Færslur

Hjallaborg

Bæirnir í Hjallahverfi standa undir Hjallahlíðinni (Kinninni) og út frá henni, og er Hjalli í miðju hverfinu. Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa, með sameiginleg landamerki útávið. Þar sem lönd jarðanna liggja mjög óreglulega, er erfitt að segja hvaða örnefni tilheyra hverri jörð.

Hjallaborg

Hjallaborg.

Gengið var frá Hjalla. Við kirkjustaðinn Hjalla er að sjálfsögðu kirkja; Hjallakirkja. Hún var byggð og vígð 1928 um haustið.
Katólskar kirkjur voru helgaðar Ólafi helga Noregskonungi. Hjallakirkja var útkirkja frá Arnarbæli og frá Hveragerði. Húsameistari var Þorleifur Eyjólfsson og yfirsmiður Kristinn Vigfússon. Kirkjan er steinsteypt, fyrsta steinsteypta kirkjan austanfjalls. Norðan undir kirkjugarðinum er lítið hesthús, sem heitir Granahesthús, um 10 m frá honum. Það var notað fyrir uppáhaldsreiðhesta Hjallabóndans. Stallurinn í því er ein hella, um 20 sm þykk, fullur metri á hæð og um 2 metrar á lengd, nær inn í báða hliðarveggi hússins. Sögn er, að kona sem bjó á Hjalla, hafi reitt hellu þessa fyrir framan sig á hestinum Grana ofan af Hjallafjalli. Aldrei mátti gera við Granahesthús. Fórust skepnur voveiflega, væri það gert. Nú er Granahesthús hrunið en veggir standa að mestu. Túnið norður frá Granahesthúsi upp að Þorgrímsstaðatúni heitir Granaflöt. Ofan við það liggur Þorgrímsstaðastígur (Krikastígur)upp stallinn.
Bæir á Hjallatorfunni voru t.a.m. Krókur (Hjalla-Krókur), norðaustur frá Hjalla. Móakot var austan við Hjalla en sunnan við Krók. Gerðakot er sunnan þjóðvegarins og austan lækjarins. Lækur er vestan Bæjarlækjar, vestur frá Hjalla. Austast í Lækjartúni var Rjómabú um allmörg ár á fyrsta fjórðungi 20. aldar. Það var venjulega nefnt Hjallarjómabú. Það stóð nákvæmlega þar sem nú er vegurinn, brúin yfir lækinn.
Goðhóll hét lítill hóll, grasigróinn, vestan Lækjartúns, ofan við gömlu götuna. Hann var allur tekinn sem efni í veginn. Bjarnastaðir eru upp við Hjallafjall þar sem það er hæst, norður frá Læk.

Lækjarborg

Lækjarborg.

Upp frá Enni liggur gata í sneiðingum upp á brúnina. Hún heitir Krikastígur. Ofan Krikastígs, uppi á brúninni er allstórt móabarð sem heitir Göngumói. Annar stígur, Bjarnastaðastígur liggur upp á brúnina vestan túnsins. Frá Stekkatúni liggur gata upp brekkuna og vestur með klettunum í fjallsbrúninni, en beygir þá upp á brún, gegnum lægð sem heitir Lágaskarð, en neðantil heitir gatan Kúastígur. Það er hægasta gatan upp á fjallsbrúnina, og sú eina sem hestfær var.
Þorgrímsstaðir stóðu austur frá Bjarnastöðum, fyrir botni Bæjarlækjar. Þar í brekkurótunum, austan og ofan bæjarins er húslaga steinn sem heitir Álfakirkja. Neðan við hana eru þrjár þúfur sem heita Biskupaleiði. Þar hvíla huldufólksbiskupar. Aldrei má slá Biskupaleiðin né slétta þau út.
Gengið var upp svonefnt Þorgrímsstaðagil. Rudd gata liggur upp Kinnina og heitir hún Kinnarstígur. Vestan hans er lítill hellisskúti; Baunahellir. Þar ræktuðu ungir menn baunir á öðrum tug 20. aldar. Nú eru allar byggingar afmáðar á Þorgrímsstöðum, og túnum skipt milli Gerðakots og Bjarnastaða.
Ofar, á Hjallafjalli (Neðrafjalli) er Langimói. Hjallaborg er á Neðrafjalli. Ofar er Efrafjall. Þarna skiptast á melar og móabörð, og frekar fátt um örnefni. Upp frá Króksstíg eru Suðurferðarmóar upp að Efrafjalli, fyrir vestan Hest. Þar eru grasbrekkur og lautir í brúninni fyrir vestan Leynira (þeir eru taldir með Bakka), og heita Suðurferðabrekka. Gatan þar upp brekkuna kallast Kálberstígur. Þannig var nafnið víst oftast borið fram, en mun eiga að vera Kálfsbergsstígur, kenndur við Kálfsberg, lítinn klettastapa þar í brúninni.
Neðrafjall hefur nú orðið gróðureyðingunni að bráð, einkum vestari hluti þess. Nú er reynt að planta þar skógi á stóru svæði ofan við Hjallabæina.

Hraunssel

Selsstígur Hraunssels.

Nafnið Kálfsberg er tekið eftir riti Hálfdánar Jónssonar lögréttumanns frá 1703. Það getur ekki átt við nokkurn annan stað en klett þennan eða stapa. Vestan við Suðurferðabrekku. er Brattabrekka, með kletta í brún og hærri en brúnin austar og vestar. Rétt neðan við vesturenda Bröttubrekku er dálítil hæð, sem heitir Háaleiti. Þar hafði Jón Helgason bóndi á Hjalla, síðar kaupmaður í Reykjavík, sauðahús fram yfir aldamótin 1900. Miklar hleðslur eru í rústunum (stundum nefndar Hjallaborg). Stórt gerði er norðaustan við það. Veggir hafa verið tvíhlaðnir.
Ofar (norðnorðaustar), í Lækjarmóum er Hjallasel. Þar eru rústir sels og stekks. Selsleifar eru og enn norðvestar og ofar í heiðinni (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Rétt vestan við Lækjarmóa er lítil hæð sem heitir Guðnýjarhæð. Þar er sagt að Guðný smali hafi alið barn. Suðaustan hennar sést Lækjarborgin vel í gróðureyddu landslaginu.
Fjallsendaborg er vestar, undir Kerlingabergi. Selstígur liggur upp með því vestanverðu, áleiðis að Hraunseli, sem þar er í hraunkantinum skammt norðaustan við Raufarhólshelli.

Hjallaborg

Hjallaborg – uppdráttur ÓSÁ.

Spölkorn fyrir vestan Borgarstíg er stór varða uppi á brúninni. Heitir hún Sólarstígsvarða. Aðeins vestan við hana er krókótt, en áberandi, kindagata upp á brúnina. Hún heitir Sólarstígur. Neðan undir Sólarstígsvörðu er stór, stakur steinn niðri á jafnsléttu. Hann heitir Sólarsteinn og er landamerkjahornmark milli Hjallatorfu og Grímslækja.
Skammt fyrir vestan Sólarstíg er gata upp á brúnina, framan í nefi nokkru, og heitir Grímslækjarstígur. Í stórum, algrónum hvammi litlu vestar er enn gata og heitir Hraunsstígur. Skammt fyrir vestan Hraunsstíg er gil. Þar kemur Bolasteinsrás fram af brúninni. Á grænni flöt vestan við rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina. Upp af Bolasteini er grasbrekka, og hellisskúti ofan hennar, en klettar í brúninni. Brekkan heitir Hellisbrekka. Framan í nefi vestan við Hellisbrekku er gata upp á brúnina. Hún heitir Steinkustígur. Þar blæs af, svo hægt er að reka þar fé, þó aðrar götur séu ófærar af snjó. Gata liggur út með hlíðinni frá Hjallahverfi út á Hlíðarbæi. Hún heitir Tíðagata (stikuð með rauðum hælum), og er í mörkum Hjallatorfu út að Hlíðarbæjalandi.
Gengið var niður af Neðrafjalli um Hraunsstíg ofan við Bolastein og Tíðargötunni síðan fylgt að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Hjallasel

Hjallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Norðurkot

Gengið var með frískum hóp um Kálfatjörn. Ein í hópnum hafði verið svo forsjál að fá léðan lykil af Kálfatjarnarkirkju. Eftir að hafa lokið upp kirkjudyrum var þátttakendum boðið inn fyrir. Þar rakti hlutaðeigandi það helsta sem fyrir augu bar, s.s. hina sérstöku málningarvinnu dansksins Bertelsens, sem enst hefur í meira en öld, og rennismíði Þorkels Jónsson, ábúandi í Móakoti, auk þess sem hún lýsti einstökum munum.
Fram kom að Kálfatjarnarkirkja var helguð kalfatjornPétri postula, en elstu haldbærar heimildir um kirkjuna eru í fornum máldögum og kirkjuskrá Páls biskups Jónssonar frá árinu 1200. Kirkjan var einnig nefn Maríukirkja og kirkja hins heilaga Þorláks biskups í Vogum fyrir 1367. Síðasti staðarprestur á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson, en eftir að hann lést árið 1920 tók við jörðinni Erlendur Magnússon frá Tíðargerði og kona hans Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Þau hófu búskap í Tíðargerði en fluttu að Kálfatjörn 1920 og bjuggu þar allan sinn búskap eða allt til ársins 1975. Erlendur var fyrsti og eini kirkjubóndinn á Kálfatjörn. Synir þeirra hóna voru Magnús, Ólafur, Gunnar og Erlendur og dæturnar hétu Herdís og Ingibjörg. Herdís bjó áfram á Kálfatjörn eða þangað til íbúðarhúsið brann með dularfullum hætti.
Efst á kirkjuturninum er ártalið 1893, en það er smíðaár timburkirkjunnar, sem nú stendur. Teiknari og yfirsmiður var Guðmundur Jakobsson, en við grunnbygginguna vann Magnús Árnason steinsmiður frá Holti, viðurkenndur hagleiksmaður. Kirkjan var reist á 14 mánuðum, en þá var kirkjuturninn öðruvísi útlits en nú er.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Þá var gengið niður með hinni aldargömlu hlöðu á kirkjuhlaðinu, framhjá tóttum fjóssins, hinu botnlauslausa Víti og Hólkoti, niður með Kálfatjörn með sjóbúðina á vinstri hönd og síðan áfram til vesturs með ströndinni. Þar var gamla bátagerðið skoðað ásamt fjárhúsunum og Hausaréttinni. Á steinum réttargarðsins voru áberandi hvítar og gular skófir. Einn þátttakenda kunni eðlilega skýringu á því, en hún var eftirfarandi í mjög styttri útgáfu: Bóndakona týndi snældu, en gat ekki endurheimt hana nema greiða fyrir hana með mikið af graut. Dugði það ekki til og þurfti því að taparinn enn og aftur að punga út stiga til viðbótar svo þyggjandinn gæti komið umframgrautnum til Maríu meyjar. Á leiðinni þangað með grautinn hrapaði sá ferðaglaði og lenti að lokum á jörðinni. Hvítu og gulu skófirnar á grjótinu eru síðan ævarandi merki um heilaslettur hlutaðeigandi og grautinn góða”. Engin ástæða er til að draga þessa sögu í efa frekar en margar aðrar.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – skósteinn með ártali.

Gengið var upp að Goðhól og húsin þar skoðuð sem og garðar og annað markvert. Haldið var yfir að Norðurkoti, litið á hlaðinn brunninn og síðan kíkt inn í gamla skólahúsið. Þar voru gömlu kennslubækurnar enn á borðum, bæði orðsins bækur svo og draumabækur unga fjósamannsins. Fengin var að tímabundnu láni handskrifuð Kennsluritgerð Ingibjargar Erlendsdóttur frá árinu 1942 um “nokkra meginþætti í stjórn og starfi barnaskóla”. Ritgerðin skiptist í: I. Inngang og uppeldi, II. Tilgangur skóla, III. Stjórn skóla, IV. Niðurskipan skólastarfsins, V. Refsingar, V. Kennsla og kennsluaðferðir, VII. Námið og gildi þess og VIII. Kennarinn og hlutverk hans. Tilefnið var notað og lesin hluti ritgerðarinnar, en hún verður tölvuritfærð fljótlega og send viðkomandi til gagns og gamans. Ritgerð þessi hefur aldrei áður birst á prenti – sjá HÉR.
Gengið var niður gamla flóraða götu með garðinum að Norðurkotsbyrginu á sjávarkambinum. Þar mun hafa verið salthús. Síðan var ströndin gengin til vesturs og fjaran skoðuð. Komið var að völundar spili í fjörunni og síðan tók fagurhvít sandfjara við, sbr. meðfylgjandi mynd. Staðnæmst var í fjörunni neðan við Landakot, litið á Landakotsbrunninn og síðan gengið var til baka með ofanverðri ströndinni. M.a. var litið á leturssteininn [A° 1690] í kirkjubrúnni á gömlu kirkjugötunni að Kálfatjarnarkirkju og Landabrunninn, hið forna þvottastæði Kálfatjarnarfólksins. Kvenkrían lét í sér heyra að venju á meðan karlkrían tók lífinu með stóískri ró. Golfararnir voru hljóðlátari en jafnan. Þekktu kannski orðið söguna og tilurð vallarins.
Veður var frábært – logn og sól.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Gengið var um Kálfatjörn frá kirkjunni, brunnurinn skoðaður sem og sjóbúð og tjörnin sjálf. Skoðaðar voru minjar með ströndinni til vesturs, komið við í tóftum Goðhóls og fiskbyrgjunum neðan við Þórustaði og síðan haldið út með einni fegurstu sandströnd á norðanverðum Reykjanesskaganum, neðan Þórustaða og Landakots. Þá var stefnan tekin á Norðurkot, en tilfærsla þess kl. 16.00 þetta síðdegi var einmitt tilefni göngunnar. FERLIR hafði lofað góðu gönguveðri og einnig að í ferðinni myndu þátttakendur sjá aldargömlu húsi lyft af grunni sínum og það fært um set. Auðvitað trúði enginn þeirri lýsingu sem fyrri daginn – og því varð staðreyndin áhrifaríkari en ella.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – gömlu húsin, um 1960, sett inn í mynd frá 2020.

Tilgangurinn með ferðinni var einnig að reyna að berja lóuna, vorboðann ljúfa, augum, en fréttir höfðu einmitt borist fyrr um daginn af ferðum hennar við Höfn í Hornafirði, tveimur dögum fyrr en venjulega. Það gefur von um gott vor.
Skoðaður var brunnurinn frá Kálfatjörn, en oft reynist erfitt að finna hann þegar líða tekur á sumarið vegna njóla og annars þróargróðurs. Ágætt kennileiti er þó eftir götu eða lögstum garði að honum út frá Víti til vesturs. Þar liggur gata vestan slóða niður að Kálfatjörninni sjálfri. Ef garðinum/götunni er fylgt að enda birtist brunnlokið. Tilraun var gerð til að finna brunninn síðsumars árið áður, en án árangurs. Þarna var hann hins vegar án þess að nokkuð skyggði á tilvist hans.

Kálfatjörn

Goðhóll.

Gengið var með syðri hluta Rásarinnar að tóft sjóbúðar sunnan Kálfatjarnar, hún skoðuð, og síðan haldið niður að skiparéttinni ofan við sjávarmál. Þar eru og hleðslur gamallar sjóbúðar, sem ártalssteinn 17. aldar fannst hjá fáum misserum fyrr. Steinn sá er nú við safnaðarheimiðið norðan kirkjunnar. Kunnugir segja, en vilja ekki staðfesta skriflega, að þegar grunnur safnaðarheimilisins hafi verið gerður, hafi komið upp ýmsir steinar sem og reglulegar hleðslur, en þá hafi blinda augað komið sér vel hjá nærstöddum, enda kirkjugarðurinn og gamlar minjar eigi alllangt undan.
Rifjuð var upp sögnin af sækúnum í Kálfatjörn. Með tóftir hinnar gömlu hæðbúnu sjóbúðar að baki og kirkjuna í bakgrunni var ekki komist hjá upprifjun sjósókna fyrri alda sem og aðbúnaðar vermanna á þeim tímum. Rifjuðu var upp ferð um svæðið á liðnu ári með Ólafi Erlendssyni á Kálfatjörn, en þá lýsti hann vel og vandlega kotunum norðan og austan við kirkjuna.

KálfatjörnÁ Kálfatjörn var bær, kirkjustaður og prestsetur. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Sögu hennar og umhverfi hefur verið gerð góð skil í annarri FERLIRslýsingu.
Skoðaðar voru minjar Goðhólls, bæði gamla bæjarins og útihúsa auk garða, sem þar eru. Skammt norðvestar eru gamlar mógrafir frá Kálfatjörn. Hlið er sunnar og Tíðargerði vestan þess. Hvorutveggja eru gömul kot vestan við Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Ártalssteinninn á Kálfatjörn í gömlu sjóhúsi.

En gömul kot geta orðið að gersemi sem og svo margt annað. Ekki er langt um liðið síðan sjá mátti síðanefnda kotið auglýst til sölu ásamt Norðurkoti, sem er þarna skammt vestar, á 40 milljónir króna. Stórhuga menn hafa haft áhuga á landinu, m.a. með fyrirhugaða sumarhúsabyggð og þróun golfvallarins að augnamiði. Staðreyndin er sú, hvað sem líður landkostum, að óvíða er fagurrra útsýni en á þessari, að því er virðist, flatneskjulegu strönd. Útsýnið er síbreytilegt og bæði ströndin og heiðin skammt undan eru tiltæk til uppbyggjandi gönguferða.
Lóan lét sjá sig, en erfiðara reyndist að ná mynd af henni. Það heyrðist hins vegar ágætlega í henni. Smánafna hennar, sandlóan, var hins vegar róleg þar sem hún stóð í hópum á skerjum, og leyfði góðfúslegar myndatökur. Lómur syndi utar og úmaði.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær. Norðurkot lengst t.v.

Nú er Norðurkotið stekkur. Norðurkotið á Vatnsleysuströnd var flutt um set, í sólskinsblíðu, stafalogni og 12° hita. Húsið, sem að sögn var byggt árið 1903 sem skólahús, var híft á dráttarvagn og síðan ekið yfir að Kálfatjörn þar sem því verður ætlaður staður til frambúðar á fyrirhuguðum safnareit. Keilir lék baksviðs meðan á flutningnum stóð, en sólin umvafði þetta gamla hús geislum sínum er það notaði tækifærið og snéri sér í hring hangandi í kranavírunum. Andar genginna kynslóða fylgdust með. Fjórir svanir flugu yfir í fagurri fylkingu, snéru við og komu til baka, líkt og til að leggja áherslu á samþykkið að handan. Rifjað var upp minnistætt flug svananna 12 framan við áhorfendur á krirstnitökuhátíðinni á Þingvöllum árið 2000. Þeir snéru einmitt við, líkt og þessir, og endurtóku flugið fyrir áhorfendur. Fæstir skyldu þó tilganginn, en aðrir, sem bæði vita og skilja, gerðu sér grein fyrir honum. Aldur Norðurkots er ekki fullviss af nákvæmni. Það gæti verið eitthvað eldra en frá 1903. Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn segir t.d. að faðir hans, Erlendur Magnússon hafi gengið þar í skóla árið 1904 og að húsið gæti verið frá því rétt fyrir aldamótin 1900.

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Það var Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps, sem lét flytja húsið með dyggri aðstoð verktaka. Það hrikti í vírum hífikranans við lyftinguna, en húsið hvorki æmti né skræmti þótt aldrað væri. Stoðir þess eru greinilega enn styrkar – og höfðu verið styrktar enn um betur að innanverðu af vönum verkmönnum.
Norðurkot var notað sem skólahús fram til 1910 eða ’11. Kennarahjón bjuggu þá á loftinu, en skólastofan var á jarðhæð. Hlaðinn kjallari var undir húsinu. Síðast mun húsið hafa verið notað til reglulegar íbúðar árið 1935.
Í húsinu voru fyrir merkar heimildir um skólahaldið, s.s. kennslubækur, ritgerðir og einkunnir einstakra nemenda. Þá hafði verið safnað í það ýmsum munum úr sveitinni, s.s. reiðtygum, veiðarfærum, handverkfærum o.fl. Eflaust mun eitthvað af því nýtast fróðleiksfúsum í framtíðinni. Afkomendur Erlendar Magnússonar frá Kálfatjörn gáfu Minjafélaginu húsið.
Uppgert Norðurkotið mun án efa setja svip sinn á hinn nýja safnareit við Kálfatjarnarkirkju í framtíðinni.
Til baka var gengið eftir gömlu kirkjugötunni að Kálfatjörn. Gatan hefur verið jöfnuð þar sem fyrir er golfvöllurinn nýmóðis, en kylfingarnir kunnu sig. Þeir lutu í lotningu fyrir göngufólkinu, sem gekk líkt og kirkjugestir vestan af Ströndinni forðum, áleiðis að Kálfatjarnarkirkju.

Norðurkot

Norðurkotsbrunnur.

Ofar, við gömlu götuna vestur á Strönd, mátti sjá klöpp huldukonunnar, sem getið er í þjóðsögu og á að hafa gerts þar árið 1892. Heimasætan, nýfermd, dreymdi að hún væri stödd suður á túninu á Kálfatjörn. Sá hún þá hinum megin við túngarðinn á Hliðstúninu grannleita konu, frekar fátæklega búna vera að reka kú. Hún hljóp til hennar og ætlaði að hjálpa henni að reka kúna en spyr hana um leið hvar hún eigi heima.
Þá svarar konan: “Ég er huldukona og á heima í þessari klöpp”, og bendir á klöpp sem fólk var vant að ganga yfir þegar það fór að heiman suður á Ströndina.
Stúlkan bauð huldukonunni að þiggja hring ömmu hennar, sem ég er með á hendinni. Huldukonan baðst undan svo góðri gjöf en bað um flauelspjötlur, sem stúlkan hafði. “Það á líka að ferma hjá mér dóttur mína, en ég er svo fátæk að ég get ekki keypt flauel á treyjuna hennar. Ég skal skila þeim öllum jafnóðum aftur, þegar ég hef notað þær”, sagði huldukonan. “Ég skal sjá til þess að þú verðir lánsmanneskja”, bætti hún við. Var svo draumurinn ekki lengri.
Líður svo tíminn fram á haust. Einn dag er það, er stúlkan opnar kistilinn sinn að allar pjötlurnar liggja þar eins og hún skildi við þær um vorið.
Þarna eru sögur til um hvern hól og sérhverja tóft.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11. mín.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Á Kálfatjörn, þar sem íbúðarhúsið stóð er tvískipt skilti. Á öðru þeirra er fjallað um túnakort og minjar og á hinu um Kálfatjörn. Á með má lesa eftirfarandi texta:

Kirkjur á Kálfatjörn

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Í máldaga (skrá um eignir kirkju) Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá því um 1200 er getið um kirkju á Bakka. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn þar sem til eru heimildir um kirkju frá 1450. Fram til 1824 var torfkirkja á Kálfatjörn. Var þá reist ný kirkja með tofveggjum, en timburþaki. Sú kirkja sdtóð í 20 ár. Aftur var byggð timburkirkja sem stóð önnur 20 ár. Árið 1864 var byggð kirkja sem stóð uns smíði núverandi kirkkju hófst á vormánuðum 1892. Kirkjan var vígð þann 11. júni 1893. Kálfatjörn var prestsetur allt til ásrins 1919.

Núverandi kirkja
Kálfatjarnarkirkja
Bygging núverandi kirkju gekk afar vel. Allt efni til kirkjunnar var flutt hingað á dekkskipi og skipað upp á árabátum. verkið tók um það 14 mánuði. Kirkjan er byggð úr timbri á hlöðnum grunni. Kirkjusmiður var Guðmundur Jakobsson, byggingameistari, sem nait aðstoðar Sigurjóns Jónssonar trésmiðs. Steinsmiðurinn frá Holti á Vatnsleysuströnd, Magnús Árnason, hlóð grunninn. Pílára á svalarbrúnum og í altarisgrindum ásamt ýmsum útskurði annaðist Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti á Vatnsleysuströnd. þegar allri trésmíði var lokið kom danski málarinn Nicolaj Sofus Bertelssen og málaði kirkjuna að innan og hefur því verki verið vel við haldið alla tíð. Hann málaði einni innviði Dímkirkunnar í Reykjavík.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Árið 1935 var kirkjuturninn endurbyggður vegna vatnsskemda. Nokkuð var deilt um breytinguna sem gerð var á turninum og breytti um leið öllu útliti kirkjunnar eins og sjá má á myndum. Meirihluti sóknarbarna vildi fá samskonar turn og var í upphafi, en fjármálasjónarmiðin réðu og fékk kirkjan þann turn sem hún nú ber. Söngloft er vestantil í kirkjunni og út með hliðunum eru svalir. Hin síðari ár hefur kirkjan talsvert verið endurbætt að innan og utan. Kirkjan rúmar um 15o manns.

Kirkjugarður

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja og kirkjugarðurinn. Bakki og Litlibær fjær.

Kirkjugarðurinn er hlaðinn úr grjóti og sniddu sem hefur þjónað því tíþætta hlutverki í gegnum tíðina að verja kirkjugarðinn ágangi búfjár, og sem aðhald og brún þeirrar moldarfyllingar, sem gera þurfti sökum þess hversu jarðvegurjnn er grunnur.

Kirkjumunir
Kálfatjarnarkirkja
Altaristöfluna gerði Sigurður Guðmundsson málari og er hún eftirmynd altaristöflunnar í Dómkirkjunni í Reykjavík. Rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem talinn er vera frá kaþólskri tíð. Þar hafa kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir gengu til kirkju. Pípuorgel var keypt í kirkjuna 1985. Skírnarfont, hökla, altarisklæði, sálmanúmeratöflur ásamt spjöldum, andvirði nýrra kirkjubekkja og ótal margt fleira hefur kirkjunni verið gefið í gegnum tíðina.

Prestar á Kálfatjörn
Nokkuð er vitað um þá presta sem sátu staðinn og þjóðnuðu frá 15. öld. Nafnkunnastur þeirra presta er þjónuðu á Kálfatjörn er séra Stefán Thorarnesen sálmaskáld og þýðandi. Aðrir prestar sem vitað er um eru:

Þorsteinn um 1450
Ásbjörn djákni Grímsson óvíst hvenær
Bjarni óvíst hvenær
ormur Egilsson 1580-1623
Ámundir Ormsson 1623-1670
Sigurður Eyjólfsson 1670-1689
Oddur Árnason 1689-1705
Jón Ólafsson 1705-1745
Sigurður Jónsson 1746-1786
Guðmundur Magnússon 1786-1808
Guðmudur Böðvarsson 1809-1826
Pétur Jónsson 1826-1851
Jakob Guðmundsson 1851-1857
Stefán Thorarensen 1857-1886
Árni Þorsteinsson 1886-1919
Árni Björnsson 1919-1930
Ólafur Stephensen 1931-1932
Garðar Þorsteinsson 1932-1966
Bragi Friðriksson 1966-1997
Gunnlaugur Garðarsson 1988-1991
Bjarni Þór Bjarnason 1991-1999
Hans markús Hafsteinsson 1997-2002
Friðrik J. Hjartar 1999-2002
Carlos Ari Ferrer 2002-2007
Bára Friðriksdóttir 2007-2012
Kjartan Jónsson 2012-

Mannvistarleifar
Kálfatjörn
Byggingar sem voru hversdagslegar fyrir hundrað árum eru nú orðnar minjar um horfna lífshætti. Skilningur hefur vaknað á nauðsyn þess aðs krá upplýsingar um slíkar minjar og vernda þær sem eftir eru fyrir komandi kynslóðir. Túnakortin frá 1919 eftir Vigfús Guðmundsson fræðimann sýna glögglega hvernig landnýtingu var háttað. Þar má sjá þyrpingu bæjarhúsa með kálgarða (kg) í kring. Einnig má sjá skiptingu túna og fjöruparta milli bæja, gönguslóða, brunna, lendingar í fjörum og fleira.

Hlið

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrúnni.

Hlið var tómthús frá Kálfatjörn, með kálgarð og lítinn túnblett. Þar lagðist búskapur niður 1923. Við Hlið lá Kirkjugatan svokallaða sem kirkjugestir fóru um á leið til messu. Þar var grjóti hrúgað þvert yfir Goðhólarásina sem kölluð var Kirkjubrú og átti að auðvelda kirkjugestum för yfir rásina sem gat orðið hinn mesti farartálmi í leysingum á vorin.

Goðhóll

Goðhóll
Goðhóll var tómthús frá Kálfatjörn, en hafði grasnyt. Goðhóll fór í eyði árið 1933. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Bæjarhúsin eru greinileg og vel uppistandandi.

Kálfatjörn
Kálfatjörn
Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið. Eftir að það var aflagt árið 1919 bjuggu Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir með börn sín. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við búskapnum af forledrum sínum og bjuggu þar alla sína búskapartíð. Kjálfatjarnarhúsið brann í nóvember 1998.

Skjaldbreið

Skjaldbreið við Kálfatjörn.

Skjaldbreið, hlaðan norðvestan við bæinn, mun hafa verið reist um 1850. Í áranna rás hefur útlit hlöðunnar breyst. Í vonskuveðri árið 2007 fauk þakið af henni. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Talið er að tréverkið, þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown, mannlausu skipi sem strandaði í Höfnum árið 1881, fullt af viði. Nú hefur Minjafélag Vatnsleysustrandar látið gera hlöðuna upp, lík og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hátún

Kálfatjörn

Hátún.

Hátún sem var grasbýli frá kirkjujörðinni fór í eyði 1920 en föst búseta var tekin upp aftur um 1960. Í millitíðinni var þar sumarbústaður. Öll bæjarhúsin hafa verið jöfnuð við jörðu fyrir utan hleðslur kálgarða sem sjást enn. Um tíma bjuggu ungverskir flóttamenn í Hátúni.

Fjósakot

Fjósakot
Fjósakot var grasbýli frá Kálfatjörn og fór í eyði 1920. Bærinn stóð á stórum hóli í miðju túni og var talinn með hæstu bæjarstæðum allra bæja í Vatnsleysustrandarhreppi. Þar sér nú aðeins í grjóthrúgur en moldin úr rústunum var tekin til uppfyllingar í kirkjugarðinn á Kálfatjörn.

Móakot
Móakot
Móakot var grasbýli frá Kálfatjörn sem fór í eyði um 1940. Árið 1920 voru husakynnin í Móakoti orðin léleg. Þegar séra Árni Þorsteinsson andaðist árið 1919 var hús það er hann bjó í á Kálfatjörn rifið og Móakot byggt upp úr því efni. Sunnan við bæjartóftirnar er langur hár hóll, er nefnist Klapparhóll, oft kallaður Álfhóll því trúa lá á að þar byggi huldufólk.

Bjarg

Bjarg

Bjarg.

Bjarg var tómtús frá kálfatjörm með kálgarð og dálítinn túnblett. Bærinn fór í eyði árið 1934. Árið 1910 fluttu að Bjargi ung hjón, Ingimundur Guðmundsson, frá næsta bæ, bakka og Abigael Halldórsdóttir frá Hóli við Öndunarfjörð. Ingimundur var mikill hagleiksmaður sem lýst er í ljóðlínum Jóns Helgasonar frá Litlabæ:

Ef ár þurfti’ að smíða’ eða oka í hrip,
upp-hressa bæ eða gera við skip
– þó væru’ei laun nema’ þakka —
járnklæða þak eða járnskóa hest,
þá jafnan var viðkvæðið: “Það er vist best
að biðja hann Munda á Bakka”.

Bakki
Bakki
Aldamótin 1990 var Bakki sagður tómthús frá kirkjujörðinni. Ekki leið þó á löngu þar til ábúandinn, Bjargmundur Guðmundsson, bróðir Ingimundar, var búinn að rækta svo umhverfis Bakka að úr varð góð grasjörð. Eftir það var Bakki skráður grasbýli. Þeir bræður á Bakka og Bjargi voru samhentir og gerðu vel að jörðum sínum, þó kirkjujarðir væru. Þrívegis svo vitað sé hefur Bakki verið fluttur vegna ágangs sjávar. Fysri Bakki er kominn útí sjó, annar Bakki er í dag rústir á sjávarkambinum og núverandi Bakki sem fluttur var árið 1904 stendur vel uppí túni.

Litlibær

Kálfatjörn

Vanræktur hestasteinn við Kálfatjörn.

Litlibær var tómthús í upphafi en síðar grasbýli frá Kálfatjörn þegar leyfi fékkst frá prestinum á Kálfatjörn til að rækta tún norður og austur af bænum. Litlibær var byggður úr tofbæ í timburhús árið 1906. Það timburhús var flutt og endurbyggt við Hverfisgötu í Hafnarfirði. Grunnur Litlabæjarhússins stóð í 13 ár eða þar til Ingimundur á Bjargi byggði þar nýtt íbúðarhús 1934 og fluttist þangað frá Bjargi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – skilti.

