Færslur

Helgadalur

Gengið var um Helgadal og upp í Katlagil í norðvestanverðu Grímannsfelli. Ætlunin var að skoða minjar sem eiga að vera þar upp í gilinu.
HelgadalurKatlagil er suðaustan í Dalnum. Katlagilslækur rennur niður gilið. Hann lét lítið yfir sér að þessu sinni, en af ummerkjum ofar í gilinu að dæma má telja líklegt að hann geti vaxið verulega í leysingum. Gilið neðanvert er ófært gangandi fólki, en auðvelt er að fylgja brúnunum beggja vegna til að komast upp eftir því. Ofar eru sléttur og leiðin greið. Flatafell er norðan við gilið og Kolhóll að sunnan. Austan er Stórhóll á Grimmansfelli.
Tilefnið að þessu sinni var þó einungis að skoða gilið neðanvert því þar á norðanverðum bakkanum áttu að vera rétt og lambabyrgi.
Réttin er enn á sínum stað, trektlaga og fallega hlaðinn utan í brekku. Sunnan við hana er hlaðið lítið gerði. Í fyrstu mætti ætla að þarna hafi verið stekkur, en líklegt má telja að réttin hafi einnig verið notuð sem slík, eins algengt var fyrrum. Réttin hefur jafnan verið nefnd Helgadalsrétt.
Skammt ofar (suðaustar) og hærra á norðurbakkanum er grói byrgi, sem nefnt hefur verið lambabyrgi. Erfitt er að greina útlínur þess, en líklega hefur það verið ferkantað.
Þjóðminjasafnið hefur skráð fornleifar í Mosfellsbæ. Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar má sjá að um 604 fornleifar séu þekktar eða heimildir eru um.
Helgadalur Helstu fornleifar hafa verið merktar inn á þemakort aðalskipulagsins en allar fornleifarnar eru skráðar inn í skráningarkerfið „Sarp” hjá Þjóðminjasafni Íslands. “Þær fornleifar sem unnt hefur verið að staðsetja hafa einnig verið merktar inn á hnitsetta loftmynd af Mosfellsbæ sem varðveitt er hjá tæknideild Mosfellsbæjar. Við skipulagningu svæða og undirbúning framkvæmda skal tekið mið af fornleifaskráningu samkvæmt þessum gögnum. Athuga ber að ekki er víst að fornleifar séu horfnar þótt þær sjáist ekki á yfirborði.”
Í aðalskipulaginu er þess jafnframt getið að “um skógræktarsvæði gildir að öðru leyti eftirfarandi: a. Skógræktaráætlanir skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og taka mið af þeim verndarákvæðum sem þar eru sett fram, s.s. vegna hverfisverndar, svæða á náttúruminjaskrá, friðlýstra svæða skv. náttúruverndarlögum og friðlýstra fornminja skv. þjóðminjalögum. b. Taka skal tillit til þekktra fornminja. Skógrækt skal ekki fara nær friðlýstum fornminjum og öðrum merkum minjum en 20 m.”
Skólasel Laugarnesskóla, Katlagil, er í Helgudal í Mosfellsbæ. Á vef skólans má sjá að þangað fari nemendur skólans og kennarar í dagsferðir að hausti og á vorin. Árlega gróðursetja nemendur um 500 – 1000 trjáplöntur þar. Auk þess tengjast allar ferðir í Katlagil kennslu í umhverfismennt í skólanum.
Sögu “selsins” er getið á vefnum. “Jón Sigurðsson, þáverandi skólastjóri, mun strax á öðru ári skólans 1936 – 37 hafa hreyft við þeirri hugmynd að koma upp skólaseli í nágrenni bæjarins fyrir börn og kennara við Laugarnesskóla.
Ekki verður séð að nokkuð hafi gerst í málinu fyrr en 1943. Þá var efnt til merkjasölu í skólanum og komu inn um 7000 krónur. Með þeirri upphæð var stofnaður Selsjóður Laugarnesskóla.
Helgadalur Skólahverfi Laugarnesskóla var afar víðlent á þessum árum. Það náði frá Höfðatúni að vestan og allt að Korúlfsstöðum og Lögbergi að austan. Af þessum sökum þurfti mikinn akstur skólabarna og sérstakan skólabíl. Sú hugmynd kom upp í Kennarafélagi Laugarnesskóla að það tæki að sér skólaaksturinn og hagnaður af þessu framtaki færi til þess að kaupa land og byggja skólasel.
Á fundi sem haldinn var í Kennarafélaginu 2. des 1944 var rætt um kaup á 24 sæta bíl fyrir félagið. Kosin var þriggja manna nefnd til að annast kaup á bíl sem menn höfðu augastað á, útvegun lánsfjár er Kennarafélagið ábyrgðist og sjá um rekstur bílsins á næsta ári. Ráðinn var vagnstjóri og honum veitt leyfi til að gerast meðeigandi bílsins gegn ákveðnu gjaldi, 5000 krónum.
Nefndin gekk frá kaupum á bílnum og var hann tekinn í notkun stuttu síðar sem skólabíll. Nokkrir kennarar við skólann lánuðu fé til viðbótar við það sem til var í Selsjóði. Rekstur bílsins gekk ágætlega svo að í árslok 1946 var hann að fullu greiddur.
Á fundi í Kennarafélaginu 13. maí 1946 var kosin 7 manna nefnd til að svipast um og velja stað fyrir væntanlegt sel. Leið svo fram til árins 1949, þ.s. leitin bar ekki árangur. Þá fékk stjórn Kennarafélagsins tilboð frá Hauki Jónssyni frá Helgadal í Mosfellssveit um kaup á hluta úr þeirri jörð. Stjórn félagsins brá strax við, skoðaði landdið og sýndist það mjög ákjósanlegt. Það var um 10 dagsláttu tún, allt rennislétt og mikið ræktanlegt land að auki. Lélegur sumarbústaður fylgdi.
Esja Stjórn félagsins bauð öllum félagsmönnum, sem hún náði í, til ferðar upp að Helgadal til að skoða landið. Eftir þá ferð var svo haldinn fundur í félaginu 3. júlí 1949. Þar bar stjórnin fram eftirfarandi tillögu: “Fundur í Kennarafélagi Laugarnesskóla samþykkir að ganga að ganga að tilboði Hauks Jónssonar um kaup á hlut úr jörðinni í Helgadal í Mosfellssveit. Fundurinn felur stjórn félagsins að ganga frá kaupunum.” Tillagan var samþykkt einróma. Næstu daga var gengið frá kaupunum og 8. ágúst sama ár fór lokagreiðsla fram. Kaupverð landsins var 45 þúsund krónur og að viðbættum öðrum kostnaði varð það alls 45.629 krónur.
Sumarið 1955 hófust byggingaframkvæmdir við skólaselið. Bjarni Jónsson kennari teiknaði húsið. Framkvæmdir gengu hægar en vonast var til. Tvennt tafði einkum verkið. Fyrst að gröftur fyrir söklum var mikill því jarðvegur var lausari en ráð var fyrir gert og hitt að tíðarfar var mjög úrfellasamt.
Verkamenn bjuggu í tjöldum og tveimur sumarbústöðum er voru þarna í túnjaðrinum. En þó að vistin væri stundum nokkuð hráslagaleg vegna rigninganna undu menn glaðir við starfið og létu oft fjúka í kviðlingum.
Næsta sumar var húsið múrað að innan og fleira smávegis gert. Sumarið 1957 var Magnús Einarsson kennari ráðinn til vinnu við húsið. Hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í rishæðinni um sumarið og voru það fyrstu íbúar Selsins. Lokafrágangur hússins fór svo fram 1958 og 20. september var húsið vígt.”
Nú er þarna mikill og víðfeðmur skógur umleikis, sem nær allt að Katlagilslæk. Umhverfið hefur greinilega verið gert með natni möguleika námsferða í huga. Glóbrystingur söng sitt fagra stef og rjúpan taldi sig örugga í jaðri skógarins.
Tekið hefur verið að nokkru tillit til framangreindra ákvæða um 20 metra “nálgunarbann” á skóg í nágrenni fornleifa því trén eru ekki alveg ofan í réttinni, en þau eru hins vegar komin fast að lambabyrginu.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024.
-http://nepal.vefurinn.is/Nepal_Skrar/Skra_0000558.PDF
-http://www.skolatorg.is/kerfi/laugarnesskoli

