Færslur

Vífilsfell

Þeir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson fjölluðu um Vífilsfell í Fréttablaðinu árið 2020 undir fyrirsögninni „Gáð til veðurs á Vífilsfelli„:

„Eitt tignarlegasta fjall í nágrenni Reykjavíkur er Vífilsfell (655 m) en margir líta á það sem nyrsta hnjúk Bláfjalla. Fjallsins er getið í Landnámu þar sem sagt er frá Vífli, sem ásamt Karla var þræll Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Þeir voru sendir frá Ingólfshöfða vestur með sjó að leita öndvegissúlna Ingólfs og fundu þær loks reknar í Reykjavík. Ingólfur kættist við fundinn og segir svo í Landnámu: „Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum [Vífilsstöðum]; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó [hann] lengi, varð skilríkur [áreiðanlegur] maður.“ Vífill virðist hafa verið í fantaformi því sagt er að hann hafi skotist frá Vífilsstöðum upp á Vífilsfell til að gá til veðurs og ef veðurútlit var gott hélt hann út á Gróttu og reri til fiskjar. Vífilsfell er talið hafa myndast í að minnsta kosti tveimur gosum á mismunandi jökulskeiðum ísaldar. [Þá hvíldi um 700 m þykk íshellan yfir svæðinu.] Langmest ber á móbergi en um mitt fjallið er stallur sem skartar blágrýti og er því talinn stapi eins og Herðubreið og Hlöðufell. Efst á Vífilsfelli er sérlega fallegt móberg úr síðara gosinu og minnir veðrað bergið á abstrakt listaverk.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Ganga á Vífilsfell er frábær skemmtun og flestum fær. Hefðbundin gönguleið liggur að norðanverðu, upp á öxl sem gengur út úr fjallinu. Þarna eru malarnámur og má leggja bílum fyrir framan þær, en stikuð leið liggur alla leið upp á hátindinn. Þetta eru 6 km báðar leiðir og má reikna með að gangan taki 3-4 tíma. Meira krefjandi gönguleiðir liggja að vestanverðu upp gil sunnan tindsins eða úr Jósepsdal að austanverðu. Á hefðbundnu gönguleiðinni er stíg fylgt upp á áðurnefndan stall, en síðan taka við móbergsklettar sem yfirleitt eru auðveldir uppgöngu nema á veturna. Því er skynsamlegt að hafa með mannbrodda og ísöxi í vetrarferðum á Vífilsfell. Í efstu klettabeltunum eru kaðlar á tveimur stöðum sem auðvelda uppgönguna og á tindinum er útsýnisskífa sem Ferðafélag Íslands setti upp. Útsýnið yfir höfuðborgina er frábært og sést til Gróttu í 25 km fjarlægð, þar sem Vífill stundaði útræði. Einnig blasa við Esja, Móskarðshnjúkar, Skjaldbreiður og Hengill. Flestir ganga sömu leið niður, en sprækt göngufólk getur þrætt endilöng Bláfjöllin í suður að lyftusvæðinu, 15 km leið, sem Vífli hefði þótt þrælléttur göngutúr.“

Fjallað er um ferð á Vífilsfell í Morgunblaðinu 1979 í dálkinum „Spölkorn út í buskann„:
Vífilsfell„Eitt þeirra fjalla, sem blasa við augum manna héðan frá höfuðborginni, er Vífilsfellið. Það er ekki stórfenglegt að sjá úr fjarskanum, en þegar nær er komið, breytir það um svip og ýtir undir þá löngun, að ganga þangað upp. Og í dag skulum við framkvæma það verk.
Hægt er að ganga á fjallið frá öllum áttum, en stysta leiðin er úr skarðinu í mynni Jósefsdals og þar skulum við hefja gönguna. Frá kaffistofunni, sem er á mótum hins nýja og gamla vegar um Svínahraunið, ökum við afleggjarann sem liggur inn í Jósefsdal. Við ökum um Sauðadali, meðfram Draugahlíðum og Þórishamri og brátt erum við komin í skarðið, en það er suð-austan undir Vífilsfelli. Hér skulum við skilja bílinn eftir, og hefja gönguna.
Framundan er brött skriða þakin lausum jarðvegi. Best er að velja leiðina milli tveggja grunnra vatnsrása, sem liggja þar niður, ofan frá brún, eða ganga eftir annarri hvorri rásinni, því þar er fastara undir fæti. Þegar komið er upp á brúnina fyrir ofan, tekur við sléttur meíur. Hann er kærkominn, því brekkan er erfið og hefur komið mörgum hraustum kappanum til að blása og svitna örlítið. Við hvílum okkur nokkra stund á brúninni og litumst um, því landslagið hefur breytt um svip og útsýnið aukist að miklum mun. Síðan tekur við annar áfangi. Handan melsins rís móbergsklettur allbrattur, sem fer lækkandi til austurs. Okkur finnst hann óárennilegur í fyrstu, en tökum samt stefnuna á hann og fikrum okkur upp eftir honum. Er á reynir, er hann auðveldari viðfangs en okkur sýndist. Þegar efstu brún klettsins er náð, blasir við útsýnið til vesturs yfir Bláfjöllin og út á Flóann. En ekki höfum við enn náð efsta tindi. Einn stallur er eftir og sá brattasti. Hér hefur Ferðafélagið komið fyrir kaðalspotta, þeim til styrktar, sem smá aðstoð þurfa, en flestir hlaupa upp án nokkurrar aðstoðar. Þegar við höfum klifið stallinn, er „hæsta tindi náð“ og ekki annað eftir en „rifja upp og reyna að muna, fjallanöfnin, náttúruna“ með aðstoð útsýnisskífunnar, sem Ferðafélagið lét setja hér upp árið 1940. (Tilvitnanir eru úr Fjallgöngunni, kvæði eftir Tómas Guðmundsson.)

Vífilsfell

Vífilsfell.

