Færslur

Hafnarfjörður

Gísli Sigurðsson skrifaði grein í Fjarðarfréttir árið 1969 undir fyrirsögninni “Á fornum slóðum“:

“Eftir að Gvendur góði hafði um árabil verið barinn til bókarinnar, gerðist hann prestur. Hann gerðist andheitari öðrum kennimönnum og ölmusubetri, svo að fáir fóru tómhentir af hans fundi. Hann fór víða um land og vígði björg og vöð, sem hættuleg höfðu verið mönnum. Hann vígði og brunna, svo að hverjum þeim, er úr drakk, varð það að heilsulind og til margs konar blessunar. Enda þótt Gvendur væri Norðlendingur, kom hann ekki svo lítið við hér á Suður- og Inn-Nesjum og vígði hér fleiri brunna en víða annars staðar.
Skulu þeir nú taldir:

Gvendarbrunnur í Vogum

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

Sunnan byggðar í Vogum er tjörn lítil og norðan hennar er einn þessara brunna. Hann var um aldabil heilsulind mönnum og skepnum. Má vera að svo sé enn.

Gvendarbrunnur í Hraunum
Gvendarbrunnur í Hraunum er rétt við gamla alfaraveginn. Hann er þar í klöpp undir Gvendarbrunnshæð. Fer ekki mikið fyrir honum, en margur mun á ferð sinni eftir þeim gamla vegi hafa þáð þar svaladrykk. Ekki er vatnið gott á bragðið, svo að mér varð að orði, er ég drakk úr honum fyrir nokkrum árum, það sama og kerlingin sagði: „Beiskur ertu, drottinn minn.“

Gvendarbrunnur í Arnarnesi

Arnarnes

Arnarnes – Gvendarbrunnur.

Norðan í Arnarnesi vestanverðu, rétt spölkorn neðan gömlu alfaraleiðarinnar, er lind lítil og rennur úr henni lækur til sjávar. Upp frá honum liggur stígur, sem svo hefur verið fáfarinn um síðustu aldir, að hann er mosagróinn. En vatnið er gott og heilnæmt.

Gvendarbrunnar í Rauðhólum
Þar höfum við fjórða brunninn, sem Gvendur góði vígði. Frá honum streymir nú það lífsins vatn, sem nær allri Stór-Reykjavík er af brynnt daglega. Eiga fáar höfuðborgir jafn gott vatn íbúum sínum.
Af þessu má sjá, að Gvendur hinn góði var á undan sinni samtíð, því með vígslu staða, eins og þessara brunna, hefur hann bent okkur á hve nauðsynlegt það er, okkur mannanna börnum, að ganga með virðingu um náttúruna og vernda hana, þar sem því verður við komið, gegn allri óhelgi.
Alls staðar kringum okkur eru staðir, minni og stærri, sem okkur ber að ganga um með virðingu og beita getu okkar stöðum þessum til verndar, helga þá með virðulegri umgengni. Hér í Hafnarfirði og nágrenni er margt slíkra staða:

Varðan við Vörðustíg

Hafnarfjörður

Varða við Vörðustíg.

1887 var samningur gerður um land Akurgerðis. Landið var merkt vörðum. Nú er þessi varða ein uppistandandi af þeim. Vörðu þessa ber okkur því að vernda.
[Ákjósanlegast er að ganga að vörðunni um stíg frá Merkurgötu.]

Arnarklettarnir tveir
Við Arnarhraun eru klettar tveir með þessu nafni. Hér hefur rétt verið stefnt, því þeir eru nú verndaðir og eiga að standa eins og þeir eru.

Hellisgerði
Gerðið við Fjarðarhelli var tekið í vernd ágætis félagsskapar, félagsins Magna. Þar átti að vernda svipmót Hafnarfjarðarhrauns. Nú er staður þessi verndaður með því að þar er upp risinn einn hinn sérkennilegasti og fegursti garður á landi hér.

Fagrihvammur

Hafnarfjörður

Fagrihvammur ofan Brúsastaða. Loftmynd 1954.

Hvammur vestur í hrauni, ofan Brúsastaða, hefur, að því er ég bezt veit, verið skráður sem einn þeirra staða, er verndaður verður til framtíðar, að hann haldi og beri svipmót hraunsins.

Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn.

Hún hefur nú verið skráð verndarsvæði og um eitt hundrað metra landspilda allt um kring tjörnina. Var þessa þörf, þar sem við tjörnina er einn gróðursælasti staður hér nærlendis, með fjölbreyttari gróðri en annars staðar er að finna. Og þar verpir í sefinu
flórgoðinn, sérkennilegur fugl.

Bæjarrústir í Setbergstúni
Ofanvert við heyhlöðu á Setbergi eru rústir gamla Setbergsbæjarins. Það er trúa mín, að þar sé að finna allar þær gerðir bæja, sem tíðkazt hafa á landi hér frá landnámstíð fram til síðustu aldamóta. Þessar rústir ber að varðveita, þar til hægt er að grafa þær upp af vísindalegri nákvæmni.

Setbergssel

Setbergssel.

Þá eru ekki selja-rústirnar fáar í nágrenninu, sem vernda ber. Fjárborgir eru margar hér í nágrenninu og ber að varðveita þær. Sumar eru reyndar komnar undir verndarvæng Þjóðminjasafns Íslands og þeirra ágætu manna, er þar starfa.
Lesari góður, vafalaust munt þú geta bent á miklu fleiri staði en hér eru nefndir. Gerðu það, og þú munt eiga í huga þér ánægjulega hugsun um gott verk, sem ekki kostaði mikið.
En umfram allt, tileinkaðu þér með ferðum um nágrennið þá unaðslegu staði, sem eru allt um kring og kalla á þig og þitt óeigingjarna starf, þína óeigingjörnu umhyggju.”

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 4. tbl. 01.09.1969, Á fornum slóðum – Gísli Sigurðsson, bls. 3.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg.

Setbergssel

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ 2009 er ma.a fjallað um Setberg, sem var fyrrum í Garðabæ:

Setberg

Setberg 1958 – loftmynd. Tóftir gamla bæjarins sjás ofan við fjósið.

1505: “var þad setberg fyrir sunnan land vid hafnarfiord. ok þar med ij. kvgilldi edvr iij huortt ed uæri. iij uættir smiors vr holom. leigur fra haugatungu vppa .iij. ar. var þetta allz .x. vætter. sagdist grimr hafa likt þoruardi adr .xxxiiij. kugilldi. heyrdum vær þa aunguan aaskilnad þessara þratt greindra manna. helldr kom þeim alltt uel samann suo uær heyrdum.” DI VII, 797. 1523: var Tómas Jónsson kvittaður af jörðinni Setbergi af Pétri og Halli Björnssonum. Þá voru landamerkin: “Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur i fremsta tiorn ) hollte. vr honum og i Hellv þa er stendur i lambhaga. þadan og i [nedstu jardbru). So epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan. þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem sudur a holltenu stendur. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf hesta [Reidings ristu ) i setbergs lande. en opt nefnt setbergs budarstödu vid skipaklett i garda lande.” DI IX, 146.

Setberg

Setbergsbærinn 1772 – Joseph Banks.

1658, selur Tómas Björnsson sr. Þorsteini Björnssyni 8 hndr. í Setbergi. 1664 setur Tómar Björnsson fógetanum 8 hndr í Setbergi. 1665 eignast Guðrún Björnsdóttir 8 hndr í Setbergi. Jarðabréf, 15. 16 hndr 1703.
1772 heimsótti Joseph Banks Setbergsbæinn.1912 keypti Hafnarfjörður Setbergsland allt til Lækjarbotna. “Samkvæmt dómi frá 5. des 1924 eru landamerki milli Setbergs og þess hluta Garðakirkjulands, sem með lögum nr. 13, 1912 var selt Hafnarfjarðarkaupsstað, sem hér segir: “Úr neðstu jarðabrú í Kaplakrika eftir Kaplalæk í hraunjaðrinn beint vestur af þeim stað þeim, þar sem Kaplalæk er nú veitt úr eldri farveg sínum, rétt norðan við Baggalágar vestur af Setbergslandi, þaðan beina línu í stíflugarð rafstöðvartjarnarinnar, þá eftir garðinum og úr honum beint í markþúfu suður og uppi á holtinu þaðan í upptök lækjar þess, serm Hafnarfjarðarkaupstaður fær neyzluvatn sitt úr, þá i Gráhellu og þaðan í miðjan Ketshelli. …”

Setberg

Setbergsbærinn í dag – tóftir.

“Lönd jarðanna Þórbergs, Setbergs og Hlébergs, sem eru innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, mun Hafnarfjarfjarðarbær eignast innan tíu ára, sbr. samning við landeigendur, dagsettan í júlí 1980.” ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 122 1703: “Engjar á jörðin nokkrar þó litlar sjeu.” JÁM III, 176. 1918: Tún 6,5 teigar, nær allt sléttað, garðar 1600 m2.

Setberg

Setberg – túnakort 1918.

Útihús er sýnt á túnakorti við austurjaðar túns, tæplega 170 m norðaustur frá gamla bæjarstæðinu. Rústir þess eru enn sjáanlegar, byggðar utan í túngarðinn að austanverðu. Stór hlaðinn kálgarður er sambyggður útihústóftinni að norðanverðu en mun hann vera síðari tíma verk að sögn Óttars Geirssonar heimildamanns. Þessi hluti túnsins er í landi Garðabæjar.
Tóftin er í jaðri gamla heimatúnsins sem að mestu hefur verið breytt í golfvöll
Eitthvað virðist vera búið að ryðja þessari rúst til og því erfitt er að átta sig á nákvæmri lögun hennar. Hún virðist þó hafa verið um 15 x 15 m að stærð og er hleðsluhæðin mest um 0,5 m.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – minjar.

Hernaðarmannvirki hlaðin úr grjóti, leifar úr Seinni heimsstyrjöld, eru á Flóðahjalla þar sem hann rís hæstur. Flóðahjalli er allhár grágrýtisrani suður af Urriðakotsvatni. Mannvirkin eru um 330 m SA af Flóðahjallavörðu [055] sem er nyrst á Flóðahjallatá. Mannvirkin eru leifar vígis frá Bretum sem ætlað var til varnar mögulegri innrás Þjóðverja um Hafnarfjarðarhöfn (skv. grein í MBL 13.01.2002).
Hernaðarmannvirkin eru hlaðin á og í kring um klöpp og umhverfis er melur. Mannvirkin samanstanda af garðlagi úr grágrýti og grjóthlöðnum tóftum innan þess. Allar hleðslur eru þurrhleðslur úr ótilklöppuðu grjóti. Garðlagið er nokkuð hring- eða sporöskjulaga en óreglulegt, um 45×33 m N-S að utanmáli. Hleðslurnar eru mjög tilgengnar og því víða breiðar og lágar, t.d. allt að 5 m breiðar nyrst.
Um miðbik austurhluta garðlagsins eru hleðslurnar heillegastar, allt að 1,3 m háar, ríflega 1 m breiðar og 5-6 umför. Innan garðlagsins er mikið af lausu grjóti og jarðföstum klöppum. Tóftirnar eru einna syðst innan garðsins. Tvær eru greinilegar, ein ferhyrnd og önnur hringlaga, en einnig eru í kring tilgengnir veggir sem hugsanlega hafa áður verið hluti annarra tófta. Ferhyrndatóftin er syðst fyrir miðbik, örskammt frá suðurvegg garðlagsins. Hún er heillegri en hringlaga tóftin, um 6×6 m að utanmáli (4×4 m að innan) og með dyr til austurs. Veggir tóftarinnar eru hæstir um 1,5 m og 7 umför.
Hringlaga tóftin er skammt VNV af þeirri ferhyrndu. Hún er um 6×6 m í þvermál og afar tilgengin, ekki nema 2 umför og grjótdreif er í kring. Norðan, austan og suðvestan við ferhyrndu tóftina eru tilgengin veggjarbrot sem kunna að vera leifar annarra mannvirkja. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 13.01.2002 færðu Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson rök fyrir því að hringlaga tóftin gæti hafa hýst byssustæði, en sú ferhyrnda gæti hafa verið íverustaður hermanna. Á náttúrulega klöpp innan garðlagsins er klappað ártalið 1940 sem og nafnið J. E. Bolan og fangamarkið D. S. Þar skammt við er svo klappað ártalið 1977 og fangamörkin J. A. og G. H.

Kietsheller

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Elstu heimildina um Kjöthelli (Kietsheller) er að finna í fornbréfasafni (DI IX), en það er landaskiptabréf dagsett 6. júni 1523 og er hellirinn þar suðvestur landamörk Setbergs. “Selstöðu á jörðin þar sem heitri Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema snjór í gjá, sem sólhiti bræðir,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. “Úr Gráhellu liggur línan í Setbergssel. … Landamerkjalínan liggur í Markvörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots,” segir í örnefnaskrá GS. Kjöthellir er á suðvesturmörkum Setbergs, við stóra og steypta landamerkjavörðu sem þar er, um 3,5 km SA af bæ. Tveir hellar eru við landamörkin á þessum slóðum og er talsverður nafnaruglingur á milli þeirra. Samkvæmt heimildamanni kallast hellirinn sem hér um ræðir Kethellir (Kjöthellir) eða Selhellir, en hinn hellirinn, sem er öllu stærri og er rúmlega 180 m austar, heitir Kershellir og annar lítill hellir inn af honum Hvatshellir.
Í Þjóðminjaskráningu Hafnarfjarðar segir að hellirinn sé: “Upp í grasivöxnu holti við jaðar Gráhelluhrauns,”. Nokkuð mikill snjór var á svæðinu þegar skráning á vettvangi fór fram.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kjöthellir snýr nokkurn veginn norður-suður og er opinn í báða enda. Innangegnt er um bæði op hans. Hann er um 20 m langur, breiðastur um 4 m og mest lofthæð er vel rúmlega 2 m. Um miðbik hellisins er hlaðið skilrúm sem skiptir honum í tvennt og hefur nyrði helmingurinn að líkindum tilheyrt Setbergi. Skilrúmið er hátt í 1,6 m þar sem það er hæst að vestanverðu og 8 – 9 umför, en megin hluti þess er munlægri og hrundari, frá 0,5 – 1,2 m.
Inngangur um syðri hellismunnann er stærri en sá nyrði, mest um 2 m breiður og rúmlega 2 m hár, en hlaðið er að hluta upp í hann með um 1,2 m hárri hleðslu. Inngangur um nyrði hellismunnann, sem er Stbergsmegin, er u.þ.b. 1,5 m breiður og hátt í 2 m hár. Nokkuð meira er lagt í hleðslurnar fyrir honum, en hlaðin, bogadregin göng liggja að munnanum og eru þau að hluta undir hlöðnu þaki. Hleðslan er allt að 7 m löng og er hæst allt að 1,8 m og hlaðið hefur verið þak yfir innganginn að hluta með hraunhellum, þó það sé nú að nokkru leyti hrunið. Umhverfis Kjöthelli er gróið hraun og tvær tóftir eru í næsta nágrenni sem að líkindum tengjast Selstöðunni. Tóft sem er líklega stekkur er um 25 m SV af hellinum og hlaðið aðhald í náttúrulegri lægð er um 70 m til NA.

Markasteinn

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

“Á mörkum Setbergs, Urriðakots og Garðakirkjulands er Markasteinn og átti að búa huldufólk þar,” segir í örnefnaskrá SP. Markasteinn stendur á landamörkum, um 6,3 km SA af bæ 001 og um 1,1 km NA af Kjöthelli.
Markasteinn er afar stórt hraungrýti, um 3 m að flatarmáli og 2,5 m hátt, með gróinni fuglaþúfu á toppnum.
Amma heimildamanns (f. 1864) heyrði sem ung stúlka strokkhljóð berast úr Markasteininum og taldi það til marks um bústörf steinbúa.

Markavarða

Hamarskotssel

Hamarskotssel – markavarðan.

“Landamerkjalínan liggur í Markvörðu á Selhellinum, því undir vörðunni er þessi hellir, og honum mun hafa verið skipt milli Setbergs og Hamarskots. Kethellirinn liggur örlítið hærra.” Markavarðan er á suðvestur mörkum Setbergslands, við Kjöthelli [023]. Varðan er við Kjöthelli, í hálfgrónu hrauni. Varðan er hlaðin úr hraungrýti og steypt er á milli umfara.
Á toppi vörðunnar er stendur stök hraunhella upp á rönd og er henni haldið með steypu. Varðan er rúmlega 2 m há og um 1,5 m að grunnfleti.

Húsatún tóft beitarhús

Setbergssel

Setbergssel.

“En landamerkjalína milli Setbergslands og upplands Garðakirkju lá úr hellunum norðaustur eftir Smyrlabúðarhraunbarmi, norður í Markasteininn á Tjarnarholtinu syðsta. Frá þessu hornmarki liggur línan um Efridal. Síðan um Selhjahlíð og þaðan í Fljóðahjallavörðu. Þegar komið er fyrir Hánef og komið þar upp á holtið, er komið í Húsatún, og þar eru beitarhúsin frá Setbergi,” segir í örnefnaskrá. Húsatún er á vestanverðri Setbergshlíð um 80 m NA af vörðu. Húsatún er um 2,9 km SA af bæ 001 og um 930 m ASA af Gráhellu.
Í kringum beitarhúsið er melur og vex á honum lyng á stangli, en fjær er kjarrgróður. Tóftin er algróin þykkri sinu að innan og einnig er smá grasblettur fast vestan við tóftina, gróinn þykkri sinu. Beitarhúsið er hlaðið úr grágrýti og virðist hleðslan vera nokkuð vönduð þó hún sé nú tilgengin á stórum hluta. Mest hleðsluhæð er um 1,5 m, á norðurvegg einna austast og eru þar 5-6 umför.
Grjótið í hleðslunni er af öllum stærðum, en mest er þó af miðlungs og stóru grjóti. Utan með grjóthleðslunni er sigin torfhleðsla, um 1 m breið og 0,5 m há. Beitarhúsið er um 17 x 11 m að stærð A-V og er innanmál um 14 x 8 m. Vestur hlið tóftarinnar er að mestu opin og hefur þar að líkindum verið timburþil fyrir.

