Færslur

Kálffell

Í riti Orkustofnunar “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga” ritar Jón Jónsson, jarðfræðingur, skýringar við efnið. Hér fjallar hann um Kálffellshraun ofan Voga.

Kálffell

Kálffell – loftmynd.

“Þessari eldstöð lýsti Guðmundur G. Bárðarson (192)) fyrstur manna. Það er gígaröð neðst í hlíðum Þráinsskjaldar í suðaustur frá Litla-Skógfelli. Gígaröð þessi er í fjórum köflum, en mest hraunrennsli sýnist hafa verið úr allstórum hraungíg í næstaustasta kafla gígaraðarinnar.

Kálffell

Kálffell og nágrenni – loftmynd.

Vestustu gígirnir eru fast við röndina á Sundhnúkahrauni, en tangi úr því hefur runnið norður á við austan við Litla-Skógfell. Meginstraumur Kálffellshrauns hefur svo runnið norður á við og sennilega upp að Litla-Skógfelli, en þar er það hulið af áður nefndum tanga úr Sundhnúkhrauni. Þetta hraun er allfornlegt og brotið af misgengissprungum á mörgum stöðum. Er það bæði um að ræða gapandi gjár með litlu eða engu misgengi og sprungur með margra metra misgengi. þetta bendir til þess að hraunið sé tiltölulega gamalt, því ekki sjást sprungur í Sundhnúkahrauni né heldur í Arnarsetushrauni, en þau hraun takmarka Kálffellshraun að vestan. Bergið í hrauninu einkennist af allstórum plagoklasdílum á strjálingi og ólinvíndílum með smáum spinell kristöllum innan í.”
Í sunnanverðu Kálffelli er Oddshellir (hraunbóla) og fjárhellar með fyrirhleðslum; tengdir veru Odds frá Grænuborg þar um aldarmótin 1900 – sjá HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 146-147.

Kálffell

Kálffell.

Kálffell

Veður var eins og samið hafði verið um – 10 stiga hiti og rakavænn andvari af suðri.

Nýjasel

Nýjasel.

Fyrst var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla og það skoðað. Kvengöngufólkið þótti eldhúsið tilkomumikið, enda í stærra lagi miðað við önnur svipuð, sem skoðuð hafa verið – 90×120 cm.
Þá var haldið eftir Skógfellavegi að Brandsgjá og skoðuð gjáin þar sem Brandur missti niður tvo hesta á leið sinni að Ísólfsskála. Brandur var þá að koma úr Vogum og hafði fengið sér í staupinu áður en lagt var af stað. Við brúna yfir gjána er fallega hlaðin varða.
Áfram var genginn Skógfellavegur uns beygt var út af honum til suðurs og gengið niður Mosadalagjá og haldið að Kálffelli. Skoðaðar voru hleðslur í og við fellið, litið á fjárhellinn og síðan farið ofan í Oddshelli, sem nefndur er eftir Oddi frá Grænuborg austan Voga. Oddur hélt til í hellinum og þar var hann er Ólafur Þorleifsson ætlaði að heimsækja hann á aðfangadag um aldarmótin 1900, en átti ekki afturkvæmt. Hann féll ofan í sprungu á leiðinni. Heitir sprungan Ólafsgjá. Þar fannst hann um 40 árum síðar, sitjandi á syllu.

Oddshellir

Í Oddshelli.

FERLIRsfólkið átti góða stund í Oddshelli. Kveikt var á jólakerti, snætt var hangikjöt og því rennt niður með Malti og Appelsíni. Þá var boðið upp konfekt og því skolað niður með úrvals koníaki. Sesselja Guðmundsdóttir, sem var með í ferð og þekkir hverja þúfu á þessu svæði. Færði hún FERLIR að gjöf bók sína, “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi”, sem nú er uppseld og var henni við þetta tækifæri afhent FERLIRshúfa, sem hún hafði áunnið sér fyrir þátttöku sína í FERLIRsferðum.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól við Oddshelli.

Þegar út var komið var ákveðið að ganga nokkra hringi um einiberjarunna, sem þar er – svona í tilefni hátíðarinnar, sem í hönd fór.

Oddshellir

Oddshellir.

