Gengið var með frískum hóp um Kálfatjörn. Ein í hópnum hafði verið svo forsjál að fá léðan lykil af Kálfatjarnarkirkju. Eftir að hafa lokið upp kirkjudyrum var þátttakendum boðið inn fyrir. Þar rakti hlutaðeigandi það helsta sem fyrir augu bar, s.s. hina sérstöku málningarvinnu dansksins Bertelsens, sem enst hefur í meira en öld, og rennismíði Þorkels Jónsson, ábúandi í Móakoti, auk þess sem hún lýsti einstökum munum.
Fram kom að Kálfatjarnarkirkja var helguð Pétri postula, en elstu haldbærar heimildir um kirkjuna eru í fornum máldögum og kirkjuskrá Páls biskups Jónssonar frá árinu 1200. Kirkjan var einnig nefn Maríukirkja og kirkja hins heilaga Þorláks biskups í Vogum fyrir 1367. Síðasti staðarprestur á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson, en eftir að hann lést árið 1920 tók við jörðinni Erlendur Magnússon frá Tíðargerði og kona hans Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Þau hófu búskap í Tíðargerði en fluttu að Kálfatjörn 1920 og bjuggu þar allan sinn búskap eða allt til ársins 1975. Erlendur var fyrsti og eini kirkjubóndinn á Kálfatjörn. Synir þeirra hóna voru Magnús, Ólafur, Gunnar og Erlendur og dæturnar hétu Herdís og Ingibjörg. Herdís bjó áfram á Kálfatjörn eða þangað til íbúðarhúsið brann með dularfullum hætti.
Efst á kirkjuturninum er ártalið 1893, en það er smíðaár timburkirkjunnar, sem nú stendur. Teiknari og yfirsmiður var Guðmundur Jakobsson, en við grunnbygginguna vann Magnús Árnason steinsmiður frá Holti, viðurkenndur hagleiksmaður. Kirkjan var reist á 14 mánuðum, en þá var kirkjuturninn öðruvísi útlits en nú er.
Þá var gengið niður með hinni aldargömlu hlöðu á kirkjuhlaðinu, framhjá tóttum fjóssins, hinu botnlauslausa Víti og Hólkoti, niður með Kálfatjörn með sjóbúðina á vinstri hönd og síðan áfram til vesturs með ströndinni. Þar var gamla bátagerðið skoðað ásamt fjárhúsunum og Hausaréttinni. Á steinum réttargarðsins voru áberandi hvítar og gular skófir. Einn þátttakenda kunni eðlilega skýringu á því, en hún var eftirfarandi í mjög styttri útgáfu: Bóndakona týndi snældu, en gat ekki endurheimt hana nema greiða fyrir hana með mikið af graut. Dugði það ekki til og þurfti því að taparinn enn og aftur að punga út stiga til viðbótar svo þyggjandinn gæti komið umframgrautnum til Maríu meyjar. Á leiðinni þangað með grautinn hrapaði sá ferðaglaði og lenti að lokum á jörðinni. Hvítu og gulu skófirnar á grjótinu eru síðan ævarandi merki um heilaslettur hlutaðeigandi og grautinn góða”. Engin ástæða er til að draga þessa sögu í efa frekar en margar aðrar.
Gengið var upp að Goðhól og húsin þar skoðuð sem og garðar og annað markvert. Haldið var yfir að Norðurkoti, litið á hlaðinn brunninn og síðan kíkt inn í gamla skólahúsið. Þar voru gömlu kennslubækurnar enn á borðum, bæði orðsins bækur svo og draumabækur unga fjósamannsins. Fengin var að tímabundnu láni handskrifuð Kennsluritgerð Ingibjargar Erlendsdóttur frá árinu 1942 um “nokkra meginþætti í stjórn og starfi barnaskóla”. Ritgerðin skiptist í: I. Inngang og uppeldi, II. Tilgangur skóla, III. Stjórn skóla, IV. Niðurskipan skólastarfsins, V. Refsingar, V. Kennsla og kennsluaðferðir, VII. Námið og gildi þess og VIII. Kennarinn og hlutverk hans. Tilefnið var notað og lesin hluti ritgerðarinnar, en hún verður tölvuritfærð fljótlega og send viðkomandi til gagns og gamans. Ritgerð þessi hefur aldrei áður birst á prenti – sjá HÉR.
Gengið var niður gamla flóraða götu með garðinum að Norðurkotsbyrginu á sjávarkambinum. Þar mun hafa verið salthús. Síðan var ströndin gengin til vesturs og fjaran skoðuð. Komið var að völundar spili í fjörunni og síðan tók fagurhvít sandfjara við, sbr. meðfylgjandi mynd. Staðnæmst var í fjörunni neðan við Landakot, litið á Landakotsbrunninn og síðan gengið var til baka með ofanverðri ströndinni. M.a. var litið á leturssteininn [A° 1690] í kirkjubrúnni á gömlu kirkjugötunni að Kálfatjarnarkirkju og Landabrunninn, hið forna þvottastæði Kálfatjarnarfólksins. Kvenkrían lét í sér heyra að venju á meðan karlkrían tók lífinu með stóískri ró. Golfararnir voru hljóðlátari en jafnan. Þekktu kannski orðið söguna og tilurð vallarins.
Veður var frábært – logn og sól.