Kershellir

Í Kershelli.

1523 voru landamerkin: “Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur i fremsta tiorn ) hollte. vr honum og i Hellv þa er stendur i lambhaga. þadan og i (nedstu jardbru). so epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan. þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem sudur a holltenu stendur. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf hedta [Reidings ristu ) i setbergs lande. en opt nefnt setbergs budarstödu vid skipaklett i garda lande.”

Hamarskotssel

Hamarskotssel – stekkur.

Í Þjóðminjaskráningu Hafnarfjarðar frá 1988 segir: “Stekkur…Um 40 m Austur af landamerkjavörðu við Kethelli.” Aðhaldið er hátt í 70 m NNA af Markavörðu við Kjöthelli. Aðhaldið er í nokkuð grónu hrauni.
Aðhaldið, sem mögulega er stekkur, er myndað af náttúrulegu, ferköntuðu sigi í hrauninu sem snýr nokkurnveginn NV-SA og hlaðið er fyrir NV og SA enda. Innanmál er um 20×10 m. Hleðslurnar fyrir báðum endum eru um 10 m langar og um 0,5 m háar og sjást 2-3 umför. Norðvestari hleðslan er aðeins tilgengnari og allt að 1 m breið. Langveggir aðhaldsins eru náttúrulegir hraunveggir, allt að 3 m háir og er sigið dýpst fyrir miðju. Botninn er nokkuð ójafn en gróinn. Nálægt miðju norðvestari hleðslunnar er líklegur inngangur, um 1 m breiður, en mögulegt er að einnig sé inngangur vestarlega á suðeystri hleðslunni, heldur þrengri en hinn.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Setberg

Setberg 1958 – loftmynd.

Hofstaðir

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ árið 2009 er m.a. fjallað um sögu byggðar:

Byggðasaga

Langeyri

Landamerkjavarða Garðabæjar við Hvíluhól.

“Til að geta sett niðurstöður fornleifaskráningar í fræðilegt samhengi er nauðsynlegt að hafa hugmynd um sögu byggðar á svæðinu sem er til rannsóknar. Byggðasaga er einn sá grunnur sem áætlanir um frekari rannsóknir, t.d. uppgrefti, ættu að byggja á. Vitneskja um sögu byggðar eykur líkur á að rannsóknarefni fornleifafræðinga séu mótuð og þar af leiðandi fáist markvissari niðurstöður. Ekki hefur mikið verið ritað um byggðasögu Garðabæjar, eða þeirra jarða sem bærinn byggðist úr. Fyrir áhugasama um sögu og þróun byggðar í Garðabæ má þó benda á Garðabær: Byggð milli hrauns og hlíða sem út kom 1992 en þar er að finna úttekt á upphafi byggðar innan marka bæjarfélagsins og þróun hennar allt fram á síðustu ár og Örnefni og leiðir í landi Garðbæjar frá 2001, en þar er teknar saman all ítarlegar upplýsingar um örnefni innan marka bæjarfélagsins sem og gamlar leiðir og flestar þeirra merktar samviskusamlega á loftmyndir og kort. Sökum þess að lítið hefur verið fjallað um byggðarsögu Garðabæjar er markmiðið hér að draga saman helstu staðreyndir um landnám og byggðarþróun sem þegar hafa verið settar fram en jafnframt nota fornleifaskráningu og þær fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið allt fram á síðustu ár til að bæta við myndina og dýpka skilning á byggðarþróuninni. Auk fornleifa nýtast fjölmargar ritaðar heimildir við ritun byggðasögu s.s. Landnáma, Sturlunga og Íslendingasögur, Íslenzkt fornbréfasafn, tölur um dýrleika jarða og upplýsingar um staðsetningu kirkna og bænhúsa. Sú umfjöllun sem hér fylgir um byggðasögu Garðabæjar, eins og reyndar skýrslan í heild, afmarkast við mörk bæjarfélagsins eins og þau eru nú.

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll við Arnarnes.

Land Garðabæjar tilheyrði Álftaneshreppi, að líkindum allt frá upphafi hreppaskipulags sem á rætur að rekja í það minnsta aftur á 13. öld og sennilega allt aftur til 11. aldar, og var svo allt til 1878 er skipting varð milli Garðahrepps og Bessastaðahrepps. Almennt er álitið að bæir, þar sem kirkjur eða bænhús stóðu, hafi byggst snemma, enda hafi slík hús oftast verið stofnsett fljótlega eftir árið 1000. Aðeins ein kirkja er skráð innan marka Garðabæjar, Garðakirkja, enda greinilegt að á Görðum var þungamiðja byggðar fyrr á öldum. Ritaðar heimildir eru um eitt bænhús innan Garðabæjar og sem var landi Arnarness. Vel má vera að fleiri slík hafi verið á hinum lögbýlunum en heimildir um þau glatast. Þá eru kuml óræk sönnun um forna byggð sem komin var á fyrir 1000. Engin kuml hafa fundist innan núverandi marka Garðabæjar né örnefni sem gefa slíkt til kynna. Það er áhugavert og líklegt að kumlunum hafi verið raskað, þau ekki verið til staðar á svæðinu eða þekking um staðsetningu þeirra glatast. Landamerki og landamerkjagarðar sem skilja á milli jarða geta einnig verið fornir og gefið til kynna aldur býlanna. Tvenn slík garðlög eru skráð í Garðabæ. Hið fyrra skilur á milli Setbergs og Urriðakots en hið seinna á milli Setbergs, Hraunsholts, Urriðakots, Hagakots og Vífilsstaða. Einnig koma bæjarnöfn að góðu gagni þegar á að reyna að ákvarða í hvaða röð jarðir hafi byggst. Selstaða er þekkt frá þremur lögbýlum í Garðabæ, Görðum, Setbergi og Vífilsstöðum. Það getur verið vísbending um að býlin séu eldri en önnur á svæðinu.
Samkvæmt tiltækum vísbendingum mætti ætla að elsta byggða ból innan bæjarmarkanna væri Garðar. Garðastaður var metinn á 60 hundruð árið 1697, en til samanburðar var Setberg metið á 16 hundruð árið 1703. Enginn vafi er á því að öll býlin í Garðahverfi byggðust út úr Görðum og árið 1703 voru flest býlin í Garðhverfi enn hjáleigur í óskiptu landi Garðastaðar.

Garðar

Garðar.

Örnefnið ‘Garðar’ er að líkindum frumlegra en ‘Bessastaðir’og virðist hæfa betur fyrsta býlinu á Álftanesi, en að auki eru Garðar metnir nokkru verðmætari í jarðabók 1703,10 þó svo að þar kunni að liggja aðrar ástæður að baki.11 Samkvæmt Landnámu var bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, landnámsmaður á stórum hluta þess svæðis sem Garðabær nú byggir: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. Hans son var Egill, faðir (Össurar, föður) Þórarins, föður Óláfs, föður Sveinbjarnar, föður Ásmundar, föður Sveinbjarnar, föður Styrkárs.
Staðsetning Skúlastaða er, eins og áður kom fram, ekki þekkt, en tvær megin kenningar hafa verið á lofti varðandi staðsetningu landnámsbæjarins. Sú fyrri er sú að annað hvort hafi hann verið þar sem seinna byggðust Garðar eða Bessastaðir. En sú síðari sem verður að teljast ósennilegri, er að þeir hafi verið í Skúlatúni, sem er grasigróinn blettur á hraunbreiðu vestur af Helgafelli, við afrétti Garðabæjar og Bessastaðahrepps. Það verður að teljast afar ósennilegt að landnámsbærinn hafi staðið í Skúlatúni enda er þar með öllu vatnslaust og slægjulaust. Hraunið sem Skúlatún er hluti af er að líkindum eldra en landnám Íslands og auk þess er ótrúlegt að fyrsta byggðin á svæðinu hafi verið upp til fjalla, en ekki á grónari og búsælli svæðum niður við sjó. Sá hluti Garðabæjar sem stendur utan ætlaðs landnáms Ásbjörns, var samkvæmt Landnámu byggt Vífli, leysinga Ingólfs: Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Vífilsstaðir draga því samkvæmt þessu nafn sitt af Vífli þessum og taldi Björn Þorsteinsson að frásögnina mætti telja vitnisburð um fyrsta kotið á landinu. Hvaða trúnað sem fólk kann að leggja á Landnámu, er ljóst að á svipuðum tíma og þeir atburðir sem hún lýsir komust fleiri jarðir, eða hjáleigur, í byggð innan núverandi marka Garðabæjar. Fornleifauppgröftur við Hofstaði í miðbæ Garðbæjar leiddi m.a. í ljós skála frá landnámstíð. Mannvirkið er næststærsti víkingaaldarskáli sem grafinn hefur verið upp hér á landi, eða um 30 x 8 m að flatarmáli og því virðist ekki hafa verið um kotbúskap þar að ræða, þó svo að á seinni öldum hafi Hofsstaðir verið metnir sem hálflenda.
Þéttbýli byrjaði að myndast í landi Garðabæjar í kringum 1950 í kjölfar skorts á einbýlishúsalóðum í Reykjavík. Fyrsti vísirinn af þéttbýli byrjaði að myndast í landi Sveinatungu og Hraunsholts og um 1960 risu ný hverfi fyrst í Flötum, sunnan Vífilsstaðavegar og í Arnarnesi. Árið 1960 var Garðabær löggiltur sem verslunarstaður og 1975 fékk bæjarfélagið kaupstaðaréttindi.”

Ritaðar heimildir um jarðir í Garðahverfi
“Garðastaður er sú jörð innan marka Garðabæjar sem elstar og mestar heimildir eru til um.

Garðar

Garðar fyrrum.

Í Hrafnkels sögu Freysgoða sem flestir telja ritaða um 1300 er minnst á Þormóð Þjóstarson sem sagður er búa í Görðum á Álftanesi. Garðar koma tvisvar fyrir í Sturlungu í báðum tilfellum í sögum sem líklega voru ritaðar á seinni hluta 13. aldar. Í Íslendingasögu segir að Gizur jarl hafi gist nokkrar nætur á Görðum hjá Einari bónda Ormssyni. Þar hitti Gizur Óláf jarl Oddson í kirkjugarðinum í Görðum. Í Þórðar sögu kakala segir frá því þegar Þórður Bjarnason dvelur hjá Einari Ormssyni í Görðum og var á endanum höggvinn í “ytri stofunni” á Görðum.
Elsta heimildin um Garða er líklega í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar í Skálholti, frá um 1200, og er því ljóst að Garðastaður er gömul kirkjujörð. Þar stóð fram að siðaskiptum á 16. öld Péturskirkja, helguð Pétri postula. Í kirkjumáldaga frá 14. öld sést að Garðakirkja var nokkuð vel stæð og voru eignir hennar dæmigerðar fyrir kirkjur á stórbýlisjörðum.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrir 1960.

Garðakirkja var aflögð í upphafi 20. aldar er Garðasókn var sameinuð Hafnarfjarðarsókn og var síðasta messan haldin 15. nóvember 1914. Árið 1960 var Garðasókn hins vegar upptekin að nýju og fáum árum seinna var ný Garðakirkja vígð, byggð að hluta á veggjarústum hinnar eldri kirkju.
Frá árinu 1307 er varðveitt bréf er varðar tilkall Garðastaðar til rekaviðs og landrekins hvals við Grindavík en samkvæmt því áttu Garðar allan: “vidreka og hvalreka fra Ranganiogre og [i] Leitu kvenna bása. ad kalftiorninga fiouru.” Í Hítardalsbók er máldagi frá 1367 sem segir að Garðakirkja, sem sé helguð Pétri postula, eigi allt heimland, Hausastaði og Selskarð. Í Vilchinsmáldaga frá 1397 er jörðunum Hlíð, Bakka, Dysjum, Hraunsholti og Hjallalandi, auk afréttar í Múlatúni, bætt við upptalninguna á eignum. Rúmlega 150 árum síðar, eða 1558, fóru fram jarðaskipti að undirlagi Knudt Stensson, Konglig Mejestetz Byfalningsmann, við séra Lopt Narfason í Garðakirkju, er færðu Hlíð undir Bessastaði og í konungseign, en í staðinn fengu Garðar Vífilsstaði, sem fram að því höfðu tilheyrt Viðeyjarklaustri. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns voru Garðar metnir á 60 hndr árið 1697.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

Í örnefnaskrá Kristjáns Eiríkssonar segir að Hafnarfjörður eigi þá 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti af Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …”. Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum…”
Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Í Garðahverfi eru nokkrar litlar jarðir og hjáleigur sem byggst hafa út frá Görðum og sem frá fornu fari hafa tilheyrt kirkjujörðinni. Ágangur sjávar og landbrot virðist hafa hrjáð allar jarðirnar í Garðhverfi, t.a.m. segir í Jarðabók Árna og Páls að bæjarhús Bakka hafi þurft að færa þrisvar frá sjó og árið 1918 var búið að færa Austurbæjarkálgarðinn á Dysjum fimm sinnum síðustu 28 árin á undan sökum landbrots.

Garðahverfi

Dysjar og Vestur-Dysjar (h.m.).

Á Dysjar er fyrst minnst í Vilchinsmáldaga frá 1397 og er jörðin sögð eign kirkjunnar á Görðum. Í skrá frá 1565 yfir byggðar jarðir Garðakirkju er minnst á Dysjar og er jörðin þá ekki lengur talin hjáleiga. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Dysjar enn eign Garðakirkju og teljast lögbýli í óskiptu Garðastaðalandi og er jarðadýrleiki því óviss, því vitanlega borgaði jörðin enga tíund. Árið 1971 eignaðist Hafnarfjörður hluta úr landi Dysja.
Líkt og Dysjar kemur Bakki fyrst fyrir í Vilchinsmáldaga frá 1397 og svo aftur í skrá yfir byggðar jarðir í eign Garðastaðar frá 1565 og telst þar ekki hjáleiga.
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir að Bakki sé lögbýli og hafi fullt fyrirsvar, en standi í óskiptu landi Garðastaðar og því er dýrleiki óviss. Í Jarðabók segir jafnframt: “Þessum bæ fylgdi til forna Garðamýri (ein mýri þarí hverfinu … Mýrina tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útheyss slægjum og færðist so aftur landskuldina …” Byggð á Bakka lagðist af árið 1910.

Garðahverfi

Pálshús.

Elstu heimildir um Pálshús eru frá 1565 og er býlið þá hjáleiga í landi Garða. Árið 1703 er Pálshús enn fyrirsvarslaus hjáleiga í óskiptu Garðastaðalandi.
Svipaða sögu er að segja af Nýjabæ, á jörðina er fyrst minnst 1565 í skrá yfir byggðar jarðir í landi Garða. Í jarðabók frá upphafi 18. aldar er Nýibær kallaður hálfbýli, “því þarer ekki fyrirsvar (eða hreppamanna hýsing) nema að hálfu. Stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða eins og hin í hverfinu, er hjáleigur kallast.”
Á Ráðagerði og Miðengi er ekki minnst í heimildum fyrr en 1703 og þá sem hjáleigur Garða í óskipu Garðastaðalandi. Þar að auki segir í Jarðabók að Miðengi hafi fyrst byggst úr Hlíðarlandi á fyrri hluta 17. aldar og hafi í manna minnum haft hálft fyrirsvar.

Garðahverfi

Hlíð.

Móakot byggðist einnig úr Hlíð og segir í jarðabók frá 1703 að það hafi gerst fyrst “í þeirra manna minni, sem nú lifa” og er elsta heimildin um Móakot einungis 5 árum eldri, frá 1698. 16. febrúar það ár var Oddi Ásbjarnarsyni ábúanda á Móakoti stefnt fyrir Kópavogsþing sökum lönguhöfuðs sem reist hafði verið á grenispýtu, en á þinginu gekkst vinnumaður á Görðum við því að hafa reist stöngina í þeim yfirnáttúrulega tilgangi að kalla fram betra veðurfar til fiskveiða. Móakot fór í eyði árið 1930.
Árið 1397 er Hlíð eign kirkjunnar á Görðum og er árið 1565 er á lista yfir byggðar hjáleigur í landi Garða. Í Jarðabók Árna og Páls árið 1703 er Hlíð enn hjáleiga Garða og tekið fram að jörðin hafi verið “lögbýli áður en Miðengi var þar frá tekið og var þar þá fyrirsvar að menn meina.”.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla fremst.

Hausastaðir og Selskarð voru eign Garða þegar árið 1367, og eru það einu jarðirnar sem minnst er á í Hítardalsbók sem voru í landi Péturskirkjunnar á Görðum. Því er mögulegt að Hausastaðir og Selskarð séu elstu jarðirnar sem byggðust út frá Garðastað, en á aðrar jarðir er ekki minnst fyrr en í fyrsta lagi 1397. Á báðar jarðirnar er svo minnst árið 1565, í skrá yfir byggðar jarðir staðarins sem ekki voru hjáleigur. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Hausastaðir “lögbýli kallað því það hefur fult fyrir svar en stendur þó í óskiftu Garðastaðar landi so sem hjáleigur. Jarðadýrleiki óviss.” Frá sama ári segir um Selskarð í jarðabók að jarðadýrleiki sé einnig óþekktur og að árið 1703 hafi verið einn ábúandi, 1 kúgildi og landskuld hafi verið 60 ánir.

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Síðasta jörðin í Garðahverfi er Hausastaðakot. Á þá jörð er ekki minnst fyrr en í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 og er því ljóst að hún er að líkindum eitthvað yngri en hinar jarðirnar. Hausastaðakot var hjáleiga í óskiptu Garðastaðalandi, en samkvæmt Jarðabókinni var það mál manna að “hún hafi til forna legið til Hausastaða og verið þar frá tekin og lögð undir staðinn fyrir mannslán og mjeltunnu, sem hvorutveggja var áður skilið í landskuld auk þeirra sem nú er.”