Kálfatjörn

Í Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I, árið 2011 má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik um bæi, s.s. Stóru-Voga, Snorrastaði, Stapakot, Brekku, Eyrarkot, Tumakot, Suðurkot, Tjarnarkot, Minni-Voga, Norðurkot, Auðna, Auðnakot, Landakot, Þórustaði, Kálfatjörn, Naustakot, Móakot, Hátún, Fjósakot, Bakka og Flekkuvík, og nokkrar merkar minjar í sveitarfélaginu.

Stóru Vogar (býli)

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar í Vogunum eru með þeim merkilegri minjum sveitafélagsins. Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). Húsið er hlaðið úr hraungrýti með sambærilegri aðferð og í Þingeyrakirkju, bogadregin gluggagöt eru á húsinu líkt og voru á Skólavörðunni og loks var það klætt 20×40 cm hreysturlöguðum steinskífum á þakinu, okkur er sagt velskum. Mikið teikninga- og heimildasafn um Sverri er á Þjóðskjalasafninu, en í því safni eru m.a. bréfasamskipti um steinkirkju er átti að rísa á Kálfatjörn, þar eru hugleiðingar um stærð kirkju, uppbyggingu o.fl við Stefán Thorarensen, frá miðbik 19. aldar. (Heimildir: Iðnsaga Íslands: fyrra bindi, Íslensk byggingararfleifð fyrra bindi og dánarbú Sverris).

Jarðadýrleiki óviss 1703. Hrolllaugur sem fékk Vatnsleysustrandarhrepp hjá Eyvindi landámsmanni bjó í Kvíguvogum. Kvíguvoga er getið í Sturlungu, (Sturlunga saga I, 406). Máldagi í Kvíguvogum frá árinu 1367 (DI III, 221).
18.4.1434: Jörðin seld fyrir 60 hundruð (DI IV 540).
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr), Knarrarnes tvö ( 30 hdr)., Breiðagerði fyrir (10 hdr). (DI IV 707-708).
4.10.1489. Jörðin Stærri-Vogar seld (þá 50 hundruð) fyrir jarðirnar Skarð í Fnjóskadal og Mýri í Bárðardal (DI VI, 686).
1496: Eru báðir hlutar jarðarinnar fengnir Viðeyjarklaustri til eignar. (DI VII, 299, 303).
1533: Hálfkirkjan á jörðinni nefnd í sakamáli (DI IX, 660).
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 7 vættir fiska (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26).
Árið 1703 er þess getið að Snorrastaðir, forn eyðihjáleiga, hafi verið lögð undir jörðina. Hjáleigur jarðarinnar árið 1703 voru Eyrarkot, Gata og Syðsta hjáleiga í byggð.
Eyðihjáleigur voru Tjarnarkot, Valgarðshjáleiga, Garðhús, Móakot, Halakot og Krunakot [Bræðrapartur] (JÁM III, 119-121).
Seint á 18., öld er getið um hjáleigu sem nýtt var sem lambhús.
Hjáleigur í byggð 1847: Eyrarkot, Tumakot, Suðurkot og Tjarnarkot. Nýibær, Stapabúð, Brekka, Steinsholt, Klöpp, Garðbær, og Hábær voru afbýli byggð á 19. öld. Þéttbýli tók að myndast í landi Stóru- og Minni-Voga í kringum aldamótin 1900 en saga þess er rakin annarsstaðar, svo sem í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Upprunalegt nafn bæjarins er Kvíguvogar (Ö-Vogar, 7).
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá uppruna örnefnisins Kvíguvogar í þjóðsögunni um bónda einn í Vogum og marbendil sem bóndi veiðir í net sín. Í sögunni segir m.a.: “Þóttist hann skilja að kýr þessar hefði marbendill sent sér í þakkarskyni fyrir lausn sína. Þessi kýr hefur verið hinn mesti dánumannsgripur sem á Ísland hefur komið; æxlaðist af henni mikið kúakyn sem víða hefur dreifzt um land og er allt grátt að lit og kallað sækúakyn. En það er frá bónda að segja að hann varð mesti auðnumaður alla ævi. Hann lengdi og nafn byggðar sinnar og kallaði af kúm þessum, er á land hans gengu, Kvíguvoga er áður voru kallaðir Vogar.” (Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 127-128).
1703: “Túnin líða skaða af sands og sjávarágángi, og gjörist að því ár frá ári meir og meir. Engjar eru öngvar. Úthagarnir litlir sumar og vetur.” (JÁM III, 119). Túnakort 1919: Tún 2,3 teigar, garðar 1220m2.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

“Neðan vert og nær sjónum eru svo Stóru-Vogar og stóðu á Bæjarhólnum í Stóru-Vogatúni. Þar eru nú rústir einar, því Stóru-Vogar eru í eyði.” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, segir: “Stóru-Vogarústirnar bera vott um stóran hug og stórverk. Húsið var byggt árið 1871 […]. Það Stóru-Vogahús, sem áður er getið, var ein hæð og íveruris, en árið 1912 lét Sigurjón J. Waage byggja nýtt hús á sama grunni og var hann kjallari nýja hússins. Hluti grunnsins stendur enn, þó stutt sé orðið í að þetta mikla verk hrynji í sjóinn. […] Smiður þess var Skúli Högnason úr Keflavík. Húsið var rifið árið 1965.”
Stóru-Vogar eru um 370 m sunnan við Minni-Voga og 310 m SSA við Suðurkot. Grasigróinn bæjarhóll Stóru-Voga er horfinn að hluta í vestri vegna ágangs sjávar. Bæjarleifar Stóru-Voga eru um 5 m austan við efribrún Vogafjöru. Malbikaður göngustígur liggur N-S meðfram vesturvegg íbúðarhúss Stóru-Voga. Bæjarhóll Stóru-Voga er grasigróinn, 2-3 m á hæð, um 30 m á lengd, um 20 m á breidd og snýr N-S. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur og Viktori Guðmundssyni ber minna á bæjarhólnum í dag (2007) vegna framkvæmda við Stóru-Vogaskóla þar sem jarðvegi úr grunni hússins var ýtt yfir stóran hluta heimatúns bæjarins. Á hólnum eru enn tóftir íbúðarhússins sem byggt var árið 1912 og signar hleðslur grjótveggja fjóss sem var fast norðan við húsið. Grunnur íbúðarhússins er steinsteyptur og grjóthlaðinn, um 12 m á lengd, um 6 m á breidd og snýr A-V.
Innanveggir grunnsins eru alveg steinsteyptir um 0,2 m á breidd og um 1 m á hæð. Ytri veggir eru um 0,5 m á breidd og um 1-1,4 m á hæð. Steinsteyptar tröppur voru upp á aðra hæð húss að sunnan við SA horn þess. Tröppurnar eru um 2 m á breidd, um 3 m á lengd og um 1,4 m á hæð. Kjallarinn var þrískiptur, með sjö dyrum og einum glugga á austurvegg. Tvennar dyr eru á vesturhlið, tvennar á suðurhlið, einar á austurhlið og tvennar á norðurhlið. Samkvæmt Viktori Guðmundssyni og Sesselju Guðmundsdóttur var grunnur hússins að hluta til byggður 1871 og svo bætt við hann 1912. Eldri hluti grunnsins er tilhöggvið grjót límt saman á meðan yngri hluti hans er að verulegu leyti fjörugrjót sem steypt var í mót og múrhúðað. Tröppur hússins eru taldar vera frá 1912. Samkvæmt Helga D. Davíðssyni var hluti af byggingarefni íbúðarhússins svo notað í húsið Aragerði 7. Vestari dyr á norðurhlið íbúðarhúss lágu upp í sambyggt fjós og hlöðu sem er um 2 m norðar. Um 1,5 m breiður og um 2 m langur gangur lá N-S á milli húsanna. Veggir fjóssins og hlöðunnar eru grjóthlaðnir og mjög hrundir en þeir eru um 0,5-1 m á breidd og um 0,2-0,4 m á hæð.

Stóru-Vogakirkja (útkirkja)

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar – fornleifar.

Í bókinni Strönd og Vogar segir: “Upphaflega voru þrjár kirkjur á Ströndinni, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkjan á Kálfatjörn.” Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var kirkjan líklega á vestanverðum bæjarhól Stóru-Voga en ekkert sést til hennar í dag, trúlega vegna sjávarrofs. Mjög líklegt er að mannabein sem fundust í sniði bæjarhólsins að vestanverðu (sjá 059) séu vísbending um staðsetningu kirkju og kirkjugarðs þó ekki sé hægt að fullyrða það án frekari rannsókna. Grasigróinn bæjarhóll Stóru-Voga er horfinn að hluta vegna ágangs sjávar. Grunnur íbúðarhússins er enn uppistandandi og leifar hleðslna í fjósi eru sjáanlegar.
KVÍGUVOGAR (G) -Þorláki, Maríu (KÁLFATJARNARÞING) – HÁLFKIRKJA [1367]: lxv. Mariu kirkia og hinz heilaga Thorlaks Biskups j kuiguvogum a xc j heimalande. vj ær. ij saude tuævetra. les Vilchinsbok; Hítardalsbók DI III 221 1397: a .xc. j Heimalandi portio Ecclesiæ vmm iiij ar .iiij. merkur þau sem Andries Magnusson a ad svara. Þar skal takast heimatiund heimamanna; Máld DI IV 105-106 {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 61}. Ekkert sést til fornleifa.

Snorrastaðir (býli)

Snorrastaðir

Snorrastaðir – tóft.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Snorrastader, forn eyðijörð og hefur um lángan aldur í eyði legið. Eigandinn er kóngl. Majestat. en hvað landskuld hefur hjer af verið, veit enginn að segja. Nú er alt land þessarar jarðar lagt undir brúkun ábúendanna í Vogum hvorutveggja og hefur yfir hundrað ár so verið. Það segja menn, að þegar þessi jörð lagðist í eyði, hafi bærinn verið færður annarstaðar í sömu landeign, og sá bólstaður um skamma stund viðhaldist eftir því sem munnmæli gánga. Er og so það bæjarstæði í Voga landi lángt fram yfir það, sem elstu menn til minnast, og kann örðugt aftur að bygjast fyrir þí, að túnin eru aldeiliss í sand, grjót og hrjóstur uppblásin.” Í örnefnaskrá segir að jörðin hafi farið í eyði í eldsumbrotum á 13. öld. “Snorrastaðatjarnir verða næstar á vegi okkar en þær liggja rétt fyrir ofan Háabjalla. Í gömlum heimildum er getið um Snorrastaði einhvers staðar á þessum slóðum en hvergi sjást merki um þann bæ. […] Fyrir ofan neðstu tjörnina er nýreistur skáli frá Skátafélaginu Heiðarbúum í Keflavík,” segir í Örnefni og gönguleiðir. Snorrastaðatjarnir heitir falleg tjarnaþyrping um 300 m suðaustan við Háabjalla, en tjarnirnar hafa myndast í gjám sem liggja þarna þétt saman og teygja sig norðaustur-suðvestur.
“Tjarnirnar eru oftast sagðar þrjár, en eru í það minnsta fimm ef ekki er því meiri þurrkur,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Staðsetning býlisins er ókunn.

Snorrastaðir

Snorrastaðir.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Snorrastader, forn eyðijörð og hefur um lángan aldur í eyði legið. Eigandinn er kóngl. Majestat. en hvað landskuld hefur hjer af verið, veit enginn að segja. Nú er alt land þessarar jarðar lagt undir brúkun ábúendanna í Vogum hvorutveggja og hefur yfir hundrað ár so verið. Það segja menn, að þegar þessi jörð lagðist í eyði, hafi bærinn verið færður annarstaðar í sömu landeign, og sá bólstaður um skamma stund viðhaldist eftir því sem munnmæli gánga. Er og so það bæjarstæði í Voga landi lángt fram yfir það, sem elstu menn til minnast, og kann örðugt aftur að bygjast fyrir þí, að túnin eru aldeiliss í sand, grjót og hrjóstur uppblásin.” Í örnefnaskrá segir að jörðin hafi farið í eyði í eldsumbrotum á 13. öld. “Snorrastaðatjarnir verða næstar á vegi okkar en þær liggja rétt fyrir ofan Háabjalla. Í gömlum heimildum er getið um Snorrastaði einhvers staðar á þessum slóðum en hvergi sjást merki um þann bæ. …

Nýibær (býli)

Nýibær

Nýibær.

“Einnig Nýibær og Hábær [enn í byggð]. […] Þá er Nýibær í Nýjabæjartúni og liggur Nýjabæjarstígur niður þaðan í Nýjabæjarvör. Tún Tumakots og Nýjabæjar liggja saman á hólnum, sem nefnast Borhólar og skammt þaðan er Nýjabæjarbrunnur, […].” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki Vatnsleysustrandarhreppi segir: “Nýjibær (Vogagerði 24). Árið 1872 hófu ung hjón búskap að Nýjabæ. […] Stuttu eftir að Andrés tók við búinu [eftir 1899] byggði hann nýtt íbúðarhús. […] Árið 1927 lagði Andrés í það mikla verk að byggja nýtt og stærra íbúðarhús.” Nýibær (byggður 1927) er nú Vogagerði 24, um 200 m NNA við Suðurkot og um 180 m SA við Stóru-Voga.
Nýibær stendur fast vestan við malbikaða götu sem liggur N-S, Vogagerði, og fast sunnan við malbikaða götu, Ægisgötu, sem liggur A-V. Vestan við Nýjabæ er svo sléttað moldarbarð þar sem áður stóð steinsteypt íbúðarhús og sunnan við hann er íbúðarhús við Vogagerði 26.
1919: Tún 1 teigur, garðar 550 m2. Ekkert sést til eldri bæjar og enginn bæjarhóll er greinanlegur vegna sléttunar, bygginga og vegagerðar. Íbúðarhúsið sem byggt var 1927 er bárujárnsklætt timburhús sem snýr N-S. Gengið er inn að vestan og er grunnur hússins grjóthlaðinn og steinsteyptur. Húsið er á tveimur hæðum og samkvæmt Særúnu Jónsdóttur, heimildarmanni, er ómanngengur kjallari undir húsinu. Engir gluggar eru á grunni hússins og er þak þess með burst. Grunnurinn er um 7×7 m að flatarmáli fyrir utan steinsteypta viðbyggingu að norðanverðu.

Hábær (býli)

Hábær

Hábær.

“Einnig Nýibær og Hábær. […] Hábær stendur í Hábæjartúni en heima frá bæ liggur Hábæjarstígur í Hábæjarvör. Rétt hjá bænum var Hábæjarbrunnur.” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Hábær er nyrsti jarðarhlutinn sem látinn var úr Stóru-Vogajörðinni. […] Árið 1920 reif Ásmundur [Árnason] Hábæ og byggði hann upp aftur í Hafnarfirði og gaf því húsi sama nafn, (nú Skúlaskeið 3). […] Hábær í Vogum var aðeins kjallaragrunnur eftir að húsið sjálft var rifið. […] lét hann [Árni T. Pétursson] rífa Hvamm og byggja upp á Hábæjargrunninum, þó í öðrum stíl væri en áður, og er það enn í dag sá hluti hússins sem snýr mót suðri. […] Árni byggði Hábæ árið 1921 […].” Samkvæmt túnakorti frá árinu 1919 var Hábær um 160 m NA við Stóru-Voga og um 160 m sunnan við Austurkot. Í raun er Hábær um 150 m NA við Stóru-Voga og um 200 m SSV við Austurkot. Upprunalegt byggingarár Hábæjar er óþekkt og ekki er vitað hvort einhvern tíman stóð torfbær á þessu svæði.
Hábær stendur enn í grasigrónum garði fast norðan við Tjarnargötu í vesturenda hennar, NA við grunnskóla Voga.
1919: Tún 1,5 teigar, garðar 450 m2. Hábær sem byggður var 1922 stendur enn en búið er að byggja við upprunalegu bygginguna 2-3 sinnum. Gera má ráð fyrir því að aðeins grunnur fyrra timburhúss sem rifið var árið 1920 sé enn til staðar af eldri byggingum. Enginn bæjarhóll er greinanlegur hugsanlega vegna rasks í kringum húsið en einnig er hugsanlegt að enginn bæjarhóll hafi náð að myndast síðan Hábær byggðist. Ekkert sést til fornleifa.

Kvennagönguskarðsstígur (leið)

Kvennagönguskarð

Kvennagönguskarð.

“Nokkru innar er svo Kvennagönguskarð og þar lá upp Kvennagönguskarðsstígur,” segir í örnefnaskrá.
Kvennagönguskarð er næsta skarð austan við Brekkuskarð, á milli þess og Reiðskarðs. Skarðið er snarbratt og stórgrýtt, gróið mosa og lyngi. Engin ummerki gatna eða slóða eru í skarðinu, en Stapagata liggur sunnan við skarðið í austur-vestur. Mögulega hefur skarðið verið áningarstaður á þeirri leið og þess vegna hlotið þetta nafn.

Kálgarðsbjalli (kálgarður)

Stapinn

Kálgarðsbjalli.

“Upp og austur af Brekkuskarði er Kálgarðsbjalli […],” segir í örnefnaskrá. Samkvæmt athugasemdum við örnefnaskrá var þar kálgarður um aldamótin 1900. Samkvæmt heimildamanni var garðurinn svokallaður hreppsgarður og hlaðinn í atvinnubótavinnu. Í honum voru ræktaðar kartöflur. Kálgarðsbjalli er um 1,3 km SSV af Stóru-Vogum 001 og um 400 m suður af Brekku 036, en garðhleðslur eru sunnan í honum.

Stapi

Stapinn – hreppsgarðurinn.

Bjallinn er gróinn en mjög grýttur. Brekkan sem hleðslurnar eru í er allbrött til suðurs en klettar efst í henni. Lúpínubreiður eru til suðurs og austurs.
Garðarnir eru mjög greinilegir og ná yfir svæði sem er um 34×28 m að stærð og snýr í norður-suður. Á svæðinu er eitt stórt gerði og tveir niðurgrafnir eða jafnaðir stallar sunnan við það. Gerðið er efst í brekkunni, um 24×24 m að utanmáli. Hleðslur eru úr grjóti í austur-, norður-, og hluta vesturveggjar. Í suðurvegg og syðri hluta vesturveggjar eru hleðslur úr torfi og grjóti. Hleðslur eru allt að 1,2 m á hæð og mest að 3 m á breidd í suðurvegg. Hleðslur eru rofnar í hluta vesturveggjar en standa að öðru leyti. Efst innan gerðisins eru lágir klettar og mikil grjótdreif undir þeim. Op er á suðurhlið gerðisins en suðaustan við það, undir suðurvegg gerðisins, er jafnaður stallur í brekkunni.
Hann er um 6×2 m og snýr austur-vestur. Engar vegghleðslur umlykja stallinn nema að austanverðu, þar sem garðstubbur, um 2 m langur, sameinast suðurvegg gerðisins. Um 3 m neðan, eða sunnan, við stallinn er annar jafnaður stallur í brekkunni. Á honum eru tvö niðurgrafin hólf. Hið vestra er ferhyrnt, um 5×4 m að stærð, 0,3 á dýpt og snýr austurvestur. Hið eystra er sporöskjulaga, um 0,4 m á dýpt, um 4×2 m að stærð og snýr norður-suður.

Kerlingarbúðir (verbúð)

Stapinn

Kerlingarbúðir.

“Vestan undir Kvíguvogabjörgum er Mölvík og Hólanef, þar litlu austar og þar enn austar er svo Skollanef út þangað teygir sig gróðurlendisræma. Þar innan við eru svo ystu verbúðirnar og nefndust Kerlingabúðir. Heita þær svo vegna þess að útróðramenn, er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu,” segir í örnefnaskrá “Undir Vogastapa er lítið undirlendi og ekki búsældarlegt, og treystu búendur þar því nær eingöngu á sjávarútveg. Vestast undir Stapanum þar sem minnst er undirlendið, eru Kerlingabúðir. … Í Kerlingabúðum má sjá margar tóftir sem ýmist hafa verið mannabústaðir eða fiskibyrgi. … Stór steinn sem í var höggið ártalið 1780 var allt fram á síðustu ár þarna fyrir neðan sjávarbakkann,” segir í Mannlíf og mannvirki. Kerlingabúðir eru um 120 m vestur af vestasta hluta túnskikans á Stapa 036, um 1,5 km VSV af Stóru-Vogum 001. Þar er mosagróin grjóturð í í brekkunni og eru rústirnar neðst í henni.

Kerlingarbúðir

Kerlingarbúðir.

Neðst í brattri og grýttri hlíð undir klettahömrum. Sjór hefur brotið nær allt undirlendi neðan hlíðarinnar. Lítil ummerki sjást nú af verbúðinni, en mikið hefur horfið í sjó á undangengnum áratugum. Minjarnar dreifast á svæði sem er um 40×8 m að stærð, landræma sem liggur í austur-vestur milli brekkunnar og sjávar. Austast á svæðinu, í urðarfætinum, eru tvö samliggjandi hólf. Þau eru grjóthlaðin, en uppistaðan í hleðslunum er þó jarðfast grjót neðst í urðinni. Hleðslur eru mest tvö til þrjú umför, og 0,5 m á hæð. Eystra hólfið er um 3×1 að innanmáli með op á norðurhlið og snýr austur-vestur. Vestara hólfið er um 3,5×3 m að innanmáli með op á norðurhlið. Syðst í hólfinu er mikið hrunið ofan í það og virðist þar hafa verið hleðsla. Þar er hólfið líka alldjúpt og því mögulega niðurgrafið. Fleiri mannvirki hafa líklega verið vestan við hólfin en hleðslubrot er fast vestan við þau. Engin önnur glögg ummerki er þó um að ræða enda hefur grjóthrun og sjávarrof líklega eytt þeim. Um 20 m vestur af hólfunum, í sjávarbrotinu, er garðbrot. Það er um 1,2 m á hæð, 1,5 m á breidd og sigið út. Það er hlaðið við tvo stóra steina og er hleðslan úr torfi og grjóti.

Stapabúð (býli)

Stapinn

Stapabúð.

“Næst þar fyrir innan var svo Stapabúð stóð í Stapabúðartúni og er lítið eftir af því, en Stapabúðarvarir voru þar fram undan,” segir í örnefnaskrá. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir: “Nokkru austar [en Kerlingabúðir] meðfram Stapanum eru aðrar kofarústir er heita Stapabúðir. Síðast var búið þar árið 1899 […].” Stapabúð er um 130 m norðvestan við Brekku 036 og um 1,5 km suðvestan við Stóru-Voga.
StapinnStapabúð er í grasi grónu túni niður undan mosagróinni en stórgrýttri brekku. Norðaustan við hana er djúp og breið lægð í landið, líklega vegna sjávarrofs og er hún sendin og vaxin melgresi. Aðrar minjar í tengslum við Stapabúð eru vestan við lægðina fyrir utan tóft sem er sunnan við hana. Þar er lítið láglendi en allt er það grasi vaxið frá brekkurótum fram á sjávarbakka.
Fyrst var þurrabúð á staðnum en síðar grasbýli. Stapabúð er með á túnakorti Brekku frá árinu 1919 var samanlagt tún 0,9 teigar og garðar 250m2 samkvæmt því. Á túnakortinu sjást 6 byggingar, kálgarður, vör, brunnur og líklega túngarður. “Á Stapabúð er járnþak baðstofunnar enn uppi hangandi. Hér mótar fyrir gömlum grjótgörðum, og má vera að sumir af þeim hafi verið gerðir til að þurrka á þeim skreið, því að útræði var hér […] áður en býlin komu. Hjá Stapabúð eru einnig rústir af saltfiskbyrgjum, en þau hafa ekki verið gerð fyrr en farið var að salta fisk, og saltfiskverkun hófst ekki hér við Faxaflóa fyrr en á árunum 1829-1840,” segir Árni Óla í bók sinni.

Stapabúð

Stapabúð.

Einnig er getið um Stapabúð í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki. Þar segir: “Stapabúð var grasbýli og greiddi landskuld til Stóru-Voga, er átti allt land meðfram Vogastapa. Þar má enn vel sjá hvernig húsaskipan var háttað. Útræðisaðstaða var mjög góð og fisksæld mikil.” Í Stapabúð sjást enn miklar leifar. Þar eru 4 tóftir, kálgarður, leifar af túngarði og brunnur á svæði sem er um 170 x 90 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þessar minjar eru merktar inn á túnakort Brekku frá 1919.

Brekka (býli)

Brekka

Brekka.

“Þá kom Brekka í Brekkutúni er náði allt upp í Eggjar. Þarna var lengst byggð undir Stapanum. Fram undan því var Brekkulón og Brekkulónsvarir eða Brekkuvarir […],” segir í örnefnaskrá. Brekkubærinn er neðan og vestan við Brekkuskarð, sunnan við Hólmann, um 1,5 km suðvestur frá Stóru-Vogum. Bærinn stóð á litlu undirlendi undir bröttum hömrum og grjótskriðum. Brekkan suðaustan við bæinn er vel gróin og vex þar aðallega elfting eins og í norðurjaðri túnsins. Annarsstaðar er grasgefnara, sérstaklega næst bæjartóftinni. Sandhólar og -dalir eru vaxnir hvönn og melgresi. Undirlendið sem er gróið er um 100 x 150 m og snýr austurvestur.
StapinnUpphaflega var Brekka þurrabúð en varð síðar grasbýli. Býlið var reist 1848. Árið 1919 var tún 0,9 teigar og garðar 250m2 samkvæmt túnakorti með túninu í Stapabúð. Getið er um Brekku í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: “Að Brekku undir Vogastapa fluttu hjón frá Hólmabúðum árið 1861. […] Byggðu þau upp bæinn og bjuggu þar til ársins 1869. […] Brekka var grasbýli, leiguland eins og stapabúð og greiddi afnotagjöldin til Stóru-Voga […] Þetta gjald hélst þar til Brekka lagðist í eyði árið 1928.” Minjasvæðið er um 40 x 20 m og snýr austurvestur. Á vettvangi voru tvær tóftir skráðar, kálgarður og brunnur og eru þau mannvirki sýnd á túnakorti auk réttar í vesturjaðri túnsins á Brekku en ekki sést til hennar á vettvangi. Ef til vill er hún farin í sjó fram.

Brekkulónsvarir (lending)

Stapinn

Brekkulónsvarir.

“Þá kom Brekka í Brekkutúni er náði allt upp í Eggjar. Þarna var lengst byggð undir Stapanum. Fram undan því var Brekkulón og Brekkulónsvarir eða Brekkuvarir […],” segir í örnefnaskrá. Brekkuvarir eru um 100 m suðaustan við Brekkubæ.
Lendingin er í sandfjöru norðan við hraunbrúnina. Rétt norðan við lendinguna er dálítil klöpp og sunnan við hana er grjót sem að líkindum hefur hrunið úr hraunbrúninni. Lendingin snýr austur-vestur og er sendin í botninn en þó er eitthvað af grjóti í henni vestarlega. Hún er um 1-4 m á breidd, breiðust vestast, og um 20 m löng. Líklega hefur lendingin verið rudd en það er ekki augljóst.

Hólmsbúð (bústaður)

Hólmsbúð

Hólmsbúð – uppdráttur.

“Fram undan Brekku var tangi nefndur Hólmur og þar var Hólmsbúð og framundan henni Hólmsbúðarvör,” segir í örnefnaskrá. Í athugasemdum við örnefnaskrá segir: “Á Hólminum eru rústir og stórir húsagrunnar, því þar var með stærstu útgerðarstöðum á landinu um tíma.” “Hólmabúðir voru á svokölluðum Hólma, sem er um 250 metrum útfrá Stapanum og var talið grasbýli þó lítið virðist hafa verið þar grasland.
Aftur á móti sést enn vel að þarna hafa verið stórir kartöflugarðar, enda fjölmenni á vetrarvertíð. Þar var mikið útræði um miðja 19. öld og fram yfir aldamót.” Hólmurinn er lágreistur, landfastur (á fjöru) og gróinn hólmi fram undan Brekkutúni, um 1,3 km SV af Stóru-Vogum. Á honum eru greinilegar og umfangsmiklar rústir Að austanverðu á Hólminum er sandfjara en berar og grófar hraunklappir í sjó fram á aðra kanta.

Stapinn

Hólmsbúð undir Stapa.

“Þegar komið er út í Hólminn, er hann nokkuð stór og hringlaga. Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi sem líklega hefur veið fisktökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefur verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt. Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefir sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum, svo að nú verður eigi séð, hve mörk þau hafa verið, en heillegar tóftir standa eftir af sumum. Þarna eru og leifar af grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðalkálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, og getur verið, að annað þeirra hafi verið bátaskýli, og hafi menn dregið inn í það báta sína … Þurrabúð rís fyrst í Hólmi 1830 …, ” segir Árni Óla í bók sinni.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Einnig er getið um Hólmabúðir í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: “Hólmabúðir voru á svokölluðum Hólma, sem er um 250 metrum útfrá Stapanum og var talið grasbýli þó lítið virðist hafa verið þar grasland. Aftur á móti sést en vel að þarna hafa verið stórir kartöflugarðar, enda fjölmenni á vetrarvertíð. Þar var mikið útræði um miðja 19. öld og fram yfir aldamót. Voru þar eingöngu svokölluð !innitökuskip”, aðkomuskip um vetrarvertíðina, eða frá byrjun mars til lokadags 11. maí. …Á Hólmabúðum voru komin stór salthús 1839-1840 og á lofti þeirra voru verbúðir aðkomumanna. … Þar eru grunnar eftir tvö stór salthús og á Kristjánstanga, sem er milli Voga og Vogastapa var þriðja salthúsið. Allt árið urðu að vera saltafgreiðslumenn á Hólmabúðum, sem afgreiddu salt og aðrar nauðsynjar, þó helst á vetrarvertíðinni. Voru því, utan vertíðar, búendur allt árið í Hólmabúðum. … Talið er að þegar útgerð var mest frá Hólmabúðum hafi verið gerð út þaðan 18 skip og ef áætlað er að jafnaði 7 menn á hvert skip verða það 126 manns. Síðan má telja landverkafólk og má ætla að þegar mest var hafi verið þarna um 140-150 manns á vetrarvertíðinni.” Tóftirnar dreifast um Hólminn sem er um 50×50 m að stærð.

Hólmsbúðarvör (lending)

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

“Fram undan Brekku var tangi nefndur Hólmur og þar var Hólmsbúð og framundan henni Hólmsbúðarvör,” segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur, heimildamanni, mun þar hafa verið pláss fyrir tvo báta, en hún hefur ekki fundið staðsetningu vararinnar. Vörin hefur þó líklega verið austan í Hólminum, þar sem er dálítil sandvik, því annarstaðar eru umhverfis hann grófar hraunklappir sem flæðir yfir. Hólmurinn er landfastur (á fjöru) gróinn hólmi fram undan Brekkutúni.
Ekki er vitað hvar Hólmsbúðarvör hefur verið.

Vogaréttir (rétt)

Vogaréttir

Vogaréttir.

“Upp af Moldu eru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar- Rosmhvalanes- Hafnar- og Grindavíkurfjárbændur,” segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Sesselju G. Guðmundsdóttur sést ekki til réttarinnar þar sem grjót úr henni var tekið og sett í sjóvarnargarð. Viktor Guðmundsson telur að réttin hafi staðið við austurhorn stórs bragga í norðvesturhorni afgirtrar lóðar fiskeldisins. Skátamót voru haldin þarna um 1974-1975, var þá hægt að sjá neðstu steinanna í hleðslunni, annars hafði grjótið verið tekið til hafnargerðarinnar. Réttin stóð þar sem nú er lóð fiskeldisstöðvar á flatlendi skammt suðvestur af ströndinni.
Upplýsingar um rétta staðsetningu réttarinnar bárust eftir að vettvangsvinnu lauk og var staðurinn því ekki skoðaður á vettvangi en líkur eru til þess að lítið sem ekkert sjáist til minja um réttina.

Steinsholt (býli)

Steinsholt

Steinsholt.

“Innan Kristjánstanga er Síkið og liggja úr því Síkisrennan og Síkisrásin norðar, sem einnig nefnast Rennan og Rásin, [svo] Þá er Steinsholt og Steinsholtstún sem verið hefur heldur smátt í sniðum.” segir í örnefnaskrá. Samkvæmt Mannlíf og Mannvirki í Vatnleysustrandarhreppi var Steinsholt byggt 1874 sem tómthús en hefur verið í eyði frá 1879. Sex tóftir og eitt gerði eru á svæði um 740 m SSA við Stóru-Voga og um 1100 m SSA við Minni-Voga. Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, eru tvær af tóftunum (E og M) örugglega Steinsholt, en Guðrún kannaðist ekki við hinar. Gerðið og tóftirnar eru í þýfðu graslendi 10-20 m vestan við Gamla-Keflavíkurveg. Síkistjörn er norðan við, á milli og uppi á Steinsholti, tveimur 1,5-2 m háum hæðum grónum grasi og mosa. Einnig er getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: “Guðmundur Magnússon, koparsmiður, f. um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir […] byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Var það á milli Vogabyggðar og Vogastapa í landi Stóru-Voga. Landið fyrir neðan Steinsholt, eða sjávarmegin, heitir Kristjánstangi og var þar útgerð, enda landtaka góð. Á miðri nítjándu öld lagðist sá útgerðarstaður niður. […] Eins og áður segir byggðu þau í Steinsholti, þar sem enn má sjá klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði fyrir eldsmiðju. Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin bláfáttæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29 mars árið 1879.”

