Tag Archive for: Suðurnesjabær

Bæjarsker

Í „Fornleifaskráningu fyrir Bæjarsker á Reykjanesi vegna deiliskipulags“ segir m.a. um Bæjarsker og nágrenni:

Bæjarsker (býli)

Bæjarsker

Bæjarsker 1910.

Nafnið Bæjarsker eða Býjasker á Rosmhvalanesi er nefnt í fjölmörgum heimildum. Elsta heimildin um bæinn kemur fram í Landnámabók og um og eftir 1300 kemur bæjarnafnið oft fram í Diplomatarium Islandicum eða Íslensku fornbréfasafni. Jörðin hefur því að líkindum byggst upp snemma. Samkvæmt heimildum var hálfkirkja á jörðinni og örnefnið Kirkjuklettur er til að mynda að finna á túnakorti Býjaskerjahverfisins.
Örnefnið Lögrétta er einnig að finna á jörðinni sem bendir til þess að þar gæti hafa verið þingstaður. Hér á eftir má sjá upptalningu á þeim heimildum þar sem bærinn er nefndur og tilvitnanirnar sjálfar:

Bæjarsker

Bæjarsker 1940.

[Um 1270]: Skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi. „ok þar vr sionhending j hinn hæsta stein aa markskeri. Þadann eigv sydvr biasker j midiann eyktiar holm.“( DI II, 77).
[Um 1270]: „Þetta er hvalskipte rost hvelínga: at þann hval sem meire er enn xij vætter ok half vætt ok rekvr millvm æsvbergs ok keflv vikur til motz vid niardvikínga skall skiptta j nív stade. […] Hinn vij hlvt eiga biasker ok kirkiv niardvik halfan hvort.“ DI II, 78-79. [1367]: „lxvi. Kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Byiaskerium a. etcetera. les wilchinsbok „; (Hítardalsbók DI III, 221)

Býjaskershverfi

Býjastaðahverfi – túnakort 1919.

10.6.1370: „Og af ollum bæium sudur Þadan [frá Hvalsnesi] til Voga allar skylldur [til Hvalsness] vtan af Biaskerium oc Þeim tveimur kotum sem Þar fylgir jordunni. tekst Þar af heima tiund. af Hvalsnesi skal syngia til Biaskeria annan huern dag helgan.“ (DI III, 256-257 [Hvalness])
1397: „Kirkia hins heilaga Olafs konungs ad Biaskerium […].“ (DI IV, 105).
5.9.1444: Skúli Loptsson selur Hallsteini Höskuldssyni Þingnes í Borgarfirði fyrir 60 hdr. „hier j mot gaf nefndur hallzsteinn halfa iord er heiter biasker er stendr aa Rosthualanesi firir halfan fiorda tug hundratha […]“. (DI IV, 658-659).
22.8.1488: Guðmundur Skúlason prestur selur Ólafi biskupi og heilagri Hólakirkju: „haalfa jord er heiter biaskier er liggur aa rosthualanesi j hualsnes kirkiv sokn fyrir fiorvtigi hvndrada […].“ (DI VI, 637).
21.6.1489: „medkienning Sniolf(s) prests ad hann hafe luckt peninga fyrir Biaskier Gudmunde Skulasine.“ (DI VI, 659. Sjá einnig bréf 22.07.1491, DI VI, 758).

Bæjarsker

Bæjarsker 1960.

[1490]: Dómur útnefndur af Diðrik Píning „aa biaskeria þingi“. (DI VI, 719).
10.4.1517: Ögmundur ábóti í Viðey selur Hannesi Eggertssyni Kirkjuból í Selárdal, Suðureyri og Tungu í Tálknafirði fyrir „[…] halfa Biaskier oc Þoristadi er liggia aa Hrosshvalanesi […].“ (DI VIII, 608. Sjá einnig bréf 14.9.1517, DI VIII, 637 og bréf 7.7.1519, DI VIII, 699).
1525: Máldagi Hóladómkirkju. „(Þ)etta jarda gödz atti holakirkia j sama tima. […] biasker half.“ DI IX, 301-302. 11.9.1539: Dómur tólf mann útnefndra „aa biaskerivm aa rosmhvalanesi.“ DI X, 474.

Býjastaðahverfi

Býjastaðahverfi – herforingjaráðskort 1903.

1547-1548: Fógetareikningar. „Jtem met Beerskeeriom v legekör. […].“ (DI XII, 116. Sjá einnig Fógetareikninga 1548-1549, DI XII, 142; 1549-1550, DI XII, 157; 1550, DI XII, 176; 1552, DI XII, 403).
1.9.1552: Skýrsla um jarðeignir sem Jón biskup seldi frá Hólastól. „Biasker half xxc.“ DI XII, 459-460.
25.12.1550: Skrá um eignir Hóladómkirkju. „Hafa þessar jarder. sem hier epter skrifast. logast og j burttu sellst fra Holakirkiu aa medan biskup Jon hefur halldit kirkiuna. […] Býasker half .xx. c.“ (DI XI, 872).
1686: 45 hdr., 100 ál.,konungseign (Björn Lárusson, 122).
1695: 45 hdr. (Björn Lárusson, 122).
1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, með hjáleigunum Sidstakoti, Midkoti, Holkoti, Barusgierde, eyðihjáleigunum Hialltakoti, Lambhúsi, Nordurkoti, Krossabrecku og Glæser auk tveggja ónefndra hjáleiga (JÁM III, 55-58).
„Eyvindr [frændi Steinunnar gömlu] bjó nokkura vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja […],“(ÍF I, 391).
1703: „[…] staðfestu þennan framburð og sönnuðu með eiði, eptir uppátekt Páls [Beyers] og tilnefnd sýslumanns, á Býjaskerja-, Kálfatjarnar- og Kópavogsþingum, 2 lögréttumenn.“ (Vallaannáll, Annálar I, 451).

Bæjarsker

Bæjarsker – íbúðarhúsið 1960.

1703: „Torfrista og stúnga engin nema í sendinni jörðu valla nýtandi. Fjörugrasatekja nokkur. Hrognkelsafjara nokkur. Murukjarnar og söl er brúkaðar fyrir peníng […] lendíng slæm, önnur langt frá í flæðiholma og þar fyrir mjög bæði hætt fyrir skip og erfið […]. Tún gánga mjög af sjer fyrir sandi og sjáfarágángi. Engjar eru öngvar. Land graslítið, mestalt grjót og sandur. Flæðihætt mjög. Eldiviðartak ekkert nema af fjöruþángi. Vatnsból slæmt og þrýtur stundum,“ segir í JÁM III, 55.
„Ofan við túnið er kúagerði ,“ segir í örnefnaskrá AG. Þar kemur jafnframt fram að örnefnið Hesthúshóll sé á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2). „Sölvatangi. Langt rif, sem er milli sundanna. Sölvatekja,“ segir í örnefnaskrá MÞ (Ö-Bæjarsker MÞ, 3).

Bæjarstaðarétt

Bæjarstaðarétt – uppdráttur.

[Um 1840]: „Á Býjaskerjum […], er það ekki full 46 hndr. með 5 hjále<i>gum (aðrar 5 höfðu einhvörn t(íma) áður fyrr verið byggðar). […] Á fyrri dögum skyldu hafa verið margar hjáleigur fyrir utan þær, sem nú eru byggðar, sem nú sjást engin merki til, hvar staðið hafa“ segir í Sýslu- og sóknarlýsingum (Gullbringu- og Kjósarsýsla, 80, 97).
1847: 45 5/6 hdr., bændaeign, með hjáleigunum Hólkoti, Báruskeri og Norðurkoti, (JJ, 87).
1919: „Stakkagerði, þ. búð eyðilögð f. nák. 20 árum,“ segir á túnakorti. Þar eru einnig hjáleigurnar Hólahús og Syðstakot merktar sem og þurrabúðin Laufás.
Þurrabúðin Setberg, eyðibýlið Hábær og þrjú nýbýli, Vinaminni, Reynistaður og Sólbakki er nefnd í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker AG, 1-2). Örnefnið lögrétta er á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2).

Jarðarítök: Jörðin brúkar skóg til kolagerðar í almenningi. Að auki nýtir heimabóndinn grasnytjar af hjáleigunum Lambhúsi, Norðurkoti, Krossbrekku og tveimur ónefndum eyðihjáleigum (JÁM III, 55-58.)

Álaborg

Álaborg nyrðri.

„Meðan fjöruþang var eina eldsneytið, var Eyrin óþrjótandi náma og fengu margir aðrir en eigendur að njóta góðs af því, fyrir litla eða enga þóknun,“ segir í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker MÞ, 2).
1919: „Túnin mestöll slétt og sléttuð[,] blettir aðeins hér og þar smáþýfðir.“ Tún (Býjasker A), 2.6 hekt., garðar 1320 m2. Tún (Býjasker V), 2.6 hekt., garðar 1280 m2. Tún (Hólshús), 1.15 hekt., garðar 300 m2. Tún (Syðstakot), 1.4 hekt., garðar 1830 m2. Tún (Laufás), 0.33 hekt., garðar 400 m2. Öll torfan samtals 8.08 hekt., og garðar 5130 m2.

Bæjarskersrétt (rétt)

Álaborg syðri

Álaborg syðri.

„Við Bæjarskersréttina hitti hópurinn fyrir Reyni Sveinsson (Fræðasetrinu) og Pétur Bryngarðsson, sagnfræðing í Sandgerði. Pétur benti á Bæjarskersréttina og leiddi hópinn að Bæjarskersleiðinni […]. Pétur sagði að elsta réttin á svæðinu, svo vitað sé, hafi verið Álaborgin nyrðri ofan við Flankastaði, síðan hafi Álaborg syðri verið byggð ofan við Bæjarsker, en hún hafði síðan verið flutt í réttina, sem við komið var fyrst að,“ segir á Ferlir.is. Katrín Gunnarsdóttir skráði réttina árið 2008: „Um 50 m frá Bæjarskersvegi í suður eftir Stafnesvegi, rétt ofan við veginn. Réttin er upphlaðin að mestu, en með einstaka hliðum sem eru eingöngu úr timbri eða timbrið er til stuðnings hleðslum, og einnig er það notað í hlið í hólf réttarinnar. […] Hleðslugarðar eru fyrir utan réttina, en þeir eru einhlaðnir, og ræðst hæðin af stærð steinanna sem eru í þeim […]. Rétt þessi var tekin í notkun upp úr 1930, en áður var notuð Álaborgarrétt.“ Bæjarskersrétt er um 340 m austan við bæ.

Bæjarskersrétt

Bæjarskersrétt.

Réttin er í heiði, víða eru moldarflög, stakir steinar og melur inn á milli klapparhóla. Mosi og gras er ríkjandi á þessu svæði. Réttin er 24 x 24 m að stærð og er grjóthlaðin. Meðfram veggjum er víða timbur sem notað er til stuðnings og er hluti af veggjum. Jafnframt eru timburhlið í öllum opum. Veggirnir eru 0,4-1,1 m á hæð, 2 m á breidd og það má greina 3-4 umför af grjóthleðslu í þeim. Í miðjunni er almenningur og þaðan eru op til allra átta inn í dilka, í allt eru þau níu talsins. Til vesturs eru fjórir dilkar sem allir eru varðveittir. Að austan er réttin röskuð og allir dilkar horfnir, einungis opin úr almenningnum bera þeim vitni. Opin eru þrjú talsins þar. Þar er nú einungis einn dilkur úr timbri og lágreist hleðsla skammt sunnar. Fyrir norðan réttina er hólf 7 sem afmakast af einfaldri steinaröð. Hleðslan er 0,2 m á hæð og 1 m á breidd. Þar ofan á var líklega vírgirðing en það er ljóst að umfang þess er mun minna en í réttinni sjálfri. Hólfið er ekki inni í réttinni sjálfri, mögulega var það fyrir hesta. Rúmum 8 m austan við réttina er garðlag. Það er 17 m langt og liggur norður-suður í moldarrofi. Það er 1 m á breidd og 0,2 m á hæð. Ekki er ljóst hver tilgangur þess er, það tengist réttinni að öllum líkindum eða er undirhleðsla undir vírgirðingu.

Fjárhús (fjárskýli)

Bæjarsker

Bæjarsker – fjárhús.

Tóftin er hlaðin upp á klettabelti að austan og er uppi á lágum hól. Tóftin er í grónum hvammi, fast vestan við lágt klettabelti. Hvammurinn er afmarkaður til suðurs og austurs af klettum, annars er gras áberandi á svæðinu. Tóftin er 9,5 x 9,5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Veggirnir eru 0,3-1 m á hæð, stórþýfðir og algrónir. Það glittir hér og þar í grjót án þess að um greinileg umför sé að ræða. Þeir eru eingöngu grjóthlaðnir, líkt og flestar aðrar minjar á svæðinu. Lýsingin hefst til suðurs í hólfi 1. Það er 4×2 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Klettarnir til austurs eru 0,8 m á hæð og brattir. Hólfið er opið til vesturs, hluti af nyrðri langhlið nær 2,5 m vestar en suðurlanghlið. Hólf 2 er norðar og stærra. Það er 8,5×2,5 m að innanmáli og opið til vesturs. Sem fyrr afmarka klettar austurvegg.

Heimild:
-Fornleifaskráning fyrir Bæjarsker á Reykjanesi vegna deiliskipulags, Reykjavík 2017.

Álaborg syðri

Álaborg syðri.

Skagagarður

Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags í Garði árið 2017“ er m.a. fjallað um Skagagarðinn og Skálreyki:

Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

„Lokaðist það af svonefndum Skagagarði, sem hlaðinn var frá túngarði Útskála og þvert fyrir tána yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Sér leifar hans hér og hvar enn,“ segir í örnefnalýsingu. Í sýslu- og sóknalýsingu frá um 1860 segir ennfremur: „Fyrir ofan Skagann hefur legið garður einn mikill, sem enn er kallaður Skagagarður, frá túngarðinum á Útskálum beint yfir í Túngarðinn á Kirkjubóli.“
Enn sér fyrir Skagagarði sunnan Skagabrautar en norðan hennar er hann farinn í tún og þar sjást engin ummerki hans.

