Færslur

Norðurkot

Gengið var með frískum hóp um Kálfatjörn. Ein í hópnum hafði verið svo forsjál að fá léðan lykil af Kálfatjarnarkirkju. Eftir að hafa lokið upp kirkjudyrum var þátttakendum boðið inn fyrir. Þar rakti hlutaðeigandi það helsta sem fyrir augu bar, s.s. hina sérstöku málningarvinnu dansksins Bertelsens, sem enst hefur í meira en öld, og rennismíði Þorkels Jónsson, ábúandi í Móakoti, auk þess sem hún lýsti einstökum munum.
Fram kom að Kálfatjarnarkirkja var helguð kalfatjornPétri postula, en elstu haldbærar heimildir um kirkjuna eru í fornum máldögum og kirkjuskrá Páls biskups Jónssonar frá árinu 1200. Kirkjan var einnig nefn Maríukirkja og kirkja hins heilaga Þorláks biskups í Vogum fyrir 1367. Síðasti staðarprestur á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson, en eftir að hann lést árið 1920 tók við jörðinni Erlendur Magnússon frá Tíðargerði og kona hans Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Þau hófu búskap í Tíðargerði en fluttu að Kálfatjörn 1920 og bjuggu þar allan sinn búskap eða allt til ársins 1975. Erlendur var fyrsti og eini kirkjubóndinn á Kálfatjörn. Synir þeirra hóna voru Magnús, Ólafur, Gunnar og Erlendur og dæturnar hétu Herdís og Ingibjörg. Herdís bjó áfram á Kálfatjörn eða þangað til íbúðarhúsið brann með dularfullum hætti.
Efst á kirkjuturninum er ártalið 1893, en það er smíðaár timburkirkjunnar, sem nú stendur. Teiknari og yfirsmiður var Guðmundur Jakobsson, en við grunnbygginguna vann Magnús Árnason steinsmiður frá Holti, viðurkenndur hagleiksmaður. Kirkjan var reist á 14 mánuðum, en þá var kirkjuturninn öðruvísi útlits en nú er.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Þá var gengið niður með hinni aldargömlu hlöðu á kirkjuhlaðinu, framhjá tóttum fjóssins, hinu botnlauslausa Víti og Hólkoti, niður með Kálfatjörn með sjóbúðina á vinstri hönd og síðan áfram til vesturs með ströndinni. Þar var gamla bátagerðið skoðað ásamt fjárhúsunum og Hausaréttinni. Á steinum réttargarðsins voru áberandi hvítar og gular skófir. Einn þátttakenda kunni eðlilega skýringu á því, en hún var eftirfarandi í mjög styttri útgáfu: Bóndakona týndi snældu, en gat ekki endurheimt hana nema greiða fyrir hana með mikið af graut. Dugði það ekki til og þurfti því að taparinn enn og aftur að punga út stiga til viðbótar svo þyggjandinn gæti komið umframgrautnum til Maríu meyjar. Á leiðinni þangað með grautinn hrapaði sá ferðaglaði og lenti að lokum á jörðinni. Hvítu og gulu skófirnar á grjótinu eru síðan ævarandi merki um heilaslettur hlutaðeigandi og grautinn góða”. Engin ástæða er til að draga þessa sögu í efa frekar en margar aðrar.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – skósteinn með ártali.

Gengið var upp að Goðhól og húsin þar skoðuð sem og garðar og annað markvert. Haldið var yfir að Norðurkoti, litið á hlaðinn brunninn og síðan kíkt inn í gamla skólahúsið. Þar voru gömlu kennslubækurnar enn á borðum, bæði orðsins bækur svo og draumabækur unga fjósamannsins. Fengin var að tímabundnu láni handskrifuð Kennsluritgerð Ingibjargar Erlendsdóttur frá árinu 1942 um “nokkra meginþætti í stjórn og starfi barnaskóla”. Ritgerðin skiptist í: I. Inngang og uppeldi, II. Tilgangur skóla, III. Stjórn skóla, IV. Niðurskipan skólastarfsins, V. Refsingar, V. Kennsla og kennsluaðferðir, VII. Námið og gildi þess og VIII. Kennarinn og hlutverk hans. Tilefnið var notað og lesin hluti ritgerðarinnar, en hún verður tölvuritfærð fljótlega og send viðkomandi til gagns og gamans. Ritgerð þessi hefur aldrei áður birst á prenti – sjá HÉR.
Gengið var niður gamla flóraða götu með garðinum að Norðurkotsbyrginu á sjávarkambinum. Þar mun hafa verið salthús. Síðan var ströndin gengin til vesturs og fjaran skoðuð. Komið var að völundar spili í fjörunni og síðan tók fagurhvít sandfjara við, sbr. meðfylgjandi mynd. Staðnæmst var í fjörunni neðan við Landakot, litið á Landakotsbrunninn og síðan gengið var til baka með ofanverðri ströndinni. M.a. var litið á leturssteininn [A° 1690] í kirkjubrúnni á gömlu kirkjugötunni að Kálfatjarnarkirkju og Landabrunninn, hið forna þvottastæði Kálfatjarnarfólksins. Kvenkrían lét í sér heyra að venju á meðan karlkrían tók lífinu með stóískri ró. Golfararnir voru hljóðlátari en jafnan. Þekktu kannski orðið söguna og tilurð vallarins.
Veður var frábært – logn og sól.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Þórustaðir

Í frétt Minja- og sögufélags Vatnsleysustrandar má lesa eftirfarandi um “brúsapalla” í sveitarfélaginu:

Brúsapallur

Brúsapallur ofan Litlabæjar og Bakka.

“Brúsapallar voru víða um sveitir landsins á árunum 1940 til 1970. Þar þjónuðu þeir hlutverki sínu fyrir mjólk sem beið þess að verða sótt, á leið sinni í mjólkurbúið. Þar beið líka stundum heimasætan og annað fólk sem þurfti bílfar um sveitina.
Árið 2009 voru nokkrir brúsapallar friðaðir í Noregi þar sem talið var að þeir hefðu að geyma merkan hluta af menningarsögu sveitanna, hvað snerti bæði framleiðsluhætti og félagslíf.
Í Sveitarfélaginu Vogum eru enn uppistandandi tveir brúsapallar, smáhýsi sem standa við afleggjarana að Litla-Bæ og Bakka og Þórustöðum. Sannarlega merkur hluti menningarsögu sveitarfélagsins.
Er ástæða til að halda sögu þessara brúsapalla okkar lifandi? Hefðu vegfarendur um sveitina okkar hugsanlega gagn og gaman af að fræðast um hluta menningarsögu okkar við smáhýsin við Vatnsleysustrandarveg?”

Brúsapallur

Búsapallur ofan Þórustaða.

Á mbl.is var grein um brúsapalla undir fyrirsögninni “Kennari, hvað er brúsapallur?
“Nú eru komin ný orð yfir þetta, ferlega ljót, nánast afstyrmi að því er mér finnst: samnemendur eða samstúdentar .
Öllum er ljóst að samfélag okkar, sem og þau sem við höfum mest saman að sælda við, breytist ört. Það veldur því að við þörfnumst sífellt nýrra orða til að gera okkur jarðvistina léttbærari og skiljanlegri. Ný orð yfir ný fyrirbæri gera okkur kleift að vera virk í þessum nútíma sem þó staldrar svo stutt við áður en sá næsti birtist.
Í því augnamiði smíðum við nýyrði mörg, lögum erlend orð að íslensku beygingar- og hljóðkerfi og tökum gömul íslensk orð, sem misst hafa af hraðlestinni, orðið eins konar strandaglópar eins og orðið skjár svo dæmi sé nefnt. Mörg hinna nýju orða verða gildir þegnar málsamfélagsins, önnur týnast brátt; verða undir í samkeppninni.

Brúsapallur

Brúsapallur í Flóa.

Fylgifiskur alls þessa er náttúrlega sá að sum gömul og gegn orð glatast með öllu eða verða svo fágæt í munni manna og skrifum að þeir sem þau nota teljast til sérvitringa, eins konar fornmanna sem neita að hlýða kalli tímans.
Þessi orð verða úti og rata ekki til hinna nýju byggða af því að þeirra virðist engin þörf lengur. Þau verða samferða í útlegðina gömlum atvinnuháttum og verkmenningu sem gengin er sér til húðar.

Brúsapallur

Brúsapallur.

Þannig er það staðreynd að allsendis væri ómögulegt að kenna börnum vorum og unglingum ljóðið um Bjössa á mjólkurbílnum án þess að því fylgdu nákvæmar orðskýringar. Þannig stendur í Íslensku orðabókinni: „Brúsapallur: pallur á mótum þjóðvegar og heimreiðar að býli þar sem mjólkurbrúsar eru settir fyrir mjólkurbílinn.“
Það vekur athygli að sögnin, sem fylgir skýringunni, er í nútíð (eru). Nú er tími brúsapallanna liðinn og líklega væri réttara að nota þátíðina (voru).
Brotthvarf brúsapallanna úr íslensku þjóðlífi var fyrir nokkrum árum tilefni þessarar vísu manns sem virðist sakna ákaft horfins tíma:

Öðruvísi allt í gær;
aldni tíminn fallinn.
Okkar bíður engin mær
við engan brúsapallinn.

Brúsapallurinn horfni er einungis eitt dæmi ótal margra um orð sem látið hafa í minni pokann fyrir þessu óttalega skrímsli sem við köllum þróun, jafnvel framfarir, og engu eirir.
Stundum gerist það og að orð sem notuð hafa verið í áratugi, jafnvel aldir, um fyrirbæri sem enn eru í fullu gildi í samfélaginu, verða að víkja, gjarna vegna erlendra áhrifa. Að sumum þessara orða þykir mér mikil eftirsjá.”

Í Degi árið 1956 er stutt skrif um brúsapalla:

Brúsapallur

Brúsapallur.

“Brúsapallar ættu að vera á hverjum stað, þar sem mjólk þarf að skilja eftir við veginn og mjólkurbíllinn tekur síðan. Ef einhverjum finnst þetta hégómamál, ættu þeir að hugleiða það ofurlítið nánar og hafa þá jafnframt hreinlætið í huga. Brúsarnir eru settir á vegarbrún. Bílar fara um og aursletturnar ganga yfir brúsana þegar blautt er um. Í þurrki leggur rykmökkinn yfir þá. En verstur er þó staðurinn sjálfur, þar sem þeir standa á. Þar er traðk manna, hunda og stórgripa. Eitt og annað loðir svo við botngjörðina þegar brúsarnir eru látnir á pallinn. Það hristist að mestu af á leiðinni og þá gjarnan á aðra brúsa er neðar standa. En ef svo ólíklega skyldi vilja til, að eitthvað væri enn eftir þegar að því kemur að hella mjólkinni í vigtina við móttöku í mjólkursamlaginu, er hætt við að mjög óvelkomin óhreinindi verði nærgöngul við hina ágætu mjólk.
Ekki skal í efa dregið að vígreifar hersveitir Jónasar samlagsstjóra, sem hafa þrifnaðinn að vopni, auk sjóðandi vítisvéla, grandi sýklum og öllum þeim ósýnilegu og mögnuðu kvikindum, sem teljast óvinveittar heilbrigði dauðlegra manna og kynnu samkvæmt framansögðu að eiga greiðari leið en æskilegt væri inn á aðalstöðvar mjólkuriðnaðarins. En betra væri samt að loka þessari leið með þeirri þrifnaðarráðstöfun að hafa brúsapalla á hverjum bæ og eru þessar línur skrifaðar í því skyni að þeim mætti fjölga sem fyrst og sem mest. – Spói.”

Á vefsíðu Þjóðminjasafnsins er fjallað um brúsapalla:
Brúsapallur
“Árið 1960 var ekki langt þar til gjörbylting varð í landbúnaði á Íslandi. Vélvæðingin var skammt undan og vélknúin farartæki, dráttarvélar og jeppar leystu af hólmi þarfasta þjóninn við flutninga á landbúnaðarafurðum, jarðvinnu og heyskap. Fjósin stækkuðu, mjaltavélar komu til sögunnar og mjólkurframleiðsla jókst. Í fyrstunni var víða haldið áfram að setja mjólkina í brúsa og hún keyrð í veg fyrir mjólkurbílinn, sem var búinn sogdælu sem dældi mjólkinni í tank bílsins. Næsta stig þróunar varð að við hvert fjós skyldi vera mjólkurhús til þess að uppfylla gæðakröfur sem settar voru til framleiðslu mjólkurafurða. Þar með var því marki náð að mjólkurbíllinn kæmi heim á hvern bæ til þess að sækja mjólkina. Brúsapallar urðu við það svipur hjá sjón. Þeir gegndu þó áfram hlutverki eins konar póstkassa uns þeir hurfu alveg úr vegkantinum og póstkassar með samræmt útlit festir á þar til gerða staura við heimreiðar bæja.”

Á bloggsíðunni bilablogg.is segir m.a. af sannleiknum um Bjössa á mjólkurbílnum:
Brúsapallur
“Starf mjólkurbílstjóra var margþætt á þessum árum og fólst að hluta til í því að koma pökkum á milli staða. Ekki þurfti meira til en það og útkomuna þekkjum við í textanum við ítalska lagið Poppa Piccolino sem varð einfaldlega að: “Bjössi á mjólkurbílnum“.
Höfum í huga við lestur textans í heild hér fyrir neðan að Björn var kvæntur maður og faðir tveggja ungra barna, en alls urðu börnin fjögur. Björn var maður sem fólkið í sveitinni fagnaði þegar hann birtist með nauðþurftir og annað. Hann þótti með eindæmum lunkinn bílstjóri og í minningarorðum um Björn skrifaði dóttir hans að „[…] varla var til sú bíldrusla sem hann gat ekki gert gangfæra“.

Brúsapallur

Brúsapallur austur í sveitum.

Höfum líka í huga að maðurinn sem gerði Kolbein kaftein að hamfarakjafti í íslenskri þýðingu Tinnabókanna samdi textann um Bjössa og var það sem fyrr segir gert af glettni. Má sjá fyrir sér Loft Guðmundsson, sposkan á svip, hripa niður textann sem er svona:

Hver ekur eins og ljón
Með aðra hönd á stýri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Bjössi á mjólkurbílnum.
Hver stígur bensínið
í botn á fyrsta gíri?
Bjössi á mjólkurbílnum,
Hann Bjössi kvennagull.
Við brúsapallinn bíður hans mær,
Hæ, Bjössi keyptirðu þetta í gær?
Og Bjössi hlær, ertu öldungis ær,
Alveg gleymdi’ ég því.
Þér fer svo vel að vera svona’ æst
æ, vertu nú stillt ég man þetta næst.
Einn góðan koss, svo getum við sæst á ný.
Hann Bjössi kann á bil og svanna tökin.
Við brúsapallinn fyrirgefst mörg sökin.

Heimildir:
-https://www.facebook.com/510788858933519/photos/br%C3%BAsapallar-voru-v%C3%AD%C3%B0a-um-sveitir-landsins-%C3%A1-%C3%A1runum-1940-til-1970-%C3%BEar-%C3%BEj%C3%B3nu%C3%B0u-%C3%BEei/584589608220110/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1364905/
-https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/adrar-syningar/ljosmynd-manadarins/hver-ekur-eins-og-ljon
-Dagur, 52. tbl. 06.10.1956, Fokdreifar, bls. 4.
-https://www.bilablogg.is/frettir/sannleikurinn-um-bjossa-a-mjolkurbilnum

Vatnsleysuströnd

Brúsapallurinn ofan Litlabæjar og Bakka 2022.

Landakot

Í “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrslu I, er m.a. fjallað um bæina Auðna, Höfða, Bergskot (Auðnakot), Landakot, Hellukot, Þórustaði, Norðurkot og Tíðagerði. Þessum bæjum fylgdu og nokkur önnur kotbýli sem og mannvirki, sem enn sér móta fyrir.

Auðnar

Auðnar

Auðnar, Höfði, bergskot, Landakot, Hellukot, Þórustaðir, Norðurkot og Tíðagerði – túnakort 1919.

