Stapi

Eftirfarandi er úr viðtali er birtist í tímaritinu Faxa nr. 7, 43. árg., bls. 84-85, við Karl Guðjónsson þar sem hann lýsir aðstæðum undir Stapanum á fyrri hluta 20. aldar. Karl var 88 ára þegar viðtalið var tekið, en hann var einn af þeim mönnum, sem höfðu upplifað tímanna tvenna þegar verkmenningin var bundin þeim tækjakosti, sem óháður var vélvæðingu og orkubúnaði nútíðar. Einnig hinar mestu tækniframfarir, sem orðið hafa hér á landi.

Karl Guðjónsson

Karl Guðjónsson.

Karl var nefndur ýmsum nöfnum um ævina, s.s. Kalli á Brekku, Kalli mótoristi, Kalli á stöðinni, Kalli sýningarmaður, Kalli rafvirki og Kalli útvarpsvirki.

“Ég er fæddur í Reykjavík árið 1895, þann 14. okt., þ.e.a.s. eftir kirkjubókunum, en það fer nú ekki alveg saman við það sem móðir mín og amma sögðu. Þær sögðu mig fæddan 1896, nú en bókstafurinn blífur sjálfsagt.” Karl hét fullu nafni Karl Sigurður. Foreldrar hans voru María Bjarnadóttir og Guðjón Pétursson og var einkabarn móður sinnar, en “ég var ekki nema sex mánaða þegar ég var fluttur frá Reykjavik og hér suður í Voga til föðurömmu og afa, sem ólu mig upp. Þau hétu Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir. Var hún ljósmóðir í Vatnsleysstrandarhreppi í um 50 ár.
Þegar ég kom til þeirra bjuggu þau í Vogunum, en fluttu skömmu síðar í Stapabúð. Þegar ég var fjögurra ára fluttum við svo að Brekku, austari bænum, sem þá var þarna undir Stapanum, því þá andaðist Guðmundur, bróðir afa, sem hafði haft jörðina áður. Bæði býlin lágu undir Stóru-Voga, en Stóru-Vogar átti mikið af torfunni í Vogunum og þurfti að greiða þangað eftirgjald.

Brekka

Brekka undir Stapanum.

Ábúð í Vogum lagðist niður um 1940. Þá bjuggu þar Magnús og Guðríður föðursystir mín. Þau hjónin voru orðin heilsulítil og fluttu í Vogana.
Þá rifu þau húsið á Brekku og fluttu efniviðinn inn eftir, því þó húsið væri að minnsta kosti orðið 100 ára gamalt voru viðirnir í því þannig að þeir voru nothæfir, eins og þetta gamla timbur var, það gat enst alveg ótrúlega lengi. Annars voru veggir Brekkuhússins hlaðnir úr grjóti, en port og ris úr timbri. Niðri var forstofa og eldhús, en svefnhús uppi. Loftinu var skipt í sundur, fremra loftið og innra loftið sem kallað var. Á loftinu voru lengst af fimm rúm, lítið borð undir gaflglugganum og einn stóll.

Stapabúð

Stapabúð.

Maður ólst upp við þessi venjulegu störf, sem gerðust á bæjum þá. Þar var t.d. heyskapurinn og skepnuhirðingin. Við höfðum mest 70 ær og vanalega var ein kýr og stundum kálfur. Féð gekk ákaflega mikið úti. Það var svo merkilegt að það voru oft hagar á Stapanum þó þeir væru ekki annars staðar, en það var vegna þess hvað hann stóð hátt og fauk af honum frekar en annars staðar þegar snjóaði og fjörubeit var góð.
Ef eitthvað var að veðri var féð alltaf hýst á hverri nóttu og gerði það sitt, þannig að það var miklu hressara á morgana þegar það hljóð í fjöruna til að ná í einhver snöp. Svo reyndi maður að koma fénu upp á Stapann eftir hádegi til að ná í einhver jórturefni í vömbina eins og sagt var.

Stapinn

Stapabúð.

Afi gerði út fjögurra manna far á hverri vetrarvertíð. Veiðarnar gengu nú misjafnlega, því fiskurinn þurfti að ganga undir Stapann til að hægt væri að ná í hann, því það var ekki hægt að fara í langróðra á þessum litlu fleytum. Nú, ég held að ég hafi ekki beint verið talinn til mikilla starfa á þessum árum, því ég var alltaf með hugann við eitthvað annað en ég átti að gera. – Ég fékk orð fyrir það að vera latur, en sannleikurinn var sá, að ég var alltaf að hugsa um eitthvað annað og það þótti nú ekki passa í þá daga að vera í einhverju grúski, sem ekkert gagn var talið af.
En svo vildi til að það komu á þessum árum vélbátar í Vogana og þeim var alltaf lagt í vetrarlægi uppi í sandinn í vikinu fyrir innan Hólmann, sem var alveg við bæinn Brekku, sem ég átti heima í.” Grúsk Karls í bátunum, vélunum alveg sérstaklega, varð til þess að afla honum sérþekkingar á því sviði.

Stapinn

Horft niður á Stapabúð í Urðarskarði.

“Bærinn Brekka var syðsti bærinn í Vatnsleysustrandarhreppi, eftir að hætt var að búa í Stapabúð. Var hann alveg suður undir Stapanum, austast þar sem hann byrjar. Þar eru mörg kennileiti, t.d. skörð á milli strandbergs og er það fyrst þegar maður kemur innan að, að maður kemur að skarði, sem kallast Reiðskarð. Þar fóru menn sem voru á hestum. Næsta skarð heitir Kvennagönguskarð og þar var graslendi alveg uppá bjargbrúnina, svo kom Brekka og þar fyrir utan Brekkuskarð og þar fyrir utan kom svo Urðarskarð kallað, því það var svo grýtt. Þar var hægt að ganga upp á Stapann líka og síðast var Rauðistígur, sem kom upp úr Kerlingarbúðum, sem kallaðar voru. Það var gamall útræðisstaður, sem var fyrir vestan Stapabúðina. Þegar ég var drengur fann ég þar stein sem í var höggvið ártalið 1780 og sýnir það, að þá hefur verið byggð þarna.

Vogar

Vogar um 1950.

Ég hóf skólagöngu mína 10 ára og lauk henni á 13. árinu, og gekk ég í barnaskálann á Brunnastöðum. Yfirleitt hljóp maður megnið af leiðinni og minnir mig að ég hafi þurft að leggja af stað að heiman um níu leytið. Urðum við samferða öll börnin úr Vogunum. Þannig að fyrst kom ég að Bræðraparti, svo að Suðurkoti og Nýjabæ, síðan Stóru-Vogum, Hábæ, Austurkoti og Minni-Vogum. Alls staðar þarna voru skólabörn og við gengum, eða öllu heldur hlupum alltaf saman báðar leiðir þessi hópur”.
Þá segir Karl frá ferð sinni norður í Hrísey, vertíð í Dýrafirði og sveitamennsku austur í sveitum.

Heimildir:
-Tímaritið Faxi nr. 7, 43. árg., bls. 84-85 – viðtal við Karl Guðjónsson (Æviminningar).

Stapinn

Brekka.