Í Chorographicu Árna!Magnússonar frá 1720 segir: „Garður (sú sveit) hefur nafn af girðingum. Menn meina landið hafi afgirt verið frá Hrafnkelsstöðum og so continue að Þórustöðum.“ Í sýslu-og sóknalýsingu frá 1839: „… Ein hefir höfuðgirðing verið yfir þveran Skagann, sem Skagagarður kallast; á honum voru að sögn læst hlið.“ Í annarri lýsingu frá um 1840 segir ennfremur: „Mikill garður hefir í fyrndinni þaðan [frá Flankastöðum] legið, sem enn sést merki til, og hefir náð allt inn að Útskálum. Er það sögn manna, að með þeim garði hefðu allir átt að fara, sem innan að sóttu jólagleði þessa [á Flangastöðum], svo ekki villtust menn, þó niða myrkur væri.

Garðsskagi

Skagagarðurinn – loftmynd 1954.

Þessi fornaldargarður liggur sunnanvert fyrir Skaganum eða heiðar megin, en Skaginn er sléttlendur og hagbeitarpláss frá Útskálum. Er þessi garður, sem heita má gersamlega niður fallinn, kallaður Skagagarður og hefir líkast til í fyrndinni verið varnargarður fyrir skaganum á hverjum verið hafa yrktir sáðakrar, og má enn sjá merki garðlaga, sem hlaðin hafa verið kringum sáðreitina. En á þessum aðalvarnargarði áttu að hafa verið læst hlið.“

Í grein Magnúsar Grímssonar, Fornminjar um Reykjanesskaga frá 1860 segir um Skagagarð: „Rústirnar af garði þessum, sem nú eru að mestu grasi grónar og líta út eins og ávalur hryggur, eru glöggar nema á stöku stöðum, þar sem mælt er, að hlið hafi verið á honum. Garðurinn hefur að mestu verið hlaðinn úr stórgrýti og að líkindum afar hár og þykkur, eftir sem út lítur 3/4 álna á þykkt. Nú geta 2 menn riðið samsíða ofan á rúst hans víðast hvar. Með!þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur.“

Skagarður

Skagagarðurinn – loftmynd.

Kristján Eldjárn skrifar í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1977: „En Skagagarðurinn mikli, sem byggðin hefur nafn af og prestarnir lýsa svo fagurlega, hann er enn til, friðlýstur og heill, að öðru leyti en því að á einum stað var rofið skarð í hann 1964 til að komast þar í gegn með veg sem liggur frá Sandgerði til Út-Garðs…. Á milli Út-Garðs (Útskálahverfis) og Kirkjubólshverfis er víðáttumikið land, sem ætíð hefur verið lítt eða ekki byggt fyrr á tíð og raunar enn á vorum dögum. Þetta er sendið land og grýtt og virðist ekki kostamikið. Upp undir heiðinni og þá ofarlega eða efst á Skaganum liggur Skagagarðurinn þvert yfir hann í nokkurn veginn beinni línu frá Útskálum, þ.e. Túngarðinum á Útskálum, þótt sú samkoma sjáist ekki nú, og þar til hann hverfur fyrir ofan bæina Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði í Kirkjubólshverfi, þar sem hann hefur á sama hátt náð sambandi við túngarð.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn.

Þessi beini garður, hinn!raunverulegi Skagagarður, hefur verið röskir 1500 m að lengd. Hann er sannarlega þess virði að skoða hann. Hugsum okkur að við komum eftir þjóðveginum frá Sandgerði og stefnum til garðs. Fyrir ofan Kolbeinsstaði klofnar vegurinn í tvennt. Til hægri liggur vegur til Inn-Garðs og síðan áfram til Keflavíkur. Til vinstri liggur áðurnefndur vegur til Út-Garðs og hann förum við. Þá sjáum við fljótlega Skagagarðinn nærri vegi til vinstri handar og ekki líður á löngu þar til við komum þar sem vegurinn sker garðinn. Þar er ráð að staldra við, ef maður hefur hug á að átta sig á Skagagarðinum. Við lítum um öxl og sjáum hvernig hann nær sambandi við túnin í Kirkjubólshverfi, og til hinnar handarinnar sjáum við glöggt hvernig garðurinn stefnir til norðausturs rétt utan við Útskálakirkju.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Hér er auðvelt að sjá hvernig garðurinn tengir saman Útskálahverfi og Kirkjubólshverfi og hvernig hann girðir af Skagann, nokkurn veginn á mörkum hans og heiðarinnar. Hér er mjög auðskilið að þetta er aðalvarnargarður Skagans og einnig hvernig hann hefur getað tengst túngörðum til beggja hliða, sem vel hugsanlega hafa náð alla leið til Rafnkelsstaða að austan og Þórustaða að vestan eins og Árni Magnússon segir, eða jafnvel alla leið til Flankastaða eins og prestarnir segja. Í Kirkjubólshverfinu má enn rekja þessa garða að mestu leyti og á loftmynd sjást þeir greinilega og hvernig þeir enda við sjó rétt fyrir sunnan Þórustaði. Í Garðinum sést þetta miður sökum þess hve mjög hefur byggst þar en þó hygg ég að einnig þar mætti sjá búta af túngörðum ofan gömlu túnanna. Ekki fer hjá því að Skagagarðurinn veki undrun fyrir mikilleika sakir. Sú spurning hvarflar jafnvel í hug manns sem snöggvast að hann sé alls ekki mannaverk, heldur náttúrulegur ávalur ás. Slíkt væri dálaglegt.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Til þess að vera ekki einn um ábyrgðina fékk ég þrjá glögga menn til að gera með mér áreið á garðinn haustið 1976. Einn þeirra var dr. Sigurður Þórarinsson. Hann sagði orðrétt þegar hann sá garðinn: „Það er ekkert í náttúrunnar ríki sem getur búið þetta til.“ Reyndar urðum við allir vel sammála um að vissulega væri Skagagarðurinn mannaverk. Hann má heita þráðbeinn, og þegar vel er að gáð er fleira sem sýnir að hann er af mannahöndum gerður. Hann hefur verið borið saman úr grjóti og jarðvegshnausum og áreiðanlega verið bæði hár og þykkur en með tímanum flast út og að nokkru sandorpist. Við þetta hefur hann smátt og smátt fengið þennan ávala svip og að lokum orðið firnabreiður í grunninn, víða líklega um 15m.

Skagagarður

Skagagarður.

Skýrar hleðslur sjást varla í honum nú, þótt steinar standi upp úr víða, og þegar skarðið var rofið í hann vegna vegarins 1964 tók verkstjóri (Björn Jóhannesson)!ekki eftir greinilegri hleðslu svo hann muni. Reyndar er túngarðurinn á Hofi í Garði fróðlegur til samanburðar við Skagagarð. Hann er með ólíkindum mikill og ávalur nokkuð á svipaðan hátt, en til muna minna útflattur. Og beint upp frá gerðum, við hornið á íþróttavellinum sem nú er, má sjá vænan bút af mjög fornlegu garðlagi sem að öllu leyti minnir á Skagagarðinn sjálfan. Að sögn prestanna góðu áttu nokkur hlið að hafa verið á Skagagarðinum. Ekki er það nema eðlilegt, en í raun réttri er þetta hermt í sögum til þess að skýra nokkur skörð sem nú eru í garðinn. En sum þeirra eru langtum of víð til að teljast hlið, og kem ég nú ekki auga á nærtæka skýringu á skörðum þessum. Garðurinn kann að hafa verið rofinn af einhverjum ástæðum, en þó mætti fremur virðast við athugun sem skörðin hafi verið frá upphafi og þá ef til vill fyllt upp í þau með einfaldri grjótgirðingu, sem síðan hefur hrunið eða verið fjarlægð. Hefur garðurinn kannski aldrei verið fullgerður í sinni stóru mynd?“

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Í bók Jóns Böðvarssonar, Suður með sjó frá 1988 segir: „Nýjar rannsóknir jarðfræðinganna Guðrúnar Larsen og Hauks!Jóhannessonar hafa leitt í ljós að Skagagarðurinn á Suðurnesjum er miklu eldri en áður var haldið. Niðurstöðu þessa fengu þau eftir að hafa grafið gegnum garðinn á þremur stöðum. Að sögn Hauks mælist garðurinn nú 1500 metra langur, og hefur náð meðalmanni í öxl fyrr á öldum…. Garðurinn er stöllóttur að innanverðu en sléttur að utan, þannig að unnt hefur verið að reka fé út yfir hann án þess það kæmist inn aftur og hefir það líklega komið sér vel vegna!akurreina innan garðsins. Ofan á Skagagarði er grjóthleðsla sem telin er jafngömul torfgarðinum. Haukur segir að aldur garðsins megi greina all nákvæmlega út frá öskulögum sem sjást þegar grafið er í gegnum hann. Ljóst er að hann hafi verið reistur skömmu eftir að öskulag, kennt við landnám, féll í upphafi tíundu aldar. Svokallað miðaldalag er myndaðist við gos í sjó út af Reykjanesi árið 1226 lagðist ofan á garðinn, sem þá var að miklu leyti kominn í kaf vegna foks.“
Í skýrslu Garðars Guðmundssonar og fleiri í Árbók hins íslenska fornleifafélags frá 2002-2003 segir: „Hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Magnús Á. Sigurgeirsson telur garðinn hlaðinn á 10.-11.öld.“

Garður

Skagagarður.

Viðbót 2017: Garðurinn var rakinn frá Skálareykum norður að Skagabraut. Hann er ekki mjög áberandi en sést þó alla leiðina sem lágur hryggur,5-8m breiður og mest 0,3-0,4m hár, algróinn. Hann fjarar heldur út eftir því sem nær dregur Skagabraut. Rúmum 100 m sunnan Skagabrautar er líkt og rask hafi orðið á garðinum á rúmlega 10 m löngum kafla sem sést helst á því að þar er garðurinn mjög ógreinilegur og gróður með öðru móti en í móanum umhverfis. Þar sem raskinu sleppir liggur greinilegur hryggur líkt og í framhaldi af garðinum en heldur meira í austur en fyrr, í stefnu skammt vestan við Skagabraut 23. Þessi hryggur tilheyrir líklega ekki garðinum heldur virðist hann liggja fast vestan við hrygginn þótt hann sé orðinn mjög óljós á þessu bili. Garðinn má rekja þokkalega á loftmynd í stefnu á heimreiðina að Skagabraut 36. Leiða má að því líkum að heimreiðin sé ofan á garðlaginu forna, sem haldi svo áfram til norðurs skammt vestan við bæjarhól á Útskálum og allt niður að sjó. Áður hafði í skráningu verið vikið að því að líklega væri garðurinn horfinn norðan Skagabrautar en á loftmyndum virðist votta fyrir honum í túninu tæpa 100 m NNV af íbúðarhúsinu á Útskálum.

Skálareykir

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

Í örnefnalýsingu segir: „Skálareykir eru gamlar bæjarrústir fast við miðjan Skagagarð. Þar sér fyrir túngarði og húsarústum…Skálareykja finnst ekki getið, hvorki 1703 né 1847. Eru til ýmsar tilgátur um býli þetta, m.a. að Ketill gufa hafi byggt skála, annan að Gufuskálum og annan að Útskálum. Svo var byggður nýr bær, þar sem reykirnir sáust frá báðum hinum skálunum, og því nefndur Skálareykir. Önnur segir, að þar sjáist merki og að þar hafi verið draugagangur, er setti bæinn í eyði, en trúlegra er, að það hafi verið vatnsskortur og fjarlægð frá sjó.

Skálareykir

Tóftir Skálareykja.

„1839:“Í mæli er að bær!hafi þá staðið á Skaganum nálægt þessum garði, sem Skálareykir hafi verið kallaðir; hafa allt til þessa sést þar bæjarrústir og mót til túngarðs. Ekki eru nema munnmæli, að þaðan hafi staðurinn verið fluttur að Útskálum, en hitt er víst, að þar hafi einhverntíma verið jörð byggð, þó hennar sé ekki getið.“
SSGK, 162;c.1840: „Nálægt þessum garði er í mæli, að hafi staðið bær, sem Skálareykir hafi heitið, og sjáist þar nú til bæjarrústa og túngarðsgirðingar umhverfis. Hvergi hef ég í jarðabókum séð þá jörð nefnda, enda hef ég fátt fengið í hendur af gömlum skjölum.“
SSGK,184;c.1860: „Með þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur, og þá hefur að líkindum enginn bær staðið fyrir utan hans nema einn, sem enn sér rústir af og hét á Skálareykjum [Skálareykir hdr.]. Sá bær hefir staðið þétt við garðinn miðjan, Skagamegin, og má vera að þar hafi verið gæzlumaður akranna og garðsins, ef bærinn er svo gamall eins og garðurinn. Á Skálareykjum sér enn fyrir túngörðum og bæjar- og húsarústum í meðallagi stórum.“

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

1902: „Fyrir austan þær (girðingar), þar sem nú er fjárrétt, er sagt að bær hafi verið og heitið Skálareykir. Er sagt að á þeim bæ hafi hvílt sú skylda, að verja akrana og girðingarnar fyrir ágangi af skepnum. Ekki er getið hvers vegna hann er kenndur við reyki. Má vera það bendi til þess, á þessu svæði hafi fyrrum verið jarðhitar, sem seinna hafi kólnað, og með þeim jarðhita hafi akuryrkjan þar staðið og fallið.“
BJ í Árbók 1903, 36. Rústir býlisins má greina um 200 m sunnan við fiskverkun H. Péturssonar og um 300 m suðvestan við nýlegt íbúahverfi við Spóaland. Rústir býlisins eru í þýfðu túni. Hluti þess er afgirtur og nýttur til hrossabeitar. Nokkuð af ökuslóðum liggja í kringum og og þvert yfir rústirnar.
1977 segir í Árbók Ferðafélagsins: „Minnast verður á Skálareyki. Rétt er það sem prestarnir herma að garðlag harla fornlegt afmarkar þar vænan blett rétt utan við garðinn og þó reyndar báðum megin við hann, því að garðurinn liggur gegnum girðinguna eins og best sést á loftmynd. Innan í girðingunni mótar fyrir mjög vallgrónum mannaverkum, en tvær grjóthlaðnar og snotrar húsatóftir miklu unglegri ofan á. Þar sagði fólk í Garði að gullkista væri grafin. Hvort þarna hefur verið! bær skal ósagt látið, en þessar minjar eru friðlýstar með garðinum sem rétt er, því að þær eru eins og samvaxnar honum. Nafnið mun líklega að hálfu dregið af Útskálum, en að hálfu er það óráðin gáta.“

Skálareykir

Skálareykir – uppdráttur.