Vogasel (sel)

Vogasel

Vogasel yngri.

“Þá liggur þjóðvegurinn yfir Síkistjörn þar fyrir sunnan hækkar landið nokkuð og eru þar þrír hólar með hundaþúfum á heita Víkurhólar og Víkurhólaþúfur. Austan og ofan þessa svæðis er svo Leirdalur og syðst í honum Vogasel í Selhólum sem eru hér og lægð þar í milli. Sézt þetta vel af Reykjanesbraut,” segir í örnefnaskrá. Leirdalur heitir sunnan við syðstu hús í Vogum. Sunnan hans er gróin hraunbreiða og margir sprungnir hraunhólar með hundaþúfum. Á einum þessara hóla, um 100 m neðan Reykjanesbrautar og um 1,4 km SA af Stóru-Vogum, eru umtalsverðar hleðslur og gætu verið rústir Vogasels. Hraunhóllinn er krosssprunginn og gróinn, og talsvert af birkihríslum í sprungunni sjálfri. Umhverfis hann er gróið hraun.
Hleðslurnar eru á hólnum, í krosssprungunni sem er nokkuð breið. Hleðslurnar eru úr grjóti, nokkuð signar og víða grónar í svörð. Hæð þeirra er þó mest um 1,2 m og þrjú umför nyrst á hólnum, en þar er að hluta hlaðið ofan á sprungu- eða gjárvegginn. Annarstaðar eru hleðslur mun lægri. Rústirnar eru á svæði sem er um 30×25 m. Mannvirkjunum verður nú lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar.

Bræðrapartur (býli)

Bræðrapartur

Bræðrapartur.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Krunakot hefur verið tómthús, þar var landskuld ein vætt fiska til heimabóndans, það hefur sjaldan bygt verið, en nú síðast yfir sex ár í eyði legið.” “Bræðrapartur enn í byggð.” segir í örnefnaskrá. Þar segir einnig: “Bræðrapartur er syðsta hús í Vogum og stendur í Bræðrapartstúni.” segir í örnefnaskrá. Einnig er getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: “Syðsta grasbýlið í Vogum er Bræðrapartur (áður nefnt Krúnutóft) og er hann hluti úr Suðurkots – og Stóru-Vogalandi. Það var og er enn umdeilt hvort það sé grasbýli eða með jarðarréttindi, þ.e. afréttar- og beitarréttindi utan heimagirðingar, en um langan tíma hefur það verið rekið sem bújörð og er svo gert enn í dag. […] Í Bræðraparti urðu allmikil umskipti er Guðmundur Kortsson tók við búinu árið 1928. Árið 1929 byggði hann hús og reif það gamla, er hafði þótt gott á sínum tíma. […] Árið 1947 byggði Guðmundur við og breytti húsinu í núverandi horf.” Bræðrapartur var um 370 m sunnan við Stóru-Voga og um 60 m sunnan við Suðurkot.
Á þessu svæði er sléttuð grasflöt og íbúðarhús við Brekkugötu 6.
1919: Tún 1,3 ha, garðar 1000 m2. Ekkert sést til fornleifa en húsið við Brekkugötu 6 stendur á greinilegum egglaga hól sem er um 30 m á breidd, um 50 m á lengd, 1-2 m á hæð og snýr NV-SA.

Stóru-Vogasjóhús (sjóbúð)

Stóru-Vogar

Stóru-Vogasjóhús.

“Heiman frá bæ lá Stóru-Vogastígur niður í Stóru-Vogavör við Stóru-Vogatanga. Upp var [svo] Vörinni var Stóru-Voganaust og Stóru-Vogasjóhús.” segir í örnefnaskrá. Samkvæmt túnakorti frá árinu 1919 var fiskhús um 120 m NV við Stóru-Voga og um 170 m VSV við Tjarnarkot. Tvöföld tóft er um 130 m VNV við bæ og um 170 m SV við Tjarnarkot. Tóftin stendur á efribrún fjöru í sléttu graslendi á Stóru-Vogartanga.
Tóftin er tvískipt, um 9 m á lengd, um 7 m á breidd og snýr ASA-VNV. Hér hefur trúlega verið timburhús á grjóthlöðnum grunni. Tóftin er vel grasigróin og lítið rofin en efri brún fjöru er komin mjög nálægt tóftinni að V svo hún er í hættu vegna sjávarrofs.
Samkvæmt Magnúsi Ágústssyni var fjárhús frá Stóru-Vogum á þessu svæði en samkvæmt ljósmynd sem tekin er árið 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands voru þarna sjóhús frá Stóru-Vogum.

Dys (legstaður)

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1950.

Í Strönd og Vogar segir: “”Hrolleifur bjó síðan í Kvíguvogum og er þar heygður. Hans son var Svertingur, faðir Gríms lögsögumanns á Mosfelli.” Enginn veit nú, hvar haugur Hrolleifs er. Sumir hafa giskað á, að hann muni vera rétt hjá húsinu, sem nú er í Stóru-Vogum, því að mannsbein hafa fundizt þar í hólbarði. Kålund getur um hauginn í Íslandslýsingu sinni og segir, að á haugnum hafi fyrst verið reist hjáleiga og síðan fjárhús.” Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, fundust mannbeinin í fjöru í sniði bæjarhóls að vestanverðu um 15 m vestan við íbúðarhús Stóru-Voga. Bæjarhóll Stóru-Voga er nú að hálfu rofinn í burtu að vestan vegna ágangs sjávar. Þar er nú brött grýtt brún sem hallar um 30-40° til V.

Vogar

Stóru-Vogar – skilti.

Ekkert sést til fornleifa í dag. Guðrún sagðist ekki vera viss um það hvort beinin hafi verið rofin úr bæjarhólnum eða hvort um hafi verið að ræða bein óþekkts sjómanns. Samkvæmt Helga Davíðssyni, einum eiganda Ásláksstaða, fundust beinin í sjávarbakkanum skammt norðan við bæjarrústina, á ská út frá tóft útihúsanna. Líklegast er að beinin tengist í raun kirkjugarði hálfkirkju Stóru-Voga sem talið er að hafi verið á jörðinni þó ekki sé hægt að fullyrða það en einnig gæti alveg verið um legstað Hrolleifs að ræða. Snið bæjarhólsins er ógreinilegt vegna jarðvegshruns og rasks vegna byggingar sjávarvarnargarðs, göngustígs og skólabyggingar. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur og Viktori Guðmundssyni fundust beinin 5. júní 1976 og voru þau send Þjóðminjasafni Íslands til greiningar og varðveislu.

Móakot (býli)

Móakot

Móakot – uppdráttur.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Móakot hefur tvö ár í eyði legið, kostir voru þar allir hinir sömu, grasnyt sem því fylgdi brúkar heimabóndinn, og má ekki að skaðlausu án vera.” Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við Móakot í Vogum. Samkvæmt heimildarmönnum eru þó Móakot inn á Strönd rétt hjá Ásláksstöðum og einnig er hjáleiga frá Kálfatjörn sem kallast Móakot.

Valgarðshjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Valgards hjáleiga hefur fimm ár í eyði legið, þar voru kostir allir hinir sömu sem á Tjarnarkoti. Nú brúkar heimabóndinn grasnautnina og kann hennar ei að missa að skaðlausu.” Prestur telur hjáleigurnar Valgarðskot og Garðhús með 1803. Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við nafnið.
Heimildir:JÁM III, 121; JJ 1847, 89.

Gvendarbrunnur (vatnsból)

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

“Þar skammt frá Veginum er vatnsból er nefndist Gvendarbrunnur eitt þeirra vatnsbóla er vor ágæti Gvendur góði vígði,” segir í örnefnaskrá. “Milli Leirdals og efstu húsanna er Gvendarbrunnur sem sagður er vígður af Guðmundi góða Arasyni Hólabiskupi. Brunnurinn er lítil hola við klappir oftast með einhverju vatni í,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Gvendarbrunnur er um 10 m austan við íbúðarhús við Hvammsdal 14 og um 450 m suðaustan við Suðurkot.
Brunnurinn er í grasi- og mosagrónu grýttu hrauni. Einnig er getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum. Þar segir: “Skammt fyrir ofan Hvamm er Gvendarbrunnur, vígður af Guðmundi biskupi góða, og er mikilvægt að friðlýsa brunninn, því byggðin er farin að nálgast hann. Brunnurinn er um 260 metrum fyrir ofan gamla þjóðveginn (þeim ökufæra) og nánari staðsetning er sú að húsið í Hvamm skal bera í miðja Ytri-Njarðvík.”
Gvendarbrunnur er egglaga hola austan undir kletti sem Hvammsdalur 14 stendur á. Holan er um 1 m á breidd og um 1,2 m á lengd og um 0,4 m á dýpt. Engar greinilegar hleðslur eru sjáanlegar en holan er þó full af grjóti.
Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var þarna aldrei eiginlegur brunnur í hennar tíð heldur aðeins hola í hrauninu sem oft var vatn í. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur hefur mjög líklega verið vel nýtanlegt náttúrulegt vatnsból á þessu svæði sem hefur þó þurft að grafa upp úr við og við vegna jarðvegssöfnunar.

Gíslaborg (fjárskýli)

Gíslaborg

Gíslaborg.

“Rétt heima við Vegamótin er svæði sem nefnist Lægðin. Austar og hærri er fjárborg, nefnist hún Gíslaborg og vestan undir henni lægðir heita Gíslaborgarlágar,” segir í örnefnaskrá. “Suður undir Vogaafleggjara og suðvestur af Brunnastaðalangholti er Gíslaborg og Gíslaborgarlágar austur og norður af henni. Þarna eru rústir af stórri fjárborg og er mál borgarinnar u.þ.b. 10×7 m og veggþykktin töluverð,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Áður en kemur inn í þéttbýlið Voga er verksmiðjuhúsnæði Norma ehf. við Harunholt austan afleggjarans. Austan við verksmiðjuna, í grónu hrauni, er grjóthlaðin fjárborg og sést hún vel að. Um 1,1 km austur af Stóru-Vogum.
Fjárborgin stendur á dálitlum grónum hól í uppgrónu hrauni.

Gíslaborg

Gíslaborg.

Fjárborgin er um 10×7 m að utanmáli, en hleðslur eru nokkuð hrundar út og virðist umfang hennar því meira. Hún snýr norður-suður og er op á miðri suðurhlið. Borgin er öll grjóthlaðin, en í norðurhluta hennar virðist torfi eða jarðvegi vera hlaðið með utanverðum veggjum. Að innan er borgin einnig niðurgrafin í norðurhluta og er þykkt veggja þar allt að 2,5 m, en annars um 1 m. Engu síður hallar fletinum nokkuð til suðurs innan tóftarinnar. Grjót í hleðslum er nokkuð stórt, hleðslur grónar og hæð þeirra um 1,2 m. Innan tóftarinnar má greina 6 lítil aðskilin hólf, öll aðgreind með einföldum grjóthleðslum. Talsvert hefur hrunið úr hleðslum innan tóftarinnar og er mögulegt að hólfin hafi verið fleiri.

Þórusel (sel)

Selhólar

Selhólar – Þórusel.

“Suðaustur frá þessari fjárborg er svæði, sem nefnist Þórusel, þar eru Kúadalur og Kúastígur.” segir í örnefnaskrá “Nokkurn spöl vestan við Viðaukahólana fyrrnefndu sjáum við nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið en er nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Svæðið er rétt ofan við vegamótin í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæði neðan Reykjanesbrautar og rétt austan vogaafleggjara heita Þórusel eins og fyrr er getið. Víst er að Þóru nafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga en á því átti að standa höfuðból og þar “átján hurðir á hjörum”. Engar rústir eru sjáanlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó svo að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Eins og sést af ofangreindum frásögnum ber mönnum ekki saman um hvar Þórusel hafi verið. “Vogamenn” segja það norðan Reykjanesbrautar og austan Vogaafleggjara. Þar er gróið hraun og enginn staður sérstaklega vænlegur fyrir sel, eins og umhverfið er nú.

Þórusel

Þórusel – heimasel.

Beint sunnan gatnamóta Reykjanesbrautar og Vogaafleggjara er grasi gróinn blettur sem að nokkru hefur verið raskað. Er þetta sá staður sem margir telja að selið hafi verið. Engar leifar um selið er nú að sjá á þessum stað en þar er mjög grösugt og þýft. Svæðið er um 30 m sunnan (ofan) við Reykjanesbraut og um 1,8 km suðaustan við bæ og kemur til með að hverfa undir mislæg gatnamót.
Gróinn grasblettur upp af Reykjanesbraut. Umhverfis eru mosavaxin hraun.
Veturinn 2006-2007 voru ráðgerðar framkvæmdir á þessum slóðum og tóku þá vinnuvélar prufuskurð á svæðinu sem Elín Ósk Hreiðarsdóttir fornleifafræðingur vaktaði. Ekki komu í ljós neinar mannvistarleifar á þessum slóðum, en það segir þó lítið um að Þórusel hafi verið á þessum stað.  Að teknu tilliti til nálægðar við bæi hefur Þórusel að öllum líkindum verið heimasel. Í slíkum seljum voru ekki önnur mannvirki en stakur stekkur.

Snorrastaðasel (sel)

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

“Við Nyrstu-Vatnsgjá mótar fyrir Snorrastaðaseli,” segir í örnefnaskrá, en heimildir herma að á þessum slóðum hafi verið býlið Snorrastaðir þótt staðsetning þess sé nú týnd. “Þrjár kofatóftir eru á nyrðri bakka neðstu og stærstu tjarnarinnar. Ein heimild segir að þarna hafi verið Snorrastaðasel og þá frá bæjum í Vogum. Þetta er annað af tveimur selstæðum í hreppnum sem eru svo nálægt byggð og má ætla að í þeim hafi eingöngu verið hafðar kýr,” segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Snorrastaðatjarnir heitir falleg tjarnaþyrping um 300 m suðaustan við Háabjalla, en tjarnirnar hafa myndast í gjám sem liggja þarna þétt saman og teygja sig norðaustursuðvestur. Tóftir Snorrastaðasels eru við nyrðri bakka nyrstu tjarnarinnar, en göngustígur liggur fram á bakkann við tóftirnar frá bílastæði við Háabjalla. Selið er um 2,9 km SSV af Stóru-Vogum.
Tóftirnar eru sunnanundir hálfgróinni hrauntungu, á dálitlu grónu nesi um 5 m frá vatnsbakkanum. Handan tjarnarinnar stendur skáli Skátafélagsins Heiðarbúa í Keflavík. Á þessum stað eru tvær tóftir á svæði sem er um 22×5 m að stærð og snýr norður-suður meðfram vatnsbakkanum.

Nýjasel (sel)

Nýjasel

Nýjasel.

“Austur frá Vatnsgjánum er grágrýtisholt er nefnist Nielsarbjalli að því er sumir segja, en líklega er hér um mismæli að ræða. Nýjaselsbjalli mun hann heita og þar er Nýjasel,”
segir í örnefnaskrá. “Út frá tveimur efstu tjörnunum til norðausturs er Nýjaselsbjalli eða Níelsarbjalli. Ballinn er nokkuð langt grágrýtisholt sem sker sig dálítið úr umhverfinu.
Hann líkist ekki hinum bjöllunum því þeir eru allir með nokkuð brattri hlíð sem snýr í suðaustur en Nýjaselsbjalli er frekar holt en hjalli. […] en Nýjaselsbjalli mun hann heita og dregur nafn sitt af litlu seli sem staðið hefur rétt norðaustan við bjallann. […] Undir bjallanum eru tóftir af Nýjaseli og kúra þær í lægð undir lágum gjárvegg sem snýr til norðurs. Þegar farið er um Skógfellaveginn er selstæðið skammt austan við götuna,” segir í Örnefnum og gönguleiðum.

Nýjasel

Nýjasel.

Nýjasel er um 1,1 km norðaustur af Snorrastaðaseli, norðanundir gjávegg skammt norður af Skógfellavegi sem er stikuð og vörðuð leið um hraunið. Selið er um 2,5 km suður af Stóru-Vogum.
Selrústirnar eru fast undir gjáveggnum, sem er þarna um 3 m hár. Meðfram veggnum er dálítil skjólsæl og gróin lægð en allt umhverfis er gróið hraun.
Á heimasíðu Ferlis segir: “Gengið var niður heiðina áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Þegar skammt var eftir að tjörnunum var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla. Selið hefur tilheyrt bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.” Selrústirnar dreifast á svæði sem er um 34×14 m að stærð og snýr norður-suður. Á svæðinu eru þrjár tóftir og auk þess tveir skútar. Hér á eftir verður hverju þessara mannvirkja lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar. Stærsta og umfangsmesta tóftin (A) er á miðju svæðinu. Hún er um 11×8 m að stærð, snýr austur-vestur og greinist í 6 hólf. Megininngangur er á miðri norðurhlið tóftarinnar og er þaðan gengt í öll hólf að einu undanskildu. Komið er inn í hólf 1 sem er um 2×2 m að innanmáli.
Úr því er op til vesturs inn í hólf 2 sem er um 1×1,5 m að innanmáli. Í því er talsvert af grjóthruni gróið í svörðinn. Mögulega hefur verið annar inngangur í þetta hólf á norðurhlið, en hann er fallinn saman.

Pétursborg (fjárskýli)

Pétursborg

Pétursborg.

“Þar rétt við Veginn á Barminum er Huldugjárvarða. Þar er fjárborg hlaðin af Pétri nokkrum föður Benedikts í Suðurkoti, föður Jóns, er þar býr núna, heitir Pétursborg,” segir í örnefnaskrá. Pétursborg stendur hátt, á barmi Huldugjár, og sést langt að. Hún er um 700 m norðaustur af Nýjaseli og um 1,6 km austur af Snorrastaðaseli. Hún er um 2,9 km SSA af Stóru-Vogum.

Pétursborg

Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáveggur Huldugjár er allhár og er gróið undir honum. Uppi á barminum þar sem borgin stendur eru hins vegar berar hraunklappir og hrjóstrugt. Á barmi gjárinnar er fjárborg ásamt tveimur grónum tóftum á svæði sem er um 36×16 m og snýr N-S. Fjárborgin er sporöskulaga, um 7×5 m að utanmáli og snýr suðaustur-norðvestur. Hleðslur eru úr grjóti, um 0,5 m á breidd og allt að 1,8 m á hæð í suðurhluta. Þar eru umför allt að 12.
Austurhluti borgarinnar er hinsvegar að mestu fallinn. Op er á suðausturhlið borgarinnar og liggur dyrahella yfir því. Hæð undir henni er um 1 m. Á gróinni spildu austan við borgina eru tvær tóftir.

Hólssel (sel)

Hólssel

Hólssel.

“Norður og upp frá borginni [Pétursborg] er Hólssel […],” segir í örnefnaskrá. “Norðaustur og upp frá Pétursborg en rétt neðan Litlu-Aragjár er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu sem liggur gegnum einn hólinn. Rústirnar eru ekki dæmigerðar selrústir en þó má ekki útiloka að þarna hafi einhvern tímann verið haft í seli,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Hólssel er beint í austur frá þéttbýlinu í Vogum og sér vel í það úr selinu.
Það er um 1 km norðaustur af Pétursborg, um 2,66 km austnorðaustur af Snorrastaðaseli og um 3,1 km SA af Stóru-Vogum. Rústirnar eru í gróinni lægð á milli tveggja allhárra og sprunginna hraunhóla. Austan og vestan við þær er hálfgróinn melur en fleiri hraunhólar til suðurs og norðurs. Svæðið allt er um 26×26 m stórt og eru rústirnar á tveimur stöðum. Annars vegar eru þær í lægðinni á milli hraunhólanna og hins vegar eru hleðslur í sprungunni á nyrðri hólnum.

Arahnúkssel (sel)

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

“Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel,” segir í örnefnaskrá. “Undir Arahnjúk er Arahnjúkasel eða Arasel frá Vogum,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Aragjáin er stór og mikil og rís gjárveggurinn hátt og sést langt að. Á barmi gjárinnar er Aragjárvarða, afar greinileg, og þar aðeins norðar undir gjárveggnum eru seltóftir. Þær eru um 750 m suður af Hólsseli 075 og um 1,2 km austur af Pétursborg 074, en um 3,9 km suðaustur af Stóru-Vogum. Í grónum skjólsælum slakka undir gjáveggnum. Til norðurs og vesturs eru mosagrónar hraunbreiður.

Arasel

Arasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Undir Arahnúk er Arahnúkasel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um selstöðuna, en það kom fyrir að þær væru færðar neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist. Af þessu má ætla að Arahnúkssel hafi byggst eftir árið 1703 enda höfðu Vogamenn sel í Vogaholti það ár.

Arahnúkasel

Arahnúkasel – stekkur.

Selstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn og þar sjáum við margar kofatóftir ásamt kví. Sagt er að seltúnið hafi síðast verið slegið árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið svo líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir, eins gæti verið að vatn hafi verið í gjánni. Í bergveggnum á Arahnúk er hrafnslaupur og þar sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Heimildir er um tvö önnur nöfn á Stóru-Aragjá, Aragjá og Stór-Aragjá. Gjáin nær allt að Skógfellahrauni til suðvesturs, en þegar komið er nokkuð norðaustur fyrir Arahnúk þrengist gjáin til muna og er svo til horfin í Brunnastaðalandi. Nokkrar heimildir segja að Stóra-Aragjá sé sama gjá og Klifgjá […] þegar komið er austar í heiðina.” Á svæði sem er um 100×20 m og liggur norðaustur-suðvestur með gjánni eru 7 tóftir (en líklega hefur verið átt við hólf en ekki kofa í tilvitnuninni hér að framan). Mannvirkjunum verður nú öllum lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar.

Vogaselið (sel)

Vogasel

Vogasel eldri.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir: “Selstöðu vissa á jörðin eina nærri þar sem kallað er Vogaholt […]. ” “Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og
ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel. Enn austar er svo Vogaselið gamla,” segir í örnefnaskrá. Vogaselið gamla er um 155 m norðan við sel 084 og um 5,9 km suðaustan við Stóru-Voga.
Suðaustast í breiðum dal er grasi gróin hæð áður en farið er til suðurs upp brekku að yngri seltóftum og í þessari hæð er ógreinileg seltóft. Uppblásið er norðaustan við tóftina og norðan við tóftina eru hraunbreiður, mosavaxnar.

Vogasel

Vogasel eldri.

Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: “Gömlu Vogasel eru greinilega mjög gömul. Þau liggja neðst í grasi vaxinni brekku utan í holtinu […]. Mótar fyrir einu húsi með tveimur rýmum, auk þess það virðist óljóst austan þess. Þarna er greinilega um mjög gamlar tóftir að ræða, enda að mestu orðnar jarðlægar. Jarðvegseyðing hefur náð upp að torfu þeirri, sem selin eru á. Ofar í brekkunni, undir og við hraunklett, eru Vogasel yngri. 2-3 ógreinilegar tóftir eru á svæði sem er um 40 x 12 m og snýr austur-vestur.

Í ritgerð ÓSÁ um sel á Reykjanesskaga segir: “Ofar í brekkunni, undir og við hraunklett, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóftir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, tvískipt, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóftirnar er stekkur á bersvæði. Veggir eru heillegir en grónir.” Seltóftir eru um 155 m sunnan við Vogaselið gamla og um 6 km í suðaustur frá Stóru-Vogum.

Vogasel

Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki eru aðrar heimildir um örnefnið Vogasel yngri og kannaðist Sesselja Guðmundsdóttir ekki við það. Hún telur að örnefnið Vogaselið gamla, Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel eigi við um sel og þær tóftir sem hér eru skráðar.
Fjórir hólar eru í brekku sem liggur til suðausturs upp úr víðum dal. Seltóftir eru við þrjá efstu hólana og stekkjartóft og lítil grjóthlaðin tóft eru á grösugum en grýttum bletti þar austan við.
Minjasvæðið er í heild um 46 x 68 m og snýr norðaustursuðvestur. Á þessu svæði eru samtals 5 tóftir.

Halakot (býli)

Halakot

Halakot – bæjarstæði.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Halakot hefur í eyði legið fimm ár, þar voru allir kostir hinir sömu sem á hinum og brúkar heimabóndinn grasnytina og getur ekki burt leigt að skaðlausu.”
Staðsetning Halakots er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við að bær að nafni Halakot hafi staðið í Vogunum. Heimildarmenn könnuðust aðeins vð Halakot í Brunnastaðahverfi en Magnús Ágústsson er sjálfur þaðan.

Garðbær (býli)
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Garðbær var aflagður fyrir 1920. Var það hús á milli Brekku og Suðurkots og þá í Stóra-Vogalandi og Suðurkotslandi, eins og Bræðrapartur var lengi vel.” Þar er nú Brekkugata 7 um 80 m suðaustan við Suðurkot og um 50 m ANA við Bræðrapart. Á þessu svæði er íbúðarhús og slétt graslóð við Brekkugötu 7.
Ekkert sést til fornleifa.

Syðsta hjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: “Sidsta hjáleiga, þriðja. Jarðardýrleiki er óviss.” Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og Guðrún L. Magnúsdóttir, heimildarmaður, kannaðist ekki við nafnið. Hugsanlegt er að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað og Suðurkot er nú en engar heimildir hafa fundist um slíkt. Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L.Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við nafnið. Hugsanlegt er að um sé að ræða Suðurkot en engar heimildir hafa fundist sem styðja þá hugmynd.

Dailey Camp (herminjar)

Daily Camp

Daily Camp – minjar.

“Við Stapahornið milli Gamla-Keflavíkurvegar og Reykjanesbrautar er slétt svæði en á því var reist herskálahverfi árið 1942 sem kallað var Daily camp. Þar var sjúkrahús með fullkomnum skurðstofum og sjúkrarými fyrir 250 sjúklinga og var eina starfandi hersjúkrahúsið hér á landi í stríðslok. Daily Camp brann til kaldra kola í óveðri í apríl árið 1946,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Daily Camp var á sléttu svæði norðan Reykjanesbrautar og að
Kálgarðsbjalla. Á þessum slóðum liggur nú vegarslóði upp að Grímshól. Á þessum stað er mikið sléttlendi. Svæðið er vaxið mosa og grasi. Vestan slóðans er sérstaklega slétt.
Ekki sáust skýr ummerki um hverfið á vettvangi en samkvæmt heimildarmanni, Viktori Guðmundssyni, eru sökklar og aðrar minjar auk frárennslislagna á svæðinu.

Grímshóll (þjóðsaga)

Grímshóll

Á Grímshól.

Grímshóll er hæsti punktur Vogastapa. Á honum er hringsjá og útsýnisstaður. Við hringsjána, á kolli hólsins, er grjóthleðsla. Hóllinn er 2,2 km suðvestur af bæ.
Þjóðsaga tengist hólnum og er hún á þessa leið: “[…] En einu sinni bar svo við að unglingsmaður nokkur, Grímur að nafni, ætlaði suður í Leiru til útróðra. Grímur var fyrirvinna hjá móður sinni, en faðir hans var dáinn. Grímur fór nú með öðrum Rangvellingum suður, en er þeir komu suður undir Vogastapa bar svo við sem oft má verða að reiðgjörð slitnaði á hesti Gríms svo hann varð að staldra við til að bæta gjörðina. […] En er Grímur var einn orðinn kom að honum maður einn. Sá maður falar Grím til að róa hjá sér um vertíðina, en Grímur skorast undan og kveðst vera ráðinn hjá manni í Leirunni […] Og hvernig sem þeim hafa nú farizt orð í milli þá fór Grímur með hinum ókunna manni.” Grímur aflar vel hjá ókunna manninum og fer heim með miklar birgðir til móður sinnar. Hann segir engum af viðskiptum sínum við ókunna manninn nema móður sinni og er nokkrar vertíðir hjá honum. Maðurinn býður Grími að koma til sín þegar móðir hans væri önduð og eiga dóttur sína. Grímur þiggur boð mannsins og heldur suður eftir andlát móður sinnar ” […] en engi vissi upp á víst hvert hann fór nema hvað samferðamenn hans komust næst að hann mundi hafa farið að hól þeim sem er á Vogastapa fyrir ofan Reiðskarð. Hóll þessi er æði stór með vörðu á og er hann kallaður Grímshóll síðan. Aldrei varð neitt vart við Grím eftir þetta hvorki á Rangárvöllum né í veiðistöðvum.”
Hóllinn er gróinn í kollinn en annars blásinn og grýttur eins og umhverfið. Þó eru umhverfis hann miklar lúpínubreiður. Sunnan hólsins liggur Stapagata í austur-vestur.
Umhverfis hringsjána er hlaðinn hringur eða stallur úr grjóti og steypu. Fast sunnan við stallinn er gróin hvilft og grjóthleðsla með börmum hennar. Hvilftin er skálarlaga og lækkar inna að miðju. Hún er um 3 m í þvermál og myndar hleðslan hring með börmum hennar. Þar standa mest 2 umför en hleðsluhæð er um 0,4 m í norðurhlið. Á lítilli klöpp í hlíð hólsins, sunnan við hvilftina, eru einnig þrjár lítilfjörlegar grjóthrúgur. Þær liggja í röð í austur-vestur og eru hver um sig varla meira en 0,5 m í þvermál. Sunnan undir hólnum eru svo tveir grjótruðningar. Sá eystri er um 10 m langur og liggur norðvestur-suðaustur. Hann virðist niðurgrafinn að hluta. Vestari ruðningurinn liggur á yfirborði og er um 3,5 m langur í norður-suður. Hæð ruðninganna er um 0,3 m. Tilgangur mannvirkjanna er óþekktur en nokkuð er af járn- og spýtnabraki á og við hólinn.

Jónasarvarða (legstaður)
“Á Holtsgjábarmi er Varðan, Jónasarvarða og er við Jónasarsprungu. Þá eru ýmsir sem nefna hér Jóhannesarvörðu og Jóhannesarsprungu […],” segir í örnefnaskrá. Varðan stendur á klettanibbu suðaustan í krosssprungnum hraunhól og sést langt að. Hún er um 5 km SA af Stóru-Vogum. Austan við hólinn er slakki fram á gjávegginn sem liggur norðaustur-suðvestur um 100 m austan við vörðuna. Varðan er reisuleg, um 1,3 m á hæð, 0,8×0,8 m að ummáli og köntuð. Hún er hlaðin úr fremur stóru hraungrjóti og er hleðslan um 6 umför. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur, heimildamanni, á varðan að vera hlaðin á þeim stað sem maður, líklega að nafni Jón eða Jónas, varð úti.

Kálffell (fjárskýli)

Kálffell

Kálffell – fjárskjól.

“Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 […] og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925),” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Kálffell er lágt fell eða gígur, sem þó rís nokkuð upp úr umhverfinu og er eina fellið á þessum slóðum vestan fjallgarðsins. Austan við hæsta punkt fellsins, norðaustan í hlíðum þess, eru tvö fjárskýli í hellisskútum, en vörslugarður í gígnum. Rústirnar eru tæpa 7 km SA af Stóru-Vogum.
Í mosagróinni hraungrýtishlíð, en allt umhverfis eru mosagrónar hraunbreiður.
“Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Fjárskýlin tvö eru í lágum hraunhellum sem hlaðið hefur verði að og fyrir til þess að mynda skjól, en svæðið er um 15×15 m. Nyrðri skútinn er um 4 m djúpur og 10 m breiður og snýr austur-vestur. Lofthæð er mest um 1 m, en lækkar mjög frá miðju. Hlaðið hefur verið að munnanum og hraunhellur reistar upp á rönd til þess að loka honum fyrir veðri og vindum. Ein hella stendur en a.m.k. tvær eru fallnar. Austast við munnann er grjóthlaðinn rani sem myndar op inn í skútann, en gengið er inn í hann til norðurs. Hleðslan er um 0,5 m á hæð og tvö umför.

Kálffell

Fjárskjól í Kálffelli.

Um 7 m sunnan við skútann er annar hraunskúti. Hann er um 5 m djúpur og um 15 m breiður og snýr norður-suður. Lofthæð er um 1 m en lækkar mjög frá miðju. Gengið er inn í skútann til austurs og er grjóthlaðinn rani að opinu. Hleðslan er um 0,5 m á hæð og 3 umför. Næst munnanum liggur hraunhella þvert yfir ranann og myndar þak. Fleiri skútar eru á svæðinu umhverfis en á þeim eru engin mannaverk.
Um 140 m vestur af fjárskýlunum, ofan í gígnum í Kálffellinu, er grjóthlaðinn vörslugarður. Hleðslan er úr stóru hraungrýti og liggur í vinkil með horn í suðvestur og myndar þannig gerði við gígbarminn. Vesturhliðin er um 12 m löng, en suðurhliðin um 10 m löng. Umför eru allt að fjögur en hleðslan er sigin og hrunin út á köflum. Hæð hennar er mest um 0,8 m. Minjarnar lenda lítillega utan við landamerki sem fengin voru hjá sveitarfélaginu en þær eru engu að síður skráðar með Stóru-Vogum þar sem þær eru í tengslum við Oddshelli sem er skammt frá og möguleiki er á því að landamerkin séu ekki eins nákvæm uppi í heiðinni og niðri við byggðina.

