Háibjalli – skilti
Við Háabjalla ofan Voga er skilti með eftirfarandi fróðleik:
„Skógræktin á Háabjalla og Snorrastaðatjarnir.
Saga skógræktar
Upphaf skógræktar við Háabjalla má rekja til ársins 1948 er Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík fékk 15 ha land gefins frá Vogabændum. Landið var strax girt af en gróðursetning hófst árið eftir. Á árunum 1949-1961 var talsvert gróðursett. Sitkagreniið í skjóli við Bjallann lifir vel og er hér að finna hæstu trén á Suðurnesjum. Árið 2002 eignaðist Skógræktarfélagið Skógfell landið og hóf ræktun að nýju.
Undir klettaveggnum er skjólgott og frjósamt og því góð skilyrði til skógræktar, þar nýtur þó ekki sólar á kvöldin. Undanfarin ár hafa skólarnir í sveitarfélaginu plantað í afmarkaða reiti.
Einn af frumkvöðlum skógræktarinnar við Hábjalla var Egill Hallgrímsson frá Austurkoti í Vogum. Hann var jafnframt einn af stofnendum Skóræktarfélags Suðurnesja árið 1950.
Snorrastaðatjarnir
Suðaustan við Háabjalla eru tjarnir nefndar eftir Snorrastöðum. Snorrastaðir er forn eyðijörð sem var komin í eyði áður en fyrsta jarðabókin á Íslandi var gerð árið 1703.
Stærstu tjarnirnar eru í gömlum heimildum nefndar Vatnsgjár. Þar streymir vatn undan hrauninu í gegnum tjarnirnar og er syðsti hluti þeirra yfirleitt íslaus. Mikill og fjölbreyttur gróður er í og við tjarnirnar. Þar blómstrar engjarós á bökkum og horblaðka eða reiðngsgras í tjörnunum. Áður var tjarnargróðurinn nytjaður og þótti horblaðkan góð til lækninga. Á svæðinu má finna flestar plöntutegundir sem vaxa á Suðurnesjum.
Á norðurbakka stærstu tjarnarinnar má sjá tóftir af Snorrastaðaseli og rétt austan við tjarnirnar er Skógfellavegur, gömul þjóðleið til Grindavíkur. Háibjalli og Snorrastaðatjarnir eru á náttúruminjaskrá.
Jarðfræði
Háibjalli er um 10-12 m hátt hamrabelti, norðvesturbarmur einar af fjölmörgum misgengissprungum á þessu svæði. Sprungurnar myndast þegar landið gliðnar er Norður-Ameríkufleki og Evrasíufleki reka hvor í sína átt. Suðuausturbarmur Hábjallasprungunnar hefur sigið mikið og því er norðvesturbarmurinn svo hár sem raun ber vitni og nýtur skógurinn skjóls af honum.
Fjöldi sprungna með svipaða stefnu (NA-SV) er að finna frá hábungu Vogastapa langleiðina að Fagradalsfjalli í suðaustri. Misgengissprungurnar mynda nokkra stalla suðaustan í Vogastapa sem nefndir eru bjallar og er Háibjalli hæstur þeirra. Sunnan við Snorrastaðatjarnir er nútímahraun sem ýmis er nefnt Skógfellahraun eða Arnarseturshraun. Það rann á 13. öld og er 22 km2 að stærð. Arnarklettur skagar upp úr hrauninu skammt frá suðurenda tjarnarinnar.“