KE í ÁFÍ 1977, 117. Rústir býlisins eru báðu megin Skagagarðs sem sést vel á þessu svæði og ná yfir svæði sem er um 200 x 130 m stórt. Bæjarhóllinn hefur líklega verið þar sem tóft A er nú en hún virðist vera fremur ung. Gætu því eldri byggingarstig verið undir tóftinni. Er hóllinn um 15 x 15 m að stærð og 0,5 m hár. Er hann veglegasti hóllinn á svæðinu og grasi vaxinn. Tóft A: Ofan á hólnum er tóft, líklega af fjárhúsi. Er hún 10 x 10 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Bæði snúa í NA-SV. Hólf I, hið austara, er 6 x 2,2 m að innanmáli og hefur um 2 m breitt op á syðri skammhlið. Fyrir utan opið er röð fremur stórra steina. Hólf II er 6 x 2,5 m að innanmáli og er op á því fyrir miðri vestari langhlið. Er opið ríflega 1 m breitt. Veggir tóftarinnar eru flestir 2 m breiðir nema sá sem aðskilur hólfin tvö, hann er aðeins um 1 m að breidd. Allir eru veggirnir 0,6 m háir. Líklega eru þeir grjót- eða torf- og grjóthlaðnir og sér í steina í öllum veggjum. Hleðslur eru grónar grasi. Gerði B: 5 m norðvestan við tóft A er ferhyrnt gerði. Hefur það líklega umlukið kálgarð eða rétt. Er það 16 x 15 m að stærð og snýr í NA-SV. Breidd veggja er um 1,5 m og hæð þeirra 0,3 m. Á stöku stað sést glitta í grjót í gegnum grassvörðinn. Ekki er eins þýft innan garðlagsins og utan þess.

Skálareykir

Skálareykir – loftmynd.

Erfitt er að átta sig á aldri garðlagsins en líklega er það ekki mjög fornt. Gerði C: 20 m sunnan við tóft A er annað gerði. Er það 26 x 7 m að utanmáli og snýr í NA-SV. Skammhliðar gerðisins virðast hafa rofnað í burtu en víða vantar einnig hluta í langhliðar. Breidd veggja er um 0,8 m og hæð þeirra er 0,4 m. Ekkert grjót sést í hleðslunum. Nánast engar þúfur eru innan garðlagsins. Líkt og garðlag B kemur helst til greina að um sé að ræða kálgarð eða einhvers konar aðhald.

Skagagarður

Skaggarður – loftmynd.

Aldur garðlagsins er óræður. Tóft D: 3 m suðvestan við tóft A er afar ógreinileg tóft útihúss. Er hún u.þ.b. 11 x 9 m að utanmáli og snýr í VNV-ASA. Virðist hún við fyrstu sýn aðeins vera upphækkun í landslaginu eða framhald af bæjarhólnum en ef vel er að gáð má greina leifar tveggja hólfa. Snúa bæði til NNV-SSA. Sést glitta í grjót á nokkrum stöðum sem líklega er úr veggjum útihússins. Tóft þessi er líklega mun eldri en tóft A. Garðlag E: Túngarður liggur utan um býlið. Afmarkar hann svæði sem er sporöskjulaga, u.þ.b. 200 x 130 m að stærð og snýr í N-S. Garðurinn er mikið siginn og sést sem hryggur í túninu, 3-5 m breiður og um 0,2 m hár. Víðast hvar er fremur greinilegur nema norðaustast þar sem hann hverfur sjónum á um 80 m vegalengd. Aðeins sést í grjót á stöku stað. Tóft F:!95 m suður af tóft A og upp við garðlag E er lágur hóll. Er hann 9 x 4 m að stærð, 0,3 m hár og flatur að ofan. Líklegast verður að teljast að útihús hafi staðið þar en að hleðslur þess séu nú útflattar. Tóft G: Austast við garðlag E, um 45 m suðaustan við tóft A er hóll. Er hann 8 x 7 m að stærð og ríflega 1 m hár. Stingur hann nokkuð í stúf við hið flata umhverfi í kring. Engar greinilegar rústir eru á honum en ójöfnur ofan á honum gætu verið leifar mannvirkis.

Skagagarðurinn gerður sýnilegur

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – minnismerki.

Suðurnesjabær fékk í sumar (2020) styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem lið í sérstöku fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna COVID-19-faraldursins.

Suðurnesjabær sótti um styrk úr sjóðnum vegna verkefnisins. Það nefnist „Aðkomusvæði við Skagagarðinn“, nýr ferðamannastaður í Garði. Verkefnið felur í sér hönnun og verklegar framkvæmdir. Markmiðið er að gera Skagagarðinn sýnilegan og vekja athygli á honum.

Heimild:
-Garður á Reykjanesi: Fornleifaskráning vegna deiliskipulags – Birna Lárusdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.

Heimildaskrá:
-ÁFÍ 1977: Kristján Eldjárn. 1977. „Skagagarður – fornmannaverk“. Árbók Ferðafélags Íslands bls. 107-119. Ferðafélag Íslands.
-Árbók 1902: Brynjúlfur Jónsson. 1903. „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902.“ Árbók Hins Íslenska Fornleifafélags, bls. 31-52.
-Árbók 2002-2003: Garðar Guðmundsson o.fl. „Fornir akrar á Íslandi. Meintar minjar um kornrækt á fyrri öldum.“ Árbók Hins íslenzka!fornleifafélags, bls. 79-106.
-Árni Magnússon. 1953. „Chorographica Islandica.“ Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju: annar flokkur. Bókmenntafélagið, Reykjavík.
-Birna Lárusdóttir!(ritstj.). 2008. Fornleifaskráning í Sveitarfélaginu Garði I: fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna). FS404k08011. Fornleifastofnun Íslands.
-Fasteignabók 1956-57: Fasteignabók I. Mat fasteigna í sýslum samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955. Reykjavík 1956-57.
-Herforingjaráðskort 1910: Generalstabens topografiske kort. Nr. 17, Suðurnes N.A. Mælt 1908, útg. 1910. Kjöbenhavn.
-Jón Böðvarsson. 1988. Suður með sjó: Leiðsögn um Suðurnes. Rótaríklúbbur Keflavíkur, Keflavík.
-Loftmynd 1974: LMI-Kort-D16-D-5481. Landmælingar Íslands.
-Magnús Grímsson. 1940. „Fornminjar á Reykjanesskaga.“ Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess II, 243-62. Reykjavík.
-SSGK: Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Reykjavík. 1937-39.
-Túnakort 1919: Túnakort fyrir Rosmhvalaneshrepp frá því um 1919. Þjóðskjalasafn Íslands.
-Umsögn Minjastofnunar Íslands um deiliskipulag í Garði, dags.!5. september 2017. MÍ201708-0023/6.09/ÞH 34
-Ö-Útskálar: Örnefnaskrá fyrir Útskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Skagagarður

Skagagarðurinn í Garði.

Letursteinn

Löng leit hafði verið gerð að „Hallgrímshellunni“ svonefndu, en hún átti að vera aflöng steinhella á klöpp skammt norðan Þórshafnar við Ósa. Á hellunni átti að vera áletrun (HPS), sem m.a. hefur verið eignuð séra Hallgrími Péturssyni, presti í Hvalsnesi. Leitinni löngu lauk loks í munasafni Þjóðminjasafns Íslands í Kópavogi þar sem Lilja Árnadóttir, yfirmaður munasafnsins, gat upplýst aðspurð að umrædd hella væri í vörslu safnsins.

Flekkuleiði

Flekkuleiði – rúnasteinn.

Þar var steinninn innskráður með eftirfarandi hætti: „Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.“ Gripurinn hefur númerið 1974-120 í safninu og átti að vera í einu gripahúsa þess.
Af ljósmynd að dæma, sem tekin var af hellunni á vettvangi árið 1964, virtist ártalið vera 1638.
Lilja og starfsfélagi hennar, Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir, starfsmaður munasafns Þjóðminjasafns Íslands, gátu síðan staðsett helluna og buðu FERLIR að koma og skoða hana.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í Þjóðminjasafninu

FERLIRsfélagar héldu þá og þegar á fund „Hallgrímshellunnar“. Hún hafði legið í geymslum Þjóðminjasafnsins í 31 ár, eða allt frá því að hún var brottnumin af af klapparholtinu norðan Þórshafnar við Ósa árið 1974, þar sem hún hafði verið allt frá fæðingu. Jafnvel áhugasamasta fólkið á Stafnessvæðinu hafði ekki hugmynd um að hellan hefði verið fjarlægð eða hvað hafði orðið um hana. Flest hélt það reyndar að hellan væri þarna ennþá.

Sem fyrr segir hafa sumir tengt þessa áletrun séra Hallgrími Péturssyni, sem varð prestur í Hvalsnesi um og eftir 1644. Hann þjónaði jafnframt kirkjunni í Höfnum, sem er handan við Ósana. Þar eru örnefni er gefa til kynna ferjusiglingar milli Hafna og austanverða Ósa.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan á vettvangi á 20. öld.

Hallgrímur kom til Njarðvíkur eftir dvöl í Kaupmannahöfn árið 1637 ásamt Tyrkja-Guddu og öðrum Íslendingum, sem numdir höfðu verið á brott af „Tyrkjum“ tíu árum fyrr (1627). Það skipti því máli hvaða ártal var nákvæmlega á þessari tilgreindu hellu. Þess ber að geta að mikið er um áletranir á klöppum á þessu svæði við Ósa, bæði við Þórshöfn og við Básenda. Á fyrrnefnda staðnum eru klappaðir bókstafirnir HP á hásæti (miðju) klappar og á síðarnefnda staðnum eru m.a. nokkrar áletranir frá 16. og 17. öld.

Við nákvæma skoðun á hellunni í geymslu Þjms. virtist ártalsáletrunin vera 1628. Eða hvað? Er hugsanlegt að þarna sé ekki um ártal að ræða, heldur eittvað annað? Gæti áletrunin verið HSP 16Z og 8? Gæti áletrunin falið í sér hugsun umfram staðhæfingu? Hvað bjó að baki áletruninni? Hvert var tilefnið?

Básendavegur

Básendavegur að Stafnesi.

Hvað fær einhvern til að fara með áhöld á stað nálægt alfaraleið til að klappa vandlega áletrun á stein á þeim tiltekna stað? Hvers vegna að klappa haglega á stein milli mikilla verslunarhafna, en ekki þar og þá? Svaranna er reyndar að leita í nálægð við staðinn. Hann er mitt á milli Þórshafnar og Básenda (sjá aðrar umfjöllun á vefsíðunni – sem gæti nú hafa fallið í „faldar síður“).

Ljóst má vera að „Hallgrímshellan“, eins og henni er nú fyrir komið, verður að teljast ómerkilegur innanhússsafngripur, en í ljósi fyrrum staðsetningar og sögulegs samhengis, má með nokkurri sanngirni telja hana allmerkilega væri hún á sínum upprunalega stað.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Ef hellan tengist ekki séra Hallgrími þá tengist hún áreiðanlega einhverjum öðrum. T.d. gæti hún verið grafskrift manns, sem varð úti á þessum stað þetta tiltekna ár. Fjölmörg dæmi eru um slíkt á og við Miðnesheiðina, eins og annálar kveða á um. Slíkar grafskriftir eru á nokkrum stöðum á þessu svæði, t.a.m. við Dauðsmannasvörðuna neðri, auk þess vandlega er klappað í hellu við Prestsvörðuna þar sem séra Sig. Sívertssen hafði næstum orðið úti fyrr á öldum. Þá gæti áletrunin verið eftir einhvern er tengdist versluninni í Þórshöfn eða á Básendum.

Ýmislegt annað kemur til greina, en þótt ekki væri fyrir annað en grafskriftina gæti „Hallgrímshellan“ talist merkileg og jafnvel orðið tilefni frekari rannsóknar á tilefni skriftarinnar.

Þórshöfn

Þórshöfn – áletrun.

Vonast er til að framkvæmdaráð Þjóðminjasafnsins bjóði heimamönnum helluna einhvern tímann til varðveislu á ný eða að heimamenn og aðrir áhugasamir biðji um að fá hana aftur á heimaslóðir.

Margir merkilegir steingripir eru í geymslum Þjóðminjasafnsins og jafnvel víðar. Flestir þeirra bárust Þjms. á fyrri hluta 20. aldar. Síðustu áratugi hefur lítið borist þangað af steinum, nema ef vera skyldi eftir björgunaruppgrefti, því svæðisbundin byggðasöfn hafa að mestu tekið að sér að varðveita þá heima í héraði.
Ekki er ljóst hvaða áletrunarstein megi telja elstan í safninu, en eflaust væri hægt að komast að því með því að skoða skriflegar heimildir og skrár safnsins.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Vel færi á því að vekja upp málefnalega umræðu hér á landi um „eignarhald“ og eðlilega staðsetningu fornleifa, ekki síst með hliðsjón af þeirri athygli er þær kunna að fá af hálfu ferðalanga sem og nýtan- og heimanleika (upprunaleika) þeirra á einstökum svæðum. Ferðamálasamtök víðs vegar um landið, sveitarstjórnarfólk og jafnvel fleiri aðilar, mættu gefa sér svolítinn tíma frá dagsins amstri og taka þátt í slíkri samræðu. „Hallgrímshellan“ gefur og bæði tilefni til hugleiðinga og spurninga, s.s.: „Hver á fornleifarnar í landinu?“ og „hvar eiga þær að vera?“ Eiga þær t.d. að vera sem næst upprunastað sínum og heimafólki, því og sem flestum gestum þess til fróðleiks, áhugasvölunar og áminningar um gildi þeirra. Eða eiga þær að vera varðveittar í lokuðum geymslum á einu landsvæði frekar en öðru þar sem örfáir fá að nálgast þær? Og hvers vegna ætti frekar að vera hægt að varðveita „sérstaka“ fornmuni í geymslum á höfðuborgarsvæðinu en í öðrum sambærilegum geymslum annars staðar á landinu, t.d. á Raufarhöfn?

Hallgrímshella

Hallgrímshellan skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Forngripir, eins og allar aðrar jarðfundnar fornleifar, eru eign ríkisins. Má rekja þá löggjöf aftur til 18. aldar. Ljóst er að byggðasöfnin um allt land, auk Þjms., varðveita fornleifar af ýmsum toga. Hlutverk þeirra hefur verið skilgreint í seinni tíð. Aðstæður hafa því breyst frá því að hinir ýmsu ártalssteinar eða steinar með öðrum áletrunum bárust Þjóðminjasafninu eða Hinu íslenska fornleifafélagi á undan því.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan í Þjóðminjasafninu.

