Færslur

Kaldársel

Voru Steinhús gamalt sel? Eða bara hús úr steini?
Á gömlum kortum er örnefnið Steinhús sunnan Kaldár, skammt sunnan Kaldársels. Samkvæmt landamerkjalýsingum Garðabæjar, gömul mörk, er Steinhús (Steinhes) sögð vestan Kaldársels og sunnan Efstahöfða (Fremstahöfða). Af þessu að dæma getur staðsetning Steinhúsa skipt máli. Og ekki bara það heldur er örnefnið sjálft einkar áhugavert.
En til þess að geta skoðað staðinn þurfti að finna hann.

Steinhes

Steinhes. Helgafell fjær.

Steinhúsa er ekki getið í seinni tíma gögnum. Vitnað er til þess í örnefnalýsingu að þar hafi verið sel, væntanlega Kaldársel. Það nafn virðist yngra. Örnefnið vakti forvitni FERLIRs, ekki einungis vegna misvísandi upplýsinga um það heldur og vegna nafnsins.
Þegar gengið var um svæðið voru rifjaðar upp gamlar heimildir um viðfangsefnið.
Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Eru munnmæli um að Skúlastaðir hafi verið þar sem Skúlastaðahraun er, sem er norðan við Lönguhlíðarhorn, innan Almenningsskóga Álftaneshrepps. Hin jörðin er Vífilsstaðir, eða Vífilstóftir, sem þó telst ekki til hinna eiginlegu landnámsjarða, en hún var byggð af Vífli, húskarli Ingólfs Arnarssonar. Vífilsstaðir munu fljótlega eftir landnám hafa komist í eigu kirkjunnar, fyrst Viðeyjarklausturs, en árið 1558 eignaðist Garðakirkja jörðina. Talið er að kirkja hafi verið að Görðum á Álftanesi allt frá því að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Hvar Garðar voru er hvergi getið. Þjóðsagnaskýring hefur varðveist þess efnis að Garður hafi fyrrum verið þar sem Garðaflatir eru nú, ofan Búrfellsgjár.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar. Á þjóðveldis- og Sturlungaöld eru litlar heimildir um íbúa Álftaness og þar í kring. Eftir að hreppskipan komst á, á þjóðveldisöld, tilheyrðu núverandi landsvæði Garðabæjar Álftaneshreppi og einnig bæði höfuðbólin Garðar og Bessastaðir. Afréttarland Álftaneshrepps hafði ýmist nöfnin Garðaland, Garðakirkjuland eða Garðastaðarland. Hreppamörk Álftaneshrepps vestan og suðvestan féllu saman við landamerki Hvassahrauns og Lónakots og Straumstorfunnar, í suðri land að mörkum Grindavíkurhrepps um vestanverð Brennisteinsfjöll austur að sýslumörkum Gullbringu- og Kjósarsýslu og Árnessýslu, en að norðan við landamerki jarðanna Arnarness og Vífilsstaða. Álftaneshreppi var skipt upp árið 1878, í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Var Álftaneshreppur þá lagður niður samhliða. Með úrskurði landshöfðingja dags. 17. sept. 1878 var áðurnefnd tvískipting ákveðin. Eftir skiptinguna 1878 tilheyrði byggðin suður fyrir Hafnarfjörð Garðahreppi. Sú skipting hélst þar til Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Eftir það og fram til ársins 1959 náði lögsaga Garðahrepps beggja vegna við Hafnarfjörð, en þá var mörkum sveitarfélaganna breytt. Garðahreppur fékk kaupstaðarréttindi og sérstakt lögsagnarumdæmi með lögum nr. 83/1975, en skv. þeim skyldi umdæmið ná yfir allan fyrrum Garðahrepp.

Steinhes

Steinhes.

Samkvæmt framangreindu voru fyrrum mörk Garðarhrepps í Arnarbæli og úr Arnarbæli (Arnarstapa) lá línan í Hnífhól, þaðan í Húsfell. Úr Húsfelli lá línan í Þríhnúka, og þaðan í suðurenda Bláfjalla (Bláfjallahorn). Úr Bláfjallahorni í Kistufelli, þaðan í syðra horni á Fagradalsbrún, þaðan í Vatnsskarði(Melrakkaskarð), í Fjallið eina og svo í Markhelluhól. Úr Markhelluhól fór línan í Búðarvatnsstæði, þaðan í Steinhús, og þaðan í miðjan Ketshelli. Úr Ketshelli lá línan svo og endaði aftur í Arnarbæli (Arnarstapa).
Ef byggt er á merkjalýsingu Garðakirkjulands samkvæmt landamerkjabréfi nr. 154, sem Þórarinn Böðvarsson prófastur í Görðum undirritaði 7. júní 1890, er Garðakirkjulandinu m.a. lýst svo: „…beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan austur í landsuður upp í Hnífhól, þaðan til austurs landsuðurs í mitt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Markrakagil í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar og Ás lönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna….“.
Svæðið að norðanverðu, milli Arnarbælis, Kethellis og Steinhúss, er einnig getið í lýsingu í eiginhandarbréfi séra Árna Helgasonar í Görðum til sýslumanns, dags. í Görðum 13. janúar 1848, sem inniheldur svofellda lýsingu á Garðakirkjulandi: “Á sydri hraunbrúnina hjá Nordurhellrum og so sudur eptir Smillubúdar hraunsjadri og I midjan Kjötshellir og so hraunid allt fram ad Steinhusinu, og so beint ur steinhusinu og upp sydri Kaldárbotna; þadan, og allt Helgafell, I Markraka, úr Markraka og í Daudadali úr Daudadölum og í Strandartorfu, úr Strandartorfu rettsýnis í Húsfell, so úr Husfelli og I Hnífhól úr Hnífhól og heim í Arnarbæli“.