Hofstaðir

Hofstaðir – dæmi um vel frágengnar fornleifar í þéttbýli. Fornaldarskálinn sést vel á loftmyndinni.

Ritaðar heimildir um jarðir utan Garðahverfis Nú verður rakin stuttlega byggðasaga þeirra jarða sem eru utan Garðahverfis. Jarðirnar koma fremur sjaldan fyrir í gömlum ritheimildum. Elsta heimildin um Hofstaði er frá 1395, en á hinar er ekki minnst fyrr en á 16. og 18. öld. Þó er ljóst að flestar jarðanna hljóta að vera þó nokkuð eldri en ritheimildir gefa vísbendingar um. Slíkt má fullyrða, m.a. vegna tiltækra upplýsinga um landnámsskála á Hofstöðum og þeirra upplýsinga sem nú hafa komið í ljós í Urriðakoti. Í Landnámu er einnig talað um Vífilstóftir, sem án efa er undanfari Vífilsstaða og er það án efa vísbending um háan aldur jarðarinnar. Jarðirnar utan Garðahverfis verða hér teknar fyrir í þeirri röð sem þær komu fyrir í Jarðatali Johnsens frá 1847.

Setberg

Setbergsbærinn 1772 – Joseph Banks.

Setberg er vestust jarðanna innan marka Garðabæjar og tilheyrir að hluta Hafnarfirði. Elstu varðveittu ritheimildir um Setberg eru frá fyrri hluta 16. aldar. Til er kvittunarbréf frá árinu 1505 er staðfestir að Grímur Pálsson sé skuldlaus Þorvarði Erlendssyni vegna kaupa þess fyrrnefnda á jörðinni Setbergi. Átján árum síðar, eða 1523, var útgefið annað sölubréf fyrir eignaskiptum á jörðinni, en Tómas Jónsson hafði þá greitt bræðrunum Pétri og Halli Björnssonum að fullu fyrir Setberg en í þessu bréfi eru landamerki jarðarinnar m.a. talin upp. Af jarðabréfum má ráða að upp úr miðri 17. öld skipti Setberg nokkrum sinnum um eigendur. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var Setberg metið á 16 hndr og er í eign Þóru Þorsteinsdóttur. Á þeim tíma er Setberg eina jörðin innan núverandi marka Garðbæjar sem var í einkaeign og hafði svo verið í það minnsta frá því fyrir 1505 samkvæmt þeim eignaskiptabréfum sem varðveist hafa. Árið 1912 keypti Hafnarfjörður hluta af Setbergslandi, allt til Lækjarbotna úr neðstu jarðabrú í Kaplakrika.

Urriðakot

Urriðakot.

Óvíst er um aldur Urriðakots, en jörðin virðist hafa verið í eigu kirkjunnar fram á miðja 16. öld. Nafn Urriðakots kemur fyrst fyrir í jarðaskiptabréfi frá 1563 en jörðin er þá ein 19 jarða sem renna til konungs í skiptum fyrir jafnmargar jarðir til Skálholtsstóls. Næstu heimildir er varða Urriðakot eru frá 18. öld og er þá jörðin enn í konungseign. Í Jarðabók frá 1703 er jarðadýrleiki óviss, en Urriðakot er þar kallað hálfbýli því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móti lögbýlisjörðum og er í konungseign. Árið 1847 var Urriðakot svo komið í bændaeign og metið á 16 hndr. Ekki er loku fyrir það skotið að Urriðakot hafi á sínum tíma byggst út frá Setbergi. Nú liggja mörk Setbergs og Urriðakots um Urriðakotsvatn og um miðjan Hrauntanga sem skagar út í vatnið að norðanverðu. Á Hrauntanga er fornt garðlag sem kallast Lambhagagarður og teygir það sig inn á báðar jarðir. Lambhagagarður er eldri en landamerkjagarðurinn sem skiptir jörðunum norður af Urriðakotsvatni og sem gengur þvert á Lambhagagarð. Hið forna garðlag er því líklegur vitnisburður þess að eitt sinn hafi Setberg og Urriðakot verið ein og sama jörðin. Nöfn jarðanna gætu gefið vísbendingu um hvor sé eldri, en “kot” örnefni eru yfirleitt talin yngri en nöfn sem vísa í náttúruaðstæður, líkt og “Setberg”.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Byggð á Vífilsstöðum á mögulega upphaf sitt á landnámsöld, eins og áður kemur fram, en annars eru ritheimildir hljóðar varðandi Vífilsstaði fram undir miðja 16. öld, en frá þeim tíma eru til talsvert af heimildum, allar stjórnsýslulegs eðlis. Í Fornbréfasafni er Vífilsstaða tvisvar getið í Fógetareikningum af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum og öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi 1547-1548 og aftur getið í fógetareikningum 1549-1550. Vífilsstaðir koma einnig fyrir í afgjaldarreikningum Kristjáns skrifara frá 1550 og í fógetareikningum 1552. Ári síðar, eða 1553, er nefndur ábúandi á Vífilsstöðum í hlutabók og sjávarútgerðarreikningi Eggerts hirðstjóra. Að undirlagi Knudt Stensson Konglig Majestetz Byfalningsmann gengu Vífilsstaðir undir Garðakirkju árið 1558, en jörðin hafði fram að þeim tíma tilheyrt Viðeyjarklaustri. Var það gert í skiptum fyrir Hlíð sem var tekin undir konungsjörðina Bessastaði. Minnst er á Vífilsstaði í skrá yfir byggðar jarðir Garðakirkju frá árinu 1565. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 er dýrleiki jarðinnar sagður óviss sökum þess að Vífilsstaðir eru þá enn Garðakirkjueign,75 og dýrleiki er ekki heldur tilgreindur Jarðatali Johnsens frá 1847. Vífilsstaðir eru líklegast einna þekktastir fyrir að vera aðsetur heilsuhælis fyrir berklasjúklinga, en það var sett á laggirnar árið 1910. Árið 1974 lagðist búrekstur lagðist af á Vífilsstöðum.

Hagakot

Fyrrum bæjarstæði Hagakots – Tjarnarflöt 10.

Litlar heimildir frá fyrri öldum hafa varðveist um Hagakot. Árið 1703 var jörðin í konungseign og hálflenda með fyrirsvar til hálfs á við lögbýli. Bæjarrústir Hagakots eru nú horfnar með öllu, en voru áður þar sem nú stendur íbúðarhúsið að Tjarnarflöt 10.

Björn Konráðsson

Björn Konráðsson, oddviti Garðahrepps í 28 ár.

Hofsstaðir eru næsta jörð norðan Hagakots og er ljóst að búseta hófst þar mjög snemma. Skáli frá landnámsöld fannst við fornleifauppgröft skammt vestur af núverandi bæjarstæði Hofstaða. Hofstaðabærinn stóð þar frá upphafi og fram á 13. öld, en var síðan fluttur, mögulega á þann stað sem núverandi bæjarhús stendur. Elsta byggingarstigið er veglegur víkingaaldarskáli sem ber þess vitni að stórbýli hafi verið á Hofstöðum í fornöld, þó ekki sé minnst á jörðina í Landnámu. Fyrst er minnst á Hofstaði í rituðum heimildum á 14. öld en þá komust Hofsstaðir í eigu Viðeyjarklausturs. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Hofsstaðir sagðir í eigu konungs og hafa að líkindum orðið það við siðaskiptin um miðja 16. öld. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 voru Hofsstaðir enn í konungseign og metnir á 10 hdr.82 Búskapur lagðist af á Hofstöðum árið 1965 og keypti Garðahreppur jörðina undir íbúðahúsalóðir ári seinna.

Garðabær

Þorgarðsdys í Arnarnesi.

Fátæklegar ritheimildir hafa varðveist um Arnarnes. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 er Arnarnes konungsjörð og jarðadýrleiki því óviss.84 Telja má þó líklegt byggð í Arnarnesi sé mun eldri en þar er eina þekkta bænhúsið innan núverandi merkja Garðabæjar. Á nesinu eru þekkt tvö býli, Arnarnesið sjálft og svo Litla Arnarnes, sem einnig er þekkt sem Arnarnes gamla og Arnarneskot. Ekkert er minnst á kotið í jarðabókinni og gæti það verið vísbending um að Litla Arnarnes kunni að vera yngra en frá árinu 1703 eða ekki í byggð á þeim tíma. Á Arnarnesinu eru þekktar þrjár dysjar sakamanna sem teknir voru af lífi á Kópavogsþingi og ein þeirra, mun vera dys Hinrik Kules sem dæmdur var til dauða fyrir morð þann 23. febrúar 1582. Minna er þekkt um hinar dysjarnar tvær, en þær ganga jafnan undir nöfnunum Þorgarðsdys og Þormóðsleiði. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var Arnarnes enn í konungseign og metin á 20 hdr, og því hæst metna jörðin innan núverandi marka Garðabæjar utan Garðastaðar sjálfs.

Garðabær

Garðabær 1969.

Ekki er vitað hvenær Hraunsholt byggðist fyrst, en líkt og með fleiri jarðir innan marka Garðabæjar þá kann jörðin að vera býsna gömul þótt nafn hennar komi ekki fyrir í mörgum ritheimildum fyrri alda. Elsta þekkta heimildin um jörðina er frá árinu 1565, og er Hraunsholt þá ein jarða Garðakirkju. Í byrjun 18. aldar var jörðin enn í eigu Garðakirkju, en óvíst var á þeim tíma hvort kalla skildi jörðina hálflendu eða lögbýli “því þar er margoft ekki fyrirsvar nema til helminga, utan þegar vel fjáðir menn hafa ábúið, og stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi”.
Þó svo að vísbendingar ritheimilda séu fremur þöglar um upphaf og þróun byggðar innan Garðabæjar er ýmislegt sem bendir til að byggð hafi snemma hafist á þessu svæði og jafnvel orðið nokkuð þétt. Til þess benda m.a. uppgreftir á Hofstöðum og í Urriðaholti og Garðahverfið allt. Einnig má vera að á næstu árum/áratugum muni frekari fornleifarannsóknir á svæðinu leiða í ljós mun ítarlegri vitnesku um elstu byggð á svæðinu og þróun hennar.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Garðabær

Núverandi bæjarstjóri Garðabæjar, Gunnar Einarsson.

Setberg

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir frá Setbergi:

Setberg

Setberg

Setbergsbærinn á ofanverðri 18. öld,

Jörðin Setberg hafði þá sérstöðu, öfugt við aðrar jarðir í kring sem voru annaðhvort í konungseign eða í eign Garðakirkju, að hún virðist hafa verið í bændaeign í gegnum aldirnar en elsta heimildin um byggð í Setbergi er frá árinu 1505 og var kvittunarbréf Þorvarðs Erlendssonar til Gríms Pálssonar um eignarbýtti þeirra. Þar sagði fært yfir á nútíma stafsetningu: „Það gjörum vér Gunnlaugur Helgason, Jón Stullason, Jón Gíslason, Þorleifur Snorrason, Helgi Ormsson, Valdi Þorvarðsson, Hermann Hermannsson og Jón Eyvindsson góðum mönnum kunnugt með þessu voru opnu bréfi að þá er liðið frá guðs burði 1505 ár á Möðruvöllum í Eyjafirði. Daginn næstan eftir Maríumessu seinni um haust, vorum vér í hjá sáum og heyrðum í að Þorvarður Erlindsson lögmaður sunnan og austan í Íslandi haf með handabandi Grím Pálsson alldyngis kvittan og ókærulausan um það kaup og gjald er greindur Grímur hafði áður greiða látið og greitt, og þá amasala varð um það sem eftir stóð við fyrr greindan Þorvarð. Og að því luktu og höldnu er Grímur þá greiddi. Var það Setberg sunnan land við Hafnarfjörð. Og það með ij kúgildi eður iij hvort eður væri, iij vættir smjörs úr holum.

Setberg

Skilti Byggðasafns Hafnarfjarðar við gamla Setbergsbæinn.

Leigur frá hagatungu uppi iij ár var þetta alls x vættir sagðist Grímur hafa lokið Þorvarði áður xxxiiij kúgildi. Heyrðum vér þá engan óskilnað þessara þrátt greindra manna, heldur kom þeim allt vel saman svo nær heyrðum.
Og til sanninda hér um settum vér fyrr nefndir menn vort innsigli fyrir þetta kvittunarbréf og gjalds er skrifað var í sama stað, degi og ári sem fyrr segir.“
Næst var sagt frá Setbergi í bréfi frá 1523. Það var bréf sem vottaði að Pétur og Hallur Björnssynir hafi haft í arfaskiptum gefið Thomas Jónsson „frían og kvittan“ um jörðina Setberg á Álftanesi og handsalað honum jörðina. Í bréfinu segir frá landamerkjum jarðarinnar:

Setbergssel

Setbergssel.

„Úr miðjum Kjöthelli og í stein þann er stendur í fremstu Tjarnarholti. Úr honum og í flóðhálsinn, úr flóðhálsinum og í álftatanga, úr honum og í Hellu þá er stendur í Lambhaga.
Þaðan og í neðstu jarðbrú. Svo eftir því sem lækurinn af sker í túngarðs endann. Þaðan í Silungahellu. Svo þaðan í þúfuna og í miðjan Kjöthelli.“
Í bréfinu var einnig sagt að Garðastaður ætti á jörðinni tólf hesta reiðings ristu og að Setberg hafi á móti átt búðarstöðu í Garðalandi, þar var átt við búðarstöðu til siglinga, en jörð Setbergs náði ekki að sjó.
Í jarðabréfi frá 1703 var sagt frá því að árið 1658 seldi Tómas Björnsson 8 hndr. í jörðinni til sr. Þorsteins Björnssonar. Tómas seldi svo önnur 8 hndr. til fógetans og árið 1665 eignaðist Guðrún Björnsdóttir 8 hndr. í Setbergi.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Setbergs hafi verið sextán hundruðustu. Eigandi jarðarinnar var ekkjan Þóra Þorsteinsdóttir og bjó hún á jörðinni. Landskuld jarðarinnar var óviss en síðastliðin sextíu ár höfðu eigendur jarðarinnar búið á henni. Engar kvaðir voru á jörðinni þar sem eigandinn bjó þar sjálfur, kvikfénaður var fimm kýr, tuttugu og þrjár ær, fjórir sauðir veturgamlir, fjórir hestar og eitt hross með fyli.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – fyrrum landamerki Setbergs.

Túnin gátu fóðrað sex kýr og tuttugu lömb. Heimilsmenn voru sex. Jörðin átti selstöðu í Ketshelli, þar voru hagar góðir en vatnsból ekkert nema snjór í gjá sem sólarhiti bræddi.
Torfrista og stunga var nægileg og lyngrif mætti vera en var ekki notað fyrir hagbeitar sakir.
Setberg hafði til forna silungsveiði í Hamarskotslæk en henni hafði verið spillt með þeim netaveiðum þeirra sem neðar bjuggu. Jörðin átti ekki land til sjávar en var með búðarstöðu og skipsuppsátur við Skipaklett í Akurgerðislandi. Jörðin átti engjar en þær voru þó litlar.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Í jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 173, þá var hún í bændaeign og dýrleiki hennar 16, landskuld 0.90, kúgildin þrjú og ábúendur voru tveir leiguliðar.
Árið 1912 keypti Hafnarfjörður Setbergsland allt til Lækjarbotna. „Samkvæmt dómi frá 5. Desember 1924 eru landamerki milli Setbergs og þessa hluta Garðakirkjulands sem með lögum nr. 13, 1912 var selt Hafnarfjarðarkaupstað sem hér segir: Úr neðstu brú í Kaplakrika eftir Kaplalæk í hraunjaðrinum beint vestur af stað þeim, þar sem Kaplalæk er nú veitt úr eldri farveg sínum rétt norðan við Baggalágar vestur af Setbergslandi. Þaðan í beina línu í stíflugarð rafstöðvartjarnar, þá eftir garðinum og úr honum beint í markaþúfu suður og upp á holtinu þaðan í upptök lækjar þess sem Hafnarfjarðarbær fær vatn sitt úr, þá í Gráhellur og þaðan í miðjan Kjöthelli.“
Á túnakorti af Setbergi frá 1918 var sagt að tún bæjarins væru öll sléttuð og töldust 6,5 teigar og að kálgarðar væru samtals 1600m2. Á kortinu eru líka mældar inn bæjarrústir gamla bæjarins og „eyði kálgarður“ við þær. Vestan við nýja bæinn var líka mæld „rafleiðslu vatnsvél“.

Stekkjarhraun

Stekkur í Stekkjarhrauni.

Innan jarðarinnar er að finna Stekkjarhraun en það var friðlýst sem fólkvangur árið 2009.
Hraunið er hluti af hraunum sem runnu í Búrfellseldum fyrir um 7000 árum. Markmið friðlýsingarinnar var að „vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. […] Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir i þéttbýli.“ Í bréfi frá 1670-80 sagði að Hamarskot og Garðar hafi haft stekki í Stekkjarhrauni, þ.e. stekkir og einnig hafði Setberg stekk í hrauninu.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Suðurbær. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-VII-Setberg.pdf

Fornleifaskráning

Fornleifaskráning fyrir Setberg.

Setbergsbærinn

Í Fjarðarpóstinum 1991 er viðtal við Elísabetu Reykdal, fyrrum húsfreyju á Setbergi, undir fyrirsögninni “Hornið í stofunni er sálin mín”:

Elísabet Reykdal

Elísabet Reykdal.

“Elísabet Reykdal hefur talsverða sérstööu aö því leyti, að hún og hennar fólk var þekkt í bænum sem Garðhreppingar, en nú er Elísabet oröin Hafnfirðingur, þó hún hafi aldrei flutt um set og alltaf búið í sama húsinu. Þetta er meira en lítið sérstætt, en á þó sínar eðlilegu skýringar vegna útfærslu á bæjarmörkum Hafnarfjarðar. Elísabet er dóttir hins kunna athafnamanns Jóhannesar Reykdal, sem byggði fyrstu vatnsknúnu rafstöðina á Íslandi, og konu hans, Þórunnar Böðvarsdóttur. Nú býr Elísabet í miðju glæsilegu íbúðahverfi þar sem áður var búskapur, tún og kýr á beit.