Frá Oddshelli var haldið í Nýja-Vogasel og það skoðað. Um er að ræða nokkur hús, stekk og kví. Eitt húsanna hefur verið nokkuð stór með nokkrum vistarverum. Þaðan var haldið niður í Gamla-Vogasel og það skoðað.
Þá var haldið til baka og má segja að dagsbirtan og góða veðrið hafi verið nýtt til hins ýtrasta.

Kálffell

Í Kálffelli.

Dalssel

Gengið var frá Háabjalla að Snorrastaðatjörnum og þar að Snorrastaðaseli norðan við tjarnirnar. Þar mun hafa verið kúasel.

Dalssel

Tóft í Dalsseli.

Gengið var suður fyrir vatnið og inn á Skógfellagötuna austan þess. Götunni var fylgt upp yfir Litlu-Aragjá og áfram yfir Stóru-Aragjá þar sem er Brandsgjá, yfir hraunið norðan Mosadals, niður vestari Mosadalsgjá og yfir Mosana. Farið var út af þeim að austanverðu og haldið áfram upp á milli þeirra og Kálffells. Bent var á Odsshelli og haldið áfram áleiðis upp í Dalsel. Á leiðinni var komið við í fallegum hraunkötlum. Í einum þeirra (miðsvæðis) var gömul fyrirhleðsla. Gengið var upp með hæðunum norðan Fagradals og komið niður af þeim í Dalssel. Í selinu, sem er á lækjarbakka austan Nauthólaflata, er stekkur, kví og tóttir tveggja húsa. Selið er greinilega mjög gamalt. Notað var tækifærið og selið rissað upp.

Fagradals-Vatnsfell

Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.

Frá Dalsseli var gengið upp með Fagradals-Vatnsfelli og upp á það að sunnanverðu. Þar er svonefndir Vatnskatlar, falleg vatnsstæði í gígum. Eystra vatnsstæðið var tómt, en nóg vatn í því vestara. Í suðri blöstu við Litli-Hrútur og Kistufell, auk Sandfells sunnar.

Selsvallaselsstígur

Selsvallaselsstígur.

Haldið var til austurs sunnan Fagradals-Hagafells og áfram á milli Þráinnskjaldar og Fagradalsfjalls. Gengið var norðan Litla-Hrúts og að norðanverðu Hraunssels-Vatnsfelli (nyrðra). Á því er myndarleg varða, hlaðin af Ísólfi á Skála. Austan við vörðuna er stórt vatnsstæði. Greinilegur stígur liggur niður hlíðar fellsins að austanverðu og áfram í gegnum Skolahraun að Selsvallaseljunum. Stígnum var fylgt í gegnum hraunið. Stígurinn er gersemi; djúp för í hann á nokkrum köflum, breiður á öðrum og greinilega mikið farinn. Hann kemur að seljunum skammt norðan þeirra og gæti legið suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli áleiðis til Grindavíkur. Ef svo væri, er þarna um gömlu selleiðina að ræða. Þarf að skoðast betur.

Selsvellir

Vogarétt á Selsvöllum.

Selin á Selsvöllum voru skoðuð, bæði selin á vestanverðum völlunum sem og eldri selin á þeim austanverðum. Sel þessi voru frá Grindavík. Nokkrar tóttir eru að vestanverðu, auk stekkja og réttar; Vogaréttar. Að austanverðu eru einnig tóttir nokkurra selja, mun eldri en þau að vestanverðu. Gengið var áfram austur vellina og komið að Sogagíg þar sem fyrir eru Sogaselin, sel frá Kálfatjörn og fyrrum Krýsuvík. Tóttir eru á þremur stöðum, auk þriggja stekkja. Sá stærsti er með norðanverðum gígbarminum.
Gangan tók rúmlega 7 klst. með hléum. Vegalengdin var rúmlega 20 km.

Dalssel

Dalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Fagradals-Vatnsfell

Gengið var frá Háabjalla að Snorrastaðatjörnum og þar að Snorrastaðatjarnaseli norðan við tjarnirnar. Þar mun hafa verið kúasel.

Oddshellir

Oddshellir.