Jarðadýrleiki óviss, konungseign 1703. JÁM III, 137-139.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs, 1 hdr í fríðu og 1 vætt fiska.
Hjáleigur 1703: Auðnahjáleiga í byggð, í eyði voru Lönd og Hólmsteinshús og ein nafnlaus hjáleiga. Auðnakot hjáleiga 1847. Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971. Tómthúsið Hóll var einnig í landi Auðna.

Auðnar

Auðnar – loftmynd.

“Guðmundur [Guðmundsson] var með mestu útgerðarmönnum á Suðurnesjum með 60 manns á vertíð og þar með um 20 fast heimilisfólk. […] Guðmundur hafði góðar landnytjar og allnokkurn búpening, þó hann sinnti búskapnum minna en sjósókninni. Hann byggði stórt tveggja hæða timburhús um 1883-84 og var efnið úr James-Town skipinu, sem strandaði í Höfnum árið 1881. […] Stefán Sigurgeirsson [keypti jörðina 1915] byggði upp flest hús á staðnum og byrjaði á íbúðarhúsinu árið 1918, sem þá var með glæsilegri húsum í hreppnum. Reif hann gamla húsið og notaði viði þess í það nýja. […] Árið 1960 byggði Kolbeinn [Guðmundsson] núverandi íbúðarhús og reif það gamla árið 1963 […].” GJ: Mannlíf og mannvirki, 296-300.
1703: “Túnin spillast af sandi og grjóti sem sjór og vindur ber á, líka er þar mein að grjóti því, sem jarðfast er í túninu. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 138. 1919: Tún Auðna og Höfða 6,5 teigar, garðar 4300m2.

Auðnar

Auðnar og nágrenni – loftmynd.

Bæjarhóllinn er greinilegur en refabú var byggt fyrir nokkrum áratugum norðan við hann og nær það norður að sjávarbakka.
Núverandi íbúðarhús er fast vestan við bæjarhólinn en á honum sjálfum er nú malbikað bílaplan. Bæjarhóll Auðna er í miðju túni.
Bæjarhóllinn er um 20×20 m að stærð og um 1,2 m á hæð þar sem hæst er fram af honum til norðurs. Engar fornar mannvirkjaleifar sjást á honum. Líkur eru til þess að hann hafi lítið verið skemmdur vegna byggingaframkvæmda úr því nýjasta íbúðarhúsið var ekki byggt á honum.

Auðnakot (Bergskot)

Bergskot

Bergskot – loftmynd.

Hjáleiga Auðna 1703, dýrleiki óviss. JÁM III, 138. Upphaflega tómthús. GJ: Mannlíf og mannvirki, 302.
1919: Tún 1,3 teigar, garðar 670m2.

Bergskot

Bergskot (Auðnakot) – uppdráttur.

“Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,” segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu. Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn. Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu. Stór og greinileg bæjartóft sést enn, auk þriggja kálgarða. Tóftin er um 14×14 m að stærð og skiptist í 3 hólf. Hún er grjóthlaðin og gróin.

Höfði

Höfði

Höfði.

“Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971,” segir í örnefnaskrá Auðnahverfis. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Höfði um 90 m suðaustan við bæ (Auðnum). Bæjarstæðið er í hólóttu túni. Á því stendur stórt hús sem er allgamalt í grunninn og líklega sama hús og merkt er inn á túnakortið. Ekki sjást leifar kálgarðs sem sýndur er á túnakorti fast sunnan við bæinn. Hann er skráður hér með bænum.
Bæjarstæðið er í gömlu túni suðaustan við Höfðatjörn, stóra lægð sem nú er þurr og gróin. Nú (2010) er fallegur skrúðgarður í kringum húsið en aðallega sunnan við það. Austan við syðsta hluta hússins er upphækkun og hleðsla þar sunnan við en þetta virðast ekki vera gamlar minjar.
Byggingarnar á bæjarstæðinu eru um 20×13 m að stærð og snúa ANA-VSV. Byggingarnar samanstanda af fjórum samtengdum húsum eða herbergjum. Þær hafa verið gerðar upp og eru bárujárnsklæddar. Ekki er að sjá að kjallari sé undir byggingunum og ekki er nein uppsöfnun mannvistarleifa sýnileg.

Ólafsbúð
Í bókinni Litla skinnið eftir Jón Thorarensen segir: “Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll og […]. Ólafsbúð, þurrabúð sunnanmegin við Auðna […].” Þrjár tóftir eru um 180 m suðvestan við bæ og hafa þær líklega tilheyrt Ólafsbúð þó ekki sé hægt að fullyrða um það.

Bæjarstæði
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Hjáleiga forn heima við bæinn, hefur bygð verið fyrir tuttugu árum, síðan um stund í eyði legið, nú ljær bóndin húsin móður sinni … Kann ekki að byggjast án bóndans skaða.” Ekki er vitað hvar hjáleiga þessi hefur verið og því ekki hægt að staðsetja hana með innan við 50 m skekkju. Hjáleigan hefur væntanlega verið í túni, nærri bæ.
Ekki sjást neinar minjar við bæinn sem gefa til kynna staðsetningu hjáleigunnar en ekki er ólíklegt að hún hafi verið þar sem eitthvert af þeim útihúsum sem skráð eru af túnakorti stóðu.

Hólmsteinshús
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Hólmsteinshus hafa yfir tuttugu ár í eyði legið … grasnautnina brúkar heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.” Ekki er vitað hvar Hólmsteinshús voru og því ekki hægt að staðsetja þau með innan við 50 m skekkju.

Hóll
“Og svo er eitt tómthús, Hóll. … Skammt frá Þúfuhól er þurrabýlið Hóll í Hólslóð,” segir í örnefnaskrá. Tóft Hóls er um 265 m frá bæ og um 10 m sunnan við Sundvörðu Neðri. Tóftin er uppi á klapparhól í hraunmóa, innan sumarhúsalóðar.

Mylla

Auðnar

Auðnar – mylluhús. Grunnur vindmylluhúss í Auðnalandi. Athafnamaðurinn Stefán Sigurfinnson á Auðnum stofnaði samtök meðal hreppsbúa um byggingu vindmyllunnar 1918-19. Átti hún að mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Rekstur beinamyllunnar gekk ekki eins og vonast var eftir, bilanir voru all tíðar og viðhald dýrt auk þess sem hún malaði of gróft. Var hún því aflögð aðeins tveimur eða þremur árum eftir að hún var reist. En hús hennar stendur enn sem vitnisburður um stórhuga athafnafólk Strandarinnar. Keðjurnar sem héldu mylluspöðunum hanga þar ennþá.

Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Þá stofnaði Stefán, ásamt fleirum, samtök meðal hreppsbúa sem byggðu rammgerða vindmyllu 1918-19. Skyldi hún mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Stendur þetta sérkennilega hús enn, þ.e. steyptir veggir […] Beinmyllan stóð stutt og var aflögð 1920-21.” Myllan er um 150 m suðvestan við bæ.
Myllan stendur á klapparhól í móa rétt utan túns, um 10 m vestan við veg heim að Auðnum. Myllan er steinsteypt og er um 3 m á kant að grunnfleti. Dyr eru á norðvesturhlið og gluggar á suðvestur- og suðausturhliðum. Myllan mjókkar lítið eitt upp, er um 4 m á hæð. Timburbrak er utan við og innan í myllunni.

Landakot
Landakot
Nefnd hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur Jónsson segir þetta býli hafa verið höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930. Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi. GJ: Mannlíf og mannvirki, 304, 309. Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1703: “Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

Landakot

Landakot – loftmynd.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.” “Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,” segir í örnefnaskrá Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki.

Landakot

Landakot.

Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar. Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði 028 sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

Gata

Landakot

Gata – tóftir.

“Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. “Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,” segir í örnefnaskrá.

Landakot

Gata – uppdráttur.

Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.” Gata er um 115 m norðaustan við bæ.
Býlið er í hæðóttu túni.

Garðlag – túngarður

Landakot

Landakot – garðlag (Heiðargarður).

“Ofan sjávargarðsins liggur landamerkjalínan að sunnan milli Landakots og Auðnahverfis og stakkstæðið upp í krókinn eða hlykkinn, sem var milli sjávargarða Landakots og Auðna. Þaðan um grjótgarðinn í Brunnhóla og svo eftir gamla torfgarðslaginu um Landakotshól og þaðan út í túngarðinn og heiðargarðinn,” segir í örnefnaskrá. Frá Bakka til og með Auðnum er nokkuð óslitinn garður sem skilur tún jarðanna frá beitarlandi í Strandarheiði. Hann er sumsstaðar kallaður Heiðargarður (ýmist með stórum eða litlum staf) og er skráður á hverri jörð fyrir sig enda óvíst að hann sé allur frá sama tíma. Heiðargarður í Landakoti tengist görðum nágrannajarðanna. Heiðargarðurinn liggur á mörkum túns og móa.

Þórustaðir
Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 141.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 115)
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs eitt hdr fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26). Hjáleigur 1703 Norðurkot og Suðurhjáleiga í eyði. (JÁM III, 141). Norðurkot hjáleiga 1847. Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar (GJ: Mannlíf og mannvirki, 309).

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd.

1703: “Túnin spillast af sjáfarágángi og föstu grjóti, sem árlega blæs upp. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta um sumar, nær öngvir um vetur.” JÁM III, 141. 1919: Tún 4,8 teigar alls, garðar 2480m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, kemur fram að tvíbýli var á Þórustöðum fyrir aldamótin 1900. Bæirnir voru nefndir norður- og suðurbær og var nyrðra bæjarstæðið að líkindum yngra, sjá 003. Timburhús reis á jörðinni á syðra bæjarstæðinu 1884 og brann húsið 1984. Húsið var byggt úr viði úr James-Town strandinu í Höfnum. Í sömu bók segir: “Byggðu þau [Páll Jónsson og Hrefna Guðnadóttir] við Þórustaði, en svo brann allt eins og áður segir árið 1984. Þá þegar var hafist handa og byggt nýtt íbúðarhús, nokkuð suðaustur af því gamla. Þegar farið var að grafa fyrir nýjum grunni í og við brunarústirnar, komu í ljós leifar af fornminjum. Var þá uppgröftur stöðvaður og farið fram á að nýja húsið yrði byggt nokkuð fjær, því kanna þyrfti betur staðinn, ef þarna kynnu að vera gamlar menjar.” Núverandi íbúðarhús er um 60 m sunnan við bæjarhólinn. Ekki er hefðbundinn búskapur á jörðinni en búið er í íbúðarhúsinu. Tún eru ekki nytjuð.

Þórustaðir

Þórustaðir.

Bærinn á Þórustöðum var á hæð í landslaginu og allt í kringum hana eru tún sem komin eru í órækt. Mikið rask hefur orðið á bæjarhól Þórustaða og er af þeim sökum erfitt að gera sér grein fyrir stærð hans. Hæðin sem bærinn var á er um 40×40 m stór og mest um 3 m á hæð. Búið er að byggja stór, steinsteypt, útihús í norðvesturhluta hólsins og eru þau niðurgrafin að hluta. Á norður- og norðausturhluta hólsins er búið að ryðja til grjóti og jarðvegi. Sunnan og suðaustan á hólnum er slétt plan og eru háir jarðvegsruðningar til suðausturs og vesturs. Leifar kálgarðs sjást í suðausturjaðri bæjarhólsins.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, kemur fram að tvíbýli var á Þórustöðum fyrir aldamótin 1900. Bæirnir voru nefndir norður- og suðurbær og var nyrðra bæjarstæðið að líkindum yngra. Ekki er víst hvar norðurbærinn stóð nákvæmlega en í einni örnefnaskrá Norðurkots er tekið fram að hann hafi átt lendingu í Krókum eins og Norðurkot og Tíðagerði. Gera má því ráð fyrir að norðurbærinn hafi verið norðan við hinn bæinn. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru nokkur hús saman í hnapp um 10 m norðan við bæ og kálgarður sambyggður hluta þeirra.

Hellukot

Hellukot

Hellukot.

“Upp í túninu sunnan götunnar var hjáleiga í eina tíð, nefndist Hellukot, þar í kring var Hellukotstún. Í þessu túni var Hellukotsbrunnur, og brunnstígur frá honum til bæjar,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar.” Ekki er ljóst hvenær Hellukot fór í eyði en það hefur þó verið eitthvað fyrir síðari heimsstyrjöld því í bók Guðmundar kemur fram að býlið hafi verið notað til sumardvalar í nokkur ár, ýmist sem barnaheimili (á stríðsárunum) og fyrir aðra sumargesti. Hellukot er um 155 m suðvestan við bæ.
Hellukot er í suðurhorni túnsins, þar eru klapparhólar í grónu túni. Stór hluti minja sem tilheyrt hafa Hellukoti eru innan girðingar vestan heimreiðar þar sem nú er sumarhúsið Grund.

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt.

“Norðan Þórustaðagötu og ofan við bæinn er Stekkhóll og þar er Stekkhólsrétt,” segir í örnefnaskrá.
“Stekkhólsrétt, veit ég ekki, hvort er sama réttin, sem enn stendur að hluta uppi og var alltaf notuð í mínu ungdæmi og var alltaf kölluð bara Þórustaðaréttin,” segir í svörum við spurningum. Líklega er Þórustaðarétt og Stekkhólsrétt sama réttin. Margrét Guðnadóttir man vel eftir að réttin hafi verið notuð og að féð hafi verið rekið í réttina þegar því var smalað úr heiðinni. Réttin er 250 m sunnan við bæ.

Stekkhólsrétt

Stekkhólsrétt.

Réttin er á flatri hæð og sést í bera klöppina, í móa utan túns. Réttartóftin er grjóthlaðin og tvískipt, snýr norðaustur-suðvestur. Tóftin er um 16×5 m að stærð og er hólf I í norðausturenda um 4×4,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Hólf II er um 4,5×10,5 m að innanmáli og snýr eins og hólf I. Veggir eru einfaldir, um 0,5 m á breidd og hæstir um 1 m, sjást 5 umför. Þar sem veggur skiptir tóftinni í tvennt liggur veggur til suðurs frá tóftinni, um 2 m langur. Suðvesturveggur er horfinn að mestu á kafla.

Norðurkot

Norðurkot

Norðurkot.

Hjáleiga Þórustaða 1703, jarðadýrleiki óviss. JÁM III, 141. Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, og aflagðist árið 1920. Harðangur var tómthús frá Norðurkoti, í byggð frá um 1885 til um 1900 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 315-316) 1919: Tún 1,7 teigar, garðar 340m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: “Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir “Innstrendinga”. Húsið var úr timbri, ein hæð og port-ris. […] Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti 1910 […].

Norðurkot

Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

Norðurkot var í upphafi grasbýli frá Þórustöðum og átti ekki ítök í heiðarlandi.” Í sömu heimild kemur fram að í kringum 1940 hafi verið hætt að búa í Norðurkoti og eftir það hafi húsið verið notað sem heyhlaða og geymsla. Á heimasíðu Sveitarfélagsins Voga kemur fram að árið 2004 hafi Minjafélag sveitarfélagsins fengið Norðurkotshúsið að gjöf og var húsið flutt á fyrirhugað minjasvæði sveitarfélagsins að Kálfatjörn og gert upp. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru bæjarhús Norðurkots á svæði sem er um 20×10 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Bæjarhóll Norðurkots er um 110 m norðaustan við Þórustaði. Umhverfis bæjarhólinn er sléttað tún í órækt. Hann er í hæðóttu landslagi þar sem sést í hraunnibbur á stöku stað. Bæjarhóllinn er um 15×20 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur.

Tíðagerði

Tíðagerði

Tíðagerði og Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

“Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. Því tilheyrði kálgarður neðan við bæinn, allstór. Skiptist hann að nokkru um klapparbala. Neðan hans var kálgarðurinn kallaður Leynir.
Tíðargerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar,” segir í örnefnaskrá KE. Í annarri örnefnaskrá segir: “Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi matjurtagarður og svo var Heiðarlandið óskipt, en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins. En Tíðargerði átti 2400 fermetra land.” Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: “Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, þó það yrði grasbýli síðar … Tíðagerði aflagðist árið 1920.” Samkvæmt túnakorti frá 1919 tilheyrðu Tíðagerði bæjarstæði A), þró B), útihús C) kálgarður D), túngarður E) og kálgarður F).
Á túnakorti frá 1919 kemur fram túnastærð Tíðagerðis: Tún 0,5 teigar, garðar 700m2. Minjarnar sem tilheyra Tíðagerði eru á svæði sem er um 110×85 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í umfjöllun. Ekki er mikið um uppsafnaðar mannvistarleifar á bæjarstæði Tíðagerðis.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla I – Fornleifastofnun 2011.