Kaldársel

Hálkarað fjárhús skammt frá Kaldárseli.

Landinu er lýst í merkjalýsingu sem var þinglýst á manntalsþingi í Görðum á Álftanesi 22. júní 1849: „Fyrst milli Garðakirkju fjalllands, úr Steinhúsi suður í Markagil (Marakka) eða Undirhlíðum, þaðan í Hæðstaholt á Dauðadölum á annan veg úr Dauðadölum norður í Húsfell, af Húsfelli upp í þríhnjúka, þaðan á suðurenda Bláfells á milli afrétta Álftanes- og Seltjarnarneshrepps. Á milli Gullbringu- og Árnessýslu af Bláfjöllum vestur á Kistufell. Á milli Álftaneshrepps og almennings og Krýsuvíkur landa af Kistufelli niður í syðra horn á Fagradalsbrún, þaðan í Marakkagil, svo í þúfu á Fjallinu Eina. Þaðan í Helguflöt norðan á Búðarhólum. Á milli jarðanna Heimalands og afréttar af Búðarhólum eptir Búðarhólagjá, þaðan aptur í Steinshús“. Mun Búðarvatnsstæði vera þar sem Helguflöt norðan á Búðarhólum er, sbr. kort af Almenningsskógi Álftaneshrepps, dags. 20. apríl 2004.
Afréttarland Álftaneshrepps var áður ýmist nefnt Garðaland, Garðakirkjuland eða Garðastaðarland. Sama land heyrði eftir skiptingu Álftaneshrepps árið 1878 undir Garðahrepp, sbr. einnig síðar lög nr. 83/1975 um kaupstaðarréttindi til handa Garðahreppi. Garðakirkjulandi er lýst í eiginhandarbréfi séra Árna Helgasonar í Görðum til sýslumanns, dags. í Görðum 13. janúar 1848, sem virðist vera svar prests við fyrirspurn sýslumanns um skóglendi í landi Garðakirkju: “Þetta Land hefir þessi ummerki. „Á sydri hraunbrúnina hjá Nordurhellrum og so sudur eptir smillubúdar hraunsjadri og I midjan Kjötshellir og so hraunid allt fram ad Steinhusinu, og so beint ur steinhusinu og upp sydri Kaldárbotna; þadan, og allt helgafell, I markraka, úr markraka og í daudadali úr daudadölum og í strandartorfu, úr strandartorfu rettsýnis í húsfell, so úr husfelli og I hnífhól úr hnífhól og heim í Arnarbæli. Þetta vidurkenna allir ad til heyri Gardakirkiu, brukad hefi eg þad, nockur ár fyrir selstödu, hvar til þad væri hentugt, ef ei være so lángt í burtu, nu er þad leigt bondanum Jóne Hjörtssyne á Hvaleyri, sem betur getur notad en eg, so sem búandi miklu nær þessu Landi.“

Hamarskotssel

Hamarskotssel/Setbergssel – markavarðan.

Samsvarandi lýsingu á Garðakirkjulandi var að finna í eldri merkjalýsingu, því í biskupsvísitasíu hinn 19. september 1661 er lögð fram lögfesta séra Þorkels Arngrímssonar, gerð á Bessastöðum á Jónsmessu 1661. Mun aðalefni hennar hafa verið innfært í Vísitasíubókina, en finnst einnig í Kirknaskjölum í endurriti séra Árna Helgasonar úr skjalabók Garðakirkju frá 1701. Er endurrit hans dagsett 4. ágúst 1839. Landamerki Garðakirkjulandsins eru skv. þeirri merkjalýsingu talin vera: „Á syðri hraunsbrún hjá Norður hellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri og í miðjan Ketshelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi. Svo beint úr Steinhesinu og upp í syðri Kaldárbotna, og allt Helgafell og í Strandartorfu og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól, og Hnífhól og heim í Arnarbæli.“ Merkjalýsing Garðakirkjulands samkvæmt landamerkjabréfi nr. 154, er gerð rúmum 40 árum síðar. Þórarinn Böðvarsson prófastur undirritar hana í Görðum 7. júní 1890 og er merkjalýsingin þinglesin á manntalsþingi í Görðum hinn 9. júní 1890. Eru lýsingarnar sammála um merkin úr Arnarbæli í Markraka í Dauðadölum: „…beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan austur í landsuður upp í Hnífhól…, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar og Ás lönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna….“.

Kaldársel

Kaldársel.