Gengið var suður fyrir vatnið og inn á Skógfellagötuna austan þess. Götunni var fylgt upp yfir Litlu-Aragjá og áfram yfir Stóru-Aragjá þar sem er Brandsgjá, yfir hraunið norðan Mosadals, niður vestari Mosadalsgjá og yfir Mosana. Farið var út af þeim að austanverðu og haldið áfram upp á milli þeirra og Kálffells. Ekki var komið við í Kálffelli að þessu sinni, en bent var á staðsetningu Oddsshellis og haldið áfram áleiðis upp í Dalsel. Á leiðinni var komið við í fallegum hraunkötlum. Í einum þeirra (miðsvæðis) var gömul fyrirhleðsla. Gengið var upp með hæðunum norðan Fagradals og komið niður af þeim í Dalssel. Í selinu, sem er á lækjarbakka austan Nauthólaflata, er stekkur, kví og tóttir tveggja húsa. Selið er á fallegum stað. Notað var tækifærið og selið rissað upp.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Frá Dalsseli var gengið upp með Fagradals-Vatnsfelli og upp á það að sunnanverðu. Þar er svonefndir Vatnskatlar, falleg vatnsstæði í gígum. Eystra vatnsstæðið var tómt, en nóg vatn í því vestara. Í suðri blöstu við Litli-Hrútur og Kistufell, auk Sandfells sunnar.
Haldið var til austurs sunnan Fagradals-Hagafells og áfram á milli Þráinnskjaldar og Fagradalsfjalls. Gengið var norðan Litla-Hrúts og að norðanverðu Hraunssels-Vatnsfelli (nyrðra). Á því er myndarleg varða, hlaðin af Ísólfi á Skála. Austan við vörðuna er stórt vatnsstæði. Greinilegur stígur liggur niður hlíðar fellsins að austanverðu og áfram í gegnum Skolahraun að Selsvallaseljunum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Stígnum var fylgt í gegnum hraunið. Stígurinn er gersemi; djúp för í hann á nokkrum köflum, breiður á öðrum og greinilega mikið farinn. Hann kemur að seljunum skammt norðan þeirra og gæti legið suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli áleiðis til Grindavíkur. Ef svo væri, er þarna um gömlu selleiðina að ræða. Þarf að skoðast betur síðar.
Selin á Selsvöllum voru skoðuð, bæði selin á vestanverðum völlunum sem og eldri selin á þeim austanverðum. Sel þessi voru frá Grindavík. Nokkrar tóttir eru að vestanverðu, auk stekkja og réttar, Vogaréttar. Að austanverðu eru einnig tóttir nokkurra selja, mun eldri en þau að vestanverðu. Gengið var áfram austur vellina og komið að Sogagíg þar sem fyrir eru Sogaselin, sel frá Kálfatjörn. Tóttir eru á þremur stöðum, auk þriggja stekkja. Sá stærsti er með norðanverðum gígbarminum.
Gangan tók rúmlega 7 klst. með hléum. Vegalengdin var rúmlega 20 km og þar var þetta lengsta FERLIRsgangan fram að þessu. Þessi ferð verður væntanlega aldrei afturgengin því um mjög óvenjulega leið var að ræða, sem að öllum líkindum mjög fáir hafa farið áður, en verður þátttakendum vonandi lengi í mynni.
Veður var frábært – þægileg gjóla og sól. Gangan tók 8 klst og 8 mín.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól.

Oddshellir

Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldamótin 1900 og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gígjum eru hlaðnir garðar, aðhald og rétt og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont. Tvö fjárskjól eru utan í fellinu suðaustanverðu.

Oddshellir

Oddshellir.

Einn hellanna, skammt sunnar, heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt suðaustan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyranna”. Oddshellir er nokkuð rúmur og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin.
Oddur hélt a.m.k. til í hellinum og þegar Ólafur Þorleifsson mun hafa ætlað að heimsækja hann á aðfangadag um aldamótin 1900, en átti ekki afturkvæmt. Hann féll ofan í sprungu á leiðinni. Heitir sprungan Ólafsgjá. Þar fannst hann um 30 árum síðar, sitjandi á syllu.
Sagnir er um að þegar mest var af sauðum í hellum Kálffells hafi þeir verið á annað hundrað.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Kálffell

Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.

 

Oddshellir

Gengið var inn á Skógfellaveg frá Reykjanesbraut og upp fyrir Brandsgjá, upp Vogaheiði um Huldugjá, að Péturborg og síðan áfram upp heiðina í Kálffell.