Meðan við dveljum hér við útsýnisskoðun og fleira, rifjast upp sagan un nafn fjallsins. Í þjóðsögu segir, að Ingólfur Arnarson hafi gefið Vífli þræli sínum bústað, sem síðan var nefndur Vífilsstaðir. Á miðju Álftanesi er Sviðsholt. Þar bjó Sviði. Vífill og Sviði stunduðu mjög sjó, og segir sagan, að þeir hafi tveir einir róið til fiskjar á áttæringi.
Í þjóðsögunni segir síðan: „Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt, sem Vífilsfell heitir. Þó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum, en til sjávar, gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið, til að gá til veðurs, áður en hann fór að róa, og reri ekki, ef hann sá nokkra skýskán a lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum. En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og reri með Sviða.“ Og nú stöndum við á sömu steinunum og Vífill forðum, hér uppi á fellinu, ef marka skal sannleiksgildi sögunnar. En tæplega myndu margir á okkar öld geta leikið það eftir honum, að skjótast þessa leið frá Vífilsstöðum fram og aftur, áður en hann ýtti frá landi. En nú skulum við huga að heimferð. Sjálfsagt er að leggja smá lykkju á leiðina og skjótast niður í Jósefsdalinn. Þá förum við til hægri þegar við erum komin ofan fyrir efstu klettana, og göngum vestur brúnirnar.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Gott er að komast niður gilið, sem merkt er leið A á kortinu, eða ganga alla leið vestur fyrir dalbotninn og þar niður í dalinn (leið B). Jósefsdalur er mjög sumarfagur, fjöllum luktur, en rennisléttur í botninn. Suður úr honum er Ólafsskarð, kennt við Ólaf bryta í Skálholti, sem ég sagði frá, þegar við gengum á Lyklafellið. Fyrrum var alfaraleið um Ólafsskarð og sjást götuslóðirnar enn. Dalurinn dregur nafn af Jósef bónda, sem þar bjó fyrrum. Hann var góður smiður, en forsmáði guð svo með blóti og formælingum, að bærinn sökk og Jósef með. En líklega hefur verið bætt fyrir brot Jósefs, því til skamms tíma voru hér aðalskíðalönd Ármenninga, skíðaskáli þeirra og fleiri byggingar og gekk vel.
Við göngum austur úr dalnum, fram hja Grettistaki, stórum stökum steini við veginn og upp í skarðið. Þar bíður bíllinn okkar.“

Heimildir:
-Fréttablaðið, 231. tbl. 29.10.2020, Gáð til veðurs á Vífilsfelli, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 16.
-Morgunblaðið, 196. tbl. 30.08.1979, Spölkorn út í buskann – Vífilsfell, bls. 11.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Búrfell

Í Listinni að lifa árið 2007 er grein eftir Sigurð Björnsson; „Gengið um Garðabæ“.

„Garðabær er hluti af Álftaneshreppi hinum forna, sem fyrst var skipt árið 1878 í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Síðar var Hafnarfjörður skilinn frá Garðahreppi og fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Þessi sveitarfélög heita nú Garðabær, Hafharfjarðarkaupstaður og Sveitarfélagið Álftanes.

Garðabær

Umhverfi og ásýnd Garðabæjar mótast að verulegu leyti af hrauninu, sem brann fyrir um það bil 7200 árum og rúmlega 3000 árum eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Hraun þetta rann frá eldvarpinu Búrfelli, sem er suðvestan Heiðmerkur, 7,2 km í suðaustur frá Garðatorgi og 2,5 km norðaustur frá Helgafelli, sem er móbergsfjall myndað í eldgosi undir jökli á síðustu ísöld. Búrfellshraunið heitir ýmsum nöfnum eftir því hvar menn eru staddir hverju sinni, svo sem Smyrlabúðarhraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Garðahraun og Gálgahraun. Hluti Búrfellshrauns rann einnig vestar og heitir þar ýmsum nöfnum, sem ekki verða rakin hér, nema hvað Hafnarfjarðarhraunið er hluti þess. Hér er því hvorki skortur á hraunum né örnefnum. Tómas Guðmundsson skáld komst snilldarlega að orði þegar hann sagði í kvæði sínu, Fjallganga: „Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt.“
Mér er ætlað að rekja hér örnefni og greina frá kennileitum í Garðabæ frá fjöru og fram til fjalla. í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar eftir Guðlaug Rúnar Guðmundsson er örnefnaskrá á 78 blaðsíðum svo ljóst má vera, að hér verður aðeins stiklað á stóru í stuttri grein. í þeirri bók geta þeir, sem áhuga hafa, aflað sér nánari fróðleiks um Garðabæ og örnefni þar.

Skógtjörn

Við Skógtjörn.

