Setbergsbærinn

Í Fjarðarpóstinum 1991 er viðtal við Elísabetu Reykdal, fyrrum húsfreyju á Setbergi, undir fyrirsögninni “Hornið í stofunni er sálin mín“:

Elísabet Reykdal

Elísabet Reykdal.

“Elísabet Reykdal hefur talsverða sérstööu aö því leyti, að hún og hennar fólk var þekkt í bænum sem Garðhreppingar, en nú er Elísabet oröin Hafnfirðingur, þó hún hafi aldrei flutt um set og alltaf búið í sama húsinu. Þetta er meira en lítið sérstætt, en á þó sínar eðlilegu skýringar vegna útfærslu á bæjarmörkum Hafnarfjarðar. Elísabet er dóttir hins kunna athafnamanns Jóhannesar Reykdal, sem byggði fyrstu vatnsknúnu rafstöðina á Íslandi, og konu hans, Þórunnar Böðvarsdóttur. Nú býr Elísabet í miðju glæsilegu íbúðahverfi þar sem áður var búskapur, tún og kýr á beit.

Já, Setberg var næststærsta býlið í Garðahreppi. Það voru aðeins Vífilsstaðir sem var stærra býli”, sagði Elísabet í upphaf viðtals okkar.
– Þið voruð mörg í heimili á Setbergi?
„Já, það voru oft um 20 manns og stundum upp í 25 yfir sumartímann. Það bjuggu hérna heima lærlingar og smiðir sem unnu hjá pabba. Annars vorum við 10 systkinin sem upp komust, en yngst dó systir mín, aðeins 12 ára. Það voru berklarnir sem herjuðu á fjölskylduna. Það dóu fimm uppkomnir bræður úr berklum.
Ég er fædd á Setbergi en annars byrjuðu pabbi og mamma sinn búskap í Hafnarfirði. Þau giftu sig 1904 og sama haustið voru kveikt fyrstu rafljósin, en verksmiðjuna reisti pabbi 1903, Timburverksmiðjuna Dverg. Það var fyrir Dverg sem hann virkjaði Lækinn, ennfremur fengu 16 hús ljós í fyrstu.”
– Hvaðan kom pabbi þinn til Hafnarfjarðar?
„Hann kom hingað frá Danmörku. Fyrst flutti hann til Reykjavíkur þar sem hann var í tvö ár, en síðan til Hafnarfjarðar. Annars var hann Þingeyingur að uppruna. Mamma fæddist hins vegar í Hafnarfirði en hennar fólk kom frá Miðfirði. Pabbi og mamma kynntust hér í Hafnarfirði. Afi hafði þá skólapilta í fæði og smáveitingasölu.”
„Það blundaði bóndi í pabba og Einari”
– Þannig að faðir þinn Jóhannes Reykdal lærði í Danmörku?
„Já, hann lærði í Danmörku en fyrsta verkefnið hans hér var að byggja gamla barnaskólann. Upp úr því setti hann upp verksmiðjuna og síðan kvæntist hann um vorið. Pabbi og mamma bjuggu fyrst í Hafnarfirði en síðan keypti pabbi Setbergið 1909 og 1911 fluttu þau hingað upp eftir. Á meðan þau voru niðri í bæ hafði hann ráðsmann við búskapinn en rak síðan búið sjálfur eftir að þau fluttu. Það blundað bóndi í pabba og hann var alltaf mikið fyrir skepnur.”

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal.