Kálffell

Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.

Í Kálffelli eru hlaðin mannvirki, s.s. gerði, kví, rétt, fjárskjól og þar er mannvistarbústaður; Oddshellir.
Kálffellið er, séð úr fjarlægð, líkt og lítil þúst í heiðinni. Þegar komið er að því kemur í ljós að um fallegan eldgíg er að ræða og það nokkuð stóran.
Þegar gengið er beint upp heiðina tekur hver hæðin og lægðin við af annarri. En þegar farið er suður með vestanverðri heiðinni er gengið rétt utan við lyngsvæðið og þar er öllu sléttara aðgöngu að fellinu. Á þeirri leið ber ýmislegt skemmtilegt fyrir augu, s.s. gjár og mosasléttur, misgengi og litlir hraungígar á NA-lægum sprungureinum.

Syðri-Mosadalagjá liggur fast neðan Kálffells (87 m.y.s.), en það er á hreppamörkum og liggur norðaustan við svonefnda Aura. Kjörin fjárfesting fyrir einhverja bankastofnunina, sem ekki veit aura sinna tal.

Kálffell

Kálffell.

Fellið er stærsti gígurinn í nokkuð stórum gígaklasa á þessum slóðum. Megin hraunstraumurinn hefur runnið norðvestur úr og þekur hraunið um 3.5 ferkm. Fell er varla réttnefni því Kálffell er aðeins ávöl hæð, sem fellur inn í landið, sérstaklega séð neðan frá eins og fyrr sagði.

Oddshellir

Oddshellir.

Það eru snöggtum fleiri fell en fjöll á Reykjanesskaganum og séra Geir Backmann gerir eftirfarandi greinarmun á felli og fjalli í lýsingu sinni á Grindarvíkursókn árið 1840: “Þann mun gjöri ég á felli og fjalli, að fell kalla ég klettalausa, alls staðar að snarbratta, uppmjóa og toppvaxna, háa hæð, sem hvar vill má upp ganga; en fjall, hvar klettar eða klungur hamla uppgönguna, og hvers hæð er í hið minnsta 200 faðmar; þó sé hverjum leyfi að gjöra þar þann mismun, er sjálfur vill.”.

Kálffell

Rétt í Kálffelli.

Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir síðustu aldamót og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur, sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.
Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt sunnan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur, sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyranna”.

Kálffell

Kálffell.

Oddshellir er nokkuð rúmgóður og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru u að þegar mest var af sauðum Í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysutrönd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Kálffell

Fjárskjól í Kálffelli.

Dalssel

Gengið var til norðurs með vestanverðu Fagradalsfjalli, framhjá Kastinu og inn að Nauthólum í Fagradal. Á sumum landakortum er Sandakravegurinn dreginn þessa leið og áfram til norðvesturs að Skógfellaveginum ofan við Stóru-Aragjá. Áður en haldið var áfram um Aura og Mosadal var ætlunin að huga að mögulegum Brúnavegi úr Fagradal áleiðis inn á Brúnir ofan við Kálffellsheiði. Ef vel gengi var ætlunin að koma við í Oddshelli.

Göngusvæðið

Að lokum var svo markmiðið að skoða kaflann úr Fagradal til vesturs að Stóru-Aragjá m.t.t. þess hvort þarna hafi fyrrum verið sú þjóðleið er ætlað hefur verið. Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum frá einu af síðustu jökulskeiðum ísaldar. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi. Hraunhetta hylur hæsta hluta fjallsins í norðvestri (KristjánSæmundsson og Sigmundur Einarsson, 1980) en yngri hraun frá nútíma liggja umhverfis fjallið.
Reykjanesskagi er suðvesturhluti Íslands, sem skagar eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandinu. Skaginn er sunnan Faxaflóa, sem er stærsti flói við Ísland. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).
Um klukkustundar gangur er með fjallinu inn í Fagradal. Á leiðinni er gengið framhjá Sandhól, en norður með honum liggur grópuð þjóðleið yfir á Skógfellastíginn milli Skógfellanna. Þessi leið hefur gjarnan verið nefnd Sandakravegur. Kastið stendur sem fell úr úr Fagradalsfjalli. Norðan hennar er Fremstidalur, þá Miðdalur og nyrst Innstidalur. Milli þeirra síðarnefndu stendur Sandhóll-innri úti í hrauninu. Þegar komið er inn í Fagradal eru Nauthólar og Nauthólaflatir fremst. Ofan við þær er Rauðgil.  Norðaustar eru þrír hólar og er Dalssel norðan í þeim. Tóftirnar eru sunnanverðum lækjarbakka. Enn má sjá þar gróna húsatóft, kví og stekk vestast.

