Færslur

Setberg

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir frá Setbergi:

Setberg

Setberg

Setbergsbærinn á ofanverðri 18. öld,

Jörðin Setberg hafði þá sérstöðu, öfugt við aðrar jarðir í kring sem voru annaðhvort í konungseign eða í eign Garðakirkju, að hún virðist hafa verið í bændaeign í gegnum aldirnar en elsta heimildin um byggð í Setbergi er frá árinu 1505 og var kvittunarbréf Þorvarðs Erlendssonar til Gríms Pálssonar um eignarbýtti þeirra. Þar sagði fært yfir á nútíma stafsetningu: „Það gjörum vér Gunnlaugur Helgason, Jón Stullason, Jón Gíslason, Þorleifur Snorrason, Helgi Ormsson, Valdi Þorvarðsson, Hermann Hermannsson og Jón Eyvindsson góðum mönnum kunnugt með þessu voru opnu bréfi að þá er liðið frá guðs burði 1505 ár á Möðruvöllum í Eyjafirði. Daginn næstan eftir Maríumessu seinni um haust, vorum vér í hjá sáum og heyrðum í að Þorvarður Erlindsson lögmaður sunnan og austan í Íslandi haf með handabandi Grím Pálsson alldyngis kvittan og ókærulausan um það kaup og gjald er greindur Grímur hafði áður greiða látið og greitt, og þá amasala varð um það sem eftir stóð við fyrr greindan Þorvarð. Og að því luktu og höldnu er Grímur þá greiddi. Var það Setberg sunnan land við Hafnarfjörð. Og það með ij kúgildi eður iij hvort eður væri, iij vættir smjörs úr holum.

Setberg

Skilti Byggðasafns Hafnarfjarðar við gamla Setbergsbæinn.

Leigur frá hagatungu uppi iij ár var þetta alls x vættir sagðist Grímur hafa lokið Þorvarði áður xxxiiij kúgildi. Heyrðum vér þá engan óskilnað þessara þrátt greindra manna, heldur kom þeim allt vel saman svo nær heyrðum.
Og til sanninda hér um settum vér fyrr nefndir menn vort innsigli fyrir þetta kvittunarbréf og gjalds er skrifað var í sama stað, degi og ári sem fyrr segir.“
Næst var sagt frá Setbergi í bréfi frá 1523. Það var bréf sem vottaði að Pétur og Hallur Björnssynir hafi haft í arfaskiptum gefið Thomas Jónsson „frían og kvittan“ um jörðina Setberg á Álftanesi og handsalað honum jörðina. Í bréfinu segir frá landamerkjum jarðarinnar:

Setbergssel

Setbergssel.

„Úr miðjum Kjöthelli og í stein þann er stendur í fremstu Tjarnarholti. Úr honum og í flóðhálsinn, úr flóðhálsinum og í álftatanga, úr honum og í Hellu þá er stendur í Lambhaga.
Þaðan og í neðstu jarðbrú. Svo eftir því sem lækurinn af sker í túngarðs endann. Þaðan í Silungahellu. Svo þaðan í þúfuna og í miðjan Kjöthelli.“
Í bréfinu var einnig sagt að Garðastaður ætti á jörðinni tólf hesta reiðings ristu og að Setberg hafi á móti átt búðarstöðu í Garðalandi, þar var átt við búðarstöðu til siglinga, en jörð Setbergs náði ekki að sjó.
Í jarðabréfi frá 1703 var sagt frá því að árið 1658 seldi Tómas Björnsson 8 hndr. í jörðinni til sr. Þorsteins Björnssonar. Tómas seldi svo önnur 8 hndr. til fógetans og árið 1665 eignaðist Guðrún Björnsdóttir 8 hndr. í Setbergi.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Setbergs hafi verið sextán hundruðustu. Eigandi jarðarinnar var ekkjan Þóra Þorsteinsdóttir og bjó hún á jörðinni. Landskuld jarðarinnar var óviss en síðastliðin sextíu ár höfðu eigendur jarðarinnar búið á henni. Engar kvaðir voru á jörðinni þar sem eigandinn bjó þar sjálfur, kvikfénaður var fimm kýr, tuttugu og þrjár ær, fjórir sauðir veturgamlir, fjórir hestar og eitt hross með fyli.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – fyrrum landamerki Setbergs.

Túnin gátu fóðrað sex kýr og tuttugu lömb. Heimilsmenn voru sex. Jörðin átti selstöðu í Ketshelli, þar voru hagar góðir en vatnsból ekkert nema snjór í gjá sem sólarhiti bræddi.
Torfrista og stunga var nægileg og lyngrif mætti vera en var ekki notað fyrir hagbeitar sakir.
Setberg hafði til forna silungsveiði í Hamarskotslæk en henni hafði verið spillt með þeim netaveiðum þeirra sem neðar bjuggu. Jörðin átti ekki land til sjávar en var með búðarstöðu og skipsuppsátur við Skipaklett í Akurgerðislandi. Jörðin átti engjar en þær voru þó litlar.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Í jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 173, þá var hún í bændaeign og dýrleiki hennar 16, landskuld 0.90, kúgildin þrjú og ábúendur voru tveir leiguliðar.
Árið 1912 keypti Hafnarfjörður Setbergsland allt til Lækjarbotna. „Samkvæmt dómi frá 5. Desember 1924 eru landamerki milli Setbergs og þessa hluta Garðakirkjulands sem með lögum nr. 13, 1912 var selt Hafnarfjarðarkaupstað sem hér segir: Úr neðstu brú í Kaplakrika eftir Kaplalæk í hraunjaðrinum beint vestur af stað þeim, þar sem Kaplalæk er nú veitt úr eldri farveg sínum rétt norðan við Baggalágar vestur af Setbergslandi. Þaðan í beina línu í stíflugarð rafstöðvartjarnar, þá eftir garðinum og úr honum beint í markaþúfu suður og upp á holtinu þaðan í upptök lækjar þess sem Hafnarfjarðarbær fær vatn sitt úr, þá í Gráhellur og þaðan í miðjan Kjöthelli.“
Á túnakorti af Setbergi frá 1918 var sagt að tún bæjarins væru öll sléttuð og töldust 6,5 teigar og að kálgarðar væru samtals 1600m2. Á kortinu eru líka mældar inn bæjarrústir gamla bæjarins og „eyði kálgarður“ við þær. Vestan við nýja bæinn var líka mæld „rafleiðslu vatnsvél“.

Stekkjarhraun

Stekkur í Stekkjarhrauni.

Innan jarðarinnar er að finna Stekkjarhraun en það var friðlýst sem fólkvangur árið 2009.
Hraunið er hluti af hraunum sem runnu í Búrfellseldum fyrir um 7000 árum. Markmið friðlýsingarinnar var að „vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. […] Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir i þéttbýli.“ Í bréfi frá 1670-80 sagði að Hamarskot og Garðar hafi haft stekki í Stekkjarhrauni, þ.e. stekkir og einnig hafði Setberg stekk í hrauninu.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Suðurbær. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-VII-Setberg.pdf

Fornleifaskráning

Fornleifaskráning fyrir Setberg.

Setbergsbærinn

Í Fjarðarpóstinum 1991 er viðtal við Elísabetu Reykdal, fyrrum húsfreyju á Setbergi, undir fyrirsögninni “Hornið í stofunni er sálin mín”:

Elísabet Reykdal

Elísabet Reykdal.

“Elísabet Reykdal hefur talsverða sérstööu aö því leyti, að hún og hennar fólk var þekkt í bænum sem Garðhreppingar, en nú er Elísabet oröin Hafnfirðingur, þó hún hafi aldrei flutt um set og alltaf búið í sama húsinu. Þetta er meira en lítið sérstætt, en á þó sínar eðlilegu skýringar vegna útfærslu á bæjarmörkum Hafnarfjarðar. Elísabet er dóttir hins kunna athafnamanns Jóhannesar Reykdal, sem byggði fyrstu vatnsknúnu rafstöðina á Íslandi, og konu hans, Þórunnar Böðvarsdóttur. Nú býr Elísabet í miðju glæsilegu íbúðahverfi þar sem áður var búskapur, tún og kýr á beit.

