifaskrá Kópavogs 2020.

Vatnsendahæð – Beitarhús

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – beitarhús.

12×14 m (NV-SA). Veggir úr grjóti (og torfi), 1-2 m breiðir og 0,3-0,7 m háir (utanmál). Fimm hólf eru á rústinni (A-E), en upprunalega hafa þau aðeins verið þrjú (A/B, C/D og E). Dyr eru á nær öllum hólfum til NNV og sennilega hafa verið dyr á milli E og hinna hólfanna, en hólf E hefur verið hlaða. Gólf í hólfi E er (mjög) niðurgrafið. Garðlög eru víða greinileg að innanverðu, sérstaklega í hólfi E, sem er S langveggur. Þar er veggurinn 1,7 m hár. Garðar (jötur) eru tveir í rústinni og er steypa ofan á þeim báðum. Við N enda þess eysri er steypt baðkar. Rústin er vel gróin. Einstaka fúin spýta sést í rústinni. Rústabrot gætu leynst um 10 m NV af rústinni.

Beitarhúsahæð – Beitarhús

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – beitarhús.

Húsin (frá Elliðavatni) eru um 15 x 14 m (NV – SA). Veggir úr grjóti um 1,0 – 2,0 m á breidd og 0,3 – 1,0 m á hæð. Fornleifarnar samanstanda af 4 hólfum (A, B, C og D). Dyr eru á hólfi A, B og C í NV. Á hólfi D eru dyr inn í hólf B og C. Hleðslur eru mjög greinilegar. Í hólfi A, B og C er hlaðinn garði eftir miðju gólfi um 0,6 m á breidd og 0,2 – 0,4 m á hæð. Gólf eru niðurgrafin, sérlega í hólfi A. NA – hornið á hólfi D er hrunið.

Grísanes – Beitarhús

Grísanes

Grísanes – beitarhús.

Landareign: Hvaleyri. Aldur: 1550-1900. Lengd: 14.6m. Breidd: 13.1m. Vegghæð: 0 – 0.7m. Breidd veggja: 2.8. Húsið er neðst í grýttri brekku vestan undir Grísanesi. Tóftin er grjóthlaðin og opin í vestur. Fóðurbekkir meðfram langveggjum og í miðju. Tóftin er töluvert sigin, mótar fyrir grunni við inngang sem gefur til kynna að þar hafi verið timburþil. Tóftin er í mikilli hættu vegna framkvæmda Hauka á svæðinu og er hún innan áhrifasvæðis framkvæmdanna, þ.e. innan 15m.

Húsatún – Beitarhús

Húsatún

Húsatún – beitarhús.

Húsatún er á vestanverðri Setbergshlíð. Það er um 2,9 km SA af bæ og um 930 m ASA af Gráhellu. Í kringum beitarhúsið er melur og vex á honum lyng á stangli, en fjær er kjarrgróður. Tóftin er algróin þykkri sinu að innan og einnig er smá grasblettur fast vestan við tóftina,
gróinn þykkri sinu. Beitarhúsið er hlaðið úr grágrýti og virðist hleðslan vera nokkuð vönduð þó hún sé nú tilgengin á stórum hluta. Mest hleðsluhæð er um 1,5 m, á norðurvegg einna austast og eru þar 5-6 umför. Grjótið í hleðslunni er af öllum stærðum, en mest er þó af miðlungs og stóru grjóti. Utan með grjóthleðslunni er sigin torfhleðsla, um 1 m breið og 0,5 m há. Beitarhúsið er um 17 x 11 m að stærð A-V og er innanmál um 14 x 8 m. Vestur hlið tóftarinnar er að mestu opin og hefur þar að líkindum verið timburþil fyrir.

Finnsstekkur/Finnsstaðir – Stekkur/Beitarhús

Finnsstekkur

Finnsstekkur/Finnsstaðir – beitarhús.

Í örnefnaskrá segir: ,,Finnsstekkur: Stekkur var þarna í eina tíð við voginn.“ Finnsstekkur er um 1 km austnorðaustur frá Vífilsstaðaspítala). Hann er rétt norðan við veginn að Elliðavatni, undir „suðvestur horni“ Smalaholts. Reiðvegur liggur hjá tóftinni. Á grasi- og lyngi grónum hjalla við brekkurætur. Tóftin er um 14×6 m stór. Hún skiptist í tvö hólf, rétt og lambakró. Er lambakróin byggð við réttina að suðaustanverðu, bæði hólfin norðvestur-suðaustur. Ekki eru greinilegar dyr á milli hólfanna. Dyr eru hins vegar allgreinilegar á norðvestur enda réttarinnar hólfsins. Réttin er um 11×6 m að stærð og lambakróin um 4x3m. Hleðsluhæð er mest um 1 m. Hleðslur eru yfirleitt grónar þótt sjáist í hleðslugrjót hér og þar.

Vífilsstaðir – Beitarhús

Víðistaðir

Vífilstaðir – beitarhús.

Tóftin, sem líkast til er af beitarhúsi, er fast austan við göngustíg sem liggur N-S milli skógar og hrauns. Gras, mosa- og skógivaxinn mói. Birkihríslur vaxa inni í tóftinni. Tóftin er 12 m löng, 5 m breið og snýr N-S. Veggjahæð er 0,6-0,8 m en breidd 1-1,5 m. Tóftin er eitt hólf og inngangur er ekki greinanlegur. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar í tóftinni og er hún algróin grasi og mosa.

Vífilsstaðahlíð – Beitarhús

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir/Heiðmörk – beitarhús.

Í örnefnaskrá segir: ,,Vífilsstaðabeitarhús: Í Hraunbrúninni er fjárhústótt, jötustallar.“ Tóftin er um 280 m SSA af Sauðahellinum nyrðri og rúmlega 50 m SV við veg undir Vífilsstaðahlíð. Beitarhúsið er um 2,5 km SSA af bæ. Rúmlega 3 m austur af tóftinni er rúst fjárborgar og um 10 m vestan við er garðbrot. Umhverfis tóftina er úfið mosavaxið hraun, en fyrir framan tóftina og fjárborgina er hraunið vel grasivaxið á smá bletti, sem er eflaust leyfar túnbleðils. Tóftin er tvö hólf, hið stærra er austanmegin og er að líkindum fjárhús en hið minna kann að vera hlaða.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir/Heiðmörk – beitarhús.

Hún er hlaðin úr þurri hraungrýtishleðslu, úr hraunhellum sem sumar hverjar kunna að hafa verið klappaðar til. Utanmál tóftarinnar er 10,5 x 7,5 og snýr hún N-S. Hleðsluhæð er mest um 1,5 m, en víðast kringum 1 m og mesti fjöldi umfara er 7-8. Tóftin er gróin mosa, grasi og lyngi og er austurveggur mest yfirgróinn. Óvíst er hvort veggirnir hafi verið einangraðir að utan með torfi.

Urriðakotshraun – Sauðahús/Beitarhús

Urriðakot

Urriðakotshraun – sauðahús/beitarhús.

„Áberandi hóll er í hrauninu, sem heitir Einbúi. Suðaustur af einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns“, segir í örnefnaskrá SP. „Sauðahúsið: Tóft þessi er eftir sauðahús, sem Guðmundur bóndi Jónsson í Urriðakoti byggði,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Beitarhúsið er um 130 m ASA af Réttinni gömlu, en mannvirkin eru sitthvoru megin við hraunkargann sem myndar
vesturbrún Flatahrauns. Beitarhúsið stendur við úfið hraun að sunnan og vestan, en norðan við er gamall algróinn túnblettur, um 20×10 m N-S. Um 20-30 m austan við er malarborinn göngustígur sem hlykkjast gegnum hraunið frá N-S.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – beitarhús – Kjarval.

Tóftin er eitt hólf sem opnast til norðurs, að gamla túnbleðlinum og er 7×5 m að utanmáli N-S. Hún er þurrhlaðin úr miðlungs- og stóru hraungrýti, flest tilklappað í múrsteinslagaða kubba og
hleðsluhæð er um 1,4 m. Hleðslan í tóftinni er vönduð en er nokkuð tilgengin. Utan með veggjunum að neðan, er pakkað að grjóthleðslunni með torfi.

Urriðakotshraun – Beitarhús

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – beitarhús.

„Austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem Sauðahús“, segir í örnefnaskrá GS. „Nokkru norðar en Skotbyrgið er rúst gamals fjárhúss við allstóran klett“, segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Fjárhústóftin syðri er um 470 m NV af Selgjárhelli, skammt frá öðru háspennumastri frá Heiðmerkurvegi. Fjárhústóftin er uppi á hárri mosa- og grasigróinni hæð í hrauninu. Tóftin er hlaðin uppvið náttúrulegt bjarg, sem myndar hluta suðurveggjar hennar. Innanmál tóftarinnar er 6×2,5 m A-V og dyr eru á vesturvegg. Veggirnir eru um 0,8 á hæð og um 1-2 m á breidd. Nokkuð hefur hrunið úr hraunhleðslum veggjanna, sem eru grónar mosa, grasi og lyngi. Gluggi er hlaðinn í suðurvegg tóftarinnar.

Gráhelluhraun – Beitarhús

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

„Sel. Byggt norðan í hraunkletti, sem nefnist Gráhella í Gráhelluhrauni. … Gráhella er merkt á „uppdrátt Íslands“, geodætisk Institut, blað 27.“ Selið er á mörkum Setbergs og Hamarskots og er fast austan í skógarlundi sem er í Gráhelluhrauni. Það er um 930 m VNV af beitarhúsatóft sem stendur í Húsatúni. Selið er um 2.2 km SSA af bæjarstæði Setbergs. Bæði í kringum og innan tóftarinnar og garðlagsins er grasi gróið, en fjær er mosi og lyng. Mannvirkin eru í úfnu hrauni og vestur af er skógræktarsvæði í landi Hafnarfjarðar þar sem eru reiðstígar nýttir af eigendum nærliggjandi hesthúsa.

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

Mannvirkið er hlaðið upp að klettinum Gráhellu, sem myndar suðurvegg þess, og samanstendur af einni tóft og hlöðnum grjótgarði fast austan við hana. Tóftin er að utanmáli um 9×6 m, snýr N-S og að innanmáli 7×2,5 m. Dyr vísa til norðurs. Veggir hennar eru hlaðnir úr torfi og grjóti og eru grjóthleðslurnar að innanverðu. Veggirnir eru milli 1,5 og 2 m breiðir, um 1,2 m háir og samanstanda af 5-6 umförum af meðalstóru hraungrýti, sem er nokkuð fallega hlaðið. Lítill skúti gengur suður úr enda tóftarinnar inn í Gráhellu, um 2 m djúpur, 4 m breiður og um 1 m á hæð. Bogadregið garðlag úr hraungrýti gengur frá norðausturhorni tóftarinnar og sveigir til suðurs að Gráhellu. Grjóthleðslan í gerðinu er nokkuð tilgengin, mest 2 m breið og 0,5-1 m há. Innanmál gerðisins er um 8×8 m og myndar tóftin vesturvegg en Gráhella
suðurvegg. Garðurinn hefur mögulega verið aðhald fyrir sauðfé eða heystæði.

Húshöfði – Beitarhús

Beitarhúsaháls

Beitarhúsaháls/Húshöfði – beitarhús.

Fornleifaskrá Hafnarfjarðar IX, Kaldársel og nágrenni, 2021, bls. 51. Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1900+. Lengd: 8.5m. Breidd: 7.7m. Vegghæð: 0.5 – 1.2m. Breidd veggja: 1.1m. Í litlu rjóðri umkringt háum grenitrjám, um 160m austan við Hvaleyrarvatn. Útihús, grjóthlaðið og grasivaxið. Vel stæðilegir veggir og inngangur í SV horni, einhverskonar hleðsla í innanverðu NV horni. Liggur smá garðbútur í vestur frá NV horni. Veggjahæð er frá 0.5 – 1.2m og veggjabreidd er að jafnaði um 1.1m. Búið er að gera eldstæði í miðri tóftinni úr grjóti úr henni.

Litlahraun – Beitarhús

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús.

Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1550 – 1900. Lengd: 15.2m. Breidd: 5.6m. Vegghæð: 0.4 – 1.1m. Breidd veggja: 1m. Í hraunjaðri undir klettum á grónu svæði – uppblásið í kring. Um 1.1 km sunnan við Suðurstrandaveg og um 350m vestan við landamerki Hafnarfjarðar og Grindavíkur.
Beitarhús úr torfi og grjóti, grasi vaxið. Inngangur í suður, aðeins hrunið inn í hann. Tóftin sjálf er um 15m löng og 5m breið. Tóftin er hlaðin upp við kletta og rúmgóður skúti er í NA horni hennar sem hefur verið nýttur. Búið er að hlaða undir girðingu sem liggur yfir tóftina miðja (ekki mælt). Veggjahæð er frá 0.4 – 1.1m og veggjabreidd er að jafnaði um 1m.

Krýsuvíkurheiði; Jónsbúð – Beitarhús.

Jónsbúð

Jónsbúð – beitarhús.

Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1550 – 1900. Lengd: 14.8m. Breidd: 7.1m. Vegghæð: 0.5 – 1.1m. Breidd veggja: 1.3m. Á grasivöxnum bakka á annars uppblásnum mel, um 500m sunnan við Suðurstrandaveg og um 430m austan við Eystri-læk. Beitarhús úr torfi og grjóti. Inngangur í suður, hrunið inn í hann. Tóftin er um 15m löng og um 7m breið. Veggjahæð er frá 0.5 – 1.1m og veggjabreidd er að jafnaði um 1.3m.