Oddshellir (hellir/smalakofi)

Oddshellir

Oddshellir.

“Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 […] og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). […] Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhóli rétt sunnan við gígskálina,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Kálffell er lágt fell, eða öllu heldur gígur, í hrauninu um 3 km suður af Arahnjúksseli. Oddshellir er í suðausturhlíð fellsins, fast sunnan við gígbrúnina. Hellirinn er tæpa 7 km SA af Stóru-Vogum. Í hálfgróinni hlíð fellsins, en allt umhverfis eru mosagrónar hraunbreiður.
“Hóllin dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þurfum við að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyranna”. Oddshellir er nokkuð rúmur og á einum stað er hlaðið upp í einn afkima,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Erfitt er að finna hellinn þar sem opið er ofan á hólnum og því lítt áberandi fyrr en komið er alveg að því. Hóllin sjálfur, gróinn hraunhóll, er hins vegar áberandi. Op hellisins er um 1×1,5 m að stærð og er hellirinn nokkuð rúmur. Ekki var farið ofan í hann við skráninguna. Hellirinn lendir utan við landamerki sem fengust hjá sveitarfélaginu en hann er talinn með í örnefnaskrá Voga og tilheyrir að öllum líkindum StóruVogum og er því skráður innan þeirrar jarðar.

Eyrarkot (býli)
Hjáleiga Stóru Voga 1703 (JÁM III, 123). “Eyrarkot var á Eyrarkotsbakka svokölluðum, norðanverðum, milli sjávar og norðurenda Vogatjarnar …” Fór í eyði um 1922 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 103).
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir frá hjáleigu undir Stóru-Vogum: “Eirarkot, fyrsta hjáleiga.” Í Manntali frá 1801 er einnig minnst á hjáleiguna Eyrarkot undir Stóru-Vogum. Í örnefnaskrá segir svo: “Í norður frá Stóru-Vogabakka er Eyrarkotsbakki, þar stóð Eyrarkot í Eyrarkotstúni og þar niður undan var Eyrarkotsvöru.” Á túnakorti frá því um árið 1919 stendur: “Eyrarkot, þ.búð, færð nýl. á lágan bakka, er brotnar garðlag lágt og kg. framanvið”. Í bók Guðmundar B. Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: “Eyrarkot (horfið). Eyrarkot á Eyrarkotsbakka svokölluðum, norðanverðum, milli sjávar og norðurenda Vogatjarnar, eða þar sem nú er syðsti hluti af fiskhúsi Valdimars hf. […] sem var timburhús að mestu, […]. Eyrarkot fór í eyði um 1922.” Samkvæmt túnakorti var Eyrarkot á svæði um 320 m NV við Stóru-Voga og um 250 m VNV við Tjarnarkot á svæði 50-80 m V-VSV við Vogatjörn. Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur og Viktors Guðmundssonar er nákvæm staðsetning Eyrakots undir suðurhorni fiskverkunarhúss Þorbjarnar Fiskanes. Á svæðinu eru bárujárnsklædd og steinsteypt iðnaðarhúsnæði og malbikað plan.
Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, voru tættur á þessu svæði áður en iðnaðarhúsnæði voru reist vestan við Vogatjörn. Ekkert sést til fornleifa.

Tumakot (býli)

Tumakot

Tumakot.

Hjáleiga Stóru-Voga 1847. Brann 26. ágúst 1960 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 61-62). Túnakort 1919: Tún 0,6 teigar, garðar 620 m2.
“Þá var Tumakot í Tumakotstúni […],” segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund B. Jónsson segir svo: “Tumakot (brann 26. ágúst 1960). […] Eyjólfur Pétursson endurbyggði Tumakot um 1910. Þótti húsið reisulegt á þeim tíma. Einnig byggði hann upp öll útihúsin.” Samkvæmt Guðmundi var einnig búið í Tumakoti fyrir 1910. Grjóthlaðinn grunnur Tumakots er 6-8 m vestan við íbúðarhús við Akurgerði 8 og um 55 m suðaustur við Stóru-Voga.
Norðan og vestan við grunninn er slétt graslendi. Austan og suðaustan við hann er um 3 m hár jarðvegshaugur úr grunni íbúðarhússins við Akurgerði 8.
Grasigróinn og grjóthlaðinn grunnur húss sem samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttir var bárujárnsklætt timburhúss. Grunnurinn er niðurgrafinn um 0,8-1 m og eru um 5 umför sjáanleg. Grunnurinn er um 6 m á lengd og um 5 m á breidd að innanmáli. Mikið af grjóthruni er í honum. Grjótveggir grunnsins eru um 1 m á breidd og eru þeir hlaðnir úr hraungrýti. Því er flatarmál grunnsins um 8 m á lengd og 7 m á breidd. Samkvæmt ljósmynd af Tumakoti í Mannlíf og mannvirki og líkani Guðmunda M. Jónssonar af Vogum árið 1930 var inngangur í húsið á vesturhlið um 1 m norðan við suðvesturhorn hússins. Þar er um 0,4 m hátt grjóthlaðið þrep með steypuhúð ofaná sem trúlega hefur verið hluti af forstofunni. Á ljósmynd af Tumakoti í Mannlíf og mannvirki sést greinilega að húsið var á 2 hæðum, jarðhæð og ris, byggt úr timbri og klætt bárujárni. Ómanngengur kjallari var undir húsinu og gluggar á grunni hússins.

Suðurkot (býli)

Suðurkot

Suðurkot.

Hjáleiga Stóru Voga 1847 samkvæmt Jarðabók Johnsens. Túnakort 1919: Tún 1,7 teigar, garðar 1180m2.
“Þá er Suðurkot í Suðurkotstúni,” segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: “Eftir aldarmótin lét Benedikt [Pétursson] byggja upp gamla bæinn og var sá notaður til ársins 1927. Þá lét hann byggja það Suðurkot er nú stendur.” Tóft Suðurkots er um 310 m sunnan við Stóru-Voga og um 180 m SSV við Nýjabæ. Tóftin er á milli suðurenda malbikaðrar götu sem kallast Akurgerði og malbikaðs göngustígs og íbúðarhúss við Brekkugötu 3.
Bæjarhóll er ekki greinanlegur lengur þar sem búið er að umturna öllu svæðinu í kring um bæjartóftina vegna byggingavinnu, vegagerðar og göngustíga en þó er ekki ólíklegt að einhverjar leifar finnist undir sverði á svæðinu.
Tóft bæjarins er vel grasigróin, um 18 m á lengd, um 12 m á breidd og snýr VNV-ASA. Veggir tóftarinnar eru mjög rofnir og hleðslur þeirra signar en þeir eru hlaðnir úr torfi og grjóti. Veggir sem ennþá standa eru um 1-2,5 m á breidd og um 0,4-1,4 m á hæð. Óljóst er hvar inngangar voru í tóftina en gengið hefur verið inn á N- eða S-hlið hennar. Hólf innan tóftarinnar eru óljós og er hvorki hægt að segja til um það hversu stór þau voru né hvernig þau lágu. Á túnakorti sést að á bæjarhólnum hefur einnig mjög líklega verið niðurgrafin þró fyrir mykju og annan úrgang líkt og þrær sem skráðar voru heima við bæ í Austurkoti en ekkert sést til slíks mannvirkis.

Hof (örnefni)

Hof

Hof.

“Þá er Suðurkot í Suðurkotstúni. Þar er hóll í túninu [er] nefnist Suðurkotshóll eða Hof. Á þeim hól eru þau álög,að ekki má slá hann eða hreifa við honum á nokkurn hátt.” segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund B. Jónsson segir: “Hof var byggt um 1945, þá sem sumarbústaður, […]. Hof er í landi Suðurkots. […] stendur á hól er Hofhóll heitir og réði það nafninu á húsi og götu.” Samkvæmt Sesselju Guðmundsdóttur, heimildarmanni, eru Hofhóll og Suðurkotshóll ekki sami hóllinn líkt og segir í örnefnaskrá.
Hof/Hofhóll er um 260 m suðaustan við Stóru-Voga og um 160 m NA við Suðurkot. Stórt steinsteypt íbúðarhús, Hofgerði 6, er austan í hólnum. Hóllinn er aflangur, vel grasigróinn og sést greinilega enn. Hann er ávalur, 2-4 m á hæð, um 50 m á breidd og snýr N-S. Óljóst er hversu langur hann er vegna íbúðarhúsa í kring en er hann a.m.k. um 50 m á lengd. Ekkert sést til fornleifa.

Klöpp (býli)
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: “Klöpp var þar sem nú stendur Suðurkot (Suðurgata 2) og var timburhús. Minnist ég þess að hafa séð það í barnæsku sem útihús eða geymslu, annað hvort var það tjöruborið eða tjörupappaklætt og svart á að líta. […] Klöpp lagðist undir Suðurkot og var rifið þegar núverandi hús þar var byggt.” Í byggð rétt eftir aldamótin. Klöpp var um 80 m austan við Suðurkot.
Á þessu svæði er nú íbúðarhús og sléttuð grasflöt við Suðurgötu 2. Ekkert sést til fornleifa. Hugsanlegt er að Klöpp sé hús 012 sem sýnt er á túnakorti frá árinu 1919 en ekki er hægt að sýna fram á það með neinni vissu.

Tjarnarkot (býli)
Hjáleiga Stóru-Voga árið 1703, þá í eyði en í byggð árið 1847 (skv. Jarðabók Árna og Páls og síðan Jarðatali Johnsens). Tjarnarkot var byggt upp um 1880 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 75).
Túnakort 1919: Tún 0,11 teigar, garðar 620 m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Tiarnarkot, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið fjögur ár. […] Nú er grasnaut lögð til heimabóndans, og kann ekki hjáleigan aftur að byggjast án heimabóndans skaða.” Í örnefnaskrá segir: “Tjarnarkot stóð í Tjarnarkotstúni niðurundan er Tjarnarkotsklöpp og rétt við hana Eyrarkotsvör, Tjarnarkotsvör [,] Hábæjarvör og vörin Fúla eða Fúlavik en þarna safnaðist mikið þang og þari og fúlnaði.” Í bókinni Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir svo: Tjarnarkot var byggt upp um 1880 af Magnúsi J.Waage, (yngri). Var það talið gott timburhús og stóð í landi Stóru-Voga austan við Vogatjörn, nálægt tjarnarbakkanum. [Eftir að flutt var úr] Tjarnarkoti var það ábúendalaust en notað sem danshús á vetrarvertíðinni árið 1904, […].” Tjarnarkot er um 200 m norðan við Tumakot og um 160 m norðan við Stóru-Voga.
Tóft Tjarnarkots er í þýfðu graslendi á suðausturbakka Vogatjarnar. Um 8 m austan við tóftina er svo malbikaður göngustígur.
Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var Tjarnarkot aðeins tóftir er hún settist að í Vogum árið 1942. Á svæðinu er einföld tóft og mjög óskýrt garðlag utan um kálgarð. Tóftin er um 11 m á lengd, um 9 m á breidd og snýr N-S. Trúlega er tóftin aðeins leifar af niðurgröfnum grjóthlöðnum grunni timburhússins en tóftin er mjög grasigróin svo lítið sem ekkert sést í grjóthleðslur. Tóftin er ferköntuð og eru veggir grunnsins nú um 2-4 m á breidd og um 0,4-1 m á hæð. Innanmál tóftar er um 5 m á lengd og 4 m á breidd.

Minni Vogar (býli)

Minni-Vogar

Minni-Vogar.

Jarðardýrleiki óviss 1703. Konungseign. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26).
Hjáleigur í eyði 1703: Eyrarkot og Hólshjáleiga ásamt tómthúsinu Renslutóft. (JÁM III, 123). Norðurkot hjáleiga í byggð 1847. Óljósar sagnir eru um býli nefnt Hólkot en engar upplýsingar hafa varðveist um það.
Mýrarhús, Austurkot, Helgabær, Mörk og Grænaborg voru afbýli sem byggðust í landi Minni-Voga eftir 1847. Þéttbýli tók að myndast í landi Stóru- og Minni-Voga í kringum aldamótin 1900 en saga þess er rakin annarsstaðar, svo sem í bók Guðmundar Björgvins Jónsson um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi 1703: “Túnin brýtur sjór og skemmir sandur árlega. Engjar eru öngvar. Hagar og útigángur litlir sumar og vetur.”
(JÁM III, 123). Túnakort 1919: Tún 3,4 teigar, garðar 2480m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: “Minne Vogar. Jarðardýrleiki óviss.” Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir: “Minni-Vogar (Egilsgata 8). […] Klemens [Egilsson] lét byggja upp Minni-Voga árið 1922, […]. Húsið var byggt sem tvíbýli og var gert ráð fyrir að tveir synir Klemensar, Þórður og Sæmundur byggju í sitthvorum enda hússins.” Minni-Vogar eru um 370 m norðan við Stóru-Voga og um 230 m austan við Norðurkot við miðja Egilsgötu vestanverða. Á bæjarhólnum stendur íbúðarhúsið sem byggt var upp árið 1922.
Íbúðarhúsið snýr A-V, er með bárujárnsklætt þak, plastklætt að utan og með steinsteyptum og grjóthlöðnum kjallara.
Steinsteypt viðbygging hefur verið byggð við timburhúsið að vestan. Húsið er á þremur hæðum, kjallara, jarðhæð og risi. Gengið er inn að norðan. Mjög líklegt er að áður en timburhús var byggt að MinniVogum hafi staðið þar grjót- og torfhlaðinn bær. Útlínur bæjarhóls eru orðnar mjög óskýrar vegna vegagerðar og nýlegra bygginga í kringum bæinn en vestan og norðvestan við hús er grasigróin brekka sem hallar um 5° í V um 20 m út frá bæ sem gefur til kynna að húsið standi á hól. Ólíklegt er þó að mikið af óhreifðum fornleifum finnist í bæjarhólnum. Á ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands sést eldra timburhúsið og viðbyggingin sem áður var fast norðan við það. Gamla timburhúsið var á þremur hæðum, byggt úr timbri og með bárujárnsþaki. Þar sést einnig að veggir viðbyggingarinnar hafa trúlega verið hlaðnir úr grjóti á meðan þakið var timburbyggt. Skorsteinn í þaki gæti gefið til kynna að í húsinu hafi hugsanlega verið hlóðaeldhús líkt og í Austurkoti.

Mýrarhús (bústaður)
“Frá Eystraskarðshorni liggur Grjótgarður í norður meðfram Mýrinni skammt fyrir norðan Mýrarhúsatóftir og beygir garður þar til suð-austurs og liggur alla leið að mörkum Austurkots og Minni-Voga…” segir í örnefnaskrá. Í henni segir ennfremur: “Mýrarhús þar er búið nú, þurabúð.” Mýrarhúsa er einnig getið í bókinni Mannlíf og mannvirki. Þar segir “Mýrarhús er norður af Minni-Vogum á landi þeirra. Húsið byggði Hinrik A. Hansen árið 1885.”
Mýrarhús voru m 90 metra suður af meintri verbúð. Þau eru á mörkum deiliskráningarreits sem nú er skipulagður, á milli nyrstu húsa við Marargötu eða rétt norður af þeim. Grjótgarðurinn sem nefndur er í lýsingunni sést enn að hluta til norðaustan byggðarinnar Í Vogum en hverfur beint norður af nyrstu húsum við Marargötu. Á þessu svæði eru nú hús og garðar og engin merki um Mýrarhús eru sjáanleg.

Helgabær (býli)
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Helgabær var um 100 metra í norðaustur frá Minni-Vogum, í landi þeirra. Bærinn var jarðlaus og því aðeins stunduð þar sjómennska […].”Á þessu svæði eru nú íbúðarhús og garðar við Mýrargötu 7 og 9. Íbúðarhús og garðar við Mýrargötu 7 og 9. Ekkert sést til fornleifa.

Mörk (býli)
“Úr þeim Steini er mörkin bein lína norðanhalt við Karlshól og norður að merkisteini við gamalt bæjarstæði Mörk og mynda þar rétt horn í vestur […] Mörk þurrabúð, nú í eyði. […] Frá Minni-Vogum liggur Merkurgata, að Mörk, en kringum þá þurrabúð var Merkurflöt.” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Mörk (horfin). Mörk var byggð í MinniVogalandi, milli Minni-Voga og Norðurkots. […] Þar bjuggu hjónin Skúli Magnússon f. 1844 og kona hans Elín Bjarnadóttir f. 1859. Skúli í Mörk var af Austurkotsættinni og fékk hann að byggja í sameignartúni Minni -Voga og Austurkots. Hann byggði bæinn úr timbri og var það sjaldgæft á þeim tíma […] Mörk hafði einnig nafnið Tómásarkot [svo].” Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var Mörk um 80 m ASA við Norðurkot og um 150 m vestan við Minni-Voga.
Á þessu svæði er sléttað graslendi, malbikaður göngustígur og íbúðarhús við Hólagötu 1e. Ekkert sést til fornleifa.

Hólkot (býli)
“Grænaborg var byggð árið 1881 á landi Minni-Voga að 2/3 hluta og Austurkots 1/3 hluta. Húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti og bróðir Klemensar í Minni-Vogum. … Þarna hafði verið bær er Hólkot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um þann bæ. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólkot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Grunar mig að Ari, sem þekkti þessa sögu, hafi flutt til hússtæðið, enda
nefnir hann það ekki Hólkot, heldur Grænuborg,” segir í Mannlífum og mannvirkjum í Vatnsleysustrandarhreppi. Ekki ljóst hvort þetta er á svipuðum stað og byggingar skráðar innan túnstæðis Grænuborgar en hér er gengið út frá því að svo sé.
Túnið í Grænuborg er nokkuð gróið, sérstaklega að vestanverðu við ströndina. Nokkrar hæðir eru þó eru í túninu, hæst er það er austanverðu rétt vestan við túngarðinn í Grænuborg. Nokkuð hraun og grjót í túninu.

Grænaborg (býli)

Grænaborg

Grænaborg.

“Ennfremur fylgir Austurkoti og Minni-Vogum eyðibýlið Grænaborg umgirt grjótgörðum.” segir í örnefnaskrá. Þar segir ennfremur: “Og svo er Grænaborg, þar býr Baldvin Oddsson.””Frá Búðinni lá einnig Grænuborgarkampur alla leið að Vesturtúngarði og bak við Kampinn Grænuborgarstígur allt heim í Vesturhlið á Grænuborgar túngarði, sem er grjótgarður vestan og sunnan túnsins. Grænaborg stendur á Bæjarhólnum … Austan Grænuborgarhúss í Grænuborgartúni er Grænuborgarbrunnur og Brunngatan þaðan og heim til húss. … Sjávargatan liggur heiman að niður á Kampinn, en þar er Grænuborgarnaust og Grænuborgarvör. … Þar sem Sjóvarnargarðurinn og Suðurtúngarðurinn komu saman var Grænuborgartúngarðshlið Eystra.” Bæjarhóllinn í Grænaborg er um 650 m norður af Austurkoti.
Túnið í Grænuborg er nokkuð gróið, sérstaklega að vestanverðu við ströndina. Nokkrar hæðir eru þó eru nokkrar í túninu, hæst er það er austanverðu rétt vestan við túngarðinn. Nokkuð hraun og grjót í túninu.
“Ari lét byggja húsið úr hlöðnu grjóti og bundnu sem sementsteypu. … stutt var dvölin í þessu vandaða nýja húsi, því það brann vorið 1883 þá tveggja ára gamalt … Grænuborgartóftin stóð opin í 35 ár, eða til ársins 1916, að Benjamín Halldórsson og kona hans Þuríður Hallgrímsdóttir frá Austurkoti, síðar í StóraKnarrarnesi 2, fengu leyfi Klemensar í Minni-Vogum til að byggja upp Grænuborg … Hann byggði upp húsið, fór í útgerð og tapaði öllu sínu og flutti eftir það að Stóra-Knarrarnesi 2. Eftir nokkur ár, eða um 1922, fluttu að Grænuborg fjölskylda frá Eyrarkoti, sem áður er sagt frá … Vormur lét endurbæta Grænuborg árið 1932 …. ,” segir í Mannlífum og mannvirkjum í Vatnsleysustrandarhreppi.

Dys (legstaður)

Dys

Dys.

Um 60 m norðvestur af norðurenda garðlags eru tvær grjóthrúgur. Ekki tókst að afla upplýsinga um hlutverk þeirra en mögulegt er að hrúgurnar séu aðeins upphleðslur af eldra hleðslugrjóti. Grjóthrúgurnar eru á nokkuð sléttum grasbala, hraun gægist þar uppúr sverði. Syðri hrúgan er um 2 m á hæð og 2 m að þvermáli. Nokkur mosi er á steinunum en þetta þurfa þó ekki að vera gömul mannvirki. Um 1 m er á milli grjóthrúgnanna. Nyrðri hrúgan er minni, aðeins 1,2 m á hæð og um 1,5 m að þvermáli.

Grænuborgarrétt (rétt)

Grænaborg

Grænaborgarrétt.

“Ofan eða sunnan Suðurtúngarðs [Grænaborg] var Grænuborgarrétt. Var hún Vorrétt þeirra Vogamanna.” segir í örnefnaskrá.
Réttin sem er hlaðin utan í nokkuð háan hól, stendur í gróinni kvos umkringd grýttum hólkollum. Réttin er 15 x 11 m að stærð og er grjóthlaðin. Hún er aflöng, snýr norður-suður og skipist í þrjú hólf. Um miðjan vesturvegg hleðslunnar er lítið hólf, um 2×2 m að utanmáli. Út frá því er hleðsla sem skiptir réttinni í tvennt. Op er í norðvesturhorni réttarinnar. Frá opinu liggur um 10 m hlaðinn grjótgarður sem sveigir fyrst til VNV en síðan til vestur og hefur líklega verið byggður til að auðvelda innrekstur í réttina. Hleðsluhæð réttarinnar er mest um 0,6 m og í veggjum sjást 4-5 umför af grjóti.

Austurkot (býli)

Austurkot

Austurkot.

“Austurkot sem enn er í byggð.” segir í örnefnaskrá. Austurkot er í dag við Egilsgötu 11 um 70 m sunnan við Minni-Voga og um 315 m NNA við Stóru-Voga. Norðan við Austurkot er malbikuð heimreið, að vestan er malbikuð Egilsgata, að sunnan er íbúðarhús við Egilsgötu 9 og að austan er Egilsgata 11b sem deilir heimkeyrslu með Austurkoti. Inn á túnakort frá árinu 1919 eru færðar eftirfarandi upplýsingar: Tún 1,64 teigar, garðar 1700 m2. Austurkot er bárujárnsklætt timburhús sem byggt var 1911. Húsið er á þremur hæðum, kjallari, jarðhæð og ris undir burst. Húsið snýr N-S og gengið er inn í hús að austan og í steinsteyptan kjallarann að vestan. Þetta hús er á mörkunum að vera löggild fornleif en ákveðið var að skrá hana samt lauslega.
Samkvæmt Ásu Árnadóttur, heimildarmanni, var annað eldra íbúðarhús í Austurkoti á svæði um 50 m SA við núverandi íbúðarhús. Ekki er minnst á bæinn Austurkot í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá því um 1703 en hjáleigan Austurkot er skráð í Manntali fyrir Suðuramt árið 1801. Trúlega er þar um að ræða eldri bæinn í Austurkoti. Á þessum stað er sléttuð grasflöt í garði Austurkots og Egilsgötu 13 vestur undir Arahóli.
Ekkert sést til fornleifar.

Hólshjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Hólshjáleiga hefur tvö ár í eyði legið, kostir voru sömu sem á hinni. Nú hafa bændur grasnytina sjálfir og þykjast ei skaðlaust afleggja mega.” Staðsetning hjáleigunnar er óþekkt og heimildarmenn, Guðrún L. Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson, könnuðust ekki við nafnið.

Arahólsvarða (varða)

Arahólavarða

Arahólavarða.

“Arahóll er austan til við Minni-Voga á honum stendur Arahólsvarða. Vogamenn nefna Hólinn Arhól, Arhólsvarða, Arhólsbrekka.” segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki segir: “[…] minnisvarði um Hallgrím [Scheving Árnasonar], er hann lét gera á svonefndum Arahól, sem er hæð austanvert við íbúðarhúsið og heitir minnisvarðinn Arahólsvarða. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson, hálfbróðir Hinriks Hansens, er byggði Mýrarhús. Varðan var byggð árið 1890, í hvaða tilgangi er ekki ljóst, nema þá sem prýði fyrir plássið. […] Leifur Kristjánsson frá Helgafelli efndi gamalt loforð, […] um 1982, að laga vörðuna og var það gert svo gott sem á aldarafmæli hennar.”
Arahólsvarða er um 320 m NA við Stóru-Voga 001 og um 125 m SA við Minni-Voga. Varðan stendur á grasigrónum hól, Arahól, sem er um 10-20 m á hæð og snýr NA-SV. Varðan er grjóthlaðin og steinlímd. Varðan er um 2,5 m á hæð, um 2 m á breidd og 2 m á lengd. Hlutverk vörðu er óþekkt ef hún hefur nokkurn tíman nýst til einhvers annars en sem minnisvarði. Samkvæmt ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands er varðan sem stendur í dag (2007) steinlímd með kalki úr Esjunni sem brennt var í Kalkofninum í Reykjavík. Áður var grjótvarða á sama stað.

Karlshóll (huldufólksbústaður)

Karlshóll

Karlshóll.

Í örnefnaskrá segir: “Úr þeim Steini er mörkin bein lína norðanhalt við Karlshól og norður að merkisteini við gamalt bæjarstæði Mörk og mynda þar rétt horn í vestur […].” Karlshóll er greinilegur grösugur hóll framan við íbúðarhúsið við Hafnargötu 1A. Í húsagarði. Hóllinn er ávalur, um 15 m á lengd og 10 m á breidd.

Eirarkot (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir frá hjáleigu undir Minni-Vogum: “Eirarkot, eyðihjáleiga, hefur óbygð verið næstu þrjú ár […] Nú er grasnautn lögð til heimabændanna og þykjast þeim hennar ei að skaðlausu missa kunna.” Staðsetning óþekkt.

Norðurkot (býli)

Norðurkot

Norðurkot.

Hjáleiga Minni Voga 1847 samkvæmt Jarðatali Johnsens. Í byggð fram á þessa öld. Túnakort 1919: Tún 1,2 teigar, garðar 560 m2.
“Af Norðurkoti er nú ekki annað að sjá en Norðurkotsrústir,” segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi segir svo: “Norðurkot var lítið grasbýli í landi Minni-Voga og Austurkots. […] Nikulás [Jónsson] lét byggja röð af húsum, þannig að fimm stafnar stóðu fram að hlaði. […] Húsin gætu þá hafa verið reist um 1860. Á rústum þeim sem eftir standa má vel sjá að vandað hefur verið til verksins, því nokkrir veggir standa enn sem nýhlaðnir nema hvað gróður hefur fest á þeim rætur. Hluti húsanna eru þó hruninn fram af sjávarbakkanum.” Tóftirnar eru um 200 m vestan við Minni-Voga, um 410 m NNV við Stóru-Voga og 20-30 m NA við steinsteypt frystihús Voga h/f. Tóftin er í sléttu graslendi fast suðaustan við grjóthlaðinn sjávarvarnargarð í Vogafjöru.
Í Norðurkoti virðist enginn bæjarhólsmyndun hafa átt sér stað en svæðinu umhverfis bæjartóftirnar hefur þó verið umturnað þó nokkuð vegna sjávarvarnargarðs og iðnaðarhúsnæðis svo hugsanlegt er að búið sé að slétta eitthvað úr honum eða fylla upp í svæðið í kring um hann. Tóftin sem eftir stendur er um 15 m á lengd, um 12 m á breidd og snýr NA-SV. Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var húsið sem enn er undir þaki hlaðið upp sem fiskhús fyrir Minni-Voga eftir að hætt var að búa í Norðurkoti. Tóftin er hlaðin úr torfi og grjóti og sjást 4 hólf í henni. Samkvæmt túnakorti voru árið 1919 sex hólf í tóftinni og kálgarð inn á milli þeirra en líklega hefur nyrsta hólfið hrunið í sjóinn og austasta hólfið verið sléttað eða rifið.

Auðnar (býli)

Auðnar

Auðnar – loftmynd.

Jarðadýrleiki óviss, konungseign 1703. JÁM III, 137-139. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs, 1 hdr í fríðu og 1 vætt fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Hjáleigur 1703: Auðnahjáleiga í byggð, í eyði voru Lönd og Hólmsteinshús og ein nafnlaus hjáleiga. Auðnakot hjáleiga 1847. Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971. Tómthúsið Hóll var einnig í landi Auðna. Ö-Auðnahverfi, 2.
“Guðmundur [Guðmundsson] var með mestu útgerðarmönnum á Suðurnesjum með 60 manns á vertíð og þar með um 20 fast heimilisfólk. […] Guðmundur hafði góðar landnytjar og allnokkurn búpening, þó hann sinnti búskapnum minna en sjósókninni. Hann byggði stórt tveggja hæða timburhús um 1883-84 og var efnið úr James-Town skipinu, sem strandaði í Höfnum árið 1881. […] Stefán Sigurgeirsson [keypti jörðina 1915] byggði upp flest hús á staðnum og byrjaði á íbúðarhúsinu árið 1918, sem þá var með glæsilegri húsum í hreppnum. Reif hann gamla húsið og notaði viði þess í það nýja. […] Árið 1960 byggði Kolbeinn [Guðmundsson] núverandi íbúðarhús og reif það gamla árið 1963 […].” GJ: Mannlíf og mannvirki, 296-300.
1703: “Túnin spillast af sandi og grjóti sem sjór og vindur ber á, líka er þar mein að grjóti því, sem jarðfast er í túninu. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 138. 1919: Tún A og Höfða 6,5 teigar, garðar 4300m2.

Höfði

Höfði og Auðnar.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir um bæinn á Auðnum: “[Guðmundur Guðmundsson] byggði stórt tveggja hæða timburhús um 1883-84 og var efnið úr James-Town skipinu, sem strandaði í Höfnum árið 1881. […] Stefán Sigurgeirsson [keypti jörðina 1915] byggði upp flest hús á staðnum og byrjaði á íbúðarhúsinu árið 1918, sem þá var með glæsilegri húsum í hreppnum. Reif hann gamla húsið og notaði viði þess í það nýja. […] Árið 1960 byggði Kolbeinn [Guðmundsson] núverandi íbúðarhús og reif það gamla árið 1963 […].”
Bæjarhóllinn er greinilegur en refabú var byggt fyrir nokkrum áratugum norðan við hann og nær það norður að sjávarbakka.
Núverandi íbúðarhús er fast vestan við bæjarhólinn en á honum sjálfum er nú malbikað bílaplan.
Bæjarhóll Auðna er í miðju túni. Bæjarhóllinn er um 20×20 m að stærð og um 1,2 m á hæð þar sem hæst er fram af honum til norðurs. Engar fornar mannvirkjaleifar sjást á honum. Líkur eru til þess að hann hafi lítið verið skemmdur vegna byggingaframkvæmda úr því nýjasta íbúðarhúsið var ekki byggt á honum.

Auðnabrunnur (vatnsból)

Auðnabrunnur

Auðnabrunnur.

“Auðnabrunnur var austan bæjarins, og Auðnabrunnstígur heim til bæjar,” segir í örnefnaskrá. Um 60 m NNA við bæ og um 20 m NNA við útihús er merktur brunnur á túnakort frá 1919.
Brunnurinn er á röskuðu óræktarsvæði um 20 m norðaustan við skemmu sem er áföst gömlu steyptu útihúsi. Brunnurinn er byrgður og sést illa en steyptur kantur sést við brunninn. Brunnurinn sjálfur er líklega um 2×2 m að stærð að utanmáli en það sést illa vegna gróðurs og efnis sem sett hefur verið ofan á hann.

Höfði (býli)

Höfði

Auðnar.

“Höfði hét afbýli frá Auðnum í byggð frá um 1850-1971,” segir í örnefnaskrá Auðnahverfis. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Höfði um 90 m suðaustan við bæ. Bæjarstæðið er í hólóttu túni. Á því stendur stórt hús sem er allgamalt í grunninn og líklega sama hús og merkt er inn á túnakortið. Ekki sjást leifar kálgarðs sem sýndur er á túnakorti fast sunnan við bæinn. Hann er skráður hér með bænum.
Bæjarstæðið er í gömlu túni suðaustan við Höfðatjörn, stóra lægð sem nú er þurr og gróin. Nú (2010) er fallegur skrúðgarður í kringum húsið en aðallega sunnan við það. Austan við syðsta hluta hússins er upphækkun og hleðsla þar sunnan við en þetta virðast ekki vera gamlar minjar. Byggingarnar á bæjarstæðinu eru um 20×13 m að stærð og snúa ANA-VSV. Byggingarnar samanstanda af fjórum samtengdum húsum eða herbergjum. Þær hafa verið gerðar upp og eru bárujárnsklæddar. Ekki er að sjá að kjallari sé undir byggingunum og ekki er nein uppsöfnun mannvistarleifa sýnileg.