Já, Setberg var næststærsta býlið í Garðahreppi. Það voru aðeins Vífilsstaðir sem var stærra býli”, sagði Elísabet í upphaf viðtals okkar.
– Þið voruð mörg í heimili á Setbergi?
„Já, það voru oft um 20 manns og stundum upp í 25 yfir sumartímann. Það bjuggu hérna heima lærlingar og smiðir sem unnu hjá pabba. Annars vorum við 10 systkinin sem upp komust, en yngst dó systir mín, aðeins 12 ára. Það voru berklarnir sem herjuðu á fjölskylduna. Það dóu fimm uppkomnir bræður úr berklum.
Ég er fædd á Setbergi en annars byrjuðu pabbi og mamma sinn búskap í Hafnarfirði. Þau giftu sig 1904 og sama haustið voru kveikt fyrstu rafljósin, en verksmiðjuna reisti pabbi 1903, Timburverksmiðjuna Dverg. Það var fyrir Dverg sem hann virkjaði Lækinn, ennfremur fengu 16 hús ljós í fyrstu.”
– Hvaðan kom pabbi þinn til Hafnarfjarðar?
„Hann kom hingað frá Danmörku. Fyrst flutti hann til Reykjavíkur þar sem hann var í tvö ár, en síðan til Hafnarfjarðar. Annars var hann Þingeyingur að uppruna. Mamma fæddist hins vegar í Hafnarfirði en hennar fólk kom frá Miðfirði. Pabbi og mamma kynntust hér í Hafnarfirði. Afi hafði þá skólapilta í fæði og smáveitingasölu.”
„Það blundaði bóndi í pabba og Einari”
– Þannig að faðir þinn Jóhannes Reykdal lærði í Danmörku?
„Já, hann lærði í Danmörku en fyrsta verkefnið hans hér var að byggja gamla barnaskólann. Upp úr því setti hann upp verksmiðjuna og síðan kvæntist hann um vorið. Pabbi og mamma bjuggu fyrst í Hafnarfirði en síðan keypti pabbi Setbergið 1909 og 1911 fluttu þau hingað upp eftir. Á meðan þau voru niðri í bæ hafði hann ráðsmann við búskapinn en rak síðan búið sjálfur eftir að þau fluttu. Það blundað bóndi í pabba og hann var alltaf mikið fyrir skepnur.”

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal.

– Síðan verða kynslóðaskipti og þú tókst við búskapnum?
„Já, en þá hafði búið verið í leigu í fimm ár eða frá því 1931, en þá dóu tvö systkini mín. Þá auglýsti pabbi Setbergið til leigu. Eitt árið ráku systkini mín búið, en þá dó bróðir minn, sem aðallega stóð fyrir búinu. Þá hættum við aftur en tókum síðan við búinu áný árið 1938.”
– Þú varst ung heimasæta á Setbergi en giftist síðan sjómanni, Einari Halldórssyni. Þú gerðir þér lítið fyrir og gerðir hann að bónda?
„Já, hann var lengi kallaður Einar á Maí af því að hann var svo lengi stýrimaður með Bendikt Ögmundarsyni. Annars byrjaði hann sína sjómennsku á Skúla fógeta, en var nýfarinn af honum þegar Skúli fógeti fórst. Hann var kominn með pokann sinn niður á Steindórsstöð til að fara til Reykjavíkur en þá kom Benni hlaupandi og sagði: „Hann Ásgeir Stefánsson er búinn að reyna að ná í þig í allan dag, því að það er plássfyrirþighjámér”. Svo Einar hringdi inn eftir og lét vita af því, að hann kæmi ekki og fór um borð í Maí. Þar var hann til ársins 1937. Síðan var hann á Hafsteini með Ólafi Ófeigssyni. Hann var stýrimaður hjá honum.”
– Þótti Einari manni þínum ekki súrt í broti að vera kippt af sjónum til að gerast bóndi?
„Nei, það held ég ekki. Það blundaði í honum bóndi. Hann var búinn að vera níu sumur á bæ upp í Borgarfirði sem kaupamaður og þá var hann einu sinni alveg að því kominn að kaupa þar jörð og ætlaði að fara að búa. Það var áður en við kynntumst. Hann hafði alltaf gaman af búskap. Það var Fossatún í Bæjarhreppi sem hann var næstum búinn að kaupa. Það var smákot þá, en er orðið stórbýli núna. En einhvern veginn varð ekkert úr því að hann keypti jörðina.”
– Síðan hófst búskapur ykkar á Setbergi?
„Já, við rákum hér búskap í 40 ár. Við hefðum átt fjörtíu ára giftingarafmæli haustið eftir að Einardóíjanúar 1978. Við giftum okkur í september 1938.”
– Þróunin hefur verið ör. Í staðinn fyrir græn tún og kúabúskap er komin þétt byggð?
– „Já, hér voru yfirleitt um 35 kýr og á annað hundrað fjár.”
„Víst á ég heima á Setbergi”
Setberg„Þannig að nú átt þú ekki lengur heima á Setbergi samkvæmt skipulaginu?
„Víst á ég heima á Setbergi.
Þegar ég fékk tilkynningu um það að nú ætti ég heima á Fagrabergi 32, þá fór ég niður á bæjarskrifstofu og neitaði og sagði, að ef ég mætti ekki eiga heima á Setbergi þá byggði ég mér bara hús fyrir ofan, uppi í Garðabæ, því að á Setbergi ætlaði ég að eiga heima.

Einar Halldórsson

Einar Halldórsson á Setbergi.

Ég fékk síðan bréf upp á það að húsið mætti áfram heita Setberg, enda er þetta sama húsið og áður og hefur alltaf verið Setberg og er enn á jörðinni. Það er ekki búið að leggja jörðina niður, þó að Hafnarfjarðarbær hafi keypt hluta af henni.”

– Synir ykkar ráku jörðina síðustu árin eftir að Einar dó, eða þar til þensla Hafnarfjarðar krafðist meira landrýmis?
„Já, þeir ráku búið, en þetta var einn fjórði hluti af jörðinni sem Hafnarfjörður keypti. Hinn hlutinn er ennþá í Garðabæ. Eiginlega get ég bæði kallað mig Hafnfirðing og Garðbæing. Þó verð ég að kjósa í Hafnarfirði.”
– Ef við rifjum upp, þá var Einar oddviti í Garðahreppi?
„Já, í nokkur ár en um leið og hann varð oddviti þá var ráðinn sveitarstjóri. Hann vildi ekki hafa nein fjármálaumsvif, enda þróaðist byggðin ört þar líka.”

Hóf heimsreisur á efri árum
– Þú ert orðin fullorðin kona og ein á báti, má segja, síðan þú varðst ekkja og börnin búin að stofna eigin heimili. Þá tekur þú þig til og hefur gert sérstaklega víðreist af fullorðinni konu að vera?
„Ég byrjaði á þessu árið 1979 en þá fór ég fyrstu ferðina en það var árið eftir að Einar dó. Þá fór ég til Kanada á slóðir Vestur-Íslendinga, til Winnipeg og reyndar alveg til Vesturstrandarinnar og hitti marga Íslendinga. Það var mjög gaman. Næsta ferð var til Grikklands með mági mínum og systur og við vorum þar í þrjár vikur. Þar á eftir fór ég hringferð um Mið-Evrópu, um Alpana. Það var þriggja vikna ferð, alveg ágætis ferð.
Síðan fórum við aftur saman, mágur minn og systir, til Norðurlandanna. Við flugum til Þrándheims en þar eigum við ættingja og vorum þar í fjóra daga en ókum síðan suður Noreg. Þar er víða mjög fallegt og þetta var mjög skemmtilegt.
Síðan fór ég til Egyptalands og Ísrael. Eftir það fór ég í heimsreisuklúbbinn og þá fyrst í ferð til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Síðan tók við ferð til Kína og svo ferð til Indlands. Þá var ferð til Suður-Ameríku og önnur til Suður-Afríku og núna síðast til Japans, Filippseyja og Formósu.”
– Hvaða heimshluti féll þér best?
„Það var óskaplega gaman að koma til Kína. Það var svo sérstakt. Suður-Afríkuferðin var líka mjög vel heppnuð. Nú og síðan er Ástralía og Nýja-Sjáland alveg sérstakt líka. Mannlífið þar var að mörgu leyti líkara okkar. Ástralía, þó að hún sé stór, þá er hún líka eyja af því að hún er ekki tengd við önnur lönd og þetta á einnig við um Nýja-Sjáland, ekki síður.”
– Ég vil ræða aðeins við þig um fullorðna fólkið og lífsgleðina?
„Það verður hver og einn að sætta sig við sitt hlutskipti í lífinu og reyna að finna björtu hliðarnar á því sem eftir er. Tímann er ekki hægt að stöðva og við verðum að reyna að fínna björtu hliðarnar á því sem er eftir. Tímann getur maður ekki stoppað. Það verður bara að fylgja honum eftir eins og hægt er.”
Elísabet ReykdalÍ notalegu stofunni hennar Elísabetar er gömul og vegleg gólfklukka sem vekur athygli. Hún er í horninu hjá henni, þar sem flestar fjölskyldumyndirnar eru. Um hornið segir hún: „Þetta horn í stofunni er sálin mín. Klukkan er smíðuð af Jóni Stefánssyni, það er að segja umgjörðin. Hann var frá Fagurhólsmýri og er bróðir Ragnars Stefánssonar í Skaftafelli. Jón vann hjá pabba í verksmiðjunni og hann lét Jón smíða þrjá klukkukassa. Pabbi pantaði klukkuverk í tvo þeirra. Eina klukkuna gaf pabbi Matthíasi Einarssyni, lækni í Reykjavík, því að hann hafði gert svo stóra „operasjón” á honum bróður mínum, sem varð fyrir slysi austur á Söndum. Það féll mastur á höfuðið á honum. Það var ekki auðvelt að eiga við svoleiðis þá.
Það tók tæpa tvo sólarhringa að sækja lækninn, þó fékk hann alltaf óþreytta hesta á hverjum bæ til að halda áfram. Læknirinn gat náttúrlega ekkert gert, en báturinn sem sótti bróður minn var Skaftfellingur. Pabbi var með Skaftfellingi og fór að Fagurhólsmýri, en þangað var bróðir minn fluttur og þar lá hann slasaður þangað til hægt var að flytja hann til Reykjavíkur.
Hann bróðir minn var alveg mállaus og máttlaus öðru megin, en hann gat látið pabba vita um veskið sitt og pappíra undir koddanum. Því hafði hann hug á, þó hann væri svona á sig kominn. Síðan var það Matthías sem skar bróður minn upp, en hann kom síðan heim eftir mánuð. Þá var hann byrjaður að tala aftur og ganga svolítið. Pabba fannst hann því standa í þakkarskuld við Matthías Einarsson lækni, fyrir utan það að þeir þekktust áður.

Og klukkan tók undir
ReykdalEin klukkan fór þannig til Matthíasar sem þakklætisvottur en hin klukkan fór til mömmu.
Þá var ein klukka eftir og hún var búin að vera niður í verksmiðju í mörg ár. Árið 1944 hringdi pabbi í mig og spurði, hvort ég hefði ekki pláss fyrir klukkukassann. Hann sagðist vera í vandræðum með hann, því að þeir væru að laga til í verksmiðjunni. „Enda hefi ég alltaf ætlað þér hann”, sagði hann. Ég hélt nú að ég skyldi taka við honum. Síðan vildi svo til, að tveimur eða þremur vikum síðar brann verksmiðjan þannig að þá hefði klukkan glatast. Við fengum Magnús Guðlaugsson, úrsmið, til að panta klukkuverk í hana eftir stríðið og þá var klukkan sett upp. Það er eins og ég segi: Þetta er sálin mín.”
Um leið og ég þakkaði fyrir mig og kvaddi, tók stóra klukkan í horninu hennar Elísabetar undir með dimmum og virðulegum tónum.” – J.Kr.G.

Elísabet Reykdal fæddist á Setbergi Garðahreppi 17. desember 1912. Hún lést á Sólvangi 21. desember 2013.
Elísabet bjó á Setbergi nær alla sína ævi fyrir utan nokkur ár í æsku á Þórsbergi, nýbýli úr Setbergslandi sem Jóhannes faðir hennar byggði. Síðustu fimm æviárin dvaldi hún á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi í jaðri Setbergs. Skólaganga Elísabetar var ekki löng, hún var einn vetur í Flensborg og einn vetur í Kvennaskólanum í Reykjavík. Elísabet og Einar Halldórsson hófu búskap á Setbergi á fardögum vorið 1938 og allt þar til að Einar lést, og í samstarfi við syni sína þar til búskapur lagðist af að mestu árið 1985. Á efri árum ferðaðist Elísabet mikið bæði innan og utan, oft ein en líka með systurdóttur sinni, Ragnheiði Hermannsdóttur. Ferðaðist Elísabet til allra heimsálfa nema Suðurskautslandsins.

Setberg

Mikið tjón í bruna að Setbergi í Garðahreppi í gær, Þjóðviljinn 5. sept. 1965, bls. 1.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 36. tbl. 18.12.1991, “Hornið í stofunni er sálin mín”, Jólaviðtal við Elísabetu Reykdal á Setbergi, bls. 8-9.

Flóðahjalli

Í Morgunblaðinu, blaði B, 2002, fjalla Þorkell Jóhannsson og Óttar Kjartansson um “Tóftina á Flóðahjalla og horfna tíð í Urriðakoti“:

Þorkell Jóhannson

Þorkell Jóhannsson.

“Ný tegund tófta hér á landi eru leifar mannvirkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu.
Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson kynntu sér tóft þessarar gerðar sem er í Setbergslandi, á Flóðahjalla, sunna eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftir á Íslandi hafa verið flokkaðar í tvo meginflokka; húsatóftir (tóftir íveruhúsa og peningshúsa af ýmsu tagi) og tóftir margvíslegra skýla (tóftir sæluhúsam skothúsam brunnhúsa, myllukofa eða fjárborga og fjárrétta svo að dæmi séu tekin). Ný tegund tófta hér á landi er að kalla tóftir mannvrkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu. Ein tóft þessarar gerðar er í Setbergslandi á Flóðahjalla sunnan eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftin hefur vakið athygli okkar á reiðferðum um landið í kring og þá ekki síst vegna stærðar sinnar. Segja má, að tóftin „hafi ekki látið okkur í friði“ og því hafi skrif þessi orðið til.

Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Í Urriðakoti var áður sveit, en þar er nú útivistarsvæði borgarbúa – og í vændum er mikil byggð og þar á meðal bygging tæknigarða, ef trúa má fréttum (Morgunblaðið 27.6.2001). Segja má að sú gerbreyting á landnýtingu og lífsháttum, sem hér hefur orðið á síðustu áratugum, hafi fylgt í kjölfar hernáms Breta 1940. Við höfum þess vegna einnig freistast til þess að hyggja lítillega að horfinni tíð á þessum slóðum.

Flóðahjalli

Flóðahjalli

Flóðahjalli er grágrýtisrani (sjá yfirlitskort), sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Allbreitt skarð skilur Flóðahjalla til suðausturs frá Sandahlíð, sem er hæsti hluti Setbergshlíðar. Flóðahjalli er hæst um 125 m yfir sjávarmáli og Sandahlíð er svipuð á hæð. Skarðið á milli er í um það bil 100 m hæð. Þar liggur nú háspennulína til Straumsvíkur og línuvegur meðfram. Skarðið nefnist Klif, en var þó aldrei ferðaleið. Vel mætti því vera að skarðið hefði upphaflega kallast „klyft“ (þ.e.a.s. klauf í hæðarhrygginn).

Flóðahjalli

Flóðahjalli – mannvirki.

Norðaustanvert á Flóðahjalla er markagirðing milli Urriðakots og Setbergs. Þar hefur land greinilega blásið, en í verið sáð lúpínu. Sækir hún nú ört upp hjallann og að tóftinni. Norðan við heitir Urriðakotsdalur og Hraunflatir næst Búrfellshrauni. Þar hafa Oddfellowar eftir 1990 gert stóra og vel búna golfvelli á sínu landi (sjá á eftir), og var þar golfskáli risinn þegar 1992.

Oddsmýrardalur

Oddsmýrardalur.

Suðvestan undir Flóðahjalla, milli hans og Svínholts og Setbergsholts, er Oddsmýri, en Oddsmýrardalur er til suðurs. Oddsmýri hefur verið ræst fram og þar verið ræktuð tún frá Setbergi. Mýrin hefur án efa verið mjög blaut og gæti einhvern tíma hafa verið verið kölluð „flóð“ og af því sé nafngiftin Flóðahjalli dregin. Eldri og væntanlega réttari nafngift er Flóðháls. Frá mýrinni rennur Oddsmýrarlækur í Urriðakotsvatn (Urriðavatn). Í Oddsmýrardal,   skammt innan við Oddsmýri, er beitarhúsatóft frá Setbergi. Þaðan er þægilegt að ríða eða ganga inn í botn Oddsmýrardals og svo áfram línuveginn til norðurs upp Klifið og síðan út eftir hjallanum að fornri og nokkuð hruninni vörðu fremst á Flóðahjalla (vafalaust hádegiseyktarmark frá Urriðakoti). Tóftin er nokkru framan við háhjallann, um það bil miðja vegu milli hans og vörðunnar. Þaðan er víðsýnt, ekki síst yfir Hafnarfjörð og nágrenni. Flóðahjalli er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu og þar má einnig ganga eða ríða upp hálsinn beina leið að tóftinni.

Urriðavatn

Urriðavatn í nútíma.

