Í Wikipedia er fjallað um “Þráinsskjöld” á Reykjanesskaga:
Þráinsskjöldur – gígurinn
“Þráinsskjöldur er geysimikil hraunbunga norðaustan undir Fagradalsfjalli á utanverðum Reykjanesskaga.
Þráinsskjöldur – herforingjaráðskort Dana.
Eldgígurinn er hraunfylltur og mjög ógreinilegur en frá honum hefur runnið mikið hraun, Þráinsskjaldarhraun, sem þekur meira og minna allt land frá Fagradalsfjalli og til strandar í norðri. Það myndar ströndina alla utan frá Vogastapa og inn að Vatnsleysuvík. Nokkur móbergsfjöll standa upp úr hrauninu svo sem Keilir og Keilisbörn, Litli Keilir og Litli Hrútur. Þráinsskjöldur er dyngja, þ.e. eldstöð af svipaðri gerð og Skjaldbreiður, en vegna landslagsáhrifa hefur hann ekki náð að verða reglulegt hringmyndað eldfjall. Hraunið hefur komið upp um einn hringmyndaðan gíg eins og í flestum dyngjum. Úlit hraunsins og hraunstraumanna í því bendir til þess að kvikan sem upp kom hafi verið þunnfljótandi og gosið virðist hafa staðið lengi. Á þeim langa tíma sem liðinn er síðan hraunið rann hafa myndast mikil misgengi, sprungur og gjár í því.
Þráinsskjöldur og dyngjur Reykjanesskagans fyrir u.þ.b. 6000 árum.
Örnefnið Þráinsskjöldur er gamalt heiti á hraununum upp af Vatnsleysuströndinni og er nefnt í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Jón Jónsson jarðfræðingur gróf það úr gleymsku þegar hann kortlagði hraun Reykjanesskagans og notaði það yfir eldstöðina í heild. Þráinsskjöldur er því strangt til tekið eldfjall þótt fáir myndu vilja kalla þennan lága og flata hraunskjöld fjall. Hæstu nibbur á gígbörmum ná 238 m y.s.
Þráinsskjaldarhraun er stærsta hraunið á utanverðum Reykjanesskaga, flatarmál þess er um 135 km². Sjór hefur staðið allnokkru lægra við ströndina þegar hraunið rann en hann gerir nú. Hraunið nær víða einn til tvo km út fyrir ströndina. Talið er að flatarmál þess neðansjávar sé um 11 km². Heildarflaratmálið er því 146 km². Rúmmál hraunsins hefur verið áætlað rúmir 5 km³. Vogar og byggðin á Vatnsleysuströnd er á hrauninu. Þráinsskjaldarhraun er meðal elstu hrauna á Reykjanesskaga, það rann í ísaldarlok, á sama tíma og ísaldarjökullinn var að hopa af skaganum. Sýnilegt er að eftir að hraunið rann hefur jökullinn vaxið á ný og flætt út á austasta hluta þess en síðan hopað fljótt til baka og hörfað inn til lands. Aldursgreiningar á skeljum í sjávarseti undir hrauninu sýna að það er um 14.100 ára.”
Tilvísanir:
-Kristján Sæmundsson 1995. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Í: Björn Hróarsson, Dagur Jónsson og Sigurður Sveinn Jónsson (ritstj.). Eyjar í eldhafi. Safn greina um náttúrufræði til heiðurs -Jóni Jónssyni jarðfræðingi. Gott mál hf. Reykjavík, bls. 165-172.
-Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson. Reykjanesskagi. Í: Júlíus Sólnes (ritstj.) Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, bls. 379-401.
-Kristján Sæmundsson, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson, Sigurður Garðar Kristinsson og Magnús Á. Sigurgeirsson 2010. Jarðfræðikort af Suðvesturlandi 1:100.000. Íslenskar orkurannsóknir.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Skýringar við Jarðfræðikort. OS-JHD-7831, Orkustofnun.
Ólinvínþóleiít.