Ástæða er til í ljósi breyttra aðstæðna að endurmeta og endurskoða matið, sem lagt var til grundvallar því hvar minjum skyldi safnað saman og þær varðveittar? Er jafnvel kominn tími til, í ljósi breyttra aðstæðna, nýrra krafna og annarra nýtingamöguleika, að endurmeta staðsetningu áður uppsafnaðra fornminja með það fyrir augum að gera sem flesta þeirra sýnilegri og meðvitaðri almenningi og gestum landsins? Horfa má til þess að gildi þeirra enduspeglast af sýnileikanum, en auk þess geta fornleifar haft tilfinningagildi.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan – áletrun.

Áður fyrr var fornmunaverðmætum safnað saman miðlægt til varðveislu og til að koma í veg fyrir eyðingu þeirra. Í dag býr sérhver landshuti og jafnvel einstök minni svæði yfir ákjósanlegum varðveisluskilyrðum. Og í dag ferðast fornleifafræðingar um malbikaða vegi landsins í bílum eins og annað fólk. Það gerir flest forvörslufólk einnig. Allir aðilar, sem áhuga hafa, komast nú á milli landshluta á tiltölulega skömmum tíma, flesta daga ársins. Hvað er því til fyrirstöðu í dag að forngripir fái að dvelja og varðveitast „heima“ þar sem þeir eiga sínar sögulegu rætur? Lagaákvæði um fornleifaskráningu, bann við röskun minja og virkara eftirlit minnka líkur á að fornleifar glatist. Viðkvæmari gripi má hæglega varðveita í staðbundnum söfnum, kirkjum, opinberum byggingum eða öðrum slíkum. Geymslur Þjóðminjasafnis eru engum til gagns og ánægju.

Heródes

Heródes; álaga- og rúnasteinn. Hefur verið látinn ósnertur.

Skv. 3. gr. „Þjóðminjalaga“ (107/2001) er Þjóðminjasafn Íslands höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslunnar í landinu. Það „annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á minjum um menningarsögu þjóðarinnar“. Safnið hefur sinnt sínu hlutverki vel þrátt fyrir þröngan stakk. En „hver á fornleifarnar?“ Er það sá, sem ber ábyrgð á þeim? Hver ber ábyrgð á þeim skv. lögum? Svarið er bæði ENGINN og ALLIR. Enginn má raska eða færa fornleifar úr stað nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins og allir eiga að ganga þannig um fornleifar að þær skemmist ekki. Á fornleifum í vörslu safna bera ekki aðrir ábyrgð, a.m.k. ekki skv. lögunum.

Af hverju ekki að leyfa, a.m.k. þeim fornleifum er það þola, að vera sem næst þeim stað sem þeir eiga sinn „sögulega uppruna“, þ.e.a.s. ef þess er nokkurs kostur?

Letursteinar

Letursteinar í geymslu Þjóðminjasafnsins.

Í 9. gr. sömu „Þjóðminjalaga“ er ýtarleg skilgreining á fornleifum:
„Þær eru hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum… Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar“.

Í flókinni „Reglugerð um þjóðminjavörslu“ frá árinu 1998 segir í
8. gr. að „meginstarfsemi Þjóðminjasafns Íslands fer fram á vettvangi þriggja sviða. Nefnast þau safnsvið, útiminjasvið og fjármálasvið.“ Í 21. gr. sömu reglugerðar er kveðið á um söfnun fornleifa, sbr.: „Útiminjasvið skal, ýmist eitt sér eða í samvinnu við aðrar starfseiningar, söfn, stofnanir eða þjónustuaðila, láta safna minjum, sem falla undir sviðið, skrá þær, varðveita, forverja og rannsaka og sinna sýningarhaldi og fræðslu um minjarnar.“

Garður

Garður – rúnasteinn á fornmannaleiði.

Í 16. gr. reglugerðarinnar segir að „munadeild varðveitir, skráir, rannsakar og sýnir muni Þjóðminjasafns Íslands og veitir ráðgjöf og fræðslu á sínu fagsviði. Í umsjá deildarinnar eru allir munir skráðir í Þjóðminjasafn sem og munir í sérsöfnum innan vébanda þess nema hlutaðeigandi sérsafn hafi stöðu deildar innan safnsviðs.“. Lán á munum eru bundin takmörkunum því skv. 76. gr. reglugerðarinnar segir að „safnstjóri getur, með samþykki þjóðminjavarðar, heimilað að safngripir í eigu Þjóðminjasafns Íslands séu hafðir til sýnis í þeim húsum, er undir það heyra. Safnstjóra er heimilt, með samþykki þjóðminjavarðar, að lána söfnum, stofnunum eða öðrum ábyrgum aðilum safngripi í eigu Þjóðminjasafns Íslands á sérstakar sýningar á þeirra vegum, en skilyrði skal þá setja um tryggingar og örugga vörslu, sbr. 10. gr. þjóðminjalaga.“ Reyndar er um ranga tlvísun að ræða því reglugerðin er eldri en núgildandi lög. Ný reglugerð hefur enn ekki verið samnin.

Letursteinn

Letursteinn í geymslu Þjóðminjasafnsins.

En á yfirleitt að geyma minjar, hverju nafni sem þær nefnast, á einum miðlægum stað? Svarið er auðvitað bæði nei og já. Almennt eiga minjar heima sem næst uppruna sínum. Þó geta verið til svo sérstakar, verðmætar eða viðkvæmar minjar að þær þarf að varðveita við sérstök skilyrði. Einstakar minjar, sem telja má á einstakan hátt sameiginlegan arf þjóðar og endurspegla með áhrifaríkum hætti menningu hennar, gætu hugsanlega átt heima á þjóðminjasafni, en þó einungis þær helstu. Á tímum aukinnar ferðamennsku og áhuga er þörf á að dreifa og draga athygli ferðamanna að sögulegum minjasvæðum. Með það í huga er t.d. er mikilvægt að endurmeta hvort og hvar t.a.m. einhverjar minjar, sem nú eru geymdar í lokuðum geymslum, ættu betur heima með hliðsjón að framansögðu. Á vefsíðu Byggðasafns Hafnarfjarðar er m.a. fjallað um skráningu og varðveislu fornleifa. Þar segir að „hún muni jafnframt einfalda bæjaryfirvöldum stefnumörkun t.d. varðandi umgengnireglur og merkingar og einnig getur ferðaþjónustan haft mikinn hag af slíkri heildarskrá.“ Hér er gert ráð fyrir að ferðamenn hafi áhuga á fornleifum innan bæjarlandsins.

Hallgrímshella

Hafnir – letursteinn.

„Hallgrímshellan“ er vel til þess fallin að vera „steingervingur“ (sbr. persónugervingur) fyrir aðrar fornleifar (forngripi, fornmuni), sem nú hvíla í lokuðum geymslum (gripahúsum), en mættu með réttu vera úti í mörkinni þar sem atburðir eða tilefni gáfu til tilurðar þeirra.
Vonandi verður „Hallgrímshellan“ tilefni til uppbyggilegrar umræðusköpunar og hugsanlega til að breyta afstöðu einhverra til þess hvar geymdar og gleymdar fornleifar eiga að varðveitast í framtíðinni hér á landi. Hafa ber í huga að fornleifar eru verðmæti í fleiri en einum skilningi.

Starfsfólki Þjóðminjasafnsins, sem var boðið og búið til að upplýsa um „Hallgrímshelluna“ og gefa FERLIRsþátttakendum tækifæri til að skoða hana, er hér með þakkað fyrir liðsinnið.

Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimildir m.a.:
-Þjóðminjalög – 101/2001.
-Reglugerð um þjóðminjavörslu – 1998.
-Byggingarlög nr. 73/1997.
-http://www.natmus.is/thjodminjar/fornleifar/
-Lovsamling for Island II, 276; III, 131-13; VII, 673-74.
-Kristján Eldjárn: Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi, Reykjavík 2000.
-Orri Vésteinsson – Fornleifar, heimildir og samtíminn (2001).
-http://www.kistan.is/efni.asp?n=503&f=3&u=2
-http://www.hafnarfjordur.is/byggdasafn/fornleifar.html

Básendar

Básendar – letursteinn.

Gamli-Kirkjuvogur

Gengið var frá Ósabotnum að Hunangshellu, en við hana er gömul þjóðsaga um finngálkn kennd.
Haldið var eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni um Draugavog og að Selhellu. Framan við tangann er tótt og önnur inn á honum. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni.

Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, er tótt. Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að og áfram fyrir Djúpavog. Í botni vogarins liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Hún var einkar falleg í kvöldsólinni. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels.

Stafnessel

Stafnessel.

Á landakorti frá árinu 1945, sem haft var meðferðis, er selið merkt þarna og reyndist það rétt vera. Í því eru a.m.k. þrjár tóttir. vatnsstæði er bæði á klapparholti norðan við selið svo og á klapparhól svo til beint í vestur, ofan við Gamla Kirkjuvog. Þar er sögð hafa verið kirkja til forna. Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar segir að Ingólfur hafi gefið Herjólfi frænda sínum land á milli Vogs ok Reykjaness. Síðar breyttist nafnið í Kirkjuvog. Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16 aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur.

Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt. Gengið var að gamla bæjarhólnum, en Kaupstaðaleiðin liggur rétt ofan við hólinn. Á honum er greinileg hleðsla. Neðan bæjarhólsins er þrjár tóttir. Í tveimur þeirra eru greinilegar hleðslur. Sú syðsta virðist hafa verið gerði. Í skýrslunni er þar sagður vera gamall kirkjugarður. Sunnan við gerðið er tangi. Fremst á honum er hlaðið gerði, en tanginn hefur greinilega sigið nokkuð eins og annað land á svæðinu, eða um 8 mm á ári skv. staðfestum mælingum.

Ósabotnar

Ósabotnar – uppdráttur ÓSÁ.

Kirkjuvogssel er skammt sunnan þjóðvegarins að Höfnum, vestan undir hól inni á sprengisvæði varnarliðsins. Fengið var góðfúslegt leyfi til að fara inn á svæðið s.l. sumar og skoða selið. Það hefur verið látið óhreyft. Göm þjóðleiðinni var fylgt aftur til austurs. Þegar komið er upp lága brekku sést hlaðinn garður á hægri hönd. Sunnar sést í háan grashól. Á honum er tótt. Neðan hans, rétt ofan við sjóinn, en lítið norðar, er hlaðinn garður. Fer hann nú á kafl í flóði. Gatan liggur í átt að Stafnesseli, þó lítillega til hægri, og yfir holtið. Á holtinu liggur hún einnig til suðurs, að gerði og tótt norðvestan Djúpavogs, þeim sem minnst var á áðan og eru undir Illaklifi.
Skammt austar er önnur tótt, mun stærri. Þarna er Gamli Kirkjuvogur sagður vera skv. fornleifaskýrslunni. Í henni segir m.a.: “Til forna lá jörðin hins vegar inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústabunga, grasi gróin. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Vestan við bæjarhólinn, ca. 8 m, eru nokkrir steinar, en undir þeim er gamli bæjarbrunnurinn.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – rústir á bæjarhólnum.

Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðinn brunn vestan við hann, en tóttir enn lengra í vestur, sem gætu verið tóttir útihúsa. Greinilegar traðir eru frá bænum í norður upp á Kaupstaðaleiðina.
Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 segir frá því á annálum að Þorleifur nokkur hafi drepið Þorbjörn prest í kirkju og lagði sig síðan sjálfur með hnífi.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – Kaupstaðagatan.

Í Jarðabók 1703 er tekið fram að gamli Kirkjuvogur sé fornt eyðibýli í Kirkjuvogs landi. “Aðrir halda því fram að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi”. Líklega er talið að jörðin hafi farið í eyði um 1580”.

Gengið var eftir stígnum upp Illaklif, eftir rudda götuhlutanum og áfram götuna fyrir Djúpavog. Þaðan var haldið beint yfir holtin, stystu leið.
Í leiðinni var gert kort af öllu svæðinu þar sem tóttir og einstakir staðir eru merktir inn á.
Sjá MYNDIR.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – bæjarhóllinn.

Stóri-Hólmur

Farið var að Stóra-Hólmi þar sem Guðmundur og Bjarni Kjartanssynir tóku á móti hópnum. Veður var í einu orði sagt stórkostlegt – sól og blíða – þrátt fyrir vonda spá. Enda höfðu bræðurnir orð á því að þeir myndu ekki eftir annarri eins blíðu og höfðu þeir þó báðir alið þar allan sinn aldur.

Stori-Holmur-201Þeir bræður byrjuðu að draga úr úr bíl sínum tveggja metra langa loftmynd af svæðinu þar sem á voru letruð öll nöfn staða og bæja með ströndinni. Farið var yfir kortið og þeir gengu síðan með hópnum um svæðið og bentu á hitt og þetta. M.a. var gengið um gamla garðlagið, skoðuð var gamla lindin undir klettunum (þar sem áður var Steinkot), skoðað gamla barnaskólahúsið og litið á hlöðnu brunnana, bæði við Hólm og eins niður undan Leiru, en þar er mjög fallega hlaðinn brunnur suð-austast á golfvellinum.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – SG.

Annars er merkilegt hvað golfararnir hafa getað eyðilagt mikið af minjum á svæðinu – menn sem segjast vilja varðveita og viðhalda minjum á landi sínu. Þeim er reyndar vorkunn því lítill áhugi virðist hafa verið að varðveita gamlar minjar á svæðinu næst Keflavík. Norðan við húsið á Stóra-Hólmi er bátslaga ósleginn blettur með hleðslum í kring. Þar sögðu bræðurnir að væru sagnir um heigðan fornmann og hefði aldrei mátt hrófla við blettinum. Hann hefði lengst af verið girtur af, en er nú aðgengilegur. Í hólnum voru greinilegar hleðslur.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Við Bæjarskersréttina hitti hópurinn fyrir Reyni Sveinsson (Fræðasetrinu) og Péturs Bryngarðsson, sagnfræðing í Sandgerði. Pétur benti á Bæjarskersréttina og leiddi hópinn að Bæjarskersleiðinni og gekk með henni fyrsta áfangann upp að Stekknum. Þar er álfaborg og Álfaklettur.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – SG.