Norðaustan undir Flóðahjalla þar, sem heitir Flóðahjallatá, liggur svokallaður Flóttamannavegur, öðru nafni Elliðavatnsvegur eða Vatnsendavegur. Milli vegarins undir Flóðahjallatá og Urriðakotsvatns heitir Dýjamýri austar, en Þurramýri vestar. Dýjakrókar heita fjær undir Urriðakotshálsi (ranglega nefndur Urriðaháls í Mbl. 27.6.2001). Þar eru uppsprettur og úr þeim rennur Dýjakrókalækur vestur Dýjamýri í Þurramýrarlæk, á mótum Urriðakots og Setbergs, og svo í vatnið. Eru lækir þessir ásamt Oddsmýrarlæk helsta aðrennsli í vatnið ofan jarðar. Ef vernda á lífríki Urriðakotsvatns, ekki síst eftir að byggð færist nær beggja megin vatnsins, er því nauðsynlegt að friða bæði Dýjakróka og mýrlendið að sunnanverðu við vatnið.
Frárennsli úr vatninu er í norðvesturhorni þess í landi Setbergs. Rennur þaðan lækur, Stórakrókslækur, nú að mestu í rásum og stokkum, sem sameinast Hamarskotslæk (Hafnarfjarðarlæk) neðan og vestan við Setberg. Gekk áður sjóbirtingur í lækinn, en hann hvarf eftir virkjunarframkvæmdir Jóhannesar Reykdals, síðar á Setbergi (föður Elísabetar Reykdals, sjá síðar) árið 1904. Jóhannes Reykdal var frumkvöðull um rafvæðingu hér á landi sem kunnugt er.
Austan Urriðakotsvatns stóð bærinn í Urriðakoti í grónu túni. Túnið er enn grænt, en bæjarins sér nú lítinn stað. Hádegisholt og varðan á því hefur vissulegs blasað vel við frá bænum og útsýni er sömuleiðis gott af holtinu í átt að bæjarstæðinu).
Á Urriðakotshálsi voru á stríðsárunum nokkuð stórar herbúðir Bandaríkjamanna. Þær sjást allvel á loftmynd frá l954 og enn má sjá þar húsgrunna og steinsteypuleifar frá þeim tíma. Það er víst einmitt hér, sem hinir nýju tæknigarðar skulu rísa.

Tóftin

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

Tóftin er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla eins og áður segir. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans.
Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þeir hafa því riðlast umtalsvert í áranna rás. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin furðustór að flatarmáli eða nærri 800 m².

Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Verða þannig til tvö lítil ferhyrnd rými (ca. 2,5x 4 m og ca. 3×1,8 m að innanmáli; og eitt hringlaga (ca. 4 m að innanmáli;). Í öðru ferhyrnda rýminu fundum við leifar af timburfjölum og utan við hringlaga rýmið fundum við ryðgaða járnplötu, 1×1 m, með ca. 8 cm háum hnúð eða pinna á í miðju, en alls ekkert annað, sem bent gæti til mannvistar.
Á klöppinni syðst eru nokkrar stafristur. Þar teljum við ótvírætt að höggvið hafi verið ártalið 1940, fangamarkið D.S. og væntanlega mannsnafnið J. E. Bolan. Þessi stafagerð er öll með sama breiða lagi. Auk þess má greina fangamörkin J.A. og G.H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940.

Elísabet Reykdal

Elísabet Reykdal.

Elísabet Reykdal (f. 1912), sem alla tíð hefur búið á Setbergi, man vel eftir komu Breta í Hafnarfjörð sumarið 1940, og hún var í nábýli við þá og síðar Bandaríkjamenn. Hún minnist þess, að Bretar voru með gervifallbyssur (símastaura?) á Setbergshamrinum. Hún man einnig vel eftir Bretunum á ferð í einhvers konar beltabílum („einhvers konar smáskriðdrekar“) á vegaspottunum milli Setbergs og Urriðakots (þetta hafa verið svokallaðir Bren Gun Carriers). Telur hún líklegast, að Bretarnir hafi farið á bílunum upp á Flóðahjalla. Hún þvertekur fyrir, að Íslendingar hafi komið þar að verki.
Af bók prófessors Þórs Whiteheads, Bretarnir koma, má ráða, að meðal þeirra staða, sem Bretar óttuðust mest, að Þjóðverjar myndu nota til landtöku hér, voru lendingarstaðir flugvéla á Sandskeiði og í Kaldaðarnesi og höfnin í Hafnarfirði. Strax hernámsdaginn (10. maí) voru hermenn sendir upp á Sandskeið og austur yfir Fjall í svo ólíkindalegum herflutningatækjum og hvítar Steindórsrútur voru.

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Til Hafnarfjarðar voru hermenn fyrst sendir fáum dögum síðar og svo að marki 18. maí, þegar liðsauki hafði borist til landsins með tveimur stórum herflutningaskipum. Þá voru fluttir 700 hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga sjóleiðis til Hafnarfjarðar. Þessir hermenn höfðu þó ekki strax yfir að ráða Brenvögnum, þar eð slík farartæki komu fyrst til landins í júlí um sumarið (9; bls. 132 og 212). Þór Whitehead telur því einsýnt, að hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga hafi gert mannvirkið á Flóðahjalla. Hafi tilgangurinn verið sá að efla varðhöld og vígstöðu við Hafnarfjörð til þess að mæta hugsanlegri innrás Þjóðverja. Ótvírætt er, að Bretar óttuðust mjög landgöngu Þjóðverja í Hafnarfirði, ef svo bæri við. Í bók Þórs er þannig mynd (mynd 40), sem sýnir menn úr herfylki Wellingtons hertoga á æfingu á holti við Hafnarfjörð. Í texta við myndina segir m.a.: „Bærinn var talinn einn líklegasti landgöngustaður þýsks innrásarliðs og Bretar gerðu ráðstafanir til að sprengja Hafnarfjarðarhöfn í loft upp“.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – minjar.

Öðrum okkar (Þ.J.) hefur nú borist svar við fyrirspurn til aðalstöðva herfylkis Wellingtons hertoga þess efnis, að tóftin („the stone defence work mentioned“) hafi verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons og tilgangurinn hafi verið svipaður og Þór Whitehead telur („…to cover open ground, which might have been used by enemy parachutists, road approaches to the town and, possibly, likely landing places on the coast“).
Þessar upplýsingar eru byggðar á ritaðri frásögn eins þeirra hermanna, sem þarna komu við sögu og er enn á lífi. Í ljósi þessara upplýsinga þykir okkur líklegt, að byssustæði hafi verið í hringlaga rýminu (járnplatan leifar af því?) og einhvers konar vistarverur hefðu getað verið í ferhyrndu rýmunum (fjalaleifarnar leifar af timburgólfi?).

FlóðahjalliUrriðakot var áður konungseign og síðar ríkiseign, en komst í einkaeign 1890. Alþingishátíðarárið 1930 bjuggu þar og höfðu búið í áratugi hjónin Guðmundur Jónsson (1866–1941), frá Urriðakoti, og Sigurbjörg Jónsdóttir (1865–1951), frá nágrannabænum Setbergi og áttu þau jörðina. Þau eignuðust 12 börn og er frá þeim mikill ættbogi kominn.
Samkvæmt Fasteignabók 1932 var bústofn þeirra 140 sauðkindur og 5 kýr og auk þess 2 hross. Voru þá einungis fjórir bændur í Garðahreppi og aðliggjandi hreppum (Seltjarnarneshreppur, Bessastaðahreppur og Vatnsleysustrandarhreppur), sem voru fjárríkari en þau hjón og þar af einungis tveir, sem áttu að marki fleira fé en þau. Fimm kýr þótti og álitleg nautgripaeign í þá daga. Er því nokkuð ljóst, að Urriðakotshjón hafa orðið að halda vel á spöðunum til þess að sjá bæði bústofni sínum og sér og sínum börnum farborða.

Urriðakot

Urriðakot.

Í Urriðakoti og nágrannabæjunum þar, sem sauðfjáreign var umtalsverð, byggðist sá búskapur mjög á útibeit. Voru þá höfð fjárhús ýmist heima við bæ eða beitarhús frá bæ þar, sem útibeit þótti góð. Sauðaeign var einnig veigamikill liður í fjárbúskap í þá tíð, en sauðir voru jafnan látnir ganga nær sjálfala úti árið um kring. Jón Guðmundsson á Setbergi (1824–1909), faðir Sigurbjargar í Urriðakoti, var einn mesti fjárbóndi, sem sögur fara af hér um slóðir. Hann átti og fleiri sauði en allir aðrir. Í æviþætti af honum segir: „Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar.“

Urriðakotshraun

Fjárhústóft Guðmundar í Urriðakotshrauni.

Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum. Áður hafði Guðmundur vanið sauði sína við veglegra fjárbyrgi, sem er skammt sunnan línuvegarins í hrauninu.
Ef Guðmundur í Urriðakoti mætti nú rísa úr gröf sinni og skunda um Urriðakotsland, myndi honum án efa finnast púttarar í námunda við beitarhús sín og grillarar í námunda við sauðaskúta sinn framandlegir menn og óvelkomnir á sínu landi. Ef þeir hinir sömu skyldu hins vegar sjá mann koma hlaupandi við fót (Guðmundur í Urriðakoti var með afbrigðum léttstígur), er eins víst, að þeim yrði líkt við. Og þó! Þeim myndi án efa falla allur ketill í eld, þótt ekki væri nema vegna klæðaburðar mannsins. („Þótt snjór væri eða bleyta var hann alltaf á kúskinnsskóm og án yfirhafnar hvernig sem viðraði.“) Mjólkin úr kúnum var mjög spöruð heima fyrir og var hún vafalaust drýgsta tekjulind búsins. Var mjólkin seld til Hafnarfjarðar og flutt á reiðingi allt fram undir 1930, að ökufær vegur var lagður milli Urriðakots og Setbergs. Um líkt leyti var tekið að nota heygrind til heyflutninga, en sláttuvél eignaðist Guðmundur aldrei.

Urriðakot

Urriðakot – örnefni.

Eitt var sérlega athyglisvert í tengslum við heyskap í Urriðakoti, en það var nýting fergins (tjarnarelftingar), sem óx í vatninu. Fergin er nú horfið í vatninu og því miður er engin mynd til af því sérstaka verklagi, sem tengdist nýtingu þess. Um þetta farast Guðmundi Björnssyni svo orð: „Ferginið stóð ca. 30 cm upp úr vatninu og glitti í það á köflum. Við sláttinn voru menn á þrúgum úr tunnustöfum eða klofháum stígvélum og höfðu nót á milli sín. Með gaffli var því skóflað í land og síðan þurrkað á svokallaðri Ferginisflöt. Það var svo gefið kúm sem fóðurbætir.“
Svo mikill var þessi ferginsheyskapur í vatninu, að hann nam 40–50 hestburðum (ekki tíundað sérstaklega í Fasteignabók 1932). Voru kýrnar sólgnar í þennan „fóðurbæti“ og hafa án efa verið vel haldnar og í góðri nyt.
Ferginið í Urriðakotsvatni var með vissu slegið 1952. Engin bein skýring er hinsvegar á því hvers vegna fergin er nú horfið úr vatninu. Talið er, að það hafi horfið eftir 1973–1974 og orsökin hafi verið breytingar á frárennsli vatnsins. Önnur skýring kann þó að liggja beinna við, sem sé að vöxtur og viðgangur fergins í vatninu hafi verið háður því að það væri slegið reglulega.

Lok búskapar í Urriðakoti

Urriðakot

Urriðakot – Dagmálavarða.

Þau Guðmundur og Sigurbjörg hættu búskap í Urriðakoti 1935. Þau voru þó áfram í Urriðakoti með 20–30 kindur. Jörðina leigðu þau dóttur sinni og tengdasyni. Um mitt ár 1939 seldu þau tveimur sonarsonum sínum jörðina og fluttust alfarin frá Urriðakoti 1941. Að heimsstyrjöldinni lokinni komst jörðin í eigu Oddfellowa.
Eftir það bjuggu ýmsir á jörðinni fram undir 1960. Þá fór jörðin endanlega í eyði og skömmu síðar brann bærinn þar.
Sú verðbólga, er hófst í landinu í kjölfar hernáms Breta, gleypti andvirði jarðarinnar og urðu Guðmundur og Sigurbjörg þá eignalaus. Auður þeirra fólst því í börnum þeirra og öðrum afkomendum líkt og hefur orðið hlutskipti fjölmargra annarra, sem hafa séð eignir sínar fuðra upp í verðbólgubáli.
Sonarsynir Urriðakotshjóna, sem jörðina keyptu, fengu í desember 1944 nafni jarðarinnar breytt í Urriðavatn. Það var óþarfaverk að breyta fornu nafni jarðarinnar. Nafninu Urriðakoti er því haldið hér í samræmi við örnefnalýsingu Svans
Pálssonar frá 1978.”

Heimild:
-Morgunblaðið, blað B, 13.01.2002, “Tóftin á Flóðahjalla og horfin tíð í Urriðakoti”, Þorkell Jóhannson og Óttar Kjartansson, bls. 10-11.

Urriðakot

Urriðakot – upplýsingaskilti.

Garðar

Gísli Sigurðsson skrifar um “Garða á Álftanesi” í Alþýðublað Hafnarfjarðar 1972:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

“Lengi hefur það verið rnér undrunarefni, hve fáskrúðugar eru sagnir úr landnámi Ingólfs Arnarsonar hér við Faxaflóa. Segja þó bækur, að Ingólfur hafi verið frægastur allra landnámsmanna. Verður og ekki annað sagt um þá frændur, en þeir hafi frægir orðið: Þorsteinn sonur hans stofnar fyrstur til þinghalds og hurfu margir að því ráði með honum, Þorkell máni sonur Þorsteins var lögsögumaður og um hann hafa myndast næstum því helgisögur, og niðjar þeirra í karllegg voru allsherjargoðar og helguðu alþing á hverju ári. Séu nú sagnirnar héðan úr umhverfinu athugaðar, sjáum við, að mikið tóm blasir við okkur.
Hrafna-Flóki og þeir félagar koma við hér í Hafnarfirði, þegar þeir halda brott eftir misheppnaða tilraun til landnáms.
Þá kemur Ingólfur Arnarson og nemur hér land og setur bústað sinn í Reykjavík. Gaf hann síðan land frændum sínum og vinum, er síðar komu. Um landnám næsta nágranna segir Landnámabók: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. — Líklega hefur Ásbjörn komið hingað á árunum 890 til 900, en þá var hingað mest sigling.
Síðan líða um 300 ár, að því nær ekki er minnzt á þetta landssvæði. Þá segir svo í kirknatali Páls biskups, en það er tekið saman nálægt 1200: Þá er Hafnarfjörður og þá er Álftanes. Kirkja í Görðum og á Bessastöðum.

Garðar

Garðar og nágrenni.

Viðfangsefni mitt nú er að ræða lítilsháttar um annan þessara staða; Garða á Álftanesi.
Áður en lengra er haldið, skulum við staldra við frásögn Landnámuum Ásbjörn Össurarson. Landnám hans nær milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, það er yfir Álftaneshrepp hinn forna, það svæði, sem nú skiptist í Álftaneshrepp, Garðakauptún, Hafnarfjörð og Hraunin.
Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, er sagt. En hvar voru Skúlastaðir? Af þeim fáu nöfnum, sem kunnug eru héðan úr nágrenninu frá fornri tíð, eru nokkur, sem enginn veit nú hvar eiga við. En það verður að teljast með einsdæmum, að nafnið á bústað landnámsmanns sé glatað.

Garðar

Garðar árið 1900.

En eru, þá nokkur líkindi til, að þann stað megi finna, sem Ásbjörn bjó á, Skúlastaði? Nokkuð sérstætt er nafnið. En það kemur á óvænt, því að hvergi verður Skúla-nafnið fundið meðal frænda Ingólfs eða afkomenda þeirra. Engum blöðum er um það að fletta, að býlið hefur verið einhvers staðar á svæðinu milli Hraunshoitslækjar og Hvassahrauns. Nokkuð öruggt er, að bústaðir landnámsmanna verða er fram líða stundir höfðingjasetur og flestir kirkjustaðir. Til þess að verða höfðingjasetur og kirkjustaður þurfti jörðin að vera allstór, ekki minni en 40 hundruð, segja mér fróðir menn. Hvar er þá þessa lands, þessa stóra staðar að leita hér í umhverfi okkar? Sunnan fjarðar er slíkan stað varla að finna. Ofanbæirnir koma naumast til greina, og þótt búsældarlegt hafi oft verið um Álftanes sjálft, þá stöldrum við varla við þar. Til dæmis eru Bessastaðir ekki nema 8 hundruð að fornu mati. Þá er ekki nema einn staður, sem nefna mætti stóran stað og þar sem síðar verður kirkjustaður með höfuðkirkju. Staður sá, sem mér finnst líklegastur til að hafa verið Skúlastaður og bústaður Ásbjarnar, er því Garðastaður. Héðan er fagurt að sjá til allra átta. Hér er gróðursæld og hér er gjöfull sjór fram undan. Í upphafi kristniboðs á Íslandi var þeim höfðingjum, er kirkjur reistu, lofað, að þeir skyldu hafa svo mikil mannaforráð á himnum sem menn rúmuðust í kirkju þeirra. Varð því margur höfðinginn til þess að reisa kirkju á bæ sínum. Til þess að reisa slík hús sem kirkjur voru þurfti og nokkur efni. Þá þurfti kirkjueigandinn að halda prest, en slíkir prestar voru oft eins konar vinnumenn höfðingja.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

En hafi nú nafnið Skúlastaðir horfið fyrir nafninu Garðar, hver var þá orsökin? Fróðir menn segja mér, að margt bendi til, að allmikil akuryrkja hafi verið stunduð hér um slóðir, um allt Álftanes, allt fram undir siðaskiptin um miðja 16. öld. Benda þar til nokkur örnefni, svo sem Akurgerði í Hafnarfirði, Akrar við Breiðabólstaði og Akurgerði þar í túni, Tröð, sem er bær á nesinu, og Sviðholt, en því er það nafn, að jörð var þar brennd eða sviðin undan sáningu. Þá er hér einnig víða að finna örnefni eins og Gerði og Garða. Þannig voru akrar varðir til forna, að kringum þá voru hlaðnir garðar, bæði til skjóls og til varnar ágangi fénaðar. Geta má þess til, að Ásbjörn og afkomendur hans hafi látið gera akra og haft akuryrkju ekki litla, garðar miklir hafi verið hlaðnir, og þannig hafi Skúlastaðanafnið grafizt undir görðum og hafi þá orðið til Garðar á Álftanesi. Og staðreynd er, að hér var um aldir stór staður og prestssetur.
Næst eftir að getið er um Garða i kirknatali Páls biskups, er þeirra minnzt í Sturlungu, þar sem segir, að 1264 hafi Gissur jarl riðið á Kjalarnes og gist að Einars bónda Ormssonar í Görðum. Var honum þar vel tekið og var hann þar nokkrar nætur.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Leitukvennabásar.