Mörk Garðabæjar og Álftaness liggja um tvær tjarnir, Lambhúsatjörn og Skógtjörn. Eiðin, sem áður skildu þessar tjarnir frá sjó, eru nú horfin í hafið, þannig að þær eru raunar báðar orðnar að vogum. Afrennsli frá Skógtjörn var til suðurs um Oddakotsós við miðbik tjarnarinnar og lágu hreppamörkin um ósinn. Vestan óssins var Hliðsnesið í Bessastaðahreppi með samnefndum bæ, og lá nesið til suðurs frá Álftanesinu. Hafið rauf eiðið norðan bæjarins og stóð hann þá á eyju, erfiðara varð um aðföng og róa þurfti með börnin á báti til þess að þau kæmust í Bjarnastaðaskóla.
Fyrstu jarðýturnar í eigu Íslendinga komu til landsins 1942 og eina þeirra, e.t.v. þá fyrstu, áttu bræðurnir Eyþór og Gunnar Stefánssynir frá Eyvindarstöðum á Álftanesi. Þeir voru fengnir með ýtuna til þess ýta upp í gamla ósinn og koma Hliðsnesinu í vegasamband inn í Garðahrepp. Bæjamörkin liggja hins vegar óbreytt, þar sem áður var ósinn suður úr Skógtjörninni. Hér er land allt hægt og sígandi að hverfa í hafið eins og sjá má af því, að bæði á botnum tjarnanna og úti fyrir ströndinni suður af Garðaholti og umhverfis Álftanes eru víða myndarlegir móhleifar, en mór myndast af gróðurleifum í mýrum inni á landi en aldrei í söltu vatni, enda engar gróðurlendur þar. Á báðum þessum tjörnum er fjölskrúðugt fuglalíf, einkum vor og haust, þegar norðlægir farfuglar hafa þar viðkomu og er margæsin þar áberandi. Á eiðinu milli Lambhúsatjarnar og Skógtjarnar, hægra megin við veginn þegar ekið er út á Álftanes, er lágur hóll með tóftarbroti. Þarna stóð bærinn Selskarð. Sunnan við Selskarð og austur af Skógtjörninni, vestan Álftanesvegar, heitir Álamýri. Suð-austur frá Skógtjörn rís Garðaholtið. Vestan í holtinu standa Garðar, höfuðból og kirkjustaður frá fornu fari. Garðakirkja var aflögð árið 1914 og um miðja öldina var svo komið að aðeins stóðu eftir grjótveggirnir opnir fyrir veðri og vindum, gluggalausir og þaklausir. Til tals kom að brjóta veggina niður og nota í hafnargarð við Hafnarfjarðarhöfn. Því menningarslysi var þó forðað, sem betur fer, fyrir atbeina nokkurra góðra manna og þó einkum vegna atorku kvennanna í nýstofnuðu Kvenfélagi Garðahrepps, og fórnfúsra starfa þeirra. Þær endurreistu Garðakirkju og var hún vígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966.
GarðakirkjaSunnan og vestan í Garðaholtinu er Garðahverfið. Þarna voru 25 býli og þurrabúðir árið 1868. Mörg þessi býli standa þar enn.
Nyrst i Garðahverfinu, niður undir Skógtjörn, eru Hausastaðir. Þar er minnisvarði um einn fyrsta vísi að reglulegu skólahaldi fyrir börn og unglinga hér á landi. Þessi skóli var starfræktur á vegum Thorkillisjóðsins árin 1791-1812, en sjóður sá varð til samkvæmt ákvæði í arfleiðslubréfi Jóns Þorkelssonar fyrrum skólameistara í Skálholti og átti hann að standa straum af skólahaldi fyrir fátækustu og mest þurfandi börn í Kjalarnesþingi.
Skammt suðaustur frá Garðakirkju stendur félagsheimilið Garðaholt, sem upphaflega var reist árin 1908-11 sem skóli og þinghús hreppsins. Aukið hefur verið við húsið nokkrum sinnum og hefur það í mörg ár þjónað sem samkomuhús bæjarins. Kvenfélagið sér um rekstur Garðaholts. Örskammt til vesturs frá Garðaholti, neðan við veginn til Hafnarfjarðar, stendir býlið Krókur, sem Garðabær á nú og rekur þar byggðasafn. Fyrri eigendur gáfu bænum húsin ásamt öllu innbúi.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Efst á Garðaholtinu er fagur og mikill skógarreitur. Holtið var áður autt, grýtt og gróðurvana, því þarna næða norðanvindar. Árið 1955 fékk Sigurður Þorkelsson, skipasmiður, þarna land á leigu, girti það og hóf uppgræðslu og trjáplöntun. Hann byggði sér bústað ásamt konu sinni, Kristínu Gestsdóttur, sem nú er nýlátin. Þennan stað gerðu þau að þeim unaðsreit, sem þar er orðinn, og nefndu hann Grænagarð. Á Garðaholti er hringsjá, sem Rótarýklúbburinn í Görðum lét gera. Sigurður Björnsson, verkfræðingur, sá er ritar þessa grein, mældi á holtinu og hannaði hringsjána. Hún sýnir fjallahringinn, hæðir fjallanna og fjarlægðir frá Garðaholtinu. Á skífunni er sólúr.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Nyrst í Garðahrauni, skammt frá Lambhúsatjörn, er hraungúll, sem klofnað hefur og myndar tvo kletta eða þrjá. Klettana notaði Bessastaðavaldið sem aftökustað þeirra ógæfumanna, sem þeir töldu dauðaseka að þeirra tíma reglum og lagabókstaf. Klettarnir nefndust Gálgaklettar eða Gálgaklofningar og hraunið Gálgahraun. Austan Gálgahrauns er Arnarnesvogur. Nyrsta spýja Garðahraunsins skagar í mjóum tanga út milli Arnarnesvogar og Lambhúsatjarnar og heitir þar Eskines.
Suður frá Arnarnesvogi rís Hraunsholtið og austan þess rennur Hraunsholtslækur til sjávar. Hann á upptök sín í Vífilsstaðavatni og nefnist efri hluti hans Vífilsstaðalækur. Lækurinn rennur með hraunjaðrinum sunnan við Flatahverfið. Úti í hrauninu er stakur hóll er nefnist Hádegishóll, eyktamark frá bænum Hraunsholti, og er á bæjamörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Austan við Arnarnesvog er Arnarnesið. Þar sem nú skerast göturnar Arnarnes og Hegranes, stendur „Wegenersúlan“, einn þeirra mælingastöpla, sem þýski visindamaðurinn Alfred Wegener lét steypa vorið 1930 í þeim rilgangi að mæla gliðnun landsins og sanna þar með landrekskenningu sína um rek meginlandanna á jarðarkringlunni. Honum auðnaðist ekki að færa sönnur á þá kenningu, hann varð úti á Grænlandsjökli það sama ár. Kenning Wegeners hefur nú fyrir löngu verið sannreynd með þeim nákvæmu mælingaaðferðum, sem nú eru tiltækar. Flekamót liggja um jarðeldabelti Íslands og Austur- og Vesturland gliðna í sundur til jafnaðar um 2 sentímetra á ári hverju.
Upp frá Arnarnesvogi og ofan Hafnarfjarðarvegar var byggður fyrsti þéttbýliskjarninn í Garðahreppi og nefnist hverfið Silfurtún. í suðvestur frá Silfurtúninu rís Hofsstaðahæðin með bænum Hofsstöðum. í Hofsstaðalandi, norður af bænum, er nú risin Vídalínskirkja og safnaðarheimilið Kirkjuhvoll. Örskammt austur af kirkjunni og bænum og við hliðina á nýjum Tónlistarskóla Garðabæjar hafa verið grafnar upp minjar um forna byggð, sem talin er vera frá landnámsöld. Þar hafa bæjaryfirvöld látið gera minjagarð og er allur frágangur til fyrirmyndar og bæði skemmtilegt og stórfróðlegt að kynna sér þá sögu, er þar býr að baki. Suður frá Hofsstöðum stóð býlið Hagakot. Bærinn stóð þar sem nú er Tjarnarflöt 10. Gatan dregur nafn sitt af seftjörn, sem fyrrum var í ofanverðu túninu.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Gunnhildur.