Heimildir m.a.:
-Búnaðarrit, 3. tbl. 01.08.1916, beitarhús, bls. 166.
-Höldur, 01.01.1861, Búnað- og verkaskipun í lands- og sveitarjörðum, Halldór Þorgrímsson, bls. 81-82.
-Skagfirðingabók, 1. tbl. 01.01.1985, Viðurværi – Lifnaðarhættir Skagfirðinga á 19. öld, Eiríkur Eiríksson frá Skatastöðum, bls. 70.
-Tímarit kaupfjelaga og samvinnufjelaga, 1. tbl. 01.03. 1908, Sauðfjárverslunin, bls. 30.
-Lögfræðingur, 1. tbl. 01.01.1897, Ágangur búfjár. Samið hefur Páll Briem, bls. 18.
-Freyr, 4. tbl. 01.04.1904, Að beita sauðfé, Björn Bjarnarson í Gröf, bls. 36.
-Íslenskir þjóðhættir, Jónas Jónsson frá Hrafnagili, Reykjavík 1961, bls. 100-101.
-Sveitarstjórnarmál, 2. tbl. 01.06.1996, Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður, Bjarni F. Einarsson, bls. 114.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Beitarh%C3%BAs
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=63412
-https://skraning.minjastofnun.is/Verkefni_2332.pdf
-https://www.hraunavinir.net/seljatoftir-i-gar%C3%B0ab%C3%A6jarlandi/
-https://www.kopavogur.is/static/extras/files/20200512-0518_fornleifaskra-kopavogs_lok-compressed-1420.pdf
-https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-VIII-A%CC%81sland.pdf
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 33.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 34.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 48.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 56.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 65.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 66.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 67.
-Fornleifaskrá Reykjavík – Bjarni F. Friðriksson 1995.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VI III – Ásland, 2021, bls. 55.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík, 2021, bls. 98.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík, 2021, bls. 104.

Beitarhús

Beitarhús.

Finsstaðir

Gengið var um minjarnar vestan Vífilsstaðalækjar, skammt norðan Flóttamannavegar. Þar má enn sjá heillegar tóftir, garða og gerði frá Vífilsstöðum. Göngustígur liggur framhjá megintóftinni. Ljóst er af mannvirkjunum þarna sem og í hrauninu, þ.á.m. Jónshellar, en þeim liggur hlaðinn stígur á köflum í hrauninu, að þarna hafa verið talsverð umsvif á öldum fyrrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gerði.

Gengið var að Finnsstöðum við norðanvert Vífilstaðavatn. Þar fyrir ofan Flóttamannveginn, í vestanveru Smalaholtinu er há og stór tóft, sem sést vel frá. Utan í henni að sunnanverðu er önnur minni. Á kortum er tóft þessi nefnd Finnsstaðir, en engar heimildir eru til um hann. Ekki er útilokað að þetta gæti um tíma hafa verið stekkur frá Vífilsstöðum. Rústin er tvískipt. Einnig gætu þarna um tíma hafa verið beitarhús frá Vífilsstöðum því Björn Konráðsson ráðsmaður á Vífilsstöðum taldi að þarna hefði verið býli og peningshús, sem var seinna breytt í beitarhús.

Finnsstaðir

Finnsstaðir.

Gengið var austur með Smalaholtinu, sem er vesturhlíð Rjúpnahlíðar, ofan við Leirdal og að Selshrygg norðan hlíðarinnar. Þar eru tóftir undir hlíðinni. Þær munu hafa verið notaðar sem beitarhús frá Fífuhvammi, en nefnið bendir til þess að þarna gæti hafa verið selsstaða frá þeim bæ. Fyrir miðjum Selshrygg heitir Selsvellir. Þar er vatn. Gengið var með Rjúpnahlíðinni, niðu Kjóavelli og áfram upp í Básaskarð suðaustan við Vífilstaðavatn. Ofan við skarðið eru fjárhúsatóftir frá Vatnsenda, greinilega mjög gamlar, á fallegum stað. Frá tóttunum sést yfir að Arnarbæli, vörðu á Hjöllunum ofan Grunnuvatna syðri. Frá vörðunni var gengið yfir að Vatnsendafjárborgini. Borgin, sem er syðst á Hjöllunum, þar sem þeir eru hæstir, er nokkuð stór og heilleg, en fallin að hluta. Frá henni er gott útsýni yfir Löngubrekkur í suðri og að Búrfelli.
Gangan tók 2 klst. Veður var frábært; milt og hlýtt.

Jónshellar

Í Jónshellum.

Smalaholt

Valdimar Samúelsson fann „tvær holur upp á Smalahól/hæð fyrir ofan Garðabæ og norðan við Vífilstaðavatn. Önnur var á bergi undir steini sem var auðsjáanlega grunnur ásamt öðrum steinum af ókláraði vörðu en hin var austan til í hæðinni sem snýr að radíómöstrunum. Hjá þeirri holu var auðsjáanlega mjög gömul meitluð mynd að krjúpandi meyju í bænastöðu. Við þennan stað voru líka tveir skútar, líklega fyrir smalastráka eða ferðamenn.“

Myndin

FERLIR fór á staðinn til að skoða aðstæður sem og verksummerki.
Smalaholt er að mestu leyti (vestanvert) í landi Garðabæjar, upp af Vífilsstaðavatni, en austasti hluti þess er í Kópavogi. Mörkin eru um háhæðina (steinsteyptur stöpull – hæðarpunktur). Af henni sést vel til vesturs niður að Vífilsstöðum. Vestan við landamerkjastöpulinn eru hleðslur vestan undir hloti. Þær eru greinilega nýlegar og lítt vandað til verksins.
Í austur frá stöplinum (Kópavogsmegin) er afmörkuð lág klapparhæð í holtinu mót Rjúpnahæð. Klöppin er jökulsorfin líkt og aðrar klappir þarna – en vel afrúnuð. Hallar undan til austurs, að Rjúpnahæð. Þannig er klapparholtið hæst mót austri. Útsýni er þarna allt til Vífilsfells.
Þar sem klappirnar eru hæstar í holtinu er klöppuð nokkuð stór mynd á vegginn. Myndin er af sitjandi konu að því er virðist á bæn. Hún er formleg og vandað hefur verð til verksins. Myndin er duglega klöppuð í harða grágrýtisklöppina. Inn með henni er sprunga – gott skjól. Austan við hana er lítill skúti, sem myndast hefur þegar jökullinn færði til og lagði stein yfir annan.
Staðsetning myndarinnar á bergveggnum er sennilega engin tilviljun. Hún hefur verið meitluð þarna í ákveðnum tilgangi. Um aldur hennar er erfitt að segja, en hún virðist hvorki vera mjög gömul né nýleg. Vegna þess hve djúpt myndin er mörkuð og útlínur, t.d. höfuðsins þar sem þurft hefur til góð áhöld, er sennilegt að hún hafi verið gerð á fyrri hluta eða um miðja 20. öldina. Annars væri fróðlegt að fá upplýsingar frá einhverjum sem þekkir til eða veit umtilvist þessarar myndari á klapparholti Smalaholts. Ekki er ólíklegt að hún geti tengst einhverju (einhverri) er dvaldi vegna berklasjúkdóms að Vífilsstöðum og hefur viljað eiga þarna stund með sjálfum sér.
Svæðið Árið 1906 var Heilsuhælisfélagið stofnað að forgöngu Guðmundar Björnssonar þáverandi landlæknis með það að markmiði að reisa fullkomið heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Miklu fé var safnað á skömmum tíma víðs vegar um land og jafnvel Íslendingar í Vesturheimi tóku þátt í fjársöfnunni. Hælinu var valinn staður á Vífilsstöðum og gengu framkvæmdir það vel að hægt var að vígja það árið 1910. Árið 1916 tók hið opinbera við rekstri hælisins en fram að því sá Heilsuhælisfélagið um reksturinn með styrk úr landssjóði. Vífilsstaðir voru byggðir fyrir um 80 sjúklinga en árið 1922 voru sjúklingar að meðaltali 130 á dag og átti þeim en eftir að fjölga. Á árunum 1919-1920 var byggt íbúðarhús fyrir yfirlækni en við það jókst húsnæði á hælinu og barnadeild tók til starfa. Börn urðu oft fórnarlömb berklanna. Töluvert bar á því að fólk sem hafði fengið góðan bata eftir langa hælisvist, veiktist aftur af völdum lélegs aðbúnaðar. Kom því upp sú hugmynd meðal berklasjúklinga að stofna samtök sem myndu vinna að hagsmunamálum sjúklinga. Stofnuð voru hagsmunasamtök berklasjúklinga á Vífilsstöðum þann 24. október árið 1938 og fengu hin nýju samtök nafnið Samtök íslenskra berklasjúklinga, skammstafað SÍBS. Fyrsti yfirlæknir hælisins var Sigurður Magnússon.
HoltiðVífilsstaðir voru berklahæli fram undir 1970 en þá var nafninu breytt í Vífilsstaðaspítala. Vífilsstaðir eru nú hluti af Landsspítala – háskólasjúkrahúsi og eru þar starfræktar nokkrar deildir t.d lungnadeild og húðlækningadeild.
Ástæða myndarinnar gæti t.d. verið sú að þarna hafi einhverjum (einhverri), líklega frá heilsuhælinu að Vífilsstöðum, þótt við hæfi að eiga hljóða stund með sjálfum (sjálfri) sér, ekki síst vegna veikinda sinna. Myndin hefur þá verið til áminningar eða áheits um væntingar viðkomandi. Hún gæti og verið til minningar um atburð eða upplifun eða jafnvel, sem ekki er ólíklegt miðað við höfuðumbúnað myndarinnar, að einhver hafi, eftir upplifun eða skynjun, viljað benda öðrum á að þarna kynni að búa vera eða verur, sem ástæða væri til að sýna nærgætni, t.d. álfar eða huldufólk.
Víða í Kópavogi eru m.a. þekktir búsetustaðir álfa og huldufólks, s.s. í Einbúa, Álfhól, Digranesi og Kársnesi. Bæjaryfirvöld og íbúar bæjarins hafa staðið dyggan vörð um þá staði, sem þeirra hefur orðið vart, og gætt þess að raska þeim ekki umfram brýnustu nauðsyn.
MyndinVegna staðsetningarinnar, jafnvel þótt myndin hafi verið gerð í kristni, er við hæfi að rifja upp elstu og nærtækustu sagnir Smalaholtsins, enda útsýni þaðan frábært til yfirlits þeirrar söguskoðunnar.
Eins og flestum er orðið kunnugt þá var Vífill annar þræll Ingólfs, þess fyrsta norræna landnámsmanns á þessu svæði, og var augljóslega sáttari en Karli þrælsfélagi hans við þau heimkynni sem öndvegissúlurnar ákvörðuðu. Vífill fékk frelsi af húsbónda sínum og farnaðist honum vel. Við hann eru kennd Vífilsfell og Vífilsstaðir þar sem hann átti bú. Er hann í Landnámu kallaður „skilríkr maðr“, líkt og svo margir Garðbæingar er á eftir komu.
Í Landnámu (Sturlubók) segir um Vífil þennan: „Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár…
Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs…
Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði…
Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út…
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta. Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.“
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir af Sviða nokkrum svo og nefndum Vífli: „Eitt með dýpstu fiskimiðum á Faxaflóa er nefnt Svið. Er þangað sóttur sjór af öllum Innnesjum sem að flóanum liggja, Akranesi, Seltjarnarnesi, Álftanesi, Hafnarfirði, Hraunum og jafnvel af Vatnsleysuströnd. Sviðið hefur jafnan verið eitthvert fiskisælasta djúpmið á flóa þessum og er til þess saga sú sem nú skal greina.
Sviðholt er bær nefndur; hann stendur hér um bil á miðju Álftanesi. Það er talin landnámsjörð þó hennar sé ekki getið í Landnámu. Þar byggði sá maður fyrst er Sviði hét og kallaði bæinn eftir sér Sviðholt.
Bær heitir Vífilsstaðir og er landnámsjörð; þar gaf Ingólfur Arnarson í Reykjavík Vífil húskarli sínum bústað; en Vífill gaf bænum aftur nafn af sér og bjó þar síðan.
Vífilsstaðir er efstur bær og austastur upp með Garðahrauni að norðan og lengst frá sjó af öllum bæjum í Garðasókn á Álftanesi og hér um bil hálfa aðra mílu frá Sviðholti.
Það er mælt að þeir Vífill og Sviði hafi róið saman tveir einir á áttæringi og hafi Vífill, þó hann ætti margfalt lengri skipgötu en Sviði sem bjó á sjávarbakkanum að kalla, ávallt farið heim og heiman í hvert sinn sem þeir réru.
Sumir segja að Sviði hafi verið formaðurinn, en aðrir að Vífill hafi verið það og þykir mega marka það af því sem nú skal greina að Vífill hafi verið formaður:
Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn. Vífilfell er hæst af fjöllum þeim sem verða á vinstri hönd þegar riðið er yfir Hellisheiði suður í Reykjavík, og dregst það mjög að sér ofan.
VífilsstaðirÞó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum en til sjávar gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið til að gá til veðurs áður en hann fór að róa og réri ekki ef hann sá nokkra skýská á lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum.
En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og réri með Sviða, og þykir þetta benda til þess að Vífill hafi álitið það skyldu sína sem formaður að gá að útliti lofts áður en róið væri.
Einhverju sinni kom þeim lagsmönnum Vífil og Sviða ásamt um að þeir skyldu búa til mið þar sem þeir yrðu best fiskvarir. Er þá sagt að Sviði hafi kastað heiman að frá sér langlegg einum og kom hann niður fjórar vikur sjávar frá landi, og heitir þar nú Sviðsbrúnin vestri. Vífill kastaði og öðrum langlegg heiman að frá sér og kom hann niður viku sjávar grynnra eða nær landi; dró hann af því ekki eins langt út og Sviði að vegamunur er svo mikill milli Sviðholts og Vífilsstaða á landi. Þar heitir nú Sviðsbrún (hin grynnri) sem leggur Vífils kom niður. Var þannig vika sjávar milli leggjanna, eins langt og nú er talið að Sviðið nái yfir frá austri til vesturs. Allt svæðið milli leggjanna kölluðu þeir Svið og mæltu svo um að þar skyldi jafnan fiskvart verða ef ekki væri dauður sjór í Faxaflóa.“
Sagan segir að á þenna hátt mynduðust Sviðsbrúnirnar, fræg fiskimið Álftnesinga. Til fróðleiks má geta þess að ef Vífill hefur þurft að ganga á Vílfilsfell frá Vílfilsstöðum til að gá til veðurs fyrir róður hefur honum alls ekki unnist tími til róðra – jafnvel þótt hann hafi bæði vaknað snemma og farið hratt yfir. Ef Vífill hefur hins vegar látið sér nægja að ganga upp á Smalaholt, sem gæti hafa heitið Vífilsholt (-fell) fyrrum, hefur hann vel getað séð allt það skýafar eða veður er hann annars hefði séð af Vífilsfelli – snökktum styttri vegarleng, en hún hefði nægt honum til áframhald þeirra starfa svo sem sagan segir.
En aftur að Smalaholti. Skammt austan við klapparhæðina hefur verið tekin prufuhola, líklega til að kanna jarðveginn. Samkvæmt fundargerð skipulagsnefndar Kópavogs 8. mars 2006 kemur fram að breyting á aðalskipulaginu. „Breytingin felst í því að skilgreind eru ný íbúðarsvæði í Hnoðraholti, Smalaholti og Rjúpnahæð.“ Af þessum áætlunum að dæma er vá fyrir dyrum, nema vitund vakni og vandað verði til verka í næsta nágrenni holtsins margnefnda. Yfirvöldum og starfsfólki Kópavogsbæjar ætti að vera vel treystandi til þess ef tekið er mið af fyrri verkum þess.
Ljóst er að myndin á hinni litlu og afmörkuðu klöpp Smalaholts er minning, áheit, von eða áminning um eitthvað, sem hugur viðkomandi „listamanns“ hefur viljað tjá í steininn. Það er okkar, eftirlifandi við sæmilega heilsu, að virða ábendinguna og varðveita svæðið er nemur klapparholtinu.