Já, Setberg var næststærsta býlið í Garðahreppi. Það voru aðeins Vífilsstaðir sem var stærra býli”, sagði Elísabet í upphaf viðtals okkar.
– Þið voruð mörg í heimili á Setbergi?
„Já, það voru oft um 20 manns og stundum upp í 25 yfir sumartímann. Það bjuggu hérna heima lærlingar og smiðir sem unnu hjá pabba. Annars vorum við 10 systkinin sem upp komust, en yngst dó systir mín, aðeins 12 ára. Það voru berklarnir sem herjuðu á fjölskylduna. Það dóu fimm uppkomnir bræður úr berklum.
Ég er fædd á Setbergi en annars byrjuðu pabbi og mamma sinn búskap í Hafnarfirði. Þau giftu sig 1904 og sama haustið voru kveikt fyrstu rafljósin, en verksmiðjuna reisti pabbi 1903, Timburverksmiðjuna Dverg. Það var fyrir Dverg sem hann virkjaði Lækinn, ennfremur fengu 16 hús ljós í fyrstu.”
– Hvaðan kom pabbi þinn til Hafnarfjarðar?
„Hann kom hingað frá Danmörku. Fyrst flutti hann til Reykjavíkur þar sem hann var í tvö ár, en síðan til Hafnarfjarðar. Annars var hann Þingeyingur að uppruna. Mamma fæddist hins vegar í Hafnarfirði en hennar fólk kom frá Miðfirði. Pabbi og mamma kynntust hér í Hafnarfirði. Afi hafði þá skólapilta í fæði og smáveitingasölu.”
„Það blundaði bóndi í pabba og Einari”
– Þannig að faðir þinn Jóhannes Reykdal lærði í Danmörku?
„Já, hann lærði í Danmörku en fyrsta verkefnið hans hér var að byggja gamla barnaskólann. Upp úr því setti hann upp verksmiðjuna og síðan kvæntist hann um vorið. Pabbi og mamma bjuggu fyrst í Hafnarfirði en síðan keypti pabbi Setbergið 1909 og 1911 fluttu þau hingað upp eftir. Á meðan þau voru niðri í bæ hafði hann ráðsmann við búskapinn en rak síðan búið sjálfur eftir að þau fluttu. Það blundað bóndi í pabba og hann var alltaf mikið fyrir skepnur.”

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal.

– Síðan verða kynslóðaskipti og þú tókst við búskapnum?
„Já, en þá hafði búið verið í leigu í fimm ár eða frá því 1931, en þá dóu tvö systkini mín. Þá auglýsti pabbi Setbergið til leigu. Eitt árið ráku systkini mín búið, en þá dó bróðir minn, sem aðallega stóð fyrir búinu. Þá hættum við aftur en tókum síðan við búinu áný árið 1938.”
– Þú varst ung heimasæta á Setbergi en giftist síðan sjómanni, Einari Halldórssyni. Þú gerðir þér lítið fyrir og gerðir hann að bónda?
„Já, hann var lengi kallaður Einar á Maí af því að hann var svo lengi stýrimaður með Bendikt Ögmundarsyni. Annars byrjaði hann sína sjómennsku á Skúla fógeta, en var nýfarinn af honum þegar Skúli fógeti fórst. Hann var kominn með pokann sinn niður á Steindórsstöð til að fara til Reykjavíkur en þá kom Benni hlaupandi og sagði: „Hann Ásgeir Stefánsson er búinn að reyna að ná í þig í allan dag, því að það er plássfyrirþighjámér”. Svo Einar hringdi inn eftir og lét vita af því, að hann kæmi ekki og fór um borð í Maí. Þar var hann til ársins 1937. Síðan var hann á Hafsteini með Ólafi Ófeigssyni. Hann var stýrimaður hjá honum.”
– Þótti Einari manni þínum ekki súrt í broti að vera kippt af sjónum til að gerast bóndi?
„Nei, það held ég ekki. Það blundaði í honum bóndi. Hann var búinn að vera níu sumur á bæ upp í Borgarfirði sem kaupamaður og þá var hann einu sinni alveg að því kominn að kaupa þar jörð og ætlaði að fara að búa. Það var áður en við kynntumst. Hann hafði alltaf gaman af búskap. Það var Fossatún í Bæjarhreppi sem hann var næstum búinn að kaupa. Það var smákot þá, en er orðið stórbýli núna. En einhvern veginn varð ekkert úr því að hann keypti jörðina.”
– Síðan hófst búskapur ykkar á Setbergi?
„Já, við rákum hér búskap í 40 ár. Við hefðum átt fjörtíu ára giftingarafmæli haustið eftir að Einardóíjanúar 1978. Við giftum okkur í september 1938.”
– Þróunin hefur verið ör. Í staðinn fyrir græn tún og kúabúskap er komin þétt byggð?
– „Já, hér voru yfirleitt um 35 kýr og á annað hundrað fjár.”
„Víst á ég heima á Setbergi”
Setberg
„Þannig að nú átt þú ekki lengur heima á Setbergi samkvæmt skipulaginu?
„Víst á ég heima á Setbergi.
Þegar ég fékk tilkynningu um það að nú ætti ég heima á Fagrabergi 32, þá fór ég niður á bæjarskrifstofu og neitaði og sagði, að ef ég mætti ekki eiga heima á Setbergi þá byggði ég mér bara hús fyrir ofan, uppi í Garðabæ, því að á Setbergi ætlaði ég að eiga heima.

Einar Halldórsson

Einar Halldórsson á Setbergi.

Ég fékk síðan bréf upp á það að húsið mætti áfram heita Setberg, enda er þetta sama húsið og áður og hefur alltaf verið Setberg og er enn á jörðinni. Það er ekki búið að leggja jörðina niður, þó að Hafnarfjarðarbær hafi keypt hluta af henni.”

– Synir ykkar ráku jörðina síðustu árin eftir að Einar dó, eða þar til þensla Hafnarfjarðar krafðist meira landrýmis?
„Já, þeir ráku búið, en þetta var einn fjórði hluti af jörðinni sem Hafnarfjörður keypti. Hinn hlutinn er ennþá í Garðabæ. Eiginlega get ég bæði kallað mig Hafnfirðing og Garðbæing. Þó verð ég að kjósa í Hafnarfirði.”
– Ef við rifjum upp, þá var Einar oddviti í Garðahreppi?
„Já, í nokkur ár en um leið og hann varð oddviti þá var ráðinn sveitarstjóri. Hann vildi ekki hafa nein fjármálaumsvif, enda þróaðist byggðin ört þar líka.”