Drjúgan spöl fyrir austan er sagt að Vífill, leysingi Ingólfs Arnarsonar, hafi reist bæ sinn og nefndi Vífilsstaði. Á Vífilsstöðum var reist berklahæli árið 1910. Nokkru austar er svo Vífilsstaðavatnið, en sunnan við vatnið eru Dýjakrókar með uppsprettulindum. Þar er nú vatnsból Garðabæjar og Álftaness, en í vændum er að það verði aflagt innan skamms. Umhverfis vatnið liggur fjölfarinn göngustígur. Frá Vífilsstaðavatni rennur Vífilsstaðalækur, sem fyrr segir, og um mýri suður af Vífilsstöðum, sem nefnist Vatnsmýri. Austur frá Vífilsstöðum og norður af vatninu er hæð, sem nefnist Skyggnir. Smalaholtið rís norðaustan vatnsins, en sunnan þess er Vífilsstaðahlíð og nefndist hún áður Svínahlíð.
Inn frá Arnarnesi gengur Arnarnesholt og þar fyrir austan er Nónhæð, nú innan bæjarmarka Kópavogs, en eftir að Garðabær og Kópavogur sömdu um breytt bæjamörk hinn 18. maí 1983 skiptir Arnarnesvegurinn nýi löndum inn eftir holtunum innan við Bæjarbraut. Sunnan holtsins rennur Arnarneslækur. Hann á upptök sín í Vetrarmýri, norðan Vífilsstaða, þar sem nú er golfvöllurinn, og rann þaðan norðan Dýjakróka í Stórakrók og niður í Arnarnesvog. Dýjakrókar voru á því svæði þar sem nú er iðnaðarhverfið við Iðnbúð.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Norðan Vetrarmýrar rís Hnoðraholt og dregur nafn sitt af Hnoðranum á norðurbrún holtsins, sem er brattur hóll með dritþúfu. Um Hnoðrann lá fyrrum markalínan milli Vífilsstaða í Garðahreppi og Hvammkots í Seltjarnarneshreppi, en Hvammkot nefndist síðar Fífuhvammur. Austur af Hnoðraholti er Leirdalur, sem fyrrum virðist að mestu hafa verið í eigu Vífilsstaða en hefur í áranna rás fallið til Fífuhvamms. Suður af Leirdal rís Smalaholtið, sem fyrr er nefnt. Suðaustur frá Smalaholti eru Kjóavellir. Þar er nú hesthúsabyggð.
Sunnan Kjóavalla og suðaustanvert við Vífilsstaðavatn rís Sandahlíðin, hæst hæða á þessum slóðum, 160 m yfir sjávarmáli. Þar uppi er fagurt útsýni til allra átta og blasa þar suðurfjöllin við göngumönnum. Norðan undir Sandahlíðinni er útivistar- og leikjavæði Skógræktarfélags Garðabæjar.

Grunnuvötn

Tóftir við Grunnuvötn.

Lægðin milli Sandahlíðar og Vífilsstaðahlíðar nefnist Grunnuvatnaskarð, en í suðaustur eru Grunnuvötn, tvær tjarnir, sem nú þorna upp á sumrum. Austan við Grunnuvötn rís hæð eða hóll, sem nefnist Arnarbæli, hefur einnig verið nefndur Arnarstapi og Arnarsetur. Á Arnarbæli eru landamörk milli Garðabæjar og Kópavogs og liggja þaðan suður í Húsfell. Suðvestan Grunnuvatna er hæð uppi á Vífilsstaðahlíðinni er nefnist Selás. Suðvestan undir Selási stóð Vífilsstaðasel. Þegar haldið er til suðurs frá Selási göngum við yfir Víkurholt, en þau eru tvö, og komum að Hjöllum. Hjallarnir er misgengisstallur, sem er allt að 60 m hár þar sem hann er hæstur sunnan undir Vífilsstaðahlíð.
Sprungan við rætur Hjallanna er nærri 5 km á lengd. Berggrunnurinn er grágrýti og hinn sami bæði uppi á Hjöllunum og á landinu, sem sigið hefur sunnan þeirra. Á Hjallabrún, sunnan við Víkurholt, lét Skógræktarfélag Reykjavíkur árið 1967 gera hringsjá, þar sem skoða má fjallahringinn. Næst eru Húsfell, Búrfell, Valahnúkar og Helgafell. Fjær blasa við Hengillinn, Vífilsfell, Bláfjöll, Þríhnúkar, Stóribolli eða Bollinn, Tvíbollar, og Syðstubollar. Vestan við Stórabolla er Kerlingarskarð en milli Tvíbolla og Syðstubolla er Grindarskarð, um það liggur Selvogsgata. Þar fyrir vestan komu Langahlíð, Hellutindar, Fjallið eina, Grænadyngja, Trölladyngja og Keilir.

Grásteinn

Grásteinn í Urriðakotshrauni.

Nú höldum við að nýju norður á móts við norðurenda Vífilsstaðahlíðar, er nefnist Hlíðarhorn. Uppi á Hlíðarhorni stendur varða, sem kallast Gunnhildur. Sjúklingar á Vífilsstöðum, þeir sem voru sæmilega rólfærir, gengu gjarnan upp að Gunnhildi, var haft til marks um heilsufar þeirra, að kæmust þeir þangað upp án þess að spýta blóði, þá væru þeir á batavegi og gætu jafnvel farið heim. Vestur frá Hlíðarhorni rís Urriðakotsholt og vestan undir því er Urriðakotsvatn, vestan þess eru svo Setbergshamar og Setbergsholt. Um þau holt liggja nú bæjamörk Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Áður fyrr var Setbergshverfið í Garðabæ.
Sunnan við Urriðakotsvatn heitir Dýjamýri og sunnan hennar rís Flóðahjalli og syðsti og hæsti hluti þeirrar hæðar nefnist Klif. Sunnan við Klifið kemur svo önnur Sandahlíð, því þær eru tvær með sama nafni á þessum slóðum. Sunnan Urriðakotsholts og norð-austan Flóðahjalla eru Urriðakotsdalir, þar og allt suður undir Sandahlíð hefur regla Oddfellowa búið sér glæsilegan golfvöll. Sunnan þess golfvallar eru þrjár hæðir, sem nefhast Tjarnholt. Sunnan Tjarnholta hefst Reykjanesfólkvangur og þar þekur Smyrlabúðarhraun stórt svæði og nær suður að Smyrlabúð, sem er hæð á Hjallabrún, rúman kílómeter vestan Búrfells.