Heimildir m.a.:
-Landnáma (Sturlubók).
-http://saga.khi.is/valkostir/heilsuhaelin.htm
-gardabaer.is
-kopavogur.is

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir.

Vífilsstaðir

Í Safni til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju árið 1856 er m.a. getið um eignaskipti á jörðunum Görðum og Vífilsstöðum:
Gardakirkja-221„Annis 1557 og 1558 var Knútur samt hér höfuðsmaður, og á þessu síðara ári út gaf hann á Bessastöðum, dag 4. júlí, Eggerti lögmanni Hannessyni bréf fyrirSnæfellsness- og Ísafjarðarsýslum. Og á sama ári og degi keypti hann, kóngsins vegna, Garða kirkjujörð Hlið á Álptanesi af séra Lopti Narfasyni, fyrir jörðina Vífilsstaði í Garðakirkju sókn, og skyldu prestarnir fá í kaupbætir eina mjöltunnu af kóngsins mjöli á Bessastöðum, og hélzt það við til þess óvild féll inn með höfuðsmanninum Einvold Kruse og séra Jóni Krákssyni, prófasti og presti að Görðum. Síðan hafa Garðaprestar farið hennar á mis.“

Heimild:
-Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju. Hið íslenska bókmenntafjelag 1856, bls. 702.

Hlíð

Hlið (Hlíð).

Vífilsstaðir

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ árið 2009 er ma.a. fjallað um Vífilsstaði:

1547-1548: Í Fornbréfasafni er Vífilsstaða tvisvar getið í Fógetareikningum af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum og öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi. „Jtem met Weuelstedom ij legekior. xij for. landskyldt en guelde. ij lege vj forenger smör dt. her ij foder iiij lamb oc aff foder 4 lam oc ij landskyldt en 4 ar gamle ko dt.“ DI, XII, 113.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gerði.

1549-1550: Í fógetareikningum af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum og öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi er greint frá Vífilsstöðum. „Jtem mett Wiüelstedom ij kiör xij foer landskiöld jc n lege vij förenger smör etc. oc j lege til geffuit for en geldmelckeko oc j landsskyldt en vj ar gamel ko etc.“ DI, XII, 154.
1550: Í afgjaldarreikningum Kristjáns skrifara, svo og sjávarútgerðarbók.“Jtem mett Wiiüelstedom ij kiör xij foer landskyldt jc ij lege vij förenger smör etc. oc j lege tilgeffurt for en geeldmelckeko oc j landskyldt en sex ar gamel ko etc.“ DI, XII, 174.
1552: Í fógetareiknungum yfir ofangreindar jarðir. „Jtem mett Wiuelstedom iiij kör. vj faar. landskyld jc. ij leger j vett smör. dt. och ij landskyld j iij aars gamel ko. dt.“ DI, XII, 400.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – aðhald.

1553. Í hlutabók og sjávarútgerðarreikningi Eggerts hirðstjóra. „Jtem Ion Pouelsson aff Vijuelsted viij alne vattmell.“ DI, XII, 577.
1558: „Kirkjujörðin Hlið lögð til Bessastaða, en til Garða í staðinn Viðeyjarklausturjörðin Vífilsstaðir.“ DI, XIII, 317.
1565: Bygging jarða Garðakirkju. ,,Wifilstader Jone Pälssyne fyrer malnytu kugillde og mannslän. med
jördunne ij kugillde.“ DI, XIV, 437.
1703: Garðakirkjueign. JÁM, III, 224.
1847: Jarðardýrleiki ekki tilgreindur. JJ,92.
1974: Búrekstur lagðist niður á Vífilsstöðum. GRG, 45.
Túnakort 1919: Tún allt sléttað, stærð ekki gefin upp.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gamli bærinn 1910.

„Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Þar hefur verið sjúkrahús (Berklahæli) frá 1910…Vífilsstaðabærinn stóð nær því í miðju túni vestanverðu. Rústir nú.“ segir í örnefnaskrá Vífilsstaða. Rústir Vífilsstaðabæjarins eru horfnar en þó er nokkuð auðvelt að átta sig á staðsetningu bæjarins út frá afstöðu hans gagnvart spítalanum samkvæmt túnakorti frá 1919. Á túnakortinu er jafnframt sýndur kálgarður, austan og sunnan við bæinn sem enn sjást leifar af. Fjarlægð bæjarstæðisins vestsuðvestur frá spítalanum er um 150 m. Austan við kálgarðsleifarnar er lítill timburkofi.
Rústir bæjarins hafa nú verið sléttaðar og eru nú í túni. Ekki er hægt að tala um eiginlegan bæjarhól.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – túnakort 1918.

Kálgarður er sýndur á túnakorti, fast austan og sunnan við gamla bæinn. Leifar austur- og suðurveggja hans sjást enn allgreinilega. Fjarlægð norðurenda austurveggjar að spítalanum, er um 140 m. Þýfður óræktarmói innan túns. Skógarlundur er austan og norðaustan við kálgarðinn.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954. Hér sést gamla bæjarstæðið neðst t.h.

Kálgarðurinn er grjóthlaðinn og er hleðsluhæð mest um 0,5 m. Lengd austurveggjar er um 25 m en suðurveggurinn er um 20 m að lengd. Austurveggurinn er mun greinilegri en suðurveggurinn.

Útihús er sýnt á túnakorti frá 1919. Er það nú horfið. Nú er slétt grasflöt á þessum stað.

Útihús er sýnt á túnakorti frá 1919 um 140 m norðvestur af spítalanum. Virðist það vera á svipuðum slóðum og útihús sem nú standa. Ekki er ljóst hvort um sama útihús er að ræða.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir 1908.

„Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Þar hefur verið sjúkrahús (Berklahæli) frá 1910…“ segir í örnefnaskrá Vífilsstaða. Spítalinn er sýndur á túnakorti frá 1919 og stendur hann enn.

[Reyndar er getið um Vífilsstaði í Landnámu, sbr. : (Sturlubók) – 8. kafli: „Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður„.]

Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Torfrista og stúnga nægileg.“ Óljóst er hvar torf hefur verið rist þegar Jarðabókin var tekin saman á 18. öld, en ekki er þó ólíklegt að það hafi verið í Vatnsmýri eða Vetrarmýri.
Vetrarmýri er um 330 m NNA við Vífilsstaði, milli Vífilsstaða og Hnoðraholts, en Vatnsmýri er um 100-150 m SSA við Vífilsstaði. Vetrarmýri er búið að breyta í golfvöll, en Vatnsmýri er deig og þýfð mýri, gróin grasi og mosa.
Ekki sáust ummerki torfristu við vettvangsathugun.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir 1909 – hornsteinn lagður að Vífilsstaðaspítala.

„Garður af torfi og grjóti lá umhverfis túnið, norðan, austan og sunnan Engjarnar að neðan og lækurinn,“ segir í örnefnaskrá. Vífilsstaðatúngarður er nú að mestu horfinn utan þess að sjá má slitrur af honum meðfram austurjaðri gamla túnsins.
Vestan við garðinn er trjálundur, en austan við hann er þýfður grasmói.
Garðurinn er mikið siginn. Torf er einungs allra nyrst annars yfirleitt um að ræða grjótnibbur í reglulegri röð. Heildarlengd garðlagsins er um 85 m. Hleðsluhæð hans er mest nyrst, um 0,4-0,5 m og er hann jafnframt breiðastur þar eða um 1,3 m neðst.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – garðar. Gamla bæjarstæðið ofar.

„Brú yfir lækinn niður undan bænum.“ segir í örnefnaskrá. Steinsteypt brú er yfir lækinn beint niður undan gamla bæjarstæðinu. Upphlaðnar traðir eru frá brúnni til norðausturs.
Þýfðir og grasigrónir lækjarbakkar. Lækurinn er nokkuð breiður fyrir ofan (austan) brúnna, en þrengri við og fyrir neðan hana.
Brúin er um 1,6 m á breidd og um 3,3 m á lengd. Sjá má greinilegar hleðslur í bakkanum beggja vegna brúarinnar. Ekkert handrið er á brúnni. Þar sem brúin er steinsteypt þá er hún líklega frá svipuðum tíma og spítalinn og telst því ekki til fornleifa. Spítalinn og þau mannvirki sem honum tilheyra eru þó í sjálfu sér menjar um þá mikilsverðu starfsemi sem rekin hefur verið á Vífilsstöðum frá upphafi 20. aldar. Því fær brúin að fljóta með hér.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Suðurtraðir.

Suðurtraðir „lágu heiman frá bænum niður að lækjarbrúnni.“ samkvæmt örnefnaskrá. Traðir þessar sem eru upphlaðnar, má enn sjá á kafla frá brúnni, norðan lækjarins. Þær eru einnig sýndar á túnakorti frá 1919. Þar sem traðirnar sjást ennþá, liggja þær um þýfðan grasmóa. En eftir það tekur við slétt tún. Traðirnar liggja í norðaustur frá brúnni um 50 m, en beygja eftir það til austurs og eru þær greinilegar á um 40 m kafla eftir það. Samkvæmt túnakortinu beygja þær síðan aftur til norðausturs eftir þetta allt að aðalveginum að Vífilsstöðum. Er líklegt að þessi síðastnefndi hluti sé sá sem kallaður er Norðurtraðir og er sá hluti alveg horfinn. Hleðsluhæð traðanna er líklega mest um 0,5 m og breidd þeirra um 3 m.

Í örnefnaskrá segir: „Norðurtraðir: Var eiginlega troðningur af Alfaraveginum heim að bæ.“ Norðurtraðir eru horfnar með öllu. Á túnakorti eru sýndar samfelldar traðir sem liggja frá aðalveginum að spítalanum meðfram austanverðum kálgarðinum sem er austan og sunnan við bæjarstæðið. Eftir það beygja liggja þær fyrir sunnan kálgarðinn á kafla en beygja síðan til suðvesturs eftir það. Er þessi síðasti hluti líklega sá sem nefnist Suðurtraðir í örnefnaskrá.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Jónshellnastígur.

Í örnefnaskrá segir: „Stígur þessi liggur frá Brúnni suður að Hellunum.“ Þessi stígur er enn allgreinilegur og auðvelt að fylgja honum að Jónshellum („Hellunum“). Stígurinn liggur í gegnum hraunbreiðu. Um er að ræða mjóan troðning sem hlykkjast í gegnum hraunið.

Í örnefnaskrá segir: „Vatnsbólið var í læknum niður undan bænum við Brúna. Þýfðir og grasigrónir lækjarbakkar. Lækurinn er nokkuð breiður fyrir ofan (austan) brúnna, en þrengri við og fyrir neðan hana.

Í örnefnaskrá segir: „Finnsstekkur: Stekkur var þarna í eina tíð við voginn.“ Finnsstekkur er um 1 km austnorðaustur frá Vífilsstaðaspítala. Hann er rétt norðan við veginn að Elliðavatni, undir „suðvestur horni“ Smalaholts. Reiðvegur liggur hjá tóftinni. Á grasi- og lyngi grónum hjalla við brekkurætur. Tóftin er um 14×6 m stór. Hún skiptist í tvö hólf, rétt og lambakró. Er lambakróin byggð við réttina að suðaustanverðu, bæði hólfin norðvestur-suðaustur. Ekki eru greinilegar dyr á milli hólfanna. Dyr eru hins vegar allgreinilegar á norðvestur enda réttarinnar hólfsins. Réttin er um 11×6 m að stærð og lambakróin um 4x3m. Hleðsluhæð er mest um 1 m. Hleðslur eru yfirleitt grónar þótt sjáist í hleðslugrjót hér og þar.

Finnsstaðir

Finnsstaðir – Finnstekkur.

Í örnefnaskrá: „Í gömlum skjölum segir að þarna [við Finnstekk] hafi verið hjáleiga.“ Engar aðrar minjar eru sjáanlegar við Finnstekk og er mögulegt að hann sé byggður upp úr tóftum hjáleigunnar. Fær hjáleigan sömu hnit og stekkurinn. Örnefnaskrá SP talar um Finnstekk og Finnstaði sem einn og sama staðinn: „Milli Skyggnisholts og Smalaholts eru rústir á lágum hól, sem nefnast Finnsstekkur eða Finnsstaðir.“

„Hér í norður, bak við Smalholt, er Rjúpnahlíð og þá Rjúpnadalur og svo Rjúpnahæð með Rjúpnahæðarvörðu sem héðan liggur landamerkjalínan í í miðja Kjóavelli, en þar var Kjóavallavarða,“ segir í örnefnaskrá GS. Varðan hefur áður verið á Rjúpnahæð um 200 m norðan við Elliðavatnsveg. Á Rjúpnahæð er nú sendistöð fyrir höfuðborgarsvæðið.

Vífilsstaðavatn

Vatnsgeymir við Vífilsstaðavatn.

Í örnefnaskrá segir: „Hann [vatnsgeymirinn] er upp í hlíðinni upp frá vatnsósnum, byggður 1910. Vatnið svo leitt heim í Vífilsstaðahælið.“ Vatnsgeymirinn er um 190 m NA við Grímssetu, fast við göngustíg sem liggur upp að henni. Geymirinn er í norðaustanverðri Vífilsstaðahlíð í lúpínu- og mosagrónu umhverfi og stórt basaltgrjót stendur upp úr gróðrinum hér og þar.
Steinsteyptur tankur, hringlaga sívalningur grafinn í jörðu. Tankurinn er ríflega 4 m í þvermál og stendur 1,2 m upp úr jörðinni.