Norðaustan í klettunum eru nokkrar tóttir og bera þau öll merki selja. Pétur hélt að þarna hefði fyrrum verið sel frá Býskerjum. Þarna fyrir ofan blasir Álaborgin syðri (rétt) við og er hún mjög heilleg. Pétur sagði að elsta réttin á svæðinu, svo vitað sé, hafi verið Álaborgin nyrðri ofan við Flankastaði, síðan hafi Álaborg syðri verið byggð ofan við Bæjarsker, en hún hafði síðan verið flutt í réttina, sem við komið var fyrst að. Austan við réttina (borgina) eru þrjár tóttir, mis gamlar. Um er að ræða hús, nokkurn vegin jafnstór. Þau gætu vel hafa verið frá sama tíma og borgin upphaflega.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Þá var leiðin elt að Vegamótahól þar sem mætast Bæjarskersleið og Sandgerðisleið.

Sandgerðisleiðin er greinileg í áttina að gamla Sáðgerði (Sandgerði). Þaðan var gengið að Digruvörðu, sem var mið úr Sandgerðissundinu í Keili. Norðan vörðunnar fannst Sjónarhól og neðan hennar er Árnakötluhóll. Á milli þessara hóla átti Dauðsmannsvarðan neðri að vera. Dauðsmannsvarðan efri er ofan við Norðurkot, fast við varnargirðinguna, við gömlu leiðina niður að Hvalsnesi.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Leitað var og fundin var gömul varða á einum hólanna austan Sandgerðisleiðar. Skömmu síðar fannst önnur gömlu varða vestan leiðarinnar. Hún er mjög álitlegur staður – skammt utan við götuna. Þriðja varðan er á hól sunnan við Árnakötluhól. Nú er vitað hvaða svæði leturhellan (sem getið er um í gömlum heimildum) gæti verið á. Þetta er tiltölulega lítið svæði og ætti að vera auðvelt að leita skipulega á því. Mosinn var hins vegar frosinn nú svo frekari leit varð að bíða.
Þá var gengið yfir móann niður að Bæjarskersrétt. Loks var litið á fornmannaletursteininn í Garði og var reynt að finna út hvers konar letur var á honum miðjum. Erfitt að segja til um það, en virðast vera rúnir. Þegar reynt var að taka mynd af letrinu festist myndavélin svo hún vildi ekki smella af. Þegar hins vegar var komið aftur að Leiru virtist allt vera í lagi. Svona getur þetta verið.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Guðmundur Kjartansson f. 1. nóv. 1937 og Bjarni Kjartansson f. 17. apríl 1939 (Tjarnargötu 27, Reykjanesbæ, sími: 421 1570).

Leiran

Leiran – örnefnamynd Guðmundar og Bjarna.

 

Básendar

Gengið var um Básenda frá Stafnesi í fylgd Magnúsar frá Bala. Farið var um gömlu steinbrúna austan Básendahóls á leið að gamla brunninum austan gömlu búðanna. Brunnurinn er greinilegur. Efstu hleðslur sjást, en að öðru leyti er hann fullur af sandi.

Básendar

Básendar – brunnur.

Í fornleifaskrá fyrir Básenda er brunnurinn sagður horfinn í sandinn. En raunin virðist önnur. Þá var gamla hústóttin á Básendum skoðuð, en bærinn, ásamt öðrum húsum, s.s. búðinni, lýsisbræðslunni, fjósinu og hlöðunni, eyðilögðust í Básendaflóðinu árið 1799. Verslunarhúsið var flutt í spýtum til Keflavíkur. Sjá má grunn hússins á Básendum.

Mesta flóð sem sögur fara af á Suðurnesjum og raunar landinu öllu er svokallað Básendaflóð, heitið eftir Básendum. Það er að öllum líkindum flóð sem aðeins gerist með mjög margra alda millibili.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í Suðurnesjaannál, Rauðskinnu hinni nýrri, er svohljóðandi lýsing:
„1799. Eftir nýár, aðfaranótt 9. janúar, gjörði ofsalegt sunnanveður af hafútsuðri, höfðu þó komið önnur lík, en eigi jafnmikil. Fylgdi veðri þessu mikið regn, þrumur og leiptranir í stórstraum og var himinninn allur ógurlegur að líta. Það með fylgdi óskaplegt stórbrim og hafrót með miklum fallþunga og ægilegri flóðbylgju. Urðu skemmdir miklar hvarvetna…. Í Grindavík eyðulögðust tún á tveim bæjum, og önnur stórskemmdust, fimm hjáleigur spilltust, sex skip brotnuðu, átta manns meiddust og hundruð fjár fórust….

Básendar

Básendar – bærinn.

Básendakaupstaðurinn hjá Stafnesi eyðilagðist alveg, því að öll höndlunarhús braut sjór og veður, svo að þar stóð ekkert eftir og rótaðist grundvöllurinn sjálfur, enda gekk sjór 164 faðma upp fyrir efstu hús kaupstaðarins. Fórst einn maður, en Hannes kaupmaður bjargaðist í dauðans angist með konu sína og börn hálfnakin heim að Loddu, hjáleigu frá Stafnesi. (Lodda er tóft austan við Stafnes, en fyrirhugað er að rissa Stafnessvæðið upp við tækifæri). Fiskigarðar og túngarðar á Nesinu sópuðust heim á tún, sums staðar tóku af skipsuppsátur og brunna og átta skip brotnuðu. Tveir bátar fuku í Njarðvíkursókn og fundust eigi síðan og einn brotnaði, 4 bátar í Útskálasókn. Miklir skaðar á Vatnsleysuströnd og Innnesjum og vestur um allt land, sem menn vissu ekki dæmi til eins stórkostlegt, um allt land á einni nóttu“.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Neðan tóttarinnar að norðanverðu er Básendavörin og má enn sjá för eftir kjalför bátanna á klöppunum. Austan tóttarinnar er gamla réttin og vestan hennar eru kengir, sem bátar í víkinni voru festir við allt frá því á 16. öld.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Ef vel er gáð má sjá einar 5 til 7 kengi með víkinni og á skerjum, en í allt eru þeir 9 talsins. Draughóll með dysinni upp á var skoðaður og síðan gengin gamla Hrossagatan yfir að Þórshöfn. Á leiðinni lýsti Magnús miðum og kennileitum, s.s. Svartakletti með ströndinni, en hann var notaður sem mið í Keili, Mjóuvörðu efst á Miðsnesheiðinni, en hún var notuð sem sundvarða o.fl. Á leiðinni fann göngufólk m.a. vínleirkúta í fjörunni og var tappinn enn í sumum þeirra.
Leitað var að áletruðu Hallgrímshellunni á holti norðan Þórshafnar og síðan litið á leturklöppina ofan hennar. Á henni má sjá ýmis ártöl og fangamörk. Í bakaleiðinni var komið við í Gálgum, gömlum aftökustað, sem heimildir eru
til um.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Gengið var í ágætu veðri. Rigningin beið uns göngunni var lokið. Til fróðleiks er gaman að geta þess að FERLIR hefur, þrátt fyrir reglulegar ferðir, einungis tvisvar lent í rigningu á ferðum sínum.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Hvalsnesleið

Þeir eru ekki margir núlifandi er hafa fengið tækifæri til að skoða fornleifarnar innan girðingar varnarsvæðis Keflavíkurflugvallar.

Sigurður Eiríksson

Ómar og Sigurður við Dauðsmannsvörðu í Miðnesheiði.

Að beiðni Stefáns Gunnars Thors hjá VSÓ ehf. fyrir hönd Isavía tóku skýrsluhöfundar, Ragnheiður Traustadóttir og Ómar Smári Ármannsson, að sér fornleifaskráningu á Miðnesheiði innan girðingar Keflavíkurflugvallar vegna aðalskipulags flugvallarins árið 2014.
Á hinu skráða svæði er að finna fornar leiðir, vörður, byrgi, fjárborgir, selstöðu og fjöldann allan af ummerkjum um veru hersins á stríðsárunum auk yngri byrgja frá hernum. Heiðin hafði verið nýtt sem beitiland í gegnum aldirnar, leiðir hafa legið þar í gegn og auk þess skipt sköpun fyrir mið sjómanna áður en nýtísku staðsetningartæki leystu þau af hólmi.

Hvalenesleið

Hvalsnesleið – varða.

Skýrsluhöfundar töldu auk þess nauðsynlegt að skrá minjar að hluta til utan við girðinguna til að gæta samhengis, enda skiptir máli að skoða minjaheildir sem slíkar. Eins reyndist það nauðsynlegt til að rekja aðrar götur á heiðinni: Hvalsnesveg/Melabergsgötur, Stafnesleið yfir heiðina framhjá Háaleiti til Keflavíkur, Fuglavíkurleið og Gömlu Fuglavíkurleiðina.

Svæðið er ekki aðgengilegt fyrir almenning og voru fornleifarnar skráðar í fylgd öryggisvarða.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleið – vörður.

Ómar Smári hafði áður fengi nokkrum sinnum leyfi til að fara inn fyrir varnagirðinguna og skoða svæðið vegna fornleifa, m.a. í fylgd með Sigurði Eiríkssyni frá Norðurkoti sem er fæddur og uppalinn í Fuglavíkurhverfi. Sigurður er manna fróðastur um örnefni og fornleifar á svæðinu. Auk þess veitti Jón Ben Guðjónsson frá Stafnesi gagnlegar upplýsingar.
Þeim og öðrum, sem veittu aðstoð við gerð þessarar fornleifaskráningar, er þökkuð aðstoðin.
Með skýrslunni fylgir fornleifaskrá og stafrænn hnitagrunnur.

Sjá skýrsluna HÉR.

Hvalsnesleið

Vörður við Hvalsnesleið – Ási.

Jamestown

Í Ægi árið 1930 er m.a. fjallað um „Reykjanesstrandið mikla“ utan við Valahnúksmöl á Reykjanesi og „Stóra strand“ Jamestown við Hvalvík utan við Ósa, gegnt Höfnum:

„Hr. hreppstjóri Ólafur Ketilsson á Óslandi í Höfnum, hefur sent »Ægi« ágæta grein um skipströnd þar syðra. Með því hér er um langt mál að ræða, en rúm í «Ægi« af skornum skammti, er eigi unnt að birta greinina í einu lagi, en þar eð hún er bæði ítarleg og skemmtileg, verður hún að birtast í pörtum eftir því sem rúm leyfir.

Valahnúksmöl (Reykjanesstrandið mikla).

Valahnúkur

Valahnúkur og Valahnúskmöl.

Á fyrsta tug 19. aldarinnar, rak á land á svo nefndri Valahnúkamöl á Reykjanesi, geysilega stór timburfloti; var flotinn benslaður með sverum járnböndum þversum og langsum. Í flota þessum voru mörg hundruð ferköntuð tré frá 12—18 álna löng, og frá 12—18 þml. á kant.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Flest voru trén úr furu — Pitch-pine, og svo nokkur eikartré. Um stærð flotans má nokkuð marka af því, að 18 al. löng trén stóðu upp á endann, sem bindingur til og frá í flotanum, og svo haganlega var hann byggður, að hvergi var hægt að fela hönd á millum trjánna, en fleiri þúsund smá eikarbútar frá 1—3 al. voru líka í flotanum, kallaðir tylftarstykki, til uppfyllingar í allar holur millum trjánna. Sagt var að floti þessi hefði átt að fara til Englands frá Ameríku, en að skipið hefði farist, sem hafði hann í drætti en sennilega hefur skipið verið komið upp undir Reykjanes er það fórst, því mikið af fataræflum og öðru dóti var á flotanum, sem sýndi að menn höfðu verið á honum, fyrir skemmstu, áður en hann bar að landi.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Uppboð var haldið á öllum trjánum, eftir að búið var að bjarga öllu undan sjó, en um verð á trjánum er mér ekki vel kunnugt, en dýrasta tréð fór á 12 dali (24 kr.) og keypti það Brandur heitinn Guðmundsson langafi Björns Þórðarsonar kaupmanns á Laugavegi 46.
Tugi ára var svo verið að saga niður í borðvið öll þessi tré, sem keypt voru mestmegnis af Vatnsleysustrandar, Rosmhvalaness, Grindavíkur og Hafnahreppsbúum; var allt reitt á hestum, þegar búið var að koma því í borð. Aðeins Hafnahreppsmenn fluttu flest trén heil sjóveg, höfðu stundum 5—6 tré aftan í skipinu í einu; var þá lagt á stað frá Reykjanesi um stórstraumsfjöru, og norðurstraumurinn svo látinn hjálpa til með róðrinum. Síðustu tré Hafnamanna voru sótt 1852, af Gunnari sál. Halldórssyni, föður séra Brynjólfs sál. mágs mín, sem var prestur að Stað í Grindavík.*

Jamestown (stóra strandið).

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki, var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinum, að það mundi mannlaust með öllu. Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á »Þórshöfn« skammt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverzlun í Keflavík.

Jamestown

Jamestown – ankeri í Höfnum.

Skipstjórinn hét Petersen; sagði hann okkur strax, sem skipið var strandað, að það væri amerískt timburskip, fullt stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra, sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofandekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefur skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hér við land.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist var um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið!

Jamestown

Ólafur Ketilsson við ankeri af Jamestown.

Og aldrei gleymi ég þeirri stund, þegar ég, þá 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inn á þilfari »Jamestown«, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma langa skipsbákn 1 Set ég hér stutta lýsingu á »Jamestown« hinu stærsta skipi, sem strandað hefur við Ísland, síðan landið byggðist.
»Jamestown« var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man ég ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því.
Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiptur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn þá eftir 50 ár blasir við augum mínum einn óskaplegi geimur, efsta lestin, þegar búið var loks að tæma hana, 60 faðma langa, og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, á af því nokkurn veginn gera sér grein fyrir, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.
Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn Willum aftasta og mið siglutrés, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða réttara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefur að öllum líkindum verið forðabúr skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m. m., og hrannir af spýtnabraki, póleruðu mahoni, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangaðúr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita, og mahoníþiljur voru sums staðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru og minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skipt í svefnherbergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar afborðbúnaði, eða neinu því, sem verðmæti var í.
Af öllu því tröllasmiði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrennt, sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutréð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afarsverumjárngjörðum, annað undirbugtspjótið, sem kallað er, 36 þml. á kant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get ég ekki gert neina ágiskun um, en ég vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hékk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). —

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum

Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hana úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brennt bréf hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mélaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæva af landinu, kom um sumarið til þess að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur ! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokk skipsins.
Eftir að »Jamestown« strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem enn þá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir félagar mikið af verkafólki hér, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun, þótti þá óheyrilega hátt kaup, og allt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskvöldi. Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur i uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þekktust ekki tálsnörur núlímans, bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!

