Vífilsfell

Þeir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson fjölluðu um Vífilsfell í Fréttablaðinu árið 2020 undir fyrirsögninni “Gáð til veðurs á Vífilsfelli“:

“Eitt tignarlegasta fjall í nágrenni Reykjavíkur er Vífilsfell (655 m) en margir líta á það sem nyrsta hnjúk Bláfjalla. Fjallsins er getið í Landnámu þar sem sagt er frá Vífli, sem ásamt Karla var þræll Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Þeir voru sendir frá Ingólfshöfða vestur með sjó að leita öndvegissúlna Ingólfs og fundu þær loks reknar í Reykjavík. Ingólfur kættist við fundinn og segir svo í Landnámu: „Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum [Vífilsstöðum]; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó [hann] lengi, varð skilríkur [áreiðanlegur] maður.“ Vífill virðist hafa verið í fantaformi því sagt er að hann hafi skotist frá Vífilsstöðum upp á Vífilsfell til að gá til veðurs og ef veðurútlit var gott hélt hann út á Gróttu og reri til fiskjar. Vífilsfell er talið hafa myndast í að minnsta kosti tveimur gosum á mismunandi jökulskeiðum ísaldar. [Þá hvíldi um 700 m þykk íshellan yfir svæðinu.] Langmest ber á móbergi en um mitt fjallið er stallur sem skartar blágrýti og er því talinn stapi eins og Herðubreið og Hlöðufell. Efst á Vífilsfelli er sérlega fallegt móberg úr síðara gosinu og minnir veðrað bergið á abstrakt listaverk.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Ganga á Vífilsfell er frábær skemmtun og flestum fær. Hefðbundin gönguleið liggur að norðanverðu, upp á öxl sem gengur út úr fjallinu. Þarna eru malarnámur og má leggja bílum fyrir framan þær, en stikuð leið liggur alla leið upp á hátindinn. Þetta eru 6 km báðar leiðir og má reikna með að gangan taki 3-4 tíma. Meira krefjandi gönguleiðir liggja að vestanverðu upp gil sunnan tindsins eða úr Jósepsdal að austanverðu. Á hefðbundnu gönguleiðinni er stíg fylgt upp á áðurnefndan stall, en síðan taka við móbergsklettar sem yfirleitt eru auðveldir uppgöngu nema á veturna. Því er skynsamlegt að hafa með mannbrodda og ísöxi í vetrarferðum á Vífilsfell. Í efstu klettabeltunum eru kaðlar á tveimur stöðum sem auðvelda uppgönguna og á tindinum er útsýnisskífa sem Ferðafélag Íslands setti upp. Útsýnið yfir höfuðborgina er frábært og sést til Gróttu í 25 km fjarlægð, þar sem Vífill stundaði útræði. Einnig blasa við Esja, Móskarðshnjúkar, Skjaldbreiður og Hengill. Flestir ganga sömu leið niður, en sprækt göngufólk getur þrætt endilöng Bláfjöllin í suður að lyftusvæðinu, 15 km leið, sem Vífli hefði þótt þrælléttur göngutúr.”

