Grímshóll

“Vogastapi er nær 80 metrar á hæð og skagar fram sem núpur milli Voga og Njarðvíkur innri. Þverhnípt björg eru framan í honum og eru það hin fornu Kvíguvogabjörg. Þar verpir nokkuð af sjófugli. Alfaraleið lá fyrrum yfir Stapann þar sem heitir Reiðskarð, en aksvegurinn var gerður á öðrum stað. Efst á Stapanum er hóll, sem Grímshóll nefnist. Um hann eru nokkrar þjóðsögur. Ein er á þessa leið:

Reiðskarð

“Einu sinni voru vermenn á leið suður í Leiru. Sumir segja, að það hafi verið Norðlendingar, en aðrir, að þeir hafi verið úr Rangárvallasýslu. Einn þeirra hét Grímur og var ungur að árum. Þegar þeir eru á leið upp Reiðskarðið á Stapanum, slitnaði reiðgjörð Gríms, og þar sem hann fór seinastur tóku félagar hans ekki eftir vþí, að honum dvaldist við að gera við gjörðina, og fóru á undan. Skildi þar með þeim. En er Grímur kemur upp á Stapann, mætir hann þar manni og taka þeir tal saman. Biður hinn ókunni maður hann að róa hjá sér um veturinn og segir, að hann muni ekki hafa verra af því. Grímur spurði þá, hvar hann ætti heima, en hann kvað næ sinn vera skammt þaðan. Og hvort sem þeir töluðu nú um þetta lengur eða skemur, verður það úr, að Grímur ræður sig í skip hjá þessum manni. Komu þeir nú brátt að snotrum bæ vel hýstum. 

Vogar á fyrri hluta síðustu aldar

Bóndi tók við hest Gríms og kvað hann eigi þurfa að hafa áhyggjur ah honum. – Síðan hófst vertíðin og róa þeir Grímur tveir á báti og hlóðu í hvert skipti. Aldrei þurfti Grímur að gera að fiski, og líkaði honum stórum vel þarna. En um lokin höfðu þeir fengið 10 hundruð til hlutar. Launaði bóndi honum stórmannlega og bað hann að róa hjá sér næstu vertíð. Er svo ekki að orðlengja það, en þarna reri Grímur síðan margar vertíðir og fiskaði alltaf manna mest. Seinast kvæntist hann dóttur bónda og fluttist til hans, og hefir ekki spurzt til Gríms síðan. En það er mál manna, að bær huldumannsins muni vera hóllinn efst á Stapanum og hefir hann síðan verið kallaður Grímshóll. –
Stapagatan gamlaOft er hvasst á Stapanum og þótti mjög villugjarnt þar í stórhríðum, áður en akvegurinn kom. En villigjarnast varð mönnum hjá Grímshóli, eftir því sem sagnir herma, og eftir því var talið, að hólbúarnir mundu villa um fyrir mönnum. Margir hafa orðið þar úti og sumir með sviplegum hætti. Þess er getið í Setbergsannál, að fundiszt hafi dauður maður undir Stapanum, og bar enginn kennsl á líkið; hefir það óefað verið vermaður. – 28. janúar 1859 varð Þorsteinn, sonur Klemensar bónda Sæmundssonar í Stapakoti, úti á Stapanum. Hann átti þá heima í Minni-Vogum. Síðla dags gengu tveir menn fram á hann dauðadrukkinn á Stapanum, og hafði hann brennivín hjá sér. Þeir vildu fá hann til þess að koma með sér, en hann var ófáanlegur til þess og reyndi að berja þá frá sér með staf sínum. Þá tóku þeir af honum stafinn og fóru svo sína leið. Ekki höfðu þeir rænu á því að segja til hans, en þeir gengu um hlaðið á Minni-Vogum og skildu staf hans þar eftir. Varð því ekki úr, að hans væri leitað um kvöldið, en síðar fannst hann örendur á Stapanum. – Nokkrum árum seinna, það mun hafa verið 1865, fór Egill fisktökumaður á Hólmi til Keflavíkur að vetrarlagi. Mun honum hafa dvalizt þar lengur en hann ætlaði.

Stapinn

Stapabúð.

Í vökulokin kom hann aftur að Stapakoti. Þá ar mikill snjór og útsynnings éljagangur. Vildi Klemens bóndi endilega, að hann gisti hjá sér um nóttina, en við það var ekki komandi, Egill vildi ólmur komast heim. Þá lét Klemens vinnumann sinn fara upp úr rúmi til þess að fylgja honum. En það er af ferðalagi þeirra að segja, að þeir hrepptu blindbyl á Stapanum, ætluðu að fara svonefndan Rauðastíg innan við gilið hjá Grímshól, en hröpuðu fram af björgunum. Fundust þar síðan limlest lík þeirra.

Stapi

Vogastapi – leiðir.

Sveinbjörn Egilsson frá Stapakoti varð úti hjá Stapanum um 1870. – Sigurður Jónsson frá Görðum á Landi varð úti á Stapanum seintá 19. öld.
Hér er aðeins fátt talið. En vegna þess, hve margir fórust á Stapanum, þótti þar löngum reimt mjög. Og hefir það ekki batnað á seinni árum, nema síður sé, þrátt fyrir aukna menntun og margs konar framfarir. Hafa gengið hinar römmustu sögur á seinni árum af “stapadraugnum”, eða “stapadraugunum”, því að sumir halda, að þeir séu margir. Væri vel, ef einhver vildi safna þeim sögum, því að þær eru harla girnilegar til fróðleiks.”

Heimild:
-Árni Óla – Strönd og Vogar, úr sögu einnar sveitar í Landnámi Ingólfs Arnarsson, 1961.

Á Grímshól