Heiðmörk

Heiðmörk – tóft.

Suðvestan í Vífilsstaðahlíð hefur vaxið upp gróskumikill skógur sem er hluti Heiðmerkur. Í fyrstu var land Heiðmerkur aðeins innan Reykjavíkur. Sunnudaginn 25. júní 1950 var Heiðmörk opnuð almenningi við hátíðlega athöfn. Hinn 17. október 1957 jók Skógræktarfélag Reykjavíkur við upphaflegt svæði með samningi við stjórn ríkisspítalanna, sem leigði félaginu verulegt land frá Vífilsstöðum, m.a. Vífilsstaðahlíðina. Þessi hluti Heiðmerkur er innan Garðabæjar og 10. maí 1997 keypti bærinn það land af ríkinu.
Þarna er vinsælt útivistarsvæði og gönguleiðir í skjóli í norðannæðingi. Norður á móts við Hlíðarhorn er ekið inn í Heiðmörkina og liggur vegurinn um hraunið allt suður undir Hjalla. Þegar ekið er inn, þar sem áður var hlið á Heiðmerkurgirðingu, og upp á hraunkambinn verða Maríuhellar á vinstri hönd, rétt við veginn. Þetta voru fjárhellar frá Vífilsstöðum og Urriðakoti. Vestast í Maríuhellum er þröngur gangur niður í manngengan helli, sem liggur langt til norðurs undir Vífilsstaðahrauninu. Gegnt Maríuhellum, sunnan við veginn, er myndarlegur hraunhóll, Dyngjuhóll eða Hádegishóll, eyktamark frá Vífilsstöðum. Vestan undir miðri Vífilsstaðahlíðinni er bílastæði og grillaðstaða og í hlíðinni þar fyrir ofan er trjásýnireitur Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem fróðlegt er að skoða. Göngustígur liggur frá Maríuhellum suður eftir hrauntungunni. Á móts við Tjarnholtin komum við að Selgjá, sem er grunn en nokkuð breið hrauntröð mynduð í Búrfellsgosinu. Nyrst í gjánni vestanverðri er Selgjárhellir. Upp við barma Selgjár hafa menn fundið margar vallgrónar seljarústir. Jarðabók 1703 greinir frá selstöðu þarna og virðast átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Þegar komið er suður á Hjallabrún sést, að

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Selgjá er í beinu framhaldi af Búrfellsgjá, og eru þær því í raun sama hrauntröðin. Búrfellsgjá er mjög áhugaverð hrauntröð frá Búrfellsgíg og er vel þess virði að ganga eftir henni suður í Búrfell og að skoða sköpunarverk náttúrunnar í leiðinni. Samfelldur hraunstraumur hefur runnið eftir gjánum báðum.
Hér blasir við að þessi stórleikur náttúrunnar, myndun Hjallanna og landsigið sunnan þeirra, hefur orðið eftir að eldar brunnu í Búrfelli fyrir rúmlega 7000 árum. Sprungan, sem liggur yfir hraunið í misgengisstallinum milli Selgjár og Búrfellsgjár, heitir Hrafnagjá. Niðri á flötinni í Búrfellsgjá, sunnan Hrafhagjár, er Gjárrétt. Hér var lögskilarétt fram til 1920 en réttin var notuð eitthvað lengur. Gjárrétt var friðlýst árið 1964. Við hamravegginn norðan réttarinnar er Vatnsgjá, þar eru nokkur þrep niður í ágætt vatnsból. Nær miðja vegu milli Gjárréttar og Búrfells heita Garðaflatir. Kringlóttagjá er hrauntjarnarstæði sunnan við Búrfell, sem myndast hefur seint í Búrfellsgosinu. Góðan spöl suðvestur af Kringlóttugjá eru Mygludalir. Við sérstök veðurskilyrði myndast þarna eitthvað, sem líkist mygluskán, kynnu að vera kísilþörungar.
Suður af Húsfelli er sameiginlegt umráðasvæði Garðabæjar og Álftaness. Það nefndist fyrrum „Almenningsskógur Álptaneshrepps.“ Mörk Almenningsskógarins liggja frá Húsfelli suður á Hæstaholt á Dauðadölum og kallast markapunkturinn nú á seinni tímum Markraki. Af Markraka liggja mörkin til vesturs sunnanvert við Leirdalshöfða í Markrakagil í Undirhlíðum eða Melrakkaskarð. Þetta eru jafnframt austur- og suðurmörk Hafnarfjarðarkaupstaðar. Eins og nafnið „Almenningsskógur“ ber með sér var gróðurfar hér fyrrum allt annað en nú. Þarna óx gróskumikill skógur því sagnir herma, að úr honum hafi árlega verið fluttir hestburðir af trjám og hrísi til eldiviðar á Bessastöðum. í Leirdal milli Leirdalshöfða og Lönguhlíðar hefur Skógræktarfélag Garðabæjar hafið uppgræðslu og trjárækt.

Þríhnúkar

Þríhnúkar – þverskurður.