Hóf heimsreisur á efri árum
– Þú ert orðin fullorðin kona og ein á báti, má segja, síðan þú varðst ekkja og börnin búin að stofna eigin heimili. Þá tekur þú þig til og hefur gert sérstaklega víðreist af fullorðinni konu að vera?
„Ég byrjaði á þessu árið 1979 en þá fór ég fyrstu ferðina en það var árið eftir að Einar dó. Þá fór ég til Kanada á slóðir Vestur-Íslendinga, til Winnipeg og reyndar alveg til Vesturstrandarinnar og hitti marga Íslendinga. Það var mjög gaman. Næsta ferð var til Grikklands með mági mínum og systur og við vorum þar í þrjár vikur. Þar á eftir fór ég hringferð um Mið-Evrópu, um Alpana. Það var þriggja vikna ferð, alveg ágætis ferð.
Síðan fórum við aftur saman, mágur minn og systir, til Norðurlandanna. Við flugum til Þrándheims en þar eigum við ættingja og vorum þar í fjóra daga en ókum síðan suður Noreg. Þar er víða mjög fallegt og þetta var mjög skemmtilegt.
Síðan fór ég til Egyptalands og Ísrael. Eftir það fór ég í heimsreisuklúbbinn og þá fyrst í ferð til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Síðan tók við ferð til Kína og svo ferð til Indlands. Þá var ferð til Suður-Ameríku og önnur til Suður-Afríku og núna síðast til Japans, Filippseyja og Formósu.”
– Hvaða heimshluti féll þér best?
„Það var óskaplega gaman að koma til Kína. Það var svo sérstakt. Suður-Afríkuferðin var líka mjög vel heppnuð. Nú og síðan er Ástralía og Nýja-Sjáland alveg sérstakt líka. Mannlífið þar var að mörgu leyti líkara okkar. Ástralía, þó að hún sé stór, þá er hún líka eyja af því að hún er ekki tengd við önnur lönd og þetta á einnig við um Nýja-Sjáland, ekki síður.”
– Ég vil ræða aðeins við þig um fullorðna fólkið og lífsgleðina?
„Það verður hver og einn að sætta sig við sitt hlutskipti í lífinu og reyna að finna björtu hliðarnar á því sem eftir er. Tímann er ekki hægt að stöðva og við verðum að reyna að fínna björtu hliðarnar á því sem er eftir. Tímann getur maður ekki stoppað. Það verður bara að fylgja honum eftir eins og hægt er.”
Elísabet ReykdalÍ notalegu stofunni hennar Elísabetar er gömul og vegleg gólfklukka sem vekur athygli. Hún er í horninu hjá henni, þar sem flestar fjölskyldumyndirnar eru. Um hornið segir hún: „Þetta horn í stofunni er sálin mín. Klukkan er smíðuð af Jóni Stefánssyni, það er að segja umgjörðin. Hann var frá Fagurhólsmýri og er bróðir Ragnars Stefánssonar í Skaftafelli. Jón vann hjá pabba í verksmiðjunni og hann lét Jón smíða þrjá klukkukassa. Pabbi pantaði klukkuverk í tvo þeirra. Eina klukkuna gaf pabbi Matthíasi Einarssyni, lækni í Reykjavík, því að hann hafði gert svo stóra „operasjón” á honum bróður mínum, sem varð fyrir slysi austur á Söndum. Það féll mastur á höfuðið á honum. Það var ekki auðvelt að eiga við svoleiðis þá.
Það tók tæpa tvo sólarhringa að sækja lækninn, þó fékk hann alltaf óþreytta hesta á hverjum bæ til að halda áfram. Læknirinn gat náttúrlega ekkert gert, en báturinn sem sótti bróður minn var Skaftfellingur. Pabbi var með Skaftfellingi og fór að Fagurhólsmýri, en þangað var bróðir minn fluttur og þar lá hann slasaður þangað til hægt var að flytja hann til Reykjavíkur.
Hann bróðir minn var alveg mállaus og máttlaus öðru megin, en hann gat látið pabba vita um veskið sitt og pappíra undir koddanum. Því hafði hann hug á, þó hann væri svona á sig kominn. Síðan var það Matthías sem skar bróður minn upp, en hann kom síðan heim eftir mánuð. Þá var hann byrjaður að tala aftur og ganga svolítið. Pabba fannst hann því standa í þakkarskuld við Matthías Einarsson lækni, fyrir utan það að þeir þekktust áður.

Og klukkan tók undir
ReykdalEin klukkan fór þannig til Matthíasar sem þakklætisvottur en hin klukkan fór til mömmu.
Þá var ein klukka eftir og hún var búin að vera niður í verksmiðju í mörg ár. Árið 1944 hringdi pabbi í mig og spurði, hvort ég hefði ekki pláss fyrir klukkukassann. Hann sagðist vera í vandræðum með hann, því að þeir væru að laga til í verksmiðjunni. „Enda hefi ég alltaf ætlað þér hann”, sagði hann. Ég hélt nú að ég skyldi taka við honum. Síðan vildi svo til, að tveimur eða þremur vikum síðar brann verksmiðjan þannig að þá hefði klukkan glatast. Við fengum Magnús Guðlaugsson, úrsmið, til að panta klukkuverk í hana eftir stríðið og þá var klukkan sett upp. Það er eins og ég segi: Þetta er sálin mín.”
Um leið og ég þakkaði fyrir mig og kvaddi, tók stóra klukkan í horninu hennar Elísabetar undir með dimmum og virðulegum tónum.” – J.Kr.G.

Elísabet Reykdal fæddist á Setbergi Garðahreppi 17. desember 1912. Hún lést á Sólvangi 21. desember 2013.
Elísabet bjó á Setbergi nær alla sína ævi fyrir utan nokkur ár í æsku á Þórsbergi, nýbýli úr Setbergslandi sem Jóhannes faðir hennar byggði. Síðustu fimm æviárin dvaldi hún á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi í jaðri Setbergs. Skólaganga Elísabetar var ekki löng, hún var einn vetur í Flensborg og einn vetur í Kvennaskólanum í Reykjavík. Elísabet og Einar Halldórsson hófu búskap á Setbergi á fardögum vorið 1938 og allt þar til að Einar lést, og í samstarfi við syni sína þar til búskapur lagðist af að mestu árið 1985. Á efri árum ferðaðist Elísabet mikið bæði innan og utan, oft ein en líka með systurdóttur sinni, Ragnheiði Hermannsdóttur. Ferðaðist Elísabet til allra heimsálfa nema Suðurskautslandsins.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 36. tbl. 18.12.1991, “Hornið í stofunni er sálin mín”, Jólaviðtal við Elísabetu Reykdal á Setbergi, bls. 8-9.

Setberg

Mikið tjón í bruna að Setbergi í Garðahreppi í gær, Þjóðviljinn 5. sept. 1965, bls. 1.

Flóðahjalli

Í Morgunblaðinu, blaði B, 2002, fjalla Þorkell Jóhannsson og Óttar Kjartansson um “Tóftina á Flóðahjalla og horfna tíð í Urriðakoti“:

Þorkell Jóhannson

Þorkell Jóhannsson.

“Ný tegund tófta hér á landi eru leifar mannvirkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu.
Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson kynntu sér tóft þessarar gerðar sem er í Setbergslandi, á Flóðahjalla, sunna eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftir á Íslandi hafa verið flokkaðar í tvo meginflokka; húsatóftir (tóftir íveruhúsa og peningshúsa af ýmsu tagi) og tóftir margvíslegra skýla (tóftir sæluhúsam skothúsam brunnhúsa, myllukofa eða fjárborga og fjárrétta svo að dæmi séu tekin). Ný tegund tófta hér á landi er að kalla tóftir mannvrkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu. Ein tóft þessarar gerðar er í Setbergslandi á Flóðahjalla sunnan eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.

Tóftin hefur vakið athygli okkar á reiðferðum um landið í kring og þá ekki síst vegna stærðar sinnar. Segja má, að tóftin „hafi ekki látið okkur í friði“ og því hafi skrif þessi orðið til.

Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Í Urriðakoti var áður sveit, en þar er nú útivistarsvæði borgarbúa – og í vændum er mikil byggð og þar á meðal bygging tæknigarða, ef trúa má fréttum (Morgunblaðið 27.6.2001). Segja má að sú gerbreyting á landnýtingu og lífsháttum, sem hér hefur orðið á síðustu áratugum, hafi fylgt í kjölfar hernáms Breta 1940. Við höfum þess vegna einnig freistast til þess að hyggja lítillega að horfinni tíð á þessum slóðum.

Flóðahjalli

Flóðahjalli

Flóðahjalli er grágrýtisrani (sjá yfirlitskort), sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Allbreitt skarð skilur Flóðahjalla til suðausturs frá Sandahlíð, sem er hæsti hluti Setbergshlíðar. Flóðahjalli er hæst um 125 m yfir sjávarmáli og Sandahlíð er svipuð á hæð. Skarðið á milli er í um það bil 100 m hæð. Þar liggur nú háspennulína til Straumsvíkur og línuvegur meðfram. Skarðið nefnist Klif, en var þó aldrei ferðaleið. Vel mætti því vera að skarðið hefði upphaflega kallast „klyft“ (þ.e.a.s. klauf í hæðarhrygginn).

Flóðahjalli

Flóðahjalli – mannvirki.

Norðaustanvert á Flóðahjalla er markagirðing milli Urriðakots og Setbergs. Þar hefur land greinilega blásið, en í verið sáð lúpínu. Sækir hún nú ört upp hjallann og að tóftinni. Norðan við heitir Urriðakotsdalur og Hraunflatir næst Búrfellshrauni. Þar hafa Oddfellowar eftir 1990 gert stóra og vel búna golfvelli á sínu landi (sjá á eftir), og var þar golfskáli risinn þegar 1992.

Oddsmýrardalur

Oddsmýrardalur.

