“Hvað heitir landið milli Kópavogs og Hafnarfjarðar? Garðahreppur, Garðakaupstaður, Garðabær eða Garðar? Setjið X við rétt svar.
Rétt svar var Garðahreppur, en hreppurinn öðlaðist kaupstaðarréttindi 1976, og heitir því Garðakaupstaður. Mikið var reynt til þess að fá fólk til að nota nafnið Garðar, en bæjarstjórnin og íbúar bæjarins vilja, og nota einungis nafnið Garðabær.
Byggð hefur verið á landsvæði Garðabæjar allt frá landnámstíð. Getur Landnáma tveggja landnámsjarða á svæðinu: Vífilsstaða, þar sem Vífill, leysingi Ingólfs Arnarssonar bjó, og Skúlastaða, þar sem Ásbjörn Özurarson bjó. Hafa verið leiddar að því líkur að nafn síðarnefnda bæjarins hafi síðar breyst í Garða. Þegar hin forna hreppaskipting var tekin upp, hét allur hreppurinn Álftaneshreppur, en var skipt árið 1878, í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Bæjarmörkum Garðabæjar hefur nokkrum sinnum verið breytt, m.a. þegar Hafnarfjörður var gerður að sjálfstæðu sveitarfélagi og fékk kaupstaðarréttindi árið 1908.
Garðabær nær yfir stórt flæmi lands og t.d. er stór hluti Heiðmerkur innan bæjarmarkanna svo og hluti Álftaness. Skilin milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar hafa ekki alltaf verið svo glögg, enda sveitarfélögin búin að skiptast oft á landspildum. Árið 1910 var íbúatala Garðabæjar 264.”
Hér má lesa frétt í Vísi 1983 um makaskipti bæjanna: “Nýlega hafa Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur gert samkomulag um það, að Hafnarfjörður fái land, sem nú er innan marka Garðahrepps en Garðahreppur fái svæði, sem Hafnarfjörður hefur á leigu til ársins 2015. Samkomulag þetta mun færa Hafnarfirði 4200 hektara landsvæði fyrir sunnan bæinn en Garðahreppur mun fá ágætt byggingarland í Hraunsholtslandi.
Vísir átti tal við Hafstein Baldvinsson bæjarstjóra í Hafnarfirði um þetta mál. Hann sagði, að samkvæmt lögum frá 1936 hefði ríkisstjórninni verið heimilað að taka eignarnámi og afhenda Hafnarfjarðarbæ á leigu Hrauns holtsland gegn því að Hafnarfjarðarbær gefi eftir landssvæði fyrir sunnan Hafnarfjörð, svonefndar Hraunajarðir. Á grundvelli þessara laga hefði Hafnarfirði á árinu 1940 verið leigt umrætt land til ársins 2015 með því skilyrði að landið yrði aðeins til ræktunar en ekkert byggt á því. En land þetta er í rauninni innan lögsagnarumdæmis Garðahrepps.
Nú hefur Garðahreppur óskað eftir því að Hafnarfjörður gæfi eftir leigusamninginn gegn því, að Garðahreppur léti Hafnarfjörð í staðinn fá land úr sínu lögsagnarumdæmi sunnan Hafnarfjarðar. Hefur Hafnarfjörður samþykkt þetta með því skilyrði, að samþykkt verði ný lög um hið nýja lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Hafsteinn sagði, að ráðgert væri nú að bera fram frumvarp á alþingi um hin nýju mörk Hafnarfjarðarbæjar. Mundi Hafnarfjörður stækka um 4200 hektara en Hafnarfjörður er nú 6130 hektarar fyrir utan Krýsuvík en þar á Hafnarfjörður 4820 hektara.”
Heimild:
-Morgunblaðið 2. september 1983, bls. 12.
-Vísir, 2. maí 1964, bls. 1 og 6.