Ólafsbúð (bústaður)

Ólafsbúð

Ólafsbúð.

Í bókinni Litla skinnið eftir Jón Thorarensen segir: “Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll […]. Ólafsbúð, þurrabúð sunnanmegin við Auðna […].” Þrjár tóftir eru um 180 m suðvestan við bæ og hafa þær líklega tilheyrt Ólafsbúð þó ekki sé hægt að fullyrða um það. Tóftirnar eru í þýfðum og grónum hraunmóa skammt utan túns. Fast austan við tóftirnar er lítill skúr sem virðist vera notaður sem sumarhús.
Minjarnar eru á svæði sem er um 32×14 m að stærð og snýr suðaustur-norðvestur.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Hjáleiga forn heima við bæinn, hefur bygð verið fyrir tuttugu árum, síðan um stund í eyði legið, nú ljær bóndin húsin móður sinni … Kann ekki að byggjast án bóndans skaða.” Ekki er vitað hvar hjáleiga þessi hefur verið og því ekki hægt að staðsetja hana með innan við 50 m skekkju. Hjáleigan hefur væntanlega verið í túni, nærri bæ.
Ekki sjást neinar minjar við bæinn sem gefa til kynna staðsetningu hjáleigunnar en ekki er ólíklegt að hún hafi verið þar sem eitthvert af þeim útihúsum sem skráð eru af túnakorti stóðu.

Hólmsteinshús (bústaður)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Hólmsteinshus hafa yfir tuttugu ár í eyði legið … grasnautnina brúkar heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.” Ekki er vitað hvar Hólmsteinshús voru og því ekki hægt að staðsetja þau með innan við 50 m skekkju.

Auðnaborg (fjárskýli)

Auðnaborg

Auðnaborg.

“Hrúthóll heitir klapparhóll og Vatnshólar og svo er Auðnaborg fjárborg,” segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.” Minjarnar eru um 1 km suðaustan við bæ. Minjarnar eru á og við grösugan hól í hraunmóa með moldarflögum. Minjarnar eru á svæði sem er um 36×28 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þær fá bókstafi til aðgreiningar.

Hóll (bústaður)

Hóll

Hóll.

“Og svo er eitt tómthús, Hóll. … Skammt frá Þúfuhól er þurrabýlið Hóll í Hólslóð,” segir í örnefnaskrá. Tóft Hóls er um 265 m frá bæ og um 10 m sunnan við Sundvörðu Neðri. Tóftin er uppi á klapparhól í hraunmóa, innan sumarhúsalóðar. Tóftin er grjóthlaðin og einföld. Hún er um 6×13 m að stærð og snýr NNVSSA. Mesta hleðsluhæð er um 1,6 m og sjást 5 umför í innanverðum hleðslum. Ekki fundust heimildir um aldur bústaðarins.

Mylluhús (mylla)

Vindmylluhús

Vindmylluhúsið.

Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Þá stofnaði Stefán, ásamt fleirum, samtök meðal hreppsbúa sem byggðu rammgerða vindmyllu 1918-19. Skyldi hún mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Stendur þetta sérkennilega hús enn, þ.e. steyptir veggir […] Beinmyllan stóð stutt og var aflögð 1920-21.” Myllan er um 150 m suðvestan við bæ. Myllan stendur á klapparhól í móa rétt utan túns, um 10 m vestan við veg heim að Auðnum. Myllan er steinsteypt og er um 3 m á kant að grunnfleti. Dyr eru á norðvesturhlið og gluggar á suðvestur- og suðausturhliðum. Myllan mjókkar lítið eitt upp, er um 4 m á hæð. Timburbrak er utan við og innan í myllunni.

Auðnakot/Bergskot (býli)

Auðnakot

Auðnakot.

Hjáleiga Auðna 1703, dýrleiki óviss. JÁM III, 138. Upphaflega tómthús. GJ: Mannlíf og mannvirki, 302. 1919: Tún 1,3 teigar, garðar 670m2.
“Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,” segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu. Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn.
Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu.

Landakot (býli)

Landakot

Landakot.

Nefnd hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. 1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur Jónsson segir þetta býli hafa verið höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930. Gata 013 var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi. GJ: Mannlíf og mannvirki, 304, 309. Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1703: “Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

Landakot

Gata við Landakot – tóftir.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.” “Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,” segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki.

Landakot

Landakot – tóftir.

Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar. Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

Gata (býli)

Gata

Gata.

“Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. “Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.” Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni.
Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu. Mannvirkin eru á svæði sem er um 22×18 m að stærð og snýr NNV-SSA.

Landakotsskiparétt (rétt)

Landakotsskiparétt

Landakotsskiparétt.

“Á Landakotskampi var Landakotsnaust og Landakotsskiparétt.” segir í örnefnaskrá. “Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerð fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla. Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi,” segir í örnefnaskrá. Grjóthlaðin rétt og áfast garðlag er um 150 m norðan við bæ. Að sögn Margrétar Guðnadóttur, heimildamanns, endurhlóð Guðni Einarsson þessi mannvirki og notaði sem fjárrétt. Líklegt er að hún hafi verið skiparétt áður. Réttin er á grýttum sjávarkambi.
Alls eru minjarnar á svæði sem er um 17×10 m að stærð og snýr austur-vestur. Réttin er grjóthlaðin og einföld. Hún er um 10×7 m að stærð og snýr norður-suður. Norðurgaflinn er horfinn vegna landbrots. Op er inn í réttina á sunnanverðum vestanvegg. Mesta hleðsluhæð réttarinnar er um 1 m og sjást 4 umför í hleðslum. Frá inngangi liggur garðlag að húsi. Það er um 10 m langt til vesturs og er lítið horn á því við endann, um 2 m langt garðlag til norðurs. Hlið er á girðingu á milli garðlagsins og húss. Garðlagið er hæst um 1,1 m og um 1 m á breidd. Mest sjást 5 umför hleðslu.

Landakotsbrunnur (vatnsból)

Landakotsbrunnur

Landakotsbrunnur.

“Vatnsbólið var annar brunnur [annar en Djúpagröf] miklu dýpri, byrgður, og í honum flæðivatn ósalt. Hann þornaði um fjöru, en fylltist á flóði, og varð að sæta sjávarföllum til að dæla úr honum vatni. Hann er um 80-100 m neðan við íbúðarhúsið í Landakoti, langt frá Djúpugröf og miklu yngri og var aldrei kallaður annað en Brunnurinn.” Brunnurinn er um 90 m norðan við bæ.
Brunnurinn er fast norðan við lágan hól í túni sem nýtt er til beitar. Brunnurinn er grjóthlaðinn og hringlaga. Hann er um 3 m í þvermál og stendur um 0,4 m upp úr sverði. Að sögn Margrétar Guðnadóttur, heimildamanns, er hann djúpur en ekki vissi hún hversu djúpur hann var. Reft hefur verið yfir brunninn og sést því ekki ofan í hann. Leiðsla var lögð úr brunninum í fjósið (áfast núverandi íbúðarhúsi) í tíð Margrétar og sést enn móta fyrir henni þar sem hún liggur úr suðausturhorni brunnsins fyrir hólinn og til suðurs. Hún líkist sokknu garðlagi sem er um 0,5 m á breidd og 0,2-0,4 m á hæð.

Auðnasel (sel)

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.

Samkvæmt núverandi landamerkjum sem Sveitarfélagið Vogar hefur látið í té er Auðnasel á merkjum milli Þórustaða og Landakots, og eru minjar því tengdar á báðum jörðunum. Flestar tóftirnar eru í landi Landakots og er það því skráð undir þeirri jörð. Auðnasel er um 4,7 km suðaustan við Þórustaði, 4,8 km norðaustan við Landakot og 4,9 km suðaustan við Auðnir. Seljatóftirnar eru í grónum og gróðursælum hvilftum umhverfis allhátt holt en einnig eru minjar uppi á holtinu og í seltúni sem er norðaustan við holtið. Allt er hér gróið en stutt er í uppblásinn hraunmóa utan svæðisins.
Selið er á svæði sem er um 110×120 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Tvær tóftaþyrpingar eru á vesturhluta svæðisins og stekkir eða kvíar eru á þremur stöðum.
Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Grjóthlaðin tóft A, sennilega stekkur, er uppi á holtinu suðaustan við aðaltóftasvæði 1. Hún er tvískipt, um 8×4,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Um 4 m langur innrekstrargarður liggur til norðvesturs frá inngangi á norðvesturgafli. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m en hleðslur eru hrundar. Tóftin er gróin að hluta.

Þórustaðir (býli)

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 141. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 115).
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs eitt hdr fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26). Hjáleigur 1703 Norðurkot og Suðurhjáleiga í eyði. (JÁM III, 141). Norðurkot hjáleiga 1847. (JJ, 91). Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar (GJ: Mannlíf og mannvirki, 309).
1703: “Túnin spillast af sjáfarágángi og föstu grjóti, sem árlega blæs upp. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta um sumar, nær öngvir um vetur.” JÁM III, 141. 1919: Tún 4,8 teigar alls, garðar 2480m2.

Þórustaðir

Þórustaðir.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, kemur fram að tvíbýli var á Þórustöðum fyrir aldamótin 1900. Bæirnir voru nefndir norður- og suðurbær og var nyrðra bæjarstæðið að líkindum yngra, sjá 003. Timburhús reis á jörðinni á syðra bæjarstæðinu 1884 og brann húsið 1984. Húsið var byggt úr viði úr James-Town strandinu í Höfnum. Í sömu bók segir: “Byggðu þau [Páll Jónsson og Hrefna Guðnadóttir] við Þórustaði, en svo brann allt eins og áður segir árið 1984. Þá þegar var hafist handa og byggt nýtt íbúðarhús, nokkuð suðaustur af því gamla. Þegar farið var að grafa fyrir nýjum grunni í og við brunarústirnar, komu í ljós leifar af fornminjum. Var þá uppgröftur stöðvaður og farið fram á að nýja húsið yrði byggt nokkuð fjær, því kanna þyrfti betur staðinn, ef þarna kynnu að vera gamlar menjar.” Núverandi íbúðarhús er um 60 m sunnan við bæjarhólinn. Ekki er hefðbundinn búskapur á jörðinni en búið er í íbúðarhúsinu. Tún eru ekki nytjuð.

Ölfus

Þórustaðir – kort.

Bærinn á Þórustöðum var á hæð í landslaginu og allt í kringum hana eru tún sem komin eru í órækt. Mikið rask hefur orðið á bæjarhól Þórustaða og er af þeim sökum erfitt að gera sér grein fyrir stærð hans. Hæðin sem bærinn var á er um 40×40 m stór og mest um 3 m á hæð. Búið er að byggja stór, steinsteypt, útihús í norðvesturhluta hólsins og eru þau niðurgrafin að hluta. Á norður- og norðausturhluta hólsins er búið að ryðja til grjóti og jarðvegi. Sunnan og suðaustan á hólnum er slétt plan og eru háir jarðvegsruðningar til suðausturs og vesturs. Leifar kálgarðs 043 sjást í suðausturjaðri bæjarhólsins.

Þórusstaðabrunnur (vatnsból)

Þórustaðabrunnur

Þórustaðabrunnur.

Samkvæmt túnakorti var brunnur fast við Sjávarstíginn, um 60 m norðvestan við bæ. Á heimasíðu Ferlis segir um sama brunn: “Nyrðri brunnurinn er vestan götu frá bænum niður að sjávarhúsnum. Steypt er við opið og stór hringlaga hlemmur ofan á. Hann er fallega hliðinn [svo] niður.”
Brunnurinn er fast suðvestan við bílslóða niður að sjó, í túni. Umhverfis brunninn er nú steyptur kassi og er hann byrgður með miklum tréhlemmi. Samkvæmt Margréti Guðnadóttur, heimildamanni, var brunnurinn hlaðinn niður. Hann er um 2,5×2,5 m að stærð og rís um 0,3 m upp úr jörðu. Fast suðaustan við brunninn er kofahræ, að falli komið, úr viði og bárujárni og á litlu þakinu er allþykk jarðvegstorfa. Líklega eru þetta leifar einhvers konar brunnhúss.

Þórustaða-Verbúðir (verbúð)

Þórustaðir

Þórustaðaverbúðir.

“Næst landi var Baðstofusker, sem einnig var nefnt Burstasker. Þar var einnig Fjósboði. Utan voru svo Geitlarnir, eða Þórustaða-Geitlar, Stóri-Geitill og Litli-Geitill og þar var Músasund og þar utar Þórustaðahnýll.
Uppundir fjöru var Hannesarklöpp og á Kampinum voru Þórustaða-Verbúðir,” segir í örnefnaskrá. Ekki sjást ummerki um verbúðir á Kampinum sem er um 230 m norðvestan við bæ.
Verbúðirnar voru á grýttum sjávarkambi sem er gróinn að hluta milli fjöru og lítillar tjarnar. Ekki sést til minja og líklegt er að þær séu horfnar vegna landbrots.

Hellukot (býli)

Hellukot

Hellukot.

“Upp í túninu sunnan götunnar var hjáleiga í eina tíð, nefndist Hellukot, þar í kring var Hellukotstún. Í þessu túni var Hellukotsbrunnur, og brunnstígur frá honum til bæjar,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Hellukot var grasbýli ofan og sunnan Þórustaða, upphaflega úr Þórustaðalandi. Um 1880 var Hellukot tómthús, en varð grasbýli síðar.” Ekki er ljóst hvenær Hellukot fór í eyði en það hefur þó verið eitthvað fyrir síðari heimsstyrjöld því í bók Guðmundar kemur fram að býlið hafi verið notað til sumardvalar í nokkur ár, ýmist sem barnaheimili (á stríðsárunum) og fyrir aðra sumargesti. Hellukot er um 155 m suðvestan við bæ.
Hellukot er í suðurhorni túnsins, þar eru klapparhólar í grónu túni. Stór hluti minja sem tilheyrt hafa Hellukoti eru innan girðingar vestan heimreiðar þar sem nú er sumarhúsið Grund.
Á túnakorti frá 1919 kemur fram stærð túns og kálgarða Hellukots: Tún, 13 teigar, garðar 200m2. Býlið og mannvirki sem tilheyrðu því eru merkt inn á túnakortið.

Þórustaðaborg (fjárskýli)

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

“Markalína nyrðri liggur úr Vatnagarði í Hólaþyrpinga, sem eru margir Hólar og nefnast einu nafni Þórustaðaborg. Þar í er Stekkatúnið gamla eða Þórustaðastekkatún,” segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi segir: “Við fylgjum Þórustaðastíg upp í Þórustaðaborg sem er ofar og suðaustar í heiðinni, u.þ.b. km frá veginum. Stígurinn var einnig kallaður Kúastígur á þessu bili því kúm var beitt við borgina á sumrin.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Þórustaðaborg hefur upphaflega verið fjárborg og liggur vestan undir allháum hól.” Þórustaðaborg og fleiri minjar henni tengdar eru um 1,2 km suðaustan við bæ.
Þórustaðaborg er umkringd hraunhelluhólum á alla vegu nema til suðvesturs þar sem Þórustaðastekkatún er enn allgróið en litlir rofaflekkir eru farnir að myndast í og við það.
Á heimasíðu Ferlirs segir: “Gengið var til vesturs að Þórustaðaborg. Hún er í hvarfi við hraunhól í ca. 10 mín fjarlægð frá Staðarborg. Falleg fuglaþúfa er á hólnum. Borginni hefur einhvern tímann verið breytt í stekk, en suðaustan í honum er gróin tóft. Þá er stök tóft, greinilega gömul, norðvestan undir klapparhólnum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Vel gróið er í kringum borgina. Þórustaðastígurinn liggur þarna upp með borginni og sést hann vel þar sem hann liggur til suðausturs ofan hennar, áleiðis að Keili. Stígurinn liggur upp á Vigdísarvelli.”
Minjar við Þórustaðaborg eru á svæði sem er um 20×50 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingunni. Borgin sjálf A er um 10 m í þvermál en hún er ekki alveg hringlaga og sést móta fyrir horni á henni í norðausturhluta. Borgin er þrískipt og er op á henni til suðurs.

Fornasel (sel)

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

“Þar suður af [Klifgjá og Klifgjárbarmi sem eru sunnan við Kolgrafarholt] er Fornasel eða Litlasel,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Fornasels er ekki getið í örnefnaskrá Þórustaða en samkvæmt núverandi landamerkjum er selið innan landamerkja þeirra. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi segir um Fornasel: ” Í austurátt frá Skrokkum er lítið selstæði sem heitir Fornasel.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum [mögulega úr bókinni Strönd og Vogar] en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og verið frá Landakoti [í örnefnalýsingu Landakots eftir Gísla Sigurðsson segir: “Ekki er með öllu víst, að Fornasel tilheyri landi Landskots, en hafi svo verið nefndist það einnig Litlasel.” Ekki er ljóst hvernig Litlasel kemur til sögunnar. Þess virðist ekki vera getið annarsstaðar en í þessari örnefnaskrá. Í annarri örnefnaskrá fyrir Landakot er Fornasel talið til örnefna sem tilheyra því en framar í skránni er tekið fram að erfitt sé að staðsetja þekkta hóla og kennileiti í Strandarheiði í landi hverrar einstakrar jarðar vegna þess hve þéttbýlt sé á svæðinu]. Í Jarðabókinni er ekki getið um Fornasel eða annað sel á þessum slóðum en bókin nefnir Fornuselshæðir sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni […].” Í bókinni Strönd og Vogar segir: “Þá er Fornasel. Þar áttu fyrst selstöðu Kálfatjörn og Þórustaðir en Kálfatjörn fékk seinna selstöðu, þar sem heitir Sogasel […].” Mögulega er hér átt við sel í Fornuselshæðum en í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 kemur fram að Kálfatjörn og Þórustaðir hafi átt selstöðu þar. Fornasel er um 3,2 km suðaustan við bæ.

Selið er í hrauninu sunnan við Reykjanesbraut þar sem landið fer hækkandi og er selið á dálítilli hæð. Gróið er í kringum selið.
Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel og selstöður á Reykjanesskaga segir um Fornasel: “Í selinu er ein megintótt með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tóft með tveimur vistarverum. Tóftirnar eru grónar, en vel sést móta fyrir veggjum. Hleðslur sjást í veggjum. Hlaðið er um vatnsstæðið.” Heildarstærð minjasvæðisins er um 68×20 m og snýr það norðvestur-suðaustur. Seltóftirnar eru á tveimur stöðum. a

Norðurkot (býli)

Norðurkot

Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

Hjáleiga Þórustaða 1703, jarðadýrleiki óviss. JÁM III, 141. Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, og aflagðist árið 1920. Harðangur var tómthús frá Norðurkoti, í byggð frá um 1885 til um 1900 (GJ: Mannlíf og mannvirki, 315-316).
1919: Tún 1,7 teigar, garðar 340m2.
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: “Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir “Innstrendinga”. Húsið var úr timbri, ein hæð og port-ris.

Norðurkot

Norðurkot.

[…] Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti 1910 […]. Norðurkot var í upphafi grasbýli frá Þórustöðum og átti ekki ítök í heiðarlandi.” Í sömu heimild kemur fram að í kringum 1940 hafi verið hætt að búa í Norðurkoti og eftir það hafi húsið verið notað sem heyhlaða og geymsla. Á heimasíðu Sveitarfélagsins Voga kemur fram að árið 2004 hafi Minjafélag sveitarfélagsins fengið Norðurkotshúsið að gjöf og var húsið flutt á fyrirhugað minjasvæði sveitarfélagsins að Kálfatjörn og gert upp. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru bæjarhús Norðurkots á svæði sem er um 20×10 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Bæjarhóll Norðurkots er um 110 m norðaustan við Þórustaði.
Umhverfis bæjarhólinn er sléttað tún í órækt. Hann er í hæðóttu landslagi þar sem sést í hraunnibbur á stöku stað.
Bæjarhóllinn er um 15×20 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Hann er um 1,2 m á hæð. Náttúrulegt framhald er á hólnum til norðausturs. Á hólnum eru byggingaleifar sem ná yfir svæði sem er 14×15 m og snýr suðvesturnorðaustur. Eldri minjar eru í norðausturenda svæðisins, þar eru tvö hólf í hlaðinni tóft, A, sem er 14×8,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.

Norðurkotsbrunnur (vatnsból)

Norðurkot

Norðurkotsbrunnur.

Á heimasíðu Ferlirs segir: “Norðurkotsbrunnurinn er einn fallegast brunnurinn á ströndinni og nær alveg heill. Hann er í lægð skammt norðan við túngarðinn.” Brunnurinn er um 60 m norðaustan við bæ.
Brunnurinn er í lægð í móa innan um gróna hraunhóla. Brunnurinn er grjóthlaðinn, og er sementslím í hleðslunni. Brunnurinn er um 2,5 m í þvermál og er byrgður með viðarplötu svo ekki er hægt að sjá ofan í hann. Hleðslur standa um 0,4 m upp úr jörðinni. Gaddavír er strengdur á staura umhverfis brunninn.

Tíðagerði (býli)

Norðurkot

Norðurkot og Tíðargerði – uppdráttur ÓSÁ.

“Steinsnar norðaustan við bæinn í Norðurkoti stóð býlið Tíðagerði, byggt úr Norðurkotslandi. Því tilheyrði kálgarður neðan við bæinn, allstór. Skiptist hann að nokkru um klapparbala. Neðan hans var kálgarðurinn kallaður Leynir.
Tíðargerðistúnið er ofan og austan við bæinn. Um það eru hlaðnir grjótgarðar,” segir í örnefnaskrá KE. Í annarri örnefnaskrá segir: “Tíðagerði var býli, þurrabúð með Tíðagerðislóð eða Tíðagerðistún. Býlinu fylgdi matjurtagarður og svo var Heiðarlandið óskipt, en leyfi til beitar eftir stærð heimalandsins. En Tíðargerði átti 2400 fermetra land.” Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki segir: “Tíðagerði var tómthús úr Norðurkotslandi, þó það yrði grasbýli síðar … Tíðagerði aflagðist árið 1920.” Samkvæmt túnakorti frá 1919 tilheyrðu Tíðagerði bæjarstæði, þró, útihús, túngarður og kálgarður.
Minjar um býlið eru í hæðóttu túni. Á túnakorti frá 1919 kemur fram túnastærð Tíðagerðis: Tún 0,5 teigar, garðar 700m2. Minjarnar sem tilheyra Tíðagerði eru á svæði sem er um 110×85 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.

Harðangur (bústaður)

Harðangur

Harðangur.

“Sunnan við garðinn, sem skilur á milli Norðurkotslands og Goðhóls, neðan Hliðs, eru rústir býlisins Harðangurs. Þar er lítill túnblettur innan garða, sennilega kálgarður upphaflega,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir að Harðangur hafi verið tómthús frá Norðurkoti og að það hafi verið í byggð 1885 en hafi aflagst um aldamótin 1900. Óljósar leifar um býlið sjást enn þar sem er ógreinileg tóft er á hól sem virðist vera náttúrulegur að mestu leyti. Hóllinn er við merki milli Kálfatjarnar og Norðurkots. Umhverfis tóftina er túngarður eða kálgarður. Mannvirkin eru um 135 m austan við bæ. Býlið er í grónum hraunmóa. Býlistóftin er fast við túngarð Goðhóls sem er á merkjum milli Kálfatjarnar og Norðurkots. Gerði sem er umhverfis tóftina og afmarkar svæði sem er um 15×70 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Garðurinn er hæstur um 0,5 m en er víðast hruninn. Tóftin er tvískipt, 8×4 m að stærð og snýr suðausturnorðvestur. Ekki sést í grjót nema á stöku stað í suðausturenda þar sem rof hefur myndast í tóftinni innanverðri.

Álfhóll (huldufólksbústaður)

Álfhóll

Álfhóll.

Á uppdrætti af Norðurkoti á heimasíðu Ferlis er merktur Álfhóll norðvestan við Stórhól, niður undan Norðurkoti. Ekki er minnst á þennan hól í örnefnaskrám. Hólinn er fast norðan við hrunið byrgi og um 120 m norður frá bæ.
Hóllinn er í norðurjaðri túnsins. Hóllinn er allhár og stór, hömrum girtur til suðausturs. Að öðru leyti er hann vel gróinn, mjókkar upp og eru nokkrar fuglaþúfur efst á honum. Hann er 3-4 m á hæð, hæstur til norðurs og er um 25×15 m að stærð, snýr austur-vestur.

Stórhóll (huldufólksbústaður)

Stórhóll

Stórhóll.

“Neðan við bæinn er Stórhóll. Álfabyggð var talin í honum,” segir í örnefnaskrá. Hóllinn er um 30 m norðvestan við bæ. Hóllinn er í hæðóttu túni. Hóllinn er algróinn og hefur að öllum líkindum verið sleginn með túninu. Hann er um 3 m á hæð og er um 15×10 m að stærð, snýr suðvestur-norðaustur. Bratt er fram af honum til vesturs.

Kálfatjörn (kirkja)

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja.

1703: Jarðadýrleki óviss. Kirkjustaður. Kirkjunnar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200 (DI XII 9).
[1379]: “Hvad sem kirkiann aa kalfatiornn aa Petvr kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok giædvm. hvn aa backa ok fleckv vik. hvnn a allann reka j millvm Hravnnes ok ranga giogvrs ok firr nefnd fleckvik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nyia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hraune fram at sia firir innann akvrgerdi. Advrnefnd kirkia aa kaalfatiornn aa allann reka j millvm markletz ok nyia garda.” (DI III 340) [1379]: “Kalfatiorn. Svo felldann vitnisbvrd bervm vier þorvardvr arason oc þorsteinn jonsson olafur marteinsson oc hallvardvr karason at vier hofvm verit j kalfatiarnar kirkivsokn meir enn xx vetur enn svmer meir en lx vetur. hofvm vier alldri tvimæli aa heyrt. at eige ætti kirkiann aa kalfatiornn allann reka j millvm hravnnes oc rangagiogvrs. oc alldri hofvm vier heyrt at þar væri hvalreki fra skilldvr. og epter [þessv] vilivm vier sveria ef þvrfa þycker.” (DI III 341) 1379: Kalfatiorn. “Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson. jon 175 Kirkja, horft til norðausturs oddzson oc olafur kodransson. at vier hofvm heyrt lesinn maldagann j videy advr enn kirkiann brann. oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur. at kirkiann j videy ætti fiordv hvoria vætt vr hval hvar aa land kæme fra kolbeinsskor oc jnn at hravnnes vottnvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme aa kalfartiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkletz oc nyia garda. hier epter vilivm vier sveria ef þvrfa þycker.” (DI III 341).
18.4.1434: Vogar a Rosmhualanese [liggja] i KalfatiarnarÞijngum; (DI IV 540).
9.9.1447: Er þess getið að Vogar, Hlöðunes, Ásláksstaðir, Knarrarnes, Breiðagerði og Óttastaðir tilheyri Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI IV 707-708).
[1477]: “kalua Tiornn.”Peturskirkia ad kaluatiornn a heima land allt oc backa oc fleckuvijk. fiara ä hraunsnese.” (DI VI, 124).
28.4.1479: Er þess getið að Jörðin Vatnsleysa er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VI, 185-86) 4.10.1489 er þess getið að jörðin Stærri-Vogar á Kálfatjarnarströnd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VI, 686) 9.7.1496 er þess getið að jörðin Stærrivogar er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VII, 299, 303) 13.9.1500 er þess getið að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. (DI VII, 513, 561).
Hjáleigur 1703: Naustakot, Móakot, Fjósakot og Borgarkot í byggð, í eyði voru Hólakot, Hátún og Árnahús.
Hjáleigur 1847: Naustakot, Móakot, Hátún og Fjósakot. JJ, 91. Hlið var tómthús frá Kálfatjörn til 1923, Góðhóll var einnig tómthús sem var í byggð til 1935.
Sama má segja um Litlabæ sem var byggður fyrir 1884. (GJ: Mannlíf og mannvirki, 319, 321-22, 337-340). Jörðin hét áður Gamlatjörn.
1703: “Túnin spillast af sjáfarágángi, og þó enn meir af vatnarásum, sem uppá bera leir til skemda. Engjar eru öngvar. Úthagar lakir um sumar, nær öngvir um vetur nema fjaran.” JÁM III, 143. 1919: Tún 7 teigar, garðar 1180m2.
“Bærinn á Kálfatjörn stendur því sem næst í miðju túni á allstórum bala. Austan bæjarhúsa er kirkjan. Allt umhverfis hana er grafreiturinn eða kirkjugarðurinn, og þó aðallega norðan og austan megin,” segir í örnefnaskrá.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: “Upphaflega voru þrjár kirkjur á Ströndinni, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkjan á Kálfatjörn.” Í broti úr sögu Vatnsleysuhrepps, samantekt eftir Viktor Guðmundsson segir enn fremur um kirkjuna: ” Í kaþólskum sið var kirkjan á Kálfatjörn helguð Pétri postula. Á Kálfatjörn var torfkirkja fram til ársins 1824, þá var reist ný kirkja og var hún með torfveggjum en timburþaki og stóð hún í 20 ár eða til ársins 1844. Árið 1844 er svo byggð ný timburkirkja á Kálfatjörn, hún stóð aðeins í 20 ár og 1864 er enn byggð kirkja. Núverandi kirkja var byggð 1892-1893 og vígð árið 1893.” Kirkjan stendur á golfvellinum miðjum, um 25 m austan við bæjarhól.
Golfvöllur hefur verið gerður í hrauninu. Kirkjan stendur á sléttaðri flöt en utan vallarins er mosagróið hraun.
KÁLFATJÖRN Á VATNSLEYSUSTRÖND (G) -Pétri c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 9.
[1379]: Hvad sem kirkiann aa kalfatiornn aa. Petvr kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok giædvm. hvn aa backa ok fleckv vik. hvnn a allann reka j millvm Hravnnes ok ranga giogvrs ok firr nefnd fleckvik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nyia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hraune fram at sia firir innann akvrgerdi.
Advrnefnd kirkia aa kaalfatiornn aa allann reka j millvm markletz ok nyia garda. Bessastaðabók DI III 340.
[1379]: Kalfatiorn. Svo felldann vitnisbvrd bervm vier þorvardvr arason oc þorsteinn jonsson olafur marteinsson oc hallvardvr karason at vier hofvm verit j kalfatiarnar kirkivsokn meir enn xx vetur enn svmer meir en lx vetur. hofvm vier alldri tvimæli aa heyrt. at eige ætti kirkiann aa kalfatiornn allann reka j millvm hravnnes oc rangagiogvrs. oc alldri hofvm vier heyrt at þar væri hvalreki fra skilldvr. og epter [þessv] vilivm vier sveria ef þvrfa þycker. Bessastaðabók DI III 341.
1379: Kalfatiorn. Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson. jon oddzson oc olafur kodransson. at vier hofvm heyrt lesinn maldagann j videy advr enn kirkiann brann. oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur. at kirkiann j videy ætti fiordv hvoria vætt vr hval hvar aa land kæme fra kolbeinsskor oc jnn at hravnnes vottnvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme aa kalfartiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkletz oc nyia garda. hier epter vilivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini M. iij°. lxxxix ar. Bessastaðabók DI III 341.
18.4.1434: Vogar a Rosmhualanese [liggja] i KalfatiarnarÞijngum; DI IV 540.
9.9.1447: Vogar, Hlöðunes, Ásláksstaðir, Knarrarnes, Breiðagerði og Óttastaðir … liggia í Kalfatiarnar kirkivsokn; DI IV 707-708
[1477]: kalua Tiornn. Peturskirkia ad kaluatiornn a heima land allt oc backa oc fleckuvijk. fiara ä hraunsnese. iiij mesoklæde et cetera. atta kyr. þriu asaudar kugillde oc j hestur. Máld DI VI, 124 [Þjsks Bps A II, 1, bl. 122a].

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja – fontur.

28.4.1479: Jörðin Vatnsleysa er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VI, 185-86.
4.10.1489: Jörðin Stærrivogar á Kálfatjarnarströnd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VI, 686.
9.7.1496: Jörðin Stærrivogar er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 299, 303.
13.9.1500: Jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 513, 561.
1575: Máld DI XV 638.
26.4.1815: Njarðvíkurkirkja gerð að annexíu frá Kálfatjörn; (PP, 107) [konungsbréf].
16.11.1907: Kálfatjarnarprestakall lagt niður og leggst sóknin til Garða á Álftanesi; (PP, 107) [lög]. Kirkjan stendur á grjóthlöðnum grunni. Hún er byggð úr timbri og klædd með bárujárni. Er hún á tveimur hæðum og að auki er kirkjuturn austast á byggingunni. Snýr hún í austur-vestur. Umhverfis kikjuna er kirkjugarður, 65 x 35 m stór. Hann snýr eins og kirkjan. Hann er afmarkaður af grjóthleðslu í suðri og vestri, u.þ.b. 0,4 m hárri og 0,2 m breiðri. Hleðslan virðist fremur nýleg. Líklega hefur grjóthleðsla verið umhverfis garðinn allan áður fyrr en þar sem mörk hans eru afar skýr en hún er horfin nú. Kirkjugarðurinn er sýndur á túnakorti frá 1919 og virðist hann vera álíka stór í dag að því frátöldu að hann hefur verið stækkaður örlítið til vesturs. Á heimasíðu Ferlis segir um stein í kirkjugarðinum: “Hér rétt innan kirkjugarðshliðsins er steinn með bolla í sem að Ólafur Erlendsson segir að hafi áður verið undir vegg á tröðinni sem lá upp fyrir garð. Kristján Eldjárn þá þjóðminjavörður taldi hann vera frá kaþólskri tíð og kirkjugestir ef til vill signt sig áður en þeir fóru í kirkju.”
Steinninn er um 2 m innan við hliðið á hægri hönd þegar gengið er að kirkjunni. Hann er um 0,4 m að hæð og 0,3 m í þvermál. Bolli, 0,2 m í þvermál og 0,1 m djúpur er í honum miðjum. Steininn er nokkuð mosagróinn.