Suðvestan undir Flóðahjalla, milli hans og Svínholts og Setbergsholts, er Oddsmýri, en Oddsmýrardalur er til suðurs. Oddsmýri hefur verið ræst fram og þar verið ræktuð tún frá Setbergi. Mýrin hefur án efa verið mjög blaut og gæti einhvern tíma hafa verið verið kölluð „flóð“ og af því sé nafngiftin Flóðahjalli dregin. Eldri og væntanlega réttari nafngift er Flóðháls. Frá mýrinni rennur Oddsmýrarlækur í Urriðakotsvatn (Urriðavatn). Í Oddsmýrardal,   skammt innan við Oddsmýri, er beitarhúsatóft frá Setbergi. Þaðan er þægilegt að ríða eða ganga inn í botn Oddsmýrardals og svo áfram línuveginn til norðurs upp Klifið og síðan út eftir hjallanum að fornri og nokkuð hruninni vörðu fremst á Flóðahjalla (vafalaust hádegiseyktarmark frá Urriðakoti). Tóftin er nokkru framan við háhjallann, um það bil miðja vegu milli hans og vörðunnar. Þaðan er víðsýnt, ekki síst yfir Hafnarfjörð og nágrenni. Flóðahjalli er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu og þar má einnig ganga eða ríða upp hálsinn beina leið að tóftinni.

Urriðavatn

Urriðavatn í nútíma.

Norðaustan undir Flóðahjalla þar, sem heitir Flóðahjallatá, liggur svokallaður Flóttamannavegur, öðru nafni Elliðavatnsvegur eða Vatnsendavegur. Milli vegarins undir Flóðahjallatá og Urriðakotsvatns heitir Dýjamýri austar, en Þurramýri vestar. Dýjakrókar heita fjær undir Urriðakotshálsi (ranglega nefndur Urriðaháls í Mbl. 27.6.2001). Þar eru uppsprettur og úr þeim rennur Dýjakrókalækur vestur Dýjamýri í Þurramýrarlæk, á mótum Urriðakots og Setbergs, og svo í vatnið. Eru lækir þessir ásamt Oddsmýrarlæk helsta aðrennsli í vatnið ofan jarðar. Ef vernda á lífríki Urriðakotsvatns, ekki síst eftir að byggð færist nær beggja megin vatnsins, er því nauðsynlegt að friða bæði Dýjakróka og mýrlendið að sunnanverðu við vatnið.
Frárennsli úr vatninu er í norðvesturhorni þess í landi Setbergs. Rennur þaðan lækur, Stórakrókslækur, nú að mestu í rásum og stokkum, sem sameinast Hamarskotslæk (Hafnarfjarðarlæk) neðan og vestan við Setberg. Gekk áður sjóbirtingur í lækinn, en hann hvarf eftir virkjunarframkvæmdir Jóhannesar Reykdals, síðar á Setbergi (föður Elísabetar Reykdals, sjá síðar) árið 1904. Jóhannes Reykdal var frumkvöðull um rafvæðingu hér á landi sem kunnugt er.
Austan Urriðakotsvatns stóð bærinn í Urriðakoti í grónu túni. Túnið er enn grænt, en bæjarins sér nú lítinn stað. Hádegisholt og varðan á því hefur vissulegs blasað vel við frá bænum og útsýni er sömuleiðis gott af holtinu í átt að bæjarstæðinu).
Á Urriðakotshálsi voru á stríðsárunum nokkuð stórar herbúðir Bandaríkjamanna. Þær sjást allvel á loftmynd frá l954 og enn má sjá þar húsgrunna og steinsteypuleifar frá þeim tíma. Það er víst einmitt hér, sem hinir nýju tæknigarðar skulu rísa.

Tóftin

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

Tóftin er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla eins og áður segir. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans.
Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þeir hafa því riðlast umtalsvert í áranna rás. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin furðustór að flatarmáli eða nærri 800 m².

Elísabet Reykdal

Elísabet Reykdal.

Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Verða þannig til tvö lítil ferhyrnd rými (ca. 2,5x 4 m og ca. 3×1,8 m að innanmáli; og eitt hringlaga (ca. 4 m að innanmáli;). Í öðru ferhyrnda rýminu fundum við leifar af timburfjölum og utan við hringlaga rýmið fundum við ryðgaða járnplötu, 1×1 m, með ca. 8 cm háum hnúð eða pinna á í miðju, en alls ekkert annað, sem bent gæti til mannvistar.
Á klöppinni syðst eru nokkrar stafristur. Þar teljum við ótvírætt að höggvið hafi verið ártalið 1940, fangamarkið D.S. og væntanlega mannsnafnið J. E. Bolan. Þessi stafagerð er öll með sama breiða lagi. Auk þess má greina fangamörkin J.A. og G.H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940.

Elísabet Reykdal (f. 1912), sem alla tíð hefur búið á Setbergi, man vel eftir komu Breta í Hafnarfjörð sumarið 1940, og hún var í nábýli við þá og síðar Bandaríkjamenn. Hún minnist þess, að Bretar voru með gervifallbyssur (símastaura?) á Setbergshamrinum. Hún man einnig vel eftir Bretunum á ferð í einhvers konar beltabílum („einhvers konar smáskriðdrekar“) á vegaspottunum milli Setbergs og Urriðakots (þetta hafa verið svokallaðir Bren Gun Carriers). Telur hún líklegast, að Bretarnir hafi farið á bílunum upp á Flóðahjalla. Hún þvertekur fyrir, að Íslendingar hafi komið þar að verki.
Af bók prófessors Þórs Whiteheads, Bretarnir koma, má ráða, að meðal þeirra staða, sem Bretar óttuðust mest, að Þjóðverjar myndu nota til landtöku hér, voru lendingarstaðir flugvéla á Sandskeiði og í Kaldaðarnesi og höfnin í Hafnarfirði. Strax hernámsdaginn (10. maí) voru hermenn sendir upp á Sandskeið og austur yfir Fjall í svo ólíkindalegum herflutningatækjum og hvítar Steindórsrútur voru.

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Til Hafnarfjarðar voru hermenn fyrst sendir fáum dögum síðar og svo að marki 18. maí, þegar liðsauki hafði borist til landsins með tveimur stórum herflutningaskipum. Þá voru fluttir 700 hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga sjóleiðis til Hafnarfjarðar. Þessir hermenn höfðu þó ekki strax yfir að ráða Brenvögnum, þar eð slík farartæki komu fyrst til landins í júlí um sumarið (9; bls. 132 og 212). Þór Whitehead telur því einsýnt, að hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga hafi gert mannvirkið á Flóðahjalla. Hafi tilgangurinn verið sá að efla varðhöld og vígstöðu við Hafnarfjörð til þess að mæta hugsanlegri innrás Þjóðverja. Ótvírætt er, að Bretar óttuðust mjög landgöngu Þjóðverja í Hafnarfirði, ef svo bæri við. Í bók Þórs er þannig mynd (mynd 40), sem sýnir menn úr herfylki Wellingtons hertoga á æfingu á holti við Hafnarfjörð. Í texta við myndina segir m.a.: „Bærinn var talinn einn líklegasti landgöngustaður þýsks innrásarliðs og Bretar gerðu ráðstafanir til að sprengja Hafnarfjarðarhöfn í loft upp“.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – minjar.

Öðrum okkar (Þ.J.) hefur nú borist svar við fyrirspurn til aðalstöðva herfylkis Wellingtons hertoga þess efnis, að tóftin („the stone defence work mentioned“) hafi verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons og tilgangurinn hafi verið svipaður og Þór Whitehead telur („…to cover open ground, which might have been used by enemy parachutists, road approaches to the town and, possibly, likely landing places on the coast“).
Þessar upplýsingar eru byggðar á ritaðri frásögn eins þeirra hermanna, sem þarna komu við sögu og er enn á lífi. Í ljósi þessara upplýsinga þykir okkur líklegt, að byssustæði hafi verið í hringlaga rýminu (járnplatan leifar af því?) og einhvers konar vistarverur hefðu getað verið í ferhyrndu rýmunum (fjalaleifarnar leifar af timburgólfi?).

FlóðahjalliUrriðakot var áður konungseign og síðar ríkiseign, en komst í einkaeign 1890. Alþingishátíðarárið 1930 bjuggu þar og höfðu búið í áratugi hjónin Guðmundur Jónsson (1866–1941), frá Urriðakoti, og Sigurbjörg Jónsdóttir (1865–1951), frá nágrannabænum Setbergi og áttu þau jörðina. Þau eignuðust 12 börn og er frá þeim mikill ættbogi kominn.
Samkvæmt Fasteignabók 1932 var bústofn þeirra 140 sauðkindur og 5 kýr og auk þess 2 hross. Voru þá einungis fjórir bændur í Garðahreppi og aðliggjandi hreppum (Seltjarnarneshreppur, Bessastaðahreppur og Vatnsleysustrandarhreppur), sem voru fjárríkari en þau hjón og þar af einungis tveir, sem áttu að marki fleira fé en þau. Fimm kýr þótti og álitleg nautgripaeign í þá daga. Er því nokkuð ljóst, að Urriðakotshjón hafa orðið að halda vel á spöðunum til þess að sjá bæði bústofni sínum og sér og sínum börnum farborða.