Í Náttúrufræðingnum 1984 fjallar Sveinn P. Jakobsson um “Íslenskar bergtegundir II – Ólinvínþóleiít”:
“Í fyrstu greininni um íslenskar bergtegundir (Sveinn P. Jakobsson 1983) var fjallað um pikrít, upphafslegustu bergtegund þóleiísku bergraðarinnar. Nú er röðin komin að ólivínþóleiíti, sem er náskylt pikríti, en langtum algengara. Ólivínþóleiít er meðal þeirra bergtegunda sem nefndar hafa verið einu nafni basalt (blágrýti), aðrar basalt-tegundir eru þóleiít, „millibasalt” (hálf-alkalískt basalt) og alkalíólivínbasalt. Önnur nöfn hafa að vísu verið notuð um afbrigði basalts, svo sem grágrýti og kvarsþóleiít, en þau eru óþörf og í sumum tilvikum villandi. Verður nánar að því vikið síðar.
Ólinvínþóleiít.
Ólivínþóleiít er gráleit bergtegund, nokkuð breytileg að lit, en oftast grádökkgrá. Við ummyndun dökknar bergið og verður brúngrátt eða brúnsvart. Það er einkenni á ólivínþóleiíti, að það er mjög blöðrótt, en blöðrurnar eru yfirleitt smáar. Ólivínþóleiít er fín- til millikorna, þannig að einstakir kristallar bergsins eru greinanlegir með berum augum. Þó er þetta breytilegt og hefur áhrif á lit bergsins. Því smærri sem kornin eru, þeim mun dekkra er bergið. Ólivínþóleiít er þunnfljótandi við rennsli, og virðist allajafna storkna í helluhraun, en þau eru byggð upp af þunnum (oft 0,2-2 m á þykkt), óreglulegum hraunlögum, líkt og sjá má á veggjum Almannagjár við Þingvöll.
Þráinsskjöldur.
Þráinsskjaldarhraun á Reykjanesskaga, skal hér tekið sem dæmi um ólivínþóleiít-bergmyndun, en það er norðantil á skaganum og nær óslitið frá Vatnsleysuvík að Vogastapa (Jón Jónsson 1978).
Þráinsskjöldur – loftmynd.
Þráinsskjöldur er dyngjuhraun (hraunskjöldur) og hefur runnið frá stórum gíg sem er norðaustan undir Fagradalsfjalli. Hraunið, sem er dæmigert helluhraun, er um 130 km2 og er þannig eitt stærsta hraunið á Reykjanesskaga. Sé gert ráð fyrir að meðalþykkt sé 40 m, þá er rúmmál þess 5,2 km3. Þótt hraunið sé þannig mjög mikið, þá benda athuganir til þess að það sé allt mjög svipað að samsetningu. Víða er gott að ná sýni úr hrauninu í gjám og sprungum og einnig á nokkrum stöðum meðfram Reykjanesbraut.
Þessar steintegundir mynda Þráinsskjaldarhraun: Dílar (kristallar, sem skera sig úr að stærð og oftast eru sjáanlegir með berum augum) eru ólivín (grængult, Fo 80-85), með litlum innlyksum af krómspínli.
Ólivínþóleiít eins og það sem hér er lýst er algengt í miðgosbeltinu, og mest allt það berg sem hingað til hefur verið kallað grágrýti er sennilega ólivínþóleiít. Nafnið ólivínþóleiít höfðar til þess, að hér er um að ræða ólivínríkt þóleiít, og er fyrst notað hér á landi í núverandi merkingu af Carmichael (1964). Nafnið þóleiít er nú á tímum notað um basalt sem inniheldurpyroxen-tegundirnar ágít og pígeonít, en lítið eða ekkert ólivín.
Ólivínþóleiít, og þóleiít, eru langalgengustu bergtegundir landsins. Þóleiískt berg er að finna í miðgosbeltinu sem liggur um Reykjanesskagann, Langjökuls- og Hofsjökulssvæðin, um norðvesturhluta Vatnajökuls og þaðan norður í sjó. Allt basalt sem hefur myndast á þessum svæðum á nútíma og á jökultíma er annaðhvort ólivínþóleiít eða þóleiít (Sveinn P. Jakobsson 1972). Í hliðargosbeltunum er hinsvegar alkalískt berg. Einnig er talið, að allt basalt í jarðmyndunum sem eru eldri en u. þ. b. 2 milljónir ára, sé annaðhvort ólivínþóleiít eða þóleiít.