Kálfatjörn (býli)
Kálfatjörn“Bærinn á Kálfatjörn stendur því sem næst í miðju túni á allstórum bala. Austan bæjarhúsa er kirkjan,” segir í örnefnaskrá. “Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið til margra ára og eftir að það var aflagt eða frá 1920 bjó Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir og börn þeirra á Kálfatjörn. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við og tóku á móti gestum og gangandi alla sína búskapartíð eða þar til að Kálfatjarnarhúsið brann í nóvember árið 1998,” segir í erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju þann 19. janúar 2006 og birt er á heimasíðu Ferlirs. Samkvæmt túnakorti stóð bærinn árið 1919 ríflega 20 m VSV af kirkjunni 002. Ekki er lengur búið á Kálfatjörn en þar er nú golfvöllur Golfklúbbs Vatnsleysustrandar. Umhverfis bæjarstæðið er nú golfvöllur. Utan hans er mosagróið hraun.
KálfatjörnÞar sem bærinn stóð er nú lítill hóll, u.þ.b. 40 x 15 m að stærð og 2 m hár. Hann snýr í NNV-SSA og er bratt niður til suðurs af honum. Í jaðri hólsins er nú malarplan og efst á honum stendur fánastöng. Líklega hefur bærinn staðið um 15 m vestur af henni. Hóllinn hefur verið sléttaður. Norðan við hólinn er bali, hugsanlega sá sem nefndur er í örnefnaskránni. Sunnan við bæjarhólinn er kálgarður. Hann er 30 x 40 m og snýr líkt og bæjarhóllinn í NNV-SSA að stærð og er hlaðið í kringum hann á þrjá vegu, norðurhliðin er opin. Breidd veggja er 1 m og hæð þeirra 0,3 m. Þeir eru grjóthlaðnir. Túnakortið sýnir annan kálgarð fast austan við hinn. Hann hefur verið um 30 x 30 m að stærð og garðlag hlaðið utan um hann í suðri og austri. Hann er horfinn og er nú slétt flöt sem tilheyrir golfvellinum þar.

Skjaldbreið (hlaða)

Kálfatjörn

Skjaldbreið.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var útihús um 10 m vestur af bæ. Tóft hússins sést enn. Golfvöllur er á þessum slóðum en umhverfis er mosagróið hraun.
Á heimasíðu Ferlirs er þessari tóft lýst: “Hlaðan er talin vera yfir 200 ára gömul og steinhleðslan einstök, tvöföld þ.e. ytri og innri steinhleðsla og loftbil á milli. Hún hefur haldist vel fyrir utan eitt hornið en upphaflega bakkaði olíubíll á það og síðan einhverjir aðrir og við það riðlaðist hleðslan. Erlendur smíðaði kvist á þakið og fjós við sem nú hefur verið rifið. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Ólafur Erlendsson telur að tréverkið þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown en það skip rak á hafi úti fyrir Ameríku í 3 ár áður en það strandaði við Þórshöfn nálægt Höfnum árið 1881. […] Hlaðan þótti mikil bygging á sínum tíma og var nefnd Skjaldbreið. Hlaðan er nú í umsjá minjafélagsins.”
Húsið er í jaðri bæjarhólsins, rétt við malarveginn sem liggur fram hjá kirkjunni. Sést í sement í veggjahleðslunum. Húsið snýr norður-suður og er um 10 x 8 m að stærð. Breidd veggja er 0,4 m og hæð þeirra 2 m. Vesturhlið hússins er nánast alveg hrunin. Inngangur hefur líklega verið í SV-horni.

Kálfatjarnarbrunnur (vatnsból)

Kálfatjörn

Kálfatjarnarbrunnur.

“Niður með Sjávargötunni [065] er Kálfatjarnarbrunnur,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. “Niður með sjávargötunni og fast við hana, um 70 m frá hlaðvarpanum, er brunnurinn, vatnsból, sem enn er notað, og var það fyrsta á Vatnsleysuströnd, sem grafið var svo djúpt í jörð að þar gætti flóðs og fjöru. Slíkt var kallað flæðivatn. Síðar þegar sprengiefni kom til sögunar var þessi brunnur dýpkaður, svo ekki þryti vatn um stórstraumsfjörur,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.
Umræddur brunnur er merktur inn á túnakort frá 1919 um 100 m norðvestur af bæ. Hann er í óslegnu belti milli sleginna flata á golfvellinum. Golfvöllur, mosagróið hraun í utan hans. Brunnurinn er á litlum hól, 0,5 m háum og 5 m í þvermál.
Brunnurinn sjálfur er 2 m í þvermál. Ekki sést í neinar hleðslur í honum. Nú hefur hann verið byrgður. Mikið og hátt gras er í kringum brunninn.

Hornsteinn (áletrun)

Kálfatjörn

Ártalssteinninn á Kálfatjörn.

Á heimasíðu Ferlis segir: “Fyrir framan skálann er steinn með ártalinu A°1674 og fannst hér í fjörunni en hann hefur líklega verið við eina sjóbúðina.” Skálinn er nú á malarplani um 40 m norður af kirkjunni og 45 m norðaustan við bæ.
Steinninn er á malarplani norðan við kirkjuna. Golfvöllur er austan og vestan við hann.
Steinninn er 0,5 m á lengd, 0,3 m á breidd og 0,3 m hár. Á hann er letrað A°1674. Steininn er líklega úr grágrýti.

Hlið (býli)

Kálfatjörn

Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni á Kálfatjörn.

“Í beinu áframhaldi af túngarði Hátúns liggur Heiðargarðurinn suður frá traðarhliði fyrir ofan Landamóa, en þegar nálgast suðausturhorn Kálfatjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfatjarnartúns) unz hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlið; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. “Milli Goðhóls og Norðurkotstúns var Hlið og var þar í kring Hliðslóð eða Hliðstún umgirt Hliðstúngörðum, hlöðnum af grjóti og ofan lóðarinnar svo svo Heiðargarðurinn,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar.

Hlið

Hlið.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Hlið var tómthús frá Kálfatjörn.” Þar lagðist niður búskapur 1923 en þar var byggður sumarbústaður sem ekki er notaður nú. Þar sem Hlið stóð sést enn stór tóft og túngarður. Hlið er um 260 m suðvestan við Kálfatjarnarbæ 001 og um 110 m norðnorðaustan við Goðhólsbæ. Gróinn túnblettur milli hraunhóla í vesturjaðri golfvallar. Dálítill holmói er austan við Hlið, utan garðs.
Á heimasíðu Ferlirs segir: “Á miðjum vestari garðinum eru tóftir bæjarins í Hliði en þar í gegn lá kirkjugatan svokallaða sem að allir kirkjugestir fóru til messu og þar má sjá steinhleðslu yfir rásina sem áður hefur verið nefnd og þar má jafnframt finna klappaðan stein með ártalinu A°1790. Sagnir eru um að allir hafi stoppað í Hliði og fengið sér í nefið og rabbað um landsins gagn og nauðsynjar og jafnvel farið í kirkjufötin þar. Kirkjustígurinn heldur síðan áfram út eftir ströndin í gegnum Tíðagerði og Norðurkot.”

Kirkjubrú (brú)

Kálfatjörn

Kirkjubrúin við Kálfatjörn.

“Rétt ofan við götuna [Kirkjugötuna] lá grjótstétt þvert yfir Goðhólstún, kölluð Kirkjubrú,” segir í örnefnaskrá. Í bókinni Strönd og vogar segir enn fremur: “Fyrir sunnan eða vestan Kálfatjörn er farvegur, sem nefnist Rás. Þessi farvegur var alltaf þurr, nema í leysingum á vorin. Þá gat safnazt saman mikið vatn fram í heiði og fékk þá framrás um Rásina og gat þar orðið allmikill flaumur, jafnvel í mitti á mönnum. En yfir Rásina hefir verið hlaðin göngubrú úr grjóti, svo að menn gæti komizt þar yfir þurrum fótum.” Kirkjubrú liggur nokkuð samsíða Kirkjugötu, 10-30 m suðaustan við hana, og liggur frá suðvestri til norðausturs. Brúin er um 55 m austnorðaustan við Hlið og um 175 m suðvestan við bæ. Brúin liggur yfir hraunmóa en suðvesturhluti brúarinnar liggur yfir holmóa. Er í jaðri golfvallar, suðvestan við Landagarð. Brúin er úr grjóti sem hrúgað hefur verið yfir Rásina en ekki er um vandaða stétt að ræða. Grjótið í brúnni er meðalstórt og stórt hraungrýti. Brúin er um 2 m á breidd og um 32 m löng. Brúin er nokkuð sokkin og er mesta hæð hennar um 0,2-0,3 m. Steinninn með áletruninni er norðaustan við miðja brú. Steinninn er um 0,6 x 0,6 m
að stærð, ferkantaður, og um 0,3 m á þykkt. Steinninn er flatur að ofan og mosavaxinn. Áletrunin er á suðurhlið steinsins, og þekur flöt sem er um 0,2 x 0,1 m, snýr norðaustur-suðvestur. Í bókinni Strönd og vogar er ártalið lesið 1706 og á heimasíðu Ferlis er það sagt vera 1790. Áletrunin er orðin mjög óskýr en ekki var hægt að sjá annað á vettvangi en ártalið 1700 og ekki sást í A° á undan því.

Borgarkot

Breiðufit – girðingasteinar ofan Borgarkots.

Breiðufit (girðing)
Breiðufit er röð stöpla (steina) stórgripagirðingar er liggja frá Litlabæ að landamörkum Flekkuvíkur, beygir til norðurs skammt vestan Hermannavörðu og endar niður við sjávarbakkann. Í hverjum steini eru tveir trétappar. Ofan við girðinguna er hlaðin refagildra. Önnur slík er innan girðingarinnar nokkru vestar. Borgarkot var, líkt og svo margar jarðir á norðanverðu Reykjanesinu, eign Viðeyjarklausturs og gerð út þaðan.”Minjasvæðið er um 200 m langt og 50 m breitt. Það snýr gróflega frá austri til vesturs.

Goðhóll (býli)

Goðhóll

Goðhóll – Kálfatjarnarkirkja fjær.

“Svo sem 20 m neðar en brunnurinn er Rásin, en þar er farvegur, er Goðhólsrás hefur grafið sér, en hún rennur að nokkru inn á Kálfatjarnartún. […] Í beinu áframhaldi af túngarði Hátúns liggur Heiðargarðurinn suður frá traðarhliði fyrir ofan Landamóa, en þegar nálgast suðausturhorn Kálfatjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfatjarnartúns) unz hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlið; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum. […] Nokkurt tún er í Goðhól. Goðhóll fór í eyði árið 1933. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Bærinn var skammt frá suðurtúngarði og eigi alllangt frá sjó. Beint niður undan bænum er uppsátrið, skiparéttin og vörin […],” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.

Goðhóll

Goðhóll 1933.

“Ofan og sunnan Naustakots var býlið Goðhóll, sem stóð í Goðhólstúni, á suðurhlið túnsins var svokallaður Heimagarður og Vatnagarður eða Móinn,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Goðhóll var tómthús frá Kálfatjörn, en hafði grasnyt. […] afleggst Goðhóll […] árið 1935.” Bæjarstæði Goðhóls er í suðvesturjaðri golfvallar skammt frá sjó, um 275 m vestan við Kálfatjarnarbæ. Norðan við bæinn eru golfflatir og sunnan og vestan við hann eru lágar klappir og grösugir balar þar á milli. Nokkuð er um flagmóa austan við bæinn.
1919: Tún 1,4 teigar, garðar 660 m2. Minjasvæðið sem tilheyrir Goðhól er um 150 x 70 m og snýr norðvestur-suðaustur. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru á svæðinu bæjarhús a), brunnur b), þró c), útihús d), kálgarður e), kálgarður f), útihús g), útihús h), slóði i), slóði j), kálgarður k), útihús l), útihús m) og túngarður n). Bæjarhúsin a) eru mjög greinileg og vel uppi standandi. Þau standa sunnan í Goðhól, litlum bröttum og grónum hól og vestan í öðrum stærri klapparhól. Bæjartóftin er um 11 x 8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Tóftin skiptist í þrjú hólf. Inngangur inn í tóftina er á miðri suðvesturhlið og eru þar tvö hólf, hvort til sinnar handar. Þau snúa eins og tóftin.

Bakkastekkur (stekkur)

Bakkastekkur

Bakkastekkur.

“Beint upp af Nausthólsvík miðja vegu milli Langahryggjar og þjóðvegarins gamla, eru stórir klapparhólar. Þar milli hóla, í graslaut, er Bakkastekkur,” segir í örnefnaskrá. Bakkastekkur er um 590 m austur af Bakka, um 720 m norðaustur af Gamla-Bakka og um 850 m norðaustan við Kálfatjarnarbæ. Stekkurinn er í grasi gróinni laut milli hraunhóla og er lautin opin til norðvesturs. Úr henni sést að GamlaBakka og Litlabæ. Smáþýft er í lautinni.
Stekkurinn er ógreinilegur í norðurjaðri lautarinnar í dálitlum halla mót suðri. Stekkurinn er grjóthlaðinn, um 5 x 3 m að stærð og snýr NNV-SSA.

Helgahús (beitarhús)

Borgarkot

Helgahús.

“Örskammt innan við Nausthól (60-80 m) eru sléttar klappir á kampi og grónir balar. Þarna heitir Litli-Nausthóll; upp frá honum um 100 m, eru fjárhústóftir, Helgahús, nefnd eftir þeim er lét reisa þau, Helga kenndan við Tungu í Reykjavík. Þau voru reist um 1920,” segir í örnefnaskrá. Í athugasemdum við örnefnaskrá segir að húsið hafi verið reist a.m.k. 3-4 árum fyrr. Helgahús er 280 m austur af Bakkakrók og 1,1 km norðaustan við bæ.
Grasi gróinn melur sem hraunklappir standa upp úr. Stórgrýtt fjara ásamt klettabeltum niður (norður) af tóftinni. Tvískipt grjóthlaðin tóft, 14 x 10 m að stærð. Snýr hún í norðvestur-suðaustur. Breidd útveggja á langhliðum er 1,5 m en innveggurinn sem skiptir tóftinni í tvö hólf er um 1 m að breidd. Tóftin er byggð upp að kletti í suðaustri og er hann notaður sem gafl í öðru hólfinu. Hæð veggjanna er víðast hvar 0,5 m en hæst er skammhliðin sem snýr til suðausturs, 1,5 m há. Norðvesturgafl hefur líklega verið úr timbri eða öðru léttu efni þar sem hleðslur eru mun lægri þar og í vestari hólfinu hulin grasi. Vestara hólfið er 9 x 2,2 m að innanmáli en hið austara er styttra og breiðara, 7 x 4 m að stærð.

Vatnssteinar/Vaðssteinar (vatnsból)

Borgarkot

Vatnssteinar.

“Ofan við Breiðufit [inn með sjónum frá rétt] miðja eru 2 hólar allstórir hver upp af öðrum og grónir nokkuð upp. Norðan undir þeim, sem nær er bakkanum, er lítið vatnsstæði, það heitir Vatnssteinar,” segir í örnefnaskrá. Vatnssteinar eru um 400 m norðaustan við Nausthól 034, 310 m norðaustur af Litla-Nausthól og um 1,4 km norðaustur af bæ. Ekki er ljóst hvort fólk sótti vatn í vatnsbólið og þá hvaðan það var sótt eða hvort skepnum hafi verið brynnt þar.
Grasi gróið nef sem gengur út í stórgrýtta fjöru. Ofan við það er mosagróið hraun.
Líklegt er að hólarnir tveir sem nefndir eru í örnefnaskrá séu Réttarhólar. Um 50 m norður af þeim nyrðri og 10 m frá fjörunni er stórgrýtt dæld. Hún er 3 x 1,5 m að stærð og 0,3 m djúp. Hugsanlega eru Vatnssteinar þar. Nú er dældin þó þurr og grasi gróin. Stór trjádrumbur liggur ofan í henni.

Stefánsvarða (varða)

Stefánsvarða

Stefánsvarða.

“Í austur frá Bakkastekk dregur til hæðarbungu. Hún kallast Hæðin. Þar á há-Hæðinni stendur Stefánsvarða, rétt við þjóðveginn. Hún var rifin af vegagerðarmönnum á stríðsárunum síðari en var byggð upp um 1970. Það gerði Jón Helgason frá Litlabæ og Magnús sonur hans. Settu þeir og nafnspjald á vörðuna,” segir í örnefnaskrá.

Stefánsvarða

Stefánsvarða – letursteinn.

Varðan er skammt norðan við aðalveginn og sést vel af honum. Hún er um 15 m norðan við leið og um 1,6 km ANA af Kálfatjörn. Varðan stendur á flatri og sléttri klapparhellu. Umhverfis vörðuna er klappir og klapparhólar. Milli klappa eru grýttir melar, mosagrónir að hluta. Í athugasemdum og viðbótum við örnefnalýsingu segir að varðan hafi verið hlaðin endurhlaðin um 1950. Varðan er vandlega hlaðin úr hraungrýti. Hún er köntuð og mjókkar lítillega upp. Varðan er um 1 x 1 m að grunnfleti og er um 1,8 m á hæð. Hrunið hefur lítillega úr vörðunni efst en 8 umför eru í hleðslunni. Grjótið er af öllum stærðum en stærst neðst og minnkar eftir því sem ofar dregur. Grjótið virðist vera tilhöggvið. Ekki er vitað hvenær varðan var hlaðin upphaflega en líkur eru á því að hún hafi átt að varða leið.

Borgarkotsstekkur (stekkur)

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur.

“Tveir hólar skammt fyrir neðan vörðuna [Stefánsvörðu], annar til vesturs hinn til norðurs, kallast Stefánsvörðuhólar. Norðan undir þeim nyrðri (hann kallast einnig Stekkhóll) er Borgarkotsstekkur,” segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er dálítinn spöl norðvestan við Stekkhól, um 220 m norður af Stefánsvörðu, um 1 km suðaustur frá Borgarkoti og um 1,7 km norðaustan við Kálfatjörn.
Stekkurinn er í dálítilli grasi vaxinni laut. Aflíðandi brekka er upp úr lautinni til suðurs en grónir hraunhólar mynda kraga í kringum lautina alla. Þó er op á honum til norðausturs.
Stekkurinn er grjóthlaðinn, tvískiptur og snýr norður-suður. Tóftin er um 6 x 3 m og mesta hleðsluhæð er um 0,4 m. Í syðri enda er lítið hólf, um 1 x 1 m að innanmáli og í nyrðri enda er lítið gerði, að því er virðist, þar eru veggir mun ógreinilegri og efnisminni. Það er um 2 x 2,5 m að innanmáli og snýr norðursuður. Óljóst op sést í norðvesturhorni gerðisins.
Tóftin er allvel gróin, aðallega grasi og elftingu en víða sést í grjót.

Heimristekkur (stekkur)

Heimristekkur

Heimristekkur.

“Til suðurs frá Stefánsvörðu og nokkuð frá veginum er allhár hóll og brattur til norðurs. Hann heitir Grjóthóll. Til suðvesturs frá Grjóthól og nær veginum er Heimristekkur, vestan undir Heimri-Stekkhól. Heimristekkur er um 200 m til austurs frá steinkofa þeim, sem stendur við veginn heim að Bakka,” segir í örnefnaskrá. “Nú förum við aftur niður á Strandarveg fyrir neðan Hæðina, innan og austan við afleggjarann að Bakka og Litlabæ (u.þ.b. 200 m) er Heimristekkur austan undir Heimristekkhól,” segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Heimristekkur er sunnan undir sprungnum hraunhelluhól, um 780 m norðvestur af Staðarstekk og um 930 m austur af Kálfatjörn. Um 200 m sunnan við aðalveginn er hár hóll með hundaþúfu efst og suðsuðaustan við hann er ívið minni hóll, krosssprunginn hraunhelluhóll. Stekkurinn er sunnan undir honum á grasi grónum bletti í mosavöxnu hrauninu. Tóftin er mjög gróin en á stöku stað sést í grjóthleðslur. Tóftin er tvískipt, um 7 x 5 m að stærð og snýr austur-vestur. Mesta hleðsluhæð er um 0,7 m. Austara hólfið er um 1 x 1 m að innanmáli og það vestara er um 2 x 3 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á tóftinni í suðvesturhorni og í gengt er í minna hólfið um stuttan gang úr stærra hólfinu.

Staðarstekkur (stekkur)

Sraðarstekkur

Staðarstekkur.

“Spottakorn upp af Heimristekk er Staðarstekkur,” segir í örnefnaskrá. Staðarstekkur er um 320 m norður af Staðarborg og um 1,7 km suðaustur af Kálfatjörn. Stekkurinn er í stórri sprungu nyrst á hraunhelluhól. Einnig er sprunga á hólnum vestanverðum en hún er grynnri. Hóllinn er allstór en lágur og flatur. Allt í kringum hann er grasi vaxið en jarðvegseyðing víða komin nærri honum. Heildarstærð stekkjarins er um 22 x 3 m. Sprungan sem stekkurinn er í liggur austur-vestur og er víðast um 1,5 m á breidd og hafa öll hólfin þá breidd nema hólf D. Suðurveggur sprungunnar er hærri en sá nyrðri og beinni. Hæstur er hann um 1,8 m. Norðurveggurinn hallar út til norðurs og er hæstur um 1,4 m.

Staðarborg (fjárskýli)

Staðarborg

Staðarborg.

“Spottakorn upp af Heimristekk er Staðarstekkur. Litlu ofar og sunnar er Staðarborg, fjárborg hringlaga, mjög vel hlaðin, – er friðlýstar minjar,” segir í örnefnaskrá. Friðlýsingin var gerð ógild árið 1990 samkvæmt Skrá um friðlýstar minjar. Staðarborg er um 300 m suðvestur frá tóft á Þorsteinsskála og um 1,8 km suðaustur frá Kálfatjörn.
Borgin stendur suðaustast á sléttum hraunhelluhrygg, ekki mjög háum. Innan og utan borgarinnar er grasi vaxið en að öðru leyti er hryggurinn að mestu gróðurlaus.

Staðarborg

Staðarborg.

“Ólafur heyrði þá sögu um Staðarborg, að presturinn á Kálfatjörn hafi látið fjármann sinn hlaða hana, er hann stóð yfir fé. […] Á borginni voru áður lágar dyr svo að stórgripir kæmust ekki inn í hana. Upp úr 1920 lenti trippi inn í borgina og til að ná því var rifið fyrir ofan dyrnar og eru þær nú heilar upp úr,” segir í örnefnaskrá. “Borgin er hringlaga, um 8 m í þvermál að innan og vegghæðin er um 2 m,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. “Þetta er mikið mannvirki og ber þess glöggt vitni, að þar hefir handlaginn maður verið að verki. Borgin er hringlaga og er hlaðin úr grjóti einu, valdir hleðslusteinar bæði í ytri og innri hleðslu, en fyllt upp á milli með smágrjóti. Vegghæð er um 2 metrar og veggþykktin neðst um 1 1/2 metri, en 1 metri efst. Þvermál borgarinnar að innan er um 8 metrar, ummál hringsins að innan 23 metrar, en 35 metrar að utan. Efst slútir hleðslan að innan nokkuð, líkt og hleðslumeistarinn hafi hugsað sér að hlaða borgina upp í topp, eins og hinar smærri fjárborgir, sem voru víða um land,” segir í Strönd og vogum.

Staðarborg

Staðarborg.

Á heimasíðu FERLIRs segir: “Gengið var að Staðarborg á Strandarheiði. Lagt var upp frá Prestsvörðu sunnan Strandarvegar skammt austan afleggjarans að Kálfatjörn. Ofar eru svonefndar Klifflatir. Vörður eru á leiðinni svo auðvelt er að nálgast borgina. Staðarstekkur er í lágum hól skammt norðan við hana. Strandarborg er hringlaga fjárborg, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er bæði slétt og gróið. Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin upphaflega, en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla. Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina saman að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951. […] Sagan segir að fyrrum hafi þversteinn verið efst í inngangi borgarinnar. Kálfur hafi komst inn í hana og hafi honum ekki verið komið út aftur án þess að fjarlægja hafi þurft steininn fyrst. Hann liggur nú undir veggnum gegnt dyrunum. Leitað var að hugsanlegum ártalssteini í borginni, en enginn fannst að þessu sinni.” Borgin er vandlega hlaðin úr meðalstóru grjóti að mestu leyti að stórt grjót er í dyrum. Hún er hringlaga, um 6 m að innanmáli í þvermál. Veggir eru um 1,3 m á þykkt (neðst í dyrum) og þynnast lítið er ofar dregur. Utanmál borgarinnar er þá um 8,5 m. Hæð veggja er um 2 m. Dyr eru á borginni til vesturs, þær eru um 0,5 m á breidd og jafnháar veggjum en eins og kemur fram í texta hefur verið rifið upp úr dyrunum. Borgin er mjög heilleg og lítið sem ekkert virðist hafa hrunið úr henni.

Þorsteinsskáli (tóft )

Þorsteinsskáli

Þorsteinsskáli.

“Skammt norður af borginni er mikil hæð, sem kallast Þorsteinsskáli. Smá tóftarbrot er á henni,” segir í örnefnaskrá. Tóftarbrotið er efst á suðaustanverðri hæðinni, um 1 km suður af Stefánsvörðu og um 1,9 km suðaustur af Kálfatjörn.
Hæðin Þorsteinsskáli stendur hvað hæst upp úr umhverfinu og þaðan sést mjög víða. Hæðin er mjög grýtt og á henni sprungnar hraunhellur. Hún er ekki mjög gróin en víða er mosi. Um 5 m norðvestan við tóftabrotið er grasi gróinn hraunhelluhóll og hundaþúfa á honum efst. Tóftarbrotið er steinhlaðið. Það er um 2 x 2 m að stærð, snýr norður-suður. aðeins sjást suður- og vesturveggir og örlítið af austurvegg. Mesta hleðsluhæð er um 0,8 m í suðurvegg og er þar tvöföld hleðsla, 4 umför. Frá tóftinni hallar landið til norðurs. Ekki er ólíklegt að tóftin hafi verið skotbyrgi.

Prestsvarða (varða)

Prestsvarða

Prestsvarða.

“Prestsvarða eða Staðarvarða er nálægt 200-250 m í austsuðaustur frá Heiðargarði, beint upp af Hátúni. […] Oddmyndaður steinn er út úr henni neðan við miðju. Hann vísar í norður (þ.e. til byggða),” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. “Fast ofan og austan við Kálfatjarnarvegamót er Prestsvarða sem ein heimild kallar Staðarvörðu og í henni neðarlega er steinn sem vísar á kirkjustaðinn,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Í athugasemdum við örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis er varðan einnig nefnd Berjavarða. Varðan er rétt sunnan við afleggjara að Kálfatjörn, um 480 m suðaustan við bæ og um 530 m vestan við Heimristekk. Varðan stendur lágt á sléttri hraunhellu. Í kringum hana er að mestu gróið hraun. Varðan er vandlega hlaðin, köntuð að lögun. Hún er um 1×1 m að grunnfleti og um 1,6 m á hæð. Hleðslugrjótið er meðalstórt og smátt, nokkuð skófum vaxið. Neðarlega á norðurhlið vörðunnar stendur stór, flatur steinn út úr henni og vísar nokkurn veginn til norðurs, í átt að Kálfatjarnarbænum. Ofan á þessum steini er annar minni sem hefur e.t.v. verið settur þangað nýlega eða hrunið úr toppi vörðunnar. Prestsvarðan stendur við Almenningsveg.

Landabrunnur (vatnsból)

Kálfatjörn

Landabrunnur.

“Í Landamóanum, rétt við túngarðinn, er vatnsból á sléttum bala. Kallast það Landabrunnur; er hann 2x3m ummáls og 1,3m á dýpt. Þar þrýtur sjaldan vatn,” segir í örnefnaskrá. Vatnsbólið er um 10 m norðan við Heiðargarð og 160 m suður af bæ. Golfvöllur, umkringdur mosagrónu hrauni.
Andrés Guðmundsson, heimildamaður, sagði vatnsbólið ná niður á klöpp. Það var dýpkað með dínamíti um miðja síðustu öld. Líkt og segir í örnefnaskrá er vatnsbólið 2 x 3 m að stærð og nær niður á klöppina, um 1 m að dýpt. Ekkert vatn er hins vegar nú í dældinni og vex nokkur gróður í botni hennar. Engar hleðslur eru sýnilegar við vatnsbólið og er grasi gróið allt í kringum hann.

Fornuselshæðir (sel)

Fornusel.

Fornusel
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: “[…] áður hefur hann [staðurinn] og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði [svo], þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir […].” Í Jarðabókinni segir einnig að Þórustaðir eigi selstöðu í Fornuselshæðum: “Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu.” “Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur líklega verið selstaða fyrrum og gæti verið selstaða sú er getið er um í Jarðabókinni,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Þrískipt tóft (“þrjár mjög gamlar kofatóftir”) er vestan í Sýrholti, um 980 m suðvestan við Flekkuvíkursel, um 4,4 km suðaustan við Kálfatjörn og um 4,6 km suðaustan við Þórustaði.

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Tóftirnar eru allhátt á holtinu og er þar grasi gróinn blettur í kring. Umhverfis holtið eru hraunbreiður sem eru grónar á köflum en nokkur gróðureyðing er hér í kring.
Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: “Vestan í holtinu [Sýrholti] sjást þrjár mjög gamlar jarlægar [svo] kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræðslu. Útveggir sjást. Tvær tóftanna [hér hefur líklega átt að standa “Þrjár tóftanna…” þar sem áður hefur verið talað um að kofatóftirnar séu þrjár vestan í holtinu og uppdráttur sem fylgir umfjölluninni sýnir einnig þrjár tóftir] eru suðvestan í hæðunum, en sú þriðja er á gróðurbleðli skammt vestar. Hlaðin kví] er í gróinni gjá þar skammt vestan hennar.” Tóftirnar þrjár vestan í Sýrholti sem nefndar eru í heimildum er í raun ein tóft, en þrískipt. Tóftin er um 8 x 4 m og snýr norðvestur-suðaustur. Hólfin 3 snúa suðvestur-norðaustur. Þau eru 1,5×0,5-1 m að innanmáli og er norðvestasta hólfið ógreinilegast. Hleðslur eru mjög signar en hólfin eru enn nokkuð djúp. Mesta hleðsluhæð utanmáls er um 0,3 m en innanmáls er hún um 1 m. Ekki sjást op inn í hólfin og ekki sést í grjót. Efst uppi á Sýrholti er mikil hundaþúfa, grasi vaxin. Líklegt er að þar hafi staðið varða sem vísað hefur á selið því lausir steinar sjást grónir við þúfuna og minnst er á það í örnefnaskrá Kálfatjarnar (AG) að á þessu svæði sé landamerkjavarða, Sýrholtsvarða, og kann að vera að þessi meinta varða hafi einnig haft það hlutverk. Hleðsla er í gjá um 290 m norðvestur af seltóftinni og er þar líklega um meintan stekk að ræða sem nefndur er á heimasíðu Ferlis. Samkvæmt landamerkjum sem fengust hjá sveitarfélaginu er selið á merkjum milli Kálfatjarnar og Þórustaða. Það er skráð með Kálfatjörn þar sem líkur eru til þess að hér sé um selið að ræða sem talað er um í Jarðabók Árna og Páls og hefur það þá verið í landi Kálfatjarnar. Hleðslan og tóftin sem Ómar Smári talar um í ritgerð sinni eru að öllum líkindum það langt frá seltóftinni og nokkuð inn í landi Þórustaða og eru þær minjar því ekki skráðar með selinu heldur í sitt hvoru lagi með Þórustöðum.

Hólakot (býli)

Hólskot

Hólskot.