JamestownHvað margir »Loggortu«farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man ég ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum flotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft frá 12—20 plankar á hvern mann, í helmingaskiptum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnanstormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600—800 st. í einu!
Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu. í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt í sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10—20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd 6—11 tom. Kristján sál. Jónsson, hæstaréttardómari, var þá sýslumaður i Gullbringusýslu, og hélt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25—50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú. Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr„ en skipið sjáltt með öllu timbri sem í því var í mið og neðstu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 301,00, en hann bauð í það fyrir föður minn og aðra suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.

Jamestown

Grjót úr ballest Jamestown.

Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og allt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Ég minnist þess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hét Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíulesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Allt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kg. til Englands af kopar. Það eina, sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af suðurnesjabændunum söfnuðu að sér af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hafði verið tekið.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir í Hraunu. Húsið var að mestu byggt úr viðum Jamestown.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afar mikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt enn þá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti þessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei séð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.

Jamestown

Ankeri úr Jamestown. Viktor Guðmundsson stendur hjá.

Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var ég oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sagast fram í briminu og hvolft þar úr sér á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hins vegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa i þessi 50 ár.

Ólafur Ketilsson

Ólafur Ketilsson í Höfnum.

Það eina, sem mér er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður Ólafsson, bóndi í Merkinesi náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola. Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fékk af silfri veit ég ekki, því ég sá það aldrei.
Eg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótal margt sé enn þá ósagt, en sökum þess að mér er ekki kunnugt um, að nokkur maður, allt til þessa hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi ég ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi.“
Sjá meira um Reimleika í Valahnúkshelli í tengslum við „Reykjanesstrandið mikla og einnig meira um Jamestown-strandið.

Heimildir:
-Ægir – 11. Tölublað (01.11.1930) – bls. 138-140.
-Ægir – 12. Tölublað (01.12.1930) – bls. 273-275.

Ásláksstaðir


Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd eru að mestu byggðir úr viðum Jamestown.

Gísli Sigurðsson skrifaði um „dauða Runólfs Runólfssonar í Kólgu“ (Klapparkoti) í Faxa árið 1965:

Gísli Guðmundsson„Alla nítjándu öldina og að minnsta kosti fyrsta tug þessarar aldar sóttu menn af öllum Suðurnesjum verzlun sína til Keflavíkur. Ekki var það fyrr en eftir 1910, sem farið var að vinna að vegabótum þar um slóðir, þannig að gera vegi akfæra. Áður voru aðeins ruddir götuslóðar, og fóru menn á milli fótgangandi á vetrum, en á hestum á sumrum, þeir sem höfðu þá yfir slíkum þægindum að ráða. En yfirleitt munu svonefndir tómthúsmenn, sem mikið var af á Suðurnesjum, ekki hafa átt annars kost en ganga í kaupstaðinn og bera á bakinu nauðsynjar sínar, ef þeir fengu þá nokkra fyrirgreiðslu erinda sinna, því oft kom það fyrir, ef fátækir áttu í hlut, að Keflavíkurkaupmennirnir létu þá bíða allan daginn eftir áheyrn, og svo loks, er þeir veittu mönnum viðtal, var það ef til vill aðeins til þess að neita bænum þeirra. Var þá ekki um annað að ræða en halda heim með þau málalok.
Nærri má geta, að ekki hafa það verið neinar skemmtigöngur að fara tómhentur heimleiðis og vita af heimilinu bjargarlitlu og þar að auki að leggja upp úr kaupstaðnum undir myrkur á haustdegi, svangur og kaldur, eftir að hafa beðið milli vonar og ótta um úrslit erindis síns, enda fór alloft svo, að þeir, sem heima biðu, urðu fyrir sárum sorgum, er heimilisfaðirinn kom eigi heim, því ferð hans hafði lokið einhvers staðar á heiðunum á Suðurnesjum. Geyma heiðarnar þar áreiðanlega margar sorgarsögur um hinztu stundir þessara göngumanna, er þeir háðu baráttu sína við hryggð og gremju yfir erindislokunum í kaupstaðnum og hungur og þreytu eftir að hafa gengið villtir vegar, ef til vill mikinn hluta nætur, áður en þeir settust niður til að taka sér örlitla hvíld. En hvíldin sú varð oft hin síðasta, því svo var þá af þeim dregið, að þeir gátu eigi veitt viðnám svefninum, sem þá vildi ásækja þá, og sofnuðu því svefninum langa. Og kannske lagði svo nóttin til líkblæjuna með því að láta fönnina leggjast yfir allt, og gat þá liðið alllangur tími, þar til hinn týndi maður varð fundinn.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Ein slík raunasaga verður nú sögð hér. Hún hefir þó á sér verulegan þjóðsagnablæ, sem skapazt hefir í sambandi við þjóðtrú þeirra tíma, en þá vildu menn stundum kenna slys slík sem að framan er lýst illum fylgjum, er villtu um menn og voru stundum svo magnaðar, að þær veittu mönnum árásir, er drógu þá til dauða.
Stundum kom það fyrir, að menn urðu varir við ýmis dýr, komin úr sjó, og veittu þau fólki eftirför og stundum árásir. Nokkur sannleikur mun vera í sumum sögum, er greina frá slíkum viðureignum, en oftast munu þær frásagnir hafa lagazt svo í meðferð manna, að erfitt verður að greina það frá, sem satt kann að vera, enda gæti verið vafamá!, hvort rétt væri að fara út í slíka greiningu, þó tiltækilegt þætti.
Það er þá upphaf sögunnar, að árið 1879 bjó maður að nafni Runólfur Runólfsson í þurrabúðarkoti einu, sem í daglegu tali var alltaf nefnt Kólga, en hét réttu nafni Klapparkot á Miðnesi og mun upphaflega hafa verið kofi byggður til að salta í fisk, en síðan tekinn til íbúðar, því að þess voru nokkur dæmi. Þetta ár er Runólfur sagður vera orðinn ekkjumaður, 52 ára að aldri. Bjó hann með bústýru, Kristínu Sigurðardóttur, er þá var 24 ára gömul. Hjá þeim dvaldist og sonur Runólfs, Bjarni að nafni. Kristín bústýra var dóttir Sigurðar Kortssonar af svonefndri Írafellsætt, en það herma sagnir, að sú ætt hafi átt fylgju þá, sem nefnd hefir verið Írafells-Móri, og á fylgja sú að hafa gert fólki ýmislegt til óþurftar og jafnvel skaða.

Sandgerði

Sandgerði og nágrenni. Herforingjaráðskort 1903.

Hinn 16. nóvember 1879 fór Runólfur í Kólgu til Keflavíkur, og segir ekkert af þeirri ferð hans fyrr en á vökunni um kvöldið, að hann á heimleið sinni úr Keflavík kom að Landakoti, en sá bær er í Sandgerðishverfi. Ekki er þess getið, hvort hann hafði nokkurn farangur meðferðis. Gekk hann til baðstofu og þáði beina, eins og títt var á bæjum, er gesti bar að garði. Bóndi í Landakoti var þá Þórarinn Pálsson skáld, síðast að Hofi í Garði. Er Runólfur fór af stað frá Landakoti, er sagt að hann hafi beðið Þórarin bónda að lána sér vatnastöng, er hann átti. Hugðist Runólfur nota stöngina að vopni, „því að mér fannst,“ segir hann, „einhver skrattinn vera að glettast við mig, er ég gekk norður Löndin.“ Svo nefndust flatir, er lágu milli Sandgerðis og Bæjarskers, þar sem nú er Suðurgata í Sandgerði. Vegslóði lá yfir heiðina úr Keflavík að Bæjarskerjum, og var svo gengið yfir Löndin af þeim, sem heima áttu innar á nesinu. Þórarinn segir Runólfi stafinn velkominn, en bauð að fylgja honum á leið, þar eð hann taldi, að Runólfur væri drukkinn. Hann afþakkaði fylgd Þórarins, þar sem hann átti örskammt heim, eða aðeins yfir Sandgerðistúnið og eftir malarkambi milli Flankastaða og Sandgerðis, þá túnið á Flankastöðum og malarkamb, sem náði þaðan og heim að bæ hans. Báðir þessir malarkambar liggja milli sjávar og tjarna, sem eru fyrir ofan þá, en þeir eru hvor um sig 200—300 metrar á lengd. Öll leiðin, sem ófarin var frá Landakoti, var um 15 mínútna ganga.

Sandgerði

Sandgerði – loftmynd 2023.

Varð það úr, að Runólfur fór einn frá Landakoti, og er það hið síðasta, sem menn vita um hann lifandi. Er hann kom eigi heim um kveldið og nóttina, var hafin leit daginn eftir. Veður hafði verið vont um nóttina, rok og rigning ásamt náttmyrkrinu. Ekki leið á löngu, þar til leitarmenn fundu merki þess í þarahrönn, sem var í flæðarmáli fyrir neðan malarkamb þann, er liggur suður frá Flankastaðatúni, að þar hefði viðureign nokkur átt sér stað, og það mjög hörð, því þarinn var mjög troðinn á nokkru svæði. Gengu menn brátt úr skugga um, að þar hefði Runólfur í Kólgu háð harða glímu um líf sitt við einhverja óvætti og beðið lægra hlut, því þar lágu partar af líkama hans, sem virtist hafa verið allur tættur sundur. Sumir líkamshlutar hans fundust suður í svonefndu Bakkakotsviki, sem er sandvik sunnan undir túninu í Sandgerði.

Sandgerði

Sandgerði – Landakot; loftmynd 2023.

Saga gekk um það, að kvöldið, sem Runólfur kom að Landakoti, hafi það borið við á bæ einum þar í nágrenni, er fólk var í þann veg að ganga til náða, að þá hafi maður komið þar á baðstofuglugga með miklum asa og beðið um að opna fyrir sér í guðs nafni, því að djöfullinn sjálfur væri á hælum sér. Fólk allt á bænum hafði orðið mjög óttaslegið við þetta ávarp á glugganum og mun þess vegna ekki hafa brugðið strax við að ganga til dyra. En þar skipti engum togum, því að, er maðurinn hafði gert vart við sig á þennan hátt, urðu ryskingar þar í gluggatóftinni, og heyrðist fólkinu, sem inni var, að maðurinn væri dreginn frá glugganum. Var það álit manna, að þar mundi Runólfur verið hafa, og hefir þá verið búinn að eiga í höggi við ófögnuð þennan allt kvöldið, frá því hann fór frá Landakoti. Sumir töldu, að þarna hefði Írafells-Móri unnið eitt af sínum ódáðaverkum. Aðrir, og miklu fleiri, álitu aftur á móti, að maðurinn hefði orðið fyrir árás af sjávardýri.
Hér lýkur þessari frásögn. Er hún skráð hér eins og ég heyrði hana sagða af mönnum, sem komnir voru til fullorðinsára, þegar atburður þessi gerðist, svo að þannig hefir sagan gengið meðal fólks.
ÚtskálakirkjaÍ prestsþjónustubók Útskálaprestakalls er dánardagur Runólfs skráður 16. október 1879, og fylgir þessi athugasemd, sem sýnist varpa nokkru ljósi yfir hin raunverulegu ævilok hans: „Runólfur Runólfsson, Klapparkoti, 52 ára, varð úti voveiflega á heimleið úr Keflavík í slagveðri af rigningu og stormi, allskammt frá bæ sínum um miðja nótt. Meint, að hann hrakizt hafi niður í fjöru fyrir sunnan Flankastaðatúngarð, hvar sjór hafi tekið hann, því bein hans fundust löngu seinna, sundurlimuð, og fatnaður.“ Grafinn er hann, samkvæmt sömu prestsþjónustubók, 8. jan. 1880 eða 12 vikum frá dánardegi.
(Saga þessi er áður prentuð í sjöunda hefti af Íslenzkum sagnaþáttum og þjóðsögum, eftir dr. Guðna Jónsson).“

Sjá meira um Runólf HÉR og HÉR.

Heimild:
-Faxi – 10. tölublað (01.12.1965), Gísli Guðmundsson, „Dauði Runólfs í Kólgu“, bls. 225-226.

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Garðsstígur

Gengið var eftir Garðsstíg (Garðvegi) til suðurs að Grófinni í Keflavík. Leiðin lá um svonefndan Garðstíg efri, þ.e. um Langholtin, Ytra- og Innra-Langholt.
Önnur leið var mun neðan Langholtanna milli Garðs og Berghóla, skammt ofan heimagarða Leiru, Hólma og Gufuskála, en á Berghólum komu leiðirnar saman síðasta spölinn í Grófina í Keflavík.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Neðri leiðin sést spottkorn enn rétt ofan garðs við Hólm og Gufuskála. Viðhald og virðing hennar hefur verið vanrækt, líkt og um aðrar gamlar þjóðleiðir á Suðurnesjum.
Gengið var sem sagt um ofanverðan Inn-Garð. Ætlunin var m.a. að skoða Elínarstekk (Ellustekk), tóftir Heiðarhúss, Hríshólavörðu, Þrívörður, Árnaborgina og/eða Smalaskálaflatir/-borg. Einnig að ganga um Langholtin, skoða Langholtsvörður, Ranglát og Pretsvörðuna og halda síðan til suðurs utan Bergvatna að Grófinni ofan við Keflavík.

Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk (Elínarstekk). Hún stendur á Hríshólum. Gamlar götur út úr Garði lágu við Langholt og Hríshólavörðu. Þær nefndust Efrivegur. Neðrivegur lá ofan við Leirubæina. Enn sést móta fyrir götum þessum, einkum norðvestan og ofan við Langholtin. Einnig á Berghólum og áleiðis að Grófinni.

Ellustekkur

Svæðið innan við Garð hefur verið raskað að nokkru, bæði með vegaslóðum og malar- og grjótnámi, auk þess sem allnokkur gróðureyðing hefur orðið á Miðnesheiðinni. Þess vegna er sá hluti gömlu þjóðleiðarinnar sem hefur varðveist því merkilegri og mikilvægt að gæta þess vel að honum verði ekki raskað frekar (en nauðsynlegt er).