Höfði

Yfirlitsmynd.

Ólafur Erlendsson

Gengið var frá Auðnum um Þórustaði og kotin í kringum Kálfatjörn skoðuð.

KálfatjörnTil hliðsjónar á göngunni var höfð bók Jóns Thorarensens frá Kotvogi, Litla skinnið. Í henni er ljóslifandi frásögn og lýsing Kristleifs Þorsteinssonar árið 1938 frá verinu, sjávarútvegi á Vatnsleysuströnd um 1880 og mannlífinu þar á þeim tíma. Hann lýsir auk þess bæjunum og fólkinu, sem þar bjó. Þá nafngreinir Kristleifur kotin, sem nú standa eftir sem tóftir einar. FERLIR gekk síðar um svæðið í fylgd Ólafs Erlendssonar frá Kálfatjörn þar sem hann lýsti staðsetningu þessara sömu kota. Af því tilefni var gerður uppdráttur af svæðinu eftir lýsingu Ólafs.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kristleifur skrifaði um sjávarútveg og vermenn við sunnanverðan Faxaflóa á síðari helmingi 19. aldar í Héraðssögu Borgarfjarðar. Þar minnist hann á eitt og annað, sem viðkom sjómennsku og sjósókn í gömlum stíl. Í frásögn sinni í Litla skinninu bætir hann um betur og byggir hann hana að mestu á eigin sjón og raun. Hann reri sex vetrarvertíðir frá Auðnum um og eftir 1880. Um heimilislífið að Auðnum ritaði Kristleifur m.a. sagnaþátt, sem enn er til. Hann ritaði einnig um ferð sína í verið 1881, þar sem að sumu leyti varð fyrsti þáttur hans í vermennskunni, þar sem lýst er hvernig aðstaða manna var við að komast til sjávar í vetrarharðindum.
Kristleifur var í vist hjá Guðmundi bónda Guðmundssyni. Sá var þá fertugur, með skeggkraga um kjálka. Mætti það vel enn vera einkennismerki Vatnsleysustrandarbúa, enda yrði eftir því tekið. Kona hans hét Anna Pálsdóttir, þrekvaxin með glóbjart hár. Þannig eru líka alvöru Vatnsleysustrandarkonur enn þann dag í dag. Sagt var að þau hjónin hafi ekki borið hag annarra mikið fyrir brjósti, enda urðu menn að duga eða drepast, eða það sögu a.m.k. þeir er betur máttu sín á þeim tíma – og gera kannski ennþá.
Auðnar
Íbúðarhúsið að Auðnum var úr timbri. Keypti Guðmundur allt timbrið í húsið á uppboði, sem haldið var í Höfnum eftir að skip eitt (Jamestown) rak þar og fór í strand, hlaðið Ameríkutimbri. Ólafur Ketilsson, fræðimaður, ritaði um það fræga strand. Tekið var til þess hver ósköp af úrvals timbri kom með skipi þessu, og nutu margir bændur við sjávarsíðuna þar góðs af.

Sagt var að Auðnahús hafi allt verið klætt að utan með breiðum og löngum plönkum, sem voru þrír þumlungar á þykkt, en kostuðu aðeins eina krónu hver planki, að meðaltali. Ekki var hús þetta járnvarið, enda var timbrið svo hart, að vatn gekk naumast í það.

Norðurkot

Norðurkot – brunnur.

Gamlir íhaldssamir bændur, sem bjuggu þá í lágreistum torfbæjum, kölluðu hús þetta stórskrínu og byggðu það nafn á lögun þess og fór það ekki fjarri sanni. Stórskrínur voru þá alþekktar við sjóinn, voru langir og mjóir kassar, nokkuð hærri á aðra hlið. Báru menn eitt og annað sjófang í skrínum þessum.
Stígur lá frá íbúðarhúsinu til sjávar, sjávargata. Við þann stíg stóð hið óæðra sjómannaskýli, sjálf verbúðin. Í henni voru 20 sjómenn. Verbúð þessi var öll af torfi, löng og mjó, lágreist og hrörleg, en ekki mjög köld. Rúmfleti voru meðfram báðum miðveggjum og tveir menn í hvoru rúmi, og lágu þeir andfætis, voru það vanalegast hlutalagsmenn.
Þanghlaði mikill tyrftur og hlaðinn upp sem hey, stóð þar ekki langt frá verbúðinni. Var það mest notað til eldsneytis, en sjómenn máttu leysa sér nokkra visk úr þessum þanghlöðum og bera í fleti sín og breiða það á rúmbálkinn, og skyldi koma í stað undirsængur.

Kálfatjörn

Steinbrú á kirkjustígnum að Kálfatjörn.

Skinnklæði, fatnaður og verskrína var nefnt færur, einu nafni. Færurnar þurftu í síðasta lagi að vera komnar jafnsnemma sjómönnum á heimili útvegsbónda, þess er hjá var róið, annars stóðu menn uppi ráðalausir.
Sjóklæðin þurftu að vera þar sem hægt var að ganga að þeim, hvenær sem til þeirra átti að taka, eins þótt dimmt væri. Allir sem gerðu sig út sjálfir, átu samkvæmt fornum og föstum reglum að sjá sér farborða bæði á sjó og landi, með fæði og klæði, að öðru leyti en því, að útvegsbóndinn lagði vermönnum til kaffi og vökvun. Þá urði vermenn að leggja til eitt net. Netasteinar voru tíndir úr fjörugrjóti og aðeins höggvin laut um miðjan steininn, svo hann tylldi betur í steinalykkjunum.

KálfatjarnarhverfiNorðan við lendingarstaðinn voru “bólverk” til fiskverkunar. Var þar hlaðinn garður úr stórgrýti til varnar sjávargangi. Að þeim garði unnu sjómenn í landlegum, endurgjaldslaust. Á hann voru bornir þorskhausar, rifnir upp og raðað á grúfu. Þar voru þeir í nokkra daga til að harðna. Þegar búið var að höggva hausana upp, var þeim hlaðið í garða.
Þegar róðrar hófust og alla vertíðina, var risið árla úr rekkju, ekki seinna en klukka að ganga fjögur. Settu formenn upp sjóhatta sína, buðu góðan daginn, en höfðu ekki fleiri orð um það. Hatturinn gaf til kynna, hvað fyrir lá. Ekki voru menn hlutgengir, sem ekki gátu farið í brókina standandi og án stuðnings, en flestir munu þó hafa stuðst við hús, skip eða garð er þeir bundu á sig sjóskóna. Þegar formaður sá alla sína háseta standa skinnklædda umhverfis skipið, hvern við sitt rúm, signdi hann yfir skutinn og mælti: “Setjum nú fram, í Jesú nafni.” Hlunnar voru settir niður og skipinu ýtt fram.

Kálfatjörn

Goðhóll.

Allan fisk, sem á skip kom, urðu hásetar að bera upp fyrir flæðamál áður en skiptvar. Þegar skiptu var lokið var tekið kappsamlega til við aðgerð og skipt verkum. Þegar aðgerð var lokið var hvaðeina á sínum stað, hausarnir á grjótgarðinum, fiskurinn saltaður í stafla, lifrin í köggum, gotan í tunnum og slorið, sem síðast var borið í sína ljótu for. Sundmaginn var skafinn vel og vandlega og hann breiddur á grjótgarða og látinn þorna þar, en síðan dreginn upp á snæri í langar seilar.
Ekki var róið á helgidögum og kirkja jafnan sótt að Kálfatjörn, svo vel að fólk þyrptist þangað flesta messudaga, þegar veður leyfðu.

KálfatjörnFöst venja var að sjómenn gæfu þjónustufisk á sumardaginn fyrsta. Sumar konur höfðu allt að 16 karlmenn í þjónustu um vertíðina og höfðu þær ærinn starfa þessutan, því alla daga unnu þær, auk inniverka, að fiskaðgerð og á þeim lenti venjulega að bera slor og hausa á sinn stað.
Landbúnaður að Auðnum bjó mjög á hakanum, a.m.k. um vertíðina. Hugurinn var alveg óskiptur við þau efni. Hross og sauðfé varð að eiga sig að mestu. Tíðarfarið réð alveg úrslitum um það. Hrundi fé því niður í harðindum, en það var sama sagan hjá öllum er ætluðu skepnum útigang.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð.

Hverfin voru Auðanhverfi og Kálfatjarnarhverfi. Heimilsfeðurnir voru 23 og sýnir vel hversu fólkið var nægjusamt og gerði litlar kröfur til lífsins, því að af landsnyt var þafna ekki mikið að hafa.
Breiðagerði var tvíbýlt. Höfði átti enga fleytu og reri fyrir sínum hlut á skipu Auðnamanna. Höfði átti sexmannafar og var formaðurinn sjóslarkari og gapi að sigla, að með fádæmum þótti. Landakot var miðstöð andlegrar menningar. Bergskot, öðru nafni Borghús, var búið af Þorkeli Jónssyni frá Flekkuvíkm dugnaðarmanni. Hellukot var þurrabúð. Væmdi flesta við koti þessu, mest fyrir hrossaketið, sem flestir hötuðu og liðu fremur sáran sult heldur en að leggja sér til munns. Gata hét þurrabúð milli Þórustaða og Landakots.

KálfatjörnÁður en fór að fiskast á vertíðinni lifði fólkið þar eingöngu á þurrum rúgkökum, vatnsgraut og svörtu kaffi. Áttu það ekki sjö dagana sæla. Þórustaðir var næst miðja vegu milli Auðna og Kálfatjarnar. Þar var þá tvíbýli. Heimslánið sýndist brosa hjá fólkinu, en fljótt skýjaði hjá því, börnin dóu. Norðurkot var þurrabúð, norðanmegin við Þórustaði. Bóndinn var meðhjálpari í Kálfatjarnarkirkju. Tíðargerði var þurrabúð rétt hjá Norðurkoti. Goðhóll var þar við sjóinn niður frá Tíðargerði.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Harðangur var þurrabúð rétt hjá Tíðargerði. Hlið var þurrabúð rétt utan við Kálfatjarnartúnið. Þar var með konu sinni Halldór Egilsson. Kálfatjörn, kirkjustaðurinn og prestsetrið, bar þá mjög af byggðinni í kring, sem ekkert var annað en torfbæir og þeir flestir hrörlegir og lágreistir, að þeir líktust meir hesthúskofum, eins og þeir voru þá í sveitum, heldur en bæjum. Á Kálfatjörn var þá timburkirkja og íveruhús úr timbri. Hátún, Fjósakot, Naustakot og Móakot eru talin í jarðamati 1850 hjáleigur frá Kálfatjörn. Bakki stóð við sjóinn, lítið innar en Kálfatjörn. Litlibær var þurrabúð litlu sunnar en Bakki. Bjarg var þurrabúð skammt frá Litlabæ. Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll og Ólafsbúð, sem var sunnanmegin við Auðna. Gárungar kölluðu Hól stundum Trafhóla vegna þess að þar blöktu stundum hvít línklæði á snúrum, en í þá daga var slíkt fátítt hjá þurrabúðarfólki og jafnvel stórbændum var slíkt í smáum stíl.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Hlandforðir voru við bæi og hús. Voru þær hlaðnar að innan úr grjóti og náðu barmar þeirra lítið sem ekkert hærra en yfirborð jarðar umhverfis þær. Voru slíkar forir á sumum stöðum háskalegar bæði mönnum og skepnum.
Þegar dagur lengdist, veður hlýnuðu og vorið gekk í garð, hýrnaði yfir sjómönnunum, verbúðirnar urðu hlýrri og hrakreisur á sjónum færri. Lokadagurinn 11. maí var sá stóri dagur, sem bæði var blandinn von og söknuði. Erfitt var að skilja við félagana, sem tengst höfðu tryggðarböndum við erfiðar aðstæður og lifað þær af, auk þess sem hausana af hlutnum ásamt trosfiski urðu sjómennirnir að taka með sér með einhverju lagi.

Kálfatjörn

Sjóhús við Kálfatjarnarvör.

Frábær lýsing og fróðlegt að bera hana við þær aðstæður, sem fyrir eru við Auðna og Kálfatjörn. Tóftir þurrabúðanna, kotanna og bæjanna eru enn sýnilegar, sjávargötur má enn merkja og minjar við varirnar og lendingarnar eru enn á sínum stað. Spurningin er bara sú hvort nútímafólkið kunni enn að lesa það land, sem lýst var þarna fyrir einungis 125 árum síðan.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Litla skinnið – Jón Thorarensen frá Kotvogi – 1982 – Í verinu, lýsing Kristleifs Þorsteinssonar 1938 á sjávarútvegi á Vatnsleysuströnd um 1880.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Ölfus

Í “Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla III” má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Alviðru, Tannastaði, Laugarbakka, Fjall, Árbæ, Þórustaði, Hvoll, Kirkjuferju, Kotströnd, Gljúfur og Sogn, og nokkra merka staði í ofanverðu Ölfusi:

Alviðra (býli)

Ölfus

Alviðra.

“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 389.
1847: 12 hdr, bændaeign.
1487: Árið 1487 selur Hálfdan Nikulásarson Guðmundi Einarssyni jörðina Alviðru í Ölfusi fyrir jörðina Egilsstaði í Flóa. DI VI, 589.
“Alviðra er austasti bær í Ölfusi, nær land að hreppamörkum, við land Torfastaða í Grafningi […] Landamerki: Norðan, úr Prestatanga við Sogið, bein lína í Hádegisholt, þaðan í Hádegisholtseggjar,
þaðan lína í Inghól. Sunnan: úr Miðmarkasteini á Hrútasteinatanga við Sogið, bein lína til fjalls, yfir Tannastaðadali í Inghólshæðir uppi á Ingólfsfjalli. Austan: Sogið.” Jörðin er sameiginleg eign Landverndar og Héraðsnefndar Árnesinga frá 1. febrúar 1973. Íbúðarhúsið er í útleigu en jörðin er ekki nýtt að öðru leyti.
1912: Tún 6.6 ha, þar af c.9/10 slétt. Garðar 1545 m2.

Ölfus

Alviðra.

“Bærinn stendur á sama stað og hefir staðið í manna minnum,” segir í örnefnaskrá. Bærinn í Alviðru er sýndur á túnakorti frá 1920, nánast í miðju túninu. Öll mannvirki sem eru sýnd á túnakortinu eru horfin.
Bæjarhóllinn er mikið raskaður vegna bygginga, samt er enn hægt að greina hluta hans á yfirborði til suðurs. Stafnar bæjarins snéru til suðausturs, heygarður var þar í brekku niður af holtinu sem bærinn er á. Allt umhverfis bæjarhólinn eru gróin tún. Þau eru komin í órækt og ekki slegin síðustu ár. Fyrir sunnan núverandi útihús er kálgarður, þar er enn rabarbari að hluta. Fyrir austan hólinn er bakgarður núverandi íbúðarhúss. Þar er mikið af trjám. Bæjarhóllinn er um 40×30 m að stærð og snýr suðaustur-norðvestur. Núverandi íbúðarhús er í austurhluta bæjarhólsins. Fyrir sunnan bæinn var kál- og heygarður samkvæmt túnakorti. Vesturhluti bæjarhólsins er undir úthúsum sem byggð voru um miðja 20. öld. Fyrir sunnan útihúsin sést móta fyrir kanti en mikill gróður var á svæðinu þegar skrásetjari var á ferðinni og hann illgreinilegur. Kanturinn og fjarar svo út til norðurs. Þar er malarplan og núverandi heimreið að bænum. Kálgarðurinn er sunnan við kantinn og ekki sýndur á túnakortinu. Hann er 29×9 m að stærð, L-laga og veggirnir eru 2 m á breidd. Þeir mjókka upp og eru algrónir. Aðrar hliðar kálgarðsins eru horfnar. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð. Það glittir í 1-2 umför af grjóti í botninum. Ekki er langt síðan ræktun var hætt í kálgarðinum.

Inghóll (legstaður)

Ölfus

Inghóll.