Þá er þess getið næst, að þrír menn í Grindavík bera vitni um reka Garðastaðar 1307: Garðastaður á reka bæði rekaviðar og hvalreka á fjörum austan við Ísólfsskála milli Rangjögurs og í Leitukvennabása. Þegar þetta gerðist, er hér þjónandi prestur séra Jón Þórðarson, en herra Haukur hafði þá sýslu.

Garðakirkja

Garðakirkja 1925.

Enn líður nokkur tími eða fram undir aldamótin 1400. Þá tekur nokkuð að rofa til. 1395 lætur Vilchin biskup í Skálholti gera máldaga flestra kirkna í Skálholtsbiskupsdæmi. Ég held að segja megi, að þá sé staðurinn i Görðum og kirkjan nokkuð vel sett að andlegum hlutum og veraldlegum. Er ekki úr vegi að taka hér upp þetta ágæta plagg, máldaga Garðakirkju.
Péturskirkja í Görðum á Álftanesi á heimaland allt, Hausastaði, Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland, afrétt í Múlatúni. 18 kýr, 30 ásauða, 7 naut tvævetur, 6 naut veturgömul, 2 arðuryxn. 6 hross roskin, 16 hundruð í metfé. 10 sáld niður færð. 6 manna messuklæði, utan einn corporale brestur, og að auki 2 höklar lausir, annar með skínandi klæði, en annar með hvítt fustan. 3 kantarakápur, 2 altarisdúkar búnir. 6 altarisklæði og eitt skínandi af þeim. 2 dúkar stangaðir. 2 fordúkar. Skrínklæði lítið. 3 sloppar. Smelltan kross og annan steindan fornan. Koparskrín gyllt. Huslker af silfri. Gylltan kross lítinn. Paxspjald steint. Brík yfir altari. Kertastikur 3 úr kopar. Járnstikur 2. Bakstursjárn vont. Item sæmiiegt Ampli. Klukkur 5. Kaleikar 3, 2 lestir og hinn þriðji forgylltur. Maríuskrift. Pétursskrift. Merki eitt. Sakrarium mundlaug. 1 stóll. 2 pallkoddar. Fornt klæði og skírnarsár. Tjöld vond um kór og dúklaus. 2 reflar vondir um framkjrkju. Glóðarker. Graduale per anni circulum. Lesbækur út 12 mánuði þar til pistlar og guðspjöll, per anni circulum með collectario. Liber Evangeliorum. Omilie Gregorii Actis Apostolorum. Apocalipsis. Passionarius Apostolorum et eliorum santcorum. Altarisbók, Psaltari. Söngbók de tempore frá páskum til adventu. Forn sequentiubók. Messufatakista ólæst. Eins og vænta mátti er hér um eitt bezta heimildargagn að ræða.

Garðar

Garðar fyrrum.

Hér er í fyrsta skipti getið þeirra býla, er heyra staðnum til: Hausastaðir, Selskarð, Hlið, Bakki, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland og upprekstur í Múlatún. Til skýringar á Hjallalandi vil ég geta þess, að hér mun átt við svæði sunnan Grunnuvatna milli Sneiðinga innst á Vífilstaðahlíð og landamerkja Vatnsenda, skammt vestan til við fjárborgina góðu, Vatnsendaborg. Þá er vert að veita því athygli, að getið er um 2 arðuryxn gömul. Arðuryxn geta ekki verið annað en yxn, sem draga arð, plóg við akuryrkju. 10 sáld niður færð! Getur hér varla verið um annað að ræða en að sáð hafi verið korni úr 10 sáldum. Hér hefur þá verið nokkur akuryrkja á staðnum.
Og hvað um kirkjubúnaðinn? Er hann ekki sæmilegur? Myndum við ekki verða hýrir á svip, ef fyrir framan okkur lægju gripir þessir. En látum okkur nægja að sjá þá aðeins með innri sjónum.
Frá árinu 1477 er til ágrip af máldaga. Ber honum það sem hann nær algerlega saman við Wilchinsmáldaga. Þó er kirkjan orðin einu messuklæði fátækari.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Næst verður fyrir okkur fróðlegt bréf frá 1558 um viðskipti staðarins við hans Majestet konunginn og umboðsmann hans. Er það all-fróðlegt: Eg Knut Stensen, kongleg Majestetz Byfalingsmaður yfir allt Ísland, kennist með þessu mínu bréfi, að ég hef gjört svoddan jarðaskipti upp á konglig Majestetz vegna við síra Loft Narfason, kirkjunnar vegna í Görðum á Kongsnesi, að ég hef undir kongsins eign til Bessastaða tekið jörðina Hlið er liggur á Kóngsnesi, er þar í landskyld í málnytukúgildi og ein mjöltunna. En þar hefur hann fengið til kirkjunnar í Görðum Viðeyjarklaustursjörð, er heitir Vífilsstaðir í Bessastaðasókn. Tekst þar af landskylda og málnytukúgildi. Og fyrir mismun landskyldanna hefi ég lofað og tilskikkað fyrrnefndum síra Lofti eður Garðakirkju umboðsmanni eina tunnu mjöls á Bessastöðum, að hún takist þar árlega af kóngsins mjöli.
Skal það fylgja hvorri jörð, sem fylgt hefur að fornu og nýju. Skulu þessi jarðaskipti óbryggðanlega standa og vera hér á báðar síður, utan konglig Majestet þar öðruvísi umskipti á gjörir eða skykkan. Samþykkti þessi jarðaskipti herra Gísli Jónsson Superindentent yfir Skálholts stikti. Og til staðfestu og auðsýningar hér um, að svo í sannleika er sem hér fyrir skrifað stendur, þrykki ég mitt signet á þetta jarðaskiptabréf. Skrifað á Bessastöðum 4. dag júlí-mánaðar, Anno Domini 1558. Þá kemur neðan máls ekki ófróðleg klausa um viðskipti við Konglega Majestet og hans Byfalingsmenn. Þessa mjöltunnu hafa prestar í Görðum misst síðan í tíð höfuðsmanns Einvold Krus af óvild, inn féll milli hans og síra Jóns Krákssonar í Görðum.

Steinhes

Steinhes.

Að þetta ofanritað sé rigtug og orðrétt Copia eftir originalnum og höfuðsmannsins bréf vottum vér sem saman lásum og originalinn sjálfan með undirsettu innsigli höfuðsmannsins Knutz Steinssonar sáum og yfirskoðuðum að Görðum á Kóngsnesi 19. júní anno 1675.
Það næsta, sem fyrir okkur verður varðandi Garðakirkju og Garðastað, er að finna í Visitasíubók hans herradóms Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 19. sept. 1661 og fjallar um lögfesti á landamerkjum Garðastaðar: Landamerki Garðastaðar eftir lögfesti síra Þorkels eru þessi: Syðri Hraunbrún hjá Norðurhellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri í miðjan Kethelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi, svo beint úr Steinhesinu og upp í Syðri-Kaldárbotna og allt Helgafell og í Strandartorfur og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól og úr Hnífhól og heim í Arnarbæli. Datum Bessastöðum 1661 Jónsmessudag sjálfan.

Jón Halldórsson og Jón Jónsson

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Item lagði nú síra Þorkell Arngrímsson fram vitnisburðarbréf síra Einars Ólafssonar og Egils Ólafssonar og Egils Einarssonar með þeirra áþrykktum innsiglum, datum Snorrastöðum í Laugardal næstan eftir Maríu-messu á jólaföstu anno 1579, að Garðastaður ætti land að læknum fyrir sunnan Setberg, sem er sá lækur sem rennur milli Stekkatúns og Setbergs og allt land að þeim læk, er menn kalla Kaplalæk. Og það Stekkatún, sem er sunnan við greindan læk, byggði síra Einar ætíð með Hamarskoti, og með sama hætti þeir sem enn fyrr bjuggu í Görðum en hann, og aldrei heyrði hann þar orðtak á að Setberg ætti nokkurt ítak í Hamarskotslandi eður neinstaðar í Garðalandi.
Þessu næst koma svo útdrættir gerðir af síra Árna Helgasyni.

Um Garðastað

Fiskaklettur

Fiskaklettur.

Kirkjan á einnig Hjallaland og afrétt í Múlatúni, bæði eftir vísitazíu og máldögum. Plagg þetta er frá 25.8.1780. Þá er vitnað til bréfs undirskrifaðs 1701, og er svo hljóðandi: Nú koma nokkrar afskriftir af máldögum Garðakirkju og þar á meðal eitt er kallast: Nýtt Registur 1583. Svo hljóðandi: Kirkjan í Görðum á Álftanesi á 20 kúgildi, einn hest. Þessar jarðir: Ás, Setberg, Vífilsstaði, Dysjar, Nýjabæ, Selskarð, Akurgerði, Hlið, Hamarskot, Bakka, Hausastaði, Pálshús, Oddshús, Hraunsholt.
Hvernig Ás og Setberg er undan gengið veit ég ekki, né heldur hvar Oddshús hafa verið. Síðan koma skriftir um skóga og skógaítök og svo undirskriftir. Það fer eins fyrir mér og séra Árna. Ekkert veit ég um Ás utan það, að 1703 á konungur hluta jarðarinnar. En það held ég að ég viti um Setberg, að það sé ein sú jörð, sem slapp í gegnum netið, að hvorki lenti í eigu nokkurrar kirkju né í eigu Viðeyjarklausturs. Hún var alltaf bændaeign. Oddshús tel ég aftur á móti að hafi verið þar sem síðar var Oddakot. Oddakot var austast á eyju þeirri, sem nefnzt hefur Hliðsnes. Má þar enn sjá marka fyrir rústum kotsins. Til skamms tíma lifði hér í Hafnarfirði fólk, sem borið var og barnfætt Í Oddakoti.

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Eftir að Árni biskup Helgason gerir á margvíslegan hátt hreint fyrir sínum dyrum og kirkjunnar í Görðum með upprifjunum og afskriftum af bréfum og máldögum staðarins, er hljótt um stund, eða allt þar til hingað kemur sá mæti klerkur Þórarinn Böðvarsson. Hann hafði ekki lengi setið staðinn, er hann hóf að grannskoða, hvernig háttað væri um eignir Garðastaðar. 1871 fær hann settan rétt til að rannsaka, hve mikið land tilheyrði verzlunarlóðinni, lóð Akurgerðis, sem upphaflega var hjáleiga frá Görðum. En 1677 höfðu farið fram með vilja konungs makaskipti á hjáleigunni og jörð vestur í Kolbeinsstaðahreppi. Bjarni riddari Sivertsen hafði keypt jörðina af konungi, en Knudtzon stórkaupmaður keypti af dánarbúi Bjarna. Munu engin mörk hafa þar verið sett í milli. Vitnisburðir þeir, sem fengust við þessa athugun, eru gagnmerkir, en verða ekki upp teknir hér nú. Eftir að rannsókn hafði farið fram, var málið lagt í dóm — eða til sáttar. Sú sáttargjörð var svo birt árið 1880. Voru þá landamerki samin milli fyrrum hjáleigunnar Akurgerðis og Garðakirkjulands. Voru þau þessi: Fyrst: Klöpp undir brúnni yfir lækinn niðri í fjöru. Varða á svonefndum Ragnheiðarhól. Varða hjá bænum Hábæ í Hrauni. Varða ofanvert við Hólsbæina á Stakkstæði. Varða hjá Félagshúsinu, rétt við Fjarðarhelli. Varða hjá Veðurási. Varða á hól vestan Kristjánsbæjar, og þaðan beina línu í Fiskaklett.
HafnarfjörðurNokkra skýringu munu þessir staðir þurfa. Klöppin undir brúnni: Klöpp þessi liggur nú undir austurvegg Pósthússins í Hafnarfirði.
Ragnheiðarhóll: Þar er nú risið hús Olivers Steins. Hábær: Hann stóð þar sem nú eru Rafveituskrifstofur.
Varða ofan Hólsbæjar var við húsið nr. 2 við Urðarstíg. Félagshúsið er nr. 7 við Hellisgötu. Veðurás eru húsin nr. 9 og 11 við Kirkjuveg. Varðan vestan Kristjánsbæjar: Við hana er Vörðustígurinn kenndur, og er hún eina merkið, sem enn stendur. Og Fiskaklettur stendur enn snoðinn nokkuð rétt við Vöruskemmu Eimskipafélags Íslands. Sú trú er nú kominn á þann klett, að ógæfumerki sé að hrófla við honum.
Eftir þetta verða litlar breytingar á högum Garðakirkjulands, eða allt þar til að Hafnarfjörður fær kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. En þá og nokkru síðar verða miklar breytingar, sem er mjög langt mál og allflókið.
Að síðustu verður hér litið yfir landamerki þau, sem gerð voru á árunum kringum 1890.

Landamerki

Arnarbæli

Arnarbæli – varða ofan Grunnuvatna.

Merki á landi Garðakirkju á Álftanesi, samkv. máldögum og fornum skjölum.
1. Á móti Oddakoti í miðjan Ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarðinn.
2. Úr Ósnum norður í Hól hjá Skógtjörn, og er þar hlaðin merkjavarða, þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólnum hjá Núpsstíflum, þar er hlaðin merkjavarða.
3. Þaðan út í miðja Tjörn, Lambhúsatjörn, þá sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns, og í miðjan tjarnarósinn í mynni Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum upp í Stóra-Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina upp í Dýjakrók (3. sept. 1870) og þaðan í mitt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýrina, beina línu suður í Arnarbæli, þaðan í austur-landsuður upp í Hnífhól, þaðan í austur-landsuður í mitt Húsfell. Úr miðju Húsfelli beint til suðurs í Efri-Strandartorfur, þaðan beint í suður í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Melrakkagil) í Undirhlíðum, þaðan til norðurs við lönd Hvaleyrar og Áss í Steinhús (Steinhes), sem er við Neðri-Kaldárbotna, þaðan móts við Ófriðarstaðaland vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðurs í Vörðu á Hlíðarþúfum, þá sömu línu norður í Öxl á Mosahlíð, enn sömu línu í Vörðu á Kvíholti, loks sömu línu mitt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn, þaðan allt með Hafnarfirði norðanvert í Ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti.

Garðahverfi

Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaði.

lnnan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Langeyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðendi, Hlíð, Móakot, Hausastaðir og Hausastaðakot, sem allar hafa afmörkuð tún og rétt til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns til allra leiguliðanota, en ekkert útskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar með kálgörðum og túnblettum og timburhúsum sömuleiðis. Innan merkja er kirkjujörðin Vífilsstaðir, áður konungseign, á hún sérstaklega: tún og engi fyrir neðan Vífilsstaðavatn, hálfan Leirdal, allan Rjúpnadal, alla Vetrarmýri og mótak niður undan við Arnarneslæk, Maríuhelli og Svínahlíð fram í Sneiðinga.
Ennfremur eru innan merkjanna þessar jarðir:
1. Setberg: Eru merki þeirrar jarðar sem segir í landamerkjaskjali hennar.
2. Urriðakot: Eru merki þeirrar jarðar, sem segir í landamerkjaskjali hennar.
3. Hofstaðir: Sú jörð á sitt eigið tún, en ekkert land utantúns. Með hagbeit í kirkjulandinu fyrir fénað, sem túnið ber.
4. Hagakot: Þjóðeign, á sitt eigið tún, mýrarkorn neðan túns og mótak í barði og beit fyrir fénað þann, sem túnið og mýrin framfleytir.
5. Akurgerði: Túnlaus verzlunarlóð, merki ákveðin með samningi dags. 27. marz 1880 og þinglýst 17. júní sama ár. Þessi landamerki samþykkt af öllum hlutaðeigendum og síðan þinglýst á manntalsþingi í júní 1890.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 1. tbl. 10.01.1972, Garðar á Álftanesi, Gísli Sigurðsson, bls. 7, 13 og 14.

Garðar

Garðar.

 

Setberg

Á upplýsingaskilti við rústir gamla Setbergsbæjarins í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

“Um aldir hefur verið búið á jörðinni Setbergi við hafnarfjörð en elstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1505. Bærinn stóð ofarlega í Setbergstúninu en túnið lá á móti suðvestri. Upp úr 1770 var bærinn teiknaður upp og var þá hinn reisulegasti enda sýslumannssetur. Minjar Setbergsbæjarins, sem hér eru, hafa verið friðlýstar.

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Setbergsannáll var ritaður af Gísla Þorkelssyni sem fæddist á Setbergi 1676 og bjó þar megnið af ævi sinni. Segja má að þessi annáll sé sérstakt bókmenntaverk því að þar er töfraskilningur ráðandi og reglulega sagt frá fyrirbærum á borð við sæskrímsli, náttúruvættir og himnasýnir eins um staðreyndir hafi verið að ræða. Þar er meðal annars sagt frá ljóni sem rak á land árið 1230 með hafís og tókst að valda miklum skaða en slík sjón eru annars lítið þekkt. Annað dæmi er frá árinu 1206, þar segir: “Rak suður með garði skrímsli með 8 fótum í einu norðanverðri; var grátt sem selur með heststrjónu eður haus, en rófu upp úr bakinu; hvart nóttina eftir. Þetta skeði um veturnætur.”

Setberg

Galdraprestsþúfa við gamla Setbergsbæinn.