Á heimasíðu FERLIRs segir: “Tóftirnar sunnan við hina eiginlegu Kálfatjörn sem bærinn dró nafn sitt af eru minjar um sjóbúð sem reist var í tíð Stefáns Thorarenssen og Ólafur lýsti fyrir mér að ömmubróðir hans mundi eftir því að hún rúmaði tvær áhafnir eða um 16 manns. Erlendur á Kálfatjörn var umhugað um að varðveita allar minjar og þegar háspennulínan var lögð um túnið á Kálfatjörn notuðu línumenn allt grjót sem komið hafði upp úr túninu til að púkka með staurana og voru byrjaðir að rífa niður steinhleðslur úr sjóbúðinni þegar hann náði að stöðva þá. Hann vildi ekki heldur að þeir tækju steinahrúgurnar því þær voru minjar um hvað fólkið lagði á sig.” Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir enn fremur: “Holakot, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár […]. Nú er grasnautn lögð til staðarhaldarans, og má ei að skaðlausu missa.” “Rétt ofan við Eyrina og fast sunnan við Kálfatjörnina er Sjóbúðin. Þar eru rústir sjóbúðar er séra Stefán Thoraresen lét byggja, er hann var prestur á Kálfatjörn [1831-1892]. Sagt er, að sjóbúð þessi rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Hér mun býlið Hólkot hafa staðið (talið í eyði 1699 og ekki nefnt síðar),” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. “Rétt við Naustið hafði verið þurrabúðin Hóll eða Hólakot, en þar er nú Fjárhúsið. Þegar Hóll lagðist niður var þarna reist Sjóbúð, Kálfatjarnarsjóbúð og hafði rúmað 16 menn,” segir í örnefnaskrá. Hólakot hefur líklega verið um 175 m norðvestan við bæ. Sjóbúðin var þar sem nú er golfvöllur. Utan hans er gróið hraun.
Sjóbúðinni var síðar breytt í fjárhús eða ný fjárhús voru reist á sama stað. Ekki sést til minja um Hólakot.

Árnahús (býli)

Árnahús

Árnahús.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Arnahus hafa í eyði legið þrettán ár. […] Nú er grasnautn lögð til staðarhaldarans, og kann ei án vera fyrir utan sinn skaða.” “Ofan hans [Tjarnarbakkans], við austurhorn Tjarnarinnar (hún má reyndar heita nær hringlaga) er dálítil lægð eða pollur, mun hafa verið kallaður Víti. Þar mun býlið Árnahús líklega hafa staðið mjög nærri. En gárungarnir svo fært nafnið af pollinum yfir á kotið,” segir í örnefnaskrá. Víti er um 110 m norðan við bæ. Tóftin er á golfvelli. Gróið hraun er utan hans.
Pollurinn Víti er nú uppþornaður en hann má þó greina sem smá dæld. Gróður innan dældarinnar er einnig frábrugðinn þeim í kring. Rétt norðan Vítis er grasi gróinn hóll. Ofan á honum er ógreinileg tóft. Hugsanlegt er tóftin sé rústir Árnahúss eða útihúss þess. Hún er 4 x 4 m að stærð og snýr norður-suður. Er hún opin til norðurs. Breidd veggja er um 1 m og er hæð þeirra mest 0,5 m. Víðast hvar eru veggirnir þó aðeins 0,2 m háir. Glitta sést í grjót á vestanverðum langvegg innanverðum. Erfitt er að skera úr um hvort þar sé náttúruleg klöpp eða hleðsla úr grjóti.

Naustakot (býli)

Kálfatjörn

Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, jarðadýrleiki óviss. Á heimasíðu FERLIRs segir: “Nær sjónum eru tóftir af tveimur fjárhúsum og standa þær við Naustakotstjörn og þar hefur Naustakotsbærinn verið og líklega farið vegna ágangs sjávar.”
“Neðan Rásar og sunnan Sjávargötu er Naustakotstún. Neðst í því er mýrartjörn, Naustakotstjörn. Á kampinum fast norðan við tjörnina stóð kotbýlið Naustakot (í byggð 1703), hefur lengi verið í eyði. Þar er nú fjárhús,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. “En neðst í túninu var Naustakot og stóð á Naustakotshól og þar í kring hafa verið Naustakotstún. Á hólnum er nú Naustakotsfjárhús, fjárhús frá Kálfatjörn,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: “Aðfaranótt 3. febrúar 1779 gerði mikið sjávarflóð og skemmdist Bakki þá svo að hann var í eyði það ár, en grasbýli sem hét Naustakot tók alveg af.”

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Fjárhúsin eru merkt á túnakort Kálfatjarnar frá 1919. Naustakot hefur staðið þar sem nú er tóft fjárhúss sem tilheyrt hefur Kálfatjörn, 285 m norðvestan við þann bæ. Golfvöllur er sunnan við tóftina. Þar sem honum sleppir tekur við hraun. Fjaran er prýdd klettabeltum. Tóftin er á lágum hól, u.þ.b. 12 x 20 m stórum og snýr austur-vestur, sem er að líkindum bæjarhóll Naustakots. Tóftin er tvískipt og sambyggðar við hana eru tvær réttir eða hólf. Byggingin nær yfir svæði sem er u.þ.b. 20 x 9 m stórt. Tóftin er grjóthlaðin, 8 x 9 m að stærð og snýr í austur-vestur. Skiptist hún í tvö hólf.

Naustakotsbrunnur (vatnsból)
“Við bæinn hefur svo verið Naustakotsbrunnur,” segir í örnefnaskrá. Ekki reyndist unnt að staðsetja hann. Stórgrýtt fjara. Víða ganga klappir fram í sjó og mynda víkur sín á milli. Milli golfvallarins og fjörunnar er blautt valllendi. Enginn brunnur fannst við Naustakot. Mögulegt er þó að hann sé kominn undir flöt á golfvellinum eða að um sama brunn og sé að ræða og nafn hans hafi breyst eftir að Naustakot fór í eyði.

Móakot (býli)

Móakot
Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, jarðadýrleiki óviss. Fór í eyði um 1940 eða 1950.
1919: Tún 1,8 teigar, garðar 450m2.
“Fyrir ofan Móakotsbakkann er lítil mýrartjörn, Móakotstjörn. Skammt fyrir ofan hana er bærinn í Móakoti, nokkuð miðsvæðis í túninu og þó heldur nær suðurmörkum. […] Í Móakoti og Fjósakoti voru hlaðnir garðar umhverfis dálitla móa, er næstir voru túnum,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. “Norð-Austur af Kálfatjarnarhúsinu er Móakot og þar í kring Móakotstún, eða Móakotspartur, sem var umgirt Móakotstúngörðum,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að húsin í Móakoti hafi verið rifin 1919 en ný byggð fljótlega. Móakot er 220 m suðaustan við Kálfatjörn.
Móakot er nú inni á golfvelli og er allt snöggslegið á milli bygginga og annarra mannvirkja en minjarnar virðast að mestu hafa fengið að halda sér. Bærinn er fast norðan við Álfhól.
Ekki er um eiginlegan bæjarhól að ræða í Móakoti. Tóft húss sem er líklega það sama og sýnt er á túnakorti frá 1919 sést ógreinilega en annað hús hefur verið hlaðið í norðurhluta hennar.

Móakotsbrunnur (vatnsból)

Móakotsbrunnur

Móakotsbrunnur.

Um 1 m utan við túngarð Móakots virðist vera hlaðinn brunnur. Hann er um 90 m norðaustan við bæ. Brunnurinn er í grasi grónum móa þar sem eru nokkrir klapparhólar.

Hátún (býli)

Hátún

Hátún.

Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, þá í eyði frá 1700. Fór í eyði um 1920 en föst búseta tekin upp aftur, um 1960, þar brann fyrir nokkrum árum.
1919: Tún 1,9 teigar, garðar 750m2.
“Úr austurhorni Kálfatjarnartúns liggur girðing til austurs út að Heiðargarði. Hún skilur tún Fjósakots og Hátúns en svo heitir býli, sem er suðaustan megin upptúns á Kálfatjörn. Má það í raun kallast austurhorn Kálfatjarnartúns. Það fór í eyði um 1920. Árið 1941 var byggður þar sumarbústaður, en föst búseta tekin upp um 1960. Grjótgarður umlykur túnið heiðarmegin,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.

Hátún

Hátún.

“Hátún stóð í Hátúnstúni, sem girt var Grjótgörðum,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Hátún er um 160 m suðaustur af Kálfatjörn.
Hátún stendur nokkuð hátt og lækkar landið til suðurs og vesturs. Innan golfvallar.
Bærinn í Hátúni hefur að líkindum staðið á náttúrulegri hæð og bæjarhóllinn ekki verið afgerandi. Engin hús eða tóftir sjást lengur á bæjarstæðinu nema stöku steinaraðir og golfteigur er nú norðvestast á bæjarhólnum. Umfang bæjarhólsins sjálfs er um 35 x 20 m og snýr hann suðaustur-norðvestur. Mesta hæð bæjarhólsins er um 1 m. Leifar kálgarða sem voru umhverfis bæinn sjást enn að miklu leyti. Grjóti hefur verið bætt í þessa garða sumstaðar og norðaustast á svæðinu er dálítill grjóthryggur innan við garð. Samkvæmt túnakorti voru bæjarhúsin um 20 x 10 m að stærð og sneru norðaustur-suðvestur. Kálgarðarnir umhverfis bæjarstæðið girtu af svæði sem var um 30 x 40 m að stærð og sneri norðaustur-suðvestur.

Hátúnsbrunnur (vatnsból)
Brunnurinn er um 1 m í þvermál að innanmáli og fullur af grjóti. Tvö stór björg eru í austur- og vesturbrún brunnsins en minni steinar til annarra átta. Líklegt er að brunnurinn hafi verið hlaðinn að innan en grjótið sem sést efst í honum kann að hafa verið sett í hann til að fylla upp í hann eftir að hætt vara að nota hann.

Fjósakot (býli)

Fjósakot

Fjósakot.

Hjáleiga Kálfatjarnar 1703, jarðadýrleiki óviss. Í eyði frá um 1920. Því tilheyrðu 3/4 hlutar Nausthólsvíkur. ÖKálfatjörn, 6. “Fjósakot var smá grasbýli frá kirkjujörðinni á Kálfatjörn. Var það norðaustur af kirkjugarðinum.”
GJ: Mannlíf og mannvirki, 330.
1919: Tún 1,3 teigar, garðar 500m2.
“Ofan Móakots (fjær sjó) er Fjósakot. Túnin liggja saman og einnig bæði að Kálfatjarnartúni. Bærinn í Fjósakoti stóð á stórri hólbungu í miðju túni. Þar sér nú aðeins grjóthrúgur. Mold úr rústunum var tekin til uppfyllingar í grafreitinn á Kálfatjörn. […] Fjósakot fór í eyði um 1920. Í Móakoti og Fjósakoti voru hlaðnir garðar umhverfis dálitla móa, er næstir voru túnum,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.

Fjósakot

Fjósakot.

“Fjósakot stóð í Fjósakotstúni og lágu að því Grjótgarðurinn Syðri og Grjótgarðurinn Nyrðri,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Fjósakot er um 200 m austur af bæjarstæðinu á Kálfatjörn og 170 m austur af Kálfatjarnarkirkju. Tóftin er innan golfvallar. Mosagróið hraun er utan vallarins.
Bærinn hefur staðið á litlum hól, u.þ.b. 26 x 30 m stórum og 2 m háum sem snýr í austur-vestur. Samkvæmt túnakorti stóð húsaþyrping nyrst á hólnum. Túnakortið virðist sýna 8 byggingar (þó teiknaðar í einni þyrpingu, sjálfsagt að miklu leyti sambyggðar og því erfitt að aðgreina þær) en aðeins er hægt að greina leifar sex bygginga á hólnum. Nú sést lítið til þeirra en svo virðist sem sléttað hafi verið úr minjum ofan á hólnum. Þó má enn greina
garðlag nyrst meðfram bungunni.

Vatnsgjá (vatnsból)

Vatnsgjá

Vatnsgjáarvatnsbólið.

“Hér var Vatnsstæðið vatn í klöpp og þraut aldrei, sem einnig var nefnt Vatnsgjá,” segir í örnefnaskrá. Vatnsstæðið er milli tveggja lágra hóla um 90 m norðvestur af bæ. Vatnsbólið er innan golfvallar. Mosagróið hraun er utan vallarins.
Vatnsgjá er 1,4 m djúp dæld og 3 x 2,5 m stór. Glitta sést í grjót í dældinni og hefur líklega verið hlaðið ofan í hana. Hún er nú gróin grasi og er þurr.

Bakki (býli)

Bakki

Bakki.

1703 var jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. Bakkakrókur eyðihjáleiga 1703.
[1379]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI III 340).
[1477]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI VI, 124). Bjarg var tómthús frá Kálfatjörn en fór í eyði 1934 og sameinaðist Bakka. Litlibær var tómthús í upphafi (fyrir 1884), en síðar grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. (GJ: Mannlíf og mannvirki, 333-340).
Bakki (nýi) fór í eyði árið 1963 (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 10). “Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn út í sjó út, annar Bakki er rústir á sjávarkambinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni” (GJ:Mannlíf og mannvirki, 337).

Bakki

Bakki.

“Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn” (ÁÓ: Strönd og Vogar, 183).
1703: “Túnin fordjarfast af sands og sjáfarágángi árlega meir og meir, og þarf ábúandinn með kostnaði og ómaki sandinn af að moka og burt að færa. Engjar eru ongvar. Útihagar lakir um sumar, um vetur nær öngvir, nema fjaran.” JÁM III, 146. 1919: Tún 1,5 teigar, 760m2. “Norðan eða innan Móakots og Kotagirðingar, þar sem nú eru býlin Bakki og Litlibær ásamt því landi öðru, sem innan Heiðargarðs er frá Móakotsmörkum, var um langan aldur kúabeit frá Kálfatjörn, kölluð Kálfatjarnargirðingar. En þetta hafa áður verið tún og beitarland Bakka hins forna býlis, er þar var, en lagðist í eyði vegna sjávarágangs og lagðist þá undir Kálfatjörn” (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 9). Eftir að bærinn á Bakka var síðast fluttur vegna sjávarágangs árið 1904 fékk ábúandi smám saman útmælt land og ræktaði tún allt frá sjó að Heiðargarði (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 10). Óljóst er hversu mikið land hefur upphaflega tilheyrt jörðinni Bakka. Í örnefnaskrá Kálfatjarnar segir að Kálfatjörn tilheyri “innangarðs allt hið forna Bakkaland að svo miklu leyti, sem það hefur ekki verið selt á leigu og erfðafestu handa Bakka (Nýja), Bjargi og Litlabæ.” Líklegt er að Bakka hafi að fornu a.m.k. tilheyrt land frá Bakkarkóki að túnmörkum Nýja-Bakka á móti Kálfatjörn. Einnig eru líkur til þess að jörðin hafi átt land áfram upp í heiðina eins og flestir aðrir bæir á ströndinni. Heiðargarður skilur á milli túna og hraunmóa frá Kálfatjörn að Bakkakróki. Í skráningunni er Bakkaland skilgreint þannig að það sé innan Heiðargarðs, frá suðvesturhlið túngarðs Nýja-Bakka að Bakkakróki. Á því svæði eru eyðibýlin Litlibær, Bjarg og Nýi-Bakki, Gamli-Bakki og Bakkakrókur. Utan Heiðargarðs er Bakkastekkur en hann er skráður með Kálfatjörn. Ekki eru aðrar minjar utan Heiðargarðs sem tengjast Bakka svo vitað sé.

Gamli-Bakki (býli)

Bakki

Gamli-Bakki.

“Niður við sjó eru varir nefndar Bakkavarir verstu lendingar á allri ströndinni, þar oft brim og ólendandi, þar innaf eru tóftir eftir kot sem hét Bakki er svo var flutt undan sjó þar sem nú er bærinn við sjóinn,” segir í örnefnaskrá Bakka, Móakots og Bjargs. “Á Gamla-Bakka mun þó fljótlega hafa verið tekin upp búseta á ný, en þá líklega sem tómthús. En víst er um það, að á ofanverðri 19. öld var myndarlega húsað á Bakka. Þar var loftbaðstofa og einnig voru þar allstórir kálgarðar og túnblettir. Gamli-Bakki, en svo eru rústirnar kallaðar, stóð á sjávarbakkanum nokkuð miðsvæðis, upp af Bakkatöngum […]. Nálægt síðustu aldamótum var sjór farin að brjóta svo nálægt bænum, að ekki þótti annað fært en flytja hann frá sjónum,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis.

Bakki

Bakki – örnefni.

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Bakki var grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn í sjó út, annar Bakki er rústir af sjávarkampinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.” Gamli-Bakki er 200 m suðaustan við núverandi bæjarstæði Bakka. Á túnakorti má sjá ýmis garðlög, hús og húsaleifar þar sem Gamli-Bakki stóð. Suðvestan við gamla bæjarstæðið var ræktað út tún eftir að bærinn var fluttur árið 1904 og tilheyrði það tún Bjargi. Gamli-Bakki er fast norðvestan við Bakkatjörn. Sumt af því sem er á túnakortinu er horfið vegna ágangs sjávar og vegna fjörugrjóts sem borist hefur upp á bakkann og hylur e.t.v. sumar minjarnar.

Bakki

Gamli-Bakki.

Gamli-Bakki stendur fram á sjávarbakka. Í fjörunni til norðurs og norðvesturs er klapparfjara en sunnan við hann er Bakkatjörn. Grasi gróið er allt í kringum minjarnar og grýtt.
Í bók Árna Óla, Strönd og vogar segir: “Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn. En þar sem Bakki stóð áður sé nú grængolandi sjór. […] Aðfaranótt 3. febrúar 1779 gerði mikið sjávarflóð og skemmdist Bakki þá svo að hann var í eyði það ár, en grasbýli sem hét Naustakot tók alveg af. Erfitt er að gera sér grein fyrir stærð bæjarhólsins vegna gróðurs og sjávarrofs en sýnilegar leifar hans eru um 15 x 15 m að stærð og mesta hæð um 1 m. Á bæjarhólnum er minjasvæði sem er um 12 x 12 m að stærð.
“Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn út í sjó, annar Bakki er rústir á sjávarkambinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þarfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.” Ekki sést til fornleifar.

Bakkakirkja (kirkja)
Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: “Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn. En þar sem Bakki stóð áður sé nú grængolandi sjór. […] Aðfaranótt 3. febrúar 1779 gerði mikið sjávarflóð og skemmdist Bakki þá svo að hann var í eyði það ár, en grasbýli sem hét Naustakot tók alveg af.” Ef kirkja hefur verið á Bakka er líklegt að hún hafi staðið þar sem elsta þekkta bæjarstæðið var en það er nú komið út á sjó og löngu horfið og því ólíklegt að nokkrar leifar kirkju eða krikjugarðs kunni að koma í leitirnar héðan í frá, nema að kirkjan hafi fylgt bænum eftir að hann var fluttur á bæjarstæði 001 en engar sagnir eru um slíkt. Ennfremur er erfitt að fullyrða nokkuð um að kirkja hafi verið á Bakka þar sem engar fornar heimildir eru til um hana.

Bjarg (býli)

Bakki

Bjarg.

“Örstutt upp frá Naustunum var býlið Bjarg, hafði það kálgarð og dálítinn túnblett. Það fór í eyði 1936 og er nú sameinað Bakkatúni. Þar standa enn hús,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. “Niður við Gamla-Bakka stóð býlið Bjarg í Bjargslóð umgirt Bjargsgörðum,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Bjarg var tómthús frá kirkjugjörðinni Kálfatjörn. Þau er munu hafa búið þar fyrst, um 1850 voru Jón Ólafsson og kona hans Katrín.” Enginn ábúandi eftir 1934. Bjarg er um 105 m sunnan við Gamla-Bakka og um 110 m norðaustan við Bakka. Á túnakorti eru eftirtalin mannvirki sem talin eru með býlinu Bjarg: A) Þrískiptur bæjarhús; B) útihús; C) garður sem liggur umhverfis A) og B) og kálgarð; D) garðlag sem er niður við sjó og byggt er við túngarð Bakka; E) gerði utan um kvía- eða kúamóa og áfast því er rétt eða annað mannvirki; F) túngarður sem afmarkar lítinn túnblett milli Gamla-Bakka og Bjargs.
Bærinn stendur á tiltölulega sléttri brún í landslaginu sem liggur norðvestur-suðaustur. Fram af honum til suðvesturs er dálítill bratti niður að kálgarði og túni. Allt umhverfis bæinn er grasi gróið og nokkuð er um steyptar byggingar á bæjarstæðinu.

Bjarg

Bjarg.

1919: Tún 0,27 teigar, garðar 940m2. Heildarstærð minjasvæðisins er um 30 x 60 m og snýr það norðvestursuðaustur. Auk þess er túngarður F) skráður með Bjargi þar sem túnið innan hans tilheyrði býlinu en hann kann að hafa tilheyrt Gamla-Bakka upphaflega. Samkvæmt túnakorti stóðu bæjarhúsin í röð frá norðvestri-suðausturs. Þar sem bærinn stóð er nú steyptur húsgrunnur og leifar samtengdra húsa sem eru að hluta steypt og að hluta hlaðin.
Húsin standa í röð meðfram jarðvegsbakka norðaustan við kálgarð. Suðaustast er steypti húsgrunnurinn, tvískiptur, og fáum metrum norðvestar er steypt og hlaðið hús sem skiptist í 4 hólf. Það er alls um 18 x 8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Það hólf sem er austast I) er að mestu hrunið eða hefur verið rifið. Það hefur verið hlaðið að einhverju leyti og er um 8 x 8 m, snýr suðaustur-norðvestur.

Litlibær (býli)

Litlibær

Litlibær – brunnur.

“Litlibær stóð í Litlabæjartúni eða Litlubæjarlóð. Þar var rétt hjá Litlabæjartjörn,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Litlibær var tómthús í upphafi, en síðar grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Helgi byggði upp Litlabæ úr torfbæ í timburhús árið 1906.” Þar kemur einnig fram að býlið hafi verið byggt fyrir 1884. Húsið sem stendur nú var byggt 1934 og notað sem sumarbústaður. Litlibær er 155 m suðaustur af Gamla-Bakka og um 60 m norðaustur af Nýja-Bakka. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru innan túngarðs G), auk bæjarins á Litlabæ A), tvö útihús B) og C) og þrír kálgarðar D), E) og F) þar af tveir heim við bæ. Bærinn stendur skammt suðaustur frá sjó, á grónu flatlendi, umkringdu mosagrónu hrauni.

Litlibær

Bakki, Bjarg og Litlibær – túnakort 1919.

Túnakort 1919: Tún 1,15 teigar, garðar 900m2. Minjar sem tilheyra Litlabæ eru á svæði sem er 200 x 95 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Skráðar voru 9 minjar og fær hver þeirra bókstaf til aðgreiningar. Ekki er að sjá uppsafnaðar mannvistarleifar eða gömul mannvirki á bæjarstæði Litlabæjar A) en nokkuð rask hefur þó orðið á því og við það vegna byggingaframkvæmda. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir frá eldra húsi sem stóð á bæjarstæðinu og byggt var 1906. Það var rifið og flutt til Hafnarfjarðar árið 1921. Húsið var sett á steyptan kjallara að Hverfisgötu 21 b þar í bæ. Á bæjarstæðinu standa nú þrjú sambyggð hús í röð. Húsin snúa norðvestur-suðaustur en húsaröðin snýr norðaustur-suðvestur. Suðvestasta húsið er stærst og sennilega er það húsið sem byggt var 1934.
Það er bárujárnsklætt, með háu risi, og við það hefur verið byggður timburskáli til norðvesturs. Þar norðaustan við er minna hús sem hefur sama lag.

Flekkuvík (býli)

Flekkuvík

Flekkuvík – uppdráttur ÓSÁ.

1703: Jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. [1379]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI III 340).
[1477]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI VI, 124) 28.4.1479: Í þessu bréfi lýsir Arngerður Halldórsdóttir því yfir að Flekkuvík eigi þriðjung í hvalreka ásamt viðarreka og Vatnsleysa eigi tvo hluta í Flekkuvíkurreka sem og hvalreka. (DI VI, 185-86) 1553-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 577).
1703 eru hjáleigur Sigurðarhjáleiga, Blíðheimur, Péturskot, Refshali og Úlfshjáleiga. (JÁM III, 148-149). “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst … og Tröð. (Ö-Flekkuvík, 4). Tvíbýli var á jörðinni frá því fyrir aldamótin 1900 og var Vesturbær í eyði frá 1935, austurbær frá 1959. (GJ: Mannlíf og mannvirki, 343-347.) Einnig eru óljósar sagnir um tvö býli tl sem hétu Holt og Járnshaus. (Ö-Flekkuvík GE, 6). Jörðin í eyði frá 1959.
1703: “Túnunum spillir sjáfarágángur merkilega, iteml vatnsrásir með leirágángi af vatni af landi ofan til stórskaða. Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumar og enn þó minni um vetur.” JÁM III, 147. 1919: Tún alls 4,7 teigar, garðar 2170m2.
Tvíbýli var í Flekkuvík fyrir og eftir aldamótin 1900. Flekkuvíkurbæirnir stóðu vestanvert í samnefndri vík. Umhverfis bæina voru tún á nokkru flatlendi en þó eru grónir hraunhólar í norðvestanverðu túninu sem tilheyrði Vesturbænum. Samkvæmt túnakorti voru bæði Austur- og Vesturbærinn á sama stað, austan við traðir, og var stutt á milli þeirra og eru þeir báðir skráðir undir þessu númeri.

Flekkuvík

Sólsetur við Flekkuvík.

Vesturbærinn fór í eyði 1935 þegar íbúðarhúsið brann til grunna og Austurbærinn fór í eyði 1959. Í Austurbænum voru 2 hús sem tengd voru með litlu húsi. Vesturbærinn var eitt stórt hús og við vesturhlið þess lítið hús áfast. Norðan við vesturbæinn er þró eða gryfja. Á túnakorti er bæjarstæðið með báðum bæjum um 20 x 30 m stórt og snýr austur-vestur.
Bæjarstæðið er á láglendi en þó stendur það aðeins upp úr umhverfinu. Tún og túngarðar eru umhverfis bæjarstæðið og er það að miklu leyti flatlent en norðvestan og norðanvert eru grónir hraunhólar. Mikið rask hefur orðið á bæjarstæðinu vegna byggingaframkvæmda.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Erfitt er að átta sig á umfangi bæjarhólsins í Flekkuvík vegna gróðurs og framkvæmda sem farið hafa fram á honum. Hóllinn virðist að nokkru leyti náttúrulegur en hann er gróflega áætlað um 20 x 30 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hóllinn er um 1-1,5 m á hæð. Á bæjarstæðinu stendur allstórt hús, steinsteypt auk kjallara austan við það. Steypt plata er ofan á kjallaranum og nær hún að húsinu og er einnig meðfram suðvesturhlið þess. Við norðausturhorn hússins er niðurgrafin steypt laug. Rétt utan bæjarstæðisins eða í vesturjaðri þess er annað minna, steinsteypt hús í niðurníðslu.
Það er vestan við heimreið og stendur þar sem útihús Vesturbæjarins voru eða rétt norðan við þau. Byggingarnar á bæjarstæðinu ná yfir svæði sem er um 22 x 22 m að stærð. Rask hefur hins vegar orðið á mun stærra svæði. Ekki eru kjallarar undir steyptu húsunum sjálfum svo að von er til þess að undir þeim kunni að vera óraskaðar minjar. Norðan við stóra húsið austanmegin á hlaðinu er nokkuð um grjót sem rutt hefur verið út og er gamalt bárujárn í því. Vegna rasks við byggingaframkvæmdir og vegagerð er lítið eftir af miklum grjóthlöðnum kálgörðum sem voru í kringum allt bæjarstæðið og sýndir eru á túnakorti. Þó sést til þeirra suðvestan við stóra steinhúsið, austan við heimreið, og í kringum minna húsið. Þar eru grjóthleðslur að mestu hrundar en mesta hleðsluhæð er um 1,5 m.

Vatnagarður (býli)

Flekkuvík

Vatnagarður.

“Við Bælingsklappir er túnhorn Vesturbæjar. Þaðan liggur garður til útsuðurs og skilur hann á milli túnsins og Vatnagarðsins, en svo nefnist grasbrekka og lágar flatir, er fara í kaf með stórstraumsflóði. Í Vatnagarði, niður frá Álfhól er síðar getur, eru rústir. Gætu þær verið af gömlu koti (e.t.v. Péturskoti eða Úlfshjáleigu sem G.S. getum um í lýsingu sinni),” segir í örnefnaskrá GE. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. […] Utan Norðurtúngarðs var hjáleigan Vatnagarður umgirt Vatnagarðsgörðum að sunnan,” segir í örnefnaskrá. Í fyrri tilvísuninni er ekki gert ráð fyrir því að umrædd tóft geti verið leifar af býlinu Vatnagarði. Innan Vatnagarðsgarða eru tvær sýnilegar tóftir og eru um 65 m á milli þeirra. Önnur þeirra er nærri Norðurtúngarði en hin er nærri sjó. Líklegra er talið að tóftin nær sjó sé býlið Vatnagarður en ekki er útilokað að báðar tóftirnar hafi tilheyrt því. Vatnagarðstóftin er um 175 m norðvestan við bæ. Svæðið sem tilheyrt hefur Vatnagarði er afmarkað af Norðurtúngarði til suðausturs, löngum beinum garði til vesturs, sem líklega er hluti af Vatnagarðsgörðum og skráður er hér, og af fjörunni til norðurs og austurs. Svæðið er þríhyrningslaga og er alls um 290 x 185 m að stærð, snýr norður-suður. Garðurinn sem skráður er með Vatnagarði er 160 m norðvestur af Flekkuvík og um 55 m vestur af Vatnagarðstóftinni. Varla er hægt að telja garðinn túngarð, þar sem ekki virðist hafa verið tún í Vatnagarði nema mjög lítill blettur umhverfis tóftina. Garðurinn er því skilgreindur sem vörslugarður. Tóftin er á grasi grónum bala norðan við hraunhóla. Framan við tóftina til norðurs og norðausturs eru grasi grónar klapparflatir í fjörunni. Bílslóði er sunnan við tóftina, milli hennar og fjörunnar.

Flekkuvíkurstekkur (stekkur)

Flekkuvík

Flekkuvíkurstekkur.

“Upp af Stekkjarvíkinni er Stekkjarmóinn, velgróinn og allstór um sig. Við austurjaðar hans, nokkurn spöl frá sjó, er Flekkuvíkurstekkur sunnan undir lágum hól, Stekkhólnum,” segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er um 450 m norðvestur af bæ. Stekkurinn er sunnan undir lágum hraunhól í grónu hrauni en mikill holmói er nálægt honum til norðvesturs. Vestan og norðvestan við stekkinn er allgott beitarhólf, flatlent og grösugt.
Stekkurinn er tvískipt tóft, grjóthlaðin og vel gróin. Hún er um 3 x 5 m að stærð og snýr norður-suður. Hleðslur sjást í suðurenda, mesta hleðsluhæð er um 0,5 m.

Úlfshjáleiga (býli)

Flekkuvík

Úlfshjáleiga.

“Í Vesturbæjartúni, skammt til útnorðurs frá bænum, er stór hóll, en ekki hár. Hann heitir Álfhóll. Þar var börnum bannað að vera að leikjum,” segir í örnefnaskrá. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Ulfuhjáleiga hefur fyrir meir en tuttugu árum tóft hús verið, og nú um lánga stundir í auðn. […] Kynni aftur að byggjast, en nokkur þyrði að ráða.” “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. […] Í Vesturbæjartúni er Fjóshóll og enn er þar hóll nefnist Úlfshóll [einnig Álfhóll] þar mun Úlfshjáleiga hafa staðið, en lengi var þar álfabyggð mikil,” segir í örnefnaskrá. Álfhóll eða Úlfshóll er um 60 m norðvestan við bæ. Hóllinn er á milli hólaþyrpingar til norðurs og steyptra húsa á bæjarhlaðinu til suðurs. Hann er innan túns og afar grasgefinn.
Hóllinn er nokkuð langur og liggur í boga frá suðvestrinorðausturs. Hann er um 35 x 10 m að stærð og um 2 m hár. Hóllinn er mjög grasgefinn og sést lítið í klappir nema við suðvesturenda hólsins. Þar hefur verið hlaðið í kringum járnstaura og sementslím notað til að halda hleðslum saman. Aðrar hleðslur er ekki að sjá við eða á hólnum. Að ofan er hóllinn nokkuð flatur en ójafn. Ekki er ólíklegt að á hólnum hafi staðið einhver hús en á þessum hól er áberandi mikill grasvöxtur í samanburði við aðra hraunhóla í túninu sem eru jafnvel lægri. Um 5 m norðan við norðausturenda Álfhóls/Úlfhóls er lágur klapparhóll, gróinn að mestu leyti. Hann snýr suðvestur-norðaustur og er um 10 m langur, 5 breiður og um 1 m á hæð. Hóllinn hækkar til suðvesturs og á miðjum hólnum er dæld í sömu stefnu og hóllinn, um 2,5×1,5 m að stærð. Norðvestan við dældina, á hólbrún, er stórt grjót á svæði sem er um 1,5 x 1 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Vestan við hólinn er einnig stórt grjót í um 2 m langri röð, snýr norður-suður. Ekki er útilokað að hér hafi staðið hús, e.t.v. í tengslum við Úlfshjáleigu.