Í mörkum á milli Hvamms og Alviðru er hóll sem Inghóll heitir, hár hóll, sérkennilegur, jafn vaxinn. Er af sumum talinn 200 faðmar að ummáli við rætur. Hann er í laginu sem uppmokaður haugur, ólíkur öllum hólum og hæðum sem eru á Ingólfsfjalli. Það er hlaðin grjótvarða á kolli hans. Hann er gerður að mestu úr klöppum og urðargrjóti og ekki líklegt, að menn hafi hlaðið hann upp nema að litlu leyti,» segir í örnefnalýsingu.
1641-42: “Kveðið ex tempore yfi r haug Ingólfs landnámsmanns, að skipun biskups Brynjólfs, meðan hinir aðrir þénarar hlóðu vörðu yfi r haugnum: Stóð af steindu smíði/staður fornmanns hlaðinn/hlóðu af herrans boði/heiðiteikn yfi r leiði;/haugur var hár og fagur/hrundin saman á grundu,/en draugur simmur og magur/drundi björgum undir.” Stefán Ólafsson: Kvæði I, Kaupmannahöfn 1885, s. 73.
1703: “Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosa vaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvern hann lét mæla.” Halfdan Jónsson, Lýsing Ölfushrepps, SSÁ, 245.
Um 1750: “Udi Arness-Syssel imod Sydost paa Ingolfsfjeld ligger Ingolf den forste Landnamsmand begraven. Hans Hoj og Gravsted er hojt og stort, som klarligen kan sees af omrejsende Folk, so færdes om Olveset, eller og osterlig i Flooen.” Jón Ólafsson frá Grunnavík, Antiqvariske Annaler II, 185-86.
1821: “Ingholl eda Ingolfs Arnarsonar Haugur; kallast mikid stór griothóll sem stendur nockud vestar enn uppa midiu sokólludu Ingolfsfi alli; og er þess hærsti toppur. Vic: lógmadur E. Olafsson, hefr i hans R[ejse]besk[rivelse] sídara parti p:849 skrifad umm þessa Holls stærd. Líkur eru a því; eptir þvi sem su annars mistriggilega Ármans Saga ummgietur; ad Jngolfur Arnarson, sem bio a Reikium i Ólvesi; gamall og blindur þegar Armann kom ut hingad – hafi utvalid sér Legstad i þessum efsta toppi Jngolfsfi alls sem Sionar holi; hvadann hann gat yferlitid allt Olvesid og miklu fl eiri Hieród; umm Jngolf Singur Egiert i Mánamali – “nemur hatt vid Ský haugnuandi – … Sógusógn almuga umm Jngolf er su ad hann hafi latid þræla sina tvo sem nefndust Kagi og Kallbakur og þionustu Stulku sem nefndist Ýma bera giersemar sínar og fi armuni skómmu fyrir sitt andlat uppi Jnghól og grafa þær þar inni. – hafi sidann drepid óll þessi hiu so þau ecki giætu fra sagt ecki er ad óllu olíkleg sagann; þvi Órnefni ber Jngolfsfi all eptir þessumm Hiuumm, þarsem Jngolfur Hefdi att ad fyrirkoma þeim t d Jmu Skard, Kaga Gil og Kallbakur.“ FF I, 223-24.
1840: “Uppi á norðanverðu fjalli þessu er hóll, er kallast Inghóll, og er það almæli, að þar sé heygður Ingólfur landnámsmaður, er fjallið dregur nafn af. Hóllinn er ei mjög stór ummáls og ei merkilegur, ei heldur auðsén á honum mannaverk.” SSÁ, 195.

Ölfus

Inghóll.

1873: “Á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannshaugur að lögun og einnig stærð að því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul, Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir viðtexta Landnámu (45) um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; … Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð.”
1898: “Inghóll, eða eiginlega Ingólfshóll, heitir hóll sá á Ingólfsfjalli, sem almennt hefir verið álitinn haugur Ingólfs. Á hann að hafa sagt fyrir að jarða sig þar … bað eg Kolbein bónda Guðmundsson í Hlíð í Grafningi, sem eg vissi að hafði skoðað hólinn, að láta mig fá lýsingu á honum, og gjörði hann það góðfúlsega. Svo segir í bréfi hans: “Hóllinn er sporöskjumyndaður, flatur að ofan og liggur í norður og suður. Hann er um 55 fet á lengd og 35 fet á breidd að ofan. Á hæð er hann um 40 fet. Alstaðar hallar því nær jafnt út af honum. Mannaverk verða engin séð á hólnum nema varða á suðurenda hans, og virðist mér undirstaðan mjög forn. Efnið í hólnum er mest smágrjót, mosavaxið, þó er norðan í honum stórgrýti nokkuð. Aðeins á litlum bletti uppá honum gengur járn nokkuð til muna í hann (um 1 ½ al. þar sem ég komst dýpst). Það var norðan til á honum miðjum, og þar var mosalaust. Hvergi gat ég séð merki þess, að grafið hefði verið í hann. – Inghóll liggur hér um bil á miðju Ingólfsfjalli, og enginn hóll honum líkur að lögun er þar nálægt. Í hólum umhverfi s hann er tómt blásið stórgrýti og klappir. Alt fyrir það er Inghóll auðsjáanlega verk náttúrunnar.” Nú hefir mér sjálfum auðnast að koma upp á fjallið og sjá hólinn. Heg eg mjög litlu við lýsingu Kolbeins að bæta. Það er víst að hóllinn er verk náttúrunnar. … En varðan á hólnum er mannaverk, sem ef til vill hefir í fyrstu átt að vera minnisvarði Ingólfs – öllu fremur en leiði hans? – Hún er ferskeitt, nál. 1 fðm. á hvern veg, en nú er hún ekki hærri en manni undir hönd. Auðséð er, að hún hefir hrunið ofan til og hrapað til norðurs, en lausagrjót er þó ekkert utan með henni.
Er því líkast að hún hafi fallið ofan í sjálfa sig, og hefir hún þá verið hol innan. Grjótið í henni er fremur stórt. Um vörðu þessa mun séra Stefán Ólafsson hafa kveðið vísuna: “Stóð af steindu smíði”, og hefir hann þá álitið hana leiði Ingólfs. Nú er hún landamerkjavarða.” Brynjúlfur Jónsson 1899, 14-15. Varða er rúmum 5,8 km norðaustan við bæ, á Ingólfsfjalli og 3,5 km norðan við Þórustaðanámu, nálægt norður enda fjallsins. Varðan er upp á Inghól og rafmagnsgirðing liggur meðfram hólnum austanverðum.
Útsýni er til allra átta. “Styrmir fróði, sem var uppi á 12. öld, segir, að sumir menn segi, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Brynjólfur biskup í Skálholti fór upp á Inghól með menn með sér. Þar með Stefán Ólafsson skáld í Vallanesi. Hann orti vísu uppi á hólnum, sem er svona:
Stóðu að steindu smíði,
staður fornmanns hlaðinn,
hlóðu að herrans boði
heiða teikn yfir leiði.
Haugur var hár og fagur
hrundin saman á grundu.
Draugur dimmur og magur
drundi í björgum undir.
Einar Arnórsson prófessor heldur því fram, að lærðir menn hafi , allt fram á 17. öld, trúað því, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Aldrei hefur annar staður verið nefndur legstaður hans. Er því allt, sem bendir til þess að þar hafi hann verið heygður. Því hafi veirðum annan stað að ræða, hefðu þær sagnir að sjálfsögðu getað geymzt, þar sem var um frægasta landnámsmann Íslands að ræða. Bendir því allt til þess, að Ingólfur hafi verið heygður í hólnum.” Einnig skráður í landi Hvamms. Hóllinn er líklega hæsti punkturinn á Ingólfsfjalli. Hann er að miklu leiti ógróinn og steinarnir í honum eru mjög stórir. Inn á milli steinanna vex gráleitur mosi. Varðan er 1,5×1,5 m að stærð og fremur hringlaga. Hún er 0,7 m á hæð og sjást 4-5 umför af grjóti. Varðan er ekki vandlega hlaðin og virðist grjótið vera að lagt þar að handahófi í hrúgu en ekki hlaðið upp. Steinarnir í vörðunni eru ekki mosagrónir og greinilegt er að eintthvað hefur verið bætt í hana á seinni tímum. Það þarf því ekki að vera að hún sé gömul.

Tannastaðir (býli)

Ölfus

Tannastaðir.

“Jarðardýrleiki x og so tíundast á fjórum tíundum.” JÁM II, 390. 1847: 10 hdr, bændaeign. JJ, 74.
1520: „Andrés Andrésson selr Sæmundi Eiríkssyni jörðina Tannastaði í Ölvesi fyrir tiu hundruð i lausafé.“ DI VIII, 548.
“Landamerki: Úr Hrútasteinstanga við Sogið, til vesturs í Miðmarkastein, þaðan bein lína til fjalls yfir Tannastaðadali í Ingólfshæðir. Sogið og Ölfusá að austan. Vestan (sunnan): Úr Einbúa við Ölfusá bein lína um Grákollu upp í Sandhæð, uppi á Ingólfsfjalli. Þaðan í Alviðruland í Ingólfshæðum.” Ö-Tannastaðir, 1. Ekki er föst ábúð á Tannastöðum lengur og jörðin í eigu nokkurra aðila, íbúðarhúsið er leigt út og landið er nýtt til beitar að hluta.
1917: Tún 4.6 ha, allt slétt. Garðar 905 m2. “Kaldakinn. Snögglend brún, sunnan við Dimmutó og náði túnið ekki lengra 1836.” Ö-Tannastaðir, 2.

Ölfus

Tannastaðir 1930.

“Bærinn hefur staðið á sama stað og nú er,” segir í örnefnaskrá Tannastaða. Samkvæmt túnakorti frá 1920 var bærinn í miðju túninu og auk bæjarhúsanna var þar martjurtagarður og heyhlaða. Hluti af gamla bænum er enn varðveittur og enn er búið í íbúðarhúsinu. Enn eru uppistandandi sex hús. Syðsta húsið er skemma sem byggð var árið 1924. Við hliðina á skemmunni er íbúðarhús með tveimur burstum og var það byggt árið 1939. Norðan við íbúðarhúsið og sambyggt því er stór hlaða sem byggð var árið 1927. Nyrst eru svo fjós og annað geymsluhús. Fast sunnan við bæjarhúsin eru tóftir af eldri útihúsum og kálgarði sem eru 80 m frá þjóðveginum. Þétt austan við bæjartóftirnar og kálgarðana er braggi og geymsluhús, þar liggur heimreið til vesturs frá Biskupstungnabraut og beygir svo til norðurs í átt að bænum. Lítill olíutankur liggur nyrst í útihúsatóftunum, nálægt geymslunni.

Ártalssteinn (áletrun)

Ölfus

Letursteinn – 1893.

Í örnefnalýsingu segir: «Ártalssteinn. Stór steinn í túngarðinum ofan (vestan) Gerðisins. Á hann er letrað 3/10 1893. Mun vera með stærstu hleðslusteinum, sem sjást.” Steinninn er tæpum 130 m suðvestan við bæ og rúmlega 15 m austan við háspennulínu, sem liggur vestan við heimatúnið. Steininn er hluti af suðvesturhluta túngarðs.
Ártalssteinninn er í óræktuðu túni, sem hallar aflíðandi til austurs. Ártalssteinninn er 1 m á hæð og 2 m á lengd. Sjálfur steinninn er áberandi stærri en aðrir hleðslusteinar túngarðs á svæðinu. Áletrunin 3/10 1898 er meitluð fyrir miðju steinsins og er hún 0,3 m á hæð og 0,4 m á lengd. Hún ristir djúpt og sést vel úr fjarska. Að sögn Jóns H. Gíslasonar, heimildamanns, meitlaði bróðir Þórðar Sigurðssonar áletrunina á síðari hluta 19. aldar.

Réttarbjarg (rétt)

Ölfus

Réttarbjarg.

Í örnefnaskrá Tannastaða segir: «Réttarbjarg. Stór steinn í túngarðinum vestur af bænum, þar er fjárrétt. «Þar var áður hrútakofi Jóns Guðmundssonar.”” Rúmum 100 metrum vestan við bæ og upp við túngarð er fjárrétt. Skammt austan við réttina í túninu liggja rafmangslínur frá suðri til norðurs yfir túnið. Stór steinn er innan réttarinnar.
Á þessum slóðum er grasivaxið og óslegið tún sem liggur við rætur fjallsins. Réttin er 14×9,5 m að stærð og snýr norður-suður. Opið er til suðurs, í suðausturhorni. Hún er einföld og 12×7,5 m að innanmáli. Hleðsluhæð veggja er 1-1,2 m. Réttin er grjóthlaðin og það sjást 4-5 umför af steinum í veggjum hennar. Steinn með áletruninni 1888 er í suðvesturhorni réttarinnar, í henni innanverðri. Réttin er nokkuð vel varðveitt og stendur enn að mestu leyti. Smávegis hrun hefur fallið inn í réttina úr austurvegg, alveg við opið. Innan í réttinni er nú geymd gömul rakstrarvél. Vesturveggurinn, sá sem liggur upp í fjallshlíðina, gengur lengur til suðurs en hinir veggir og virðist vera hlaðinn upp í grjótskriðu. Túngarðurinn stendur svo 2 metrum vestar, hærra uppi en réttin og virðist því sem túngarðurinn sé tvöfaldur á þessu svæði.

Gvendarbrunnur (þjóðsaga/vatnsból)

Ölfus

Gvendarbrunnur.

“Gvendarbrunnur: Er lítil lækjarsytra, sem kemur upp við gamla veginn fyrir norðan Ytri-Hákon.
Munnmæli herma, að Guðmundur Arason góði hafi vígt þennan læk, þegar hann var á ferðum sínum,” segir í örnefnaskrá. Gvendarbrunnur er 400 m sunnan við Grænutóftir og tæpum 820 m sunnan við bæ. Lækurinn rennur undan brekkurótum Ingólfsfjalls, skammt vestan við Biskupstungnabraut. Lækurinn er kominn í vélgrafinn skurð vestan þjóðvegarins.
Skriða er í fjallinu, Gvendarbrunnur kemur upp undan henni. Lækurinn rennur til austurs, á milli stórra, stakstæðra bjarga í mýrlendi. Hann er 1 m á breidd og vatnslítill.

Laugarbakkar (býli)

Ölfus

Laugarbakkar.

“Annað býli af sömu jörðu [og Fjall]. Dýrleiki þess er kallað vi lxxx álnior og sotíundast.” JÁM II, 392.
1847: 10 hdr, bændaeign. JJ, 74. “Landamerki I: Gagnvart Tannastöðum úr þúfuá Einbúa, er stendur niður við Ölfusá, sem hann er hæstur, beina línu í stein sem nefnist Grákollur neðri, og beina línu á Ingólfsfjallsbrún; úr vörðunni beina línu í vörðu, sem er á melhrygg á miðju Ingólfsfjalli, sem er hornmark. II: Gagnvart Helli úr áðurnefndri vörðu á melhrygg, beina línu í vörðu, sem stendur á vesturgilklofningsbrún á Brennu[dals]gili; þaðan niður Brennidalsgil í vörðu á Fjallstóttum beina línu í Mígandaþúfu; úr Mígandaþúfu til Ölfusár.”
“Bærinn var færður norður á syðri bakka Laugalækjar um og eftir 1930. […] Bæjarhóll. Hóll í túninu fyrir sunnan bæinn. Þar stóðu lambhúsin, mjólkurkofinn og smiðjan,” segir í örnefnaskrá. Bæjarhóllinn er rúmum 350 m sunnan við núverandi bæjarstæði og 50-60 m vestan við Ölfusá. Lítill tangi eða nes skagar út í ánna fyrir austan bæjarhólinn og ekki hætta á að áin fl æði hér yfi r. Sandhóll er fast vestan við bæjarhólinn, á milli bæjarins og árinnar. Smá lægð er á milli hólanna. Ekki er ljóst hvernig stafnar bæjarins snéru en traðir/leið 025 lá fast vestan við heimatúnið sem bendir til þess að stafnar hafi mögulega snúið til suðurs. Við plægingu hafa komið upp hellur, hleðslugrjót og fleiri mannvistarleifar. Slétt, ræktað tún er allt umhverfi s hólinn. Það er slegið og nýtt til beitar.
Bæjarhóllinn er 75×30 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er grasivaxinn, sléttur og þar eru ekki mannvirki að sjá á yfirborði. Bærinn sjálfur var á suðurhluta hólsins þegar túnakortið var gert árið 1920 og útihús á nyrðri hlutanum. Traðir 025 lágu að bænum að suðvestan en þær sjást ekki. Bæjarhóllinn er ekki reglulegur í laginu og helst líkist hann tölustafnum átta, tveir hólar með lágu hafti í miðjunni.
Uppi á hólunum eru lautir án þess að hægt sé að gera sér grein fyrir nákvæmu lagi mannvirkja. Hóllinn er 0,3-1 m á hæð, hæstur til vesturs og norðurs. Sléttun hefur raskað hólnum mikið og erfi tt að greina uppsöfnuð mannvistarlög frá náttúrulegum hólum.