Í allar landamerkjavörður var steypt á áttunda áratug síðustu aldar, sbr. vörðurnar við Bala, í Engidal, á Miðdegishól og við Ketshelli.
Í örnefnalýsingy fyrir Hafnarfjörð eftir Guðlaug R. Guðmundsson er Steinhús (eða Steinhes) nefnt. Staðsetning er þannig að það sé “hornmark Hvaleyrarlands syðst á Fremstahöfða”. Í annarri lýsingu er Fremstihöfði nefndur Efstihöfði. Guðlaugur vitnar í skrif Gísla Sig. um þjóðhætti (ljósrit í Hafnarfjarðardeild Bókasafns Hafnarfjarðar), um að Steinhes muni vera eldra nafn. Staðsetning Steinhúss er yfirleitt heldur snubbótt í lýsingum þar sem það er nefnt, en í Örnefnastofnun er loftmynd af svæðinu (“orthomynd”) sem Svanur Pálsson merkti örnefni inn á 1980. Þar er Steinhús merkt. Í kaflanum um Kaldársel í skrá G.R.G. er vitnað í Fornleifaskrá 1990 um friðlýstar fornleifar í Kaldárseli en þar er Steinhús ekki nefnt. Í lýsingum Hvaleyrar og Garðakirkjulands er nefnt Steinhús en engin staðsetning að gagni, aðeins að lína liggi úr því eða um það…

Steinhús

Steinhús.

Í auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi í Stjórnartíðindum B 1975 segir m.a. um mörkin: “Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús, sem er glöggt og gamalt eyktamark. Frá Steinshúsi liggur línan…..”
Skýringin á Steinshúsi er sem sagt að það sé “þekkt eyktarmark”. Þarna er það þá komið. Hús úr steini – holur hraunhóll á þeim stað, sem hornmarkið er tilgreint vestan Kaldársels. Skammt frá hraunhólnum, sem er eins og hús í laginu efst á holtinu, eru gamlar hleðslur af húsi, syðst á Efstahöfða (Fremstahöfða). Það er því hraunhóllinn sem örnefnið er kennt við, en ekki húsið, enda er það forgengilegt, en hóllinn ekki. Hann er því öllu sennilegra hornmark landamerkjanna. Þetta örnefni virðist hafa horfið af landakortum í seinni tíð, en á eldri kortum er örnefnið sett sunnan við Kaldársel, sunnan Kaldár. Þar er ekkert er gefur tilefni til slíks. Líklega hefur örnefnið verið tekið út af kortum vegna þess hve fáir vissu hvað eða hvar það var í raun og veru.

Heimildir m.a.:
-http://www.obyggd.stjr.is/svland/53.pdf
-Örnefnalýsing Hafnarfjarðar – Guðlaugur R. Guðmundsson – ÖÍ.
-Gísli Sigurðsson. Þjóðhættir í Hafnarfirði. Handrit í Bókasafni Hafnarfjarðar.
-Örnefnalýsing fyrir Hvaleyri. Ari Gíslason skráði – ÖÍ.
-Stjórnartíðindi B. 1975, nr. 520.
-Jónína Hafsteinsdóttir- ÖÍ.
-Jón Sigurðsson, hrdl.

Kaldársel

Kaldársel – minjar. ÓSÁ.

Kaldársel

Eftirfarandi frásögn um upphaf Kaldársel (sumarbúðanna) birtist í Bjarma árið 1967:
kaldarsel-990“Að aflokinni messu á Bessastöðum á annan hvítasunnudag árið 1921, var haldinn stuttur K.F.U.M.-fundur þar í kirkjunni. Þá var stofnaður sjóður, sem hafa skyldi þann tilgang að koma upp sumarbúðum fyrir K.F.U.M. Það voru tveir félagar úr K.F.U.M. í Hafnarfirði, sem lögðu fram hundrað krónur. Seinna mynduðu nokkrir félagsmenn í Hafnarfirði og Reykjavík samtök um þetta mál. Var ákveðið að koma saman fyrsta föstudag hvers mánaðar, annan hvern mánuð í Reykjavík en hinn í Hafnarfirði. Fundir þessir voru bænafundir, þar sem beðið var fyrir málefninu, og að því loknu var lögð fram fórn til sjóðsins. Allt fór þetta fram í mestu kyrrþey. Vorið 1925 var sjóðurinn orðinn nær fjögur þúsund krónur. Var þá farið að hugsa til framkvæmda og lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar félaginu í té eignarhald á túninu umhverfis eyðibýlið Kaldársel.

Kaldársel 1930

Kaldársel 1930. Seltóftirnar hægra megin.

Þetta sama vor var hafizt handa um að byggja skálann. Minnast ýmsir þess enn í dag, er við hin erfiðustu skilyrði varð að bera efnivið allan yfir hraunhálsinn þaðan, sem bifreiðir komust lengst, og upp að Kaldárseli. Um miðjan júní var unnt að vígja skálann. Var þá í honum svefnsalur með 24 rúmum, auk þess lítið herbergi og eldhús. Síðar var hann stækkaður um helming, með því að byggð var fyrir vestan skálann álma til norðurs. Nú fyrir fjórum árum var enn hafizt handa um stækkun skálans, og eru vonir til, að henni verði nokkurn veginn lokið í sumar.
Skálinn var fyrst sameign félaganna í Reykjavík og Hafnarfirði, en eftir nokkur ár varð hann einkaeign kaldarsel-991Hafnarfjarðarfélagsins.
Fyrst framan af var skálinn mikið notaður í sambandi við útilegur um helgar. Snemma var farið að nota hann til dvalar flokka, og síðari árin hefur hann verið í látlausri notkun þrjá sumarmánuði. Skiptast K.F.U.M. og K.F.U.K. í Hafnarfirði á að nota skálann, og hafa drengjaflokkar heldur lengri tíma til umráða.
Aðsókn hefur undanfarin ár verið ákaflega góð að sumarstarfinu í Kaldárseli. Benedikt Arnkelsson, guðfræðingur, hefur veitt drengjastarf inu forstöðu mörg undanfarin sumur. Margar konur og stúlkur hafa skipzt á um að stjórna starfinu meðal stúlknanna.
Kaldárselsskálinn stendur í mikilli hraunbreiðu skammt frá Helgafelli. Þar er ákaflega mikil náttúrufegurð. Sérstaklega er kvöldfegurðin rómuð. Einkanlega þó síðari hluta sumars. Aðstaða er þarna mjög góð til útiveru og fjallgöngu. Margs konar náttúrufyrirbrigði er þarna að skoða, eins og yfirleitt er í brunalandi.”

