Sigurður Björnsson skrifaði um “Garðabæ” í Félagsrit eldri borgara árið 2007:
“Garðabær er hluti af Álftaneshreppi hinum forna, sem fyrst var skipt árið 1878 í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Síðar var Hafnarfjörður skilinn frá Garðahreppi og fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Þessi sveitarfélög heita nú Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður og Sveitarfélagið Álftanes.
Umhverfi og ásýnd Garðabæjar mótast að verulegu leyti af hrauninu, sem brann fyrir um það bil 7200 árum og rúmlega 3000 árum eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Hraun þetta rann frá eldvarpinu Búrfelli, sem er suðvestan Heiðmerkur, 7,2 km í suðaustur frá Garðatorgi og 2,5 km norðaustur frá Helgafelli, sem er móbergsfjall myndað í eldgosi undir jökli á síðustu ísöld. Búrfellshraunið heitir ýmsum nöfnum eftir því hvar menn eru staddir hverju sinni, svo sem Smyrlabúðarhraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Garðahraun og Gálgahraun.
Hluti Búrfellshrauns rann einnig vestar og heitir þar ýmsum nöfnum, sem ekki verða rakin hér, nema hvað Hafnarfjarðarhraunið er hluti þess. Hér er því hvorki skortur á hraunum né örnefnum. Tómas Guðmundsson skáld komst snilldarlega að orði þegar hann sagði í kvæði sínu, Fjallganga: „Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt.”
Mér er ætlað að rekja hér örnefni og greina frá kennileitum í Garðabæ frá fjöru og fram til fjalla. í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar eftir Guðlaug Rúnar Guðmundsson er örnefnaskrá á 78 blaðsíðum svo ljóst má vera, að hér verður aðeins stiklað á stóru í stuttri grein. í þeirri bók geta þeir, sem áhuga hafa, aflað sér nánari fróðleiks um Garðabæ og örnefni þar.
Mörk Garðabæjar og Álftaness liggja um tvær tjarnir, Lambhúsatjörn og Skógtjörn. Eiðin, sem áður skildu þessar tjarnir frá sjó, eru nú horfin í hafið, þannig að þær eru raunar báðar orðnar að vogum. Afrennsli frá Skógtjörn var til suðurs um Oddakotsós við miðbik tjarnarinnar og lágu hreppamörkin um ósinn. Vestan óssins var Hliðsnesið í Bessastaðahreppi með samnefndum bæ, og lá nesið til suðurs frá Álftanesinu. Hafið rauf eiðið norðan bæjarins og stóð hann þá á eyju, erfiðara varð um aðföng og róa þurfti með börnin á báti til þess að þau kæmust í Bjarnastaðaskóla.
Fyrstu jarðýturnar í eigu íslendinga komu til landsins 1942 og eina þeirra, e.t.v. þá fyrstu, áttu bræðurnir Eyþór og Gunnar Stefánssynir frá Eyvindarstöðum á Álftanesi. Þeir voru fengnir með ýtuna til þess ýta upp í gamla ósinn og koma Hliðsnesinu í vegasamband inn í Garðahrepp.
Bæjamörkin liggja hins vegar óbreytt, þar sem áður var ósinn suður úr Skógtjörninni. Hér er land allt hægt og sígandi að hverfa í hafið eins og sjá má af því, að bæði á botnum tjarnanna og úti fyrir ströndinni suður af Garðaholti og umhverfis Álftanes eru víða myndarlegir móhleifar, en mór myndast af gróðurleifum í mýrum inni á landi en aldrei í söltu vatni, enda engar gróðurlendur þar. Á báðum þessum tjörnum er fjölskrúðugt fuglalíf, einkum vor og haust, þegar norðlægir farfuglar hafa þar viðkomu og er margæsin þar áberandi. Á eiðinu milli Lambhúsatjarnar og Skógtjarnar, hægra megin við veginn þegar ekið er út á Álftanes, er lágur hóll með tóftarbroti. Þarna stóð bærinn Selskarð. Sunnan við Selskarð og austur af Skógtjörninni, vestan Álftanesvegar, heitir Álamýri.