Austur- og suðurmörk Almenningsskógar Álftaneshrepps liggja af Húsfelli upp í Þríhnúka. Austasti hnúkurinn kallast Strompur og er innan stjórnsýslumarka Kópavogs. Hann er sérstætt náttúruundur. Hnúkurinn er hár og brattur klepragígur og í toppnum er brekka niður að gígopi um 10 m að þvermáli.
Við lok gossins hefur bráðið hraunið runnið brott og við það myndast um 110 m djúpur hellir með lóðréttum veggjum. Þarna ber að fara með mikilli gát því hrasi maður í brekkunni ofan við gígopið og falli niður í hellinn þarf ekki að spyrja að leikslokum. Jón heitinn Jónsson, jarðfræðingur, nefndi hellinn Svartholið. Frá Þríhnúkum liggja mörk Almenningsskógarins í Bláfjallahorn, þ.e. suðurenda Bláfjalla, þaðan vestur í Litla-Kóngsfell, sem er, eins og segir í markalýsingu Krýsuvíkurlands 1890, „lág, mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum.“ Stórkonugjá er norðaustan við Kóngsfell. [Hér fer höfundur villu vegar því nefnt „Kóngsfell“ er hægra megin við gamla Kerlingarskarðsveginn úr Selvogi, ofan skarðsins, en það er ekki „Stóra-Kóngsfell“, eins og ætla mætti af lýsingunni. Það er miklu mun norðaustar og fjarri „gömlu götunni“. „Litla-Kóngsfell“ er gígur, hægra megin við „gömlu götuna“ á Grindaskarðsleiðinni frá Selvogi, allnokkru sunnar en „Kóngsfellið“. Þá er „Konungsfellið“, öðru nafni „Stóribolli“, efst í Grindarskörðum. Um þau lág Selvogsgatan, öðru nafni Grindaskarðavegur, fyrrum.]

Litla-Kóngsfell

Litla-Kóngsfell – Selvogsgatan.

Hér upphefst nokkur vandi. Markalýsingum fyrri tíma til vesturs frá Litla-Kóngsfelli ber ekki saman og deila menn um eignamörk. Landamerkjadómur frá 1971 og Hæstaréttardómur um sýslumörk frá 1996 eru misvísandi. Hér stangast hvað á annars horn. Óbyggðanefnd tók ekki, í úrskurði sínum hinn 31. maí 2006, afstöðu til ágreinings um staðarmörk sveitarfélaga og þar með ekki til þessa vanda. Bráðnauðsynlegt er að fá botn í málin, rugling þennan leiðréttan, og að ágreiningi verði rutt úr vegi. Læt ég svo lokið frekari bollaleggingum í bili.“  – Sigurður Björnsson, verkfræðingur.

Hnoðraholt
Maríuhellar
örnefnakort

Heimild:
-Listin að lifa, 2. tbl. 01.06.2007, Gengið um Garðabæ, Sigurður Björnsson, bls. 44-47.

Kóngsfell

Kóngsfell.

Vífilsstaðir

Í Safni til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju árið 1856 er m.a. getið um eignaskipti á jörðunum Görðum og Vífilsstöðum:
Gardakirkja-221„Annis 1557 og 1558 var Knútur samt hér höfuðsmaður, og á þessu síðara ári út gaf hann á Bessastöðum, dag 4. júlí, Eggerti lögmanni Hannessyni bréf fyrirSnæfellsness- og Ísafjarðarsýslum. Og á sama ári og degi keypti hann, kóngsins vegna, Garða kirkjujörð Hlið á Álptanesi af séra Lopti Narfasyni, fyrir jörðina Vífilsstaði í Garðakirkju sókn, og skyldu prestarnir fá í kaupbætir eina mjöltunnu af kóngsins mjöli á Bessastöðum, og hélzt það við til þess óvild féll inn með höfuðsmanninum Einvold Kruse og séra Jóni Krákssyni, prófasti og presti að Görðum. Síðan hafa Garðaprestar farið hennar á mis.“

Heimild:
-Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju. Hið íslenska bókmenntafjelag 1856, bls. 702.

Smalaholt

Valdimar Samúelsson fann „tvær holur upp á Smalahól/hæð fyrir ofan Garðabæ og norðan við Vífilstaðavatn. Önnur var á bergi undir steini sem var auðsjáanlega grunnur ásamt öðrum steinum af ókláraði vörðu en hin var austan til í hæðinni sem snýr að radíómöstrunum. Hjá þeirri holu var auðsjáanlega mjög gömul meitluð mynd að krjúpandi meyju í bænastöðu. Við þennan stað voru líka tveir skútar, líklega fyrir smalastráka eða ferðamenn.“