Heimildir:
-Bjarmi, 61. árg. 1967, bls. 32.

Kaldársel

Kaldársel.

Helgafell

Gengið var frá Kaldárseli um Gvendarselsgíga, upp með Kastala og þaðan í Kaplatór (Minni-Dimmuborgir/Litluborgir), sem eru einstakt náttúrufyrirbæri.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í bakaleiðinni var komið við hjá Tröllunum á Valahnjúkum, í Músarhelli í Valabóli og í Kaldárbotnum.

Þetta svæði er einstaklega hentugt til gönguferða að vetrarlagi, tiltölulega greiðfært og fögur fjallasýn. Stutt er í áhugaverða skoðunarstaði og auðvelt að snúa við eða hagræða göngunni m.t.t. getu og tíma hvers og eins. Nægilegt er að kynna sér svæðið áður og stefna síðan á það sem áhugavert kann að þykja.

Valaból

Valaból að vetrarlagi.

Þessi ferð var gengin nálægt áramótum, skömmu eftir að sólin tekur að feta sig upp á við, en birtan við slík skilyrði er í rauninni engu lík. Því ætti áhugasamt fólk um útivist að nýta sér þessa miklu nálægð. Tilvalið er t.d. að leggja af stað síðdegis eftir vinnu, ganga frá Kadárseli og umhverfis Helgafell. Á leiðinni er fjölmargt að sjá. Þessi ganga þarf ekki að taka lengri tíma en t.d. 2 klst.

Í bakaleiðinni var komið við í Gvendarseli í Gvendarselshæð, kíkt á Gvendarselsgígaröðina og nyrsta gíg gígaraðar Ögmundarhrauns frá árinu 1151.

Þá er alltaf áhugavert að staldra við jarðmyndanir Kaldárhnúkanna í Kaldárbotnum.

Valahnúkar

Tröllin á Valanúk.

Kaldársel

Leitað var fjárhella í Kaldárseli, en gamlar sagnir eru til af hellum þessum norðan selsins. Þrátt fyrir mikla leit höfðu þeir ekki fundist, en þeir voru síðast notaðir árið 1908.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Hellarnir, 6 talsins, fundust á svæði utan gönguleiða. Um er að ræða mjög fallega fjárhella. Miðsvæðis er tóft utan um skúta. Eftir að fallið mosavaxið grjótið hafði verið fjarlægt frá opnum kom í ljós að enginn hafði komið þarna inn í allnokkurn tíma. Mold var á gólfi, en ekki eitt spor.
Í nyrsta fjárhellinum er hlaðinn garður í honum miðjum. Stærsti hellirinn er syðst. Gengið er niður í hann um hlaðinn gang og er þá komið inn í rúmgóðan sal með sléttu gólfi.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Önnur mannvirki tengd selstöðunni og búskap í Kaldárseli má sjá nálægt fjárhellunum, s.s. aðra eftirlifandi fjárborgina af tveimur upp á Borgarstandi, fjárhústóft norðan undir honum, gerði eða stekk við hana, nátthagann í Nátthaga og gömlu Kaldárselsgötuna klappaða í bergið.
Í Helgadal eru og minjar. Kaldárselið sjálft var sunnan við núverandi hús KFUMogK á norðurbakka Kaldár.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.
Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Helgadalur

Farið var með Þórarni Björnssyni, guð- og hellafræðingi, um hellasvæðið austan Kaldársels og Helgadals. Skoðaðir voru nokkir hellar og litið á hraunmyndamerkingar. Leitað var að hugsanlegu bæjarstæði fornbæjarins í Helgadal og liggja nú fyrir ákveðnar grunsemdir um hvar hann hafði staðið, en það er nokkuð frá því sem hingað til hefur verið álitið.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Þá voru allir Maríuhellarnir skoðaðir og haldið að Þorsteinshelli í Urriðavatnshrauni. Hleðslurnar niður um hellisgöngin tóku sig alveg sérstaklega vel út við þær aðstæður sem þessi snjóugi sunnudagur bauð upp á. Auk þess var slitið á fjárhellirinn nyrst í Norðurhellagjá og ennfremur skoðaður langur hellir norðvestan hans.
Sunnudagurinn skartaði fallegu veðri og hinu ágætasta til hellaskoðunar, því eins og svo oft áður lýsti snjórinn upp innviði hellana.

Þórarinn Björnsson

Þórarinn Björnsson.

Þórarinn er nú í Edinborg. Á aðfangadag sendi hann FERLIR eftirfarandi vefpóst:
Sæll Ómar og til hamingju með aldeilis frábæra heimasíðu Ferlis. Frétti fyrst af henni í gær og á örugglega eftir að fylgjast með ferlum ykkar í framtíðinni og vonandi taka þátt í fleiri ferðum með ykkur þegar ég kem heim til Íslands á ný. Við hjónakornin erum hér í Edinborg (síðan í sept) og verðum trúlega í eitt ár eða svo, konan í námi við Edinborgarháskóla í heimspeki en ég að vinna hjá KFUM meðal heimilislausra í Edinborg. Ég óska Ferlisfélögum alls hins besta í framtíðinni.

