Setberg

Á upplýsingaskilti við rústir gamla Setbergsbæjarins í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

“Um aldir hefur verið búið á jörðinni Setbergi við hafnarfjörð en elstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1505. Bærinn stóð ofarlega í Setbergstúninu en túnið lá á móti suðvestri. Upp úr 1770 var bærinn teiknaður upp og var þá hinn reisulegasti enda sýslumannssetur. Minjar Setbergsbæjarins, sem hér eru, hafa verið friðlýstar.

Setberg

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

Setbergsannáll var ritaður af Gísla Þorkelssyni sem fæddist á Setbergi 1676 og bjó þar megnið af ævi sinni. Segja má að þessi annáll sé sérstakt bókmenntaverk því að þar er töfraskilningur ráðandi og reglulega sagt frá fyrirbærum á borð við sæskrímsli, náttúruvættir og himnasýnir eins um staðreyndir hafi verið að ræða. Þar er meðal annars sagt frá ljóni sem rak á land árið 1230 með hafís og tókst að valda miklum skaða en slík sjón eru annars lítið þekkt. Annað dæmi er frá árinu 1206, þar segir: “Rak suður með garði skrímsli með 8 fótum í einu norðanverðri; var grátt sem selur með heststrjónu eður haus, en rófu upp úr bakinu; hvart nóttina eftir. Þetta skeði um veturnætur.”

Setberg

Galdraprestsþúfa við gamla Setbergsbæinn.

Til eru sögur um bænahús eða kapellu við Setbergsbæinn og á hún að hafa staðið þar sem nú er “Galdraprestaþúfa” skammt frá bæjarrústinni. Þar réð meðal annars ríkjum sr. Þorsteinn Björnsson (d. 1675) en eftir hann liggur kvæðasafnið “Noctes Setbergenes” eða Setbergsnætur sem varðveitt er í Árnasafninu. Kvæðasafn þetta orti hann meðal annars til að “stytta sér hið leiða líf” eins og hann orðaði það sjálfur. Þorsteinn þessi var, að telið er, rammgöldróttur og lagði hann svo á að ekki mætti hrófla við þessari þúfu án þess að illa færi.

Íslandskort

Forn Íslandskort með skrímslum og öðrum forynjum.

Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var rituð árið 1703 voru allar jarðir í Álftaneshreppi ýmist í eigu konungs eða Garðakirkju með þeirri einni undantekningu að jörðin Setberg var í eigu Þóru Þorsteinsdóttur. Álftaneshreppur náði á þeim tíma allt frá Kópavogslæk og suður að Hvassahrauni. Þá voru heimilismenn sex og á bænum voru fimm kýr, 23 ær, fjórir suaðir veturgamlir og fjórir hestar og selstöð átti jörðin þar sem heitir Ketshellir eða Kershellir. Í sömu lýsingu kemur fram að “silungsveiði hefur hjer til forna verið í Hamarskotslæk, kynni og enn að vera ef ekki spillti þeir með þvernetjum sem fyrir neðan búa”, Setberg átti ekki land að sjó en fram kemur í heimildum að jörðin hafi haft búðaaðstöðu og skipsuppsátur í landi Garða þar sem heitir Skipaklettur og greitt leigu fyrir. Skipaklettur var þar sem Norðurbakkinn er í dag við Hafnarfjarðarhöfn en hann var brotinn niður þegar fiskverkunarhús Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar var byggt um miða 20. öld.”

Setberg

Tóftir gamla Setbergsbæjarins.

Í örnefnaskrá fyrir Setberg segir m.a.:
“Samkvæmt máldaga fyrir jörðinni Setbergi í Garðahreppi, dagsettum 6. júní 1523, eru landamerki jarðarinnar Setbergs sem hér segir: Úr miðjum Kethelli og í stein þann, er stendur í fremsta Tjarnholti; úr honum og í Flóðhálsinn; úr Flóðhálsinum og í Álftatanga, úr honum og í hellu, er stendur í Lambhaga. Þaðan í neðstu jarðbrú, svo eftir því sem lækurinn afsker í túngarðsendann; þaðan í Silungahellu, svo þaðan í þúfuna, sem suður á holtinu stendur, úr henni og í syðri Lækjarbotna, úr þeim og í Gráhellu, úr henni og í miðjan Kethelli. [Nmgr.: Landamerkjaskrá er samkvæmt landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. J. H.]

Setberg

Setberg – loftmynd.

Setberg, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. Setbergsbær stóð í Setbergstúni ofarlega nokkuð og lá túnið mót suðvestri. Túngarðar eða Setbergstúngarðar lágu að því að sunnan, austan og norðan. Suðurtúngarður lá neðan frá læk, sem síðar getur, upp á holtið að fjárhúsi, er þar er. Austurgarður er ofan túns allt út að austurtúngarðshliði og þaðan nokkuð lengra, en þá tekur norðurtúngarður við, og nær hann allt niður að læk. Gamligarður, þar sem túnið er hæst ofan bæjar. Markar enn fyrir þessu garðlagi. Setbergsbrunnur lá í lægð niður frá austurbæjarhorni. Þaðan lá svo brunngatan niður að brunninum. Túnið hér var kallað Niðurtún eða Suðurtún, allt upp undir fjárhúsið. Þar var utan garðs Stöðullinn, og innan garðs var Stöðulgerði. Milli Gamlagarðs og túngarðs voru nefndar Útfæringar allt út að hliði. Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Á þúfu þessari sat löngum Þorsteinn Björnsson prestur, og hér orti hann „Noctes Setbergenses“. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við þúfu þessari. Í Norðurtúni var Setbergskot eða Norðurkot og kringum það Norðurkotstún.”  –Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Setberg.

Setberg

Setberg 1984. Gamla Setbergsbæinn má sjá efst í hægra horninu – á þeim stað, sem hann var.