Myndin

FERLIR fór á staðinn til að skoða aðstæður sem og verksummerki.
Smalaholt er að mestu leyti (vestanvert) í landi Garðabæjar, upp af Vífilsstaðavatni, en austasti hluti þess er í Kópavogi. Mörkin eru um háhæðina (steinsteyptur stöpull – hæðarpunktur). Af henni sést vel til vesturs niður að Vífilsstöðum. Vestan við landamerkjastöpulinn eru hleðslur vestan undir hloti. Þær eru greinilega nýlegar og lítt vandað til verksins.
Í austur frá stöplinum (Kópavogsmegin) er afmörkuð lág klapparhæð í holtinu mót Rjúpnahæð. Klöppin er jökulsorfin líkt og aðrar klappir þarna – en vel afrúnuð. Hallar undan til austurs, að Rjúpnahæð. Þannig er klapparholtið hæst mót austri. Útsýni er þarna allt til Vífilsfells.
Þar sem klappirnar eru hæstar í holtinu er klöppuð nokkuð stór mynd á vegginn. Myndin er af sitjandi konu að því er virðist á bæn. Hún er formleg og vandað hefur verð til verksins. Myndin er duglega klöppuð í harða grágrýtisklöppina. Inn með henni er sprunga – gott skjól. Austan við hana er lítill skúti, sem myndast hefur þegar jökullinn færði til og lagði stein yfir annan.
Staðsetning myndarinnar á bergveggnum er sennilega engin tilviljun. Hún hefur verið meitluð þarna í ákveðnum tilgangi. Um aldur hennar er erfitt að segja, en hún virðist hvorki vera mjög gömul né nýleg. Vegna þess hve djúpt myndin er mörkuð og útlínur, t.d. höfuðsins þar sem þurft hefur til góð áhöld, er sennilegt að hún hafi verið gerð á fyrri hluta eða um miðja 20. öldina. Annars væri fróðlegt að fá upplýsingar frá einhverjum sem þekkir til eða veit umtilvist þessarar myndari á klapparholti Smalaholts. Ekki er ólíklegt að hún geti tengst einhverju (einhverri) er dvaldi vegna berklasjúkdóms að Vífilsstöðum og hefur viljað eiga þarna stund með sjálfum sér.
Svæðið Árið 1906 var Heilsuhælisfélagið stofnað að forgöngu Guðmundar Björnssonar þáverandi landlæknis með það að markmiði að reisa fullkomið heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Miklu fé var safnað á skömmum tíma víðs vegar um land og jafnvel Íslendingar í Vesturheimi tóku þátt í fjársöfnunni. Hælinu var valinn staður á Vífilsstöðum og gengu framkvæmdir það vel að hægt var að vígja það árið 1910. Árið 1916 tók hið opinbera við rekstri hælisins en fram að því sá Heilsuhælisfélagið um reksturinn með styrk úr landssjóði. Vífilsstaðir voru byggðir fyrir um 80 sjúklinga en árið 1922 voru sjúklingar að meðaltali 130 á dag og átti þeim en eftir að fjölga. Á árunum 1919-1920 var byggt íbúðarhús fyrir yfirlækni en við það jókst húsnæði á hælinu og barnadeild tók til starfa. Börn urðu oft fórnarlömb berklanna. Töluvert bar á því að fólk sem hafði fengið góðan bata eftir langa hælisvist, veiktist aftur af völdum lélegs aðbúnaðar. Kom því upp sú hugmynd meðal berklasjúklinga að stofna samtök sem myndu vinna að hagsmunamálum sjúklinga. Stofnuð voru hagsmunasamtök berklasjúklinga á Vífilsstöðum þann 24. október árið 1938 og fengu hin nýju samtök nafnið Samtök íslenskra berklasjúklinga, skammstafað SÍBS. Fyrsti yfirlæknir hælisins var Sigurður Magnússon.
HoltiðVífilsstaðir voru berklahæli fram undir 1970 en þá var nafninu breytt í Vífilsstaðaspítala. Vífilsstaðir eru nú hluti af Landsspítala – háskólasjúkrahúsi og eru þar starfræktar nokkrar deildir t.d lungnadeild og húðlækningadeild.
Ástæða myndarinnar gæti t.d. verið sú að þarna hafi einhverjum (einhverri), líklega frá heilsuhælinu að Vífilsstöðum, þótt við hæfi að eiga hljóða stund með sjálfum (sjálfri) sér, ekki síst vegna veikinda sinna. Myndin hefur þá verið til áminningar eða áheits um væntingar viðkomandi. Hún gæti og verið til minningar um atburð eða upplifun eða jafnvel, sem ekki er ólíklegt miðað við höfuðumbúnað myndarinnar, að einhver hafi, eftir upplifun eða skynjun, viljað benda öðrum á að þarna kynni að búa vera eða verur, sem ástæða væri til að sýna nærgætni, t.d. álfar eða huldufólk.
Víða í Kópavogi eru m.a. þekktir búsetustaðir álfa og huldufólks, s.s. í Einbúa, Álfhól, Digranesi og Kársnesi. Bæjaryfirvöld og íbúar bæjarins hafa staðið dyggan vörð um þá staði, sem þeirra hefur orðið vart, og gætt þess að raska þeim ekki umfram brýnustu nauðsyn.
MyndinVegna staðsetningarinnar, jafnvel þótt myndin hafi verið gerð í kristni, er við hæfi að rifja upp elstu og nærtækustu sagnir Smalaholtsins, enda útsýni þaðan frábært til yfirlits þeirrar söguskoðunnar.
Eins og flestum er orðið kunnugt þá var Vífill annar þræll Ingólfs, þess fyrsta norræna landnámsmanns á þessu svæði, og var augljóslega sáttari en Karli þrælsfélagi hans við þau heimkynni sem öndvegissúlurnar ákvörðuðu. Vífill fékk frelsi af húsbónda sínum og farnaðist honum vel. Við hann eru kennd Vífilsfell og Vífilsstaðir þar sem hann átti bú. Er hann í Landnámu kallaður „skilríkr maðr“, líkt og svo margir Garðbæingar er á eftir komu.
Í Landnámu (Sturlubók) segir um Vífil þennan: „Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár…
Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs…
Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði…
Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út…
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta. Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.“
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir af Sviða nokkrum svo og nefndum Vífli: „Eitt með dýpstu fiskimiðum á Faxaflóa er nefnt Svið. Er þangað sóttur sjór af öllum Innnesjum sem að flóanum liggja, Akranesi, Seltjarnarnesi, Álftanesi, Hafnarfirði, Hraunum og jafnvel af Vatnsleysuströnd. Sviðið hefur jafnan verið eitthvert fiskisælasta djúpmið á flóa þessum og er til þess saga sú sem nú skal greina.
Sviðholt er bær nefndur; hann stendur hér um bil á miðju Álftanesi. Það er talin landnámsjörð þó hennar sé ekki getið í Landnámu. Þar byggði sá maður fyrst er Sviði hét og kallaði bæinn eftir sér Sviðholt.
Bær heitir Vífilsstaðir og er landnámsjörð; þar gaf Ingólfur Arnarson í Reykjavík Vífil húskarli sínum bústað; en Vífill gaf bænum aftur nafn af sér og bjó þar síðan.
Vífilsstaðir er efstur bær og austastur upp með Garðahrauni að norðan og lengst frá sjó af öllum bæjum í Garðasókn á Álftanesi og hér um bil hálfa aðra mílu frá Sviðholti.
Það er mælt að þeir Vífill og Sviði hafi róið saman tveir einir á áttæringi og hafi Vífill, þó hann ætti margfalt lengri skipgötu en Sviði sem bjó á sjávarbakkanum að kalla, ávallt farið heim og heiman í hvert sinn sem þeir réru.
Sumir segja að Sviði hafi verið formaðurinn, en aðrir að Vífill hafi verið það og þykir mega marka það af því sem nú skal greina að Vífill hafi verið formaður:
Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn. Vífilfell er hæst af fjöllum þeim sem verða á vinstri hönd þegar riðið er yfir Hellisheiði suður í Reykjavík, og dregst það mjög að sér ofan.
VífilsstaðirÞó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum en til sjávar gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið til að gá til veðurs áður en hann fór að róa og réri ekki ef hann sá nokkra skýská á lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum.
En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og réri með Sviða, og þykir þetta benda til þess að Vífill hafi álitið það skyldu sína sem formaður að gá að útliti lofts áður en róið væri.
Einhverju sinni kom þeim lagsmönnum Vífil og Sviða ásamt um að þeir skyldu búa til mið þar sem þeir yrðu best fiskvarir. Er þá sagt að Sviði hafi kastað heiman að frá sér langlegg einum og kom hann niður fjórar vikur sjávar frá landi, og heitir þar nú Sviðsbrúnin vestri. Vífill kastaði og öðrum langlegg heiman að frá sér og kom hann niður viku sjávar grynnra eða nær landi; dró hann af því ekki eins langt út og Sviði að vegamunur er svo mikill milli Sviðholts og Vífilsstaða á landi. Þar heitir nú Sviðsbrún (hin grynnri) sem leggur Vífils kom niður. Var þannig vika sjávar milli leggjanna, eins langt og nú er talið að Sviðið nái yfir frá austri til vesturs. Allt svæðið milli leggjanna kölluðu þeir Svið og mæltu svo um að þar skyldi jafnan fiskvart verða ef ekki væri dauður sjór í Faxaflóa.“
Sagan segir að á þenna hátt mynduðust Sviðsbrúnirnar, fræg fiskimið Álftnesinga. Til fróðleiks má geta þess að ef Vífill hefur þurft að ganga á Vílfilsfell frá Vílfilsstöðum til að gá til veðurs fyrir róður hefur honum alls ekki unnist tími til róðra – jafnvel þótt hann hafi bæði vaknað snemma og farið hratt yfir. Ef Vífill hefur hins vegar látið sér nægja að ganga upp á Smalaholt, sem gæti hafa heitið Vífilsholt (-fell) fyrrum, hefur hann vel getað séð allt það skýafar eða veður er hann annars hefði séð af Vífilsfelli – snökktum styttri vegarleng, en hún hefði nægt honum til áframhald þeirra starfa svo sem sagan segir.
En aftur að Smalaholti. Skammt austan við klapparhæðina hefur verið tekin prufuhola, líklega til að kanna jarðveginn. Samkvæmt fundargerð skipulagsnefndar Kópavogs 8. mars 2006 kemur fram að breyting á aðalskipulaginu. „Breytingin felst í því að skilgreind eru ný íbúðarsvæði í Hnoðraholti, Smalaholti og Rjúpnahæð.“ Af þessum áætlunum að dæma er vá fyrir dyrum, nema vitund vakni og vandað verði til verka í næsta nágrenni holtsins margnefnda. Yfirvöldum og starfsfólki Kópavogsbæjar ætti að vera vel treystandi til þess ef tekið er mið af fyrri verkum þess.
Ljóst er að myndin á hinni litlu og afmörkuðu klöpp Smalaholts er minning, áheit, von eða áminning um eitthvað, sem hugur viðkomandi „listamanns“ hefur viljað tjá í steininn. Það er okkar, eftirlifandi við sæmilega heilsu, að virða ábendinguna og varðveita svæðið er nemur klapparholtinu.