Nokkuð ógreinileg tóft er rúmlega 3 km suður af Vífilsstöðum og um 550 m SV af Vífilsstaðaseli. Tóftin, sem líkast til er af beitarhúsi, er fast austan við göngustíg sem liggur N-S milli skógar og hrauns. Gras, mosa- og skógivaxinn mói. Birkihríslur vaxa inni í tóftinni. Tóftin er 12 m löng, 5 m breið og snýr N-S. Veggjahæð er 0,6-0,8 m en breidd 1-1,5 m. Tóftin er eitt hólf og inngangur er ekki greinanlegur. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar í tóftinni og er hún algróin grasi og mosa.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

„Flatahraun nær norður á móts við Kolanef. Í Vífilsstaðahlíð. Í Flatahrauni hefur verið gróðursett talsvert [af] furu og greni. Í norðaustur frá rústum beitarhússins í norðausturbrún hraunsins gegnt Kolanefi í Vífilsstaðahlíð við Kolanefnsflöt … Er lítill hellir, sem nefnist Sauðahellir. Veit op hans að hlíðinni, og eru hlaðnir kampar báðum megin við innganginn. Við hann var sauðum frá Urriðakoti gefið á gadd (á jörðinni) allt frá því að heimildamaður man fyrst eftir sér til 1933. Heyið var borið heiman frá Urriðakoti í poka á bakinu“, segir í örnefnaskrá SP. „Sauðahellir: Allgóður hellir í hraunbrúninni inn með Vífilsstaðahlíð undir Kolanefi,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Hellirinn er um 450 m ANA af beitarhúsi, hinu megin við Flatahraun og um 20 m SV af göngustíg undir Vífilsstaðahlíð. Hellirinn sést þó ekki frá stígnum vegna hraunkarga sem er á milli. Skammt sunnar og hinu megin við göngustíginn er skilti sem á stendur „Almennar Tryggingar H/F lét gróðursetja þennan lund vorið 1958“.
Hellirinn er í úfnu hrauni, sem að nokkru leyti er gróið grasi, mosa og lyngi. Hellismunninn er um 3 m víður, um 1 m hár og opnast til NA. Frá sitthvorum enda hellisopsins ganga stuttir garðar og mynda aðhald framan við hellinn. Garðarnir ganga ekki alveg saman fyrir framan hellismunnann, heldur er rúmlega 0,5 m bil á milli þeirra fjærst munnanum. Hvor garður er um 5 m langur,
1-1,5 m á breidd og mest rúmlega 1 m hár. Að jafnaði eru 5 umför í hvorum garði. Garðarnir eru haganlega hlaðnir úr ótilklöppuðu grjóti.

Heiðmörk

Fjárborg og fjárhús í Heiðmörk.

„Réttarflatir: Þar eru við Hraunbrúnina undir hlíðinni, vel grónar…Réttir: Rústir gamalla rétta eru þarna við hraunbrúnina,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftanesi. „Á flötum niður undan Svínahlíð norður með var Stekkurinn í svonefndu Stekkatúni og þar norðar voru Réttarflatir og þar Réttir, rétt við brún Svínahrauns,“ segir í örnefnaskrá GS. Réttirnar voru um 100 m NNV af stekknum í Stekkatúni og rúmlega 200 m norðaustur af Maríuhellum. Þar sem réttin var áður er nú malbikaður vegur og bílastæði.

Hnoðraholt

Hnoðraholt – skotbyrgi.

Skotbyrgi frá síðari heimsstyrjöldinni er á svonefndu Hnoðraholti um 1 km norðnorðaustur frá Vífilsstaðaspítala og um 90-100 m suðaustur af íbúðarhúsinu við Háholt 1.
Melholt sem að mestu er vaxið þéttum lúpínubreiðum. Gott útsýni er frá byrginu, einkum í norður og vestur. Byrgið er 3,5 x 3,5 m að stærð og er það hálf niðurgrafið, en um 1,20 m standa upp úr jörðu (og annað eins er niðurgrafið). Byrgið er steinsteypt með um 9 cm breiðum og 20 cm háum skotraufum, tveim á vestnorðvesturhlið, og einni á norðaustur og suðvestur hlið. Inngangur er niður í byrgið á austsuðausturhlið.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Varða er á dálitlu klapparholti norðvestan til á hábungu Hnoðraholts, um 370 m norðaustur frá skotbyrginu. Gott útsýni til allra átta, einkum þó norður og vestur. Varðan er um 80 sm á hæð og um 1 x 1 m að flatarmáli, en mjókkar upp. Varðan er fremur hroðvirknislega hlaðin.

Í örnefnaskrá segir: „Vífilsstaðabeitarhús: Í Hraunbrúninni er fjárhústótt, jötustallar.“ Tóftin er um 280 m SSA af Sauðahellinum nyrðri og rúmlega 50 m SV við veg undir Vífilsstaðahlíð. Beitarhúsið er um 2,5 km SSA af bæ. Rúmlega 3 m austur af tóftinni er rúst fjárborgar og um 10 m vestan við er garðbrot.
Umhverfis tóftina er úfið mosavaxið hraun, en fyrir framan tóftina og fjárborgina er hraunið vel grasivaxið á smá bletti, sem er eflaust leyfar túnbleðils. Tóftin er tvö hólf, hið stærra er austanmegin og er að líkindum fjárhús en hið minna kann að vera hlaða. Hún er hlaðin úr þurri hraungrýtishleðslu, úr hraunhellum sem sumar hverjar kunna að hafa verið klappaðar til. Utanmál tóftarinnar er 10,5 x 7,5 og snýr hún N-S. Hleðsluhæð er mest um 1,5 m, en víðast kringum 1 m og mesti fjöldi umfara er 7-8. Tóftin er gróin mosa, grasi og lyngi og er austurveggur mest yfirgróinn. Óvíst er hvort veggirnir hafi verið einangraðir að utan með torfi.

Heiðmörk

Fjárborg í Heiðmörk.

Í örnefnaskrá: „Þarna hefur átt að gera fjárborg. Aðeins undirstaðan.“ Fjárborgin er rúmlega 3 m austur af Vífilsstaðabeitarhúsi, rúmlega 50 m SV af vegi undir Vífilsstaðahlíð og um 20 m frá göngustíg sem liggur samhliða veginum. Umhverfis borgina er úfið mosavaxið hraun, en fyrir framan hana og Vífilsstaðabeitarhús er hraunið vel grasivaxið á smá bletti, sem er eflaust leyfar túnbleðils. Borgin er vel yfirgróin mosa og lyngi og að NA-verðu vex á henni birki.
Hringlaga fjárborg með dyr sem opnast til norðausturs. Borgin er sigin og yfirgróin og greinilega ekki fullhlaðin. Hún er hlaðin úr miðlungs og stóru hraungrýti eða hraungrýtishellum. Hleðsluhæð er ekki nema um 0,3-0,4 m, nema að utanverðu að austan er hægt að greina 5 umför og er hleðslan þar um 1 m há. Borgin heldur hringlaga formi sínu mjög vel þó sumsstaðar sé grjótið nokkuð tilgengið. Hún er 8,5 m í þvermál.

Vífilsstaðahlíð

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Í örnefnaskrá: „Hann [Vífilsstaðaselsstígur] mun hafa legið heiman frá bæ, undir Svínahlíð og með Vífilsstaðahlíð skáhalt upp eftir Ljóskollulág upp á hálsinn að Selinu austan Víkurholta.“ Heiman frá Vífilsstaðabæ að Ljóskollulág hafa Vífilsstaðaselstígur og Gjáréttargötur verið sami slóðinn, þaðan hafa þeir greinst og Vífilsstaðaselsstígur sveigt austur að Vífilsstaðaseli. Í dag er malaborinn göngustígur meðfram Vífilsstaðahlíð, en upp eftir Ljóskollulág er erfitt að greina gömlu leiðina sökum skógræktar og
annars gróðurs, en þó vottar fyrir gróinni götu, um 0,5 m breiðri sem liggur upp holtið í ANA.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Víkurholtsvarða.

Í örnefnaskrá segir: ,,Víkurholt: Tvö klapparholt uppi á Hálsinum ofan til við Eyjólfshvamm. Víkurholt Nyrðra: Nyrðra holtið, sem var hærra, kallað svo. Víkurholtsvarða Nyrðri: Allstór varða uppi á klapparholtinu.“. Víkurholtsvarða nyrðri er landamerkjavarða. Hún er uppi á háu holti, um 200 m NA af Víkurholtsvörðu syðri, um 790 m ASA af Vífilsstaðabeitarhúsi og um 640 m SSA af Vífilsstaðaseli.
Varðan er hlaðin úr hraungrýti, um 1,5 m há og 2×1 m að þvermáli. Varðan er ekki ýkja gróin.

Í örnefnaskrá: Allstór varða uppi á Klapparholtinu. Er þá komið í suðurmarkalínu.“ Víkurholtsvarða syðri er á vesturbrún Víkurholts, um 200 m SV af Víkurholtsvörðu nyðri, um 700 m SA af Vífilsstaðabeitarhúsi og um 610 m S af Vífilsstaðaseli. Víkurholtsvarða syðri er landamerkjavarða. Varðan er á klettabrún, gróinni grasi, lyngi, lúpínu og á stöku stað.
Víkurholtsvarðan syðri er grjóthlaðin, um 1,5 m á hæð og 2 m að ummáli. Varðan er ógróin.

Vífilsstaðir

Flóttamannavegur við Camp Russel á Urriðaholti.

„Úr Suðurtraðarhliði lá Urriðakotsstígurinn …En neðan frá Urriðakotsstíg lá svokölluð Norðlingagata upp á hálsinn og áfram austan í holtinu, þá leið sem nú liggur Flóttavegurinn, Vatnsendavegur eða Elliðavatnsvegur“, segir í örnefnaskrá Urriðakots GS. „Vífilsstaðastígur: Lá úr Urriðakotsholti yfir hraunið undir Dyngjuhól neðan Svínahlíðar að ósnum og þaðan af Vífilsst.
Nordlingagata: Stígur þessi var einnig kallaður svo,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftanesi. „Norðlingagata (Norðlingastígur) var gatan kölluð sem lá undir Flóðahjalla sunnan frá Oddsmýrarlæk. Gatan lá sunnan frá Norðlingahálsi, sunnan við Flóðahjalla, milli Klifs og Sandahlíðar að Vífilsstaðahlíð,“ segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Á þeim slóðum sem Vífilsstaðastígur er sagður vera er nú malbikaður vegur (Elliðavatnsvegur eða Flóttavegur), en ekkert sást til gamalla gatan við
vettvangsskoðun.

Vífilsstaðir

Gunnhildur – Grímsseta.

„Norðurendi hennar (Vífilsstaðahlíðar) kallast Hlíðarhorn og þar uppi er varða, sem kölluð var Grímssetur, en í seinni tíð er farið að nefna hana Gunnhildi, en það gæti verið komið af ensku „Gunhill“ byssuhæð, því að nálagt vörðunni er steypt skotbyrgi frá hernámsárunum,“ segir í örnefnaskrá SP. Byrgið er á norðurbrún hæðar vestan við Vífilsstaðavatn, um 50 m vestan við vörðuna Grímssetu og u.þ.b. 1 km suður af Vífilsstöðum. Mikið af stóru grjóti er í kringum byrgið og fast uppvið það, en fjær eru lúpínubreiður. Skotbyrgið er steypt ofan í sand-og malarundirlag.
Byrgið er niðurgrafið og stendur um 0,5 – 1 m upp úr jörðinni. Það er 5 m á lengd og 4 m á breidd og snýr A-V. Skotraufin vísar til norðvesturs og er á horni byrgisins. Innanmál er 2,5 x 2,5 m og lofthæð er ríflega 1,8 m. Veggir eru steinsteyptir og um 0,3 m á þykkt. Niðurgrafinn inngangur er á austurhlið. Hann er um 1 m djúpur, steinsteyptur og 2 x 1 m að flatarmáli A-V. Umhverfis innganginn er hlaðinn veggur úr hraungrýti. Hann er um 1 m hár og samanstendur af 7 umförum og er steypt á milli þeirra. Mikið af grjóti er inni í byrginu.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Gunnhildur/Grímseta.

„Allstór varða og gömul upp á holtinu. Gunnhildur: Svo var Grímsseta kölluð af vistfólki Hælisins,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Norðurendi hennar (Vífilsstaðahlíðar) kallast Hlíðarhorn og þar uppi er varða, sem kölluð var Grímssetur, en í seinni tíð er farið að nefna hana Gunnhildi, en það gæti verið komið af ensku „Gunhill“ byssuhæð, því að nálagt vörðunni er steypt skotbyrgi frá hernámsárunum,“ segir í örnefnaskrá SP. Grímsseta er um 50 m NA af steyptu skotbyrgi úr Síðari heimsstyrjöld. Varðan er fremst á norðurbrún holtsins vestan við Vífilsstaðavatn og sést til hennar langar leiðir.
Allt í kringum vörðuna er landið gróið mosa, grasi og lúpínu, en víða stendur stórgrýti upp úr gróðrinum.
Grímsseta er haganlega hlaðin úr fremur stóru grjóti, 1,8 – 2 m á hæð og þakin skófum. Þvermál hennar er 4 x 3 m. Efsti hluti vörðunnar er hruninn og er því stór grjóthrúga sunnan við hana.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Vífilsstaðasel.

„Það lá í grunnu dalverpi vestur af Vatnsás. Þar eru allmiklar rústir. Hefur verið vel hýst,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álfaneshreppi. „Ef farið er…upp á Vífilsstaðahlíð, þar sem Einarsnef gengur fram og haldið til norðausturs, þar sem Ísallínan liggur, er fljótlega komið á klapparás suðaustan háspennulínunnar, sem Selás nefnist. Suðvestan undir ásnum er grasi gróin[n] slakki á móts við mastur nr. 29 í Ísallínu. Suðaustast í slakkanum eru rústir Vífilsstaðasels,“ segir í örnefnaskrá SP. Vífilsstaðasel er hátt í 3 km suður af bæ. Vífilsstaðasel er um 550 m NA af Vífilsstaðabeitarhúsi, 40 m VSV af kvíum 045 og um 100-150 m sunnan við línuveg.
Tóftirnar eru á um 1-2 m háum hól, mjög þýfðum og grónum háu grasi og mosa. Selrústin er falin innst í smáum hvammi milli Seláss að austan og Selholts að vestan.
Selið er aflangt, um 30 x 10 m og snýr N-S. Fimm hólf virðast vera í því, öll í röð og inngangur í þau hefur verið á vesturhlið. Veggir tóftanna eru um 2-3 m breiðir og um 0,5 -1,2 m háir. Ekki sést til grjóthleðslna. Tóft sem gæti verið af kvíum er 40 m VSV frá selinu.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnaskrá: ,,Hann [Vatnsendavegur] liggur um Vífilsstaðaland, yfir hraunið hjá Dyngjuhól, um Svínahlíð yfir lækinn á brú við Ósinn. Upp í Skygnisholt, um Finnsstekk og upp á Vífilsstaðaháls þaðan um Rjúpnadal og ofan Vatnsenda á Suðurlandsveginn við Rauðavatn. Vegur þessi var upphaflega kallaður Flóttavegur.“ Gatan kallast Elliðavatnsvegur þar sem hún liggur um land Garðabæjar og er enn nýtt sem akvegur.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Dyngjuhóll.