Sauðaskjól í Kálffelli

Þá var haldið inn á Brúnir. Varða er syðst á þeim, en síðan taka við fokmelar og grjótþýfi. Enga greinilega götu er þar að sjá. Hemphóll sést vel í norðri, en ekki var að merkja götumynd áleiðis að honum.
Haldið var niður að Kálffelli og m.a. litið á sauðaskjól og íveruhelli. Landamerki Vatnsleysustrandarhrepps og Grindavíkur liggja um Kálffellið. Í lýsingu á merkjum Vatnsleysustrandarhrepps gerð af Gunnari á Kálfatjörn 1981 kemur fram að suðausturmörk og suðurmörk hans voru eftirfarandi: “Úr Markhelluhól liggja mörkin til útsuðurs sjónhending um Hörðuvallakofa og milli Dyngna, þ.e. skarðið milli Stóru-Dyngju og Grænudyngju, síðan sömu stefnu upp og suður Vesturháls um Grænavatnseggjar og Selsvallafjall í móbergsfell nær vesturbrún hálsins, upp af Þrengslum og Hraunsseli. Fell þetta er ýmist nefnt Framfell eða Vesturfell. Þaðan liggja mörkin til útnorðurs í Hraunsvatnsfell og þaðan í Vatnskatla á Vatnsfelli norðan Fagradalsfjalls. Úr Vatnskötlum liggja mörkin til útsuðurs um Kálffell og í kletta við götuna nyrst í Litla- Skógfelli. Úr Litla-Skógfelli liggja mörkin á Arnarklett, allháan klett og auðkennilegan í brunahrauninu sunnan Snorrastaðatjarna en þaðan til sjávar yst í Grynnri-Skoru á Vogastapa”.
Snorrastaðatjarnir í síðdegissólinniOddshellir er í Brunnhól. Opið er eins og brunnop, en auk þess er hann opinn í toppinn. Um tveir metrar eru niður á gólfið. Talið er að Oddur í Grænuborg hafi átt afdrep í hellinum og af því mun nafngiftin vera dreginn. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað. Sauðhellarnir eru skammt norðan við Oddshelli. Í gígnum eru leifar af hlöðnu gerði svo og fyrirhleðsla skammt norðar. Þótt Kállfellið virðist standa hátt í heiðinni er hæð þess ekki nema 87 m.y.s.
Haldið var til suðurs niður á Aura og þeim fylgt að austurgjárbrún Mosadals. Engin ummerki eftir götu voru þar með gjárbrúninni, en varða á hól ofan hennar. Engin ummerki voru heldur á gjárbarminum (Mosadalsgjá) að vestanverðu. Ef gata hefur legið um Fagradal og Aura niður á Skógfellastíg ofan Snorrastaðatjarna þá hefur sú gata legið mun austar, eða við enda gjánna, með stefnu í suðvestanvert Kálffell, við rætur Kálffellsheiðar.
Listaverkaísmyndanir á pollum, sígrænn einir, sólbakaður mosi og kyrrð vetrardægrar í logninu voru sem viðauki á annars ágæta gönguferð. Að vísu voru þátttakendur orðnir lúnir til fótanna að henni lokinni, en upplýsing hugans er aflað var á leiðinni vó verulega á móti þreytunni og mun lifa áfram að henni úrsérgenginni.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Leiðin er um 18 km.

Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.

OddshellirKálffell

Fagradalsfjall

Í ritvélarituðu verki Jóns Jónssonar, jarðfræðings, útgefnu af Orkustofnun  árið 1978, er gagnmerkt “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga og skýringar við þau“. Kortin, sem þar birtust, eru handunnin og einkar nákvæm – á þess tíma mælikvarða.

