Skátar

Í Foringjanum 1968, blaði skáta, er frétt “Frá Hafnarfirði” um skátaskálann við Hvaleyrarvatn, Skátalund, eftir Eirík Jóhannesson:
“Frá St. Georgsgildinu hérna í Hafnarfirði er það helzt að frétta, að við héldum árshátíðina okkar um síðustu helgi, ásamt Hjálparsveitinni eins og undanfarin ár. Það sýnir að góð samvinna og vinátta er þar ríkjandi. Þarna munu vera allt að 150 eldri skátar, sem að nokkru leyti starfa saman að hugðarefnum sínum. 30. apríl sl. héldum við í Gildinu aðalfund, en þá um leið voru teknir fimm nýir félagar inn í Gildið, við hátíðlega athöfn. Að því loknu var spiluð félagsvist af miklu fjöri, en á milli þessara atriða var sungið mikið að vanda.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Svo sem lög mæla fyrir fór fram stjórnarkjör á fundinum og hlutu þessir kosningu: Gildismeistari: Eiríkur Jóhannesson. Varagildismeistari: Frú Ásthildur Magnúsdóttir. Gjaldkeri: Svavar Jóhannesson. Ritari: Kristinn Sigurðsson og meðstjórnandi: Frú Sigurlaug Jónsdóttir.

Eiríkur Jóhannesson

Eiríkur Jóhannesson.

Í vor sem leið, strax og vegir urðu færir, var hafizt handa að vinna við skálann við Hvaleyrarvatn. Hann hafði ennþá ekki fengið nafn eða hlotið vígslu, en nú var að því stefnt að slíkt gæti farið fram snemma á þessu sumri.
Í allan fyrravetur og fram á sumar var skálinn mikið notaður af skátum þæði frá Hafnarfirði og nágrenni. Okkur er það mikið gleðiefni að skátar vilja leggja leið sína þangað um helgar, og einnig í sambandi við sveitarútilegur á flötunum þar í kring. Einnig finnst bæði ljósálfa- og ylfingaforingjum hentugt að hafa þar áningarstað í dagsferðum.

Að vetrinum, þegar vatnið er ísi lagt, og snjór þekur jörð, má sjá bæði yngri og eldri skáta iðka þar vetraríþróttir af kappi.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Svo að ég segi ykkur meira um okkar ágæta skála, þá var hann hátíðlega vígður þriðjudaginn 25. júní, að viðstöddum drjúgum hóp gildisfélaga og velunnurum gildisins, og má þar nefna Axel Kristjánsson forstjóra, og fulltrúa B.Í.S. Franch Michelsen, samstarfsmann okkar. Að lokinni þessari hátíðlegu vígslu, þar sem skálinn fékk nafnið: „Skátalundur”, héldu gildiskonur öllum viðstöddum veglega veizlu, sem var þeim góðu konum til mikils sóma.
Til gamans má geta þess, að fleiri komu en boðnir voru, því meðan notið var góðgjörða, kom fönguleg dilkær með tveimur fallegum lömbum og kíkti inn til okkar, öllum til sannrar ánægju.
Að lokinni þessari ágætu veizlu var farið í leiki, sungið og skemmt sér lengi kvölds, unz haldið var heim í hinu fegursta sumarveðri.
Ég læt hér staðar numið, en ég vil leyfa mér fyrir hönd okkar allra félaganna í St. Georgsgildi Hafnarfjarðar, að senda ykkur, kæru gildisfélagar út um land, okkar beztu gildiskveðjur ásamt ósk um gott vetrarstarf. – Hafnarfirði, 22/11 ’68 / Eiríkur Jóhannesson.

Eiríkur Jóhannesson

Eiríkur Jóhannesson í miðið; fæddur 9. september 1900 – dáinn 12. desember 1983.
“Við skátarnir í Hafnarfirði munum hann Eirík. Hann var svo snar þáttur í hafnfirsku skátastarfi, einn af hinum traustu hornsteinum sem félagsbragurinn og félagsandinn í Hraunbúum hvíldi á og mun gera enn um langa framtíð. Ljósálfum og ylfingum var hann uppspretta skátaanda og skyldurækni. Skátunum var hann félagi og vinur, alltaf viðbúinn að vekja gleði og góðvild, hlýja hugsun, söng og líf. Hjálparsveitinni var hann tákn hins trausta og trúa skáta, sem aldrei gleymdi kjarna og lífsviðhorfi skátahreyfingarinnar, — brautryðjandans sem ávallt var reiðubúinn að hjálpa öðrum, miðla öðrum og leggja sig fram um að vera alltaf og ævinlega viðbúinn, að bregðast fljótt og vel við hverjum þeim vanda sem að höndum bæri. Þannig var hann sjálfur bæði hreinn og heilsteyptur í orðum og öllum verkum allt til hinsta dags, vakandi og sívinnandi að öllu sem miðaði að meira manngildi, drengskap og dug.  
Við munum hann Eirík með gítarinn við eldinn, syngjandi skátasöngva, stundum að kenna okkur nýjan skátasöng, sem hann hafði búið til. Við munum góðlátlegu gamansemina hans, glettið blik í auga, hlýja handtakið og orð hans við kulnaðar glæður varðeldsins, til þess sögð að efla skátaandann, hjálpsemina, réttsýnina, tilfinninguna fyrir landi okkar, náttúrufegurð þess, gögnum og gæðum og til þess að vekja lotningu og trú á honum sem öllu ræður og allt þetta hefur skapað. Og við munum hann Eirík á vormótunum í Krýsuvík, á skátamótum hérlendis og erlendis, útdeilandi kakói og góðu skapi, hlédrægur og allt að því feimnislegur,
en þó svo nálægur og hlýr.
Já, þessir dagar, þeir koma í huga [mér enn,
já, þessa daga, þá muna fullorðnir [menn.
Sem skátar og vinir við eigum margt yndilegt minningasafn,” sagði Tryggvi Þorsteinsson, skátaforingi á Akureyri í einum sinna skátasöngva. Þetta á svo víða vel við og kemur í hugann nú þegar við Hraunbúar kveðjum Eirík Jóhannesson hinstu kveðju. Með honum er genginn góður drengur, en eftir lifir minningin um ómetanlegan félaga, vin og mannræktarmann.
Nú eru komin leiðarlok. Eiríkur er farinn heim. 
Með skátakveðju.” – F.h. Skátafélagsins Hraunbúar og Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði – Hörður Zóphaníasson.

Heimild:
-Foringinn, 5.-9. tbl. 01.12.1068, Frá Hafnarfirði – Skátaskáli við Hvaleyrarvatn, Eiríkur Jóhannesson, bls. IX.