Skógfellavegur

Skógfellavegur er hluti gamallar þjóðleiðar milli Voga og Grindavíkur og dregur nafn sitt af Litla- og Stóra-Skógfelli sem standa stutt frá veginum. Á leiðinni, nærri Grindavík skiptist vegurinn og liggur annar í austurátt og nefnist Sandakravegur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – vörðukort (ÁH).

Skógfellavegur er auðfundinn. Hann er varðaður með 99 vörðum, misjafnlega vönduðum, og sumstaðar má sjá djúp hófför í hraunklöppum. Það tíðkaðist einnig áður fyrr að grjóti væri kastað úr vegstæði þegar farið var um leiðina. Úrkast má sjá víða á leiðinni. Vegurinn er stikaður og hver stika gps merkt og skráð hjá Neyðarlínunni.
Leiðin einkennist af hraunbreiðum, bæði úfnum og sléttum, mosagrónum og gróðursnauðum. Leiðin er skemmtilega fjölbreytt og gaman að ímynda sér alla ferðalangana sem þar hafa farið um síðustu 900 árin eða svo.
Leiðin er um 16 km. og tekur um 4-6 tíma í göngu.

Sandakravegur liggur nú, líkt og Skógfellavegurinn, að hluta undir nýrunnu hrauni, eða allt að landamerkjum Voga hjá “Stóra steininum við Gömlu götuna”. Sandakravegur lá af Skógfellavegi en vegurinn var aðeins fálega varðaður. Ef marka má djúp för í hraun klöppunum eða veginum má ætla að hann hafi verið fjölfarinn. Vegurinn endaði hjá Ísólfsskála í Grindavík. Var það aðallega heimilisfólkið í Ísólfsskála og gestir þess sem stytti sér leið um Sandakraveg. Hófaför sáust í klöppum og á leiðinni eru gerði fyrir hesta og kindur. Einhverjar vörður voru á svæðinu en þær líklegast skemmdar af mannavöldum til að koma í veg fyrir að fólk villtist á Sandakraveg af Skógafellsleiðinni.

Skógfellavegur – leiðarlýsing frá 2020

Skógfellavegur

Skógfellavegur – hnitsetning.

Gengið var um Skógfellaveg frá Vogum til Grindavíkur. Þessi gamla þjóðleið milli byggðalaganna var einnig nefnd Vogavegur. Skógfellavegur er hluti gömlu þjóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, sem hann liggur framhjá að austanverðu, Litla- og Stóra Skógfelli. Þau eru við götuna um miðja vegu til Grindavíkur. Nafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hluti hennar Sandakravegur. Sumir telja það þann hluta leiðar, sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra- Skógfelli, en þar eru vegamót. Aðrir telja Sandakraveginn hafa legið með Fagradalsfjalli með Görninni og Kastinu um Nauthólaflatir skammt vestan Dalsels og þaðan um sléttar sandflatir niður í Mosa um Grindavíkurgjá og á Skógfellaveginn skammt ofan við Brandsgjá. Þannig er leiðin sýnd á kortum eftir aldamótin 1900.
Gangan inn á Skjógfellaveginn hófst við skilti skammt ofan Reykjanesbrautar, skammt austan við Háabjalla. Bílastæði eru skammt austan við skiltið. Gatan er nokkuð óljós framan af en úr því rætist fljótlega. Leiðin hefur nú verið stikuð að Litla-Skógfelli af áhugagönguhópi á Suðurnesjum.

Skógfellavegur

Skógfellav. – hnitsetning.

Skammt sunnan við Reykjanesbrautina er gengið fram á sprungu sem heitir Hrafnagjá. Þarna við Skógfellaveginn lætur hún lítið yfir sér en þegar austar dregur er hún mjög falleg og tilkomumikil og þar er gjábarmurinn hæstur og snýr á móti suðri. Í gjárveggnum er hrafnslaupyr. Hrafnagjá nær alla leið niður á túnið á Stóru-Vatnsleysu. Þar í er svonefnt Magnúsarsæti með áletrunum. Þegar götunni er fylgt áfram er komið að nokkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og liggur gatan yfir austurhluta þess. Skammt austan götunnar, áður en komið er upp á bjallann, eru litlar seltóftir, Nýjasel, undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni, auðveldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til norðurs. Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir gjána er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Þarna liggur vel mörkuð leiðin nálægt austurjaðri Skógfellahraunsins.
Áhugavert er að gera smá lykkju á leiðina austur með gjánni og skoða Pétursborg sem stendur á barmi Huldugjár. Fjárborgin stendur nokkurn spöl austan vegarins yfir gjána. Pétursborg er gamalt sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904) en hann er sagður hafa hlaðið borgina.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – varða við Aragjá.

Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.

Á milli Huldugjár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokkuð óljós á kafla en hefur verið stikuð en gatan er skýrari þar sem hún liggur yfir Aragjána. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjábarminum. Þegar líður á verður gatan greinilegri og næsta gjá á leiðinni sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grjótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar er varða sem heitir Aragjárvarða en gjáin þarna við vörðuna heitir Brandsgjá.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – “Stóri (landamerkja)steinninn við Gömlu götuna”.

Eftirfarandi er frásögn um atvik sem henti á þessum stað: Á jólaföstu árið 1911 var Brandur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála (1862-1955) á leið heim úr Hafnarfirði og dró sú ferð dilk á eftir sér. Hann lagði á Skógfellaveginn og ætlaði síðan inn á Sandakraveginn og niður að Ísólfsskála. Veður versnaði er leið á daginn og lenti Brandur í umbrotafærð suður heiðina. Allt í einu gaf fönn sig undan hestinum og þeir hrösuðu ofan í Stóru-Aragjá. Þarna hafði Brandur leitt hestana utan við klifið og svo fór að bæði hrossin þurfti að aflífa á staðnum. Síðan heitir þarna Brandsgjá. Brand kól mikið á fótum og var á Keflavíkurspítala í nokkra mánuði eftir slysið.

Landamerki

Leiðrétt landamerki Voga og Grindavíkur m.v. landamerkjalýsingu.

Þegar komið er upp fyrir Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum. Á fyrsta spottanum þarna er gatan mjög djúp því grjóti hefur verið rutt úr henni í miklum mæli en þegar ofar kemur taka við sléttar klappir markaðar djúpum hófförum.
Á hægri hönd eru Krókar, hraunhólar með kjarri í dældum, en á vinstri hönd, spöl sunnar, er Nyrðri-Mosadalagjá. Gjáin snýr bergvegg til suðausturs og þess vegna er erfitt að greina hana frá götunni. Milli hennar og Syðri-Mosadalagjár (með bergvegg til norðvesturs) er víðáttumikill misgengisdalur, þakinn mosa, og heitir sá Mosdalir eða Mosadalir. Við austurrætur Litla-Skógfells þarf að klöngrast yfir smá haft af grónu apalhrauni þar sem gatan liggur en þegar yfir það er komið liðast hún „milli hrauns og hlíðar” um skriðugrjót og grasteyginga. Skógfellin bera ekki nöfnin með réttu í dag því þau eru að mestu gróðurlaus.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga 1831.

Fyrir neðan og austan Litla-Skógfell er þó dálítið kjarr, bæði birkihríslur og víðir, og sjálfsagt hefur svæðið allt verið viði vaxið endur fyrir löngu. Við Litla-Skógfell endar Vatnsleysustrandarhreppur og Grindavíkurhreppur tekur við.
SkógfellavegurFrá hlíðum Litla-Skógfells er gaman að horfa á „vörðuskóginn” framundan en á milli Skógfellanna er einkennasnauð hraunbreiða sem auðvelt væri að villast um ef ekki væru vörðurnar. Þarna standa þær þétt saman eins og menn á mosagrónu taflborði og gatan er djúpt mörkuð af þúsundum járnaðra hesthófa.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – Litla-Skógfell framundan.

Þegar komið er langleiðina að Stóra-Skógfelli greinist Sandakravegurinn út úr til suðausturs yfir hraunið og að Sandhól. Til gamans geta göngumenn leikið sér að því að telja vörðurnar frá Litla-Skógfelli að gatnamótunum en þær eru 22. Sandakravegurinn þarna yfir er fallegur, djúpmarkaður og skoðunarverður.
Vestan við Stóra-Skógfell er Gíghæðin og er stutt ganga frá fellinu yfir í gígana og þaðan yfir á Grindavíkurveginn. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið.

Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri gígaröð, Sundhnúksgígum, sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gatan er slétt og sendin á kafla. Heitir þar Sprengisandur. Þegar komið er framhjá Hagafelli, þar sem í eru Gálgaklettar, að austanverðu fer að halla undan til Grindavíkur og spöl neðar greinst leiðin til „allra átta” um gamalgróið hraun niður til bæja. Í Gálgaklettum eru þeir þjófar sagðir hengdir, sem handamaðir voru á Baðsvöllum, en höfðu hafst við í Þjófgjá í Þorbjarnarfelli og herjað á Grindvíkinga.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Skógfellavegur

Útsýni af Skógfellavegi að Stóra-Skógfelli, Sýlingarfelli og Þorbirni.