Katlagil

Helgadalur

Gengið var frá Kaldárseli að hellunum austan Kaldársels, s.s. 90 metra helli, Vatnshelli, Gjáhelli, Rauðshelli, 100 m helli, Fosshelli o.fl. Á leiðinni var gamla vatssleiðsluhleðslan skoðuð. Frá hellunum var gengið yfir að Rjúpnadalahrauni og refagildran undir norðurhorni Húsfells skoðuð. Þá var leitað að gömlu fjárskjóli í Húsfelli, sem sagnir eru til um. Það fannst eftir nokkra leit. Framan við það eru gamlar hleðslur. Frá fjárskjólinu var gengið um gjárnar norðvestan Húsfells, um Mygludali og í Valaból.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Þegar komið var niður í Helgadal var ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, skoðað í dalnum. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.

Kaldá

Kaldá.

Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Gengið var á Kaldárhnjúka og Kaldárbotnar skoðaðir áður en ferðin endaði við Kaldá.
Ferðin tók nákvæmlega 2 klst í ágætu veðri.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Níutíumetrahellir

Gengið var frá Kaldá að Níutíumetrahellinum. Nokkrir duglegir krakkar voru með í för. Þótt opið gefi ekki til kynna að þarna sé langur hellir er hann nú samt sem áður jafn langur og nafnið gefur til kynna.

Helgadalshellar

Í Fosshelli.

Fyrst er komið niður í nokkurs konar lágan forsal, sem þrengist síðan smám saman uns fara þarf niður á fjóra fætur. Sem betur fer var moldin á botninum frosin svoauðveldara var að feta sig áfram inn eftir hellinum. Eftir spölkorn vítkar hann á ný, en þó aldrei verulega. Svo virðist sem hellirinn beygi í áttina að Lambagjá, sem er þarna norðvestan við opið. Sennilega er þessi rás ein af nokkrum, sem runnið hafa í gjána á sínum tíma og myndað þá miklu hraunelfur, sem runnið hefur niður hana til norðvesturs og síðan til vesturs í átt að Kaldárseli.
Þá var haldið niður í Helgadal við horn vatnsverndargirðingarinnar. Þar í brekkunni er Vatnshellir, op niður í misgengi, hægra megin við stíginn. Annað op á helli, ofan í sama misgengið. Gæta þarf sín vel þegar farið er ofan í Vatnshelli. Opið er tiltölulega lítið, en þegar komið er niður virðist leiðin greið til vesturs. Svo er þó ekki því kristaltært vatnið er þarna alldjúp. Það sést hins vegar ekki fyrr en stigið er í það. Ef komast á áfram þarf bát. Það fer þó eftir vatnshæðinni, en vatnið í Kaldárbotnum stöðvast þarna við misgengið á leið sinni til sjávar. Það er ástæðan fyrir tilvist vatnsbóls Hafnfirðinga þarna skammt vestar, undir Kaldárhnúkum.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Áður en haldið var inn í Hundraðmetrahellinn, sem opnast innan úr sprungu, var gengið að Rauðshelli, sem er þar skammt norðvestar. Einhvern tímann hefur hluti hellisins verið notaður sem fjárskjól, a.m.k. gróið jarðfallið við annað op hans. Gömul sögn er til af Rauðshelli, en hellirinn fékk síðar nafnið Pólverjahellir eftir að skipshöfn leitaði þar skjóls. Sjá má bælið við stærra opið. Hellirinn sjálfur er rúmgóður og lítið sem ekkert hrun í honum. Hægt er að ganga svo til uppréttur inn eftir honum, en í heildina er hellirinn hátt í hundrað metra langur. Hann beygir til hægri þegar inn er komið og síðan til vinstri. Fremst í hellinum eru fallegar hraunsyllur. Skammt norðar er forn stekkur. Hann er ekki á fornminjaskrá.