Urriðakot

Urriðakot.

Í Urriðakoti og nágrannabæjunum þar, sem sauðfjáreign var umtalsverð, byggðist sá búskapur mjög á útibeit. Voru þá höfð fjárhús ýmist heima við bæ eða beitarhús frá bæ þar, sem útibeit þótti góð. Sauðaeign var einnig veigamikill liður í fjárbúskap í þá tíð, en sauðir voru jafnan látnir ganga nær sjálfala úti árið um kring. Jón Guðmundsson á Setbergi (1824–1909), faðir Sigurbjargar í Urriðakoti, var einn mesti fjárbóndi, sem sögur fara af hér um slóðir. Hann átti og fleiri sauði en allir aðrir. Í æviþætti af honum segir: „Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar.“

Urriðakotshraun

Fjárhústóft Guðmundar í Urriðakotshrauni.

Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum. Áður hafði Guðmundur vanið sauði sína við veglegra fjárbyrgi, sem er skammt sunnan línuvegarins í hrauninu.
Ef Guðmundur í Urriðakoti mætti nú rísa úr gröf sinni og skunda um Urriðakotsland, myndi honum án efa finnast púttarar í námunda við beitarhús sín og grillarar í námunda við sauðaskúta sinn framandlegir menn og óvelkomnir á sínu landi. Ef þeir hinir sömu skyldu hins vegar sjá mann koma hlaupandi við fót (Guðmundur í Urriðakoti var með afbrigðum léttstígur), er eins víst, að þeim yrði líkt við. Og þó! Þeim myndi án efa falla allur ketill í eld, þótt ekki væri nema vegna klæðaburðar mannsins. („Þótt snjór væri eða bleyta var hann alltaf á kúskinnsskóm og án yfirhafnar hvernig sem viðraði.“) Mjólkin úr kúnum var mjög spöruð heima fyrir og var hún vafalaust drýgsta tekjulind búsins. Var mjólkin seld til Hafnarfjarðar og flutt á reiðingi allt fram undir 1930, að ökufær vegur var lagður milli Urriðakots og Setbergs. Um líkt leyti var tekið að nota heygrind til heyflutninga, en sláttuvél eignaðist Guðmundur aldrei.

Urriðakot

Urriðakot – örnefni.

Eitt var sérlega athyglisvert í tengslum við heyskap í Urriðakoti, en það var nýting fergins (tjarnarelftingar), sem óx í vatninu. Fergin er nú horfið í vatninu og því miður er engin mynd til af því sérstaka verklagi, sem tengdist nýtingu þess. Um þetta farast Guðmundi Björnssyni svo orð: „Ferginið stóð ca. 30 cm upp úr vatninu og glitti í það á köflum. Við sláttinn voru menn á þrúgum úr tunnustöfum eða klofháum stígvélum og höfðu nót á milli sín. Með gaffli var því skóflað í land og síðan þurrkað á svokallaðri Ferginisflöt. Það var svo gefið kúm sem fóðurbætir.“
Svo mikill var þessi ferginsheyskapur í vatninu, að hann nam 40–50 hestburðum (ekki tíundað sérstaklega í Fasteignabók 1932). Voru kýrnar sólgnar í þennan „fóðurbæti“ og hafa án efa verið vel haldnar og í góðri nyt.
Ferginið í Urriðakotsvatni var með vissu slegið 1952. Engin bein skýring er hinsvegar á því hvers vegna fergin er nú horfið úr vatninu. Talið er, að það hafi horfið eftir 1973–1974 og orsökin hafi verið breytingar á frárennsli vatnsins. Önnur skýring kann þó að liggja beinna við, sem sé að vöxtur og viðgangur fergins í vatninu hafi verið háður því að það væri slegið reglulega.

Lok búskapar í Urriðakoti

Urriðakot

Urriðakot – Dagmálavarða.

Þau Guðmundur og Sigurbjörg hættu búskap í Urriðakoti 1935. Þau voru þó áfram í Urriðakoti með 20–30 kindur. Jörðina leigðu þau dóttur sinni og tengdasyni. Um mitt ár 1939 seldu þau tveimur sonarsonum sínum jörðina og fluttust alfarin frá Urriðakoti 1941. Að heimsstyrjöldinni lokinni komst jörðin í eigu Oddfellowa.
Eftir það bjuggu ýmsir á jörðinni fram undir 1960. Þá fór jörðin endanlega í eyði og skömmu síðar brann bærinn þar.
Sú verðbólga, er hófst í landinu í kjölfar hernáms Breta, gleypti andvirði jarðarinnar og urðu Guðmundur og Sigurbjörg þá eignalaus. Auður þeirra fólst því í börnum þeirra og öðrum afkomendum líkt og hefur orðið hlutskipti fjölmargra annarra, sem hafa séð eignir sínar fuðra upp í verðbólgubáli.
Sonarsynir Urriðakotshjóna, sem jörðina keyptu, fengu í desember 1944 nafni jarðarinnar breytt í Urriðavatn. Það var óþarfaverk að breyta fornu nafni jarðarinnar. Nafninu Urriðakoti er því haldið hér í samræmi við örnefnalýsingu Svans
Pálssonar frá 1978.”

Heimild:
-Morgunblaðið, blað B, 13.01.2002, “Tóftin á Flóðahjalla og horfin tíð í Urriðakoti”, Þorkell Jóhannson og Óttar Kjartansson, bls. 10-11.

Urriðakot

Urriðakot – upplýsingaskilti.

Garðar

Gísli Sigurðsson skrifar um “Garða á Álftanesi” í Alþýðublað Hafnarfjarðar 1972:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

“Lengi hefur það verið rnér undrunarefni, hve fáskrúðugar eru sagnir úr landnámi Ingólfs Arnarsonar hér við Faxaflóa. Segja þó bækur, að Ingólfur hafi verið frægastur allra landnámsmanna. Verður og ekki annað sagt um þá frændur, en þeir hafi frægir orðið: Þorsteinn sonur hans stofnar fyrstur til þinghalds og hurfu margir að því ráði með honum, Þorkell máni sonur Þorsteins var lögsögumaður og um hann hafa myndast næstum því helgisögur, og niðjar þeirra í karllegg voru allsherjargoðar og helguðu alþing á hverju ári. Séu nú sagnirnar héðan úr umhverfinu athugaðar, sjáum við, að mikið tóm blasir við okkur.
Hrafna-Flóki og þeir félagar koma við hér í Hafnarfirði, þegar þeir halda brott eftir misheppnaða tilraun til landnáms.
Þá kemur Ingólfur Arnarson og nemur hér land og setur bústað sinn í Reykjavík. Gaf hann síðan land frændum sínum og vinum, er síðar komu. Um landnám næsta nágranna segir Landnámabók: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. — Líklega hefur Ásbjörn komið hingað á árunum 890 til 900, en þá var hingað mest sigling.
Síðan líða um 300 ár, að því nær ekki er minnzt á þetta landssvæði. Þá segir svo í kirknatali Páls biskups, en það er tekið saman nálægt 1200: Þá er Hafnarfjörður og þá er Álftanes. Kirkja í Görðum og á Bessastöðum.

Garðar

Garðar og nágrenni.

Viðfangsefni mitt nú er að ræða lítilsháttar um annan þessara staða; Garða á Álftanesi.
Áður en lengra er haldið, skulum við staldra við frásögn Landnámuum Ásbjörn Össurarson. Landnám hans nær milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, það er yfir Álftaneshrepp hinn forna, það svæði, sem nú skiptist í Álftaneshrepp, Garðakauptún, Hafnarfjörð og Hraunin.
Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, er sagt. En hvar voru Skúlastaðir? Af þeim fáu nöfnum, sem kunnug eru héðan úr nágrenninu frá fornri tíð, eru nokkur, sem enginn veit nú hvar eiga við. En það verður að teljast með einsdæmum, að nafnið á bústað landnámsmanns sé glatað.

Garðar

Garðar árið 1900.