Kær kveðja:
-Þórarinn Björnsson, 39/12 Comely Bank, EH4 1AG Edinborg, Skotlandi.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Kaldársel

Farið var með Þórarni Björnssyni um Kaldársel, en hann er að vinna drög að bók um sögu staðarins. Þórarinn sýndi þátttakendum það sem hann hafði grafið upp um staðinn og FERLIRsfólk sýndi honum annað, s.s. Gvendarsel undir Gvendarselshæð, fjárhellana norðan við Borgarstand, Nátthagann í Nátthaga, Þorsteinshelli vestan Selgjár o.fl.

Kaldársel

Kaldársel – áletrun.

Þórarinn benti m.a. á letursteinana við Kaldá, en á nokkra þeirra eru klappaðar sálmatilvitnanir. Á einu er vísað í Davíðssálma þar sem segir að það tré, sem gróðursett er við lind og fær næga næringu, dafnar vel. Þetta mun hafa verið sett á steinana á 5. áratug 20. aldar af aðstandendum KFUMogK í Kaldárseli.
Kaðalhellir er þarna skammt norðvestar sem og Hreiðrið. Gamla gatan frá Kaldárseli til Hafnarfjarðar er mörkuð í klöppina á kafla sem og gamla gatan frá Kaldárseli til Krýsuvíkur.
Þetta var róleg ferð, en fróðleg. Nokkrir aðrir áhugasamir slógust í hópinn. Veður var frábært.

Kaldársel

Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldársel

Í maí 2000 var fimmti Ratleikur Hafnarfjarðar opinberaður. Pétur Sigurðsson, útivistarkempa, hefur verið driffjöður leiksins.

Ásfjall

Byrgi á Ásfjalli.

Leikurinn gengur út á að far á milli merktra staða á korti, fræðast um þá og reyna að finna númeruð spjöld, semþar eru með áletrunum. Áletrunina á síðan að skrá á kortið og skila því inn til Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Hafnarfirði með von um verðlaun. Að þessu sinni var athafnasvæðið Almenningur ofan Hrauna og svæðið milli Grísaness og Undirhlíða, þ.á.m. Kaldársel. Í Almenningum var lögð áhersla á selin, þ.e. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel, auk Óttarstaðafjárborgar og Gvendarbrunn við Alfaraleiðina.

Ás

Ástjörn og nágrenni – örnefni.

Haldið var í Kaldársel og týnd upp merki frá 11 til 18; Grísanes, Hamranes, Stórhöfði, Fremstihöfði og Kaldársel, en til baka var gengi um Bleikingsháls og Ásfjall.
Á og við Grísanes eru nokkrar tóftir frá Ási, s.s. fjárborg, rétt, beitarhús, sauðakofar og gerði, auk leifa frá stríðsárunum frá því að Bretinn hélt til á og við Ásfjallið. Yfir Ásfjallsöxlina lá gamla leiðin frá Ási áleiðis í Hrauntungur og upp Dalinn þar sem enn má sjá leifar fjárhellis í gróinni kvos. Inngangurinn var hlaðinn, en þak hellisins er að hluta til fallið niður. Gatan lá síðan áfram upp á Stórhöfðastíg eða upp í Kaldársel.

Ásfjall

Ásfjall – varða.

Í Hamranesi eru miklar grjótnámur og eiginlega sárgrætilegt að horfa uppá hvernig bæjaryfirvöld, og þá einkun námunefndin, hafa leyft meðferð á landinu. Efst á Hamranesinu var eitt merki ratleiksins (666BÍR).

Gengið var áfram suðaustur eftir Selhrauninu sunnan Hamraness. Þá er Hvaleyrarvatn á vinstri hönd. Þar má enn sjá móta fyrir tóftum Hvaleyrarsels og Ásels sunnan við vatnið, auk beitarhúss og stekks utan í vestanverðum Stórhöfða austan við vatnið. Á hægri hönd er hlaðinn stekkur frá selinu. Uppi á Selhöfða eru leifar tveggja fjárborga og utan í honum sunnanverðum eru tóft kofa eða gerðis.

Selhöfði

Fjárborg á Selhöfða.

Þegar upp á öxlina á Seldal var komið var stefnan tekin á Stórhöfða, sem Stórhöfðahraun er kennt við. Það e rmikið hraunflæmi sunnan og vestan við höfðann. Eitt merkið var norðan í honum, en vandlega falið. Annars er leiðinlegast við ratleikinn hversu sumt fólk finnst sig knúið til að fela merkin betur eftir að það hefur fundið þau sjálft. Þeir, þ.e.a.s. venjulegt fólk, sem á eftir koma, þurfa því að hafa vel þjálfaða leitarhunda sér til aðstoðar.
Gengið var yfir suðuröxlina á Seldalnum og áleiðis yfir á Fremstahöfða. Utan í honum suðaustanverðum er hálfhlaðið fjárhús, líklega frá Kaldárseli. Er eins og hætt hafi verið við húsagerðina í miðjum klíðum.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða.

