Staðarborg

Gengið var frá Prestsvörðu ofan við Strandarveg að Staðarstekk ofan við Löngubrekkur og að Staðarborg á Kálfatjarnarheiði, yfir að Þórustaðaborg og Þórustaðastígur fetaður til baka niður að Strandarvegi.

Staðarborg

Staðarborg.

Staðarborgin stendur nokkurn veginn miðja vegu milli Strandarvegar og Reykjanesbrautar. Í hana er u.þ.b. 15 mín. gangur. Hún er með stærri borgum á Reykjanesi og vel hlaðin fjárborg. Borgin tilheyrir Kálfatjörn og er að mestu óskemmd. Af nálægt 80 fjárborgum á Reykjanesi standa einungis nokkrar enn mjög heillegar, s.s. Hólmsborg (endurhlaðin 1918), Djúpudalaborg, Þorbjarnarstaðaborg, Óttarstaðaborg og Árnaborg ofan við Garð. Stór hella var yfir dyrum, sem snúa í norðvestur, en er nú inni í borginni öndvert. Vegghæðin er um 2 metrar. Þjóðsaga er til sem segir að hleðslumaðurinn hafi ætlað að hlaða borgina í topp en þá hafi prestur komið og stöðvað verkið svo borgin yrði ekki hærri en turn Kálfatjarnarkirkju.

Staðarborg

Staðarborg.

Staðarborgin er talin nokkur hundruð ára gömul og var friðlýst árið 1951.
Staðarstekkur er norðaustur af Staðarborginni. Hann er þar utan í grónum hraunhól.
Þórustaðaborgin er norðvestan við Staðarborgina. Hún hefur verið fjárborg eða stór stekkur og liggur suðvestan undir háum grónum hólum, Borginni hefur greinilega verið breytt til annarra nota.
Þórustaðastígur liggur þarna vestan hólanna frá túngirðingu Þórustaða og áfram yfir Núpshlíðarhálsinn. Stígurinn sést greinilega á köflum, en annars staðar er gróið yfir hann.
Gengið var eftir stígnum niður heiðina að læg við Strandarveginn skammt vestan við hliðið að Kálfatjarnarkirkju.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Staðarborg

Staðarborg.