Færslur

Vífilsstaðasel

Gengið var upp Vífilstaðahlíð eftir línuveginum. Eftir að hafa skoðað selið, sem er austan við veginn, var litið á hlaðinn stekk upp á klapparholti norðan við það. Stekkurinn er dæmigerður fyrir slíkt selsmannvirki, tvískiptur.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Tóftir selsins hvíla í kvos, í skjóli fyrir austanáttinni. Einnig dæmigerð fyrir sel á Reykjanesskaganum. Þá var haldið niður að Grunnuvötnum syðri og auga haft með hugsanlegum tóttum nálægt vötnunum, en engar slíkar fundust að þessu sinni. Gengið var áfram til austurs á brattann og nú stefnt á Vatnsendaborg efst á Hjöllum með viðkomu í Arnarsetri, vörðu á vestanverðum hálsinum þar sem sést yfir Grunnuvötn. Þaðan er einnig ágæt fjallasýn í góðu skyggni og kjörinn áningastaður eftir göngu um hjallana. Ef gengið er þaðan niður með Grunnuvötnum nyrðri er komið niður á stíg er liggur niður að Vífilsstaðavatni.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Borgin er rétt innan við landamerki Vatnsenda, en á Hjallabrúninni skammt vestan við borgina er fótur af gamalli landamerkjavörðu Vífilsstaða og Vatnsenda. Frá henni sést vel í Kolhól, en á honum er landamerkjahorn.

Gengið var niður Hjallana og til suðurs að Löngubrekku. Henni var síðan fylgt til vesturs að Garðaflötum þar sem skoðaðar voru nýfundnar tóttir.
Gengið var um Búrfellsgjá að Gerðinu vestan Gjáarréttar og það skoðað. Hleðslur í skúta inn undir Gerðinu virðast hafa haldið sér nokkuð vel, en rúmlega 60 ár eru síðan síðast var réttað í gjánni.

Gjáarrétt

Gjáarrétt í Búrfellsgjá.

Haldið var í gegnum Gjáarréttina að Vatnsgjánni og litið ofan í það gamla vatnsstæði áður en gengið var vestur norðanverða Selgjá og aftur að upphafsreit.
Gangan tók um 3 og ½ klst í hinu besta verði – logn og blíða.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Búrfellsgjá

Gengið var í Búrfellsgjá, að Vatnsgjá og Gjáarrétt.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Upplýsingaskilti er við göngustíginn að gjánni þar sem getið er um aldur réttarinnar, hvenær síðast var réttað í henni, helstu leiðir frá henni o.fl. Hraunréttin í Gráhelluhrauni tók við að Gáarrétt, en sú rétt er nú horfin. Gjáarétt var endurhlaðin, en er nú aftur farin að láta á sjá. Norðaustan í gjárbarminum má sjá skágötu upp úr gjánni. Þar er gamla gatan að Vatnsenda og Elliðavatni. Þá liggur gata upp úr gjánni að norðanverðu áleiðis til Vífilsstaða og Urriðakots og áfram áleiðis út á Álftanes (Görðum). Sunnan réttarinnar er Gerðið. Innst í því er hlaðið heillegt skjól fyrir fyrrum gangnamenn.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Haldið var upp Vífilstaðahlíð og að Vífilsstaðaseli. A tóftum að dæma hefur selið verið nokkuð stórt á Reykjanesvískan mælikvarða. Stekkur er á klapparholti norðan tóftanna. Gengið var norðvestur eftir Vífilstaðahlíðinni, að skotbyrgi frá stríðsárunum þar nyrst utan í öxlinni. Skammt frá er Gunnhildarvarða (Gunhill) eða Grímsvarða, sem og hún var nefnd fyrrum. Sagt er frá hvorutveggja í Örnefnalýsingu Garðabæjar. Gengið var upp Svarthamar og yfir að Hjöllum, eitt af hinum miklu misgengjum á Reykjanesskaganum, þar sem Vatnsendaborgin stendur hvar hæst með ágætu útsýni yfir Heiðmörkina og niður að Elliðavatni.

Selgjá

Selgjá – tóftir.

Frá Vatnsendaborginni var gengið framhjá Grunnuvötnum syðri og vestur með Hjöllunum, yfir í Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru tóftir allt að 11 selja frá Görðum á Álftanesi. Nyrst í gjánni er Norðurhellragjárhellir, fjárskjól. Vestan hans er fallega hlaðið op ofan við fjárskjól Þorsteinshellis eða Efri-hella. Vestan hans er enn eitt fjárskjólið.
Gengið var til austurs yfir hraunið, að gamalli fjárborg í Heiðmörkinni. Enn sést móta fyrir hringlaga borginni í hrauninu, en nokkur gróður er bæði í henni og við hana. Þá hefur grjót verið tekið úr borginni í hlaðinn hús suðvestan við hana. Erfitt er að koma auga á mannvirkin vegna þess hversu vel þau falla inn í landslagið.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Gengið var yfir veginn og að sauðahelli Urriðakotsmanna skammt frá göngustígnum undir Vífilstaðahlíð. Hlaðið er framan við skútann. Þá var strikið tekið áleiðis yfir að Seljahlíð með viðkomu í hlöðnu útihúsi í Urriðakotshrauni skammt austan við golfvöllin og við hlaðið aðhald norðvestan undir kletti þar skammt suðaustar. Haldið var vestur um Þverhlíð niður að Lækjarbotnum þar sem gangan endaði.
Góð þversogkrussganga um fallegt og minjaríkt landslag.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 21 mín.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Vífilsstaðasel