Jón Jónsson

Rit Jón Jónssonar um “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga”.

Arfveri Orkustofnunar mætti gjarnan gefa út hin fjölmörgu nákvæmari jarðfræðiuppdráttarkort Jóns af Reykjanesskaganum, umfram það sem sjá má í framangreindu ritverki. Skrifari er minnugur þess að hafa villst í dimmri þoku ofan Geitahlíðar í leit að hraunhellum, en hafði í vasanum ljósprentað jarðfræðikort Jóns af svæðinu er gerði honum kleift að feta sig með merktum hraunjaðri úr þokunni niður í Sláttudal.
Hér verður lýst athugun jarðfræðingsins á nokkrum hraungosum í Fagradalsfjalli og nágrenni, allt frá forsögulegum tíma til aðdraganda núverandi hraungoss í fjallinu, sem ætti reyndar ekki að hafa komið á óvart.

Hraun í og við Fagradalsfjall

Borgarhraun nefnist hraunfláki sá, er nær ofan frá suðurhlíðum Fagradalsfjalls að norðan og þekur allt svæðið milli Bleikhóls að vestan og Borgarfjalls að austan.

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Það hefur fallið í sjó fram vestan við Ísólfsskála og þar fram af hömrum, en ekki sér nú í það neðan við þá hamra. Hraun þetta er víða stórbrotið og á nokkrum stöðum í því eru gjár, sem tilheyra megin sprungukerfinu. Allt bendir til að hraunið sé nokkuð gamalt. Engir gígir sjást í þessu hrauni og er því ekki fyllilega ljóst hvar upptök þess eru.
Gígur allstór er sunnan í Fagradalsfjalli og líklegast að hraunið séð þaðan komið, þó ekki verið það fullyrt, því engar hrauntraðir tengja það við eldstöðina. Hins vegar er ljóst að þarna hefur gosið við fjallsrætur og ná gígmyndanirnar, gjall og hraunkleprar, upp á fjallsbrún. Hraunið er plagioklasdílótt og einstaka ólinvíndíl má og sjá í því. Hraunið nær yfir 3.22 km2 og mun því vera um 0.06 km3.

Uppi á Fagradalsfjalli sunnanverðu hefur gosið (H-46). Það er stutt gígaröð á sprungum, sem stefna nærri beint norður-suður. Gígirnir eru litlir og að mestu úr hraunkleprum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðfræðikort JJ.

Hraunið er þunnt. Það þekur dálítið svæði suðvestan á fjallinu og hefur fossað vestur af því niður í dalinn austan við kast og niður með því að norðan, þar er sprunga gegnum það og stefnir sú eins og sprungurnar á Fagradalsfjalli og raunar í austanverðu Dalahrauni líka. Hraunið hverfur svo undir Dalahraun, er niður á sléttuna kemur.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðfræðikort JJ. Dyngjan Þráinsskjöldur miðsvæðis.

Hraun (H-47) hefur komið úr sprungu samhliða Sundhnúkagígunum og því úr austasta hluta gígaraðar, sem nær nokkuð upp í vesturhlíð Þráinsskjaldar. Hraunið er afar gjallkennt og þunnt. Það hefur runnið norður á við og hverfur brátt undir yngri hraun. Gírgirnir eru lítt áberandi og mörk hraunsins fremur ógreinileg.

(H-48) er efsta hraunið í Fagradal og þekur dalbotninn að heita má. Undir því er annað eldra hraun, sem kemur fram í farvegi miðja vegu í dalnum. Það er picrithraun og vafalaust komið frá dyngju og hef ég sökum þess kennt það við dalinn, eins og áður er sagt. Gígir eru efst í dalnum milli Fagradalsfjalls og Þráinsskjaldarhrauna, en þau mynda raunar norðurbrún dalsins og er harla dularfullt hvers vegna þau hafa ekki runnið alveg upp að fjallinu á þessum stað, heldur mynda allhá og skarpa brún norðan hans. Ætla verður að hraunið sé komið úr gígunum efst í dalnum, en ekki er sambandið greinilegt. Hraunið hverfur í dalnum undir framburð úr læknum, sem í vorleysingum fellur þarna niður og svo undir yngri hraun.