Heimildir m.a.:
-Landnáma (Sturlubók).
-http://saga.khi.is/valkostir/heilsuhaelin.htm
-gardabaer.is
-kopavogur.isVífilsstaðir

Finsstaðir

Gengið var um minjarnar vestan Vífilsstaðalækjar, skammt norðan Flóttamannavegar. Þar má enn sjá heillegar tóftir, garða og gerði frá Vífilsstöðum. Göngustígur liggur framhjá megintóftinni. Ljóst er af mannvirkjunum þarna sem og í hrauninu, þ.á.m. Jónshellar, en þeim liggur hlaðinn stígur á köflum í hrauninu, að þarna hafa verið talsverð umsvif á öldum fyrrum.

Vífilsstaðir

Gerði frá Vífilsstöðum.

Gengið var að Finnsstöðum við norðanvert Vífilstaðavatn. Þar fyrir ofan Flóttamannveginn, í vestanveru Smalaholtinu er há og stór tóft, sem sést vel frá. Utan í henni að sunnanverðu er önnur minni. Á kortum er tóft þessi nefnd Finnsstaðir, en engar heimildir eru til um hann. Ekki er útilokað að þetta gæti um tíma hafa verið stekkur frá Vífilsstöðum. Rústin er tvískipt. Einnig gætu þarna um tíma hafa verið beitarhús frá Vífilsstöðum því Björn Konráðsson ráðsmaður á Vífilsstöðum taldi að þarna hefði verið býli og peningshús, sem var seinna breytt í beitarhús.
Gengið var austur með Smalaholtinu, sem er vesturhlíð Rjúpnahlíðar, ofan við Leirdal og að Selshrygg norðan hlíðarinnar. Þar eru tóftir undir hlíðinni. Þær munu hafa verið notaðar sem beitarhús frá Fífuhvammi, en nefnið bendir til þess að þarna gæti hafa verið selsstaða frá þeim bæ. Fyrir miðjum Selshrygg heitir Selsvellir. Þar er vatn. Gengið var með Rjúpnahlíðinni, niðu Kjóavelli og áfram upp í Básaskarð suðaustan við Vífilstaðavatn. Ofan við skarðið eru fjárhúsatóftir frá Vatnsenda, greinilega mjög gamlar, á fallegum stað. Frá tóttunum sést yfir að Arnarbæli, vörðu á Hjöllunum ofan Grunnuvatna syðri. Frá vörðunni var gengið yfir að Vatnsendafjárborgini. Borgin, sem er syðst á Hjöllunum, þar sem þeir eru hæstir, er nokkuð stór og heilleg, en fallin að hluta. Frá henni er gott útsýni yfir Löngubrekkur í suðri og að Búrfelli.
Gangan tók 2 klst. Veður var frábært; milt og hlýtt.

Jónshellar

Í Jónshellum.