En eru, þá nokkur líkindi til, að þann stað megi finna, sem Ásbjörn bjó á, Skúlastaði? Nokkuð sérstætt er nafnið. En það kemur á óvænt, því að hvergi verður Skúla-nafnið fundið meðal frænda Ingólfs eða afkomenda þeirra. Engum blöðum er um það að fletta, að býlið hefur verið einhvers staðar á svæðinu milli Hraunshoitslækjar og Hvassahrauns. Nokkuð öruggt er, að bústaðir landnámsmanna verða er fram líða stundir höfðingjasetur og flestir kirkjustaðir. Til þess að verða höfðingjasetur og kirkjustaður þurfti jörðin að vera allstór, ekki minni en 40 hundruð, segja mér fróðir menn. Hvar er þá þessa lands, þessa stóra staðar að leita hér í umhverfi okkar? Sunnan fjarðar er slíkan stað varla að finna. Ofanbæirnir koma naumast til greina, og þótt búsældarlegt hafi oft verið um Álftanes sjálft, þá stöldrum við varla við þar. Til dæmis eru Bessastaðir ekki nema 8 hundruð að fornu mati. Þá er ekki nema einn staður, sem nefna mætti stóran stað og þar sem síðar verður kirkjustaður með höfuðkirkju. Staður sá, sem mér finnst líklegastur til að hafa verið Skúlastaður og bústaður Ásbjarnar, er því Garðastaður. Héðan er fagurt að sjá til allra átta. Hér er gróðursæld og hér er gjöfull sjór fram undan. Í upphafi kristniboðs á Íslandi var þeim höfðingjum, er kirkjur reistu, lofað, að þeir skyldu hafa svo mikil mannaforráð á himnum sem menn rúmuðust í kirkju þeirra. Varð því margur höfðinginn til þess að reisa kirkju á bæ sínum. Til þess að reisa slík hús sem kirkjur voru þurfti og nokkur efni. Þá þurfti kirkjueigandinn að halda prest, en slíkir prestar voru oft eins konar vinnumenn höfðingja.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

En hafi nú nafnið Skúlastaðir horfið fyrir nafninu Garðar, hver var þá orsökin? Fróðir menn segja mér, að margt bendi til, að allmikil akuryrkja hafi verið stunduð hér um slóðir, um allt Álftanes, allt fram undir siðaskiptin um miðja 16. öld. Benda þar til nokkur örnefni, svo sem Akurgerði í Hafnarfirði, Akrar við Breiðabólstaði og Akurgerði þar í túni, Tröð, sem er bær á nesinu, og Sviðholt, en því er það nafn, að jörð var þar brennd eða sviðin undan sáningu. Þá er hér einnig víða að finna örnefni eins og Gerði og Garða. Þannig voru akrar varðir til forna, að kringum þá voru hlaðnir garðar, bæði til skjóls og til varnar ágangi fénaðar. Geta má þess til, að Ásbjörn og afkomendur hans hafi látið gera akra og haft akuryrkju ekki litla, garðar miklir hafi verið hlaðnir, og þannig hafi Skúlastaðanafnið grafizt undir görðum og hafi þá orðið til Garðar á Álftanesi. Og staðreynd er, að hér var um aldir stór staður og prestssetur.
Næst eftir að getið er um Garða i kirknatali Páls biskups, er þeirra minnzt í Sturlungu, þar sem segir, að 1264 hafi Gissur jarl riðið á Kjalarnes og gist að Einars bónda Ormssonar í Görðum. Var honum þar vel tekið og var hann þar nokkrar nætur.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Leitukvennabásar.

Þá er þess getið næst, að þrír menn í Grindavík bera vitni um reka Garðastaðar 1307: Garðastaður á reka bæði rekaviðar og hvalreka á fjörum austan við Ísólfsskála milli Rangjögurs og í Leitukvennabása. Þegar þetta gerðist, er hér þjónandi prestur séra Jón Þórðarson, en herra Haukur hafði þá sýslu.

Garðakirkja

Garðakirkja 1925.

Enn líður nokkur tími eða fram undir aldamótin 1400. Þá tekur nokkuð að rofa til. 1395 lætur Vilchin biskup í Skálholti gera máldaga flestra kirkna í Skálholtsbiskupsdæmi. Ég held að segja megi, að þá sé staðurinn i Görðum og kirkjan nokkuð vel sett að andlegum hlutum og veraldlegum. Er ekki úr vegi að taka hér upp þetta ágæta plagg, máldaga Garðakirkju.
Péturskirkja í Görðum á Álftanesi á heimaland allt, Hausastaði, Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland, afrétt í Múlatúni. 18 kýr, 30 ásauða, 7 naut tvævetur, 6 naut veturgömul, 2 arðuryxn. 6 hross roskin, 16 hundruð í metfé. 10 sáld niður færð. 6 manna messuklæði, utan einn corporale brestur, og að auki 2 höklar lausir, annar með skínandi klæði, en annar með hvítt fustan. 3 kantarakápur, 2 altarisdúkar búnir. 6 altarisklæði og eitt skínandi af þeim. 2 dúkar stangaðir. 2 fordúkar. Skrínklæði lítið. 3 sloppar. Smelltan kross og annan steindan fornan. Koparskrín gyllt. Huslker af silfri. Gylltan kross lítinn. Paxspjald steint. Brík yfir altari. Kertastikur 3 úr kopar. Járnstikur 2. Bakstursjárn vont. Item sæmiiegt Ampli. Klukkur 5. Kaleikar 3, 2 lestir og hinn þriðji forgylltur. Maríuskrift. Pétursskrift. Merki eitt. Sakrarium mundlaug. 1 stóll. 2 pallkoddar. Fornt klæði og skírnarsár. Tjöld vond um kór og dúklaus. 2 reflar vondir um framkjrkju. Glóðarker. Graduale per anni circulum. Lesbækur út 12 mánuði þar til pistlar og guðspjöll, per anni circulum með collectario. Liber Evangeliorum. Omilie Gregorii Actis Apostolorum. Apocalipsis. Passionarius Apostolorum et eliorum santcorum. Altarisbók, Psaltari. Söngbók de tempore frá páskum til adventu. Forn sequentiubók. Messufatakista ólæst. Eins og vænta mátti er hér um eitt bezta heimildargagn að ræða.

Garðar

Garðar fyrrum.

Hér er í fyrsta skipti getið þeirra býla, er heyra staðnum til: Hausastaðir, Selskarð, Hlið, Bakki, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland og upprekstur í Múlatún. Til skýringar á Hjallalandi vil ég geta þess, að hér mun átt við svæði sunnan Grunnuvatna milli Sneiðinga innst á Vífilstaðahlíð og landamerkja Vatnsenda, skammt vestan til við fjárborgina góðu, Vatnsendaborg. Þá er vert að veita því athygli, að getið er um 2 arðuryxn gömul. Arðuryxn geta ekki verið annað en yxn, sem draga arð, plóg við akuryrkju. 10 sáld niður færð! Getur hér varla verið um annað að ræða en að sáð hafi verið korni úr 10 sáldum. Hér hefur þá verið nokkur akuryrkja á staðnum.
Og hvað um kirkjubúnaðinn? Er hann ekki sæmilegur? Myndum við ekki verða hýrir á svip, ef fyrir framan okkur lægju gripir þessir. En látum okkur nægja að sjá þá aðeins með innri sjónum.
Frá árinu 1477 er til ágrip af máldaga. Ber honum það sem hann nær algerlega saman við Wilchinsmáldaga. Þó er kirkjan orðin einu messuklæði fátækari.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Næst verður fyrir okkur fróðlegt bréf frá 1558 um viðskipti staðarins við hans Majestet konunginn og umboðsmann hans. Er það all-fróðlegt: Eg Knut Stensen, kongleg Majestetz Byfalingsmaður yfir allt Ísland, kennist með þessu mínu bréfi, að ég hef gjört svoddan jarðaskipti upp á konglig Majestetz vegna við síra Loft Narfason, kirkjunnar vegna í Görðum á Kongsnesi, að ég hef undir kongsins eign til Bessastaða tekið jörðina Hlið er liggur á Kóngsnesi, er þar í landskyld í málnytukúgildi og ein mjöltunna. En þar hefur hann fengið til kirkjunnar í Görðum Viðeyjarklaustursjörð, er heitir Vífilsstaðir í Bessastaðasókn. Tekst þar af landskylda og málnytukúgildi. Og fyrir mismun landskyldanna hefi ég lofað og tilskikkað fyrrnefndum síra Lofti eður Garðakirkju umboðsmanni eina tunnu mjöls á Bessastöðum, að hún takist þar árlega af kóngsins mjöli.
Skal það fylgja hvorri jörð, sem fylgt hefur að fornu og nýju. Skulu þessi jarðaskipti óbryggðanlega standa og vera hér á báðar síður, utan konglig Majestet þar öðruvísi umskipti á gjörir eða skykkan. Samþykkti þessi jarðaskipti herra Gísli Jónsson Superindentent yfir Skálholts stikti. Og til staðfestu og auðsýningar hér um, að svo í sannleika er sem hér fyrir skrifað stendur, þrykki ég mitt signet á þetta jarðaskiptabréf. Skrifað á Bessastöðum 4. dag júlí-mánaðar, Anno Domini 1558. Þá kemur neðan máls ekki ófróðleg klausa um viðskipti við Konglega Majestet og hans Byfalingsmenn. Þessa mjöltunnu hafa prestar í Görðum misst síðan í tíð höfuðsmanns Einvold Krus af óvild, inn féll milli hans og síra Jóns Krákssonar í Görðum.