Gengið var upp á Víkurholt frá sauðahelli undir Kolanefi, um Ljóskollulág og Vífilsstaðasel, niður að Grunnavatni syðra, upp á Þverhjalla að Vatnsendaborg, niður að Hnífhól og að Gjárétt í Búrfellsgjá með viðkomu á Garðaflötum.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Í Urriðakoti og nágrannabæjunum þar, sem sauðfjáreign var umtalsverð, byggðist sá búskapur mjög á útibeit. Voru þá höfð fjárhús ýmist heima við bæ eða beitarhús frá bæ þar, sem útibeit þótti góð. Sauðaeign var einnig veigamikill liður í fjárbúskap í þá tíð, en sauðir voru jafnan látnir ganga nær sjálfala úti árið um kring. Jón Guðmundsson á Setbergi (1824-1909), faðir Sigurbjargar í Urriðakoti og systir langömmu eins þátttakendans, var einn mesti fjárbóndi, sem sögur fara af hér um slóðir. Hann átti og fleiri sauði en allir aðrir. Í æviþætti af honum segir: “Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar.” Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum.

Urriðahraun

Urriðahraun – fjárbyrgi.

Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða.
Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflötina, sem nú er til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum. Áður hafði Guðmundur vanið sauði síns við veglegra fjárbyrgi, sem er skammt sunnan línuvegarins í hrauninu.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Guðmundur í Urriðakoti var með afbrigðum léttstígur og klæðaburður mannsins þótti sérstakur. “Þótt snjór væri eða bleyta var hann alltaf á kúskinnsskóm og án yfirhafnar hvernig sem viðraði. “
Gengið var skáhallt upp Ljóskollulág og upp á Víkurholtið. Þaðan er gott útsýni yfir Grunnuvötnin og Hjallana. Í gróinni lægð í holtinu hvíla tóftir Vífilsstaðasels. Stekkur er uppi á holtinu norðan þeirra.
Gengið var niður að Grunnuvötnum syðri, með þeim og áfram upp á Þverhjalla þar sem staðnæmst var við Vatnsendaborgina. Niður við Grunnuvötn sást risaspor í snjónum. Sporið var um 60 cm langt, en annars teljast spor eftir risa vart til tíðinda í FERLIRsferðum því svo víða búa þau á Reykjanesinu.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Skammt sunnan við Vatnsendaborgina er varða á brúninni. Hún er í beina stefnu í Arnarbælissvörðuna og Hnífhól, sem eru landamerki Garðabæjar og Kópavogs (Vífilsstaða/Garðabæjar hins forna og Vatnsenda). Borgin sjálf er heilleg að hluta.
Gengið var niður Hjallamisgengið, sem er merkilegt jarðfræðifyrirbæri, áleiðis yfir að Hnífhól.
Hjallamisgengið er hæst um 65 metra hátt og um 5 kílómetra langt. Það er hluti af mörgum misgengisþrepum sem liggja hvert upp af öðru. Brúnin myndar nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Þessi brot hafa myndast bæði áður og eftir að Búrfellshraunið rann. Hreyfingar eru stöðugt á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2,8 millimetrar á ári.
Regnboginn breiddi úr sér yfir Hjallamisgenginu. Framundan blasti Búrfellið við. Úr eldvarpinu rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Þrátt fyrir samheitið Búrfellshraun, bera margir hlutar þess sín eigin nöfn, s.s. Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðahraun. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar.

Garðaflatir

Garðaflatir – tóft.

Margir ganga gjarnan upp eftir hrauntröðinni innan girðingar Heiðmerkur, Búrfellsgjá (u.þ.b. 3,5 km) og Lambagjá. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einungis einu sinni. Það var flæðigos. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára. Búrfellsgjáin sjálf er 3,5 km hrauntröð.
Komið var við á Garðaflötum. Norðaustan við flatirnar eru tóftir. Nú sást vel stór tóft norðan við syðstu tóftina. Út frá henni liggur garður til vesturs. Allar eru tóftirnar orðnar jarðlægar og því sennilega mjög komnar við aldur, en þeirra er ekki getið í örnefnalýsingum.

Búrfellsgjá

Í Búrfellsgjá.

Gengið var að Búrfellsgjá. Þar er Gjárétt, stundum nefnd Gjáarrétt. Hún var hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Rétt er ekki nefnd svo vegna þess að hún er rétt hjá. Þar var fé réttað, þ.e. því skipt réttilega milli löglegra eigenda miðað við rétt tilkall þeirra til fjárins skv. réttum mörkum (eða svip. Fjárglöggir bændur þekktu vel hverjum hvaða á tilheyrði, enda hver þeirra með ólíkt útlit líkt og mannfólkið. Sauðir líktust t.d. oftlega eigendum sínum).
Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi kletaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt. Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson).

Gjárrétt

Gjárrétt í Búrfellsgjá.

Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: “Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.” Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt.

Gjáarrétt

Gjárrétt – teikning.

Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964. Hraunréttinina dunduðu Hafnfirðingarnir hins vegar við að færa smám saman á kerrum sínum í bæinn og hlóðu úr henni garða og mishleðslur hingað og þangað. Nú stendur ekki einn einasti steinn eftir í þeirri gömlu rétt.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.gustarar.is/gustur
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.