– Síðan verða kynslóðaskipti og þú tókst við búskapnum?
„Já, en þá hafði búið verið í leigu í fimm ár eða frá því 1931, en þá dóu tvö systkini mín. Þá auglýsti pabbi Setbergið til leigu. Eitt árið ráku systkini mín búið, en þá dó bróðir minn, sem aðallega stóð fyrir búinu. Þá hættum við aftur en tókum síðan við búinu áný árið 1938.”
– Þú varst ung heimasæta á Setbergi en giftist síðan sjómanni, Einari Halldórssyni. Þú gerðir þér lítið fyrir og gerðir hann að bónda?
„Já, hann var lengi kallaður Einar á Maí af því að hann var svo lengi stýrimaður með Bendikt Ögmundarsyni. Annars byrjaði hann sína sjómennsku á Skúla fógeta, en var nýfarinn af honum þegar Skúli fógeti fórst. Hann var kominn með pokann sinn niður á Steindórsstöð til að fara til Reykjavíkur en þá kom Benni hlaupandi og sagði: „Hann Ásgeir Stefánsson er búinn að reyna að ná í þig í allan dag, því að það er plássfyrirþighjámér”. Svo Einar hringdi inn eftir og lét vita af því, að hann kæmi ekki og fór um borð í Maí. Þar var hann til ársins 1937. Síðan var hann á Hafsteini með Ólafi Ófeigssyni. Hann var stýrimaður hjá honum.”
– Þótti Einari manni þínum ekki súrt í broti að vera kippt af sjónum til að gerast bóndi?
„Nei, það held ég ekki. Það blundaði í honum bóndi. Hann var búinn að vera níu sumur á bæ upp í Borgarfirði sem kaupamaður og þá var hann einu sinni alveg að því kominn að kaupa þar jörð og ætlaði að fara að búa. Það var áður en við kynntumst. Hann hafði alltaf gaman af búskap. Það var Fossatún í Bæjarhreppi sem hann var næstum búinn að kaupa. Það var smákot þá, en er orðið stórbýli núna. En einhvern veginn varð ekkert úr því að hann keypti jörðina.”
– Síðan hófst búskapur ykkar á Setbergi?
„Já, við rákum hér búskap í 40 ár. Við hefðum átt fjörtíu ára giftingarafmæli haustið eftir að Einardóíjanúar 1978. Við giftum okkur í september 1938.”
– Þróunin hefur verið ör. Í staðinn fyrir græn tún og kúabúskap er komin þétt byggð?
– „Já, hér voru yfirleitt um 35 kýr og á annað hundrað fjár.”
„Víst á ég heima á Setbergi”
Setberg
„Þannig að nú átt þú ekki lengur heima á Setbergi samkvæmt skipulaginu?
„Víst á ég heima á Setbergi.
Þegar ég fékk tilkynningu um það að nú ætti ég heima á Fagrabergi 32, þá fór ég niður á bæjarskrifstofu og neitaði og sagði, að ef ég mætti ekki eiga heima á Setbergi þá byggði ég mér bara hús fyrir ofan, uppi í Garðabæ, því að á Setbergi ætlaði ég að eiga heima.

Einar Halldórsson

Einar Halldórsson á Setbergi.

Ég fékk síðan bréf upp á það að húsið mætti áfram heita Setberg, enda er þetta sama húsið og áður og hefur alltaf verið Setberg og er enn á jörðinni. Það er ekki búið að leggja jörðina niður, þó að Hafnarfjarðarbær hafi keypt hluta af henni.”

– Synir ykkar ráku jörðina síðustu árin eftir að Einar dó, eða þar til þensla Hafnarfjarðar krafðist meira landrýmis?
„Já, þeir ráku búið, en þetta var einn fjórði hluti af jörðinni sem Hafnarfjörður keypti. Hinn hlutinn er ennþá í Garðabæ. Eiginlega get ég bæði kallað mig Hafnfirðing og Garðbæing. Þó verð ég að kjósa í Hafnarfirði.”
– Ef við rifjum upp, þá var Einar oddviti í Garðahreppi?
„Já, í nokkur ár en um leið og hann varð oddviti þá var ráðinn sveitarstjóri. Hann vildi ekki hafa nein fjármálaumsvif, enda þróaðist byggðin ört þar líka.”

