Hafnarfjörður

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1951 segir svo um lönd Akurgerðis og Garða:
Akurgerdi 221“Akurgerði hjet jörð inst í Hafnarfirði og var hún eign Garðakirkju. Árið 1677 var hún tekin handa kaupmönnum, en Garðakirkja látin fá í staðinn 1/2 Rauðkollsstaði í Hnappadalssýslu, en vegna fjarlægðar varð kirkjan að selja þá jörð. Akurgerðisland eyddist smám saman af sjávargangi, og segir sjera Árni Helgason í sóknarlýsingu um 1840: ,,Enginn veit nú hve mikið land Akurgerði fylgdi, það hefur dankað svona, að kaupmenn sem eiga Akurgerði, eigna sjer ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamarskotslæk, og prestar í Görðum hafa ei ákært.” Eftir þessu að dæma virðist hann hafa álitið að kaupmenn hafi sölsað undir sig meira land en þeim bar, jafnharðan og Akurgerðisland eyddist.
Kirkjuland heitir fyrir ofan bygðina, frá Elliðavatns og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi, og upp undir fjöllin. Þar áttu Garðar selstöðu og þar var haft í seli fram um 1832. Um 1840 var sett þar rjett fyrir Garðahrepp, hin svonefnda Gjáarrjett, sem enn stendur.
Garðakirkja átti um miðja fyrri öld alt Garðahverfi og auk þess þessi býli: Hamarskot, Vífilsstaði, Hraunsholt og Selskarð. Hamarskotsland fekk Hafnarfjarðarkaupstaður keypt árið 1913, samkvæmt lagaheimild.
gardar-999Skúli Magnússon segir í sýslulýsingu sinni að þá sje 32 býli í Garðakirkjusókn, þar af voru 11 konungseign, 19 eign Garðakirkju og aðeins 2 bændaeign… Syðsta býlið í sókninni var Lónakot, en það hafði eyðst af sjávargangi 1776. Gekk þá sjór yfir túnið, reif upp allan grassvörð, fylti bæjarhúsin og vörina með grjóti og möl. Sjera Árni Helgason segir að þau munnmæli gangi að út af þessu hafi bóndinn þar orðið svo sturlaður að hann hafi fyrirfarið sjer, og síðan hafi enginn þorað að búa þar. En Skúli Magnússon segir að margar skoðunargerðir hafi farið fram á jörðinni, og þar sje hvergi 30 ferálna stór blettur, sem hægt sje að gera að túni. Þó var bygð tekin upp aftur í Lónakoti um 1840.
Árið 1781 eru áhöld um fólksfjölda í Garðasókn og Reykjavík. Þá eru taldir 385 íbúar í Garðasókn en 394 í Reykjavík. En talsverður munur virðist hafa verið á lífskjörum manna í þessum tveim ur sóknum, hvað þau hafa verið betri í Garðasókn. Þar var þá 41 bóndi, 14 hjáleigumenn og 34 þurra búðarmenn. En í Reykjavíkursókn voru 8 bændur, 24 hjáleigubændur og 59 þurrabúðarmenn. Kvikfjáreign þessara manna var samtals (tölurnar fyrir Reykjavík í svig um): kýr 112 (69), kvígur 5 (1), naut 2 (1), kálfar 3 (2), ær 200 (20), sauðir 116 (9), hross 146 (106).
Samkvæmt þessu eru rúmlega 3 Skerseyri-221menn um hverja kú í Garðasókn, en 5 1/2 um hverja kú í Reykjavík. Í Garðasókn eru tæplega tveir um hverja á, en nær 20 í Reykjavík. Og þegar þess er nú gætt, að þá var altaf fært frá, sjest best hvað viðurværi hefur verið betra í Garðasókn vegna þess að þeir höfðu miklu meiri mjólk en Reykvíkingar. Og svo eiga þeir í Garðasókn sauði til frálags, en Reykvíkingar sama sem sauðlausir.
“Vestast á hraunbrúninni í Garðahverfi stendur Bali, þá kemur Hraunhvammur, austar er Skerseyri, þá Brúsastaðir, en síðan Eyrarhraun. Þar næst koma Langeyrarmalir… Í kring um húsin er sléttur malarbás undir hraunbrúninni. Litlu austar er Langeyri… en síðan tekur við samfelld byggð kaupstaðarins allt frá Fiskakletti og suður undir Flensborg.”
Það er ekki nema svo sem fjögurra rasta vegur frá Hamarskotslæk út að Görðum, og Hafnarfjarðarbær hefur nú teygt sig hálfa leiðina. Vegurinn liggur út með ströndinni. Út á móts við Skerseyri liggur vegurinn yfir djúpa gjá eða hraunhvos og er þar hátt ofan af honum til beggja handa. Niðri í gjótunni liggja stórir steyptir steinar, þrístrendir og toppmyndaðir og líklega um metra á hæð. Steina þessa ljet herstjórnin steypa hjer á árunum og raðaði þeim á veginn. Var ætlunin að þvergirða veginn með þeim, ef til bardaga kæmi á landi. Eftir að herinn var farinn var þessum ferlíkjum velt ofan í gjótuna, en þeir eru, ásamt svo fjölda mörgu óðru, talandi tákn um það, að hernámsliðið bjóst við því í alvöru, að Þjóðverjar mundu gera innrás hjer.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1951, bls. 585-591.
-Vikan, 7. árg. 1944, 5. tbl., bls. 3.

Garðar

Garðar.