„Suður af hellunum rétt sunnan við Heiðmerkurveginn er stór hraunhóll, sem áður var með einni vörðu, en nú með mörgum. Hann kallaði Urriðakotsfólkið Dyngjuhól, en Vífilsstaðafólkið Hádegishól, og var hann eyktarmark þaðan“, segir í örnefnaskrá SP. Hóllinn er um 1350 m SSV af Vífilsstöðum og er bein sjónlína þar á milli. Um 10-15 m hár hóll úr hraungrýti, vaxinn mosa, birkikjarri og berjalyngi.
Á Hádegisholti eru a m k 9 vörður, allar hlaðnar úr hraungrýti. Engin þeirra er hærri en 0,6 m eða meira en 1,5 m í þvermál.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Maríuhellar.

„Í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar [Elliðavatnsvegar] og Heiðmerkurvegar eru Maríuhellar. Þeir eru tveir og eru á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar. Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Þessir hellar eru oftast kallaðir Vífilsstaðahellar“, segir í örnefnaskrá SP. Maríuhellar eru skammt norðan við Heiðmerkurveg þar sem hann liggur þvert á Elliðavatnsveg og eru merktir með skilti. Hellarnir eru rúmlega 150 m NNV af Hádegisholti og 1,2 km SSV af Vífilsstöðum.
Maríuhellar eru tveir náttúrulegir hellar í Vífilsstaðahrauni. Í fyrndinni hefur verið um einn helli, eða hraunrás, að ræða, en þak hans er að hluta fallið svo úr verða tveir hellar andspænis hvor öðrum, sinn hvoru megin við hrunið. Hraunið er að nokkru leyti mosa- og grasivaxið.
Um 25 m N-S eru milli munna hellanna tveggja. Nyrðri hellirinn er um 20 m langur NV-SA, 12 m breiður og um 3 m hár. Stærri munni hellisins er við suðausturendann og vísar að syðri hellinum, en jafnframt er mjög lítið op við norðvesturendann. Syðri hellirinn er um 20-25 m langur N-S, 10 m breiður og um 3-4 m hár. Í þaki syðri hellisins er 2×1 m stórt gat og grjóthrun á gólfi hans fyrir neðan. Hrunið skiptir syðrihellinum í tvö hólf. Engar hleðslur er að finna innan í Maríuhellum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Maríuhellar – kort.

„Stekkatúnið: Svo voru Máríuvellir einnig kallaðir. Stekkur frá V[ífilsstöðum],“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. „Í hraunjaðrinum fast uppi við Vífilsstað[a]hlíð beint vestur af Grímssetri er lítil flöt og kallast sá hluti hennar, sem nær er hlíðinni, Maríuvellir, en hlutinn, sem er nær hrauninu, Stekkjartún. Í Stekkjartúni var rétt eða rústir af rétt. Þegar Flóttavegurinn [nú Elliðavatnsvegur], sem liggur um norðurjaðar flatarinnar, var lagður, var réttin rifin,“ segir í örnefnaskrá SP. „Á flötum niður undan Svínahlíð norður með var Stekkurinn í svonefndu Stekkatúni og þar norðar voru Réttarflatir og þar Réttir, rétt við brún Svínahrauns,“ segir í örnefnaskrá GS. Rúst stekksins á Maríuvöllum er um 10 m vestur af rótum Svínahlíðar, rúmlega 1,1 km SSV af bæ og um 250 m norðaustur af Hádegisholti.
Tóftin er á lítilli gras- og mosavaxinni flöt milli Svínahlíðar og Flatahrauns. Birkihríslur vaxa fast norðan og sunnan við rústina.
Stekkjartóftin er 9 x 5 m að ummáli og snýr N-S. Rústin er sigin og er hæð veggja um 0,5 m en breidd um 1 m. Einungis er um 0,5 m bil milli austur og vestur langveggja. Óljóst er hvort tóftin er eitt hólf eða hvort hún sé tvískipt, en þúst er fast við vesturvegg að norðan, sem kann að vera leifar annars hólfs.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Guðnýjarstapi.

„Norðan í háholtinu er varða, sem heitir Guðnýjarstapi,“ segir í örnefnaskrá AG. „Norðan í háholtinu var varða, Guðnýjarstapi…Nú er allt Hofstaðaholtið komið undir byggingar,“ segir í örnefnaskrá SP. „…eftirfarandi lýsing passar betur „Norðan í holtinu er Guðnýjarstapi, klapparhóll með grasþúfu. Guðnýjarstapi er nú inn á lóð Holtsbúðar 87,““ segir í örnefnaskrá EBB (viðauka við skrá SP).
„Markavarðan: Hún mun hafa verið norðan og neðan við Guðnýjarstapa,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Sunnan, austan og vestan við Guðnýjarstapa eru Holtsbúð 87, 89 og 91.
Guðnýjarstapi er náttúruleg smáhæð, um 8×6 m að flatarmáli NV-SA og allt að 1,5 m há. Hér og þar standa hraunbjörg upp úr grasigrónum stapanum og efst á honum er stór þúfa. Mögulegt er að þúfan sé yfirgróin varða, en líklegra er að Markavarðan sé komin undir byggð.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Guðnýjarstapi.

„Norðan í háholtinu er varða, sem heitir Guðnýjarstapi. Einnig er varða, hlaðin af sjúklingum, á holtinu. Sú varða heitir Hallbera,“ segir í örnefnaskrá AG. „Nú er allt Hofstaðaholtið komið undir byggingar,“ segir í örnefnaskrá SP. „Hallbera varða austan í Hofsstaðaholti hvarf, þegar byggð reis á holtinu. Hún stóð, þar sem lóð Gígjulundur 6 er nú,“ segir í örnefnaskrá EBB (viðauka við skrá SP). Varðan var um 610 m SSA við Vífilsstaði.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Arnarsetursvarðan.

„Arnarsetur (-> Arnarbæli, Arnarstapi) er hæð norður af Hjallabrún og landamerki fyrir Vatnsendajörðina…Í beinni stefnu til suðurs frá Kjóavöllum og þar sem hæst ber til að sjá er klapparborg sem ber nafnið Arnarsetur,“ segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Landamerkjavarðan á Arnarseti er um 1,5 km ANA af Vífilsstaðaseli. Varðan er uppi á hárri hæð í grýttu landslagi.
Varðan er um 1,2 m há og 3 x 2 m að flatarmáli NA-SV og er nokkuð strýtulaga. Hún sést langt að. Neðri hluti vörðunnar er grasivaxinn en að ofan má greina mjög óreglulega hleðslu og stendur þar tréprik upp úr, sem bendir til að bætt hafi verið við vörðuna fyrir skömmu síðan.

Rúmlega 40 m austur af Vífilsstaðaseli eru kvíar. Kvíarnar eru á mosa- og grasivöxnum kletta- og grjótás sem snýr N-S, rofinn að hluta.
Kvíarnar eru hlaðnar úr hraungrýti. Þær eru tvö hólf, um 14 m langar, 3-6 m breiðar og snúa NA-SV. Norðeystra hólfið er hringlaga, um 6 m í þvermál og hefur dyr á SA hlið. Suðvestara hólfið er aflangt NA-SV, rúmlega 7 m langt og 3 m breitt og opnast til SV. Veggir kvíanna eru nokkuð signir, 0,3-0,6 m háir og 0,4-0,6 m á breidd.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Draugahellir.

„Ofanvert við Maríuhella var svo Draugahellir,“ segir í örnefnaskrá GS. „Draugahellir er á svæði skátanna, þarf að síga í hellinn. Hann er stór og hár. Opið þröngt. Maður kemur fyrst niður á syllu (með vasaljós meðferðis). Nú hafa skátarnir sett upp borð í honum. Hellirinn er ekki langt frá Heiðmerkurveginum,“ segir í örnefnaskrá EBB. Draugahellir er um 15 m norður af Maríuhellum og um 200 m norður af Hádegishól. Hellisopið sést ekki frá vegi þó það sé um 40 m ANA af gatnamótum Heiðmerkurvegar og Elliðavatnsvegar.
Hraunhellir sem snýr NA-SV og tilheyrir eflaust sama kerfi og Maríuhellar. Munni hans er um 0,5×0,5 m.
Örnefnið Draugahellir bendir til að þjóðsaga kunni að vera til um hellinn, þó skrásetjari hafi ekki fundið heimildir þar að lútandi.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – fjósið.

„Norðan Vífilsstaða liggur stórt mýrasvæði, Vetrarmýri. Í suðvesturhorni þess er Bjarnakriki. Þar er talið að verið hafi á tímabili reimleikar miklir,“ segir í örnefnaskrá GS. „Suðvesturhorn Vetrarmýrar við fjósið á Vífilsstöðum heitir Bjarnakriki. Þar þótti reimt og var sagt, að óeðlilegur skepnudauði hefði verið í fjósinu fyrst eftir að það var tekið í notkun, svo að sóknarpresturinn var fenginn til að vígja fjósið. Tók þá fyrir reimleikana,“ segir í örnefnaskrá SP. „Bjarnarkriki í túni Vífilsstaða er horfinn undir Reykjanesbraut, þar var sleða- og skíðabrekka ofan í krikann,“ segir í örnefnaskrá EBB (viðauka við skrá SP). Bjarnarkriki er um 180 m NNV við Vífilsstaði.
Reykjanesbraut liggur yfir Bjarnarkrika og norðaustan við götuna er golfvöllur.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – fjárhús fyrrum, sem hvergi hefur verið minnst á…

Hofstaðir

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ árið 2009 er m.a. fjallað um sögu byggðar:

Byggðasaga

Langeyri

Landamerkjavarða Garðabæjar við Hvíluhól.

„Til að geta sett niðurstöður fornleifaskráningar í fræðilegt samhengi er nauðsynlegt að hafa hugmynd um sögu byggðar á svæðinu sem er til rannsóknar. Byggðasaga er einn sá grunnur sem áætlanir um frekari rannsóknir, t.d. uppgrefti, ættu að byggja á. Vitneskja um sögu byggðar eykur líkur á að rannsóknarefni fornleifafræðinga séu mótuð og þar af leiðandi fáist markvissari niðurstöður.

Garðabær

Garðabær – loftmynd 1954.

Ekki hefur mikið verið ritað um byggðasögu Garðabæjar, eða þeirra jarða sem bærinn byggðist úr. Fyrir áhugasama um sögu og þróun byggðar í Garðabæ má þó benda á Garðabær: Byggð milli hrauns og hlíða sem út kom 1992 en þar er að finna úttekt á upphafi byggðar innan marka bæjarfélagsins og þróun hennar allt fram á síðustu ár og Örnefni og leiðir í landi Garðbæjar frá 2001, en þar er teknar saman all ítarlegar upplýsingar um örnefni innan marka bæjarfélagsins sem og gamlar leiðir og flestar þeirra merktar samviskusamlega á loftmyndir og kort. Sökum þess að lítið hefur verið fjallað um byggðarsögu Garðabæjar er markmiðið hér að draga saman helstu staðreyndir um landnám og byggðarþróun sem þegar hafa verið settar fram en jafnframt nota fornleifaskráningu og þær fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið allt fram á síðustu ár til að bæta við myndina og dýpka skilning á byggðarþróuninni. Auk fornleifa nýtast fjölmargar ritaðar heimildir við ritun byggðasögu s.s. Landnáma, Sturlunga og Íslendingasögur, Íslenzkt fornbréfasafn, tölur um dýrleika jarða og upplýsingar um staðsetningu kirkna og bænhúsa. Sú umfjöllun sem hér fylgir um byggðasögu Garðabæjar, eins og reyndar skýrslan í heild, afmarkast við mörk bæjarfélagsins eins og þau eru nú.

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll við Arnarnes.

Land Garðabæjar tilheyrði Álftaneshreppi, að líkindum allt frá upphafi hreppaskipulags sem á rætur að rekja í það minnsta aftur á 13. öld og sennilega allt aftur til 11. aldar, og var svo allt til 1878 er skipting varð milli Garðahrepps og Bessastaðahrepps. Almennt er álitið að bæir, þar sem kirkjur eða bænhús stóðu, hafi byggst snemma, enda hafi slík hús oftast verið stofnsett fljótlega eftir árið 1000.

Garðabær

Garðabær; Hofstaðir – loftmynd 1954.

Aðeins ein kirkja er skráð innan marka Garðabæjar, Garðakirkja, enda greinilegt að á Görðum var þungamiðja byggðar fyrr á öldum. Ritaðar heimildir eru um eitt bænhús innan Garðabæjar og sem var landi Arnarness. Vel má vera að fleiri slík hafi verið á hinum lögbýlunum en heimildir um þau glatast. Þá eru kuml óræk sönnun um forna byggð sem komin var á fyrir 1000. Engin kuml hafa fundist innan núverandi marka Garðabæjar né örnefni sem gefa slíkt til kynna. Það er áhugavert og líklegt að kumlunum hafi verið raskað, þau ekki verið til staðar á svæðinu eða þekking um staðsetningu þeirra glatast. Landamerki og landamerkjagarðar sem skilja á milli jarða geta einnig verið fornir og gefið til kynna aldur býlanna. Tvenn slík garðlög eru skráð í Garðabæ. Hið fyrra skilur á milli Setbergs og Urriðakots en hið seinna á milli Setbergs, Hraunsholts, Urriðakots, Hagakots og Vífilsstaða. Einnig koma bæjarnöfn að góðu gagni þegar á að reyna að ákvarða í hvaða röð jarðir hafi byggst. Selstaða er þekkt frá þremur lögbýlum í Garðabæ, Görðum, Setbergi og Vífilsstöðum. Það getur verið vísbending um að býlin séu eldri en önnur á svæðinu.
Samkvæmt tiltækum vísbendingum mætti ætla að elsta byggða ból innan bæjarmarkanna væri Garðar. Garðastaður var metinn á 60 hundruð árið 1697, en til samanburðar var Setberg metið á 16 hundruð árið 1703. Enginn vafi er á því að öll býlin í Garðahverfi byggðust út úr Görðum og árið 1703 voru flest býlin í Garðhverfi enn hjáleigur í óskiptu landi Garðastaðar.