Suð-austur frá Skógtjörn rís Garðaholtið. Vestan í holtinu standa Garðar, höfuðból og kirkjustaður frá fornu fari. Garðakirkja var aflögð árið 1914 og um miðja öldina var svo komið að aðeins stóðu eftir grjótveggirnir opnir fyrir veðri og vindum, gluggalausir og þaklausir. Til tals kom að brjóta veggina niður og nota í hafnargarð við Hafnarfjarðarhöfn. Því menningarslysi var þó forðað, sem betur fer, fyrir atbeina nokkurra góðra manna og þó einkum vegna atorku kvennanna í nýstofnuðu Kvenfélagi Garðahrepps, og fórnfúsra starfa þeirra. Þær endurreistu Garðakirkju og var hún vígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966.
Sunnan og vestan í Garðaholtinu er Garðahverfið. Þarna voru 25 býli og þurrabúðir árið 1868. Mörg þessi býli standa þar enn.
Nyrst i Garðahverfinu, niður undir Skógtjörn, eru Hausastaðir. Þar er minnisvarði um einn fyrsta vísi að reglulegu skólahaldi fyrir börn og unglinga hér á landi. Þessi skóli var starfræktur á vegum Thorkillisjóðsins árin 1791-1812, en sjóður sá varð til samkvæmt ákvæði í arfleiðslubréfi Jóns Þorkelssonar fyrrum skólameistara í Skálholti og átti hann að standa straum af skólahaldi fyrir fátækustu og mest þurfandi börn í Kjalarnesþingi.
Skammt suðaustur frá Garðakirkju stendur félagsheimilið Garðaholt, sem upphaflega var reist árin 1908-11 sem skóli og þinghús hreppsins.
Aukið hefur verið við húsið nokkrum sinnum og hefur það í mörg ár þjónað sem samkomuhús bæjarins. Kvenfélagið sér um rekstur Garðaholts. Örskammt til vesturs frá Garðaholti, neðan við veginn til Hafnarfjarðar, stendir býlið Krókur, sem Garðabær á nú og rekur þar byggðasafn. Fyrri eigendur gáfu bænum húsin ásamt öllu innbúi. Efst á Garðaholtinu er fagur og mikill skógarreitur. Holtið var áður autt, grýtt og gróðurvana, því þarna næða norðanvindar. Árið 1955 fékk Sigurður Þorkelsson, skipasmiður, þarna land á leigu, girti það og hóf uppgræðslu og trjáplöntun. Hann byggði sér bústað ásamt konu sinni, Kristínu Gestsdóttur, sem nú er nýlátin. Þennan stað gerðu þau að þeim unaðsreit, sem þar er orðinn, og nefndu hann Grænagarð.
Á Garðaholti er hringsjá, sem Rótarýklúbburinn í Görðum lét gera. Sigurður Björnsson, verkfræðingur, sá er ritar þessa grein, mældi á holtinu og hannaði hringsjána. Hún sýnir fjallahringinn, hæðir fjallanna og fjarlægðir frá Garðaholtinu. Á skífunni er sólúr.
Nyrst í Garðahrauni, skammt frá Lambhúsatjörn, er hraungúll, sem klofnað hefur og myndar tvo kletta eða þrjá. Klettana notaði Bessastaðavaldið sem aftökustað þeirra ógæfumanna, sem þeir töldu dauðaseka að þeirra tíma reglum og lagabókstaf. Klettarnir nefndust Gálgaklettar eða Gálgaklofningar og hraunið Gálgahraun.
Austan Gálgahrauns er Arnarnesvogur. Nyrsta spýja Garðahraunsins skagar í mjóum tanga út milli Arnarnesvogar og Lambhúsatjarnar og heitir þar Eskines.
Suður frá Arnarnesvogi rís Hraunsholtið og austan þess rennur Hraunsholtslækur til sjávar. Hann á upptök sín í Vífilsstaðavatni og nefnist efri hluti hans Vífilsstaðalækur. Lækurinn rennur með hraunjaðrinum sunnan við Flatahverfið. Úti í hrauninu er stakur hóll er nefnist Hádegishóll, eyktamark frá bænum Hraunsholti, og er á bæjamörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar.”
Heimild:
-Félagsrit eldri borgara, 2. tbl. 12. árg. 2007. “Listin að lifa” – 2. tölublað (01.06.2007), Sigurður Björnsson, verkfraðingur, Gengið um Garðabæ, bls. 44-45.