Vatnshellir

Í Vatnshelli.

Þegar komið er niður í sprunguna þar sem Hundraðmetrahellirinn er sést op til norðvesturs. Sá hluti nær einungis nokkra metra. Fallegir steinbekkir eftir storknaðan flór er með veggjum rásinnar er liggur til suðausturs. Hún þrengist smám saman og lækkar uns skríða þarf áfram. Loks lokast hellirinn svo til alveg. Hrunið hefur úr loftinu. Áður fyrr var hægt að skríða áfram og koma upp á milli steina í jarðfalli nokkru austar, en nú þarf grannan mann til ef það á að vera hægt. Mjög erfitt er að finna leiðina í hellinn þeim megin.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Þá var haldið inn í stóra rás við eystri op Hundraðmetrahellis, sem er í rauninni hluti af þeirri fyrri, og inn í Fosshellinn. Í geyminum áður en komið er að fossinum er komið að miklu hruni. Ekki er óhugsandi að rás kunni að leynast efst og norðvestast í hruninu ef nokkrir steinar væru færðir til. Fossinn kemur úr rás í u.þ.b. þriggja metra hæð. Hefur hann storknað þar í þessari fallegu hraunmyndun. Farið var upp í rásina. Fallegur flór sést þar í henni. Gengið var upp eftir honum og áfram út úr rásinni skammt austan fjárgirðingar, sem þar er. Annað op er skammt vestar, en ekki var farið inn í það að þessu sinni. Fosshellirinn gæti verið um 40 metra langur.

Músarhellir

Í Músarhelli.

Frá Fosshelli var gengið upp í Valaból og komið við í Músarhelli. Hann er í rauninni rúmgóður skúti, sem hlaðið hefur verið framan við og gert rammað hurðargat á. Bekkur er þar inni og gestabók. Farfuglar gerðu afdrep þetta á sínum tíma, en síðan hafa skátar og fleiri nýtt sér það af og til. Í Valabóli er fallegur og skjólsæll trjálundur með sléttum grasblettum. Valahnúkar gnæfa yfir með fallegum bergmyndunum.
Veður var ágætt – lygnt, en fremur skuggsýnt. Það kom þó ekki að sök því góð leiðarljós lýstu veginn.
Gangan tók um 2 klst. Frábært veður.

Valaból

Valaból.

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel. Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Þá var haldið um Lambagjá upp í Helgadal þar sem nokkrir hellar voru barðir augum. Loks var gengið upp í Valaból og síðan um Valahnúka niður að Kaldárseli.

Kaldárssel

Í fjárskjól við Kaldársel.

Kaldársselssvæðið er nokkuð sérstakt, þótt ekki sé fyrir annað að það er bæði á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og innan Reykjanesfólksvangs. Auk þess er það eitt helsta útivistarsvæði Hafnfirðinga.

Lengi vel mátti sjá leifar veggja tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Loks voru þær sléttaðar út. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.
Kaldársel átti sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður sögum smábýla á þeim tíma. En sögu á þetta fona býli samt – “sigurljóð og raunabögu”. Kaldársel dregur nafn sitt af litlu ánni, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra frá Kaldá.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru sumarbúðir KFUM og K. Kvæðið er svona:

Kaldársel

Kaldársel – Helgafell fjær.

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.
Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin við Hvaleyrarvatn.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er, að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873.

Kaldársel

Op fjárskjóls.

Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli um nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.
Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkra byggingar og önnur mannvirki.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.
Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt.
Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það samt.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Húsin voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamótin 1900. Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert heillegt hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Margt er að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru félagsmanna KFUM og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. Í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum. Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfirl Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi. Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop.
Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlum ljósmyndum Daniel Bruun frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.

Valaból

Músarhellir í Valabóli.

Út frá Kaldráseli eru margar greiðfærar og skemmtilegar gönguleiðir. Til dæmis er hægt að leggja af stað frá húsi K.F.U.M. og K., ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni. Kaldá rennur á mótum tveggja hrauna. Annað rann úr suðri, en hitt rann úr Búrfelli, suðaustur af Kaldárseli. Að sunnanverðu, á hægri hönd þegar farið er yfir, má enn sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðarinnar. Hún er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja henni í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Framundan til suðausturs eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.
Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.
Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður áningastaður.

Kaldá

Kaldá í Kaldárbotnum.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Útihúsin voru til hliða og framundan húsunum sunnanverðum, en þau hurfu ekki svo til alveg fyrr en KFUM og K húsið hafði risið í Kaldárseli árið 1925. Þegar síðan var byggt við litla húsið voru útihúsin sléttuð.
Sem fyrr sagði tilheyrði landið áður Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.

Gengið var að fjárhellunum norðan Kaldársels. Á Standinum er fjárborg, önnur af tevimur, sem þar voru. Hin, sú eystri, var fjarlægð á sínum tíma, sennilega verið notuð undir vatnsstokkinn. Gamlar sagnir eru til af hellum þessum. Þeir voru síðast notaðir árið 1908.

Kaldársel

Fjárhús undir Fremstahöfða.

Hellarnir, 6 talsins, fundust aftur tiltölulega nýlega á svæði utan gönguleiða. Um er að ræða mjög fallega fjárhella. Miðsvæðis er tóft utan um skúta. Eftir að fallið mosavaxið grjótið hafði verið fjarlægt frá opnum kom í ljós að enginn hafði komið þarna inn í allnokkurn tíma. Mold var á gólfi, en ekki eitt spor.
Í nyrsta fjárhellinum er hlaðinn garður í honum miðjum. Stærsti hellirinn er syðst. Gengið er niður í hann um hlaðinn gang og er þá komið inn í rúmgóðan sal með sléttu gólfi.

Önnur mannvirki tengd selstöðunni og búskap í Kaldárseli má sjá nálægt fjárhellunum, s.s. aðra eftirlifandi fjárborgina af tveimur upp á Borgarstandi, fjárhústóft norðan undir honum, gerði eða stekk við hana, nátthagann í Nátthaga og gömlu Kaldárselsgötuna klappaða í bergið.

Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Hraunið, sem kom úr Búrfelli, er um 7.000 ára. Fyrrnefnd friðlýsing nær einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbotnum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður. Í vor voru í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið.

Kaldársel

Hleðsla undir vatnsleiðsluna.

Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal. Frá brúninni sjást nokkur misgengi. Eitt er t.d. eftir endirlangri Smyrlabúð og áfram út með Hjöllunum. Annað er í norðurbrún Helgadals og liggur í átt að Búrfelli. Kíkt var í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans voru í vor og síðan aftur í sumar þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í. Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.

Tvö nöfn eru á Rauðshelli; gamla nafnið er dregur nafn sitt af litnum, og einnig nafnið Pólverjahellir. Sumir hafa talið að hann væri svo nefndur eftir Pólverjum á skipi í Hafnarfjarðarhöfn, sem gist hafði í hellinum því hún fékk ekki inni í Hafnarfirði, en hið rétta er að ungir drengir úr Pólunum í Reykjavík, nefndir Pólverjar, dvöldu þarna um tíma.
Svo óheppilega vildi til að þegar hópurinn hafði komið sér fyrir innst í Rauðshelli heyrðust armæður og kvenstafir frá pari, sem lagst hafði til hvílu á bak við stóra steina í hellinum. Þar reyndust vera komin frú grýla og herra leppaúði. Báru þau sig illa yfir rúmraskinu og var því ákveðið að hverfa út úr hellinum svo þau gætu a.m.k. sofið þar enn um sinn.

Kíkt var í opið á Hundraðmetrahelli og síðan gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins. Þegar gengið var upp í gegnum hellinn var enn einn úr jólafjölskyldunni vakinn; kertasníkir. Hafði hann lagt sig yst í Fosshelli, en vaknað við umgang fólksins. Lét hann í sér heyra, en lagðist síðan til hvílu á ný, enda enn langt til jóla.

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Frá Helgadal sést vel yfir að Búreflli í austri. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Þegar gengið er niður í Helgadal sét vel í ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, upp í austanverðri hlíðinni. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.
Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Þegar komið var á jafnsléttu var gengið til suðurs með austanverðuverðu fjallinu, upp í Valaból. Valaból er fallegur trjálundur. Við hann er Músarhellir. Á Valahnúkum eru steingerð töll – í alvöru.

Kaldársel

Jólasveinn í einum fjárhellanna.

Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar.

Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.

Kaldársel

Forynjur í einu fjárskjólanna.

Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.
Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi kletaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: “Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.” Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.

Allnokkru ofan við hellana í Helgadal er Rjúpnadalahraun. Í því, norðan við Húsafell, er hlaðin refagildra. Fjárskjól er í norðvestanverðu í Húsfelli og eru sagnir eru til um það. Framan við það eru gamlar hleðslur.

Frá Valabóli var gengið áleiis niður í Kaldárbotna þar sem vatnsveita Hafnarfjarðar er með vatnsból sín og tekur ferskvatn fyrir bæjarbúa.

Valaból

Í Valabóli.

Þegar gengið er áleiðis á Helgafell er komið að nyrsta hluta Gvendaselsgíga. Gígarnir standa upp úr hrauninu efst á brúninni, sá nyrsti stærstur.
Flestir, sem halda á Helgafell, ganga norður fyrir fjallið og síðan auglýsta gönguleið upp skriðuna. Mun auðveldari gönguleið er upp móbergsgil skammt vestar á norðanverðu fjallinu. Þá er komið upp í sléttan dal og þaðan er auðvelt að ganga upp slétthallandi móbergið, áleiðis upp á öxlina og síðan á toppinn. Fjallið er 340 m.y.s.
Ein sjö Helgafell eru til í landinu; þetta suður af Hafnarfirði, í Mosfellssveit, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, yst sunnan Dýrafjarðar, í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Ágætt útsýni er af Helgafelli í góðu skyggni.
Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.
Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Hundraðmetrahellir

Hundraðmetrahellir.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þjóðsagan segir að fyrrum hafi Kaldá komið úr Þingvallavatni en eftir að Ingólfur landnámsmaður gróf Soginu farveg úr því, þar sem síðan heitir Grafningur, hafi Kaldá þorrið. Önnur saga segir að tveir synir fjölkunnugs karls nokkurs hafi drukknað í ánni og eftir það hafi hann kveðið hana niður. Þriðja sagan segir að hún hafi þornað eftir mikið eldgos.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í dag nýtur Kaldársel ýmissa forréttinda. Í fyrsta lagi nýtur svæðið verndunar þar sem það er innan Reykjanesfólksvangs og hefur verið það í um 30 ára skeið. Í öðru lagi er Kaldársel innan vatnsverndar höfuðuborgarsvæðisins og í þriðja lagi nýtur Kaldársel og nágrenni sérstakrar verndar skv. þjóðminja- og náttúruverndarlögum.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Úr “Sögu Hafnarfjarðar”, handskrifuðum Minningum Sigurðar Þorleifssonar og handriti Gísla Sigurðssonar á Bókasafni Hafnarfjarðar).

Kaldársel

Kaldársel.

Helgadalur

Gengið var að Helgadal, framhjá opi Níutíumetrahellis, niður skástigu gömlu Selvogsgötunnar, framhjá opi Vatnshellis og áfram upp að sögðum gömlum tóttum í austurhlíð Helgadals. Sjá má hvar gamla Selvogsgatan hefur beygt að vatninu í Dalnum og síðan haldið áfram á ská upp eftir hlíðinni, sunnan við tóttirnar. Svo virðist sem þarna gætu hafa verið nokkur hús. Sjá má móta fyrir stíg niður að vatninu, hugsanlega garði sunnan við tóttirnar og tótt niður við vatnið.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Gamall skáti sagði að Skátafélag Hafnarfjarðar (Hraunbúar) hafi á sínum tíma ætlað að byggja skála í Helgadal þar sem skemmtileg skátamót voru haldin um tíma. Rótað hefði verið og grafið fyrir uppistöðum, en síðan hafi verið horfið frá skálabyggingunni. Hvar það var nákvæmlega í dalnum er ekki alveg ljóst á þessari stundu.
Tóttarsvæðið í Helgadal sést vel, en erfitt er að greina einstaka tættur. Vatnsverndargirðingin liggur fast við þær. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá árinu 1907 (áhíf 1908) kemur fram að þær hafi ekki verið vel greinanlegar þá, fyrir tæpri öld síðan, en hann lýsir þeim á þessum stað, sbr. meðfylgjandi mynd. Í þeirri frásögn lýsir hann og heimtröð og garðlagi við Skúlatún sunnan við Helgafell.
Fróðlegt væri að láta einhvern tíma grafa í tóttirnar til að fá úr því skorið hvað þarna hafi verið og hversu gamalt það er.
Gangan tók u.þ.b. 45 mínútur í ágætu veðri.