Fjall (býli)

Ölfus

Fjall.

„Hjer segja menn kirkja muni að fornu verið hafa, en enginn minnst að tíðir hafi hjer verið fluttar. Jarðardýrleiki XXX hdr og svo tíundast fjórum tíunudm. (…) NB. Þessi jörð er afdeild í fjögur býli, sem eru sundurgreindir fjórir bæir. Þeir heita so: Fjall. Þetta býli stendur í aðalstæði jarðarinnar og heldur því forna nafninu. Dýrleiki þessa partsins er talinn og tíundaður 6 hdr.“ JÁM II, 391.
Landnáma: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.” ÍF, 45.
Þuríður Grímkelsdóttir “fæddist upp með þeim manni, er Sigurður múli hét; hann bjó undir Felli” Harðar saga, ÍF XIII, 4 sbr. 5 (Fjalli) og 35.
1397: “Kirkiann j Fjalli a tuær kluckur ad kirkiunni a Strond.“ DI IV,101. 1524: „selur Ögmundur biskup Snæbirni Gíslasyni hálft Fjall“. DI IX, 258.
Erlingur Gíslason átti Fjall í Ölfusi, Þorsteinn yngri son hans bjó þar og átti Halldóru Pálsdóttur, Eyjólfssonar frá Hjalla og Ásdísar Pálsdóttur, systur Ögmundar biskups – Bsk II, 298.

Ölfus

Fjall – minjar.

1604: Eydís Helgadóttir, móðursystir Odds biskups, var í Fjalli 1604 og átti Jón Ásgrímsson er þar bjó fyrst en varð eftir það bryti í Skálholti – Bsk II, 661. Á öðrum stað er þó sagt að Jón Ásgrímsson hafi fyrst verið bryti í Skálholti en síðar verið ráðsmaður fyrir Fjalls búi – Bsk II, 675.
“Bærinn hefi r staðið fram á átjándu öld. Eftir að hann lagðist í eyði, lagðist landið til Hellis og Laugarbakka, svo að nú eru landamerki þeirra jarða um Fjallstún. Af JÁM sést að þá hefir heimajörðin Fjall verið komin í niðurlægingu, er jarðabókin var samin. Munu því mest hafa valdið skriðurennsli á túnið. Túnstæðið hefir upphafl ega verið uppgróin skriðubunga, mynduð af gili, sem þar er uppundan í fjallinu. Það heitir Branddalsgil, og hefir nafn af lítilli dalkvos er Branddalur heitir, sem þar er uppi í gilinu, en sjest ekki fyrr en að er komið. Branddalur er enn grasi vaxinn; annars er gilið, og hlíðin öll, nú eintóm skriða. Er líklegt að nafnið sé dregið af kolabröndum og að þar hafi verið kol brennd meðan fjallshlíðin var skógi vaxin … enn heldur [gilið] áfram að hækka bunguna smátt og smátt; enda er hún nú að miklu leyti grjóti þakin, nema austan til. Þar er grasflöt, sem enn heitir Fjallstún. Á henni eru rústir bæjarins. … Hefir hjer verið gott til heyafla og tún eigi alllítið meðan bungan var í friði fyrir skriðum.

Ölfus

Fjall – tóftir.

Líklegra er, að þær hafi valdið eyðileggingunni smátt og smátt heldur en allt í einu; en auðvitað er, að loksins hefir eitt skriðuhlaup riðið baggamuninn.” Brynjúlfur Jónsson. 1897, bls. 18-19.
„Fjallstún. Skriðurunnin hæð; leifar af túni bæjarins Fjalls. Fjallstóftir. Gömul tóftarbrot austanvert í Fjallstúni, skammt fyrir ofan veginn. Þar hefur verið mikill bær í fornum stíl og búið málmsmiður,” segir í örnefnaskrá Laugarbakka. Í örnefnalýsingu Hellis og Fossness segir: „Austur merki Hellis eru við Fjall og segir í örnefnaskrá: “Landamerki: Að austanverðu er varða á Fjallstóftum.”
Varðan er horfin.
Brynjúlfur Jónsson, fræðimaður frá Minna-Núpi, kannaði rústirnar og ritaði um niðurstöður sínar í Árbók fornleifafélagsins 1897. Þar segir hann að á grasflöt þeirri, sem heitir Fjallstún, séu rústir bæjarins, og sjái allvel fyrir bæjarrústinni. Bærinn hafi snúið framhliðinni móti suðaustri. Þó virðist hún í fljótu áliti, þegar litið sé á rústina alla, að hún snúi á móti suðri. Það komi til að því, að byggingar hafi verið fram á hlaðinu, sem að austan til gangi lengst fram og myndist þar eins og lítil hólbrekka af gamalli hleðslu. Jafnframt segir Brynjúlfur: “Bæjartóftin snýr hliðinni fram, og er framhúsið nálægt 10 faðma langt frá norðaustri til suðvesturs. Dyr eru á framhliðinni vestan til miðri. Beint inn af þeim er inngangur í bakhús, er liggur samhliða hinu, og eru dyrnar á miðri framhlið þess. Það er rúmlega 3 faðma langt. Er sýnilegt að það hafi upp á síðkastið verið baðstofan en hitt framhýsi.” Við hvorn enda bæjartóftarinnar var sín hvor tóftin og snéru dyrum fram á hlaðið, og taldi hann það geta hafa verið skemma og smiðja.
Vegurinn hefur legið um hlaðið og hefur svo haldizt eftir að bærinn lagðist í eyði, og voru þar uppgrónar götur. En nú sagði hann veginn liggja bak við rústirnar. Brynjúlfur hafði sagnir af því, að bænhús hafi verið í Fjalli og hafði eftir Jóni bónda Árnasyni í Alviðru, sem var “fróður maður og vel að sér”. Taldi hann það hafa staðið frammi á hlaðinu fyrir framan veginn, en “hafi það verið austast og fremst, sem mér þykir liggja næst að ætla, þá hefir annað hús verið vestar á hlaðinu.” Við báða enda bakhússins virðist Brynjúlfi vera autt svæði, sem svara myndi rými fyrir dálítið hús. Var þetta svæði innlokað að garði fyrir allri bakhlið bæjarins og myndaði þar “húsagarð”. Þar sem Fjall stóð forðum, eru nú vallgrónar rústir fast við þjóðveginn ofanverðan, og voru þær friðlýstar 1927. Hefur þeim þó verið raskað, þegar nýi vegurinn var lagður með fjallinu.” Brynjúlfur teiknaði minjarnar sem hann sá og birti aftast í Árbókinni.

Ölfus

Fjall – minjar.

Í bókinni Saga Selfoss er fjallað um Fjall. Þar segir: „Austurmörk Hellis eru um Fjallstóftir, sem síðar voru nefnd Fjallstún. Þar eru rústir eyðibýlisins Fjalls, alveg við þjóðveginn. […] Meðan stórbýli var í Fjalli fyrrum hefur þar verið gott undir bú og tún eigi alllítil. En skriðurennsli úr Brennudalsgili spillti túnum smám saman og síðast er líklegt, að eitt skriðuhlaup hafi riðið baggamuninn og gert túnið að grjóturð og brotið bæinn. Hann stóð þó fram á 18. öld. Þórður hinn fróði Sigurðsson, sem er fæddur á næsta bæ, Tannastöðum, árið 1864 , og bjó þar langa æfi, lýsti rústum bæjarins 1931: “Ein tóft sést ennþá greinilega fyrir neðan veginn, en uppi á hátúninu sá ég glöggt fyrir fimm húsatóftum, hverjum við aðra, þegar ég var unglingur, en nú eru þær allar komnar undir skriðu fyrir nokkru. Líka tók ég þá eftir niðursignu túngarðsbroti vestur við mýrarvikið, sem nær lengst upp að fjallinu.”” Minjarnar eru friðlýstar. Í skránni segir: “1. Leifar eyðibýlisins Fjalls, sunnan undir suðausturhorni Ingólfsfjalls.
Sbr. Árb. 1897: 18-19. […] . Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.” Friðlýsingarskilti er á bæjarhólnum en er mjög máð. Bæjarhóllinn sést ennþá en honum var raskað ennfrekar við vegagerð á 20. öld. Ekið er um hlað bæjarins eftir Biskupstungabraut og tóftin sem var „neðan“ vegarins þar undir að öllum líkindum. Vegurinn liggur þvert yfi r bæjarhólinn og vírgirðing þvert vestan hans.
Hægt er að greina hólinn sem allháa þúst í landinu en erfitt er að greina mismunandi byggingarþætti.
Skriður úr Brennudalsgili fara austan og vestan við gamla heimatúnið og nærri bænum. Bæjarhóllinn er greinilegur en tóftir hlaupnar í þúfur svo ekki hægt að greina nákvæmt lag þeirra.
Bæjarhóllinn er 63×28 m að stærð, 0,3-0,8 m á hæð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann er grasivaxinn og vegstæðið hefur raskað austastahluta hólsins. Eins og fyrr segir þá liggur núverandi þjóðvegur um bæjarhlaðið og minjum sem Brynjúlfur lýsir „fyrir neðan veginn“ eru horfnar.

Fjallskirkja (kirkja)
“Fjallstóftir. Gömul tóftarbrot austanvert í Fjallstúni, skammt fyrir ofan veginn. Þar hefur verið mikill bær í fornum stíl og búið málmsmiður. Þar var kirkja, og liggur vegurinn um kirkjugarðinn,” segir í örnefnalýsingu Laugarbakka. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1706 segir: “Hjer segja menn kirkja muni að fornu verið hafa, en enginn minnist að tíðir hafi hjer verið fluttar.” Eina ritheimildin sem gæti bent til kirkju á Fjalli er máldagi Strandarkirkju í Selvogi frá 1397 en þar segir: “Kirkiann j Fjalli a tuær kluckur ad kirkiunni a Strond.” Í grein sinni um Fjall í Ölfusi í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1897 segir Brynjúlfur Jónsson: “Sögn er, að bænahús hafi verið í Fjalli; svo sagði mjer Jón bóndi Árnason í Alviðru, fróður maður og vel að sjer. Hefi r þá bænahúsið án efa verið fram á hlaðinu, en hafi það verið austast og fremst, – sem mjer þykir liggja næst að ætla, – þá hefir annað hús verið vestar á hlaðinu.” Friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927 (sem kvöð á landi Hellis) samkvæmt friðlýsingarskrá. Þar segir: “1. Leifar eyðibýlisins Fjalls, sunnan undir suðausturhorni Ingólfsfjalls. Sbr. Árb. 1897: 18-19.
”Ekki er vitað með vissu hvar kirkjan var staðsett, en líklega var hún á bæjarhólnum, austan við bæ. Brynjólfur gerði uppdrátt af minjum í Fjalli og birti í grein sinni árið 1897. Allt eins er líklegt að kirkjan hafi farið undir Biskupstungnabraut 35, skammt suðaustar en hnit var tekið. Þar voru minjar samkvæmt teikningunni. Kirkjan er rúmlega 50 m austan við bæ og um 75 m suðvestan við útihús.
Minjastaðurinn er í aflíðandi brekku. Sé horft til austurs er mýrlendi allsráðandi en til norðvesturs, við rætur Ingólfsfjalls, er yfirgefin malarnáma.
Ekki er vitað hvar kirkjan var staðsett. Af lýsingum ritheimilda að dæma þá hefur kirkjan að öllum líkindum staðið þar sem nú (2016) er Biskupstungnabraut. Ummerki kirkjunnar hafa líklega farið undir veginn við vegagerð á 20. öld. Þó er ekki loku fyrir það skotið að mannvistaleifar séu undir jörðu.

Saumakonuhellir (þjóðsaga)

Ölfus

Saumakonuhellir.

“Saumakonuhellir. Hellir í Fjallsklettum, ofan við þar sem Fjallslækur kemur upp. Sagt er, að kona sú, sem barnið ól hjá Sængurkonusteini, hafi hitt þar tvær stúlkur í hellinum, sem voru að sauma. Þær leyfðu henni ekki að koma í bæinn, en allt annað Fjallsfólk var við kirkju í Arnarbæli,” segir í örnefnalýsingu Laugarbakka. Saumakonuhellir var rúma 270 m norðaustan við bæ 001 og 100 m VNV við sumarbústað sem er við Biskupstungnabraut. Hellirinn er staðsettur í skriðunni, ofan við Fjallslæk. Í skýrslunni Fornleifaskráning í Áborg I segir; “Þetta er ekki hellir í þeim skilningi heldur meira skjól myndað úr þremur vel grónum klettu. Sá sem er í miðjunni er stærstu og hvílir á hinum. Nokkup stórt bjarg hjálpar til við skjólmyndunina og er beint á móti hinum. Vel gróin dæld er á milli.”
Fjallsklettar eru skriða, aðallega stór björg og steinar, sem féllu hér niður Ingólfsfjall. Sumir steinarnir eru 3-4 m á hæð. Skriðan er nokkuð gróin og þetta svæði er nýtt til beitar.
Eini staðurinn sem kemur til greina sem Saumakonuhellir er smá gjóta sem þrír, stórir steinar mynda. Gjótan er opin í báða enda og ekki hægt að fara þar inn með góðu. Þessi steinar eru nánast í miðju Fjallskletta, ofarlega. Skútinn er mest 2 m á hæð og 4×2 m að stærð.

Árbær (býli)
“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 393. „34 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1397: LXXX. Arbær. Kirkia ad Arbæ a .iiij. kyr. Jnnan sig kluckur .iiij. Mariuskriptter tuær. krossar .ij. kiertistika med kopar. paxspialld. Sacrarium. mvnnlaug. portio Ecclesiæ vmm næstu .x. är .xvij. aurar oc iij. Alnar.” DI IV, 92
1502: Stefán Skálholtsbiskup selur Þorvarði Erlendssyni lögmanni Árbæ. DI VII, 622-23.
1546: Erlendur lögmaður Þorvarðarson seldi Gizuri biskupi jarðir og þar á meðal Árbæ. DI XI, 479-480. “Landamerki. Ölfusá að sunnan. Vestan: úr Svörtubökkum við Ölfusá og til Ingólfsfjalls. Austan: úr Markakletti við Ölfusána og til Ingólfsfjalls. (Meiri upplýsingar gáfu heimildarmenn ekki).” Ö-Árbær, 1.
1917: ´Tun 8.3 ha, þar af c. 3/4 slétt. Garðar 2176 m2.

Þórustaðir (býli)

Ölfus

Þórustaðir – kort.

“Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 394. „30 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1546: „Erlendr lögmadr Þorvarðsson gefr í vald Gizurar biskups jarðirnar Árbæ, Þórisstaði og Fossnes í Ölvisi, svo og rekann á Skeiði fyrir Hraunslandi. Af bréfi Gissurar til Erlends 6. desember 1547 kemur fram að um er að ræða Þórisstaði í Hjallasókn“ DI XI, 472. Það bendir til þess að þessi bær hafi þegar verið til þá.
“Landamerki: Úr Graflækjum (Giljum, Flugugili og Engjagili) við Ölfusá stutt fyrir austan ferjustaðinn á Kotferju. […] Úr þessum giljum bein lína í stórann múla austan við Þunnubrekkur. Þessi eru mörk á milli Hvols og Þórustaða, fleiri upplýsingar voru ekki fyrir hendi.” Ö-Þórustaðir, 1.
Þórustaðir skiptast a.m.k. tvö lögbýli í dag. Eitt er Garðyrkjustöðin Kjarr ásamt hrossarækt en á hinum hlutanum er rekið svínabú. Einnig er starfrækt kjúklingabú á syðsta hluta jarðarinnar.
1917: Tún 3 ha, þar af c. 5/6 slétt. Garðar 1456 m2.
“Bærinn stóð í miðju túni og sneri þiljum til suðurs,” segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað með vissu hvar bærinn sem sýndur er á túnakorti frá 1920 var, ekki fannst heimildamaður fyrir jörðina nema að hluta.
Sé tekið mið af fyrirliggjandi gögnum var bærinn líklega vestan og norðvestur af núverandi íbúðarhúsi eða nánast á sama stað. Íbúðarhúsið er því á bæjarhólnum enn í dag. Bæjarhóllinn er mikið raskaður, á honum eru hús til suðurs, núverandi íbúðarhús til suðausturs og byggingar tilheyrandi svínabúi til suðvesturs og vesturs. Á milli mannvirkja á bæjarhólnum eru malbikuð plön, steyptir grunnar frá húsum sem hafa verið rifin og bakgarðar.
Engin ummerki um uppsöfnuð mannvistarlög sjást á yfirborði. Algjört þekkingarrof hefur orðið á Þórustöðum enda langt um liðið síðan föst ábúð var hér. Áður en jörðin var nýtt undir svínarækt og skipt upp í minni einingar voru ábúendaskipti tíð og fólk stoppaði stutt við. Síðustu áratugi hafa ábúendur
verið bústjórar svínabúsins.

Hvoll (býli)

Ölfus

Hvoll.

“Jarðardýrleiki er xx og tíundast þó jörðin öngvum.” JÁM II, 396. 1847, 20 hdr. JJ, 74. „Gömul jörð, 20 hundruð að fornu mati. […] Hvolshjáleiga er nefnd í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1706.“ Sunnlenskar byggðir III, 393.
Ekki er til túnakort af heimatúninu.
“Bæjarhóll. Lítill, gróinn hóll. Þar stóð bærinn áður,” segir í örnefnalýsingu Hvols a. “[…]. Bæjarhóll var þar sem Hvoll I er núna. Honum var rutt þegar nýja íbúðarhúsið var byggt, fyrir um það bil 35 árum,” segir í örnefnalýsingu. Bærinn var líklega fast vestan við íbúðarhús sem var reist árið 1963 á Hvoli þar sem bílastæði er nú (2016) og heimreið kemur að bænum. Ekki er til túnakort af jörðinni og þekkingarrof mikið. Það er því ekki hægt að staðsetja bæinn nánar en hér er gert. Einungis er hægt að geta þess að skv. herforingjaráðskorti frá 1908 lágu þjóðleiðir að bænum úr vestri og líklegt er að stafnar hafi snúið í þá átt. Á ljósmynd af bænum sem tekin er um 1980 og birt í Sunnlenskum byggðum III sést upphækkun fyrir norðan 20. aldar útihús. Þetta er suðvestan við íbúðarhúsið, ekki er ólíklegt að þetta sé uppmokstur vegna framkvæmda eða hluti af bæjarhólnum. Þessi hóll sést ekki lengur.
Á þessum slóðum er bílaplan, fjós og hestagerði núverandi íbúðarhúss jarðarinnar. Þessu til viðbótar er bakgarður umhverfi s húsið og greina má hávaxinn og ósamfelldan trjágróður á því svæði.
Samkvæmt Ólafi H. Einarssyni, heimildamanni, komu mannvistarleifar í ljós þegar bygging áföst íbúðarhúsinu var reist á fyrsta áratugi 21. aldar. Ekki er ólíklegt að það hafi verið hluti af bæjarhólnum.
Ekki er hægt að áætla stærð bæjarhólsins né hæð vegna jarðrasks.

Ámundarétt (rétt)

Ölfus

Ámundarétt.

“Ámundarétt. Stór klettur og hleðsla hjá skammt fyrir ofan veginn,” segir í örnefnaskrá. Ámundarétt er rúmum 1,6 km fyrir norðaustan bæ og rúmum 700 m suðaustan við stekk. Réttin er byggð upp við stakstætt bjarg, milli tveggja þjóðvega. Þjóðvegur sem gerður var 1908 er fast norðan við tóftina en vegur frá 20. öld er 20-30 m sunnar. Réttin sést lítið fyrr en að henni er komið. Í skýrslunni Skráning menningarminja í Ölfusi sem var gerð um 1980 segir: “Ámundarétt. Gömul hleðsla við stóran klett. Sagnir herma, að Ámundi þessi hafi verið veinn þar. Erlendur á Strönd í Selvogi hafi verið þar að verki.”
Réttin er í suðaustarlega, inn á milli kletta sem hafa fallið niður hlíðar Ingólfsfjalls. Ámundamúli er fast austan við réttina, á merkjum milli Hvols og Þórustaða. Brekkan er gróin.
Þjóðvegur er fast við réttina og raskar henni nokkuð. Kletturinn myndar suðurvegg réttarinnar, en að öðru leyti eru þeir grjóthlaðnir. Réttin er 21×14 m að stærð, einföld og snýr austur-vestur. Ekkert op sést inn í hana á yfirborði. Norðausturhluti hennar er raskaður, líklega vegna þjóðvegarins. Veggirnir eru gerðir úr stórum steinum og sést enn eitt umfar. Grjótið er tekið úr Klettabrekku. Veggirnir eru 0,2-0,3 m á hæð. Kletturinn er 3 m á hár og snarbrattur inni í réttinni, hann lækkar til suðurs.

Kögunarhóll/Knarrarhól (þjóðsaga/legstaður)

Ölfus

Kögunarhóll – Collingvood 1896.

Í bókinni Frásögur um fornaldarleifar frá 1821 segir: «… hier nærst ma teliast Knarar eda Kogunarholl, ad mestu allt umm kring grasivaxinn mikid stór holl sem stendur framann undir landsudurs horni a firrnefndu Jngolfs fi alli, inn i þennan hól er sagt ad Ingolfur hafi att ad lata Skip sitt.» Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu frá 1840 segir: «Í útsuður fyrir neðan fjallið stendur upphár, ávalur, graslaus hóll, aðeins laus við það, en nú nefnist Kögunarhóll, en að fornu var kallaður Knörhóll, og lætur alþýða sér um munn fara, að Ingólfur hafi þar í sett skip sitt.» Í bókinni Íslenskir sögustaðir frá 1873 segir: «keilu- eða toppmynduð hæð, Kögunarhóll, sem áður fyrr á að hafa heitið Knörrhóll, þar sem munnmæli segja, að Ingólfur hafi sett skip sitt.“
«Kögunarhóll. Strýtumyndaður hóll, sunnan vegar, lítið gróinn nema að vestan. Af hólnum er mjög gott útsýni til flestra átta. Sérstaklega hefur vel sézt til mannaferða um Ölfusið, eins og leiðir lágu, áður en gerðir vegir komu […] Þjóðsögur herma, að Ingólfs landnámsmanns sé heygður í hólnum og heiti hann Knarrarhóll. Engan hef ég heyrt bera sér það í munn sem lifandi örnefni.»
Kögunarhóll stendur suðvestan við Þjóðveg 1, ekki langt frá rótum Ingólfsfjalls og rúmum 940 m frá bæ. Hóllinn er áberandi og Þjóðvegur 1 liggur fast norðan hans. Hóllinn er stór og ekki mjög gróðursæll. Þar vex þó nokkurt gras en mikið er af berum malarsvæðum á honum, þá sérstaklega á toppi hólsins, þar sem gróðurþekja er mjög slitin.
Hóllinn er frekar hringlaga og mjög stór. Á toppi hans sést mjög vel til allra átta.

Hvolshjáleiga (býli)
“Hjáleiga hefur verið með jörðinni, en nú í auðn yfir 20 ár en bygðist þó fyrri ei lengur en um 10 ára tíma og var kölluð Hvolshiáleiga.” segir í örnefnalýsingu. Óvíst er hvar hjáleigan stóð og frekari þarf upplýsingar svo að hægt sé að staðsetja hana með innan við 50 m nákvæmni.

Kirkjuferja (býli)

Ölfus

Kirkjuferja.

“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum og hefur ei tíundast so lángt menn minnast” JÁM II 395. „42 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1397: „LXXXI. Kirkiuferia. Ad Kirkiuferiu fylger fylger kyr oc ein ær. Hun a jnnan sig krossa .ij. crucifi xum j hvsi med vnderstodumm. paxspialld. kluckur .ij. alltarizklædi oc dvkur. nportio Ecclesiæ vmm .x. är næstu .ijc. fellur nidr .ij. merkur af portione firir vppgiord a kirkiunni“. DI IV, 92.
1544: „skylldi [sr. Jón Bjarnason] suara halfkyrkiunni a Kyrkiuferiu þeim iiij kugilldum sem eg atti ad suara.“ DI XI, 295.
1545: segir Gissur biskup í minnisgrein að ráð sé fyrir gert að Arnór Eyjólfsson skuli taka 4 kúgildi “sem nu uoru radstafalaus og fylgt hafa kirkiuferiu enn ec skal sialfur j suari uid kirkiuna vm þau kugilldi.” DI XI, 450.
1569: „16.9.1569 selur Vigfús Jónsson með samþykki Ólafs bróður síns Skálholtsdómkirkju Kirkjuferju, og var kaupahlutinn 30 hdr að dýrleika en kirkjuhlutinn 10 hdr og fylgdu jörðinni 8 málnytukúgildi.“ DI XV, 313.
“Landamerki: Úr Mókeldukjafti við Ölfusá lína til norðurs í Árnadys (sjá Auðsholt). Þaðan í hol norðan við Hvolsskyggni (Hvolsborg/[Ferjuborg?]). Þaðan lína til austurs í hornmark Hvols og Þórustaða. Þaðan lína til suðurs í Ölfusá, milli Kirkjuferju og Þórustaða. Þessi mörk eru ekki gildandi nú. Bræðrabýli hefur fengið drjúga landspildu af Hvolslandi.” Ö-Kirkjuferja, 1.
1917: Tún 5.5 ha, þar af c. 1/4 slétt. Garðar 960 m2.
“Tvíbýli var lengi á Kirkjuferju […] Bærinn á Kirkjuferju hefur staðið á sama stað og hann er nú,” segir í örnefnalýsingu. Bærinn er einnig sýndur á túnakorti frá 1920, nyrst í túninu. Komið er að bænum úr austurátt, ekið er framhjá Kirkjuhól, þá hesthúsum og svo að gamla íbúðarhúsinu. Yngra íbúðarhús er um 80 m vestar. Samkvæmt Guðmundi Baldurssyni, heimildamanni, hefur bærinn og útihúsin alltaf verið á þessu svæði, og þá um leið á bæjarhólnum.
Gamla íbúðarhúsið er á miðjum bæjarhólnum, í smá halla. Það ber meira á kjallara þess sunnan til, þar er bakgarður hússins. Norðan við húsið er bílastæði.
Bæjarhóllinn er um 60×30 m að stærð og snýr austur – vestur. Íbúðarhúsið er byggt 1956, er með niðurgröfnum kjallara og er í beinni línu við Kirkjuhól 002. Hesthúsin eru á austurhluta
bæjarhólsins en ekki er ljóst hvernig afmörkunin er til norðurs og vesturs. Þar eru bílaplön og gróin tún. Mikið af hríslum er við hesthúsið og upphækkun á landi eins og á bæjarhólnum. Eldri bærinn var nærri
íbúðarhúsinu og snéri stöfnum til suðurs. Ekki er hægt að áætla hæð bæjarhólsins vegna jarðrasks en hann er 1-2 m á hæð að sunnan.

Kirkjuferjukirkja (kirkja)

Ölfus

Kirkjuferjukirkja.

1397: LXXXI. Kirkiuferia. Ad Kirkiuferiu fylger fylger kyr oc ein ær. Hun a jnnan sig krossa .ij. crucifi xum j hvsi med vnderstodumm. paxspialld. kluckur .ij. alltarizklædi oc dvkur.nportio Ecclesiæ vmm .x. är næstu .ijc. fellur nidr .ij. merkur af portione fi rir vppgiord a kirkiunni; DI IV, 92. 1544 skylldi [sr. Jón Bjarnason] suara halfkyrkiunni a Kyrkiuferiu þeim iiij kugilldum sem eg atti ad suara – DI XI, 295. [1545] segir Gissur biskup í minnisgrein að ráð sé fyrir gert að Arnór Eyjólfsson skuli taka 4 kúgildi “sem nu uoru radstafalaus og fylgt hafa kirkiuferiu enn ec skal sialfur j suari uid kirkiuna vm þau kugilldi.” DI XI, 450. 16.9.1569 selur Vigfús Jónsson með samþykki Ólafs bróður síns Skálholtsdómkirkju Kirkjuferju, og var kaupahlutinn 30 hdr að dýrleika en kirkjuhlutinn 10 hdr og fylgdu jörðinni 8 málnytukúgildi – DI XV, 313. “So segja menn hjer jafi að fornu kirkja verið; sjást enn nú merki kirkjugarðs, og er þar nú tóftarstæði eftir, sem kirkjan skyldi staðið hafa. Enginn minnist hjer hafi tíðir verið fl uttar,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Í örnefnaskrá segir: “Kirkjuhóll. Hóll austur á túninu, sunnan vegar. Álagablettu: Blettur við hólinn, sem ekki mátti slá (sennilega tún huldufólksins, sem í hólnum bjó).” Kirkjuhóll er um 75 m norðaustan við bæ, austan við hesthús og gamla íbúðarhúsið. Hóllinn er sunnan megin við núverandi heimtröð sem liggur meðfram honum.
Svæðið er í mikilli notkun og áberandi ummerki eftir yfi rferð stórra vinnuvéla. Svæðið er afgirt og notað sem bithagi fyrir hesta. Fyrst var komið að Kirkjuferju árið 2004 í tengslum við skráningu á bænhúsum á Íslandi. Miklar breytingar hafa átt sér stað síðan, nú er Kirkjuhóll innan svæðis sem ekki er nýtt og þar er mikill gróður. Nýtt hús var byggt norðvestan við hesthúsið en raskaði ekki Kirkjuhól.
Það litla sem ennþá sést er líklega skemmt af umferð og gæti orsakað skrítið lag tóftarinnar. Það má sjá að eitthvað mannvirki var þarna er það er tiltölulega mikill ágangur svo erfitt reyndist að áætla skörp skil. Tóftin er 8×7 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Veggirnir eru 0,15 m á hæð og algrónir.

Álagablettur (álagablettur)

Ölfus

Kirkjuhóll.

“Álagablettur. Blettur við hólinn [Kirkjuhól], sem ekki mátti slá (sennilega tún huldufólksins, sem í hólnum bjó,” segir í örnefnalýsingu. Álagablettur er ekki við Kirkjuhóll að sögn Guðmundar Baldurssonar, heimildamanns, og það er villa í örnefnalýsingunni. Álagabletturinn er rúmum 90 m norðvestan við bæ og 50 m vestan við útihús. Þar er strýtumyndaður hóll og stuðlaberg syðst í honum. Ekki eru frekari sagnir tengdar þessum hól eða huldufólkinu sem í honum bjó. Hóllinn er 2-3 m á hæð og klettar syðst í honum. Þeir eru 2,5 m á hæð en aðrar hliðar eru grónar. Umhverfis hólinn er gróin brekka og hér og þar smá hólar og mishæðir. Vegslóði er fast norðaustan við hólinn.

Hjáleigutóft (býli)
“Hjáleigutóft. Tóftarbrot austan Kinnar,” segir í örnefnalýsingu. Hjáleigutóft var líklega nýtt frá Kirkjuferjuhjáleigu smbr. örnefnið. Tóftin var uppi á hæð, rúmum 260 m norðan við bæ. Þar er lítill hryggur og þar var Hjáleigutóft. Hólinn er nú beittur hestum og þar er tún. Þar er grasivaxið, óræktað svæði. Það er í aflíðandi halla til suðvesturs, niður holtið sem bæirnir eru á.
Engin ummerki um minjar sjást á yfi rborði.