Fjallað er um ferð á Vífilsfell í Morgunblaðinu 1979 í dálkinum “Spölkorn út í buskann“:
Vífilsfell“Eitt þeirra fjalla, sem blasa við augum manna héðan frá höfuðborginni, er Vífilsfellið. Það er ekki stórfenglegt að sjá úr fjarskanum, en þegar nær er komið, breytir það um svip og ýtir undir þá löngun, að ganga þangað upp. Og í dag skulum við framkvæma það verk.
Hægt er að ganga á fjallið frá öllum áttum, en stysta leiðin er úr skarðinu í mynni Jósefsdals og þar skulum við hefja gönguna. Frá kaffistofunni, sem er á mótum hins nýja og gamla vegar um Svínahraunið, ökum við afleggjarann sem liggur inn í Jósefsdal. Við ökum um Sauðadali, meðfram Draugahlíðum og Þórishamri og brátt erum við komin í skarðið, en það er suð-austan undir Vífilsfelli. Hér skulum við skilja bílinn eftir, og hefja gönguna.
Framundan er brött skriða þakin lausum jarðvegi. Best er að velja leiðina milli tveggja grunnra vatnsrása, sem liggja þar niður, ofan frá brún, eða ganga eftir annarri hvorri rásinni, því þar er fastara undir fæti. Þegar komið er upp á brúnina fyrir ofan, tekur við sléttur meíur. Hann er kærkominn, því brekkan er erfið og hefur komið mörgum hraustum kappanum til að blása og svitna örlítið. Við hvílum okkur nokkra stund á brúninni og litumst um, því landslagið hefur breytt um svip og útsýnið aukist að miklum mun. Síðan tekur við annar áfangi. Handan melsins rís móbergsklettur allbrattur, sem fer lækkandi til austurs. Okkur finnst hann óárennilegur í fyrstu, en tökum samt stefnuna á hann og fikrum okkur upp eftir honum. Er á reynir, er hann auðveldari viðfangs en okkur sýndist. Þegar efstu brún klettsins er náð, blasir við útsýnið til vesturs yfir Bláfjöllin og út á Flóann. En ekki höfum við enn náð efsta tindi. Einn stallur er eftir og sá brattasti. Hér hefur Ferðafélagið komið fyrir kaðalspotta, þeim til styrktar, sem smá aðstoð þurfa, en flestir hlaupa upp án nokkurrar aðstoðar. Þegar við höfum klifið stallinn, er „hæsta tindi náð” og ekki annað eftir en „rifja upp og reyna að muna, fjallanöfnin, náttúruna” með aðstoð útsýnisskífunnar, sem Ferðafélagið lét setja hér upp árið 1940. (Tilvitnanir eru úr Fjallgöngunni, kvæði eftir Tómas Guðmundsson.)

Vífilsfell

Vífilsfell.

Meðan við dveljum hér við útsýnisskoðun og fleira, rifjast upp sagan un nafn fjallsins. Í þjóðsögu segir, að Ingólfur Arnarson hafi gefið Vífli þræli sínum bústað, sem síðan var nefndur Vífilsstaðir. Á miðju Álftanesi er Sviðsholt. Þar bjó Sviði. Vífill og Sviði stunduðu mjög sjó, og segir sagan, að þeir hafi tveir einir róið til fiskjar á áttæringi.
Í þjóðsögunni segir síðan: „Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt, sem Vífilsfell heitir. Þó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum, en til sjávar, gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið, til að gá til veðurs, áður en hann fór að róa, og reri ekki, ef hann sá nokkra skýskán a lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum. En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og reri með Sviða.” Og nú stöndum við á sömu steinunum og Vífill forðum, hér uppi á fellinu, ef marka skal sannleiksgildi sögunnar. En tæplega myndu margir á okkar öld geta leikið það eftir honum, að skjótast þessa leið frá Vífilsstöðum fram og aftur, áður en hann ýtti frá landi. En nú skulum við huga að heimferð. Sjálfsagt er að leggja smá lykkju á leiðina og skjótast niður í Jósefsdalinn. Þá förum við til hægri þegar við erum komin ofan fyrir efstu klettana, og göngum vestur brúnirnar.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Gott er að komast niður gilið, sem merkt er leið A á kortinu, eða ganga alla leið vestur fyrir dalbotninn og þar niður í dalinn (leið B). Jósefsdalur er mjög sumarfagur, fjöllum luktur, en rennisléttur í botninn. Suður úr honum er Ólafsskarð, kennt við Ólaf bryta í Skálholti, sem ég sagði frá, þegar við gengum á Lyklafellið. Fyrrum var alfaraleið um Ólafsskarð og sjást götuslóðirnar enn. Dalurinn dregur nafn af Jósef bónda, sem þar bjó fyrrum. Hann var góður smiður, en forsmáði guð svo með blóti og formælingum, að bærinn sökk og Jósef með. En líklega hefur verið bætt fyrir brot Jósefs, því til skamms tíma voru hér aðalskíðalönd Ármenninga, skíðaskáli þeirra og fleiri byggingar og gekk vel.
Við göngum austur úr dalnum, fram hja Grettistaki, stórum stökum steini við veginn og upp í skarðið. Þar bíður bíllinn okkar.”

Heimildir:
-Fréttablaðið, 231. tbl. 29.10.2020, Gáð til veðurs á Vífilsfelli, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 16.
-Morgunblaðið, 196. tbl. 30.08.1979, Spölkorn út í buskann – Vífilsfell, bls. 11.

Vífilsfell

Vífilsfell.