Í gosbeltunum og við þau eru það einkum stóru hraundyngjurnar sem eru af ólivínþóleiítgerð. Auk Þráinsskjaldar má í Reykjanes-Langjökulsbeltinu benda á Selvogsheiði, Borgarhóla á Mosfellsheiði, Reykjavíkurgrágrýtið, Lyngdalsheiði, Skjaldbreið, Skálpanes og Kjalhraun. Í norðurgosbeltinu eru Trölladyngja, Vaðalda, Kollóttadyngja, Grjótháls, Þeistareykjabunga og ýmsar fleiri dyngjur. Þessar dyngjur eru flestar taldar hafa myndast í einu gosi, hver fyrir sig. Þarna er oft um mikið magn gosefna að ræða; þannig er talið að við gosið í Skjaldbreið hafi myndast um 17 km3 hrauns (Guðmundur Kjartansson 1967).
Trölladyngja og nágrenni.
Eins og gefur að skilja, hefur mikið verið fjallað um uppruna ólivínþóleiíts. Tilraunir sýna, að auk pikríts og skyldra bergtegunda, þá geti ólivínþóleiít einnig myndast við hlutbráðnun á möttulberginu peridótít. Nokkuð greinir menn á um á hvaða dýpi þetta gerist, en oftast er talað um 10-60 km undir yfirborði jarðar.
Hvað varðar uppruna ólivínþóleiíts á Íslandi, telja margir líklegt, að það myndist beint við hlutbráðnun á möttulefni á tiltölulega litlu dýpi undir miðgosbeltinu, (sjá t. d., O’Nions og Karl Grönvold 1973, og Níels Óskarsson o. fl. 1982). Einnig hafa verið leiddar líkur að því að það hafi þróast úr pikríti í kvikuhólfum í jarðskorpunni, einkum við hlutkristöllun (Sveinn P. Jakobsson o. fl. 1978).”
Tilvísanir:
-Carmichael, I. S. E. 1964. The petrology of Thingmúli, a Tertiary volcano in eastern Iceland. — J. Petrol. 5: 435-460.
-Guðmundur Kjartansson. 1967. Rúmmál hraundyngna. – Náttúrufræðingurinn 37: 125.
-Jón Jónsson. 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. – Orkustofnun OSJHD 7831: 303 bls. og 21 kortblað.
-Kristján Sæmundsson. 1980. Outline of the geology of Iceland. – Jökull 29: 7 – 28.
-Níels Óskarsson, Guðmundur E. Sigvaldason & Sigurður Steinþórsson. 1982. A dynamic model of rift zone petrogenesis and the regional petrology of Iceland. – J. Petrol. 23: 28-74. -O’Nions, R. K. & Karl Grönvold. 1973.
-Petrogenetic relationship of acid and basic rocks in Iceland. Sr-isotopes and rare-earth elements in late and postglacial volcanics. – Earth Planet. Sci. Letters 19: 397-409.
-Sveinn P. Jakobsson. 1972. Chemistry and distribution pattern Of Recent basaltic rocks in Iceland. – Lithos 5: 365-386.
-Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson & Shido, F. 1978. Petrology of the western Reykjanes Penisula, Iceland.- J. Petrol. 19: 669-705.
-Sveinn P. Jakobsson. 1979. Petrology of Recent basalts of the Eastern Voicanic Zone, Iceland. – Acta Naturalia Islandica 26: 103 bls.
-Sveinn P. Jakobsson. 1983. íslenskar bergtegundir I. Pikrít (óseanít). – Náttúrufræðingurinn 52: 80-85.
Þráinsskjöldur – gígurinn.
Á Vísindavefnum er fjallað um örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun?
“Þráinsskjaldarhraun er mikið í fréttum þessa dagana vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, ásamt Fagradalsfjalli, Keili, Litla-Hrút, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og fleiri góðum örnefnum.