Til eru sögur um bænahús eða kapellu við Setbergsbæinn og á hún að hafa staðið þar sem nú er “Galdraprestaþúfa” skammt frá bæjarrústinni. Þar réð meðal annars ríkjum sr. Þorsteinn Björnsson (d. 1675) en eftir hann liggur kvæðasafnið “Noctes Setbergenes” eða Setbergsnætur sem varðveitt er í Árnasafninu. Kvæðasafn þetta orti hann meðal annars til að “stytta sér hið leiða líf” eins og hann orðaði það sjálfur. Þorsteinn þessi var, að telið er, rammgöldróttur og lagði hann svo á að ekki mætti hrófla við þessari þúfu án þess að illa færi.

Íslandskort

Forn Íslandskort með skrímslum og öðrum forynjum.

Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var rituð árið 1703 voru allar jarðir í Álftaneshreppi ýmist í eigu konungs eða Garðakirkju með þeirri einni undantekningu að jörðin Setberg var í eigu Þóru Þorsteinsdóttur. Álftaneshreppur náði á þeim tíma allt frá Kópavogslæk og suður að Hvassahrauni. Þá voru heimilismenn sex og á bænum voru fimm kýr, 23 ær, fjórir suaðir veturgamlir og fjórir hestar og selstöð átti jörðin þar sem heitir Ketshellir eða Kershellir. Í sömu lýsingu kemur fram að “silungsveiði hefur hjer til forna verið í Hamarskotslæk, kynni og enn að vera ef ekki spillti þeir með þvernetjum sem fyrir neðan búa”, Setberg átti ekki land að sjó en fram kemur í heimildum að jörðin hafi haft búðaaðstöðu og skipsuppsátur í landi Garða þar sem heitir Skipaklettur og greitt leigu fyrir. Skipaklettur var þar sem Norðurbakkinn er í dag við Hafnarfjarðarhöfn en hann var brotinn niður þegar fiskverkunarhús Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar var byggt um miða 20. öld.”

Setberg

Tóftir gamla Setbergsbæjarins.

Í örnefnaskrá fyrir Setberg segir m.a.:
“Samkvæmt máldaga fyrir jörðinni Setbergi í Garðahreppi, dagsettum 6. júní 1523, eru landamerki jarðarinnar Setbergs sem hér segir: Úr miðjum Kethelli og í stein þann, er stendur í fremsta Tjarnholti; úr honum og í Flóðhálsinn; úr Flóðhálsinum og í Álftatanga, úr honum og í hellu, er stendur í Lambhaga. Þaðan í neðstu jarðbrú, svo eftir því sem lækurinn afsker í túngarðsendann; þaðan í Silungahellu, svo þaðan í þúfuna, sem suður á holtinu stendur, úr henni og í syðri Lækjarbotna, úr þeim og í Gráhellu, úr henni og í miðjan Kethelli. [Nmgr.: Landamerkjaskrá er samkvæmt landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. J. H.]

Setberg

Setberg – loftmynd.

Setberg, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. Setbergsbær stóð í Setbergstúni ofarlega nokkuð og lá túnið mót suðvestri. Túngarðar eða Setbergstúngarðar lágu að því að sunnan, austan og norðan. Suðurtúngarður lá neðan frá læk, sem síðar getur, upp á holtið að fjárhúsi, er þar er. Austurgarður er ofan túns allt út að austurtúngarðshliði og þaðan nokkuð lengra, en þá tekur norðurtúngarður við, og nær hann allt niður að læk. Gamligarður, þar sem túnið er hæst ofan bæjar. Markar enn fyrir þessu garðlagi. Setbergsbrunnur lá í lægð niður frá austurbæjarhorni. Þaðan lá svo brunngatan niður að brunninum. Túnið hér var kallað Niðurtún eða Suðurtún, allt upp undir fjárhúsið. Þar var utan garðs Stöðullinn, og innan garðs var Stöðulgerði. Milli Gamlagarðs og túngarðs voru nefndar Útfæringar allt út að hliði. Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Á þúfu þessari sat löngum Þorsteinn Björnsson prestur, og hér orti hann „Noctes Setbergenses“. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við þúfu þessari. Í Norðurtúni var Setbergskot eða Norðurkot og kringum það Norðurkotstún.”  –Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Setberg.

Setberg

Setberg 1984. Gamla Setbergsbæinn má sjá efst í hægra horninu – á þeim stað, sem hann var.

Setberg

Gengið var yfir Setbergsholtið og um norðanvert Urriðavatn.
Gamli Setbergsbærin er vestan í holtinu. Enn má sjá tóftir Urriðakot-2hans og garða. Burstirnar hafa snúið á móti vestri, niður að Hamarskotslæk með útsýni yfir Hafnarfjörð. Hlöðnu vörslugarðanir standa margir hverjir enn þrátt fyrir umsvifin á golfvelli Setbergsmanna. Komið var við á Galdraprestshól, en hóllinn stendur fast við gamla veginn upp að Urriðakoti. Við hann er kennd saga prests nokkurs sem koma hafði átt undir á altari kirkju einnar norðlenskrar. Afkvæmið varð prestur og þótti göldróttur með afbrigðum. Til eru margar sögur af fjölkyngi hans.
Norðan við Urriðakot er Lambatangi. Á honum er nokkrar fornar hleðslur, en landamerki Setbergs og Urriðakots eru á honum vestanverðum. M.a. má, ef vel er gáð, hlaðna refagildru. Hlaðnir garðar eru á austanverðum tanganum og skammt norðar er fallega hlaðið gerði í klettasprungu. Álftir höfðu verpt í einum hólmanna austan við tangann.

Urriðakot - letursteinn.

Urriðakot – letursteinn.

Í túninu neðan við Urriðakotsbæinn, sem Jón Guðmundsson, fyrrum stórbóndi á Setbergi (áður bóndi á Bryggju og á Tortu, þeim bæjum einum í Biskupstungum er Skálholtsstóll, auk Haukadals, náði ekki að söðla undir sig), sonur Guðmundar Jónssonar hins fjárglögga í Haukadal (fyrrum bónda á Álfsstöðum á Skeiðum), leit augum hinsta sinni vorið 1907, áður en hann flutti sig háaldraður á láglendið, er letursteinn klappaður af ábúandanum 1846.
Gengið var til baka um gömlu götuna að stíflunni. Sefgrasið í víkinni var orðið nokkuð hátt miðað við árstíma (sbr. meðfylgjandi mynd), en venjulega lítur það ekki svona út fyrr en um mánaðarmótin júní-júlí. Engan fisk var að sjá við stífluna, sem er líka nokkuð óvenjulegt.
Gengið var þvert yfir golfvöllinn á bakaleiðinni. Golfarnir hættu leik sínum, tóku ofan og biðu fullir lotningar á meðan FERLIRsfélagar liðu hjá.
Veður var frábært – logn og sól.

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn.

Setberg

Eftirfarandi grein um Jón á Setbergi birtist í Litla-Bergþóri árið 1996:
“Einhvern tíman fyrir löngu síðan ákvað ég með sjálfum mér að skrifa þátt um langafa minn, Jón á Setbergi,áður en ég „setti upp tærnar”. Enda er allt hæpið með handskriftina eftir að maður er kominn í þær stellingar. Hann hóf hér vist sína tæpum hundrað árum áður en ég fæddist, þó hefi ég afhonum glöggar sagnir frá fyrstu hendi því móðir mín Helga Eiríksdóttir húsfreyja á Stekk í Garðahreppi sem fædd var 1. október 1879 að Kjarnholtum í Biskupstungum var sonardóttir hans. Hún ólst upp að verulegu leyti hjá þessum afa sínum. Þegar ég var á barns- og unglingsaldri sagði hún mér margt af búskaparháttum á Setbergi og ýmsu fleira varðandi þennan afa sinn. Eg mun vera sá eini af hinum fjölmörgu núlifandi afkomendum Jóns á Setbergi sem hefi af honum glöggar sagnir frá fyrstu hendi, það getur því ekki talist nein ofrausn þó ég komi því nú í verk að skrá eitthvað sem ég veit með vissu um þennan forföður minn.
Skollagróf 14. mars 1996 – Jón Sigurðsson.