(H-49) og (H-50) eru bæði ofan við Fagradal og lítið af þeim sýnlegt nema gígirnir, sem eru mikið veðraðir og fornlegir. Samtals ná þessi hraun ekki yfir nema um 0.7 km2 og eru varla nema 0.0004 km3.

Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsdfjalli.

Norðan á Fagradals-Vatnsfelli eru eldvörp allstór (H-51). Hraun frá þeim þekur suðurhluta fjallsins og hefur fallið vestur af því. Uppi á fjallinu og utan í því er það örþunnt nema rétt við gígina. Smágígur er vestan í fjallinu neðarlega í hlíð. Hraun þetta hverfur undir Þráinsskjaldarhraun og er því eldra en það. Aðalgígirnir eru þrí í röð með stefnu norðaustur-suðvestur og er sá nyrsti þeirra opinn móti norðri. Virðist líklegt að þaðan hafi aðal hraunrennslið verið, en eins og áður er sagt er ekki vitað um stærð þess hrauns, sem þar átti upptök.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.

(H-52) er gjallgígaröð, sem liggur um þvert sundið milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Hún er að mestu fær í kafi af hraunum frá Þráinsskildi og frá lítilli dyngju þar suður af.

(H-53) er örlítil og fornleg hraunspýja norðaustan í Fagradasfjalli ofan við Meradali. Hraunið er sums staðar svo þunnt að utan í brekkunni hangir það ekki lengur saman og mjög hefur veðrunin unnið á því.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

(H-54) er hraun, sem hefur runnið niður í dalinn vestan við Höfða og er án efa komið af svæðinu milli Sandfells og Vesturháls. Það hefur fallið vestur sundið milli Höfða og Sandfells, en er það að heita má hulið yngra hrauni. Það sést svo ekki fyrr en í dalnum sunnanverðum, þar sem það kemur fram undan ygra hrauni. Loks fellur það í þrem smáum hraunfossum fram af fjallinu suður af Méltunnuklifi og austan við Skála-Mælifell. Það hverfur strax undir yngri hraun, er niður á sléttuna kemur. Eldstöðin, sem þetta hraun er úr, sést nú ekki, en hún er án efa á sömu slóðum og gígaröðin, sem yngsta hraunið í dalnum er komið frá, en verlegur aldursmunur virðist era á þessum hraunum.

Höfði

Höfðahrauntröð.

Höfðahraun kemur úr Höfðagígunum, sem eru stutt gígaröð austan í móbergs-bólstrabergs hrygg, sem nefndur er Höfði, hraunið þar austur af milli Höfða og Núpshlíðarháls. Þessa leið hafa hraun runnið, sem þekja allt svæðið með sjó fram frá mynni þessa dals all vestur að Ísólfsskála. greinilegt er, að á allstóru svæði hefur þetta hraun runnið í sjó út, t.d. á svæðinu milli Ræningjagjögurs og Veiðibjöllunefns og má telja víst að hraunið hafi þarna bætt allverulegri sneið við landið. Skammt eitt austan við Ísólfsskála má sjá fornan malarkamb uppi í hrauninu og skammt þar frá votta fyrir gervigígum. Þessi hraunfláki allur er án nokkurs efa kominn af svæðinu vestan við Núpshlíðarháls, en að hvað miklu leyti það er í Höfðagígum komið, gígunum við þjóðveginn fremst í dalnum, sem nefndir eru Moshólar, eða öðrum eldstöðvum, sem nú eru huldar yngri hraunum, skal að svo komnu máli ekki fullyrt um. Moshólar eru fremst í dalnum og liggur þjóðvegurinn milli þeirra. Hrauntraðir allstórar liggja frá syðsta gígnum ái átt til sjávar. Svo virðist sem Höfðahraun hafi klofnað á þessum gígum og sé því eitthvað yngra en þeir. Hins vegar er hugsanlegt að gosið því nær samtímsis á báðum þessum stöðum.

Méltunnuklif - misgengi

Méltunnuklif – misgengi.

Misgengi það, er liggur um Höfða vestanverðan og myndar stallinn Méltunnuklif, brýtur hraunið þar suður af og er sigið austan megin. Bendir þetta til að hraunflákinn sé allgamall.”

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 149-153.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.