Helgadalur

Helgadalur – uppdráttur ÓSÁ.

Helgafell

Í Árbókinni 1908 fjallar Brynjúlfur Jónsson um “Rannsóknir fornleifa sumarið 1907”; annars vegar í Gullbringusýslu og hins vegar í Skúlatúni. Þar fjallar hann bæði um tóftir í Skúlatúni og í Helgadal.
Helgadalur-23“Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33—34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, — þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, — sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún. Kom mér í hug að það væri stytt úr Sculastatun; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Ásetti eg mér að nota fyrsta tækifæri til að koma á þenna stað. En í þeirri ferð, sem eg var þá í, var það um seinan, er eg heyrði Skúlatúns getið. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið.
Helgadalur-24Samt þótti mér ófróðlegt að sjá ekki þenna stað, og fór eg þangað í sumar.
Landslagi er svo háttað, að hraunfláki mikill fyllir víðlenda dæld sunnan frá Lönguhlíð norður að ásahrygg þeim, er gengur frá Námahálsinum vestan við Kleifarvatn (inn frá Krýsuvík) alt inn á milli Kaldársels og Helgafells. Suðausturhliðin á ásahryggnum, sú er veit að Lönguhlið og hraunflákanum áðurnefnda, kallast Bakhlíðar [Gvendarselshæð], og eru þær lægri en Undirhlíðar, þar eð hraunflákinn er hærri en hraunin fyrir neðan ásahrygginn. Þaðan til Lönguhlíðar er þvervegur hraunflákans, og hygg eg hann hátt upp í mílu, en langvegurinn er frá Helgafelli og Grindaskarða hraunbálkinum út að botninum á Breiðdal, sem er fyrir norðan Kleifarvatn, og hygg eg hann yfir mílu.
Gvendarsel-21Allur er hraunflákinn sléttur ofan, vaxinn grámosa og eigi gamallegur útlits. Hann er hallalítill, og mun dældin, sem hann hefir fylt, hafa verið nokkuð djup með mishæðóttu láglendi, sem nú er ekki hægt að gera sér ákveðna hugmynd um. Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri. Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 fðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á honum er norðvestantil.
Raudshellir-21Suður þaðan er og bunga á honum. Á öllum þessum þrem stöðum er einkennilegt stórþýfi, ólíkt því þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti eg trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingarleifum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannaverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfirum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin. Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmegin þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann hulinn hrauni norðvestan-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi af þessum hól, sem upprunalega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar. Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðasthvar vóx töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var i þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að færa sig upp eftir hólnum. Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir mig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér heflr verið bær og tún. Og þá virðist nafnið »Skúlatún«, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.”

Helgadalur-26

Helgadalur – uppdráttur ÓSÁ.

Þá fjallar Brynjúlfur um minjarnar í Helgadal: “Í sama skiftið sem mér var bent á Skúlatún um leið, að skamt þaðan héti Helgadalur og skoðaði eg því þann stað, og reyndist þetta var þess getið sæist þar til rústa. Helgadalur er skamt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur hóll norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefir runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt síg vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn. Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhliðvegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn. Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér að eins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Eg dró upp mynd af rústinni.
Helgadalur
Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafl verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nu eru hrauni huldir.

Skúlatún

Skúlatún.

Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (sbr. Árb. fornl.-fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskamt þaðan til Hafnarfjarðar.”
Í dag, árið 2011, mótar ekki fyrir húsum í Skúlatúni. Þar með er ekki sagt að þar kunni ekki að leynast hús, einkum austast í túninu. Í Helgadal sér fyrir 9 m löngum skála sem og þremur öðrum byggingum. Líklegt má telja að í dalnum hafi verið tímabundin búseta kúabúskapar yfir sumartímann allt frá fyrstu tíð búsetu hér á landi, líkt og sá má við sambærilegar aðstæður við Urriðavatn. Við uppgröft þar mætti eflaust finna þar skálann, fjós og jafnvel fleiri byggingar. Líklegt má telja að minjar við Rauðshelli tengist Helgadalstóftunum. ”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1908, Brynjúlfur Jónsson; Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 eftir Brynjúlf Jónsson. Í Gullbringusýslu. II Skúlatún, bls. 9-11.

Helgadalur

Helgadalur.

Rauðshellir

Gengið var um Lambagjá frá Kaldárseli með viðkomu í Níutíumetrahellir ofan við enda gjárinnar.

Helgadalur

Helgadalur – tóft.

Síðan var haldið yfir í Vatnshelli, sem er við gömlu Selvogsgötuna þar sem hún liggur niður í Helgadal. Á leiðinni var gegnið fram á þrastarungakríli, sem fallið hafði úr hreiðri sínu, en móðirin fylgdist gaumgæfilega með öllu. Forn tóft í Helgadal var barin augum. Rauðshellir var skoðaður, en hans er getið í kirkjuannálum allt frá því á 17. öld, auk þess sem litið var inn í Hundraðmetrahellinn. Rauðshellir er stundum nefndir Pólverjahellir. Nafnið er tilkomið frá drengjum úr Pólunum í Reykjavík er voru við dvöl í Kaldárseli. Friðrik Friðriksson stofnaði knattspyrnufélagið Val þar sem þessir drengir voru aðaluppistaðan. Þá stofnaði hann ungmennafélagið Hvöt, sem hafði aðstöðu í Hvatshelli í Þverhlíð.

