Búrfellsgjá

Gengið var í Búrfellsgjá, að Vatnsgjá og Gjáarrétt.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Upplýsingaskilti er við göngustíginn að gjánni þar sem getið er um aldur réttarinnar, hvenær síðast var réttað í henni, helstu leiðir frá henni o.fl. Hraunréttin í Gráhelluhrauni tók við að Gáarrétt, en sú rétt er nú horfin. Gjáarétt var endurhlaðin, en er nú aftur farin að láta á sjá. Norðaustan í gjárbarminum má sjá skágötu upp úr gjánni. Þar er gamla gatan að Vatnsenda og Elliðavatni. Þá liggur gata upp úr gjánni að norðanverðu áleiðis til Vífilsstaða og Urriðakots og áfram áleiðis út á Álftanes (Görðum). Sunnan réttarinnar er Gerðið. Innst í því er hlaðið heillegt skjól fyrir fyrrum gangnamenn.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Haldið var upp Vífilstaðahlíð og að Vífilsstaðaseli. A tóftum að dæma hefur selið verið nokkuð stórt á Reykjanesvískan mælikvarða. Stekkur er á klapparholti norðan tóftanna. Gengið var norðvestur eftir Vífilstaðahlíðinni, að skotbyrgi frá stríðsárunum þar nyrst utan í öxlinni. Skammt frá er Gunnhildarvarða (Gunhill) eða Grímsvarða, sem og hún var nefnd fyrrum. Sagt er frá hvorutveggja í Örnefnalýsingu Garðabæjar. Gengið var upp Svarthamar og yfir að Hjöllum, eitt af hinum miklu misgengjum á Reykjanesskaganum, þar sem Vatnsendaborgin stendur hvar hæst með ágætu útsýni yfir Heiðmörkina og niður að Elliðavatni.

Selgjá

Selgjá – tóftir.

Frá Vatnsendaborginni var gengið framhjá Grunnuvötnum syðri og vestur með Hjöllunum, yfir í Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru tóftir allt að 11 selja frá Görðum á Álftanesi. Nyrst í gjánni er Norðurhellragjárhellir, fjárskjól. Vestan hans er fallega hlaðið op ofan við fjárskjól Þorsteinshellis eða Efri-hella. Vestan hans er enn eitt fjárskjólið.
Gengið var til austurs yfir hraunið, að gamalli fjárborg í Heiðmörkinni. Enn sést móta fyrir hringlaga borginni í hrauninu, en nokkur gróður er bæði í henni og við hana. Þá hefur grjót verið tekið úr borginni í hlaðinn hús suðvestan við hana. Erfitt er að koma auga á mannvirkin vegna þess hversu vel þau falla inn í landslagið.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Gengið var yfir veginn og að sauðahelli Urriðakotsmanna skammt frá göngustígnum undir Vífilstaðahlíð. Hlaðið er framan við skútann. Þá var strikið tekið áleiðis yfir að Seljahlíð með viðkomu í hlöðnu útihúsi í Urriðakotshrauni skammt austan við golfvöllin og við hlaðið aðhald norðvestan undir kletti þar skammt suðaustar. Haldið var vestur um Þverhlíð niður að Lækjarbotnum þar sem gangan endaði.
Góð þversogkrussganga um fallegt og minjaríkt landslag.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 21 mín.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.