Gengið var um vestan- og norðanvert Urriða[kots]vatn.
Fylgt var gömlum upplöðnum akvegi að rás norðvestan við vatnið. Vegurinn var rofinn á vaði svo ganga þurfti með mýri, Vesturmýri, og sæta lagi við að komast yfir hana til norðurs utan Vesturviks. Annars var forvitnilegt að virða fyrir sér nýtt útsýni þarna til norðvesturs, ólíkt því sem áður var. Gæsir, álftir og vaðfuglar fylltu mýrartjarnir, sem þarna eru í grónum hraunkrika, en í stað þess að sjá Garðahraunið í bakgrunni, líkt og áður var, blöstu nú við verslanir BYKO og IKEA. Sennilega leiða fáir viðskiptavinir þessara verslana huganum að þessum mýrartjörnum og fuglalífinu þar. Enda kannski eins gott því lóan hafði verpt í hraunkantinum og gæsin í mýrarhólma.
Í örnefnalýsingu Svans Pálssonar fyrir Urriðakot segir m.a. um þetta svæði: “Kvíaflöt heitir allmikið barð norðvestan við túngarðinn og ofan við veginn, sem lá norðvestur frá bænum. Kvíaflöt var gerð að túni skömmu áður en Urriðakot fór í eyði.
Vegurinn, sem hér um ræðir, var Urriðakotsvegur nýrri. Hann var lagður um 1930 norðvestur úr túninu, yfir mýrina og Hrauntangann, gegnum túnið á Setbergi á Setbergsveg vestan við bæinn á Setbergi. Hann var lagður sem bílvegur og var þá hætt að nota Urriðakotsveg eldri, sem áður er nefndur, en sá vegur var ekki bílfær. Ofan við Kvíaflöt er Grjótréttin vestri, rústir gamallar réttar. Norður af Grjótréttinni er einstakt barð, er nefnist Trantur, en skammt vestur og niður af Trantinum er langt barð, sem nefnist Langabarð. Það nær alla leið niður að Vesturmýri, en svo kallast einu nafni mýrin milli holtsins og hraunsins. Norðvestur af Langabarði neðst er Höskuldarklettaflöt, sem dregur nafn af klöppum, sem kallast Höskuldarklettar og eru fyrir neðan flötina. Sá hluti holtsins, sem er upp og norður af Höskuldarklettaflöt, kallast Brekkur, og norðvesturendi holtsins nefnist Brekkutögl.
Sá hluti hraunsins, sem skagar út í Urriðakotsvatn, kallast Hrauntangi, og er hluti af honum í Setbergslandi. Í miðri Vesturmýri liggur Urriðakotsvegur yfir vatnslænu, sem nefnist Kelda. Við vegagerðina var hún brúuð og brúin nefnd Keldubrú. Áður var hún stikluð á steinum nokkru norðar. Þegar norðvestar kemur í mýrina, var læna þessi kölluð Rás. Rásin var stikluð á steinum, sem kallaðir voru Rásarbrú á Stórakróksgötu, sem lá að heiman vestur í Stórakrók, sjá síðar.
Vikið sem gengur norður úr vatninu milli Hrauntanga að vestan og holtsins að austan, heitir einu nafni Vesturvik. Litla vikið í norðausturhorni
Vesturviks heitir Tjarnarvik, en í norðvesturhorni Vesturviks er einnig lítið vik og nefnist það Forarvik. Í Forarvik safnaðist mikið af fergini og varð að forarvilpu. Mýrin sunnan vegar, en norðaustan undir Hrauntanga, kallast Kriki. Sá hluti Hrauntanga, sem skagar lengst út í vatnið til suðurs, heitir Mjóitangi. Réttartangi skagar austur úr Hrauntanga nokkru sunnan við mitt Vesturvik. Sunnan við Krika liggur gamall grjótgarður þvert yfir Hrauntangann. Heimildarmanni er ekki kunnugt um nafn á honum. Í Hrauntanga rétt norðvestan við Mjóatanga er stór klettur með sýlingu í. Hann kallast Sýlingarhella og er á mörkum Urriðakots og Setbergs.”
Annars má segja bæjaryfirvöldum í Garðabæ það til hróss að þau skyldu sjá aumur á tjörnunum sem og afnotendum þeirra, sem greiða ekki opinber gjöld til sveitarfélagsins líkt og verslanirnar handan þeirra. Hins vegar fengu ófáar birkihríslurnar og hraunmyndanirnar að kenna á umbyltingu svæðisins í þágu mannfólksins og kaupaþörf þess. Fáir virðast hafa haft taugar til umhverfisins, enda aldrei litið það augum þess sem bæði veit og skilur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Urriðakot (SP).