Helgadalur

Helgadalur – Vatnshellir.

Þá var gengið í gegnum Fosshelli þar sem hinn fallegi flór var skoðaður, upp í Valaból og áð í Músarhelli. Maríustakkur vex þar utan við sem og einstaka holurt á stangli. Annars er svæðið orðið mjög vel gróið og trén hafa dafnað vel í sumar.
Haldið var upp á Valahnúka (201 m.y.s.), heilsað upp á tröllinn og og hrafninn, sem á sér laup í austanverðum vestasta hnúknum. Hann sést vel þar sem gengið er yfir í Valabók um hálsinn frá Helgafelli. Frá tröllunum var gengið yfir malarslétt helluhraunið niður í Gvendarselsgíga, upp á Kaldárbotna syðri og með vatnsverndargirðingunni niður að Kaldá.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Helgadalur

Í Norðanfara 1880 er fjallað um stofnun “Hið íslenska fornleifafjelags”:

Norðanfari“Næstliðið sumar stofnuðu nokkrir hinna helztu embættismanna í Reykjavík nýtt fjelag er nefnist «Hið íslenzka fornleifafjelag», og barst oss með síðasta pósti næstl. ár boðsbrjef og lög nefnds fjelags frá formanni þess herra landfógeta Árna Thorsteinsson til birtingar í blaði voru. Vjer þurfum ekki að vera margorðir um fjelag þetta, því vjer vonum og teljum víst, að landar vorir muni jafnt sjá nauðsyn sem nytsemi pess, og ætlum vjer að þeir sem unna frægðarljóma fornaldarinnar og framfór og menntun binnar yfirstandandi og komanda tíðar, muni bezt geta sýnt áhuga sinn með því að ganga í fjelagið senda því forngripi og styrkja pað á annan hátt. Eitst. Boðsbrjef.
Áhugi Íslendinga á að viðhalda fornleifum og safna þeim hefir hingað til eigi verið jafnmikill og kapp það, sem um margar aldir hefir verið lagt á, að varðveita sögur vorar, mál og þjóðerni, og er þó ljóst, að engin skýring yfir fornsögur vorar er betri, en þau þögulu vitni, er felast fá fet undir yfirborði jarðarinnar.

Sel

Heimildir eru um Sel frá 14. öld og var það lengst af kirkjujörð auk þess sem útræði var mikið úr Selsvör, enda upphaflega um sel frá Víkurbænum að ræða. Bærinn var síðar oft nefndur Stóra-Sel. Steinbær var reistur þar árið 1884 sem stendur enn.
Uppdráttur Hoffgards frá árinu 1715 sýnir m.a. Sel enda eitt af höfuðbýlum á þessu svæði og prestsetur. Nýlegar fornleifarannsóknir sýna að undir steinbænum eru leifar af torfbæ. Selsbærinn stóð þar sem í dag er Holtsgata 41b.

Margar af fornleifum vorum hafa lógazt og farið forgörðum. Fjöldi þeirra hefir komizt í hendur útlendra manna, sem eigi hafa skeytt þeim nema til stundargamans, og eigi skilið þýðing þeirra fyrir oss. Það eru að eins sumar þeirra, er hafa lent á útlendum söfnum, en þó hvergi svo margar, að þær geti getið nokkra ljósa eða samfasta hugmyndum menntunarástand lands vors á ýmsum tímum.
Síðan hið íslenzka forngripasafn var stofnað, hefir það að vísu borgið mörgum íslenzkum fornleifum, sem annars hefði glatazt eða tvístrazt, en mikið vantar þó á, að það, einkum sökum fjeskorts geti verndað svo íslenzkar fornleifar sem skyldi, og er því ljóst að brýn þörf er á, að landsmenm leggi sig enn betur fram, en hingað til hefir verið um það að vernda fornleifar vorar, þess vegna hafa nálega 40 menn gengið í fjelag, “sem nefnist hið íslenzka fornleifafjelag, og er það fyrirætlan fjelagsins að starfa að því af öllu megni, að Forngripasafn vort geti auðgast þannig af fornmenjum, að menn með því geti rakið lífsferil þjóðarinnar um hinar liðnu aldir. Einkum mun fjelagið verja kröptum sínum til að leita að fornleifum bæði í jörð og á, vernda þær, lýsa þeim og gjöra þær bæði þjóð vorri og erlendum fræðimönnum sem kunnastar.
Áður hefir það opt borið við að menn hafa grafið eptir feim menjum í gróðahug, en það kemur sjaldan fyrir, að slíkur gröptur svari kostnaði, heldur glatast þá jafnan sá fróðleikur, sem ætla má að fengizt hefði, ef rjett hefði verið farið að. Fjelagið mun því eptir efnum styrkja að því, að við slíkar rannsóknir sje farið eptir vísindalegum reglum, og grafið sje með nægilegu eptirliti, til þess að þjóð vor geti haft nokkra trygging fyrir, að svo rjett sje að farið, sem bezt má verða. Sje því að einhver viti til fornra mannvirkja sem þurfa friðunar, uppgraptar eða vísindalegrar rannsóknar, vonast fjelagið eptir að menn leiti sín, og mun það þá veita fullting sitt. Það er áform fjelagsins að láta rannsaka þingvöll, fyrst og fremst Lögberg, og mun rannsóknum þessum þar eptir verða framhaldið víðar.
Fjelagið leyfir, sjer því, að skora á alla á menn, innlenda og útlenda, er unna hinum fornu fræðum vorum, að ganga í fjelagið, annaðhvort með tveggja króna tillagi á ári hverju, eða 25 króna tillagi í eitt skipti. Svo eru menn og beðnir, að styrkja fjelagið í öllum starfa þess, þar á meðal með því að vísa á fornleifar og menjar frá fyrri öldum, senda þær til ráðstöfunar á forngripasafnið, láta skýrslur í tje um fornleifar, sem enn kunna að vera lítt þekktar, eða um gripi, sem æskilegt er að fá vitneskju um.”
Stjórn fornleifafjelagsins, 27. nóvbr. 1879.
Árni Thorsteinsson, Bergur Thorberg.
formaður. Björn Magnúss. Ólsen.
Jón Árnason. Jón þorkelsson.
Magnús Stephensen, Sigurður Vigfússon,
fjehirðir, varaformaður.
Hins íslenzka fornleifafjelags. – Indriði Einarsson.