Garðar

Garðar.

Örnefnið ‘Garðar’ er að líkindum frumlegra en ‘Bessastaðir’og virðist hæfa betur fyrsta býlinu á Álftanesi, en að auki eru Garðar metnir nokkru verðmætari í jarðabók 1703,10 þó svo að þar kunni að liggja aðrar ástæður að baki.11 Samkvæmt Landnámu var bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, landnámsmaður á stórum hluta þess svæðis sem Garðabær nú byggir: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. Hans son var Egill, faðir (Össurar, föður) Þórarins, föður Óláfs, föður Sveinbjarnar, föður Ásmundar, föður Sveinbjarnar, föður Styrkárs.

Skúlatún

Skúlatún og Skúlatúnshraun. Helgafell fjær.

Staðsetning Skúlastaða er, eins og áður kom fram, ekki þekkt, en tvær megin kenningar hafa verið á lofti varðandi staðsetningu landnámsbæjarins. Sú fyrri er sú að annað hvort hafi hann verið þar sem seinna byggðust Garðar eða Bessastaðir. En sú síðari sem verður að teljast ósennilegri, er að þeir hafi verið í Skúlatúni, sem er grasigróinn blettur á hraunbreiðu vestur af Helgafelli, við afrétti Garðabæjar og Bessastaðahrepps. Það verður að teljast afar ósennilegt að landnámsbærinn hafi staðið í Skúlatúni enda er þar með öllu vatnslaust og slægjulaust. Hraunið sem Skúlatún er hluti af er að líkindum eldra en landnám Íslands og auk þess er ótrúlegt að fyrsta byggðin á svæðinu hafi verið upp til fjalla, en ekki á grónari og búsælli svæðum niður við sjó. Sá hluti Garðabæjar sem stendur utan ætlaðs landnáms Ásbjörns, var samkvæmt Landnámu byggt Vífli, leysinga Ingólfs: Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Vífilsstaðir draga því samkvæmt þessu nafn sitt af Vífli þessum og taldi Björn Þorsteinsson að frásögnina mætti telja vitnisburð um fyrsta kotið á landinu. Hvaða trúnað sem fólk kann að leggja á Landnámu, er ljóst að á svipuðum tíma og þeir atburðir sem hún lýsir komust fleiri jarðir, eða hjáleigur, í byggð innan núverandi marka Garðabæjar. Fornleifauppgröftur við Hofstaði í miðbæ Garðbæjar leiddi m.a. í ljós skála frá landnámstíð. Mannvirkið er næststærsti víkingaaldarskáli sem grafinn hefur verið upp hér á landi, eða um 30 x 8 m að flatarmáli og því virðist ekki hafa verið um kotbúskap þar að ræða, þó svo að á seinni öldum hafi Hofsstaðir verið metnir sem hálflenda.
Þéttbýli byrjaði að myndast í landi Garðabæjar í kringum 1950 í kjölfar skorts á einbýlishúsalóðum í Reykjavík. Fyrsti vísirinn af þéttbýli byrjaði að myndast í landi Sveinatungu og Hraunsholts og um 1960 risu ný hverfi fyrst í Flötum, sunnan Vífilsstaðavegar og í Arnarnesi. Árið 1960 var Garðabær löggiltur sem verslunarstaður og 1975 fékk bæjarfélagið kaupstaðaréttindi.“

Ritaðar heimildir um jarðir í Garðahverfi

Garðar

Garðar fyrrum.

„Garðastaður er sú jörð innan marka Garðabæjar sem elstar og mestar heimildir eru til um.
Í Hrafnkels sögu Freysgoða sem flestir telja ritaða um 1300 er minnst á Þormóð Þjóstarson sem sagður er búa í Görðum á Álftanesi. Garðar koma tvisvar fyrir í Sturlungu í báðum tilfellum í sögum sem líklega voru ritaðar á seinni hluta 13. aldar. Í Íslendingasögu segir að Gizur jarl hafi gist nokkrar nætur á Görðum hjá Einari bónda Ormssyni. Þar hitti Gizur Óláf jarl Oddson í kirkjugarðinum í Görðum. Í Þórðar sögu kakala segir frá því þegar Þórður Bjarnason dvelur hjá Einari Ormssyni í Görðum og var á endanum höggvinn í “ytri stofunni” á Görðum.
Elsta heimildin um Garða er líklega í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar í Skálholti, frá um 1200, og er því ljóst að Garðastaður er gömul kirkjujörð. Þar stóð fram að siðaskiptum á 16. öld Péturskirkja, helguð Pétri postula. Í kirkjumáldaga frá 14. öld sést að Garðakirkja var nokkuð vel stæð og voru eignir hennar dæmigerðar fyrir kirkjur á stórbýlisjörðum.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrir 1960.

Garðakirkja var aflögð í upphafi 20. aldar er Garðasókn var sameinuð Hafnarfjarðarsókn og var síðasta messan haldin 15. nóvember 1914. Árið 1960 var Garðasókn hins vegar upptekin að nýju og fáum árum seinna var ný Garðakirkja vígð, byggð að hluta á veggjarústum hinnar eldri kirkju.
Frá árinu 1307 er varðveitt bréf er varðar tilkall Garðastaðar til rekaviðs og landrekins hvals við Grindavík en samkvæmt því áttu Garðar allan: “vidreka og hvalreka fra Ranganiogre og [i] Leitu kvenna bása. ad kalftiorninga fiouru.“ Í Hítardalsbók er máldagi frá 1367 sem segir að Garðakirkja, sem sé helguð Pétri postula, eigi allt heimland, Hausastaði og Selskarð. Í Vilchinsmáldaga frá 1397 er jörðunum Hlíð, Bakka, Dysjum, Hraunsholti og Hjallalandi, auk afréttar í Múlatúni, bætt við upptalninguna á eignum. Rúmlega 150 árum síðar, eða 1558, fóru fram jarðaskipti að undirlagi Knudt Stensson, Konglig Mejestetz Byfalningsmann, við séra Lopt Narfason í Garðakirkju, er færðu Hlíð undir Bessastaði og í konungseign, en í staðinn fengu Garðar Vífilsstaði, sem fram að því höfðu tilheyrt Viðeyjarklaustri. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns voru Garðar metnir á 60 hndr árið 1697.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

Í örnefnaskrá Kristjáns Eiríkssonar segir að Hafnarfjörður eigi þá 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti af Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur.

Engidalsvarða

Engidalsvarðan.

Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …”. Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum…”
Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Í Garðahverfi eru nokkrar litlar jarðir og hjáleigur sem byggst hafa út frá Görðum og sem frá fornu fari hafa tilheyrt kirkjujörðinni. Ágangur sjávar og landbrot virðist hafa hrjáð allar jarðirnar í Garðhverfi, t.a.m. segir í Jarðabók Árna og Páls að bæjarhús Bakka hafi þurft að færa þrisvar frá sjó og árið 1918 var búið að færa Austurbæjarkálgarðinn á Dysjum fimm sinnum síðustu 28 árin á undan sökum landbrots.

Á Dysjar er fyrst minnst í Vilchinsmáldaga frá 1397 og er jörðin sögð eign kirkjunnar á Görðum. Í skrá frá 1565 yfir byggðar jarðir Garðakirkju er minnst á Dysjar og er jörðin þá ekki lengur talin hjáleiga. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Dysjar enn eign Garðakirkju og teljast lögbýli í óskiptu Garðastaðalandi og er jarðadýrleiki því óviss, því vitanlega borgaði jörðin enga tíund. Árið 1971 eignaðist Hafnarfjörður hluta úr landi Dysja.

Garðahverfi

Dysjar og Vestur-Dysjar (h.m.).

Líkt og Dysjar kemur Bakki fyrst fyrir í Vilchinsmáldaga frá 1397 og svo aftur í skrá yfir byggðar jarðir í eign Garðastaðar frá 1565 og telst þar ekki hjáleiga.
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir að Bakki sé lögbýli og hafi fullt fyrirsvar, en standi í óskiptu landi Garðastaðar og því er dýrleiki óviss. Í Jarðabók segir jafnframt: „Þessum bæ fylgdi til forna Garðamýri (ein mýri þarí hverfinu … Mýrina tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útheyss slægjum og færðist so aftur landskuldina …” Byggð á Bakka lagðist af árið 1910.

Garðahverfi

Pálshús.

Elstu heimildir um Pálshús eru frá 1565 og er býlið þá hjáleiga í landi Garða. Árið 1703 er Pálshús enn fyrirsvarslaus hjáleiga í óskiptu Garðastaðalandi.
Svipaða sögu er að segja af Nýjabæ, á jörðina er fyrst minnst 1565 í skrá yfir byggðar jarðir í landi Garða. Í jarðabók frá upphafi 18. aldar er Nýibær kallaður hálfbýli, „því þarer ekki fyrirsvar (eða hreppamanna hýsing) nema að hálfu. Stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða eins og hin í hverfinu, er hjáleigur kallast.”
Á Ráðagerði og Miðengi er ekki minnst í heimildum fyrr en 1703 og þá sem hjáleigur Garða í óskipu Garðastaðalandi. Þar að auki segir í Jarðabók að Miðengi hafi fyrst byggst úr Hlíðarlandi á fyrri hluta 17. aldar og hafi í manna minnum haft hálft fyrirsvar.

Garðahverfi

Hlíð.

Móakot byggðist einnig úr Hlíð og segir í jarðabók frá 1703 að það hafi gerst fyrst „í þeirra manna minni, sem nú lifa” og er elsta heimildin um Móakot einungis 5 árum eldri, frá 1698. 16. febrúar það ár var Oddi Ásbjarnarsyni ábúanda á Móakoti stefnt fyrir Kópavogsþing sökum lönguhöfuðs sem reist hafði verið á grenispýtu, en á þinginu gekkst vinnumaður á Görðum við því að hafa reist stöngina í þeim yfirnáttúrulega tilgangi að kalla fram betra veðurfar til fiskveiða. Móakot fór í eyði árið 1930.
Árið 1397 er Hlíð eign kirkjunnar á Görðum og er árið 1565 er á lista yfir byggðar hjáleigur í landi Garða. Í Jarðabók Árna og Páls árið 1703 er Hlíð enn hjáleiga Garða og tekið fram að jörðin hafi verið „lögbýli áður en Miðengi var þar frá tekið og var þar þá fyrirsvar að menn meina.”.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla fremst.

Hausastaðir og Selskarð voru eign Garða þegar árið 1367, og eru það einu jarðirnar sem minnst er á í Hítardalsbók sem voru í landi Péturskirkjunnar á Görðum. Því er mögulegt að Hausastaðir og Selskarð séu elstu jarðirnar sem byggðust út frá Garðastað, en á aðrar jarðir er ekki minnst fyrr en í fyrsta lagi 1397. Á báðar jarðirnar er svo minnst árið 1565, í skrá yfir byggðar jarðir staðarins sem ekki voru hjáleigur. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Hausastaðir „lögbýli kallað því það hefur fult fyrir svar en stendur þó í óskiftu Garðastaðar landi so sem hjáleigur. Jarðadýrleiki óviss.” Frá sama ári segir um Selskarð í jarðabók að jarðadýrleiki sé einnig óþekktur og að árið 1703 hafi verið einn ábúandi, 1 kúgildi og landskuld hafi verið 60 ánir.

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Síðasta jörðin í Garðahverfi er Hausastaðakot. Á þá jörð er ekki minnst fyrr en í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 og er því ljóst að hún er að líkindum eitthvað yngri en hinar jarðirnar. Hausastaðakot var hjáleiga í óskiptu Garðastaðalandi, en samkvæmt Jarðabókinni var það mál manna að „hún hafi til forna legið til Hausastaða og verið þar frá tekin og lögð undir staðinn fyrir mannslán og mjeltunnu, sem hvorutveggja var áður skilið í landskuld auk þeirra sem nú er.“

Hofstaðir

Hofstaðir – dæmi um vel frágengnar fornleifar í þéttbýli. Fornaldarskálinn sést vel á loftmyndinni.

Ritaðar heimildir um jarðir utan Garðahverfis Nú verður rakin stuttlega byggðasaga þeirra jarða sem eru utan Garðahverfis. Jarðirnar koma fremur sjaldan fyrir í gömlum ritheimildum. Elsta heimildin um Hofstaði er frá 1395, en á hinar er ekki minnst fyrr en á 16. og 18. öld. Þó er ljóst að flestar jarðanna hljóta að vera þó nokkuð eldri en ritheimildir gefa vísbendingar um. Slíkt má fullyrða, m.a. vegna tiltækra upplýsinga um landnámsskála á Hofstöðum og þeirra upplýsinga sem nú hafa komið í ljós í Urriðakoti. Í Landnámu er einnig talað um Vífilstóftir, sem án efa er undanfari Vífilsstaða og er það án efa vísbending um háan aldur jarðarinnar. Jarðirnar utan Garðahverfis verða hér teknar fyrir í þeirri röð sem þær komu fyrir í Jarðatali Johnsens frá 1847.

Setberg

Setbergsbærinn 1772 – Joseph Banks.

Setberg er vestust jarðanna innan marka Garðabæjar og tilheyrir að hluta Hafnarfirði. Elstu varðveittu ritheimildir um Setberg eru frá fyrri hluta 16. aldar. Til er kvittunarbréf frá árinu 1505 er staðfestir að Grímur Pálsson sé skuldlaus Þorvarði Erlendssyni vegna kaupa þess fyrrnefnda á jörðinni Setbergi. Átján árum síðar, eða 1523, var útgefið annað sölubréf fyrir eignaskiptum á jörðinni, en Tómas Jónsson hafði þá greitt bræðrunum Pétri og Halli Björnssonum að fullu fyrir Setberg en í þessu bréfi eru landamerki jarðarinnar m.a. talin upp. Af jarðabréfum má ráða að upp úr miðri 17. öld skipti Setberg nokkrum sinnum um eigendur. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var Setberg metið á 16 hndr og er í eign Þóru Þorsteinsdóttur. Á þeim tíma er Setberg eina jörðin innan núverandi marka Garðbæjar sem var í einkaeign og hafði svo verið í það minnsta frá því fyrir 1505 samkvæmt þeim eignaskiptabréfum sem varðveist hafa. Árið 1912 keypti Hafnarfjörður hluta af Setbergslandi, allt til Lækjarbotna úr neðstu jarðabrú í Kaplakrika.