Steinhes

Steinhes.

Að þetta ofanritað sé rigtug og orðrétt Copia eftir originalnum og höfuðsmannsins bréf vottum vér sem saman lásum og originalinn sjálfan með undirsettu innsigli höfuðsmannsins Knutz Steinssonar sáum og yfirskoðuðum að Görðum á Kóngsnesi 19. júní anno 1675.
Það næsta, sem fyrir okkur verður varðandi Garðakirkju og Garðastað, er að finna í Visitasíubók hans herradóms Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 19. sept. 1661 og fjallar um lögfesti á landamerkjum Garðastaðar: Landamerki Garðastaðar eftir lögfesti síra Þorkels eru þessi: Syðri Hraunbrún hjá Norðurhellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri í miðjan Kethelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi, svo beint úr Steinhesinu og upp í Syðri-Kaldárbotna og allt Helgafell og í Strandartorfur og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól og úr Hnífhól og heim í Arnarbæli. Datum Bessastöðum 1661 Jónsmessudag sjálfan.

Jón Halldórsson og Jón Jónsson

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Item lagði nú síra Þorkell Arngrímsson fram vitnisburðarbréf síra Einars Ólafssonar og Egils Ólafssonar og Egils Einarssonar með þeirra áþrykktum innsiglum, datum Snorrastöðum í Laugardal næstan eftir Maríu-messu á jólaföstu anno 1579, að Garðastaður ætti land að læknum fyrir sunnan Setberg, sem er sá lækur sem rennur milli Stekkatúns og Setbergs og allt land að þeim læk, er menn kalla Kaplalæk. Og það Stekkatún, sem er sunnan við greindan læk, byggði síra Einar ætíð með Hamarskoti, og með sama hætti þeir sem enn fyrr bjuggu í Görðum en hann, og aldrei heyrði hann þar orðtak á að Setberg ætti nokkurt ítak í Hamarskotslandi eður neinstaðar í Garðalandi.
Þessu næst koma svo útdrættir gerðir af síra Árna Helgasyni.

Um Garðastað

Fiskaklettur

Fiskaklettur.

Kirkjan á einnig Hjallaland og afrétt í Múlatúni, bæði eftir vísitazíu og máldögum. Plagg þetta er frá 25.8.1780. Þá er vitnað til bréfs undirskrifaðs 1701, og er svo hljóðandi: Nú koma nokkrar afskriftir af máldögum Garðakirkju og þar á meðal eitt er kallast: Nýtt Registur 1583. Svo hljóðandi: Kirkjan í Görðum á Álftanesi á 20 kúgildi, einn hest. Þessar jarðir: Ás, Setberg, Vífilsstaði, Dysjar, Nýjabæ, Selskarð, Akurgerði, Hlið, Hamarskot, Bakka, Hausastaði, Pálshús, Oddshús, Hraunsholt.
Hvernig Ás og Setberg er undan gengið veit ég ekki, né heldur hvar Oddshús hafa verið. Síðan koma skriftir um skóga og skógaítök og svo undirskriftir. Það fer eins fyrir mér og séra Árna. Ekkert veit ég um Ás utan það, að 1703 á konungur hluta jarðarinnar. En það held ég að ég viti um Setberg, að það sé ein sú jörð, sem slapp í gegnum netið, að hvorki lenti í eigu nokkurrar kirkju né í eigu Viðeyjarklausturs. Hún var alltaf bændaeign. Oddshús tel ég aftur á móti að hafi verið þar sem síðar var Oddakot. Oddakot var austast á eyju þeirri, sem nefnzt hefur Hliðsnes. Má þar enn sjá marka fyrir rústum kotsins. Til skamms tíma lifði hér í Hafnarfirði fólk, sem borið var og barnfætt Í Oddakoti.

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Eftir að Árni biskup Helgason gerir á margvíslegan hátt hreint fyrir sínum dyrum og kirkjunnar í Görðum með upprifjunum og afskriftum af bréfum og máldögum staðarins, er hljótt um stund, eða allt þar til hingað kemur sá mæti klerkur Þórarinn Böðvarsson. Hann hafði ekki lengi setið staðinn, er hann hóf að grannskoða, hvernig háttað væri um eignir Garðastaðar. 1871 fær hann settan rétt til að rannsaka, hve mikið land tilheyrði verzlunarlóðinni, lóð Akurgerðis, sem upphaflega var hjáleiga frá Görðum. En 1677 höfðu farið fram með vilja konungs makaskipti á hjáleigunni og jörð vestur í Kolbeinsstaðahreppi. Bjarni riddari Sivertsen hafði keypt jörðina af konungi, en Knudtzon stórkaupmaður keypti af dánarbúi Bjarna. Munu engin mörk hafa þar verið sett í milli. Vitnisburðir þeir, sem fengust við þessa athugun, eru gagnmerkir, en verða ekki upp teknir hér nú. Eftir að rannsókn hafði farið fram, var málið lagt í dóm — eða til sáttar. Sú sáttargjörð var svo birt árið 1880. Voru þá landamerki samin milli fyrrum hjáleigunnar Akurgerðis og Garðakirkjulands. Voru þau þessi: Fyrst: Klöpp undir brúnni yfir lækinn niðri í fjöru. Varða á svonefndum Ragnheiðarhól. Varða hjá bænum Hábæ í Hrauni. Varða ofanvert við Hólsbæina á Stakkstæði. Varða hjá Félagshúsinu, rétt við Fjarðarhelli. Varða hjá Veðurási. Varða á hól vestan Kristjánsbæjar, og þaðan beina línu í Fiskaklett.
HafnarfjörðurNokkra skýringu munu þessir staðir þurfa. Klöppin undir brúnni: Klöpp þessi liggur nú undir austurvegg Pósthússins í Hafnarfirði.
Ragnheiðarhóll: Þar er nú risið hús Olivers Steins. Hábær: Hann stóð þar sem nú eru Rafveituskrifstofur.
Varða ofan Hólsbæjar var við húsið nr. 2 við Urðarstíg. Félagshúsið er nr. 7 við Hellisgötu. Veðurás eru húsin nr. 9 og 11 við Kirkjuveg. Varðan vestan Kristjánsbæjar: Við hana er Vörðustígurinn kenndur, og er hún eina merkið, sem enn stendur. Og Fiskaklettur stendur enn snoðinn nokkuð rétt við Vöruskemmu Eimskipafélags Íslands. Sú trú er nú kominn á þann klett, að ógæfumerki sé að hrófla við honum.
Eftir þetta verða litlar breytingar á högum Garðakirkjulands, eða allt þar til að Hafnarfjörður fær kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. En þá og nokkru síðar verða miklar breytingar, sem er mjög langt mál og allflókið.
Að síðustu verður hér litið yfir landamerki þau, sem gerð voru á árunum kringum 1890.

Landamerki

Arnarbæli

Arnarbæli – varða ofan Grunnuvatna.