Tínt var upp merki í klapparsprungu meðal burkna, í hvammi innan um lyng og birki, í gulvíði undir ljónslappa við hellisop og í hraunkanti. Hellirinn er svonefndi Kaðalhellir. Hann var nefndur svo af krökkunum í KFUMogK í Kaldárseli því aðstoða kaðals þarf til að komast upp í efri hluta hans. Farið var auk þess niðurí nerði hluta hellisins beggja vegna misgengis, sem þarna er, og er alveg þess virði að kíkja þangað niður. Í botni vestari hlutans er jökull, þ.e. klakinn bráðnar aldrei, og skapar hann skemmtilega birtu í hellinum.
Í Kaldárseli má m.a. sjá hvar gamla selið eða kotið (undir aldarmótin 1900) var sunnan við sumarbúðahúsið. Neðan þess, við Kaldá má sjá móta fyrir tóft, auk áletraðra hraunhellna frá fyrstu tíð stúkustrákanna sunnan við ána. Annars er Kaldáin merkilegt fyrirbrigði og í rauninni efni í aðra lýsingu.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Mikið misgengi gengur til austurs norðan Kaldársel. Hluti þess eru Smyrlabúðir miðja vegu að Búrfellsgjánni/Selgjánni. Norðan við Kaldardársel er Borgarstandur. Á honum voru áður tvær fjárborgir, en nú er einungis önnur eftir, þ.e. sú vestari. Hún er friðlýst. Hin, sú austari, hefur líklega verið tekin undir vatnsleiðsluna, sem þarna liggur m.a. yfir Lambagjá (mikil hleðsla).

Kaldársel

Kaldársel – fjárhús undir Borgarstandi.

Norðvestan undir Borgarstandi eru leifar fjárhúss og gerðis út frá því. Vestan við það lá gamla leiðin um Kaldársel. Sjá má hana klappaða í bergið á kafla skammt norðar. Enn norðar eru svo fjárhellarnir. Hlaðið er fyrir munnana og inni í einum þeirra er hlaðinn garður. Einnig er þarna tóft hlöðu. Þorsteinn Þorsteinsson hafði fé þarna um tíma sem og í Sauðahellinum syðri vestan Selgjár. Sömuleiðis Kristmundur Þorláksson frá Hafnarfirði, síðar Stakkavík, um tveggja eða þriggja vetra tímabil.

Ásfjall

Ásfjall – stríðsminjar.

Gengið var með höfðunum með viðkomu í nátthaga og helli og síðan áleiðis upp á Ásfjall um Vatnshlíð og Bláberjahrygg. Í Nátthaga norðvestan Kaldársels er hlaðinn nátthagi utan í háum hraunhól mót norðri. Vestan í Ásfjalli er hlaðið byrgi eftir Bretana. Einnig undir vörðunni, Dagmálavörðu, efst á fjallinu. Þá eru leifar byrgja vestar í fjallinu, en trúlega haf þeir notað þar gamla fjárborg því glögglega má sjá á handbragðinu hvort hleðslan hafi verið eftir Íslendinga eða Breta. Bretar virðast hafa hróflað upp görðum, líkt og á Flóðahjalla, en Íslendingar hlóðu þá jafnan vel og vandlega.
Af Ásfjalli er fagurt útsýni yfir höfðustað höfuðborgarsvæðisins.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

PS. Svo skemmtilega vildi til að einn FERLIRsfélaga vann til verðlauna eftir að dregið hafði verið í Ratleiknum. Fékk hann bakpoka að launum. FERLIR hefur eftir það ekki skilað inn lausnum í Ratleiknum – svo aðrir eigi þar betri möguleika.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni (samantekt Ómar Smára Ármannssonar – úr “Sögu Hafnarfjarðar”, handskrifuðum Minningum Sigurðar Þorleifssonar og handriti Gísla Sigurðssonar á Bókasafni Hafnarfjarðar).

Kaldárssel

Kaldárssel 1882 – ljósm: Daniel Bruun.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár. Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni. Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi og Kaldársel þar með.
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli.
Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.

Kaldársel

Teikning Daniel Bruun af Borgarstandi í Kaldárseli.

Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel. Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður, sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli – Daniel Bruun.

Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót. Hún var ein notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Uppdráttur af húsum í Kaldársseli í lok 19. aldar – Daniel Bruun.

Eins og sjá má á uppdrættinum er margt að skoða í nágrenni við Kaldársel. Vestan við Kaldá, fast við árbakkann, eru letursteinar frá upphafi veru KFUM og K á staðnum. Efst á Borgarstandi er fjárborgin og undir honum að norðanverðu eru tóttir gamals stekkjar og fjárhýsins. Enn norðar eru hleðslur í Nátthaganum. Austan hans eru fjárhellarnir og hleðslurnar í kringum op þeirra. Í einum hellanna er hlaðinn garður eftir honum miðjum.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Stærsti hellirinn er sá syðsti. Í honum er gott rými. Vatnsleiðslan gamla er austan Kaaldárselsvegar og er forvitnilegt að sjá hvar hún hefur komið yfirl Lambagjá, en í gjánni er mikil hleðsla undir hana. Sú hleðsla mun hafa að nokkru leiti hafa verið tekin úr austari fjárborginni á Borgarstandi. Í Gjám enn norðar eru hellar, hleðslur og hellisop. Austan við gamla veginn að Kaldárseli má enn sjá elstu götuna til og frá selinu, klappaða í bergið. Enn vestar, austan Fremstahöfða, er hálfhlaðið hús, líkt því sem sjá má á gömlum ljósmyndum Daniel Bruun frá 1892, að gamla selið í Kaldárseli hefur litið út.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Vífilsstaðasel

Sel í landi Garðabæjar (Úr bókinni “Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar”).

