Í riti Orkustofnunar “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga” ritar Jón Jónsson, jarðfræðingur, skýringar við efnið. Hér fjallar hann um Kálffellshraun ofan Voga.
“Þessari eldstöð lýsti Guðmundur G. Bárðarson (192)) fyrstur manna. Það er gígaröð neðst í hlíðum Þráinsskjaldar í suðaustur frá Litla-Skógfelli. Gígaröð þessi er í fjórum köflum, en mest hraunrennsli sýnist hafa verið úr allstórum hraungíg í næstaustasta kafla gígaraðarinnar.
Vestustu gígirnir eru fast við röndina á Sundhnúkahrauni, en tangi úr því hefur runnið norður á við austan við Litla-Skógfell. Meginstraumur Kálffellshrauns hefur svo runnið norður á við og sennilega upp að Litla-Skógfelli, en þar er það hulið af áður nefndum tanga úr Sundhnúkhrauni. Þetta hraun er allfornlegt og brotið af misgengissprungum á mörgum stöðum. Er það bæði um að ræða gapandi gjár með litlu eða engu misgengi og sprungur með margra metra misgengi. þetta bendir til þess að hraunið sé tiltölulega gamalt, því ekki sjást sprungur í Sundhnúkahrauni né heldur í Arnarsetushrauni, en þau hraun takmarka Kálffellshraun að vestan. Bergið í hrauninu einkennist af allstórum plagoklasdílum á strjálingi og ólinvíndílum með smáum spinell kristöllum innan í.”
Í sunnanverðu Kálffelli er Oddshellir (hraunbóla) og fjárhellar með fyrirhleðslum; tengdir veru Odds frá Grænuborg þar um aldarmótin 1900 – sjá HÉR.
Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 146-147.