Merki á landi Garðakirkju á Álftanesi, samkv. máldögum og fornum skjölum.
1. Á móti Oddakoti í miðjan Ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarðinn.
2. Úr Ósnum norður í Hól hjá Skógtjörn, og er þar hlaðin merkjavarða, þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólnum hjá Núpsstíflum, þar er hlaðin merkjavarða.
3. Þaðan út í miðja Tjörn, Lambhúsatjörn, þá sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns, og í miðjan tjarnarósinn í mynni Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum upp í Stóra-Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina upp í Dýjakrók (3. sept. 1870) og þaðan í mitt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýrina, beina línu suður í Arnarbæli, þaðan í austur-landsuður upp í Hnífhól, þaðan í austur-landsuður í mitt Húsfell. Úr miðju Húsfelli beint til suðurs í Efri-Strandartorfur, þaðan beint í suður í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Melrakkagil) í Undirhlíðum, þaðan til norðurs við lönd Hvaleyrar og Áss í Steinhús (Steinhes), sem er við Neðri-Kaldárbotna, þaðan móts við Ófriðarstaðaland vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðurs í Vörðu á Hlíðarþúfum, þá sömu línu norður í Öxl á Mosahlíð, enn sömu línu í Vörðu á Kvíholti, loks sömu línu mitt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn, þaðan allt með Hafnarfirði norðanvert í Ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti.

Garðahverfi

Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaði.

lnnan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Langeyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðendi, Hlíð, Móakot, Hausastaðir og Hausastaðakot, sem allar hafa afmörkuð tún og rétt til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns til allra leiguliðanota, en ekkert útskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar með kálgörðum og túnblettum og timburhúsum sömuleiðis. Innan merkja er kirkjujörðin Vífilsstaðir, áður konungseign, á hún sérstaklega: tún og engi fyrir neðan Vífilsstaðavatn, hálfan Leirdal, allan Rjúpnadal, alla Vetrarmýri og mótak niður undan við Arnarneslæk, Maríuhelli og Svínahlíð fram í Sneiðinga.
Ennfremur eru innan merkjanna þessar jarðir:
1. Setberg: Eru merki þeirrar jarðar sem segir í landamerkjaskjali hennar.
2. Urriðakot: Eru merki þeirrar jarðar, sem segir í landamerkjaskjali hennar.
3. Hofstaðir: Sú jörð á sitt eigið tún, en ekkert land utantúns. Með hagbeit í kirkjulandinu fyrir fénað, sem túnið ber.
4. Hagakot: Þjóðeign, á sitt eigið tún, mýrarkorn neðan túns og mótak í barði og beit fyrir fénað þann, sem túnið og mýrin framfleytir.
5. Akurgerði: Túnlaus verzlunarlóð, merki ákveðin með samningi dags. 27. marz 1880 og þinglýst 17. júní sama ár. Þessi landamerki samþykkt af öllum hlutaðeigendum og síðan þinglýst á manntalsþingi í júní 1890.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 1. tbl. 10.01.1972, Garðar á Álftanesi, Gísli Sigurðsson, bls. 7, 13 og 14.

Garðar

Garðar.

 

Setberg

Á upplýsingaskilti við rústir gamla Setbergsbæjarins í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

“Um aldir hefur verið búið á jörðinni Setbergi við hafnarfjörð en elstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1505. Bærinn stóð ofarlega í Setbergstúninu en túnið lá á móti suðvestri. Upp úr 1770 var bærinn teiknaður upp og var þá hinn reisulegasti enda sýslumannssetur. Minjar Setbergsbæjarins, sem hér eru, hafa verið friðlýstar.

Setberg

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

Setbergsannáll var ritaður af Gísla Þorkelssyni sem fæddist á Setbergi 1676 og bjó þar megnið af ævi sinni. Segja má að þessi annáll sé sérstakt bókmenntaverk því að þar er töfraskilningur ráðandi og reglulega sagt frá fyrirbærum á borð við sæskrímsli, náttúruvættir og himnasýnir eins um staðreyndir hafi verið að ræða. Þar er meðal annars sagt frá ljóni sem rak á land árið 1230 með hafís og tókst að valda miklum skaða en slík sjón eru annars lítið þekkt. Annað dæmi er frá árinu 1206, þar segir: “Rak suður með garði skrímsli með 8 fótum í einu norðanverðri; var grátt sem selur með heststrjónu eður haus, en rófu upp úr bakinu; hvart nóttina eftir. Þetta skeði um veturnætur.”

Setberg

Galdraprestsþúfa við gamla Setbergsbæinn.

Til eru sögur um bænahús eða kapellu við Setbergsbæinn og á hún að hafa staðið þar sem nú er “Galdraprestaþúfa” skammt frá bæjarrústinni. Þar réð meðal annars ríkjum sr. Þorsteinn Björnsson (d. 1675) en eftir hann liggur kvæðasafnið “Noctes Setbergenes” eða Setbergsnætur sem varðveitt er í Árnasafninu. Kvæðasafn þetta orti hann meðal annars til að “stytta sér hið leiða líf” eins og hann orðaði það sjálfur. Þorsteinn þessi var, að telið er, rammgöldróttur og lagði hann svo á að ekki mætti hrófla við þessari þúfu án þess að illa færi.

Íslandskort

Forn Íslandskort með skrímslum og öðrum forynjum.

Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var rituð árið 1703 voru allar jarðir í Álftaneshreppi ýmist í eigu konungs eða Garðakirkju með þeirri einni undantekningu að jörðin Setberg var í eigu Þóru Þorsteinsdóttur. Álftaneshreppur náði á þeim tíma allt frá Kópavogslæk og suður að Hvassahrauni. Þá voru heimilismenn sex og á bænum voru fimm kýr, 23 ær, fjórir suaðir veturgamlir og fjórir hestar og selstöð átti jörðin þar sem heitir Ketshellir eða Kershellir. Í sömu lýsingu kemur fram að “silungsveiði hefur hjer til forna verið í Hamarskotslæk, kynni og enn að vera ef ekki spillti þeir með þvernetjum sem fyrir neðan búa”, Setberg átti ekki land að sjó en fram kemur í heimildum að jörðin hafi haft búðaaðstöðu og skipsuppsátur í landi Garða þar sem heitir Skipaklettur og greitt leigu fyrir. Skipaklettur var þar sem Norðurbakkinn er í dag við Hafnarfjarðarhöfn en hann var brotinn niður þegar fiskverkunarhús Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar var byggt um miða 20. öld.”

Setberg

Tóftir gamla Setbergsbæjarins.

Í örnefnaskrá fyrir Setberg segir m.a.:
“Samkvæmt máldaga fyrir jörðinni Setbergi í Garðahreppi, dagsettum 6. júní 1523, eru landamerki jarðarinnar Setbergs sem hér segir: Úr miðjum Kethelli og í stein þann, er stendur í fremsta Tjarnholti; úr honum og í Flóðhálsinn; úr Flóðhálsinum og í Álftatanga, úr honum og í hellu, er stendur í Lambhaga. Þaðan í neðstu jarðbrú, svo eftir því sem lækurinn afsker í túngarðsendann; þaðan í Silungahellu, svo þaðan í þúfuna, sem suður á holtinu stendur, úr henni og í syðri Lækjarbotna, úr þeim og í Gráhellu, úr henni og í miðjan Kethelli. [Nmgr.: Landamerkjaskrá er samkvæmt landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. J. H.]

Setberg

Setberg – loftmynd.

Setberg, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. Setbergsbær stóð í Setbergstúni ofarlega nokkuð og lá túnið mót suðvestri. Túngarðar eða Setbergstúngarðar lágu að því að sunnan, austan og norðan. Suðurtúngarður lá neðan frá læk, sem síðar getur, upp á holtið að fjárhúsi, er þar er. Austurgarður er ofan túns allt út að austurtúngarðshliði og þaðan nokkuð lengra, en þá tekur norðurtúngarður við, og nær hann allt niður að læk. Gamligarður, þar sem túnið er hæst ofan bæjar. Markar enn fyrir þessu garðlagi. Setbergsbrunnur lá í lægð niður frá austurbæjarhorni. Þaðan lá svo brunngatan niður að brunninum. Túnið hér var kallað Niðurtún eða Suðurtún, allt upp undir fjárhúsið. Þar var utan garðs Stöðullinn, og innan garðs var Stöðulgerði. Milli Gamlagarðs og túngarðs voru nefndar Útfæringar allt út að hliði. Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Á þúfu þessari sat löngum Þorsteinn Björnsson prestur, og hér orti hann „Noctes Setbergenses“. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við þúfu þessari. Í Norðurtúni var Setbergskot eða Norðurkot og kringum það Norðurkotstún.”  –Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Setberg.

Setberg

Setberg 1984. Gamla Setbergsbæinn má sjá efst í hægra horninu – á þeim stað, sem hann var.