Völukirkja/Kirkjuhóll (þjóðsaga/huldufólkssaga)

Ölfus

Völukirkja.

“Völukirkja. Strýtumyndaður hóll, að hluta úr stuðlabergi, með fuglaþúfu á. Kunn úr þjóðsögum sem álfakirkja. Guðjón hafði þá sögn eftir Birni bóndi, samkvæmt heimildum móður hans, Ingigerðar, að kona frá Kirkjuferju var á leið til kirkju að Arnarbæli. Átti hún leið fram hjá Völukirkju. Settist hún þar niður til að fara í sokkana. Hún hafði gengið berfætt yfi r mýrina og Rauðukeldu. Heyrði hún þá sungið inni í Völukirkjunni. Sálmaversið nam hún, og var það ekki í sálmabók hinnar íslenzku þjóðkirkju. „Hjá Völukirkju gengu menn ávallt með mestu virðingu við huldufólkið.” (Halldóra Jónsdóttir),” segir í örnefnaskrá. Völukirkja er tæpum 1,5 km vestan við bæ, rétt austan við landamerki við Auðsholts. Þetta land tilheyrir í dag Kirkjuferjuhjáleigu.
Völukirkja er syðst í holtaröð sem er á merkjum Kirkjuferju og Auðsholts. Þarna raðast nokkur stuðlabergsholt frá norðri til suðurs, Völukirkja er syðst og minnst. Hóllinn er um 30×15 m að stærð, brattur og áberandi. Austurhlið holtsins er með stuðlabergi en til vesturs er hún lægri og grónari. Hóllinn er 3-5 m á hæð.

Móra (þjóðsaga/draugur)

Ölfus

Móruhóll.

“Móra (Móruhóll). Hóll austur í Móru. Þar var draugur, og sumir veiktust, sem voru þar á ferð í myrkri,” segir í örnefnalýsingu. Móra er um 980 m norðvestan við bæ og tæpum 400 m norðan við rétt. Hóllinn er í norðvesturhorni jarðarinnar, milli Ferjukots (nýbýli) og Kirkjuferjuhjáleigu. Umhverfis Móru er mýrlendi og óræktuð tún. Hóllinn er á víðfeðmu svæði og sést víða að.
Móra er 4×2 m að stærð og 1,5 m á hæð. Hólinn snýr svo að segja austur-vestur og er strýtulaga, svo og heildargróðurþekja mikil. Gróður er fremur lágvaxinn og á vissum stöðum glittir í mosagróið bjarg og klappir. Einnig eru smáir moldarflagsblettir sjáanlegir á víð og dreif á hólnum.

Gilsbakki (býli)

Ölfus

Gilsbakki.

“Þurrabúð, sem stóð austan við Rásina, suðaustur af núverandi Hjáleigu. Í byggð í skamman tíma eftir síðustu aldamót,” segir í örnefnalýsingu. Býlið stóð um 440 m norðan við bæ, austan við núverandi heimreið. Þar er nokkur dæld í landslaginu þar sem girðingin liggur samsíða þjóðveginum og mætir honum. Þarna er nú óræktað grasivaxið svæði sem hallar til austurs. Það er nokkuð blautt og deiglent undir.
Minjarnar eru mjög grónar og vex þar hátt og mikið gras. Þar sést óljós veggur sem liggur austur-vestur.
Hann er um 4 m langur og beygir til suðurs þar sem örlítill og óljós veggur er varðveittur. Veggurinn er um 0,4 m á hæð. Dæld er í landslaginu þar sem býlið hefur staðið.

Kirkjuferjuhjáleiga (býli)

Ölfus

Kirkjuferjuhjáleiga.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir, líklega um Kirkjuferjuhjáleigu sé tekið mið af lýsingum af staðsetningu: „Önnur hjáleiga efst menn að hjer hafi verið til forna: líkindi eru þar til fornar tóftaleifar og garða, og er ómögulegt að hjer eftir að byggjast kunni nema til meins heimajörðinni. Liggur þetta byggingarlag utangarðs og má ei byggjast ábúendanum án skaða.“ JÁM II; 396.
Hjáleiga frá Kirkjuferju. “Þessi jörð hefur yfirleitt verið jafnstór aðaljörðinni, Kirkjuferju, og eru landkostir jarðanna svipaðir.” SB III, 391.
1917: Tún 2.9 ha, þar af c. 1/2 slétt. Garðar 352 m2.
Bærinn er merktur í norðvesturhluta heimatúnsins á túnakorti frá 1920. Þar er einnig sýndur kálgarður fast sunnan við bæinn. Í Sunnlenskum byggðum III segir: “[b]ærinn stóð áður sunnan í holtinu, en var færður upp á holtið 1940.” Í örnefnaskrá segir: “Gamla-Hjáleiga. Sýnilegar leifar af gamla bænum, áður en byggðin var færð norður fyrir túnið.” Bær 001 er tæpum 120 m sunnan við yngra bæjarstæðið og tæpum 20 m vestan við akveg að Kirkjuferju. Bæjarhóllinn sést vel þegar ekið að Kirkjuferju, uppi í holtinu. Bærinn er á sama holti og Kirkjuferja, um 270 m eru á milli bæjanna.
Bæjarhóllinn er ofarlega á náttúrulegum hól sem er hluti af ósléttuðu túni. Landið er algróið og smáþýft.
Til norðurs og vesturs er sléttað tún og það nýtt til hrossabeitar. Bæjarhóllinn er 32×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er nær óraskaður ef frá er talinn norðvesturhlutinn, hann er sléttaður vegna túnagerðar.

Kotströnd (býli)

Ölfus

Kotströnd.

“Jarðdýrleiki er óviss, því engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 404. „22 hdr, 1847.“ JJ, 75.
1917: Tún 3.8 ha, þar af c. 4/5 slétt. Garðar 1221 m2.
Bærinn stóð í miðju heimatúninu, uppi á lágu holti sem þar er. Það er víðsýnt til allra átta. Stafnar bæjarins snéru til suðurs en ekki virðist hafa verið sambyggður kálgarður þar. Það er mikið rask á þessu svæði og erfi tt að greina bæjarhólinn á holtinu. Miklar breytingar hafa einnig átt sér stað í túninu og allt landlagið breytt frá því áður var.
Þar sem bærinn stóð eru steinsteypt útihús frá 20. öld til norðurs, malarplan til suðurs frá þeim og vegslóði.
Núverandi íbúðarhús er fast vestan við bæjarhólinn. Hluti 20. aldar útihúsanna eyðilagðist í jarðskjálfta 2008 og voru rifin.
Ekki er hægt að áætla stærð bæjarhólsins vegna allra þeirra framkvæmda sem þarna hafa verið á síðustu öld. Núverandi íbúðarhús er grafið inn í suðvesturhorn holtsins, líklega rétt utan við bæjarhólinn. Sagnir eru þó um að þar hafi komið upp mannvist. Ekki er vitað hvort að mannvistarlög komu upp þegar útihúsin norðan við bæinn voru byggð á 20. öld og um leið líklega á bæjarhólnum. Uppmokstur úr þeim framkvæmdum var settur í tjörn sem var austarlega í heimatúninu, fast sunnan við kirkjugarðinn. Það er að öllum líkindum búið að grafa stóran hluta bæjarhólsins í burtu og þá um leið mannvistarlög þrátt fyrir að þekkingin um þau hafi ekki varðveist. Fyrir sunnan bæjarhólinn er gróið svæði sem nýtt er til beitar. Heimildamaðurinn var ekki viss hvar nákvæmlega á bæjarhólnum bærinn stóð, hann gæti hafa verið skammt austar en þar er mun minna jarðrask.

Kotstrandarkirkja (kirkja)

Ölfus

Kotstrandarkirkja.

“Kirkjutún, sléttur túnblettur sunnan undir kirkjugarðinum, sem nú er orðinn grafreitur,” segir í örefnalýsingu.
Í Sunnlenskum byggðum III segir: “Kirkjan var byggð sumarið 1909 og vígð 14. nóv. Um haustið. […] Yfi rsmiður var Samúel Jónsson frá Hunkubökkum á Síðu (faðir Guðjóns húsameistara). Kirkjuhúsið úr timbri, járnklætt, 85 m2 að fl atarmáli. […] Gtafreiturinn var tekinn í notkun um sama leyti og kirkjan. Nokkru síðar var hann afgirtur með grjótgarði. Efnis í þá girðingu var hægt að afla með vinnu sem kostaði þá ekki beina peninga. Grjótið var flutt á vögnum um 3 kmm leið og prýðilega byggt úr því. Sá garður stóð óhaggaður þar til kirkjugarðurinn var stækkaður. Efnis dugði þá aðeins á tvo vegu um kirkjugarðinn.” Kirkjan er um 120 m NNA við bæ, líklega rétt utan heimatúnsins. Hún er ekki sýnd á túnakorti frá 1920 sem bendir einna helst til þess að hún hafi verið utan þess. Kirkjan er reist 1909, þegar kirkjur á Arnarbæli og Reykjum voru lagðar niður, fyrir þann tíma var ekki kirkja á Kotströnd. Kirkjan er ennþá í notkun og tilheyrir Hveragerðisprestakalli.

Steinvararhús (býli)
“Bær var í túninu, kallað Steinvararhús. Kona að nafni Steinvör hafði búið þar,” segir í örnefnalýsingu.
“Steinvararhús er ekki lengur til. Búið er að slétta allt út. Sigmar man eftir húsinu; það var síðast haft fyrir fé,” segir í athugasemdum við örnefnalýsingu. Ekki er vitað hvar Steinvararhús var staðsett, ekki fannst heimildamaður fyrir jörðina nema að hluta. Þekkingin um staðsetninguna hvarf að öllum líkindum með Sigmari. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja býlið en það var innan heimatúnsins líkt og segir í örnefnaská.

Bali (býli)
“Upp með ánni var kallaður Bali. Þar var gamalt býli, og var þar tekinn mór,” segir í örnefnalýsingu. Í örnefnalýsingu Sigmars Sigurðssonar segir: „Bali: Þurrlendur, kúptur mýrarfláki; er norður við Gljúfursmörk.“ Í skýrslunni Fornleifaskráning vegna skipulags í Ölfusi segir að engin ummerki um býlið sjáist á yfi rborði. Hnitið í skýrslunni lendir hins vegar skammt sunnan við beitarhús 012 og það er nokkuð langt frá staðsetningu þess í örnefnaskrám. Bali var líklega vestan við mógrafir, þar er holt en engin mannvist sést þar. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja staðinn með betri nákvæmni en hann var rúmum 1,7 km norðan við bæ.
Þetta svæði er mýrlent, framræst og mjög gróið. Það er nýtt til hrossabeitar.

Klettar (þjóðsaga/huldufólksbústaður)
“Í klettunum (?) var sögð vera kirkja; þar mátti ekki hreyfa stein,” segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað í hvaða klettum þessi kirkja var. Líklega eru það þó klettarnir norðan við heimatúnið sem átt er við, innan nýbýlisins Mæri. Frekari heimildir þarf til þess að staðfesta það.
Að sögn Þorsteins Gunnarssonar, heimildamanns, var álagablettur í hlaðinu á Kotströnd. Hann er um 20 m sunnan við bæ og 30 m norðan við Kotstrandarbrunn. Álagabletturinn er fast við núverandi heimreið að bænum. Heimreiðin er malbikuð og skjólbelti er fast austan blettsins. Hóllinn er 7×5 m að stærð og snýr norðvestursuðaustur. Beinn bakki er til suðvesturs í hólnum, mögulega vegna vegagerðar þegar heimreiðin var malbikuð. Í hólnum glittir víða í grjót án þess að um greinileg umför sé að ræða. Hóllinn er 0,3-0,5 m á hæð og algróinn.

Gljúfur (býli)

Ölfus

Gljúfur.

“Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 397. 30 hdr. 1847. JJ, 75.
“Landamerki: Úr Sauðaklöpp, til austurs í Langanef. Þaðan til norðurs í Orustuhól, þaðan lína í Sandfell. Þaðan, til norðvesturs stefna í Efjumýrarvörðu (sjá Sogn), í miðgilið í Klyftartungum, síðan Gljúfurá og Gljúfursá móts við Sauðaklöpp.” Ö-Gljúfur, 1.
1917: Tún 5.9 ha, þar af c. 7/8 slétt. Garðar 1584 m2.
Samkvæmt túnakorti frá 1920 og Stefáni Jónssyni, heimildamanni, var bær vestan við núverandi íbúðarhús, nánast í miðju heimatúninu. Nú er þar skemma, önnur útihús frá 20. öld og heimahagi.
Nýtt íbúðarhús var byggt árið 1964, um 40 m austan við bæjarhólinn, en eldra íbúðarhús sem byggt á fyrrihluta 20. aldar sést á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Það hús eyðilagðist í jarðskjálfta árið 2000 en það var á vesturhluta bæjarhólsins. Bærinn á túnakortinu var undir útihúsunum, fast austan við staðsetningu eldra íbúðarhússins. Bærinn snéri stöfnum til suðurs og kálgarður var þar framan við, niður holtið sem bærinn er á.
Tún í órækt er sunnan við hólinn, í vesturhluta hans eru tré sem áður voru í bakgarði íbúðarhússins sem var rifið. Til annarra átta eru grasivaxin ræktuð tún.
Bæjarhóllinn er 50×35 metrar að stærð og snýr í austur-vestur. Hann er 0,2-0,4 m á hæð og fjarar út til suðurs. Bæjarhóllinn er horfi n til norðurs, þar eru 20. aldar útihús og malarplan. Ekki mótar fyrir upphækkun þar í landslaginu. Til vesturs sést bakki, um 0,2 metra hár. Þar var eldra íbúðarhúsið og sunnan megin við það hefur verið kálgarður til suðurs og austurs. Engin merki um tóftir sjást á honum og skemman hefur efl aust raskað honum þar sem hún
stendur. Það er greinilegt að mannvist er enn hér undir sverði, þrátt fyrir mikið jarðrask.

Gljúfurshellir (hellir/fjárhús)

Ölfus

Gljúfurhellir.

“Gljúfurshellir: (Hellirinn) Sandsteinshellir ofanvert (norðaustur) í Neðragilinu vestanverðu. Notaður lengi sem fjárhús,” segir í örnefnaskrá. “Gljúfurshellir er í lækjargili austan bæjar um 100 m neðan þjóðvegar. Nýleg fjárhús standa við læk nokkru ofan við hellinn.” segir í bókinni Manngerðir hellar á Íslandi. Hellirinn er tæplega 550 m suðaustan við bæ og rúmlega 170 m vestan við nýleg fjárhús sem nefnd eru í Manngerðum hellum. Hellirinn sést ekki frá fjárhúsunum og ekki fyrr en komið er nær honum, hann er í gilinu norðanmegin.
Uppspretta er í gólfi nú innan við hellismunnann, en hún sést ekki lengur þar sem byggt hefur verið yfir hana. Hún rennur í lækinn sem er 3 metrum frá hellismunnanum. Litlir kindastígar liggja að hellinum beggja vegna við hann að norðan. Gilbotninn er grasigróinn, smáþýfður með villiblómum. Hellismunninn er tveim metrum ofan við lækinn.
Í bókinni Manngerðir hellar á Íslandi er hellinum lýst. Þar segir: «Hann er grafi nn í sandsteinsvöluberg, lárétt lagskipt með víxillaga linsum. Hellirinn er allur á breiddina sem er 10-11 m en dýpt hans inn í bergið er 6 m fyrir miðju en 5 m til endanna. Lofthæðin er 2,0-2,5 m. Muninn er jafnvíður hellinum sjálfum 10 x 2,5 m en honum hefur verið lokað með hlöðnum vegg sem á eru dyr fyrir miðju. Lítið uppsprettuauga er í gólfi nu innan við munnann og smáspræna rennur út um hann í aðallækinn. Leifar af jötum sjást með veggjum […] Hellirinn var hafður undir fé, en aflagður fyrir 20 árum. 70 ær voru við hellinn segir Gljúfursbóndi.» Litlu er við þessa lýsingu að bæta. Steypt hefur verið utan með hleðslunum og sést aðeins í þær fyrir ofan steypuna. «Örfáar unglegar áletranir eru á veggjum. Þar er m.a. hakakross.» segir einnig í Manngerðir Hellar á Íslandi. Áletranirnar eru mjög ógreinilegar en tveir hakakrossar eru enn sjáanlegir. Steypustyrktarjárn og bárujárn eru í hellismunnanum, ekki sést lengur móta fyrir jötum. Veggirnir eru mosavaxnir og gólfið er moldargólf með smásteinum. Hæð veggjar er fyrir dyrunum er 1,2 metrar en veggir hellisins eru aflíðandi.