Hóf heimsreisur á efri árum
– Þú ert orðin fullorðin kona og ein á báti, má segja, síðan þú varðst ekkja og börnin búin að stofna eigin heimili. Þá tekur þú þig til og hefur gert sérstaklega víðreist af fullorðinni konu að vera?
„Ég byrjaði á þessu árið 1979 en þá fór ég fyrstu ferðina en það var árið eftir að Einar dó. Þá fór ég til Kanada á slóðir Vestur-Íslendinga, til Winnipeg og reyndar alveg til Vesturstrandarinnar og hitti marga Íslendinga. Það var mjög gaman. Næsta ferð var til Grikklands með mági mínum og systur og við vorum þar í þrjár vikur. Þar á eftir fór ég hringferð um Mið-Evrópu, um Alpana. Það var þriggja vikna ferð, alveg ágætis ferð.
Síðan fórum við aftur saman, mágur minn og systir, til Norðurlandanna. Við flugum til Þrándheims en þar eigum við ættingja og vorum þar í fjóra daga en ókum síðan suður Noreg. Þar er víða mjög fallegt og þetta var mjög skemmtilegt.
Síðan fór ég til Egyptalands og Ísrael. Eftir það fór ég í heimsreisuklúbbinn og þá fyrst í ferð til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Síðan tók við ferð til Kína og svo ferð til Indlands. Þá var ferð til Suður-Ameríku og önnur til Suður-Afríku og núna síðast til Japans, Filippseyja og Formósu.”
– Hvaða heimshluti féll þér best?
Elísabet Reykdal„Það var óskaplega gaman að koma til Kína. Það var svo sérstakt. Suður-Afríkuferðin var líka mjög vel heppnuð. Nú og síðan er Ástralía og Nýja-Sjáland alveg sérstakt líka. Mannlífið þar var að mörgu leyti líkara okkar. Ástralía, þó að hún sé stór, þá er hún líka eyja af því að hún er ekki tengd við önnur lönd og þetta á einnig við um Nýja-Sjáland, ekki síður.”
– Ég vil ræða aðeins við þig um fullorðna fólkið og lífsgleðina?
„Það verður hver og einn að sætta sig við sitt hlutskipti í lífinu og reyna að finna björtu hliðarnar á því sem eftir er. Tímann er ekki hægt að stöðva og við verðum að reyna að fínna björtu hliðarnar á því sem er eftir. Tímann getur maður ekki stoppað. Það verður bara að fylgja honum eftir eins og hægt er.”
Í notalegu stofunni hennar Elísabetar er gömul og vegleg gólfklukka sem vekur athygli. Hún er í horninu hjá henni, þar sem flestar fjölskyldumyndirnar eru. Um hornið segir hún: „Þetta horn í stofunni er sálin mín. Klukkan er smíðuð af Jóni Stefánssyni, það er að segja umgjörðin. Hann var frá Fagurhólsmýri og er bróðir Ragnars Stefánssonar í Skaftafelli. Jón vann hjá pabba í verksmiðjunni og hann lét Jón smíða þrjá klukkukassa. Pabbi pantaði klukkuverk í tvo þeirra. Eina klukkuna gaf pabbi Matthíasi Einarssyni, lækni í Reykjavík, því að hann hafði gert svo stóra „operasjón” á honum bróður mínum, sem varð fyrir slysi austur á Söndum. Það féll mastur á höfuðið á honum. Það var ekki auðvelt að eiga við svoleiðis þá.
Það tók tæpa tvo sólarhringa að sækja lækninn, þó fékk hann alltaf óþreytta hesta á hverjum bæ til að halda áfram. Læknirinn gat náttúrlega ekkert gert, en báturinn sem sótti bróður minn var Skaftfellingur. Pabbi var með Skaftfellingi og fór að Fagurhólsmýri, en þangað var bróðir minn fluttur og þar lá hann slasaður þangað til hægt var að flytja hann til Reykjavíkur.
Hann bróðir minn var alveg mállaus og máttlaus öðru megin, en hann gat látið pabba vita um veskið sitt og pappíra undir koddanum. Því hafði hann hug á, þó hann væri svona á sig kominn. Síðan var það Matthías sem skar bróður minn upp, en hann kom síðan heim eftir mánuð. Þá var hann byrjaður að tala aftur og ganga svolítið. Pabba fannst hann því standa í þakkarskuld við Matthías Einarsson lækni, fyrir utan það að þeir þekktust áður.

Og klukkan tók undir
ReykdalEin klukkan fór þannig til Matthíasar sem þakklætisvottur en hin klukkan fór til mömmu.
Þá var ein klukka eftir og hún var búin að vera niður í verksmiðju í mörg ár. Árið 1944 hringdi pabbi í mig og spurði, hvort ég hefði ekki pláss fyrir klukkukassann. Hann sagðist vera í vandræðum með hann, því að þeir væru að laga til í verksmiðjunni. „Enda hefi ég alltaf ætlað þér hann”, sagði hann. Ég hélt nú að ég skyldi taka við honum. Síðan vildi svo til, að tveimur eða þremur vikum síðar brann verksmiðjan þannig að þá hefði klukkan glatast. Við fengum Magnús Guðlaugsson, úrsmið, til að panta klukkuverk í hana eftir stríðið og þá var klukkan sett upp. Það er eins og ég segi: Þetta er sálin mín.”
Um leið og ég þakkaði fyrir mig og kvaddi, tók stóra klukkan í horninu hennar Elísabetar undir með dimmum og virðulegum tónum.” – J.Kr.G.

Elísabet Reykdal fæddist á Setbergi Garðahreppi 17. desember 1912. Hún lést á Sólvangi 21. desember 2013.
Elísabet bjó á Setbergi nær alla sína ævi fyrir utan nokkur ár í æsku á Þórsbergi, nýbýli úr Setbergslandi sem Jóhannes faðir hennar byggði. Síðustu fimm æviárin dvaldi hún á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi í jaðri Setbergs. Skólaganga Elísabetar var ekki löng, hún var einn vetur í Flensborg og einn vetur í Kvennaskólanum í Reykjavík. Elísabet og Einar Halldórsson hófu búskap á Setbergi á fardögum vorið 1938 og allt þar til að Einar lést, og í samstarfi við syni sína þar til búskapur lagðist af að mestu árið 1985. Á efri árum ferðaðist Elísabet mikið bæði innan og utan, oft ein en líka með systurdóttur sinni, Ragnheiði Hermannsdóttur. Ferðaðist Elísabet til allra heimsálfa nema Suðurskautslandsins.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 36. tbl. 18.12.1991, “Hornið í stofunni er sálin mín”, Jólaviðtal við Elísabetu Reykdal á Setbergi, bls. 8-9.

Setberg

Mikið tjón í bruna að Setbergi í Garðahreppi í gær, Þjóðviljinn 5. sept. 1965, bls. 1.