Það verður að teljast til fyrirmyndar að búið er að merkja margar minjar í og við Garð. Veg og vanda af því hefur Guðmundur Garðarsson (Bóbi) haft, en hann á m.a. ættir að rekja til Rafnkelsstaða.

Garður

Garður og nágrenni – herforingjaráðskort 1903.

Keflavíkurjörðin var ekki stór og eru merki glögg og um óumdeilt eignarland að ræða. Sömu sögu er að segja frá jörðum í Gerðahreppi. Þegar jarðabókin var tekin saman árið 1703 voru alls sextán jarðir í byggð í Garði og Leiru auk Útskála. Jarðirnar voru þessar: Hrúðurnes, Stórihólmur, Litlihólmur, Gufuskálar, Meiðsataðir, Ívarshús, Kothús, Varir, Brekka, Skeggjastaðir, Gauksstaðir, Gerðar, Miðhús, Lambastaðir, Rafnkelsstaðir og Krókur og að auki er getið Heiðarhúsa, sem stóð á heiðinni upp af Meiðastöðum og Rafnkelsstöðum.

Ranglát

Ranglát.

Heiðarhús varð klausturseign og síðar konungs. Síðar fór hún í eyði, en var nýtt frá nærliggjandi jörðum. Töluverðar breytingar hafa síðustu áratugi átt sér stað í Garðinum. Leiran er komin í eyði og á landi landnámsjarðarinnar Stóra-Hólms er nú golfvöllur. Í Gerðalandi hefur byggðin á hinn bóginn vaxið ört og þar er myndarlegt þéttbýli. Saga og þróun þessarar byggðar var m.a. rakin í „innanbæjargöngu“ um Garð daginn áður þar sem t.a.m. var skoðað fornmannaleiði í miðri byggðinni, rakin saga útgerðar niður við Gerðahöfnina, sagt frá vörum, sjósókn og sjósköðum með ströndinni, lýst sögu Útskálakirkju og nágrenni og skýrt einkennismerki Garðs, Skagagarðurinn mikli, sem og rakin saga þess mannvirkis er enn er bæði ásjálegt og áþreifanlegt milli Garðs og Kirkjubóls.
Þegar komið var út fyrir þéttbýlið á innleið, en eins og heimamenn vita voru einungis tvær áttir í Garði, þ.e. austur og vestur (hinar voru inn (suður) og út (norður)), var staðnæmst við gróna þúst ofan við þjóðveginn; Ellustekk.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Skúli Magnússon segir í Faxa, október 1999, frá Elínarstekk (Ellustekk) utan við Garð.
„Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimsstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.
Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
HolurtElín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.
Láti Elínar og aðdraganda þess, svo og hulun líks hennar og frágangi þess, er lýst í Dóma- og þingbókum Gullbringusýslu. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögðu líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr.
Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fór neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Heimildarmaður minn, Ólafur Sigurjónsson, kallaði stekkinn aldrei annað en Elínarstekk, en í heimildum Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 9. febr. 1969, bls. 108-112, virðist hann nefndur Gufuskálastekkur og hefur það að öllum líkindum verið upprunalegt nafn hans. Eftir greftrun Elínar hefur nafn stekksins breyst en hið eldra heiti líklega fallið úr daglegu máli og gleymst.“

Garðsstígur

Þrívörður.

Ellustekks er getið í örnefnalýsingu fyrir Rafnkelsstaði. Þar segir: „Hér voru býli, sem eru farin í eyði: Þórðarbær, Bjarnabær, Pálsbær og Finnsbær. Rétt ofan við nýja veginn er Ellustekkur, sem ber við himin frá bæ séð.“ Grænagróf er í berginu innan Rafnkelsstaða, beint niður af Ellustekk. Stekkurinn mun því vera í Rafnkelsstaðalandi, en ekki Gufuskála.

Efri vegur liggur að norðanverðum Langholtum neðan Hríshólavörðu. Varðan sést vel ofan við Ellustekk. Síðan liggur hún niður fyrir holtin. Fyrst hefur henni verið raskað með trönum, síðan stríðsathöfnum og loks námuvinnslu. Handan þessa svæðis sést gatan vel neðan við holtin.
Til norðurs lá leiðin neðan við Heiðarbæ og kom niður þar sem nú er elliheimilið í Garði. Sunnan við Langholtin er gatan vel greinileg þar sem hún liðast um móann áleiðis að Berghólum.

Gengið var neðan tófta Heiðarhúss ofar í heiðinni. Þar mótar fyrir húsum og görðum. Í Þjóðsögum Jón Árnasonar segir: „Það er í munnmælum haft að Heiðarhús sem eru spölkorn fyrir ofan Inngarðinn hafi í fornöld verið mesti stórbær svo að þar væru þrjátíu hurðir á hjörum, en hafi aflagt fyrir reimleika sakir. Var sá draugur nefndur Heiðarhúsadraugur. Skyldi einn þar búandi maurapúki peningaauðugur hafa gengið aftur til skildinganna. Þókti þar ekki viðvært lengi fram eftir jafnvel þó þar séu tún hin beztu.

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Sigurður og Svanhildur kona hans bjuggu í Heiðarhúsum um 1805. Svanhildur var talin forneskjukerling. Sigurður reri þar í Garðinum sem fleiri og kom oft seint heim á kvöldin frá sjónum. Einu sinni seint um kvöld er Svanhildur sat inni, en Sigurður var ekki kominn frá sjónum, var kallað á gluggann hjá henni: „Ég vil mitt.“ Þá svaraði hún: „Taktu þitt og farð’ í burtu.“ Svo fóru leikar að þeim þókti þar svo óskemmtilegt að þau fóru þaðan.“
Í athugsasemdum við örnefnalýsingu Rafnkelsstaða segir að „Heiðarhús eru nú löngu komin í eyði. Þó man Halldór [Þorsteinsson í Vörum] eftir karli, sem búið hafði tómthúsbúi í Heiðarhúsum og var við þau kenndur. Þarna var talsvert ræktað land, sem Rafnkelsstaðamenn og Meiðastaðamenn deildu um áður fyrr, en hvorugir gátu helgað sér það, því að það var í óskiptu landi.“

Hér fyrir neðan voru býli, sem eru farin í eyði: Þórðarbær, Bjarnabær, Pálsbær og Finnsbær. Rétt ofan við nýja veginn er Ellustekkur, sem ber við himin frá bæ séð. Grænagróf er dokk niður í bergið. Þar er mikil huldufólks byggð.
Þá er hið óskipta land uppi í heiðinni. Beint hér upp af er eyðibýlið Heiðarhús. Virðist það hafa verið allmiklar byggingar og mikil jörð. Þar innar eru Smalaskálaflatir og Hríshólavarða, og framhald af henni er svo Langholt, sem nær áfram fyrir ofan Leiruna.

Garðsstígur

Garðsstígur – fisktrönur.

Grænugróf er fyrir neðan veginn, niður af Ellustekk. Heiðarhús eru nú löngu komin í eyði. Þó man Halldór eftir karli, sem búið hafði tómthúsbúi í Heiðarhúsum og var við þau kenndur. Þarna var talsvert ræktað land, sem Rafnkelsstaðamenn og Meiðastaðamenn deildu um áður fyrr, en hvorugir gátu helgað sér það, því að það var í óskiptu landi.

Það er í munnmælum haft að Heiðarhús sem eru spölkorn fyrir ofan Inngarðinn hafi í fornöld verið mesti stórbær svo að þar væru þrjátíu hurðir á hjörum, en hafi aflagt fyrir reimleika sakir. Var sá draugur nefndur Heiðarhúsadraugur. Skyldi einn þar búandi maurapúki peningaauðugur hafa gengið aftur til skildinganna. Þókti þar ekki viðvært lengi fram eftir jafnvel þó þar séu tún hin beztu. Sigurður og Svanhildur kona hans bjuggu í Heiðarhúsum um 1805. Svanhildur var talin forneskjukerling. Sigurður reri þar í Garðinum sem fleiri og kom oft seint heim á kvöldin frá sjónum. Einu sinni seint um kvöld er Svanhildur sat inni, en Sigurður var ekki kominn frá sjónum, var kallað á gluggann hjá henni: „Ég vil mitt.“ Þá svaraði hún: „Taktu þitt og farð’ í burtu.“ Svo fóru leikar að þeim þókti þar svo óskemmtilegt að þau fóru þaðan.

Hríshólavarða

Hríshólavarða.

Innsti bærinn í Garði er Rafnkelsstaðir, þá koma Meiðastaðir, síðan Kothús niðri við sjóinn og Varir þar skammt fyrir utan. Í landi þessara jarða standa nú íbúðarhús, sem reist hafa verið á seinni árum eftir að fólki fór mikið að fjölga í Garðinum. Í vörunum var mikið útræði, enda lending þar góð um sund sem Varaós var. Ósvarða er ofarlega í heiðinni. Frá Rafnkelsstöðum að Garðskaga teljast 14 nafngreindar varir er segja nokkuð til um fjölda uppsátra þarna við ströndina fyrrum.
Neðan við fiskhúsin er ós, sem nefnist Kópa. Inn úr henni eru Meiðastaðavör og Rafnkelsstaðavör, erfiðar varir. Fyrir ofan veg, uppi í heiði, er Árnarétt, skilarétt. Hana byggði Árni Þorvaldsson, sem hér var stórbóndi. Réttin er skemmtilega hringhlaðin, víðast hvar mannhæðar há.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. frá Bergþóri er bjó á Rafnkelsstöðum. „Hann var maður fjáður einkum að sjávarútvegi og átti mörg skip. Það var þá siður að gjalda sjómönnum skiplag sitt í mjöli, hverjum tvo fjórðunga eða þá annan í mjöli en hinn í hörðum fiski og færið skyldu þeir fá að vertíðarlokum; flestir létu þá fá stykki úr gömlu færi.
Þar var með sjómönnum Bergþórs unglingspiltur úr Norðurlandi ósjóvanur. En er hann vó skiplagið í þetta skipti vildi hann ekki gjalda drengnum nema helminginn og lét hann gjalda þess er hann var ekki sjóvanur.“ Sagan er lengi en óþörf ílengdar hér.

Langholt

Ratsjárstöð á Langholti.

Ofan þjóðvegarins eru löng holt; Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Yst á Langholtinu eru steyptir stöplar. Við þá er grónar hringlaga hleðslur, líklega skjól, sem hlaðið hefur verið upp úr ytri-Langholtsvörðunni. Undir holtinu að austanverðu eru grunnar hús. Þarna mun hafa verið loftskeytastöð frá hernum. Tvö möstur voru þarrna, annað hærra en hitt. Norðan svæðisins eru einar af síðustu heillegu fiskitrönum á Suðurnesjum. Að þessu sinni setti blómstrandi silfurskúfur litskrúðugan blæ á umhverfi þeirra.
Innan við mitt Langholtið er stór varða; Innri Langholtsvarðan. Hún var mið af sjó ofan við Leiru.

Í örnefnalýsingu eftir Símon Guðmundsson með ábendingum Guðbjörns Þórarinssonar kemur m.a. eftirfarandi fram um Langholtin og svæðið þar fyrir ofan: „Þau kallast Langholt (ft.). Sandmelur skilur þau í sundur í Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Merki munu liggja yfir melinn á milli þeirra. Vörður eru á báðum Langholtum, lítil á Ytra-Langholti, en stór og mikil á því innra. Þær eru kallaðar Langholtsvörður. Það var gömul trú, að einhverjar vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti.

Garðsstígur

Garðsstígur – fjárborg við Langholt.

Þrívörður eru þrjár og sjást þær vel í suðvestur frá Ytra-Langholti. [Um þær liggja mörk Gufuskála og Rafnkelsstaða í miðjar Sjálfkvíar niður við berg.]
Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk og eru merki í hana eins og áður segir. Klapparhólar eru í kringum hana og stendur hún á einum slíkum. Þeir kallast Hríshólar. – Gamlar götur út í Garð lágu neðan við Langholt og Hríshólavörðu. Götur þessar voru nefndar Efrivegur.“ Athugasemdir: „Í landamerkjabréfinu er talað um Hríshalavörðu. Það er líklega misritun fyrir Hríshólavörðu, en svo hafa Símon og Guðbjörn alltaf heyrt vörðu þessa nefnda og Hríshólar heita þar í kring.
Í lýsingu Ara er getið um Grímshól. Hvorki kannast Símon né Guðbjörn við hann í landi Gufuskála og mun hann þar hvergi til.“

VarðaOfan við Langholtin sést móta fyrir smárétt, stekk eða jafnvel fjárborg. Réttin er vestan í stærsta og grónasta hólnum á svæðinu. Sést hleðsla að innanverðu, en vel er gróið að utanverðu. Umhverfis eru góðar grasflatir í annars gróðussnauðu svæðinu. Af móanum og einstaka torfusneplum að dæma hefur þessa svæði verið vel gróið fyrrum. Ekki er að sjá að mannvirkis þessa sé getið í örnefnalýsingum, en hóllinn gæti verið nefndur Grímshóll – eða um gæti verið að ræða Smalaskálann tengdum Smalaskálaflötum þar norðan við. Þorvaldur Halldórsson í Vörum sagðist aðspurður vita hvar Grímshóll hefði verið. Hann væri í Rafnkelsstaðalandi. Hóllinn hefði verið jafnaður út, en hann hefði haft forgöngu um að ýta þar upp hólsmynd að nýju. Guðmundur Garðarsson sagðist aðspurður ekki hafa heyrt um þetta mannvirki. Njáll Benediktsson í Garðinum hefði eflaust vitað eitthvað um þetta, en hann væri því miður látinn. Miðað við örnefnalýsingar er ekki ósennilegt að þarna gæti verið um Smalaskála að ræða er Smalaskálafalatir þar norðan við draga nafn sitt af.

Heiðarhús

Heiðarhús.

Syðst á Langholti er mikil varða; Ranglát. Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði sagði vörðuna hafa verið reista af opinberum aðilum, en ekki er vitað hvenær það var. Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana, Keflavík og Vogum, máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna. Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát.

Garðsstígur

Garðsstígur ofan Garðs.

Tugir manna urðu úti á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðladags eða undir kvöld.
Sagan af Runka (Runólfi), þess er Hafsteinn miðill hafði jafnan beint samband við á skyggnilýsingarfundum sínum, er ágætt dæmi um þetta. Lík hans fannst illa útleikið eftir að hans hafði verið saknað um tíma. Var jafnvel talið um tíma að honum hafi verið fyrirkomið, en síðar sættust menn á að dauða hans hafi borið að af „eðlilegum“ ástæðum.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. Og enn rölta menn um heiðina, meira og minna „dauðir“ fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.
Miðnesheiðin mun hafa, skv. framangreindu, mörgum orðið torveld á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Heimildir eru um að um 60 manns hafi orðið úti á leiðum Miðnesheiðarinnar á u.þ.b. 40 ára tímabili 19. aldar.“

Garðsstígur

Varða við Garðsstíg.

