Búðarvatnsstæðið

Gengið var upp og suður um Almenning eftir landamerkjum Lónakots og Hvassahrauns austan Lónakotssels. Landamerkjagirðingunni var fylgt upp Taglhæð, um Hólbrunnshæð og áfram upp að Mið-Krossstapa. Girðingin liggur í gegnum stapann og áfam upp í Hraunkrossstapa.

Krossstapi

Neðri-Krossstapi.

Geldingahraunið er vestar, en þegar komið er upp fyrir efsta krossstapann taka við neðri Skógarnefsbrúnir. Skógarnefið sjálft er nokkuð stór kjarri vaxin hraunhvilft, vel gróin. Efri brúnirnar sjást við sjónarmörkin í suðri. Ofan þeirra tekur við tiltölulega slétt mosahraun þar sem fyrir eru heillegar hleðslur grenjaskyttu við a.m.k. tvö greni, sem þar eru. Ofar er Búðarvatnsstæðið.
Ef fylgt er landamerkjalínu Lónakots og Hvassahrauns lá landamerkjalínan úr Söndugrjóti í Markhól eða Hól, sprunginn, með Markhólsþúfu. Þar er sagt að áletrun hafi verið, en hana er ekki að finna í dag. Þaðan liggur landamerkjalínan milli, eða um, austustu lónanna og hólmanna, upp hraunið í Sjónarhól, sem er stór, sprunginn hraunhóll, sem víða sést að, bæði neðan frá sjó, vestan úr hrauni og austan og sunnan langt að. Landamerkjalínan lá um Sjónarhólsvörðu, sem er efst á Sjónarhólshæð, og þaðan áfram suður og yfir Högnabrekkur. Þar kom Lónakotsvegurinn á suðurveginn. En Lónakotsselsstígurinn lá áfram suður á alfaraleiðina, gömlu hestaslóðina á Suðurnes. Högnabrekkur liggja vestan Smalaskála, og ber ekki mikið á þessum brekkum.

Krossstapi

Efri-Krossstapi.

Neðan þjóðvegarins er nafnasnautt upp undir veginn, en um hann liggja hraunbrekkur þvert. Þær heita Högnabrekkur. Svo er þar á vesturmerkjum, nokkuð ofan vegar, Taglhæð og Hólbrunnshæðin, eða Hólabrunahæðin, fyrrnefnda. Enn ofar er svo Lónakotssel. Ofan þess liggur hraunás þvert yfir landið, sem heitir Skorás, og þar, sem landið nær lengst í suður, heitir Mið-Krossstapi. Línan liggur um Skorásvörðu á Skorás og þaðan í Mið-Krossstapa.
Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali er klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.
Gata liggur upp gróið hraunið um Almenning fast austan krossstapana. Staparnir áttu að hafa verið þrír. Sumir telja að þriðji og neðsti krossstapinn sé Álfakirkjan eða Álfaklettur norðaustan við Lónakotssel, en líklegra verður að telja hann norðan Mið-Krossstapa, í svo til beinni línu við Hraunkrossstapa.

Krossstapi

Krossstapar.

Fyrrnefnd gata liggur til suðurs austan hans.
Þegar komið var upp undir neðri brúnir Skógarnefsins var snúið við að þessu sinni. Vel gróið er undir brúnunum. Skógarnefsgrenin eru skammt vestar. Hraunið austan við krossstapana er úfið, mosavaxið, en tiltölulega greiðfært yfirverðar. Upp úr því rísa hraunklettar, sem taka á sig allskyns myndir í kvöldsólinni. Svo virðist sem vörður séu á stangli þarna í hrauninu, en þær eru klettar eða steinar, sem standa upp úr hrauninu.
Þrátt fyrir góða gaumgæfni á svæðinu vildi fyrrnefndur Skógarnefsskúti ekki sýna sig að þessu sinni. Ekki er ólíklegt að hann kunni að leynast svolítið sunnar og vestar við leitarlínuna. Norðan við hana er hraunið mosavaxið og úfið, en nokkuð greiðfært. Sunnan við það og vestan eru víða hraunhvilftir, sem vert er að skoða nánar.
Frábært veður. Kvöldsólin samstillti haustlitasetteringuna. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.