Setberg-221Jón Guðmundsson var fæddur 24. desember 1824 á Fossi í Hrunamanna-hreppi. Ég tel þó víst að þarna skakki einum degi, því hann taldi sinn fæðingardag vera Þorláksmessu en ekki aðfangadag jóla.”Hann var samtíða sínum foreldrum óslitið fram yfir sinn tvítugsaldur því er ósennilegt að þarna hafi orðið dagabrengl innan fjölskyldunnar, hitt er mun sennilegra að talan 24. hafi slæðst inn í kirkjubók í stað 23. Faðir Jóns var Guðmundur Eiríksson hinn sauðglöggi, sem jafnan var kenndur við Haukadal í Biskupstungum og móðir hans var Guðbjörg Jónsdóttir frá Ósabakka á Skeiðum. Hún var af hinni þekktu Hörgsholtsætt. Jón sótti til föður síns sauðgleggni og mikla fjármennskuhæfileika, þó hann yrði aldrei þjóðsagnapersóna á sviði fjárgleggninnar á borð við föður sinn. Hann stóð þó tvímælalaust langnæst föður sínum á sviði sauðgleggni og fjármennsku af öllum börnum Guðmundar Eiríkssonar.
Hann var víst ekki hár í loftinu þegar hann fór að fylgja föður sínum um Fosshagana í smalamennskum og annarri fjárgæslu. Á sínum efri árum ræddi hann oft um fjárstúss sitt í Fosshögum enda var hann á 12. aldursári þegar foreldrar hans fluttu þaðan. Á næstu sex árum lenda foreldrar hans í sífelldum búferlaflutningum, búa ekki á færri en fjórum jörðum á þessu sex ára tímabili. Þar til á vordögum 1842 að þau setjast að í Haukadal þá er Jón sonur þeirra á 18. ári. Næstu fimm árin er hann enn með foreldrum sínum í Haukadal.
Fyrri kona Jóns var Guðrún Egilsdóttir frá Tortu. Faðir hennar var Egill Þórðarson bóndi þar og móðir hennar kona Egils var Guðlaug Gísladóttir frá Kjarnholtum. Þannig er ég að tveim þáttum ættaður frá Kjarnholtum, þar sem Guðlaug móðir Guðrúnar langömmu minnar var þaðan og á aðra grein Kristín móðurmóðir mín sem var dóttir Guðmundar Diðrikssonar bónda þar.
Vorið 1847 fara Jón og Guðrún að búa á Tortu. Þeim fæðist drengur vorið áður, þá eru þau bæði á vist í Haukadal hjá foreldrum Jóns. Þegar þessi fumburður þeirra fæddist er Guðrún 30 ára en Jón langafi minn 22ja ára, því hún var röskum átta árum eldri en hann. Eftir 11 ára sambúð missir hann þessa fyrri konu sína. Torta var örreytiskot í túnjaðrinum í Haukadal. Þarna bjó þó Jón langafi minn í 14 ár við sæmilegan efnahag þrátt fyrir íþyngjandi ómegð.
Fyrri hluta þessa tímabils bjó hann í skjóli foreldra sinna og efalaust öll árin við aukinn aðgang að landsnytjum heimajarðarinnar, með öðrum hætti var afkoman á Tortu óhugsandi. Þeir feðgar Guðmundur Eiríksson og Jón sonur hans, sem jafnan var nefndur Jón á Setbergi eftir að hann settist þar að, voru báðir viðkynningar góðir og léttir í máli. Aldrei hafði langafi minn viljað láta tala illa um Tortu sem bújörð þó í raun væri hún bæði lítil og léleg. Hann sagði að Tortu nafnið væri ekki annað en afkáralegt auknefni því jörðin hefði heitið „Laufviðarstaðir á Beinárbökkum”. Þetta sagði hann að sjálfsögðu í gríni, en ég trúi að í bakgrunni hafi legið sú minning að þarna komst hann vel af og átti á margan hátt góða daga, m.a. vegna þess að hann hafði greiðan aðgang að Haukadalslandinu langt umfram það sem landsnytjar hjáleigunnar afmörkuðu.
Seinni kona Jóns var Vilborg Jónsdóttir frá Einholti í Biskupstungum. Hún var fædd árið 1832. Þeirra fyrsta barn fæddist í Einholti 6. maí 1859. Fljótlega fer hún að búa á Tortu með langafa mínum, en á vordögum 1861 flytja þau að Helludal, búa þar í tvö ár. Þar næst eitt ár í Bryggju sem er fardagaárið 1863-4.
Þá tekur langafi minn sig upp úr Biskupstungum með allt sitt, bæði fólk og fénað og sest að á Hvaleyri við Hafnarfjörð. Þessi jörð fylgdi þá Garðahreppi. Þarna fær hann í leiguábúð hálflenduna en á hinum hlutanum voru 5 kot, sem ég ætla að þá hafi verið öll í ábúð. Hann tekst á hendur þessa búferlaflutninga að nokkru leyti fyrir áeggjan föður síns, sem þá var orðinn gamall og blindur, en milli þeirra feðga var góð og varanleg vinátta.
Ekki kunni hann allskostar við þá fjárgæslu sem Hvaleyrarjörðin útheimti því þar var talsverð flæðihætta frá sjó. Engar sögur fóru af því að þessir annmarkar jarðarinnar hafi höggvið skorbilda í bústofn hans, enda var hann víst aldrei orðaður við slóðaskap og slælega fjármennsku í sínum búskap.
Á Hvaleyri búa þau í þrjú ár 1864 – 7. Í fardögum 1867 losnar í ábúð Setberg, sem einnig var í Garðahreppi. þangað flytja þau um vorið. Fljótlega festi hann kaup á jörðinni og þar bjuggu þau þar til þau urðu ellimóð og hætta búskap og luku sínum lífdögum í Hafnarfirði. Segja má að jafnskjótt og þessi hjón voru sest að á Setbergi voru þau kennd við þennan bæ og svo er raunar enn þegar þeirra er minnst. Eftir því sem ég best veit komst þessi langafi minn alltaf heldur vel af alla sína búskapartíð. Hann átti efnaða foreldra, og faðir hans stólaði strax mikið á hann í fárbúskapnum, því mætti ætla að hann hafi strax á unglingsaldir átt í séreign fleira af kindum en almennt gerðist. Slíkt var í þá daga líklegasta leiðin til efnahagslegs sjálfstæðis.
Þau þrjú ár sem Jón bjó á Hvaleyri urðu honum áfallalaus í búskap, og þar fjölgaði hann fénu nokkuð, enda mun hann hafa gengið nokkuð á sauðastofn sinn þá hann tók sig upp austur í Biskupstungum. Fargaði þá öllum rosknum sauðum úr stofninum, e.t.v. mest af því að hann hefir álitið að þeir yrðu óeirnir í ókenndum högum. Þegar hann er sestur að á Setbergi fer hann ört að fjölga fénu, og varð fljótlega fjárríkastur allra Innnesjabænda. Þó hann alla sína tíð kæmist heldur vel af, þá efnaðist hann bæði fljótt og vel eftir að hann gerðist bóndi á Setbergi. Gamla Setbergstúnið þótti á þess tíma mælikvarða allstórt og vel grasgefið. Engjablettir voru einnig í landinu þó í litlum mæli væri.
Fjárland á Setbergi var mjög gott, skjólsælt og kjarngott til beitar. Jón á Setbergi var víst ekki mjög kirkjurækinn en komst þó vel af við prestinn í Görðum, enda var þessi langafi minn maður viðræðugóður og vinsæll.
Eins og áður er komið fram fjölgaði fé hans ört eftir að hann settist að á Setbergi. Þá tók að þrengjast þar í högum. Garðakirkja átti bæði slæju og beitilönd fjarri kirkjustaðnum, sem að hluta til mun hafa, fyrr á tíð, verið sellönd frá Gröðum. Þessi lönd leigði Jón um árabil af Garðapresti bæði til beitar og slægna.
Að jafnaði voru á Setbergi fjórar kýr í fjósi auk geldneyta. í geldgripa hópnum sem ekki var stór voru uxar og þar á bæ nefndir „básgeldingar” til aðgreiningar frá öðrum geldingum, en langafi minn var langa ævi þekktur sem gildur sauðabóndi. Básgeldingarnir voru að jafnaði leiddir á blóðvöll 3ja vetra gamlir, og það gerðist síðsumars áður en venjuleg sláturtíð hófst. Þarna var gott búsílag til matfanga og húðin til skógerðar.
Þó Setbergshagar séu að mestu óbrunnið land þurftu þeir að smala sínu marga fé vítt um hraunlendi, sem er býsna skæðafrekt. Frá því kýr voru leystar út á vordögum var einhver liðléttingur látinn gæta nautgripanna í haga þar til heima heyskap var lokið. Mest vegna þess að verja þurfti slægjubletti á útjörðinni, en þar syðra voru grasnytjar til slægna mjög takmarkaðar. Hrossaeign á Setbergi var mjög takmörkuð, enda hrossa- gönguland af mjög skornum skammti. Vegna hrossfæðar varð sá sem „fór á milli” með heybandslestina að ganga, þó var heimreiðsla drjúlöng af Garðaflötum og þar um kring af leigulandinu, þó enn lengra úr Elliðavatnsengi, en þar fékk Jón á Setbergi oft léðar slægjur. Kaupstaðaaðdrættir voru aftur á móti kátlega auðveldir, því leiðin frá Setbergi í Hafnarfjörð var aðeins til jafns við eina bæjarleið.
Langafi minn átti að jafnaði 1 – 2 reiðhesta. Ég veit með vissu að þeir voru vikaliprir og vel tamdir, og þykir mér gott til þess að hugsa að þessi forfaðir minn þurfti ekki að ferðast á stampgengu. Móðir mín mundi vel síðasta reiðhest afa síns, rauðstjörnóttan, lipran og viðbragðsfljótan.
Setbergsmenn smöluðu að jafnaði allt gangandi, enda mikið af hraunlendi því sem þeir þurftu að smala á engan hátt hollt hestafótum. Hér á eftir vil ég greina frá ýmsu öðru varðandi búskaparhætti Jóns á Setbergi og þá fyrst og fremst því sem sneri að fjárbúskap hans. Eins og áður er fram komið var hann mjög nákvæmur og snjall fjármaður. Hafa verður í huga að á þeim tímum var ullin og tólgin aðal verðmætin sem sauðfjárbú skilaði, þá voru ekki enn runnir upp þeir tímar að innlegg dilka væri undirstaða afkomunnar. Fastastæða í fjárbúskap fyrri tíma var því sauðaeign. Þá var mikils um vert að ullarlag þeirra væri gott. Svo til öll hrútlömb voru gelt í vorsmölun nema eitt og eitt sem líkleg þóttu sem hrútsefni. Þau hrútlömb sem ekki komu að í vorsmölun voru gelt að haustinu. Langafi minn setti á svo til alla lambgeldinga, aðeins einn og einn lenti á blóðvelli og þá sem einhver vanmeta skepna. En hann hafði verið vandlátur á val lífgimbra. Þær áttu að vera með breiðan spjaldhrygg og vel holdfylltar á bak, helst með breiða og framskotna bringu, ullargóðar, m.a. ullaríylltar innanlæris, því nárabert fé stóð sig mun verr á beit í vetrarhörkum.
Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar. Gemlingum var að sjálfsögðu beitt, enda var innlokun ekki holl upphafsvist fyrir verðandi útigöngufé.
Jón á Setbergi hafði engin handahófs vinnubrögð þegar kom að því á haustnóttum að „sauma fyrir”, allar þær „bróderingar” þurftu að vera afstaðnar fyrir Marteinsmessu sem er 11. nóvember. Fyrst er að telja lambgimbramar sem að sjálfsögðu voru allar fyrir seymdar. Svo saumaði hann fyrir flestar sínar ær sem voru á 2. vetri, aðeins öríáar þær vænstu og þroskamestu höfðu hrút á þeim aldri. Þannig báru flestar hans ær ekki fyrr en 3ja vetra. Með þessum hætti famaðist stofninum miklu betur, og af þessum ungu ám fékk hann mikla og verðmæta ull. Þar að auki sauðarreyfin þykk og þelgóð. Hann saumaði einnig fyrir rosknar ær sem þá skiluðu þyngri föllum og meiri mörtil tólgarinnleggs við frálag á komandi hausti.
Þótt fyrirseymur finnist ekki lengur fjárhjörðum vil ég koma nánar að þessu handbragði, sem fyrst og fremst lýsti smekkvísi Jóns og foreldra hans gagnvart ýmsu er að fjármennsku laut.”Þegar ég var að alast upp syðra í Stekk, sem var í sama hreppi og Setberg varfyrirseymsla enn mjög algeng varðandi lífgimbrar og einnig með rosknar ær, sem farga átti haustið eftir.
Mér er enn í fersku minni hve það var til stórra lýta þegar saumað var fyrir af meiri háttar smekkleysi, en víða vildi það við brenna. Oft stagað út á hnútur og læri „leppar” óhönduglega sniðnir. Auk þess óvandlega saumað, þá vildi við brenna að ær og gimbrar „lembuðust með leppnum” eins og sagt var, þar með var ætlunarverkið allt úr skorðum.
Jón á Setbergi lagði svo mikið upp úr því að þetta verk væri unnið af traustleika og smekkvísi að lengi vel vann hann þetta verk sjálfur, og allt til sinna búskaparloka taldi hann tryggara að fylgjast með þessu verki úr nálægð.
Móðir mín var víst fljótlega fim með nálina enda treysti hann henni strax á barnsaldri við þennan „saumaskap”. Hún kenndi mér þessi handtök meðan ég enn var ungur. Þess vegna þykist ég enn kunna þessi löngu aflögðu vinnubrögð.
Langafi minn hafði lært handtökin af móður sinni, en alltaf hafði faðir hans fylgst með verkinu. Sennilega til að fullvissa sig um að traustleika og smekkvísi væri örugglega gætt. Eins og fram kemur áður þá vandaði Jón mjög val á lífgimbrum og eins þeim hrútum sem blanda átti í stofninn en þeim var aldrei sleppt í ær fyrr en þeir voru á öðrum vetri.
Á þessum tímum var ullin verðmæt, þess vegna dugði ekki að horfa framhjá ullargæðunum, enda gerði langafi minn það ekki. Ég veit það af eigin reynslu að talsvert má greina það á feldi unglamba hvort reifi verða illhæruskotin. Hann setti aldrei á gimbrar sem hann taldi að bæru með sér þennan galla og þær ær veturgamlar sem skiluðu illhærum í sínu fyrsta reifi fóru undantekningarlaust á blóðvöllinn, eins var um hrútana. Það leiddi af sjálfu sér að þeir blönduðust ekki ærstofninum. Með þessum hætti ræktaðist fljótlega upp stofn með þeim ullareiginleikum sem að var stefnt. Þelið var megin verðmæti ullarinnar, togið varð þó að vera sterkt og ekki of stutt á algeru útivistarfé.
Jón á Setbergi lét ekki sitt marga útigangsfé þvælast um einhvers staðar eftirlitslaust. Þar kom þrennt til, fyrst og fremst vildi þessi nákvæmi fjármaður fylgjast vel með hjörðinni, í öðru lagi var þess full þörf að hafa stjórn á því hvar og hvernig svo stór hjörð gekk að beitinni, og í þriðja lagi varð að fylgja hjörðinni vegna affalla sem bráðapestin olli. Einmitt vegna „pestarinnar” varð strax snemma hausts að fylgja fénu öllum stundum daglangt.
Bráðapestin var alltaf skæðust á haustin og aldrei eins mögnuð og í hæglætisveðri þegar hrímfall var mikið og viðvarandi, en hrímið fylgdi mest hægri haustkælu sem kunnugt er. Þessum stóra fjárhópi fylgdu alltaf tveir karlmenn allt frá haustnóttum og framundir vor. Þannig var auðvelt að stjórna því hvar féð gekk að jörð hverju sinni, og með þessu móti einu var hægt að „skera af” þær kindur sem tóku „pestina”. Bráðapestin var skæðust í yngsta og vænsta fénu. Þessa vegna olli hún mjög miklum skaða. Við þennan vágest hafði verið óbúandi án þess að gæta fjárins svona nákvæmlega. Með þessari daglegu gæslu var unnt að lóga þeim kindum sem dauðvona urðu, þannig spilltist átan af þeim ekki verulega, nema feitin rann við suðu mun meira en þegar fargað var heilbrigðu fé.
Ég trúi að langafa mínum hefði búnast talsvert verr ef nýtingin á þessu fé hefði ekki verið í svo góðu lagi sem hún var, því á Setbergi var þungt heimili vegna mikillar ómegðar. Strax og farið var að gæta fjárins á haustin var það „bælt” sem kallað var, við tvo hella suðvestur af svonefndri Setbergshlíð. Þarna átti féð náttból allan gæslutímann enda var hraunið vel gróið á alldrjúgri spildu.
Fyrrgreind náttból var drjúglangt frá bænum. Þær kindur sem farga þurfti voru þannig meðhöndlaðar að fyrst var þeim látið blæða, síðan var hleypt innan úr þeim frá þind og aftur úr. Síðan urðu fjármennimir að axla þessar fárakindur og bera heim að kveldi. Með fyrstu skímu að morgni þurftu þeir svo að fara til fjárins, því ekki dugði að það væri farið að dreifa sér þegar komið var að náttbólinu. Auk þess vildu þeir helst koma að hópnum áður en féð stóð upp, því hver ein kind sem teygði sig um leið og hún stóð upp úr bæli sínu varð ekki „pestinni” að bráð næstu 30 klst. Þetta máttu þeir gerst vita sem stóðu yfir fé að staðaldri.
Ég hefi oft hugsað til þess hve það hefir komið sér vel hve skjólsælt var víða í þessum högum. Þess hafa fjárgæslumenn og hjörðin notið ríkulega í hreti og hreggviðrum.
Víða var í Setbergshögum eski og sauðamergur ásamt valllendis- og víðigróðri. Auk þessa var fénu beitt vítt um hraunfláka sem voru utan heimalands, á því svæði eru víða beitilyngsbreiður.
Eftir því sem ég þekki frá uppvexti mínum í sambandi við vetrarbeit þá er fátt sem jafnast á við beitilyngið. Það er tvennt sem skapar manni sátt við hraunlendið. Í fyrsta lagi lynggróðurinn og þá alveg sérstaklega beitilyngið og í öðru lagi skútar og önnur skjól, sem hraunflákarnir búa sauðkindinni.
Eins og áður er komið fram í máli þessu var Jón á Setbergi líkt og faðir hans Guðmundur Eiríksson vel að sér um allt sem laut að sauðfjárbúskap. Hann var einnig líkur föður sínum í því hve hann var fótfrár og slyngur smali, að mínu viti verður enginn virkilega slunginn smali nema sá sem skynjar hin væntanlegu viðbrögð sauðkindarinnar undir hinum breytilegustu kringumstæðum.
Sínu létta og giktarlausa smalaspori hélt hann fram á gamalsaldur rétt eins og faðir hans, þess vegna entist hann lengi vel að standa yfir fé sínu, sem alltaf var gert haust og vetur. Tveir synir hans af fyrra hjónabandi voru mest með honum í þessar fjárgæslu, þeir Guðjón og Egill.
Eins og áður var getið fylgdu tveir menn hjörðinni frá haustnóttum til vordægra. Þessir fjárglöggu menn þekktu að sjálfsögðu hverja einustu kind og hverjum einstakling var gefið nafn þó hópurinn væri stór. Það er sama um búfé og umhverfið að nöfnin dýpka sambandið á alla lund. Nafnlaus kind, hæð eða slakki er fjær manni í vitundinni en það sem heiti hefur.
Jón á Setbergi var réttabóndi í Gjárarrétt öll þau ár sem hann bjó á þeirri jörð. Hann þótti ölkær nokkuð og veitull á vín en gætti þess hófst að fjármannsheiðri hans var jafnan borgið þó Bakkus væri með í för.
Móðir mín sagði að afi sinn hafi aldrei verið illur né þrasgjarn við vín en stundum smástríðinn. Langafi minn hafði verið dagfarsprúður og þægilegur húsbóndi, enda mjög hjúasæll. Glaðvær og skemmtilegur á heimili og einnig í viðkynningu út á burt. Ekki kann ég neitt að segja frá dagfari Guðrúnar langömmu minnar, sem varfyrri kona Jóns, en Vilborg á Setbergi, sem var seinni kona hans þótti harðlynd nokkuð og átti það til að vera dálítið snefsin í svörum. Hún var mikill forkur til allra verka. Hjálpsöm og greiðvikin við þá sem minna máttu sín. Sýndi stundum mikla höfðingslund og átti það til að vera stórgjöful. Þegar leið á búskaparferil Jóns fór að búa á Setbergi í félagi við hann Guðjón sonur hans. Þeir feðgar höfðu átt vel skap saman, enda báðir lundþjálir og samvaldir í fjármenskunni og öðrum bústörfum. Þeir áttu hvor sinn fénað bæði kindur og annan búsmala. Féð var allt í einni hjörð, og í þessum félagsbúskap var féð í sömu haust- og vetrargæslu og áður hafði verið meðan Jón bar einn ábyrgð á búrekstrinum. Jón á Setbergi var talinn maður vel vitiborinn, einnig verklaginn og afkastadrjúgur. Svo var einnig um marga hans nánustu afkomendur.
Þegar til margra einstaklinga er litið í ætt þessari finnst mér allgreinilegt að konur hafi verið körlum fremri bæði að dugnaði og verklagni.
Enginn má taka það svo að ég álíti t.d. að synir Jóns hafi verið einhverjir amlóðar, enda mun það fjarri veruleikanum. Hitt er margvitað að erfðir greinast á ýmsa lund. Mér kemur þess vegna í hug að þetta hafi greinst svona sérstætt frá foreldrum Jóns á Setbergi. Faðir hans Guðmundur Eiríksson var einstakur fjármaður, m.a. svo fjárglöggur að sá eiginleiki verður nærri að teljast til eindæma, og vissulega hefur þetta erfst frá honum í allríkum mæli.
Þó Guðmundur þessi væri verkfús og fljótur til þá þótti hann hvorki bráðlaginn né burðarmikill. En Guðbjörg Jónsdóttir móðir Jóns þótti bæði mikilvirk, fjölhæf og mjög lagvirk. Einnig var Guðbjörg talin stálgreind en bóndi hennar bara í meðallagi á því sviði. Af því ég hefi mjög glöggar sagnir af þessum langafa mínum trúi ég að hann hafi í ríkum mæli erft bestu eiginleika frá báðum sínum foreldrum.

Í lokin ætla ég að skrá börn þau sem Jón eignaðist, þau voru ekki færri en 19 og 17 þeirra náðu fullorðinsaldri. Með fyrri konu sinni Guðrúnu Egilsdóttur átti hann 9 börn, sem hún ól á 11 árum.
1. Egill f. 21. júní 1846 í Haukadal, hann dó 14. nóv. sama ár.
2. Guðlaug f. 20. okt. 1847, á Tortu í Biskupstungum hún dó á Setbergi 1869, þá 22ja ára gömul. Ógift og barnlaus.
3. Guðbjörg, eldri, f. 13, febrúar á Tortu 1849. Hennar maður var Sveinn Einarsson frá Miðfelli. Bjuggu fyrst í Syðra-Langholti svo í Ásum í Gnúpverjahreppi. Þau áttu 6 börn.
4. Guðrúnf. á Tortu 8. apríl 1850. Hennar maður var Árni Árnason verkam. Hafnarfirði. Þau áttu 3 börn.
5. Guðbjörg, yngri, f. á Tortu 3. ágúst 1851. Hennar maður var Magnús Halldórsson frá Auðnum á Vatnsleysuströnd. Þau fóru til Ameríku. Þau áttu 3 dætur.
6. Guðjón f. á Tortu 29. nóv. 1852. Dó 1913. Hans kona var Stefanía Gísladóttir frá St. Lambhaga í Hraunum. Bjuggu fyrst á Setbergi svo í Suðurkoti í Krýsuvík, síðast í Gerði í Hraunum. Þau áttu 2 syni. (Hraunbæir var syðsta byggð í Garðahreppi).
7. Eiríkur f. á Tortu 5. águst 1854. Dó 1918. Hans kona var Kristín Guðmundsdóttir, frá Kjarnholtum. Þau bjuggu á ýmsum stöðum í Biskupstungum og alltaf við mjög lítil efni. Þau áttu 7 börn. Eiríkur og Kristín voru móðurforeldrar mínir.
8. Egill f. á Tortu 13. des. 1855. Hans kona Guðrún Ólafsdóttir frá Elliðakoti. Þau bjuggu í Krýsuvík. Þau voru barnlaus.
9. Ingveldur f. á Tortu 22. okt. 1857. Hún dó ungbarn. Með seinni konu sinni Vilborgu Jónsdóttur átti hann 10 börn, sem hún ól á 14 árum.
10. Guðrún f. í Einholti, maí 1859. Hennar maður var Sigurjón Jónsson frá Hraunprýði í Hafnarfirði. Þau fóru til Ameríku. Þau áttu 3 börn.
11. Sigríður f. á Tortu 20. maí 1860. Hennar maður var Helgi Sigurðsson verkamaður í Hafnarfirði. Þau áttu 7 börn.
12. Kristín f. á Tortu 12. maí 1861. Hennar maður Hans Linnet kaupmaður í Hafnarfirði. Þau áttu 3 börn.
13. Ingveldur f. í Helludal 22. okt. 1862. Hennar maður Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Bjuggu fyrst í Litla-Lambhaga og seinna á Þorbjarnarstöðum, sem eru Hraunbæir. Þau áttu 12 börn.
14. Vilborg f. á Bryggju 2. des. 1863. DÓ21. apr. 1941. Hennar maður var Jón Guðmann Sigurðsson frá Haukadal. Þau bjuggu fyrst í Haukadal síðan á Tortu en lengst á Laug og við þann bæ var Vilborg jafnan kennd. Þau áttu 14 börn.
15. Sigurbjörg f. á Hvaleyri 26. febr. 1865. Hennar maður var Guðmundur Jónsson frá Urriðakoti, sem er næsti bær við Setberg. í Urriðakoti bjuggu þau langa búskapartíð. Þau áttu 12 börn.
16. Elín f. á Hvaleyri 26. júní 1866. Hennar maður var Þorvarður Ólafsson frá Vötnum í Ölfusi. Þau bjuggu á Jófríðarstöðum. Þau áttu 10 börn.
17. Guðmundur f. á Setbergil. ágúst 1868. Hans kona var Guðrún Guðmundsdóttir frá Hlíð í Garðahreppi. Þau bjuggu fyrst á Setbergi fá ár, fluttust svo að Hlíð og þaðan til Hafnarfjarðar. Þau áttu 3 börn.
18. Jón f. á Setbergi 12. júlí 1870. Dó giftur og barnlaus 1926. Hafði ungur numið trésmíðar úti í Noregi. Dó frá miklum efnum en engum afkomendum.
19. Rannveig f. á Setbergi 8. júní 1873. Hennar maður var Kristinn Kristjánsson frá Hlíðarnesi á Álftarnesi. Þau áttu 4 börn.

Ekki er ofmælt að segja að Jón á Setbergi hafi verið sæmilega kynsæll. Af þeim 17 börnum hans sem upp komust áttu 14 þeirra afkomendur og barnabörn hans voru 89 talsins.
Einhvern tíman nálægt aldamótum brugðu þau búi Jón og Vilborg og flytjast þá til Hafnarfjarðar.
Langafi minn lifði fram á árið 1909 og hefir þá verið á 85. aldursári. Vilborg deyr árið 1917 og hefur líka verið á 85. aldursári því hún var átta árum yngri en hann.
Hér lýkur að segja frá langafa mínum Jóni á Setbergi. Hinum léttstíga smala og lundprúða dreng.”

Heimild:
Litli-Bergþór, 17. árg. 1996, 3. tbl. bls. 18-22.