Heitið virðist sett saman úr þremur hlutum: Þráinn, skjöldur og hraun. Það síðastnefnda er auðskiljanlegt. Skjöldur er svo þekkt í örnefnum til að lýsa dyngjulaga fjöllum, samanber Lyngskjöld á sunnanverðum Reykjanesskaga og hina alkunnu Skjaldbreiði norðan við Þingvallavatn. Hins vegar er ekkert vitað um Þráin. Hver var Þráinn? Hvað var Þráinn? Var Þráinn yfirleitt til?
Örnefnaskrár fyrir svæðið á Reykjanesskaganum kannast ekki við Þráinsskjöld og heimamenn kalla svæðið Heiðina.
Þráinsskjöldur.
Örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun eiga sér ekki forna sögu eins og mörg önnur íslensk örnefni. Þau koma ekki fyrir í Landnámu eða Íslendingabók Ara fróða, á þau er ekki minnst í Íslendingasögunum og þjóðsögurnar eru sömuleiðis þöglar.
Reykjanesskagi – kort.
Þau koma í raun fyrst fyrir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar segir: „Skolahraun er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinskjöldshraun.“ Góðri öld síðar segir Þorvaldur Thoroddsen í sinni ferðabók: „Sumir kalla hraunin vestur af Keili Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun.“ Af orðum Eggerts og Bjarna er svo að sjá heitið hafi einkum átt við hraunið nær sjó í norðri en Þorvaldur virðist nota það í víðari skilningi, svipað og nú er gert.
Örnefnaskrár fyrir þetta svæði á Reykjanesskaganum kannast sömuleiðis ekki við Þráinsskjöld. Sesselja G. Guðmundsdóttir sem er heimakona úr Vogunum og hefur kannað þetta svæði mikið, bæði á bók og fæti, segir að heimamenn hafi aldrei kallað þetta svæði annað en Heiðina og náði það nafn allt frá sjó í norðri og suður í Reykjanesfjallgarð.
Örnefnið hefur væntanlega fest í sessi með skrifum jarðfræðinga um svæðið á 20. öldinni en fyrir þann tíma hafa verið áhöld um hvort það var yfirleitt notað af heimamönnum eða hversu vítt það náði. Nafnið er því ófyrirsegjanlegt eins og skjálftarnir sem skekja það nú.”
Þráinsskjöldur og nágrenni að sunnanverðu.
Á vef Árnastofnunar er spurt: “Hvaða örnefni er rétt? – Nokkur orð um notkun og heimildir örnefna á Reykjanesskaga.
Þráinsskjóldur – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.
“Athygli landsmanna (og heimsfjölmiðla) beinist um þessar mundir að Reykjanesskaga þar sem jarðskjálftavirkni er enn mikil og kvikugangur er að myndast á svæðinu sem afmarkast af Fagradalsfjalli og Keili (sjá kort Veðurstofu Íslands 10. mars 2021 hér).
Um þetta svæði skrifaði jarðfræðingurinn Jón Jónsson að „Samspil orsaka til breytinga á afstöðu láðs og lagar er afar flókið og ljóst er að kyrrstaða er hér ekki ráðandi“ (Árbók Ferðafélags Íslands 1984, bls. 76).
Meðal þeirra örnefna sem vakið hafa athygli eru Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun. Eins og áður hefur verið bent á er hvergi að finna í heimildum skýringu á því hver þessi Þráinn var, sem skjöldurinn er kenndur við, og þar af leiðandi ekki gott að segja hversu gamalt örnefnið er. Karlmannsnafnið Þráinn er þekkt bæði í Njáls sögu og Landnámabók en samkvæmt bókinni Nöfn Íslendinga kemur nafnið ekki aftur fyrir sem eiginnafn fyrr en á 19. öld. Í manntali fyrir árið 1910 voru tveir karlar með þessu nafni (annar í Barðastrandarsýslu en hinn í Þingeyjarsýslum). Á árunum 1921–1950 báru 86 drengir nafnið Þráinn og í þjóðskrá 1. janúar 2008 voru 160 karlar skráðir með nafnið sem einnefni eða fyrra nafn, en 34 að seinna nafni (bls. 647).
Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er heitið á hrauninu talið upp ásamt öðrum hraunum í Gullbringusýslu:
Ögmundarhraun og nágrenni.