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar er m.a. fjallað um selin í Selgjá, Vífilstaðasel, Setbergssel, Kaldársel og Hraunsholtssel.
“Selgjá (Norðurhellragjá, Norðurhellnagjá, Norðurhellagjá) er í Urriðakotshrauni. Selgjárhellir er vestast í norðurbrún gjárinnar… ”….nokkuð breið gjá er í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli.
Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku”.
Seljabúskapur var að heita má algjörlega horfinn um aldamótin. Hér á landi hefur endanlegt hvarf seljabúskapar verið sett í samband við að fráfærur lögðust af enda voru það fyrst og fremst ær sem hafðar voru í seljum. Kýrnar skipti minna máli. Eyðing skóga hefur einng átt þátt í samdrætti seljabúskapar vegna þess að eldiviður var forsenda þess að hægt væri að hafa í seli (sjá Hitzler 1979).

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Búsmalinn var hafður í seli á sumrum frá fráfærum til tvímánaðar. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir ví nótt og dag. Smalinn átti að sjá um að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum til þess að það yrði mjaltað. Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús, selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum ef þau voru langt frá bæjum. Kvíar voru til að mjalta ærnar í og kofi handa kúm ef þær voru hafðar í selinu (Jónas Jónasson 1945: 60-62).

Selgjá

Sel í Selgjá.

Í Selgjá hafa talist 11 seljasamstæður sem allar eru byggðar upp við gjárbarmana, að minnsta kosti um tuttugu byrgi og 10 eða 11 litlar kvíar. Að því er virðist hefur verið erfitt um vatn í Norðurhellagjárseljum en vatn mun hafa verið sótt í Gjáaréttarvatnsgjá (Vatnsgjá).
Eftir gjánni liggur Norðurhellagjárstígurinn austur eftir gjánni. Þar í norðurbrún gjárinnar er steinn og á hann klappað B. Stígurinn liggur svo austur og upp úr gjánni sunan syðstu seljarústanna undir norðurbrún gjárinnar.

Urriðakotssystur gáfu upplýsingar um þetta, Vilborg og Guðbjörg, einnig eiginmaður Guðbjargar, Páll Kjartansson, en þau höfðu upplýsingar þessar frá föður Guðbjargar, Guðmundi Jónssyni, sem fæddur var og uppalinn í Urriðakoti og bjóð þar um 50 ára skeið.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Heiman frá Vífilstöðum lá Selstígurinn suður á Maríuflöt, suður með hraunjaðrinum, sneiddi sig upp Ljóskollulág, upp á háhálsinn og suður í lægðardragið þar sem Vífilstaðasel stóð. Nú er algengast að fylgja svokölluðum Línuvegi upp á Vífilstaðahlíð og þá blasa við rústir Vífilstaðasels með Selholt (Selshamar) að sunnan en Selás að norðan. Selkvíarnar eru uppi á Selásnum. Austan við Vífilstaðasel er lítill hóll, Selhóllinn. Gísli Sigurðsson hefur það eftir Sigrúnu Sigurðardóttir að gott hafi verið til beitar á sauðum niður um Grunnuvötn og suður á Hjallana.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Um selið segja Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson: “Suðaustanhallt í hvamminum og undir ás, er nefnist Selás, eru rústir af seli frá Vífilsstöðum, sem að öllum líkindum hefur verið meiri háttar og sennilega lengi notað. Rústirnar eru greinilegar miðað við margar aðar seljarústir, sem við höfum séð. Þetta virðist hafa verið venjulegt sel með þremur vistarverum (væntanlega svefnhús, eldhús, mjólkurhús). Sunnanvert við rústirnar eru tvær aðrar rústir (kvíar, stöðull?). Selið hefur verið tiltölulega stórt. Aðalrústin er þannig einir 50 m2 að utanmáli. Vífilsstaðasels er ekki getið í Jarðabók 1703”.
Guðrún P. Helgadóttir orti eftirfarandi um Sigrúnu Sigurðardóttur á Hofstöðum: “Hefur þú séð rústirnar – samgrónar landinu – sem mynda torfveggi – í hallandi brekku – og nefndar eru sel – Vífilsstaðasel.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í Kaldárseli var selstaða frá Görðum. Í Jarðabók Árna og Páls segir í lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott” (Jarðabók III:180). Ólafur Þorvaldsson hefur ritað um Kaldársel í minningum sínum (sjá Ólafur Þorvaldsson 1968:119-140). Byggð mun hafa verið stuttan tíma í Kaldárseli. Mikill skógur hefur verið á þessu svæði og var óspart á hann gengið, rifinn til kolagerðar og eldiviðar og ofan af honum slegið á vetrum til fóðurs. Búpeningur gekk þarna sumar og vetur og hellar hafðir til fjárgeymslu og skjóls fjármönnum. Hrískvöð var á öllum jörðum á Reykjanesi til Bessastaða og Viðeyjar.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Síðar var hrískvöðinni breytt í fiskakvöð. Um Kaldársel segir Þorvaldur Thoroddsen: “Við Kaldá var áður sel frá Hvaleyri, sem kallað var Kadársel, og þar eru víða í hraununum í kring rústir af mörgum fjárbyrgjum. Sumarið 1883 bjó þar gamall, sérvitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson (d:1887), sem áður hafði verið á Lækjarbotnum. Hann þekkti allvel fjöll og örnefni á þessum slóðum og fylgdi mér um nágrennið”.