Urriðakot

Urriðakot.

Óvíst er um aldur Urriðakots, en jörðin virðist hafa verið í eigu kirkjunnar fram á miðja 16. öld. Nafn Urriðakots kemur fyrst fyrir í jarðaskiptabréfi frá 1563 en jörðin er þá ein 19 jarða sem renna til konungs í skiptum fyrir jafnmargar jarðir til Skálholtsstóls. Næstu heimildir er varða Urriðakot eru frá 18. öld og er þá jörðin enn í konungseign. Í Jarðabók frá 1703 er jarðadýrleiki óviss, en Urriðakot er þar kallað hálfbýli því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móti lögbýlisjörðum og er í konungseign. Árið 1847 var Urriðakot svo komið í bændaeign og metið á 16 hndr. Ekki er loku fyrir það skotið að Urriðakot hafi á sínum tíma byggst út frá Setbergi. Nú liggja mörk Setbergs og Urriðakots um Urriðakotsvatn og um miðjan Hrauntanga sem skagar út í vatnið að norðanverðu. Á Hrauntanga er fornt garðlag sem kallast Lambhagagarður og teygir það sig inn á báðar jarðir. Lambhagagarður er eldri en landamerkjagarðurinn sem skiptir jörðunum norður af Urriðakotsvatni og sem gengur þvert á Lambhagagarð. Hið forna garðlag er því líklegur vitnisburður þess að eitt sinn hafi Setberg og Urriðakot verið ein og sama jörðin. Nöfn jarðanna gætu gefið vísbendingu um hvor sé eldri, en „kot” örnefni eru yfirleitt talin yngri en nöfn sem vísa í náttúruaðstæður, líkt og „Setberg”.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Byggð á Vífilsstöðum á mögulega upphaf sitt á landnámsöld, eins og áður kemur fram, en annars eru ritheimildir hljóðar varðandi Vífilsstaði fram undir miðja 16. öld, en frá þeim tíma eru til talsvert af heimildum, allar stjórnsýslulegs eðlis.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Í Fornbréfasafni er Vífilsstaða tvisvar getið í Fógetareikningum af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum og öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi 1547-1548 og aftur getið í fógetareikningum 1549-1550. Vífilsstaðir koma einnig fyrir í afgjaldarreikningum Kristjáns skrifara frá 1550 og í fógetareikningum 1552. Ári síðar, eða 1553, er nefndur ábúandi á Vífilsstöðum í hlutabók og sjávarútgerðarreikningi Eggerts hirðstjóra. Að undirlagi Knudt Stensson Konglig Majestetz Byfalningsmann gengu Vífilsstaðir undir Garðakirkju árið 1558, en jörðin hafði fram að þeim tíma tilheyrt Viðeyjarklaustri. Var það gert í skiptum fyrir Hlíð sem var tekin undir konungsjörðina Bessastaði. Minnst er á Vífilsstaði í skrá yfir byggðar jarðir Garðakirkju frá árinu 1565. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 er dýrleiki jarðinnar sagður óviss sökum þess að Vífilsstaðir eru þá enn Garðakirkjueign,75 og dýrleiki er ekki heldur tilgreindur Jarðatali Johnsens frá 1847. Vífilsstaðir eru líklegast einna þekktastir fyrir að vera aðsetur heilsuhælis fyrir berklasjúklinga, en það var sett á laggirnar árið 1910. Árið 1974 lagðist búrekstur lagðist af á Vífilsstöðum.

Hagakot

Fyrrum bæjarstæði Hagakots – Tjarnarflöt 10.

Litlar heimildir frá fyrri öldum hafa varðveist um Hagakot. Árið 1703 var jörðin í konungseign og hálflenda með fyrirsvar til hálfs á við lögbýli. Bæjarrústir Hagakots eru nú horfnar með öllu, en voru áður þar sem nú stendur íbúðarhúsið að Tjarnarflöt 10.

Björn Konráðsson

Björn Konráðsson, oddviti Garðahrepps í 28 ár.

Hofsstaðir eru næsta jörð norðan Hagakots og er ljóst að búseta hófst þar mjög snemma. Skáli frá landnámsöld fannst við fornleifauppgröft skammt vestur af núverandi bæjarstæði Hofstaða. Hofstaðabærinn stóð þar frá upphafi og fram á 13. öld, en var síðan fluttur, mögulega á þann stað sem núverandi bæjarhús stendur. Elsta byggingarstigið er veglegur víkingaaldarskáli sem ber þess vitni að stórbýli hafi verið á Hofstöðum í fornöld, þó ekki sé minnst á jörðina í Landnámu. Fyrst er minnst á Hofstaði í rituðum heimildum á 14. öld en þá komust Hofsstaðir í eigu Viðeyjarklausturs. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Hofsstaðir sagðir í eigu konungs og hafa að líkindum orðið það við siðaskiptin um miðja 16. öld. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 voru Hofsstaðir enn í konungseign og metnir á 10 hdr.82 Búskapur lagðist af á Hofstöðum árið 1965 og keypti Garðahreppur jörðina undir íbúðahúsalóðir ári seinna.

Garðabær

Þorgarðsdys í Arnarnesi.

Fátæklegar ritheimildir hafa varðveist um Arnarnes. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 er Arnarnes konungsjörð og jarðadýrleiki því óviss.84 Telja má þó líklegt byggð í Arnarnesi sé mun eldri en þar er eina þekkta bænhúsið innan núverandi merkja Garðabæjar. Á nesinu eru þekkt tvö býli, Arnarnesið sjálft og svo Litla Arnarnes, sem einnig er þekkt sem Arnarnes gamla og Arnarneskot. Ekkert er minnst á kotið í jarðabókinni og gæti það verið vísbending um að Litla Arnarnes kunni að vera yngra en frá árinu 1703 eða ekki í byggð á þeim tíma. Á Arnarnesinu eru þekktar þrjár dysjar sakamanna sem teknir voru af lífi á Kópavogsþingi og ein þeirra, mun vera dys Hinrik Kules sem dæmdur var til dauða fyrir morð þann 23. febrúar 1582. Minna er þekkt um hinar dysjarnar tvær, en þær ganga jafnan undir nöfnunum Þorgarðsdys og Þormóðsleiði. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var Arnarnes enn í konungseign og metin á 20 hdr, og því hæst metna jörðin innan núverandi marka Garðabæjar utan Garðastaðar sjálfs.

Garðabær

Garðabær 1969.

Ekki er vitað hvenær Hraunsholt byggðist fyrst, en líkt og með fleiri jarðir innan marka Garðabæjar þá kann jörðin að vera býsna gömul þótt nafn hennar komi ekki fyrir í mörgum ritheimildum fyrri alda. Elsta þekkta heimildin um jörðina er frá árinu 1565, og er Hraunsholt þá ein jarða Garðakirkju. Í byrjun 18. aldar var jörðin enn í eigu Garðakirkju, en óvíst var á þeim tíma hvort kalla skildi jörðina hálflendu eða lögbýli „því þar er margoft ekki fyrirsvar nema til helminga, utan þegar vel fjáðir menn hafa ábúið, og stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi”.
Þó svo að vísbendingar ritheimilda séu fremur þöglar um upphaf og þróun byggðar innan Garðabæjar er ýmislegt sem bendir til að byggð hafi snemma hafist á þessu svæði og jafnvel orðið nokkuð þétt. Til þess benda m.a. uppgreftir á Hofstöðum og í Urriðaholti og Garðahverfið allt. Einnig má vera að á næstu árum/áratugum muni frekari fornleifarannsóknir á svæðinu leiða í ljós mun ítarlegri vitnesku um elstu byggð á svæðinu og þróun hennar.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Garðabær

Núverandi bæjarstjóri Garðabæjar, Gunnar Einarsson.

Hagakot

Í ritinu „Listin að lifa“ frá árinu 2007 skrifar Sigurður Björnsson greinina „Gengið um Garðabæ“. Umfjöllun Sigurðar birtist annars staðar á vefsíðunni, en í greininni minnist hann m.a. í stuttu máli á Hagakot í Garðabæ. Nefnt kot, eða öllu heldur ábúendur þess, skyldi eftir sig allnokkrar minjar í Hafnarfjarðarhrauni, auk þess sem Hagakotsstígurinn, þ.e. hinn forni selsstígur frá Hofstöðum að seli bæjarins að Urriðavatni, lá um Hagakot.

Hagakot

Hagakot – Tjarnarflöt 10.

„Suður frá Hofsstöðum stóð býlið Hagakot. Bærinn stóð þar sem nú er Tjarnarflöt 10. Gatan dregur nafn sitt af seftjörn, sem fyrrum var í ofanverðu túninu.“
Í manntalinu 1703 eru 5 íbúar skráðir í Hagakoti; 1703: „hálflenda so kölluð, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir.“
Konungseign. JÁM, III, 225.
1703: „Engjar litlar.“ JÁM, III, 226.
Túnakort ekki til.

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur. Urriðavatn framundan.

Hagakotsbær: „Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Er nú í eyði [1964]. Átti sitt eigið tún, en beit í óskiftu Garðastaðalandi, fyrir fénað þann sem túnið framfleytti. Munmæli herma svo: Hagakot á utan túns, beit fyrir kýr í hafti og hest í stokk. Hagi er býli þetta nefnt í fornum bréfum Viðeyjarklausturs…Hagakotsbærinn: Stóð í túninu miðju, þar sér nú aðeins rústirnar,“ segir í

Hagakot

Hagakot – loftmynd 2023.

Skrá yfir örnefni og fiskimið. ,,Hagakot var jörð í Garðakirkjulandi…. Bæjarrústirnar eru horfnar með öllu.
Bæjarstæði Hagakots var þar sem nú er Tjarnarflöt 10″ segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. ,,Á móts við Brekkutögl liggur stígur út í hraunið, sem nefnur var Hagakotsstígur. Um hann var farið milli Urriðakots og Hagakots, en Hagakot var skammt norðan við Vífilsstaðalæk, en suður af Hofsstöðum“, segir í örnefnaskrá SP yfir Urriðakot.
Þar sem Hagakotsbærinn var áður er nú þétt og gróin byggð. Tjarnargata 10 er einbýlishús og bílskúr og er mikið af trjágróðri á lóðinni. Ekkert markar fyrir bæjarstæði Hagakots á yfirborði, þó leifar þess kunni að leynast undir sverði.“
2001: Bæjarrústir með öllu horfnar, þar er nú Tjarnarflöt 10. GRG, 102.

Í Tímanum 1970 segir frá Birni Konráðssyni, oddviti í Garðahreppi í nær þrjá áratugi. Í viðtali við hann segir Björn m.a. frá Hagakoti og nágrenni:

Björn Konráðsson

„Björn Konráðsson er seztur í helgan stein eftir langt og mikið dagsverk, rúmlega 75 ára að aldri, ern og hress í anda með hugann fullan af áhugamálum um Garðahreppsbyggðina og sístarfandi að hugðarefnum. Hann hefur haft fingurinn á slagæð þessarar byggðar allt hið hraða vaxtarskeið hennar og man tímana tvenna. Fáir hafa orðið vitni að og átt ríkari þátt í slíkum umskiptum sveitar sinnar.
Björn er Skagfirðingur að ætt, lagði ungur að árum leið sína til Noregs og kom þaðan búfræðingur frá Ási og réðst ráðsmaður að ríkisbúinu á Vífilsstöðum.
—Hvenær komst þú í Vífilsstaði, spyr ég Björn, þegar við erum setztir inn í stofu.
—Það var 1923. Berklahælið var þá tekið til starfa, sem kunnugt er og ríkisbúið við það stofnað, en lítið var farið að rækta. Þúfnabaninn frægi hafði þó komið þangað og ráðizt á mýrina vestan við bæjarásinn. Þetta er gamall vatnsbotn, mýrin mjög seig, og þurfti að ræsa hana fram. Það var ekki gert til hlítar í öndverðu, en síðar bætt um það.
Það kom í minn hlut að rækta tún úr umbroti þúfnabanans, og þetta varð gott tún, hefur gefið af sér margan hestburðinn. Það kól aldrei fyrr en 1952, en náði sér fljótt aftur, enda sáði ég í kalið.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir og nágrenni 1954.

— Hve stórt var búið á Vífilsstöðum, þegar þú tókst við, Björn?
— Bústofninn var einar 16 kýr og túnið gaf af sér um 200 hesta af íöðu. Síðar gáfu túnin af sér um 3 þús. hesta og auk þess voru tún ræktuð til beitar. Á þeim bletti, sem þetta hús stendur nú á hér á Flötunum, var einmitt kúabeit frá Vífilsstöðum framan af árum. Hér var kóngsjörð lítil, nefnd Hagakot. Þar var hætt búskap um 1920. Einnig var landið upp með læknum ræktað til beitar.

Hagakot

Hagakot – auglýsing 1895.

Mest varð búið hjá mér um 70 kýr mjólkandi, auk geidneyta, svo að nær hundrað var í fjósi stundum. Ég fékk mjaltavélar 1928.
Bústofninn var lítið annað en kýrnar, aðeins lítið eitt af svínum og hænsn.
— En óræktað land Vífilsstaða, var það beitt?

— Nei, það var snemma friðað, og síðan hefur mikið verið gróðursett af trjám í hlíðinni. Gróðurinn þar og í hrauninu hefur tekið ótrúlega miklum stakkaskiptum, og nú er hraunið orðið sannkallaður unaðsreitur með birkikjarri sínu, skjólbollum og hraunmyndum. Þessa lands getur fólkið hér í byggðinni nú notið, en ég treysti því til þess að verja það og vernda.
— Hve lengi hefur þú verið oddviti, Björn?
— Ég var kjörinn í hreppsnefnd hér 1931, og fer úr henni á þessu herrans ári 1970, svo að nú geturðu reiknað. Eru það ekki nær 40 ár? Oddviti var ég í 28 ár.“

Í Ísafold 1895 er Hagakot auglýst til leigu:

Hagakot

Hagakot – auglýsing 1896.