„Helztu hraunbreiðurnar í Gullbringusýsla heita: Ögmundarhraun, skammt frá Krýsuvík. Það er ungt hraun og mjög ljótt. Djúpadalshraun, hinum megin Selvogsheiðar. Herdísarvíkurhraun á Selvogsheiði. Skolahraun (Skúlahraun?) er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinsskjöldshraun (eða Þráinskallahraun, Þ[orvaldur] Th[oroddsen]). Báðum megin Hafnarfjarðar eru ljótir hraunaflákar, Garðahraun að norðanverðu, en Vatnsleysuhraun að sunnan“ (bls. 198).
Jarðfræðikort ISOR af Reykjanesskaga.
Þessi tilvísun í Ferðabókina gefur ekki hvað síst góða hugmynd um flækjurnar sem koma oft fyrir þegar upphaf og saga örnefna er rakin, t.d. varðandi stafsetningu þeirra, mismunandi nafngiftir eða orðmyndir og staðsetningu. Þorvaldur Thoroddsen getur þess að hraunið sé kallað Þráinskjöldshraun eða Þráinskallahraun af sumum (Ferðabók, bls. 182). Þess ber að geta að Þráinsskallahraun er orðmyndin sem finna má í örnefnaskrá eftir skrásetjarann Þorstein Bjarnason frá Háholti (fæddur 1900) þar sem örnefni í óbyggðinni vestur og norður frá Grindavík eru tekin saman (Lbs 2857 4to og afrit í örnefnasafni Árnastofnunar en handritið var ekki sett saman fyrr en árið 1944 þegar Landsbókasafnið fékk það að gjöf). Einnig er þessa mynd orðsins að finna í örnefnalýsingum t.d. fyrir bæinn Hraun í Grindavíkurhreppi.
Sesselja G. Guðmundsdóttir bendir á í riti sínu Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi að örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun hafi ekki þekkst í sveitinni og að „menn hér í hreppi töluðu einfaldlega um Heiðina (með stórum staf)“ (2. útgáfa, 2007, bls. 28–29).
Keilir og nágrenni.
Oft er það þannig að ekki er hægt að segja með vissu hvaða útgáfa örnefnis er ‚rétt‘ – rithættir og málvenjur eru ekki alltaf í samræmi og geta breyst í tímans rás. Örnefni eru lifandi fyrirbæri: breytileikinn er meðal þeirra einkenna sem athyglisvert er að skoða. Þau færast til – stundum vegna misskilnings, eins og virðist hafa gerst með örnefni á svæðinu sem vísa í aðra lægri hnjúka: Litli-Keilir, Nyrðri-Keilisbróðir, Syðri-Keilisbróðir, Keilisbörn, Litli-Hrútur og Stóri-Hrútur. Heimildum ber ekki saman um hvort Litli-Keilir sé sama kennileiti og Nyrðri-Keilisbróðir og/eða Litli-Hrútur. Eins og Sesselja bendir á er notkun þessara örnefna og kennileitanna sem þau vísa til mismunandi eftir því hvaðan heimamenn koma (t.d. frá Vatnsleysuströnd eða Grindavík) og hvaða kynslóðum þeir tilheyra (bls. 132, 141).
Keilir.
Keilir er þó engum ókunnugur. Hann hefur verið notaður sem kennileiti í aldanna rás af sjófarendum (Íslendingum sem útlendingum – sem kölluðu fjallið Sykurtopp samkvæmt Sýslu- og sóknalýsingum fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu, bls. 109) til að finna fiskimið og rata, eins og Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi kvað:
Sæfarendur reyna rétt / rata‘ að lending heilir; / til að benda‘ á takmark sett / tryggur stendur Keilir‘. (Tilvísun fengin úr bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 128.).”
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%9Er%C3%A1insskj%C3%B6ldur
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1984, Íslenskar bergtegundir II – Ólinvínþóleiít, Sveinn P. Jakobsson, bls. 13-17.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81334
-https://arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/hvada-ornefni-er-rett-nokkur-ord-um-notkun-og-heimildir-ornefna
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 128.
Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.