Setbergssel

Setbergssel.

Hraunsholtssel var sunnan við Hádegishól Hraunsholts og einnig nefnt Hraunsholtshella. Selstígurinn lá sunnan við Brunann, fram hjá Hádegishól, að selinu (G.S.). G. Ben. sá enn votta fyrir selinu 1987. 16)
Setbergssel var í Ketshelli samkvæmt Jarðabók Árna og Páls. Gísli Sigurðsson, varðstjóri og útivistarfrömuður; lýsti mörgum leiðum í nágrenni við Hafnarfjörð. Í riti um Selvogsgötuna kemur hann m.a. við í tveimur seljum; “Í miðri brekkunni er landið grænna en annars staðar enda var hér í gamla daga Setbergssel eða Setbergsstekkur. Á hægri hönd er varða.

Setbergssel

Í Setbergsseli.

Gengið er niður að Setbergsseli. Komið er að helli, sem tilheyrði stekk þessum, það er að segja helmingur hans. Hinn helmingurinn tilheyrði Hamarskoti, og hét því Hamarskotssel. Hellirinn er hólfaður sundur í tvennt með allveglegum garði”.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hreiðrið

Haldið var að Kaldárseli. Hraunið, þar sem það er hæst, á milli vegarins með Sléttuhlíð og með Fremstahöfða, heitir Gjár. Vestarlega í því er Gjáahellir. Gengið var að honum. Opið er nokkuð rúmgott. Fyrir innan blasir við rúmgóð hraunrás. Hún lækkar svolítið eftir að komið er inn, en hækkar og vítkar síðan á ný, uns hún endar. Þessi hluti rásarinnar er um 15 metrar. Mold er í botninum og grjótið hefur verið lagað til innan við munnann. Líklegt er að hellir þessi hafi um tíma verið notaður sem fjárskjól. Tiltölulega stutt er í fjárhellana í Kaldárseli, en þeir eru þarna austan við. Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða er einnig þarna skammt suðvestar.

Kaldársel

Gerði í Gjánum ofan Kaldárssels.

Beðið var í nátthaganum norðan Kaldársels uns Þórarinn Björnsson, guð- og hellafræðingur, bættist í hópinn. Leiddi hann hópinn fyrst að náttúrulegum hraunkofa ofarlega á hraunhrygg norðvestan við Kaldársel. Kofinn er í rauninni toppurinn á lóðréttri hraunrás. Dyragat þess snýr á móti suðri, eins og góð dyragöt eiga að gera. Falleg náttúrusmíð.
Þá var haldið til vesturs að Kaðalhelli. Hann er í nokkuð stóru jarðfalli er hallar niður til norðvesturs. Þar uppi í bergveggnum er lág hraunrás, sem nefnd er þessu nafni. Krakkar á vegum KFUMogK í Kaldárseli höfðu þarna afdrep og nefndu hellinn. Kaðal þarf til að komast upp í rásina. Hún er 5-6 metra löng. Ef farið er með hraunveggnum til austurs er komið inn í rúmgóðan sal. Þar uppi er sylla og lág rás, fremur stutt. Ef hins vegar er farið vestur með hraunveggnum er komið inn í skúta. Úr honum liggja göng niður á við og síðan spölkorn inn undir hraunið. Neðst í honum er kristaltær ís, sem aldrei þiðnar fullkomlega. Myndast í honum regluleg og falleg ljósbrot.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Loks var haldið áfram til vesturs. Þar í miðri hraunbreiðunni er lítið gat, ca. 60 c, í þvermál, beint niður á við. Hrunið hefur þarna niður í hraunrás. Dýpið er um mannhæð. Þórarinn fann helli þennan á sínum tíma og nefndi hann Hreiðrið. Fleiri virðast ekki hafa komið þar niður ef marka má heilan mosann á börmunum og sporlausa moldina á botninum.
Rásin er alveg heil og liggur bæði til norðurs og suðurs. Norðurleiðin, um 15 metrar, er nokkuð þröng með mold á botni. Suðurleiðin er hins vegar eins og kona – góð á milli. Hún lækkar, en hækkar síðan aftur eftir u.þ.b. 10 metra. Botninn er grófur sem og barmarnir. Rauðleitt grjótið er hrjúft og því þörf að vera með bæði vettlinga og hnjáhlífar.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Þegar komið er vel innfyrir birtist gildi hellisins. Á steinum, í lofti og á víðar má sjá mikið af misstórum gasbólum, nokkurs konar eggjum. Bólurnar eru gráleitar og virðast hafa sprottið út úr berginu. Fyrirbæri þetta má sjá í öðrum hellum, en varla í þessum mæli á einum stað. Hægt væri að skríða innar því hraunið virðist vera lagskipt. Botninn er hins vegar mjög grófur. Ætla má að Hreiðrið geti verið um 100 metrar. Hellirinn er vandfundinn. Tekinn var punktur á hann til öryggis.
Þegar út var komið blasti við stjörnubjartur himininn, norðurljós og sindrandi máninn yfir Helgafelli. Blankalogn. Fegurra getur það varla orðið.

Hreiðrið

Jarðmyndanir í Hreiðrinu.