Gljúfurseldalur (sel)

Ölfus

Gljúfursel.

“Suður frá [Stórkonugilsbotnum] er Sognseldalur og Gljúfurseldalur,” segir í örnefnalýsingu Hengils. Á heimasíðu Ferlis segir: „Í Seldalnum eiga skv. framangreindu að vera tvær selstöður í tvískiptum Seldal, annarsvegar í Gljúfurseldal og hins vegar í Sognsseldal, ofan Sogns. Sognasel er í gróinni tungu norðan áa er koma úr Sognabotnalæk og gili norðanvert í dalnum. Vel sést móta fyrir tóftum.
Gljúfursel er austan við ána í Seldal, þar í gróinni kvos. Vatnsstæði er í kvosinni og í henni rétt sést móta fyrir tóftum. Um er að ræða mjög gamalt sel frá Gljúfrum. […] Skv. lýsingu Björns átti selstaðan að hafa verið austanvert í dalnum. Einungis tók skamman tíma að fi nna tóftina. Hún hefur verið felld inn í gróinn bakka og sjá má móta fyrir rýmum vestan við hana. Kaldavermsl eru sunnan við tóftina, sem án efa hefur verið hin ágætasta uppspretta.“ Ekki er hægt að sjá tóftir í Gljúfurseldal, dalurinn er lítill og vel afmarkaður. Sé tekið mið af lýsingum Ómars Smára Ármannssonar á heimasíðu Ferlis er einungis einn staður sem passar við lýsingar hans á staðnum. Selið var rúma 200 m norðaustan við Sognsel og rúmum 1,8 km norðan við bæ.
Austurhluti Gljúfurselsdals er gróinn og brattar brekkur afmarka þann hluta til austurs. Landið fer lækkandi til vesturs, að ánni, og rakt undirlendi er þar á kafla. Lækur rennur til vesturs, syðst í dalnum, og sameinast ánni. Selið var að öllum líkindum þar, á bakkanum sé tekið mið af lýsingum Ómars Smára. Ekki er hægt að greina mannvist á þessu svæði. Þegar skrásetjari var á ferðinni var mikill gróður þarna, allt að mittishár. Þarna eru þýfðir bakkar en ekki hæft að greina neina lögun eða tóftir í þeim.

Sogn (býli)

Ölfus

Sogn.

“Jarðdýrleiki xx og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 398. 20 hdr. 1847. JJ, 75“.
1542: Þann 11.janúar 1542 var kveðinn upp dómur þriggja klerka og þriggja leikmanna um kæru Gissurar biskups Einarssonar í Skálholti á hendur Eyjólfi Jónssyni á Hjalla. Sakaði biskup Eyjólf m.a. um að hafa tekið sér fjögur kúgildi úr Sogni. DI X, 698 – 699.
Landamerki: Skráð eftir minni úr landamerkjabréfi , afriti úr embættisbókum sýslumanns, sem var í eigu foreldra minna, en látið af hendi þegar þau fóru frá Sogni (1935)… Gljúfurá… er markaá milli Sogns og Gljúfurs, austan Sognslands, allt þar til Gljúfurholtslands tekur við. Mörkin eru úr steini (merktum) efst við Haukamýragljúfur, þvert vestur í Stórumýri í “stefnu á Varghól” (svo í bréfi nu) í hlaðna vörðu (Markavörðu) vestur undir Múla (sjá Reykjatorfu). Nú er girðing á þessum mörkum… Frá áðurnefndri vörðu bein lína um Fögrubrekku (miðja) til norðurs í vörðu, sem er austan á Álút (hana hef ég ekki séð), þaðan í Efjumýrarvörðu. Þaðan á sveitarmörkum Grafnings og Ölfus stefna til suðausturs í Sandfell (Gljúfur), skammt ofan við Klyftartungur. Þar eru 3 gil og mörkin talin um miðgilið, sem rennur í Gljúfurá, svo er það hún og Gljúfursáin.” Ö-Sogn, 1.

Ölfus

Sogn – túnakort 1918.

Árið 1970 keypti Náttúrulækningafélag Íslands Sogn og stundaði þar garðyrkju. Í ágúst 1978 hófu Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann rekstur eftirmeðferðarheimilis í Sogni. Nú er rekin þar réttargeðdeild fyrir afbrotamenn. Nú er rekið fangelsi á jörðinni og hún nýtt til beitar.
1917: Heimatún 4.9. Fjárhústún 1.0 ha, alls 5.9 ha, allt slétt. Garðar 1250 m2.
“Bæjarnafninu Sogn hafa ýmsir velt fyrir sér og sett það í samband við norsku merkinguna Sogn (fjörður). Afi minn Ögmundur Ögmundsson bar það ævinlega fram Sodn eða Sotn. Í tilvitnun í handrit í Þjóðsögum Jóns Árnasonar III, bls. 48 er sagt að í handriti standi Soðn. Kannske er þarna á ferðinni eldri mynd af nafninu,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslunni Hengill og umhverfi eftir Kristinn Magnússon segir: “Bæjarhóllinn er um 50 m vestsuðvestan við hús Réttargeðdeildarinnar á Sogni. Þar sjást engar rústir en aðeins vottar fyrir hól í sléttuðu, grasi grónu túni. Hóllinn er um 45m í þvermál. […] Gamla bæjarstæðið á Sogni hefur verið sléttað. Enn stendur þó eftir áberandi hóll sem eflaust geymir leifar bygginga og mannvistarlaga frá þeim tíma er bærinn stóð á þessum stað..” Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920, suðvestarlega í heimatúninu. Hann er um 130 m vestan við núverandi byggingar á Sogni.
Bærinn brann en ekki er vitað hvenær, í kjölfarið var hann fl uttur. Stafnar eldri bæjarins snéru til suðurs og þaðan víðsýnt yfir Ölfusforir.
Sléttað var yfir bæjarhólinn en þar eru ekki byggingar á yfirborði. Hóllinn er sléttur, grasivaxinn og sést sem hæð í túninu. Hann er 50×30 m að stærð, 0,2-1 m
á hæð og snýr austur-vestur. Vírgirðing liggur yfir vesturhluta hans, meðfram Bæjargilinu.

Stóri-Hellir (fjárskýli)

Ölfus

Stóri-Hellir.

“Stóri-Hellir: Hellisgjögur í bergið ofan Hellisbrekku, sunnarlega í fjallinu, var notaður sem fjárhús áður. Notaður sem rétt þegar ég þekki til. Tók 100 kindur í innrekstri,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Stóri-Hellir er svo 98m suðsuðvestar. Fyrir framan þann helli er einnig hleðsla eða veggur sem er allt í allt um 6,7m á lengd og um 0,5m á hæð.

Ölfus

Stóri-Hellir.

Veggurinn hefur myndað einskonar aðhald og beint fénu inn í hellirinn sem bæði var nýttur sem fjárhús og rétt.” Hellirinn er um 300 m suðvestan við bæ og 100 m sunnan við Litla-helli 010. Hann er enn uppistandandi en ekki nýttur.
Hellirinn er í Hellisbrekku, þar á mörkum kletta og gróinnar brekku. Efst í brekkunni eru háir hamrar en gróin brekka neðan þeirra, niður að Hellismýri. Hellirinn er náttúrulegur og mesta lofthæð er 1,5 m. Hann er opin til austurs og þaðan er víðsýnt. Innst í hellinum eru tvö lítil gjögur, mögulega var hægt að skipta honum í fleiri hólf. Það eru þó ekki berghöld eða aðrar ristur í veggjum hellisins sem styðja þá tilgátu. Hleðslan fyrir framan hellinn sést enn, hún
er afar sigin. Hún er líkust öngli í laginu, og snýr norðaustur-suðvestur. Það er gróið yfir alla steina í veggnum. Réttin var opin til suðurs.

Litli-Hellir (fjárskýli)

Ölfus

Litli-Hellir.

“Litli-Hellir: Lítið gjögur undir stóru bjargi, sem fallið hefur úr fjallinu. Þar voru í mínu minni, hlaðnir kampar og einhvern tíman notað sem fjárhús,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristin Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Fyrir framan hellisskútann eru grasi grónar hleðslur, um 0,4m á hæð. Þessi veggjastubbar eða hleðslur hafa myndað inngang inn í hellinn sem var nýttur sem fjárskýli.” Litli-hellir er tæpum 230 m vestan við bæ og um 80 m sunnan við Trippakofa.
Litli-hellir er í gróinni brekku, neðarlega. Allt umhverfis er gróið svæði sem nýtt er til beitar. Litli-hellir er lítill og þegar skásetjari var á ferðinni var mikið gras á svæðinu sem gerði minjarnar óskýrar. Hellirinn er um 0,8-1 m á hæð, skrásetjari komst ekki inn í hellinn. Tóftin er fyrir austan hellinn. Hún er 4×2 m að stærð og snýr austur-vestur. Tóftin er opin til austurs en hvergi sést glitta í grjót í veggjum.

Kot (býli)
“Kot: (upp í Kot, uppi í Kot) Þar var bær ( í byggð 1896). Mun hafa verið stutt í byggð og bjó þar Eyjólfur Símonarson. Þar stóð heyhlaða, sér enn fyrir,” segir í örnefnaskrá. Bæjarstæði Kots sést enn, á túnakorti frá 1920 er útihús á sama stað. Tóftir bæjarins voru því notaðar áfram eftir að hann féll úr ábúð. Kot var rúmum 210 m vestan við bæ og 50 m sunnan við Ærhús.
Gróið tún, fast austan við Hellisfjall. Svæðið er í halla til suðausturs, niður að Hellismýri. Kristinn Magnússon lýsir minjunum svohljóðandi: “Um 10m NA er grasi gróin dæld, líklega leifar byggingar, mikið sokkin. Hún er 9,7m x 9m að stærð með hvilft eða dýpri dæld í miðju. Mjög illgreinanlegt.” Bæjarstæðið er 14×14 m að stærð og 0,2 m á hæð. Tóftin er sigin og sést illa. Hún er skeifulaga og þúst er til suðvesturs, mögulega veggur. Tóftin er opin til suðausturs. Það er líklega tóft hlöðunnar sem enn sést hér. Þeir eru 0,2 m á hæð og algrónir. Til suðausturs sést kantur, mögulega hluti af bæjahúsunum.

Stóri-Einbúi (þjóðsaga/huldufólksbústaður)

Ölfus

Stóri-Einbúi.

“Stóri-Einbúi: (Einbúinn, afbæjamenn kölluðu Sognseinbúa). Klettahóll í Einbúamýri, klofinn í kollinn. Í honum var gott skjól fyrir búfé. Þar bjó huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Jafnvel álfakirkja,” segir í örnefnaskrá. Í skýrslu Kristin Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Stóri-Einbúi er stór klettahóll sem stendur upp úr blautri mýri, Einbúamýri. Klettahóllinn er um 266m sunnan við stekkinn.” Stóri-Einbúi er um 720 SSV við bæ og rúmlega 160 m ASA við áfangastað. Hóllinn sker sig úr út úr landinu og er auðgreinanlegur úr mikilli fjarlægð úr öllum áttum.
Umhverfis Stóra-Einbúa er mýrlendi og þekur mýrastör og annar votlendisgróður stóran hluta af gróðurþekjunni.
Stóri-Einbúi er 60×40 m að stærð og snýr svo að segja austur-vestur. Hann er rúmlega 60 m hár. Einbúinn er grösugur til norðurs og suðurs, en gróðursnauður og erfi ður yfirfærðar til austurs og vesturs. Í skýrslu Kristin Magnússonar er Stóra-Einbúa lýst svo: “Hann er um 70m x 50m að stærð. Engar sýnilegar tóftir eru á hólnum en sögusagnir eru um að þar hafi huldufólk búið […]. Hann er stór og áberandi klettur sem rís upp úr flatlendinu í kring. Það er því ekki skrítið að frásagnir um Álfakirkju hafi tengst klettinum.»

Bakkárholtssel (sel)
“Sel: Þýft móbarð og melar norðvestan Sogna. Vatn frá því fellur í litlu gili í Selá í Seldalnum.
Þarna var selstaða frá Bakkárholti í Skiptum fyrir engjaland. Notkunarréttur fallinn niður vegna vannota Bakkárholts, 1703 (Jarðab. A.M.). Sér enn fyrir tóftum,” segir í örnefnalýsingu. Selið er rúman 1,7 km NNV við bæ og rúma 880 m vestan við Seldal. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Milli fjallsins Sogna og Reykjafjalls er dalur. Selrústir eru í þessum dal. Þær eru á grasivöxnum velli sem liggur undir Reykjafjalli og hallar til suðurs. Milli vallarins og Reykjafjalls er lítið gil sem liggur meðfram fjallinu en sveigir svo til austurs norðan Sogna í átt að Selgili og Gljúfurá. Í gilinu er lækur. Selrústirnar eru við gilbrúnina.”
Selið er á grónu svæði, skammt norðan við vírgirðingu sem afmarkar land Sogns. Mosi, gras og elfting er áberandi. Tvær tóftir eru á svæði sem er 18×16 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Í skýrslu Kristins segir: Tóftirnar eru tvær, vaxnar grasi og mosa.

Seldalur/ Sognsel (sel)
“Seldalur. Gróið dalverpi suðaustur af Selásnum, suður að ármótum Gljúfurár og Selár. Sognseldalur vestan Gljúfurár, Gljúfursseldalur austan. Þar var sel frá Sogni, sér enn tóftarbrot.
Stundum var heyjað þar, aldrei í mínu minni,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Sel var í Gljúfursseldal sem er austan Gljúfurár. Rústir þessa sels eru á smá fl öt á tanga er liggur á milli Selár og Gljúfurár. Hugsanlegt er að flötin hafi verið heyjuð. Þrjár tóftir eru fyrir ofan flötina. Þær eru fornlegar að sjá, engar hleðslur eru sýnilegar en þó sést í stöku stein. Eru vaxnar grasi og mosa. Syðsta tóftin (nr. 786) er 8,5m x 4,1m að stærð, liggur NA-SV, með inngang á SV-hlið. Rúmum 2m í NV er önnur tóft á litlum grasivöxnum hól. Hún er 9,2mx7,3m að stærð og liggur NV-SA. Tvö hólf virðast vera á tóftinni og greina má inngang í annað hólfið, á SA-hlið. Tæpa 8m vestar er þriðja tóftin. Um er að ræða fremur ógreinilega þúst, 6mx6m að stærð. Hvilft er í miðju en ekki er hægt að greina inngang.” Selið er rúmum 880 m austan við sel og tæpum 1,7 km norðan við bæ. Selið er líkt og segir í örnefnalýsingu, vestan við Gljúfurá, þarna eru tær tóftir auk tveggja óljósari mannvirkja.
Rafmagnsgirðing á merkjum Sogns og Gljúfurs er 50 m austan við selið. Selið er á gróinni tungu, þarna er mosi, lyng og elfting áberandi. Landið lækkar til suðvesturs, að ánum. Mýrarvik, að Selá, er sunnan við tóftirnar. Svæðið er 50×25 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.

Gljúfurholt (býli)

“Jarðdýrleiki óviss, því engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 404. 30 hdr. 1847. JJ, 75.
1522: Jörðin er nefnd í fjárskiptabréfi milli Hólmfríðar Erlendsdóttur og Eyjólfs Einarssonar, sonar hennar og systkina hans. DI IX, 87. “Mörk fyrir engjum Gljúfurholts voru mjög sérkennileg. Gömul árför í mörgum krókum á báða vegu. Austan gamall farvegur Gljúfurholtsár. Vestan gamall farvegur Varmár.” Ö-Gljúfurholt, 3.
1920: Tún 3.8 ha, þar af c. 1/2 slétt. Garðar 1025 m2.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2020.

Ölfus

Gljúfursel.