„Umboðsjörðin Hagakot í Garðahreppi, 8,3 hndr. að dýrleika eptir mati nýju mati, er laus til ábúðar í næstkomandi fardögum. Eptirgjaldið er; landskuld 40 álnir og leigur 20 álnir eptir smjörverði.
Umboðsmaður í Kjósar- og Gullbringusýslu, 14. desember 1895 – Franz Siemsen“

Í Ísafold 1896 er Hagakot aftur auglýst til útleigu:

„Umboðsjörðin Hagakot í Garðahreppi er laus til ábúðar í næstkæmandi fardögum. Eptirgjaldið er; landskuld 40 álnir og leigur 20 pd. smjörs.
Þeir, sem óska að fá ábúð á jörðu þessari, snúi sjer sem fyrst til mín sem umboðsmanns tjeðrar jarðar.
Skrifst. Kjósar- og Gullbringusýslu 17 des. 1896 – Franz Siemsen“

Í Ísafold 1898 er enn ein auglýsingin um leigu á Hagakoti:

„Hagakot í Garðahreppi, að dýrl. 8,3 hdr. n.m. Landskuld 40 álnir, leigur 20 pd. smjörs.
Skrifstofu Kjósar- og Gullbringusýslu 23. janúar 1898 – Franz Siemsen“

Hagakot

Hagakot – herforingjakort 1919.

Lítill áhugi virðist vera á jörðinni enda ræktað landrými takmarkað. Svo fór, líkt og Björn lýsti, að jörðin lagðist í eyði um 1920.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir um Hagakot:

„Hagakot, býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Hagi er býlið nefnt í skjali frá gömlum tímum.

Hagakot

Hagakot – stekkur.

Hagakotsbær stóð í Hagakotstúni því nær miðju, en það mun hafa fóðrað þrjár kýr eða þar um bil. Hagakotstúngarðar lágu að því austan, norðan og vestan. Hagakotstraðir lágu frá bænum vestanvert upp túnið í alfaraleiðina, sem lá rétt ofan við túnið. Hali eða Ranghali nefndist vesturhluti túnsins. Ofan eða bak við bæinn var Hagakotstjörn. Þangað var stundum sótt vatn. Á sumrum var hún gróin fergini. Hagakotsmýri lá neðan túnsins niður að Hagakotslæk, eins og lækurinn var kallaður, meðan hann rann meðfram landi býlisins. Beint niður undan bænum var vatnsbólið og vatnsgatan ofan frá bæ og þangað niður. Vestan túns var Vaðið yfir lækinn, þar sem hann nefndist Djúpilækur. Suðaustur frá túninu var Steinbrúin eða Stiklurnar yfir lækinn.

Hagakot

Hagakot – Hagakotshellir.

Austan túns var barð, og þar var mótekja, nefndist Móbarð. Hagakotsmelar lágu vestan, ofan og austan túns, og þar um lá alfaraleiðin. Austan túns niður undan melunum var Torfmýrin. Um hana var talið, að lægi landamerkjalínan milli Hagakots og Vífilsstaða. Þar upp af var lægð, Grófin. Ofar í holtinu var Sérstakaþúfa, eða eins og hún var kölluð frá Hagakoti, Syðriþúfa. Aðrir töldu, að landamerkin lægju nokkru innar um svonefnda Nautalind eða Nautadrykk og þá um Mýrarblettinn.

Hagakot

Hagakot – loftmynd 1954.

Hagakotsstígur lá frá Vaðinu suður um hraunið, Svínahraun, að Urriðakoti. Því var stígurinn allt eins nefndur Urriðakotsstígur. Spölkorn úti í hrauninu var Hagakotshellir, lítill skúti, en þó skjól fyrir fé. Þar lengra úti á hrauninu var Hagakotshóll eða (?) Hádegishóll, eyktamark frá Hagakoti.

Þjóðjörðin Hagakot í Garðahreppi á tún sitt, hefur eftir fornri venju notað mýri fyrir neðan túnið og mótak í barði austur af túninu og beit í Garðakirkjulandi fyrir fénað þann, sem framfleytist af mýrinni og túninu.“

Öllu umhverfis túnstæði Hagakots fyrrum hefur nú verið umverft undir þarfir nútímans…

Heimildir:
-Listin að lifa, 2. tbl. 01.06.2007, Gengið um Garðabæ, Sigurður Björnsson, bls. 46.
-Manntalið 1703.
-Tíminn, 113. tbl. 24.05.1970, Hann var oddviti í Garðahreppi nær þrjá áratugi – Björn Konráðsson, bls. 14 og 22.
-Ísafold, 96. tbl. 21.12.1895, auglýsing, bls. 884.
-Ísafold, 89. tbl. 23.12.1896, auglýsing, bls. 858.
-Ísafold, 6. tbl. 02.02.1898, auglýsing, bls. 24.
-Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi, 7; GRG, 102; Ö-Urriðakot SP, 4.
-Örnefnalýsing, Hagakot – Gísli Sigurðsson.
-Garðahraun Efra- Fornleifaskráning- og skýrsla. Antikva 2018.

Hagakot

Hagakot og nágrenni – herforingjakort 1919.

Garðahverfi

Í ritinu Harðjaxl réttlætis og laga 1924 skrifar „Gamall Garðhreppingur“ um „Átthagafræði Garðahrepps„. Um var að ræða verðlaunasamkeppni ritsins þar sem viðkomandi lýsir bæjum og ábúendum í Garðahreppi:

Hr. ritstjóri!

Lónakot

Lónakotsbærinn.

„Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mér í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. Þess vegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
Syðsti bær hreppsins er Lónakot. þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti Þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrumum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skammt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot.
Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Nú kemur engin bygð. fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri hefir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum.
Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út fyrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn.
Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi. Í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla-Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli. Í Stóra-Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns…

Ás

Ás – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla-Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skammt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við.

Urriðakot

Urriðakot.

Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum.
Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn fyrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað. En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu.
Skammt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.

Krókur

Krókur.

Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. Þar bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið.

Garðahverfi

Pálshús.

Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Isak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður. Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls.

Garðahverfi

Hlíð.

Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Gísli Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn.
Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausaataði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið.“ – Gamall Garðhreppingur.

Heimild:
-Harðjaxl réttlæstis og laga, 16. tbl. 04.12.1924, Átthagafræði Garðahrepps – verðlaunasamkeppni, bls. 2-3.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Vífilsfell

Þeir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson fjölluðu um Vífilsfell í Fréttablaðinu árið 2020 undir fyrirsögninni „Gáð til veðurs á Vífilsfelli„:

„Eitt tignarlegasta fjall í nágrenni Reykjavíkur er Vífilsfell (655 m) en margir líta á það sem nyrsta hnjúk Bláfjalla. Fjallsins er getið í Landnámu þar sem sagt er frá Vífli, sem ásamt Karla var þræll Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Þeir voru sendir frá Ingólfshöfða vestur með sjó að leita öndvegissúlna Ingólfs og fundu þær loks reknar í Reykjavík. Ingólfur kættist við fundinn og segir svo í Landnámu: „Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum [Vífilsstöðum]; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó [hann] lengi, varð skilríkur [áreiðanlegur] maður.“ Vífill virðist hafa verið í fantaformi því sagt er að hann hafi skotist frá Vífilsstöðum upp á Vífilsfell til að gá til veðurs og ef veðurútlit var gott hélt hann út á Gróttu og reri til fiskjar. Vífilsfell er talið hafa myndast í að minnsta kosti tveimur gosum á mismunandi jökulskeiðum ísaldar. [Þá hvíldi um 700 m þykk íshellan yfir svæðinu.] Langmest ber á móbergi en um mitt fjallið er stallur sem skartar blágrýti og er því talinn stapi eins og Herðubreið og Hlöðufell. Efst á Vífilsfelli er sérlega fallegt móberg úr síðara gosinu og minnir veðrað bergið á abstrakt listaverk.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Ganga á Vífilsfell er frábær skemmtun og flestum fær. Hefðbundin gönguleið liggur að norðanverðu, upp á öxl sem gengur út úr fjallinu. Þarna eru malarnámur og má leggja bílum fyrir framan þær, en stikuð leið liggur alla leið upp á hátindinn. Þetta eru 6 km báðar leiðir og má reikna með að gangan taki 3-4 tíma. Meira krefjandi gönguleiðir liggja að vestanverðu upp gil sunnan tindsins eða úr Jósepsdal að austanverðu. Á hefðbundnu gönguleiðinni er stíg fylgt upp á áðurnefndan stall, en síðan taka við móbergsklettar sem yfirleitt eru auðveldir uppgöngu nema á veturna. Því er skynsamlegt að hafa með mannbrodda og ísöxi í vetrarferðum á Vífilsfell. Í efstu klettabeltunum eru kaðlar á tveimur stöðum sem auðvelda uppgönguna og á tindinum er útsýnisskífa sem Ferðafélag Íslands setti upp. Útsýnið yfir höfuðborgina er frábært og sést til Gróttu í 25 km fjarlægð, þar sem Vífill stundaði útræði. Einnig blasa við Esja, Móskarðshnjúkar, Skjaldbreiður og Hengill. Flestir ganga sömu leið niður, en sprækt göngufólk getur þrætt endilöng Bláfjöllin í suður að lyftusvæðinu, 15 km leið, sem Vífli hefði þótt þrælléttur göngutúr.“

Fjallað er um ferð á Vífilsfell í Morgunblaðinu 1979 í dálkinum „Spölkorn út í buskann„:
Vífilsfell„Eitt þeirra fjalla, sem blasa við augum manna héðan frá höfuðborginni, er Vífilsfellið. Það er ekki stórfenglegt að sjá úr fjarskanum, en þegar nær er komið, breytir það um svip og ýtir undir þá löngun, að ganga þangað upp. Og í dag skulum við framkvæma það verk.
Hægt er að ganga á fjallið frá öllum áttum, en stysta leiðin er úr skarðinu í mynni Jósefsdals og þar skulum við hefja gönguna. Frá kaffistofunni, sem er á mótum hins nýja og gamla vegar um Svínahraunið, ökum við afleggjarann sem liggur inn í Jósefsdal. Við ökum um Sauðadali, meðfram Draugahlíðum og Þórishamri og brátt erum við komin í skarðið, en það er suð-austan undir Vífilsfelli. Hér skulum við skilja bílinn eftir, og hefja gönguna.
Framundan er brött skriða þakin lausum jarðvegi. Best er að velja leiðina milli tveggja grunnra vatnsrása, sem liggja þar niður, ofan frá brún, eða ganga eftir annarri hvorri rásinni, því þar er fastara undir fæti. Þegar komið er upp á brúnina fyrir ofan, tekur við sléttur meíur. Hann er kærkominn, því brekkan er erfið og hefur komið mörgum hraustum kappanum til að blása og svitna örlítið. Við hvílum okkur nokkra stund á brúninni og litumst um, því landslagið hefur breytt um svip og útsýnið aukist að miklum mun. Síðan tekur við annar áfangi. Handan melsins rís móbergsklettur allbrattur, sem fer lækkandi til austurs. Okkur finnst hann óárennilegur í fyrstu, en tökum samt stefnuna á hann og fikrum okkur upp eftir honum. Er á reynir, er hann auðveldari viðfangs en okkur sýndist. Þegar efstu brún klettsins er náð, blasir við útsýnið til vesturs yfir Bláfjöllin og út á Flóann. En ekki höfum við enn náð efsta tindi. Einn stallur er eftir og sá brattasti. Hér hefur Ferðafélagið komið fyrir kaðalspotta, þeim til styrktar, sem smá aðstoð þurfa, en flestir hlaupa upp án nokkurrar aðstoðar. Þegar við höfum klifið stallinn, er „hæsta tindi náð“ og ekki annað eftir en „rifja upp og reyna að muna, fjallanöfnin, náttúruna“ með aðstoð útsýnisskífunnar, sem Ferðafélagið lét setja hér upp árið 1940. (Tilvitnanir eru úr Fjallgöngunni, kvæði eftir Tómas Guðmundsson.)

Vífilsfell

Vífilsfell.

Meðan við dveljum hér við útsýnisskoðun og fleira, rifjast upp sagan un nafn fjallsins. Í þjóðsögu segir, að Ingólfur Arnarson hafi gefið Vífli þræli sínum bústað, sem síðan var nefndur Vífilsstaðir. Á miðju Álftanesi er Sviðsholt. Þar bjó Sviði. Vífill og Sviði stunduðu mjög sjó, og segir sagan, að þeir hafi tveir einir róið til fiskjar á áttæringi.
Í þjóðsögunni segir síðan: „Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt, sem Vífilsfell heitir. Þó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum, en til sjávar, gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið, til að gá til veðurs, áður en hann fór að róa, og reri ekki, ef hann sá nokkra skýskán a lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum. En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og reri með Sviða.“ Og nú stöndum við á sömu steinunum og Vífill forðum, hér uppi á fellinu, ef marka skal sannleiksgildi sögunnar. En tæplega myndu margir á okkar öld geta leikið það eftir honum, að skjótast þessa leið frá Vífilsstöðum fram og aftur, áður en hann ýtti frá landi. En nú skulum við huga að heimferð. Sjálfsagt er að leggja smá lykkju á leiðina og skjótast niður í Jósefsdalinn. Þá förum við til hægri þegar við erum komin ofan fyrir efstu klettana, og göngum vestur brúnirnar.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Gott er að komast niður gilið, sem merkt er leið A á kortinu, eða ganga alla leið vestur fyrir dalbotninn og þar niður í dalinn (leið B). Jósefsdalur er mjög sumarfagur, fjöllum luktur, en rennisléttur í botninn. Suður úr honum er Ólafsskarð, kennt við Ólaf bryta í Skálholti, sem ég sagði frá, þegar við gengum á Lyklafellið. Fyrrum var alfaraleið um Ólafsskarð og sjást götuslóðirnar enn. Dalurinn dregur nafn af Jósef bónda, sem þar bjó fyrrum. Hann var góður smiður, en forsmáði guð svo með blóti og formælingum, að bærinn sökk og Jósef með. En líklega hefur verið bætt fyrir brot Jósefs, því til skamms tíma voru hér aðalskíðalönd Ármenninga, skíðaskáli þeirra og fleiri byggingar og gekk vel.
Við göngum austur úr dalnum, fram hja Grettistaki, stórum stökum steini við veginn og upp í skarðið. Þar bíður bíllinn okkar.“

Heimildir:
-Fréttablaðið, 231. tbl. 29.10.2020, Gáð til veðurs á Vífilsfelli, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 16.
-Morgunblaðið, 196. tbl. 30.08.1979, Spölkorn út í buskann – Vífilsfell, bls. 11.

Vífilsfell

Vífilsfell.