Færslur

Kálfatjörn
Gengið var um Flekkuvík, Keilisnes, Borgarkot og Kálfatjörn.
Í Flekkuvík er Flekkuleiðið, gróin þúst yst (syðst) í heimatúninu. Segir sagan að Flekka gamla, sem samnefnd vík heitir eftir, hafi mælt svo fyrir um að hún skyldi dysjuð á þessum stað þar sem hún sæi yfir að Flekkuvörinni. Rúnarsteinn er á leiði Flekku, en sérfræðingar segja hann geta verið frá 17. öld.

Flekkuleiði

Flekkuleiði.

Fallega hlaðnir brunnar eru við bæinn og mikið af hlöðnum görðum og tóftum.
Gengið var um Keilisnesið og yfir að Borgarkoti. Landamerkjagirðing liggur þar niður að sjó við Hermannavörðuna. Innan við hana eru tóftir Borgarkots, hlaðinn krossgarður, gamlir garðar o.fl. Gömul stórgripagirðing liggur á mörkunum áleiðis upp heiðina, en beygir síðan til vesturs, áleiðis að Kálfatjörn. Steinarnir í girðingunni eru með u.þ.b. 20 metra millibili. Í hvern þeirra eru klappaðar tvær holur og í þær reknir trétappar. Á þessa tappa hafa síðan verið strengd bönd. Tilgangurinn var að halda stórgripum, s.s. kúm á beit innan afmarkaðs svæðis. Borgarkot heyrði um tíma undir Viðey og mun klaustrið m.a. hafa haft þar kálfa á beit. Þar hafa, eins og svo víða, kýr getað mælt mannamál á nýársnótt, sumir segja á þrettándanum skv. þjóðtrúnni. Um þjóðtrú tengda þrettándanum gildir flest hið sama og um nýjársnótt, meðal annars að selir fari úr hömum sínum, kirkjugarðar rísa, álfar flytjast búferlum og kýr tala mannamál. Hættulegt gat verið að hlusta á tal kúnna því þær reyndu að æra þá sem það gerðu.

Flekkuleiði

Flekkuleiðið.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er meðal annars þessa sögn að finna: Á nýjársnótt verða margir hlutir undarlegir. Það er eitt að kýr mæla þá mannamál og tala saman. Einu sinni lá maður úti í fjósi og á nýjársnótt til þess að heyra hvað kýrnar töluðu. Hann heyrir þá að ein kýrin segir: „Mál er að mæla (aðrir: mæra).“ Þá segir önnur: „Maður er í fjósi.“ „Hann skulum vér æra,“ segir þriðja kýrin. „Áður en kemur ljósið,“ segir hin fjórða. Frá þessu gat maðurinn sagt morguninn eftir, en ekki fleiru því kýrnar höfðu ært hann.
Gengið var um Réttartanga, framhjá Litlabæ og Bakka, gömlu eyðibýlin austan Kálfatjarnar, s.s. Bjarg og Móakot. Móakotsbrunnurinn var m.a. barinn augum.
Kálfatjörn er lýst í annarri FERLIRslýsingu. Norðan bæjarins er Kálfatjörnin. Í henni áttu sækýr að búa. Árið 1892 gerðist eftirfarandi saga á Kálfatjörn. “Þegar ein heimasætan var fermd, fékk hún peysuföt eins og þá tíðkaðist. Yngri systirin hafði safnað saman nokkrum flauelspjötlum og náði sér í viðbót í það, er féll frá peysufötum systurinnar. Með þessu ætlaði hún að skreyta skautföt brúðu sinnar. Hún hafði þetta allt í litlum lokuðum kistli og hafði alltaf lykilinn í bandi um hálsinn því að enginn mátti komast í kistilinn.

Borgarkot

Borgarkot – stórgripagirðing.

Rétt eftir ferminguna dreymir litlu stúlkuna að hún sé stödd suður á túninu á Kálfatjörn. Sá hún þá hinum megin við túngarðinn á Hliðstúninu grannleita konu, frekar fátæklega búna vera að reka kú. Hún hljóp til hennar og ætlaði að hjálpa henni að reka kúna en spyr hana um leið hvar hún eigi heima.
Þá svarar konan: “Ég er huldukona og á heima í þessari klöpp”, og bendir á klöpp sem fólk var vant að ganga yfir þegar það fór að heiman suður á Ströndina.
Þá þykist stúlkan segja við hana: “En hvað ég er glöð að hitta huldukonu. Þiggðu nú af mér hringinn hennar ömmu sem ég er með á hendinni, því að mig hefur alltaf langað svo til þess að hitta huldukonu og gleðja hana”.
Þá mælti konan: “Ekki skaltu gera það, góða mín, því að þú færð illt fyrir það að glata honum. En þú getur gert mér annan greiða. Lánaðu mér flauelspjötlurnar þínar. Það á líka að ferma hjá mér dóttur mína, en ég er svo fátæk að ég get ekki keypt flauel á treyjuna hennar. Ég skal skila þeim öllum jafnóðum aftur, þegar ég hef notað þær”.
Stúlkan lofaði þessu með ánægju og segir: “Vertu nú sæl”. Þá segir hún ósköp hrygg: “Segðu ekki sæl við mig, við erum ekki sæl, en ég get ekki launað þér með öðru en því að ég skal sjá til þess að þú verðir lánsmanneskja”. Var svo draumurinn ekki lengri.

Borgarkot

Borgarkot – trétappi í stórgripagirðingunni.