Holt (býli)
“Suður við túngarðinn, skammt frá traðarhliði, er tóft, nefnd Holt. Er sagt, að þar hafi verið búið einhverntíma; svo er einnig um tóft eina í Austurbæjartúni, stutt frá tröð, út við túngarðinn. Hún er kölluð Járnhaus,” segir í örnefnaskrá. Tóft Holts sést enn um 130 m suðvestan við bæ. Tóftin er í túni en utan þess er gróið hraun. Tvískipt og ferhyrnd tóft, 11 x 6 m að stærð. Snýr hún í norðaustur-suðvestur. Breidd veggja er um 1 m nema sá sem aðgreinir hólfin tvo. Hann er 2 m breiður. Mesta hæð veggjanna er 1 m (norðaustanverður innveggur) en víðast hvar eru þeir 0,4 m háir.

Flekkuvík

Járnhaus.

Járnhaus (býli)
“Suður við túngarðinn, skammt frá traðarhliði, er tóft, nefnd Holt. Er sagt, að þar hafi verið búið einhverntíma; svo er einnig um tóft eina í Austurbæjartúni, stutt frá tröð, út við túngarðinn. Hún er kölluð Járnhaus,” segir í örnefnaskrá. Tóft er vestanvert í klapparhól, fast við túngarðinn í túni Austurbæjar, um 140 m suðvestur frá bæ 001 og um 40 m suðaustan við Holti. Tóftin er vestan í hól í suðurjaðri Austurbæjartúns, grasi grónu. Sunnan og vestan við túnið er gróið hraun. Suðaustast á hólnum sést í klöpp. Rústahóllinn sjálfur eru um 14 x 8 m og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er hæstur í ASA enda en þar er hann um 2 m á hæð. Mikill gróður vex þar sem hóllinn er hæstur, sérstaklega mikið vex þar af umfeðmingi. Þarna efst sést annað tveggja hólfa í tóftinni.

Flekkuleiði (legstaður/áletrun)

Flekkuleiði

Flekkuleiði.

“Flekkuleiði er suðaustur frá bænum, fáa metra innan við túngarðinn og um 90 m til vesturs með túngarði – frá afleggjaranum talið,” segir í örnefnaskrá. Flekkuleiði er um 145 m suður af bæ og um 90 m suðaustur af Járnhaus. Steinninn er um 5 m innan við túngarð. Flekkuleiði er í grasgefnum túnjaðri. Dálítill kambur er upp frá því til suðvesturs að túngarði.
Í Frásögnum af fornaldarleifum segir: “Hóll í Sudur undan Fleckuvíkur bæ, þar í Túninu 6 álna lángur, 3 1/2 alin breidur, vid jarðveg, allur Grasi vaxin, hefur 1 álnar lángan – 2 1/3 qvart: breidan hraunstein ofan i midjum Mæni þessari Skript grafinni […].” “Flekkuleiði snýr frá norðri til suðurs og er um þriggja metra langt, 1,30m breidd og 30 sm hátt. Á því er rúnasteinn. – Það var trú fólks, að hér væri Flekka sú, er Flekkuvík nam, grafin. Leiði mun þó aðeins vera klapparbali, en ekki grafreitur,” segir í örnefnaskrá. Árni Óla segir að á rúnasteininum standi “hér hvílir Flekka.” Jónas Hallgrímsson gróf þar upp 1841 og undir var bara jarðföst klöpp og ljóst að enginn hefur verið grafinn þar. Jónas lýsir Flekkuleiði þannig: “(Það er) í hafsuður frá bænum, um 6 faðma fyrir innan túngarðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 álna lengd og 2 1/2 álnar breitt, sem sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt að ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri: [rúnaáletrunin] Hæðin er nú öll grasi gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því sem það væri hleðsla. […] Letursteinninn er nú tekinn upp og mældur: Lengd, 15-16 1/2 þuml., breidd 12 þuml., þykkt 4-5 þuml., Hann er því, sem sjá má lítill og heldur ólöguleg hraunhella […].”

Flekkuleiði

Rúnasteinninn á Flekkuleiði – uppdráttur ÓSÁ.

Á heimasíðu FERLIRs segir: “Túnið er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga [Óvíst er hvaðan þessi heimild er fengin en í athugasemdum Matthíasar Þórðarsonar við dagbókarskrif Jónasar um rúnasteininn kemur fram að hann telji steininn vera frá 17. eða 18. öld og að hann hafi verið gerður vegna munnmæla um Flekku, sjá JH Rit III, 300].
Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin. Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast. Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.” Á þessum stað er upphækkun sem er um 2 x 1 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur og er um 0,5 m á hæð. Steinninn er á því miðju, nær norðvesturbrún langhliðar. Hann er lítillega skófum vaxinn, sést vel en áletrunin óskýr. Steinninn er úr hraungrýti, um 0,3 x 0,4 m að stærð og snýr eins og leiðið.

Austurbæjarbrunnur (vatnsból)

Flekkuvík

Flekkuvík – Austurbæjarbrunnur.

“Nú liggur vegur heim Austurbæjartúnið og vestan við hann er Brunnurinn eða Flekkuvíkurbrunnur. […] Austurbæjarbrunn er víst óhætt að kalla Brunninn sem áður er nefndur,” segir í örnefnaskrá. 70 m ASA af bæjarstæði er brunnur, rétt vestan við gróna heimreið að bænum em liggur í gegnum túnið. Brunnurinn er merktur á túnakort frá 1919. Brunnurinn er í grónu túni. Hringlaga brunnur, 2,5 m í þvermál og 2,5 m djúpur.
Hann er hlaðinn úr grjóti sem hefur að hluta verið höggvið til. Brunnurinn er nú þurr og sést í grjót í botni
hans.

Vesturbæjarbrunnur (vatnsból)

Flekkuvík

Flekkuvík – Vesturbæjarbrunnur.

“Vestan við bæ er svo Brunnurinn. Vesturbæjarbrunnur,” segir í örnefnaskrá. Sami brunnur er merktur inn á túnakort frá 1919, í túni Vesturbæjar, um 70 m norðvestan við bæ og um 60 m suðvestur af brunni Austurbæjarbrunni.
Brunnurinn er í túni, nokkuð sléttlendu, en norðan við hann eru lágir og grónir klapparhólar. Brunnurinn er grjóthlaðinn, um 2 m í þvermál og um 1 m djúpur. Ekki er vatn í brunninum. Brúnir brunnsins slúta nokkuð inn og hrunið hefur úr brún hans í suðausturjaðri.

Skiparéttin (naust)
“Norðan við víkina eru svo Austurbæjarvör og Vesturbæjarvör og Naustið þar upp af og Skiparéttin,” segir í örnefnaskrá. Á túnakorti eru sýnd nokkur mannvirki við bæði Austurbæjar- og Vesturbæjarvarir. Ekki er ljóst við hvað af þeim mannvirkjum Naustið og Skiparéttin eiga við sem nefnd eru í örnefnaskrá. Við Austurbæjarvör eru á túnakorti spil, tvískipt hús vestan við það sem opið er til norðurs og svo þar suðaustan við eru fjögur samliggjandi og/eða samtengd lítil hús sem hér eru skráð sem Skiparéttin/Naustið. Líklegt er að eitthvað af þessu hafi verið naust og/eða skiparétt. Lítið sést nú til þessara minja á vettvangi.

Bræður (vörður)

Flekkuvíkursel

Bræður.

“Enn austar eru Bræður, tvær vörður, hvor hjá annarri,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Í örnefnaskrá Flekkuvíkur segir: “Eftir því sem talið er við Kálfatjörn er Stóri-Hafnhóll, SyðriHafnhóll að einhverju leyti í Flekkuvíkurlandi. Svo er einnig með vörðurnar Bræður, Bróðir innri og Bróðir syðri.” Vörðurnar eru 700 m norðan við Flekkuvíkursel og 3,4 km suður frá bæ. Miðað við landamerki sem fengust hjá sveitarfélaginu eru vörðurnar í miðju Flekkuvíkurlandi og því ekki vafamál að báðar vörðurnar tilheyra Flekkuvík. Mosagróið hraun og klapparholt. Víða eru grasi grónar hvilftir.
Tvær veglegar grjóthlaðnar vörður, tveir metrar eru á milli þeirra. Sú austari er 1,5 x 1 m að flatarmáli og 1,5 m há. Sú vestari hefur sama flatarmál en er aðeins lægri, um 1,2 m að hæð. Grunnflötur þeirra beggja er nokkurn vegin kantaður. Þar sem vörðurnar standa enn svo vel eru þær varla mjög gamlar eða hafa verið endurreistar. Vörðurnar eru á svæði sem er um 5 x 1,5 m og snýr austur-vestur. Ekki er vitað í hvaða tilgangi vörðurnar voru hlaðnar.

Mundastekkur (stekkur)

Mundastekkur

Mundastekkur.

“[…] og vestan undir honum [Strandaveginum] er Mundastekkur sem líklega var frá Flekkuvík,” segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Stekkurinn er fast vestan undir Tvívörðuhæð og um 1,1 km í suðvestur frá bæ. Stekkurinn er á stéttum grasbala í nokkuð grónu hrauni en næst stekknum er flagmói. Skammt sunnan við stekkinn er reiðstígur.
Stekkurinn er grjóthlaðinn en vel gróinn og hleðslur signar. Hann er 7 x 6 m að stærð og snýr austurvestur. Stekkurinn skiptist í tvö hólf en veggurinn sem skilur hólfin að sést mjög illa og er afar vel gróinn. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Líklega hefur verið op inn í tóftina í norðvesturhorni hennar en það er mjög óskýrt.

Flekkuvíkursel (sel)

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.” “Vestan eða suðvestan undir honum er Flekkuvíkursel og er það í landi Kálfatjarnar,” segir í örnefnaskrá GE. “Þar rétt hjá er Selstígurinn [svo] beint suður í Flekkuvíkursel. Það stendur í Seltúninu og eru þar allmiklar rústir greinilegar. Þar var haft í seli fram til 1845. […] Þegar haft var í seli var búsmalinn rekinn til vatns í Kúagerði, 40 mínútna leið fram og til baka,” segir í örnefnaskrá Flekkuvíkur. “Enn ofar, vestan undir klapparási, er Flekkuvíkursel. Þar er allstór mói í kringum selið, er nefnist Seltún. Amma Ólafs, Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, kom í selið sem barn og voru þá bæði smali og selráðskona þar. Það hefur verið á milli 1860-70, en Herdís var fædd 1858. Þarna sjást rústir allmargra kofa,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Í ritgerð Gunnars Ingimundarsonar um örnefni í Brunnastaðahverfi kemur fram að Flekkuvíkursel hafi verið síðasta selið sem fór í eyði í sveitinni, um 1870.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Selið er 4 km SSA við bæ. Heimildum ber ekki saman um hvað ásarnir heita í kringum Flekkuvíkursel en það skiptir miklu máli í þessu tilviki því landamerki Flekkuvíkur á móti Kálfatjörn annarsvegar og Vatnsleysu hins vegar liggja um ása sitt hvorum megin við selið. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir er aðeins talað um Vestari- og NyrðriFlekkuvíkurselás eins og gert er í landamerkjalýsingu. Í lýsingum af staðsetningu selsins í sömu heimild er talað um að Selásvarða sé á Vesturásnum. Í Örnefnaskrá Flekkuvíkur er hins vegar talað um Selásinn vestari, Selásinn eystri og Mið-Selás. Og samkvæmt sömu heimild er Selásvarðan á Mið-Selás. Á vettvangi og af loftmyndum virðast ásarnir vera þrír og er líklegt að Selásinn eystri í örnefnaskrá sé sami ás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás í landamerkjalýsingu en þessi ás er norðaustastur ásanna og því geta bæði nöfnin átt við hann. Mið-Selássins er væntanlega ekki getið í landamerkjaskrám af því að landamerkin liggja ekki um hann. Mið-Selás er suðaustan við Flekkuvíkusel og á honum er stór varða sem að öllum líkindum er Selásvarða en tvær vörður eru á Selásnum vestari sem er vestan við Flekkuvíkursel. Annað sel er um 185 m norðaustan við Flekkuvíkursel en það er að öllum líkindum í landi Vatnsleysu og er skráð með Stóru-Vatnsleysu. Óvíst er hver tengslin eru milli seljanna tveggja en selið í landi Vatnsleysu virðist vera eldra en Flekkuvíkursel og því tilheyra færri sýnilegar rústir. Selið kann að hafa verið frá Vatnsleysu eða eldra sel frá Flekkuvík þó að selstæði Flekkuvíkursels sé mun ákjósanlegra eins og aðstæður eru nú.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Flekkuvíkursel er norðvestan undir Mið-Selás sem er allhátt hraunholt. Seltóftirnar eru í Seltúninu sem er nokkuð flatlendur og grasi gróinn túnblettur. “Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels, í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Á heimasíðu Ferlirs segir: “Frá Bræðrum sést vel að Flekkuvíkurseli í suðri. Um 10 mínútna gangur er að því frá vörðunum. Selið sjálft er undir löngu holti, Flekkuvíkurselási. Á því er varða, Selásvarða. Annars eru sjáanlegar vörður á holtum þarna allt í kring, átta talsins.” Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: “Í selinu sjálfu má vel greina 8 tóttir. Líklega hafa selstöðurnar verið a.m.k. tvær. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóftir er benda til þess að þar hafi verið minna sel.
Norðan þess er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum [Framangreindar minjar: kví, sel og hóll með hleðslum er skráð saman auk vatnsstæðis. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús. Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920).” Flekkuvíkursel er á svæði sem er 100 x 80 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Þar eru sex tóftir og eitt garðlag.

Selásvarða (varða)

Flekkuvíkursel

Selásvarða.

“Þarna [hjá Flekkuvíkurseli] er dálítill hvammur með Selásinn vestari, Selásinn eystri og Mið-Selás framundan og þar á Selásvörðuna,” segir í örnefnaskrá.
“Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum,” segir í Örnefnum og gönguleiðum.

Flekkuvíkursel

Selsvarða ofan Flekkuvíkursels.

Heimildum ber ekki saman um hvort Selásvarða er á Mið-Selási eða Vestri-Flekkuvíkurselás. Á vettvangi og af loftmyndum virðast ásarnir vera þrír og er líklegt að Selásinn eystri í örnefnaskrá sé sami ás og NyrðriFlekkuvíkurselás í landamerkjalýsingu en þessi ás er norðaustastur ásanna og því geta bæði nöfnin átt við hann. Mið-Selássins er væntanlega ekki getið í landamerkjaskrám af því að landamerkin liggja ekki um hann. Selásvarðan er um 100 m sunnan við Flekkuvíkursel. Varðan stendur nokkuð hátt á ásnum á gróinni hæð. Varðan er hrunin og mikil um sig. Hún er um 1,2 m í þvermál en norðan við hana er grjótdreif sem er um 1 m í þvermál og er hún, a.m.k. að hluta, hrun úr vörðunni. Varðan er um 1 m á hæð og grjótið í henni meðalstórt. Um 100 m norðaustan við Selásvörðuna eru 2 lítilfjörlegar grjóthrúgur með stuttu millibili sem kunna að vera þær vörður sem í heimild eru sagðar á miðhluta og nyrðri enda Vestri-Flekkuvíkurássins og eru þær skráðar með henni.
Selásvarða hefur vísað á Flekkuvíkursel.

Sigurðarhjáleiga (býli)
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var Sigurðarhjáleiga í byggð árið 1703. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð,” segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur vitað hvar Sigurðarhjáleiga stóð en að líkindum hefur hún staðið við eða innan túns, á svæðinu milli Vatnagarða og Refshala.

Blíðheimar (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir að Blíðheimur sé hjáleiga í byggð. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð,” segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur vitað hvar Blíðheimur stóð en að líkindum hefur hún staðið við eða innan túns, á svæðinu milli Vatnagarða og Refshala.
Staðsetning þessarar hjáleigu er ókunn.

Péturskot (býli)
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var Péturskot hjáleiga í byggð árið 1703. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð,” segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur vitað hvar Péturskot stóð en að líkindum hefur hún staðið við eða innan túns, á svæðinu milli Vatnagarða og Refshala.
Staðsetning þessarar hjáleigu er ókunn.

Refshali (býli)

Refshali

Refshali.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Refshale hefur í eyði legið fjögur ár […]. Nú er hjáleigan eyðilögð fyrir sands og sjáfar ágángi og leirflóði af landi ofan, en grasnautnarleifar brúkar heimabóndinn og þykist ei að skaðlausu afleggja mega.” “Austurbæjartún liggur í boga meðfram víkinni og mjókkar eftir því sem austar dregur. Þar í túnkróknum var býli, er Refshali hét, fór í eyði um eða laust fyrir 1920. Í seinni tíð var býlið alltaf nefnt Refshali en hefur sennilega upphaflega heitið Rifshali,” segir í örnefnaskrá GE. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst,” segir í örnefnaskrá Flekkuvíkur. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að Rifshali hafi farið í eyði um 1922-23. Refshali er um 240 m austur af bæjarhólnum.
Býlið stendur á grónu nefi við stórgrýtta fjöru. Sunnan og vestan við nefið eru tún.
Samkvæmt túnakorti stóðu fjögur hús í Refshala og voru tvö þeirra sambyggð. Austasta húsið hefur verið þró eða gryfja. Þau stóðu í túni sem var um 30 x 40 m stórt og sneri í norðaustur-suðvestur. Talsverð mannvirki sjást enn í túninu sem er um 10 x 25 m að stærð í dag. Líklegt er að íbúðarhúsið hafi verið í öðru eða báðum sambyggðu húsunum. Kálgarður, um 10 x 10 m að stærð, er einnig sýndur á túnakortinu norðan við sambyggðu húsin. Virðist hann hafa verið umkringdur garðlagi.

Miðmundahólar (stekkur)

Miðmundahólar

Miðmundahólar – tóft.

Á heimasíðu Ferlirs segir: “Á Flekkuvíkurheiði er falleg hólaþyrping sem ber við himinn sé komið að þeim úr norðri. Þeir heita Miðmundahólar. Vestan undir hólunum er tóft, sem ekki virðist vera til í örnefnalýsingum eða fornleifaskrám.” Tóft er sunnan undir suðvestasta Miðmundahólnum, um 265 m suðaustan við Arnarvörðu og um 1,3 km suðvestan við bæ.
Tóftin er fremst (suðaustast) í grasgefnum krók undir suðvestasta Miðmundahólnum og klapparhæðar þar suðvestan við. Flagmói er kominn fast upp að tóftinni að suðaustanverðu.
Tóftin er grjóthlaðin en hún er afar vel gróin og lítið sést af grjóti í henni. Tóftin er einföld, snýr norðursuður og er um 3 x 5 m að stærð, mesta hleðsluhæð um 0,5 m. Ekki sést op á tóftinni en líklega hefur það verið á suðurgafli. Hólarnir norðan og suðvestan við tóftina mynda aðhald kringum lítinn grasblett norðvestan við tóftina. Líklegt er að hér hafi verið stekkur og benda fjarlægð frá bæ, staðsetning og útlit tóftar til þess.

Þórustaðastígur (leið)

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

“Þórustaðastígur nefnist gamall götuslóði sem liggur frá bænum Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og upp heiðina. Stígurinn heldur þessu nafni allt upp að og yfir Vesturháls [Núpshlíðarháls] og að eyðibýlinu Vigdísarvöllum,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. “Stígur liggur upp frá Þórustaðahlið[i], nefnist Kúastígur, upp í heiðina. Sama [svo] stígur er líka nefndur Þórustaðastígur og liggur alla leið suður og upp til Núphlíðarháls og hann sameiginlegur Heiðarstígur fyrir alla Inn-Ströndina,” segir í örnefnaskrá. Leiðin sést suðaustan við Þórustaðaborg og frá henni til norðvesturs að Þórustöðum. Á þeim kafla eru nokkrar vörður. Leiðin sést einnig skammt suðaustan við traðir á Þórustöðum. Árið 2000 var leiðin skoðuð í nágrenni Reykjanesbrautar. Leiðin liggur yfir gróið hraun.
Um stíginn segir einnig í Örnefnum og gönguleiðum: “Götuslóðinn byrjar um 200 m norðan afleggjarans að bænum og sér þess nú næsta lítil merki að þar hafi gata verið. Gatan liggur um móa og moldarflag suðvestan við allmikinn klapparhól ofan við Gamla-Keflavíkurveginn. Þegar komið er upp fyrir hól þennan er stefna stígsins til austurs, sjónhending skammt norðan við Trölladyngju. Nokkru ofar (um 1 km) liggur gatan um Þórustaðaborg en þar eru rústir stekks eða fjárborgar í vel grónum móa, vestan undir allháum hól. Frá Þórustaðaborg er stefnan áfram sú sama og fyrr er getið og að Lynghól […]. Stígurinn liggur um hólinn miðjan og er mjög greinilegur þarna upp hólinn vestanverðan. Frá Lynghól er stefnan síðan suðaustlæg að stórum klapparhól, Kolgrafarholti, skammt ofan Reykjanesbrautar, og liggur gatan með fram honum norðaustanmegin. […] [Stígurinn er nú stikaður sunnan við holtið enda ljóst að þar hafa menn og hestar einnig farið um]. Áframhald lýsingarinnar er á bls. 151-152. Leiðin var skoðuð á kafla í landi Þórustaða við aðalskráningu 2009.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur ofan Bæjarfells Vigdisarvalla.

Gatan sést við Þórustaðaborg þar sem hún liggur um gróinn móa. Þar er ein mjó gata, um 0,3 m á breidd og um 0, 3 m djúp. Hún er gróin að mestu leyti á þessum kafla en þar sem hún liggur um gróðurminna svæði norðvestan við Þórustaðaborg sést lítið sem ekkert til hennar. Á leiðinni frá Þórustaðaborg að Þórustöðum sjást fjórar vörður við leiðina. Gatan sést á um 70 m löngum kafla og stefnir nálega austur-vestur. Við skráningu vegna breikkunar Reykjanesbrautar árið 2000 var leiðin skoðuð við Kolgrafarholt. Milli Kolagrafarholts og annars hóls sem er norðar er dæld sem er grasi gróin. Merki Þórustaðastígsins eru greinileg í dældinni. Göturnar lágu svo áfram yfir hraunið til suðurs. Ekki sjást skýr merki um Þórustaðastíg við Reykjanesbrautina.

Alfaraleið (leið)

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

“Um jörðina [Hvassahraun] hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina Reykjanesbrautin,” segir í örnefnaskrá. “Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggð, þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn [heitir líka Strandarvegur] og innarlega í Hvassahraunslandi einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. […] Nafnið Almenningsvegur, yfir gömlu þjóðleiðina, virðist helst hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum og trúlega líka búendum utar á skaganum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann frekar kallaður Alfaraleiðin,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. “Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur,” segir í örnefnalýsingu Straums. “Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir,” segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns. Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun.
Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfaraleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina. Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt. Við aðalskráningu Kálfatjarnarhverfis og Flekkuvíkur árið 2008 var leiðin skoðuð í landi Flekkuvíkur þar sem leiðin liggur um hraunið og krækir fyrir hól sem Arnarvarða stendur á. Þar er gatan mjög mjó en breikkar þar sem hún heldur áfram til norðausturs. Skráning 2009: Í landi Þórustaða er ein varða og ein grjótþúst á allháu holti nærri núverandi malbikuðum vegi um Vatnsleysuströnd. Varða A er á norðausturenda holtsins. Hún er um 1,2×1 m að grunnfleti, snýr austur-vestur og er um 0,4 m á hæð. Varðan er gróin neðst og skófum vaxin. Um 28 m vestar er útflött grjótþúst B sem kann að hafa verið varða á sömu leið. Þústin er um 2 m í þvermál og stendur ekki steinn yfir steini. Hundaþúfa er fast norðvestan við þústina. Mögulega hefur verið smalakofi þar sem þústin er nú.

Stapavegur (leið)

Stapagata

Stapavegur.

“Svokallaður gamlivegur lá ofan við byggðina [við Brunnastaði ?] og meðfram henni allt utan úr Njarðvíkum um Vogastapa (þar nefndur Stapavegur], Voga og meðfram Djúpavogi um Djúpavogsheiði og áfram inn Vatnsleysuströnd. Sér nú á enda þessa vegar við Töðugerðisvörðu eða Halakotsvörðu. Gamlivegur er talinn vera nærri jafngamall byggðinni í landinu og var á sínum tíma þjóðvegur um Suðurnes. Var hann fær bæði gangandi og ríðandi mönnum og vel mátti greina hann, meitlaðan í hraunklappirnar eftir gengnar kynslóðir. Höfundur [Gunnar Ingimundarson] gat ekki betur séð en búið væri að stórskemma og jafnvel eyðileggja veg þennan þegar á leið veturinn, vegna hitaveituleiðslu, sem lögð var úr Vogum að Brunnastaðahverfi nær því samsíða honum,” segir í ritgerðinni Örnefni í Brunnastaðahverfi. Leiðin var gengin að miklu leyti á Stapa í landi Sveitarfélagsins Voga.
Leiðin liggur eftir einstigi í brattri og grösugri götu við vesturjaðar Stapans, upp Reiðskarð og þaðan eftir hrjóstrugu og blásnu hrauninu sem er sumstaðar mosagróið.
Leiðinni var fylgt þar sem hún liggur um Vogastapa, frá vestri til austurs. Vestast er leiðin mjótt einstigi í grasi gróinni brekku en verður strax mjög greinileg þegar komið er í Reiðskarð. Neðst í skarðinu hefur stórgrýti verið rutt úr götunni og hlaðið vestan við götuna. Ofar í skarðinu er ruðningur á báðar hendur þar til komið er að upphlöðnum kafla á leiðinni. Hlaðni kaflinn er um 20 m langur og er vesturkanturinn hlaðinn en grjótruðningur er við austurkantinn. Hleðslan er um 1,5 m á hæð og eru 4 umför grjóts sýnileg. Svo virðist sem fyllt hafi verið upp með smáu grjóti og jarðvegi milli hleðslunnar og ruðningsins á þessum kafla. Svo virðist sem leiðin hafi einnig legið í sveig framhjá upphlaðna kaflanum og ef til vill áður en bætur voru gerðar á honum. Í Reiðskarði er gatan víðast um 2 m breið og er dýpst um 0,5 m. Þegar komið er upp úr skarðinu eru miklir grjótruðningar meðfram götunni, allt að 1,5 m á hæð og er gatan þar 1,5-2 m breið en mjókkar svo og ruðningar lækka. Leiðinni var fylgt að mestu leyti yfir í land Njarðvíkur og sést hún halda áfram þar. Gamli-Keflavíkurvegurinn liggur yfir Stapaveg á kafla við GrynnriSkor en annars er furðulítið rask á leiðinni þar sem henni var fylgt. Leiðinni er viðhaldið af göngufólki. Skammt sunnan við leiðina er mikið jarðrask í landi Njarðvíkur vegna efnistöku eða annarra framkvæmda og kann Stapavegi að stafa hætta af því. Lýsing á Stapagötu er að finna í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 132-134.

Gamli-Stapavegur (leið)

Stapagata

Stapavegur-Gamli.

“Fyrr á öldum lá þjóðleiðin til Suðurnesja ofar (sunnar) á Stapanum og í heimild frá árinu 1840 er hún kölluð Gamli-Stapavegur. Sú gata er nú horfin að mestu leyti á eystri hluta Stapans en vestar sást hún býsna glöggt fyrir fáum árum allt til Innri-Njarðvíkur. Nú er gamla þjóðleiðin á þeim kafla eyðilögð af vinnuvélum. Mjög villugjarnt var á Gamla-Stapavegi segja heimildir og þess vegna var gerð ný þjóðleið og lá sú nær sjónum,” segir í Örnefnum og gönguleiðum Leiðin hefur legið um svæði sem nú er hrjóstrugt, grýtt og gróðurlítið en verið er að græða upp með lúpínu.
Ekki sást til leiðarinnar á vettvangi en eftir að vettvangsvinnu lauk fengust upplýsingar um hvar helst væri að sjá ummerki hennar hjá Sesselju Guðmundsdóttur. Samkvæmt Sesselju sést til leiðarinnar við Mörguvörður en þær eru um 200 m neðan (norðan) við Reykjanesbraut, og um 1 km frá Grindavíkurafleggjara (sennilega
norðvestan við hann, ekki er mögulegt að þær séu austan við afleggjarann ef þær hafa verið sunnan við Kolaskor skv. landamerkjalýsingu). Vörðurnar fundust ekki á vettvangi.

Skógfellavegur (leið)

Skógfellavegur

Skógfellastígur sunnan Litla Skógfells.

“Í lægðinni við Stapahornið og ofan Reykjanesbrautar sjáum við fyrst móta fyrir Skógfellavegi sem var fyrrum þjóðleið til Grindavíkur. Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skógfellavegur, Skógfellsvegur, Vogavegur (það nafn notuðu Grindvíkingar), Sandakravegur, Sandakradalsvegur og Sandhálsavegur. Af Suðurlandi og víðar var á öldum áður sótt skreið til Suðurnesja og menn fóru þangað í fiskiver. Á þeim tímum var Sandakravegur notaður enda djúpt markaður í klappir en með breyttum atvinnuháttum lagðist hann af. […] Skógfellaleiðin lagðist af um 1918 þegar bílvegur var lagður til Grindavíkur en enn má rekja sig eftir vörðum alla leið “upp eftir” eins og hér var og er málvenja að segja,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Skógafellavegur er merktur með skilti um 20-30 m neðan Reykjanesbrautar. Skiltið er hins vegar norðaustan við leiðina sjálfa en það má sjá móta óljóst fyrir henni suðvestan við skiltið. Leiðin liggur um gróið hraunið.
Ýtarleg lýsing á veginum er í bók Sesselju Guðmundsdóttur á blaðsíðu 153-159.

Almenningsvegur (leið)

Almenningsvegur

Almenningsvegur.

“Varðan [Stefánsvarða] stendur við gamla götu sem virðist vera frá svipuðum tíma og Almenningsvegur og er hún flóruð á köflum eins og Hestaslóðin. Þessi gata lá neðar og nær bæjum allt frá Vatnsleysu að Kálfatjörn og hefur líklega frekar verið notuð af heimafólki en hinum almenna vegfaranda,” segir í Örnefnum og gönguleiðum. Um 150 m vestan við Stefánssvörðu og um 90 m suðaustur af tóft sjást ógreinileg merki götu í dálítilli rás milli grasfláka og klappa og er þetta leiðin sem nefnd er í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Leiðin liggur norðan við aðalveginn um svæðið í allgrónu hrauni en holmóaflákar eru á stöku stað. Þaðan sem leiðin sést fyrst var henni fylgt að Stefánsvörðu en hún liggur skammt suðvestan við hana. Þar verður hún ógreinileg en sést aftur í landi Flekkuvíkur hjá vörðu. Þaðan var henni fylgt að núverandi afleggjara heim að Flekkuvík. Breidd götunnar á kaflanum við Stefánsvörðu er 1-2 m og þar er hún um 0,3 m djúp. Þar er mikið grjót í henni og hún liggur að miklu leyti yfir holmóa. Á þeim kafla sem skráður er í landi Flekkuvíkur er gatan um 0,5 m breið og 0,2-0,4 m djúp. Þar er gatan víðast gróin og grýtt.
Sumstaðar hefur grjóti verið rutt úr götunni.

Kirkjugata (leið)

Kálfatjörn

Kálfatjörn – kirkjugatan.

“Við vesturenda baðstofunnar í Hliði lá gatan milli bæjanna og heim að Kálfatjörn, Kirkjugatan,” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Á heimasíðu Ferlirs segir: “Kirkjustígurinn heldur síðan áfram út eftir ströndinn í gegnum Tíðagerði og Norðurkot.” Kirkjugatan var skoðuð í landi Kálfatjarnar, Norðurkots og Þórustaða. Í landi Kálfatjarnar liggur leiðin að mestu leyti um snöggt sleginn golfvöll. Annars staðar liggur leiðin um tún og hraunmóa. Gatan liggur frá bæ Kálfatjarnar til VSV hjá Hliði en verður ógreinileg í landi Norðurkots. Þar sem leiðin liggur um golfvöllinn sést óljóst móta fyrir henni sem dæld á sléttri flötinni. Leiðin liggur í gegnum túngarð Kálfatjarnar (Landagarð) og er þar rof í garðinn. Þaðan og að Hliði er gatan skýrari en þó vel gróin. Þar sem gatan er breiðust er hún um 0,6 m, hún er mjög grunn, mesta dýpt er 0,1-0,2 m. Leiðin er samtals greinileg á um 200 m löngum kafla innan Kálfatjarnar. Í Norðurkoti sést gatan óljóst á milli kálgarða og við bæjarhól Norðurkots. Möl hefur verið borin í götuna suðvestan við kálgarðana milli Norðurkots og Þórustaða, líklega þegar Norðurkotshúsið var flutt að Kálfatjörn. Mjó landræma, um 1 m á breidd, er á milli kálgarðs og byggingaleifa á bæjarhólnum og hefur gatan legið um hana. Lágur kantur er meðfram götunni þar sem hún liggur suðaustan við kálgarð. Að öðru leyti sjást ekki skýr ummerki um götuna í landi Norðurkots og hún sést ekki í landi Þórustaða.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.