Heimild:
-Norðanfari, 11.-12. tbl. 24.02.1880 – Hið íslenska fornleifafjelag, bls, 21.

Helgadalur

Helgadalur – minjar.

Torfdalur

Stefnan var tekin á Torfdal ofan við bæinn Helgadal í Mosfellssveit (Mosfellsdal). Dalurinn er fremur stuttur. Um hann rennur Torfdalslækur, vatnslítill nema í leysingum. Neðarlega myndar hann fossagil, Stórutorfugil. Ætlunin var að staðsetja Selhól, sem getið er í örnefnalýsingu svog mögulegar selminjar af draganda nafngiftar hólsins.

Torfdalur

Torfdalur – kort.

Að sögn bóndans í Helgadag, Ásgeirs Péturssonar, eftir að hafa ráðfært sig við húsfreyjuna, er hafði sótt örnefnalýsingu jarðarinnar sér til halds og trausts, mun Selhóll skaga út úr norðvesturhorni Grímarsfells, “augljós er upp væri komið”. Að sögn lægju “gamlar götur upp frá bænum áleiðis að Selhól, sem þó virtist ekki greinanlegt í dag”.
Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Helgadal (bls. 317); “Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa”. Þá segir: “Vatnsskortur er margoft um vetur að stórmeini.”

Torfdalur

Torfdalur – Varða á Selhól.

Skv. Jarðabókinni á Helgadalur að hafi selstöðu í Stardal ásamt allmörgum öðrum. Selfarir voru hins vegar einungis að sumarlægi. Ef aðstæður eru skoðaðar má telja að vatnsskortur hafi aldrei háð Helgadalsábúendum því þrjár ár renna við bæjarstæðið. Lýsingin virðist því eitthvað hafa skolast til hvað þetta varðar.
Þá má telja af líkindum að Helgadalssel hafi mögulega verið þar sem nefnt hefur verið Varmársel. Í Jarðabókinni er nefnilega ekki getið um selstöðu frá Varmá í landi Stardals og reyndar er alls ekki getið þar um selstöðu frá jörðinni, enda ólíklegra út frá landfræðilegum aðstæðum.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Í örnefnalýsingu Helgadals um göngusvæðið segir m.a.: “Jörð í Mosfellsveit, næst austan Æsustaða. Upplýsingar gáfu Hjalti og Ólafur Þórðarsynir, Æsustöðum, einnig frá föður þeirra.
“Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur.”
Í athugasemdum um lýsinguna segir m.a.: “Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983. Þær eru ýmist ritaðar inn á ljósrit af skránni eða færðar sem svör á spurningalista.
“Stóridalur er í Þormóðsdalslandi. Grímarsfell, ekki Grímansfell.

Torfdalur

Torfdalur ofanverður.

Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.”
Gata var rakin frá Helgadal upp eftir Torfdal, skammt neðan Hádegisvörðu og allt upp þangað er gil skiptu að Grímarsfelli. Sjóskaflar þökktu svæðið svo erfitt var um staðfestingu minjatilvistar þar.
Þegar horft var yfir Stórutorfu mátti telja líklegast að selminjar myndu vera undir lágum melhól norðan torfunnar. Á honum er vörðubrot. Önnur mannanna verk var ekki að sjá í Torfdal (utan framreisluskurðar undir Torfdalshrygg).
Ástæða er til að skoða Torfdalinn nánar þegar vorar.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Sumarið eftir var aftur gengið um Torfdalinn ofan Helgafells. Rifjuð var upp örnefnalýsing þeirra Hjalta og Ólafs: “Sunnan Helgadalsbæjar er hæð, sem nær vestur að Æsustaðafjalli. Á henni, beint suður af Helgadalsbæ er Hádegisvarða. Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. (Um það rennur Norðurreykjaá.) Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur. Austan við Stórutorfu og Stand, sunnar í fellinu, ofarlega, er dæld, sem heitir Stóridalur. Þar neðar og vestur af er urð mikil sem heitir Skollurð, er hún í Þormóðsdalslandi, og enn austar skerst djúpt gil sunnar í fellið er heitir Vondagil (mun nefnt Illagil á korti). Á háfellinu, upp af Torfdal, er kollóttur móbergshóll er heitir Kollhóll; er hann á há-Suðurfellinu vestanverðu. Enn vestar er Nóngilslækur, á merkjum Helgadals og Æsustaða. Má telja, að Suðurá byrji þegar Torfdalslækur og Nóngilslækur koma saman.
Í suðausturkrika dalsins, í Helgadalstúni og upp af því, er Bæjargil, enn vestar Torfdalsgil og Nóngil, sem er á mörkum Helgadals og Suður-Reykja. Nóngil er forn eyktamörk frá Helgadal. Í Torfdalsgili er Torfdalsfoss og í Nóngili Nóngilsfoss.”

Í athugasemdum Guðjóns Sigurðar við Örnefnalýsinguna segir m.a.: “Niður af Hádegisvörðu (á Hádegishæð) er djúpur hvammur sem nefnist Bolabás . Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.”

Torfdalur

Torfdalsfoss.

Í króknum þar sem Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast eru brattar grasbrekkur sem nefnast Stóratorfa, en „…norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur“ (Ólafur Þórðarson). Ekki er vitað hvort sel var við Selhól og ekki heldur hvenær síðast var haft í seli í Helgadal. Hvorki Sigurði Helgasyni, fyrrverandi bónda í Helgadal, né öðrum er kunnugt um rústir við Selhól eða sel í Torfdal.