Magnús Þórarinsson segir frá ferðum manna millum byggðalaga á Suðurnesju fyrr á tímum sem og ástæðum þeirra í „Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960.“
“Frá því að föst verslun hófst í Keflavík hafa Suðurnesjamenn, allir vestan Vogastapa, þar með talin Grindavík og nokkuð úr Vogum og Strönd, átt margar göngur til kaupstaðar síns. Mestar voru voru þessar ferðir um vetrartímann, því þá voru allir karlmenn heima við heimili sín. Að vísu fengu flestir bændur, fyrir aldamót, aðalbirgðir til heimila sinna á kauptíðinni á sumrin fluttar á næstu höfn með kaupskipunum, en sífellt þurfti þó að senda menn í Keflavík eftir einhverju, sem vantaði, veiðarfærum og öðru, eftir hendinni. Tómthúsmenn flestir voru fátækir, sem engar höfðu matarbirgðir, og því oftar urðu þeir að “skreppa í Keflavík”, eins og það var oftast nefnt, og bera heim á bakinu forða sinn, ef forða skyldi kalla. Keflavíkurferðirnar urðu mörgum örlagaríkar.

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Þótt margir fleiri “yrðu úti” en þeir, sem í Keflavík skruppu, urðu þeir þó flestir í þessum ferðum, og eru oft til þess eðilegar orsakir, eins og í pottinn er búið. Þeir fóru stundum svangir að heiman og illa klæddir með poka undir hendinni, vafinn utan um tóma flösku. Veit ég ekki til þess að nokkrum hafi hlekkst á leið til Keflavíkur. Oft var ös í búðunum og afgreiðsla í stirðara lagi, því enn var ekki aflagt að gera mannamun. Flestir fengu þó fljótlega mettaða flöskuna, sem var nauðsynlegt, sögðu þeir, til þes að hressa samviskuna og taka úr sér hrollinn. Flýtti það síst fyrir afgreiðslunni. Voru þeir svo að vasast í búðunum fram á kvöld, en lögðu af stað í ófærð og náttmyrkri, stundum í misjöfnu verði, yfir veglausa heiði, meira og minna drukknir, með einhverja byrði á bakinu. Að öllu leyti illa undir tveggja tíma göngu búnir og vanlíðan haldnir eftir daginn. Varð þá athvarfið hjá sumum að fá meira úr flöskunni, þar til afl og dómgreind var horfið. Mátti svo skeika að sköpuðu um framhald ferðarinnar.

Garðsstígur

Garðsstígur.

Þeir, sem betur voru staddir, hjálpuðu hinum meðan máttu, tóku á sig byrði þeira og gengu undir þeim, uns þeir örmögnuðust líka og þá varð að skilja hina eftir. Ég heyrði margar sögur af slíkum ferðalögum á unglingsárum mínum og kynntist þeim af eigin reynd, er ég varð nokkru eldri.

Gunnar Markússon, 56 ára, giftur húsmaður frá Lambastöðum, varð úti nóttina fyrir skírdag 1834. Mun hafa verið drukkinn, sem hann var hneigður til. Fannst á laugardag fyrir páska, óskaddaður framan við melbarð.“

Það er gömul trú, að einhverjir vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti. Þrívörðurnar sjást vel í suðvestur frá Ytra-Langholti. Austasta varðan stendur, en miðvarðan er fallin, nokkru ofar, skammt austan við Garðstíginn. Þrívörður eru mörk Leiru og Garðs.

Garðsstígur

Garðsstígur – fjárborg.

Enn ofar í heiðinni er Árnarétt, heilleg og fallega hlaðin. Hún var skilarétt. Réttina byggði Árni Þorvaldsson, sem hér var stórbóndi áður fyrr. Réttin er skemmtileg í annars kennilausalitlu landslaginu og víðast hvar mannhæðar há. Líklega er hér um sömu rétt að ræða og þegar getið er um „litla rétt“ í Smalaholti.
Neðar eru löng holt; Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Syðst á því er mikil varða; Ranglát. Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði sagði vörðuna hafa verið reista af opinberum aðilum, en ekki er vitað hvenær það var. Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna. Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát.
Tengdafaðir Ásgeirs, Guðni Ingimundarsson, sagði honum þetta, en það var Halldór Þorsteinsson útgerðamaður frá Vörum sem sagði honum þetta fyrir mörgum árum. Halldór er nú látinn.

Neðan við sunnanverð Langholtin má sjá stóra vörðufætur við götuna. Grjótið hefur verið fjarlægt, væntanlega til nota í önnur og yngri mannvirki. Skammt sunnar eru gatnamót að götu upp frá Hólmi. Hún er mjó og hlaðin til kantana. Efst við sýnileika þeirrar götu er vörðubrot í grónum hól.

Garðsstígur

Garðsstígur – upphaf göngu.

Í Rauðskinnu segir frá Prestsvörðunni: „Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen (1808-1887), sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.“
Sálmaversið á hellunni er 4. Davíðs Sálmur 8. vers. („Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum“).

Bergvík. Þegar Símon var að alast upp bjó Pétur Pétursson í Bergvík. Hann hafði grætt nokkuð stóran túnblett frá bænum og niður á sjávarbakka. Guðrúnarkot og Brandsbær stóðu nyrzt í jaðri hans.
Suðaustast á þessum bletti er svolítill hóll, sem kallaður er Gónhóll. Nafn sitt dregur hann af því að þegar flekaveiði var á Bergvík var farið upp á hann og gáð, hvort nokkuð væri komið á flekana. (Ath.: Á undan Pétri bjó í Bergvík Ásgrímur nokkur og er líklegt, að flekaveiði hafi verið stunduð á Bergvík í hans tíð).

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Hólmsberg endar til norðurs í Berghólum, en svo heita fjórir hólar í suðsuðvestur frá Bergvíkurbæ. Hóllinn næstur Bergvíkurtúni, beint upp af Gónhól, var nefndur Gapastokkur. Hann var hár og klettóttur sjávarmegin og illfær. Vel var gengt upp á hann annars staðar. Símon telur, að nafn sitt dragi hann af því, að strákar hafi farið nokkuð djarflega framan í honum og sýnt gapaskap þegar þeir voru að klifra. Huldufólkstrú lá á þessum hól. Áðurnefnd Stóravör er beint niður undan Gónhól og þóttust menn þar oft heyra mannamál og áraglamur að og frá landi, einkum að kvöld- og næturlagi. Trúðu menn, að þar væri huldufólk úr Gapastokk á ferð.
Austsuðaustur af Gapastokk er stór ílangur klettur, sem er eins og hús í laginu. Svolítill hnúður var á norðvesturenda hans. Steinn þessi var nefndur Álfakirkja. Hinir Berghólarnir eru svolitlu vestar en Gapastokkur. Syðsti hóllinn af þeim var nefndur Borgin og var hann hafður fyrir mið norður í Leirnum. Var kallað að vera á Borgarslóð, þegar Borgin var aðeins norðvestur undan hinum Berghólunum – en djúpmið voru miðuð Grindavíkurfjöll.

Langholt

Leifar herstöðvar í Langholti.

Þjóðvegurinn út í Leiru og út í Garð lá sunnanhalt á Hólmsbergi og rétt fyrir ofan bæina í Leirunni. Suðvestan við veginn, heldur nær Keflavík en Leiru, var stórt barð og hlaðin varða á því. Var þar oftast hvílt sig. Barð þetta hét Meyjarsæti. Heiðarlandið tók svo við suðvestan þjóðvegarins. Voru það einkum blásnir melar og börð á stöku stað. Engin örnefni voru á því, nema þau sem fram koma í landamerkjalýsingunni hér á eftir. Svæði þetta var einu nafni nefnt Heiði, og svo var einnig nefnt ofan Gufuskála.
Þrívörður eru áður nefndar á hornmerkjum. Línan frá Þrívörðum í Sjálfkvíar liggur á milli Langholtanna, og er Innra-Langholt því í Innleiru. Það liggur nálægt því frá suðaustri í norðvestur.
Áðurnefndur Línlækur kemur ofan úr Línlækjarholtum í Heiðinni. Suðaustur af þeim holtum eru Bjarnastapar og Kalka var suðaustanvert á þeim.
Yst á Berghólum, þar sem gatan kemur upp á bergið, er grón fjárborg. Vel má sjá móta fyrir hleðslum að innanverðu. Í miðju borgarinnar hefur verið hleðsla. Þá eru hlaðnir útveggir frá borginni að sunnanverðu. Borg þessi hefur stundum verið nefnd Hólmsborg, en hennar er ekki getið í örnefnalýsingum. Gatan liggur ofan borgarinnar. Skammt norðar er hlaðið veggbrot við götuna. Það er greinilega úr vörðu, sem þar hefur staðið því útlínur og tvö umför í henni sjást enn. Norðan þess lá gatan um slakka í holtinu, en námur og rask hafa afmáð verksummerki eftir hana.
Skammt sunnar má sjá vörðu vinstra megin götunnar. Hægra megin hennar eru svo hleðsluleifar af gamalli rétt.

Garðsstígur

Gengið um Garðsstíg.

Stekkjarnefin skiptist í tvennt, Vestra- Stekkjarnef og Eystra-Stekkjarnef. Stekkjarnefin eru grjóthólar, brattir sjávarmegin. Þau fara í kaf um flóð. Þau eru hæst fremst. Sagt var, að fyrr á öldum hefði Stekkjar-nef verið gróið land og stekkur verið á því. Suðaustan við Stekkjarnef er Bergvík. Bergvíkurvör (41) er með Stekkjarnefi að suðaustan. Aðeins suðaustar í víkinni er Stóravör. Þar hafði verið miklu betri lending hér áður en í Bergvík, en þar hafði sjór gengið svo á landið, að ekki var lengur hægt að hafa þar skip. Við Stóruvör byrjar lágt berg, sem síðan fer hækkandi alla leið að Ritunípu, en við hana takmarkast Bergvík að suðaustan. Hægt er að ganga fjöruna undir þessu bergi – inn undir Ritunípu – með stórstraumsfjöru. Berg þetta tilheyrir Hólmsbergi, sem nær úr Bergvík og alla leið inn í miðja Keflavíkurgróf. Þar sem bergið er hæst í Bergvík, er það nálægt 25 föðmum og er þar töluvert varp. Verpa þar einkum svartfugl, rita, fýll og lundi.
Á vorin og sumrin var mikið af bjargfugli á víkinni og þar var fyrir eina tíð stunduð flekaveiði. Pétur Pétursson, sem bjó í Bergvík, þegar Símon var ungur maður, mundi eftir þeim veiðum. Áðurnefnd Ritunípa er þverhnípt berg með dálítilli urð fyrir neðan.
SvartfuglTöluvert suðaustan við Ritunípu skerst Helguvík Inn í Bergið. Suðaustan hennar er Hellisnípa. Hún dregur nafn af hellisskúta inn undir bergið, austanhallt niður af nípunni. Með lágsjávuðu var hægt að róa inn í skútann. Þverhníptir klettar í sjó eru frá Hellisnípu og inn að Stakksnípu. Svolítil vík er norðvestan við Stakksnípuna. Hún var venjulega nefnd Stakksvík. Stórgrýtisurð gekk í sjó fram að norðan við Stakksnípu. Svolítill urðarfótur er undir Stakksnípu. Beint fram af henni er hár klettur, sem heitir Stakkur. Hann er dálitlu lægri en nípan. Dálítið gras var ofan á Stakk og hafa að líkindum verpt þar endur og kría. Hægt er að klífa Stakk, en heldur mun það slæmt.
Af Stakk dregur Stakksfjörður nafn sitt, en svo nefnist allur fjörðurinn frá Stakk og að Brunnastaðatöngum. Svartfugl verpti hvergi í Hólmsbergi nema í Bergvík.
Selvík er suðaustan Stakksnípu, nokkuð breið vík og eru líðandi klappir við hana. Suðaustan hennar er Hellunef, lágt berg fram í sjóinn. Frá Hellunefi liggur fremur lágt ávalaberg og endar í Brenninípu (5=3). Hugsanlegt er að gróður hafi verið fram á Brenninípu til forna og þá verið hægt að afla sér þar brennis til eldiviðar.
Sunnan við Brenninípu er Keflavík. Með henni að norðan, er berg (einir 15-20 m) alveg inn að Keflavíkurgróf. Það er syðsti hluti Hólmsbergs.

Garðsstígur

Garðsstígur.

Áður en komið var að kirkjugarðinum og þar með mörkum Keflavíkur beygir gatan til vesturs. Þessi kafli sem og kaflinn frá Berghólum hefur verið endurgerður fyrir bílamferð. Hins vegar liggur gamla gatan svo til beint áfram með stefnu ofan við Kirkjugarðinn. Við hann eru endurhlaðnar vörður.
Garðstígur liggur áleiðis að Keflavíkurborg ofan við Grófina. Enn má sjá leifar og lögun borgarinnar á klapparhrygg. Gatan liggur síðan niður með henni að austanverðu, áleiðis niður að Grófinni.
Gangan var 7.8 km. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jón Árnason III 348.
-Óbyggðanefnd.
-Sigríður Jóhannsdóttir – örnefnalýsing Rafnkelsstaða 8. júní 1978.
-Guðmundur Jónsson bóndi á Rafnkelsstöðum og Guðjón Björnsson.
-Njáll Benediktsson skráði 1979 – örnefnalýsing Gerðum.
-Ari Gíslason – Gerðar – örnefnalýsing.
-Sigríður Jóhannsdóttir bar lýsingu Ara Gíslasonar undir Halldór Þorsteinsson í Vörum, og gerði hann þá fáeinar athugasemdir – 3. júní 1978.
-Saga Gerðarhrepps.
-Magnús Þórarinsson – Frá Suðurnesjum – Frásagnir frá liðinni tíð – 1960.
-Ásgeir Ágústsson – Gerðahreppi.
-Rauðskinna I – XII.
-Örnefnalýsing fyrir Leiru og Gufuskála – Örnefnastofnun.

Garðsstígur

Garðsstígur