Líklegt má telja, ekki síst vegna þess hversu stutt er frá bæ að Selhól, að þar hafi um tíma verið heimasel. Í heimaseljum voru venjulega einungis eitt mannvirki; stekkur eða afdrep, allt eftir tilgangi selstöðunnar. Þegar framangreindri götu frá bæ var fylgt upp með Stórutorfugili austan Norðurreykjaár, upp með Hádegisvörðu og upp á Stórutorfu suðaustan Selhóls (á Selhól er varða, sem vandað hefur verið til) má sjá á einu barðinu móta fyrir mannvistarleifum. Líkast til er þar um að ræða fornan stekk eða annað mannvirki, að mestu gerður úr torfi, en þó má einnig sjá þar grjót. Minjarnar er skammt austan við ána ofan við flæður, sem í henni eru. Selstöður voru nytjastaðir, hvort sem var fyrir fé, nautgripi, fuglatekju, kolagerð, hrístöku, torfristu, mótekju eða annað þ.h. Af nafni dalsins má e.t.v. draga þá ályktun að Torfdalur dragi, líkt og svo margir nafnar hans á landinu, nafn af torfskurði, hugsanlega mótaki því að torf merkir að fornu bæði grastorf og mór (“elditorf”). Þess vegna má ætla að ekki hafi verið lagt í mikil mannvirki í dalnum því stutt er heim til bæjar.
Frábært veður.

Heimildir:
-Ólafur Þórðarson frá Æsustöðum. Örnefnalýsing Helgadals, skráð 1968 sem endurbót á lýsingu Ara Gíslasonar og aftur endurbætt 22. sept. 1983.
-Athugasemdir við lýsinguna: Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983.
-Ásgeir Pétursson, bóndi í Helgadal.
-Jarðabók ÁM 1703.

Torfdalur

Helgadalur framundan – Hádegisvarða.

Rauðshellir

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags, “Rannsóknir fornleifa sumarið 1907” eftir Brynjúlf Jónsson, segir um minjarnar í Helgadal ofan Hafnarfjarðar:

Helgadalur

Helgadalur – vatnsbólið, þurrt í júlí 2021.

“Í sama skiftið sem mér var bent á Skúlatún um leið, að skammt þaðan héti Helgadalur og skoðaði ég því þann stað, og reyndist þetta var þess getið sæist þar til rústa.
Helgadalur er skammt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhól] norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefur runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt sig vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftasvæði.

Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhliðvegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn. Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér aðeins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Ég dró upp mynd af rústinni. [Myndin sú var ekki birt með frásögninni].
Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafi verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nú eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (Sbr. Árb. fornl.fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskammt þaðan til Hafnarfjarðar.”

Helgadalur

Helgadalur – selsminjarnar.

Brynjúlfur virðist hvorki hafa áttað sig á staðsetningu minjanna með hliðsjón af öðrum selsminjum á Reykjanesskaganum, þ.e. þær eru í góðu skjóli fyrir austanáttinni, og auk þess eru þær við vatnsból fjarri byggðinni við ströndina. Aðstæður er dæmigerðar fyrir selstöðu; grasi gróinn selshúsahóll, gróinn stekkur og grasgróningar umhverfis. Engin ummerki eru eftir garða er gjarnan fylgja bæjarstæðum. Skammt norðar í Helgadal er hlaðinn stekkur ofan við fjárskjól. Fyrirhleðslur eru framan við skjólin, sem einnig eru dæmigerðar fyrir selstöður á þessu svæði.
Selið, sem hefur verið frá Görðum á Álftanesi (það er í fyrrum Garðalandi), hefur verið vel mjög staðsett í upphafi á sínum tíma. Tvennt hefur væntanlega komið til eyðingar þess í framhaldinu. Í fyrsta lagi var það við gömlu Selvogsgötuna (Suðurferðarveginn) milli Hafnarfjarðar og Selvogs um Grindarskörð. Leiðin sú hefur orðið fjölfarnari eftir því sem bæjunum Hafnarfirði og Reykjavík óx fiskur um hrygg. Ekki hefur þótt vænlegt að halda úti selstöðu við svo fjölfarna sumarleið. Vatnsbólið hefur verið mjög eftirsóknarvert, enda fáum öðrum slíkum að dreifa á milli Strandardals og Helgadals, og dalurinn hefur auk þess þótt skjólgóður áningarstaður. Í öðru lagi má telja líklegt að vatn hafi þorrið í dalnum um miðsumar í heitum veðrum, mögulega ítrekað á tilteknu tímabili, líkt og gerst hefur nú í sumar (júlí 2021). Ítrekaðir þurrkað hafa hnúið bóndann á Görðum til að færa selstöðuna af framangreindum ástæðum, þ.e. fjær alfaraleiðinni og að öruggari vatnsöflun við Kaldá neðan Kaldárbotna. Sú selstaða hefur dugað vel um tíma, en fékk hins vegar lítinn frið, líkt og sú fyrri, fyrir ágangi ferðamanna í lok 19. aldar. Sjá má allnokkra umfjöllun um Kaldársel á vefsíðunni.

Helgadalur

Helgadalur – selsminjar.

Leifar selstöðunnar í Helgadal eru greinilega mjög fornar, enda mótar vart fyrir mannvirkjum þar, nema sjá má móta fyrir óvenjustórum stekk, tvískiptum, austan tvískiptra óljósra húsaleifanna, sem væntanlega fela í sér eldhús, búr og baðstofu – ef gaumgæft væri.
Minjarnar eru í landi Garðabæjar þótt skondið sé. Ástæðan er sú að landamerki Hafnarfjarðar og Garðabæjar voru miðuð við gömlu Selvogsgötuna. Hún liggur niður í Helgadal norðan vatnsbólsins, í sveig að vatnsbólinu og síðan upp með hlíðinni austanverðri sunnan tóftanna. Þær eru þó naumlega innan vatnsverndarsvæðis Kaldárbotna, en það ætti þó ekki að takmarka möguleika fornleifafræðinga að skoða þær nánar með t.t. aldurs og nýtingar fyrrum.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 eftir Brynjúlf Jónsson – Helgadalur, bls. 10-11.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.