Eftir nokkurn tíma ætlar stúlkan að fara að sauma á brúðuna sína. Hún lýkur upp kistlinum en bregður heldur en ekki, því að allar flauelspjötlurnar eru horfnar. Man hún þá ekkert eftir draumnum. Fór hún nú að grennslast eftir því, hvort nokkur hafi komist í kistilinn og sannfærðist um að enginn hafði farið í hann. Þá man hún allt í einu eftir draumnum og segir mömmu sinni frá honum.
Þá mælti hún: “Góða mín, vertu ekki að leita úr því að þetta er svona, álfkonan skilar þeim aftur”. Líður svo tíminn fram á haust. Einn dag er það, er stúlkan opnar kistilinn sinn að allar pjötlurnar liggja þar eins og hún skildi við þær um vorið.”
Þegar golfvöllurinn var gerður á Kálfatjörn var sléttað yfir klöppina svo hún sést ekki lengur.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2435
-Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I, 609.
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=150
-Rauðskinna II 301.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Vatnsleysa

Gengið var um Keilisnesið og skoðuð refagildra, sem þar er, ein af nokkrum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Þá var haldið til Keflavíkur þar sem Sturlaugur Björnsson fylgdi FERLIR um Hjalla. Gerð var leit að Ásrétt innan Vallargirðingar, en mikil spjöll hafa verið unnin þar á varnasvæðinu og erfitt að sjá hvar réttin gæti hafa verið. Þó mátti giska á hvar bærinn Hjallatún hafi verið. Skoðaðar voru tóttir austan Flugstöðvarinnar og er ein þeirra greinilega gömul fjárborg (Keflavíkurborg).
Skoðuð var gömul rétt sunnan við Bergvötn, brunnur vestan við vötnin og hugsanlega gamlar seltóttir þar nálægt. Mjög gróið er í kringum Bergvötn. Sunnan þeirra lá gamla þjóðleiðin milli Keflavíkur og Leiru.

Stapi

Stapi – landamerkjavarða.

Í bakaleiðinni var komið við á landmælingavörðu á Stapa, en í henni er gamall koparskjöldur með merki Landmælinga Íslands þar sem segir m.a. að “Röskun varði refsingu”. Þá var komið við í Hrafnagjá og skoðuð áletrunin ofan við Magnúsarsæti (SJ-1888-ME) og loks var ákveðið að líta betur á letursteininn dularfulla við Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur bóndi á Stóru-Vatnsleysu hafði beið FERLIR um að gera sér nú þann greiða að ráða letrið áður en hann færi yfir um. Það hefði alltaf verið leyndardómur á bænum og hann og fleiri hefðu lengi reynt að ráða í hvað stæði á steininum.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

FERLIRsfarar settu upp húfurnar máttugu og síðan var reynt að ráða gátuna, sem óleyst hefur verið í gegnum aldirnar þrátt fyrir margar tilraunir hinna hæfustu manna. Tvær gamlar sagnir eru til um stein þennan, en aldrei hefur tekist að lesa hvað á honum stendur – þangað til núna. Á steininn er klappað ártalið 1643 og á honum eru stafirnir GI er mætast í keltneskum krossi ofan við I-ið.
Galdurinn við ráðninguna var að lesa steininn “á röngunni”. Hann hefur einhvern tíman oltið um og snýr hann því einkennilega við mönnum þegar reynt er að lesa á hann. En sem sagt – þessi gáta er ráðin. Steinninn er því næst elsti ártalssteininn á Reykjanesi, sem enn er fundinn.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Skammt frá, nær íbúðarhúsinu á Vatnsleysu, var áður kirkja. Á rústum hennar var reist hús, en svo mikill draugagangur var þar að hurðir héldust ekki á hjörum. Það var síðan rifið. Ekki er ólíklegt að steinnin hafi verið grafsteinn eða til minningar um einhvern tiltekinn atburð eða ábúanda/fólk á svæðinu.
Frábært veður.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu.

Keilisnes

Keilisnes er nes milli Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Flestum núlifandi er það ferskast í minni vegna umræðna um væntingabyggingu álvers á síðasta árattug er gufaði upp jafnskjótt og hún hafði kviknað.
Efst á nesinu, skammt frá gamla þjóðveginum, er varða sem Stefánsvarða heitir, á hæð sem við hana er kennd.  Þaðan er mikið útsýni yfir Faxaflóa. Örn Arnarson skáld lýsir siglingu Stjána bláa fyrir Keilisnes í örlagaþrungnasta minnigarkvæði sem ort hefur verið um íslenskan sjómann:

Í FlekkuvíkÆsivindur lotugangur
Löðri siglum hærra blés
Söng í reipum. Sauð á keipum.
Sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
Stýrði fyrir Keilisnes.

Ríkið á þarna landið. Fjárfest hafði verið í því eftir að vonarblær lék um byggingu álversins. Hugmyndir eru nú um það í bæjarstjórn Voga að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði. Keilisnes kemur og til greina sem nýr staður undir álver Alcans í kjölfar þess að Hafnfirðingar felldu stækkun álversins í Straumsvík. Bæjaryfirvöld í Vogum á Vatnsleysuströnd íhuga hins vegar að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði.
Hafnfirðingar höfnuðu því að álverið í Straumsvík yrði stækkað í 460.000 tonna ársframleiðslu, í atkvæðagreiðslu á dögunum. Síðan hefur komið fram að hægt er að stækka álverið í Straumsvík umtalsvert á núverandi lóð þess. Þá hefur einnig komið fram að kostnaður álversins vegna hugsanlegrar stækkunar sé þegar kominn yfir miljarð króna og spurning hvort stjórnendur fyrirtækisins vilji nýta þá fjármuni eða hætta rekstri hér og tapa þeim peningum alveg. Haft var eftir Gunnari Guðlaugssyni, sem líka leysir Rannveigu Rist af hólmi, í fréttum Stöðvar tvö að hugmyndin um Keilisnes væri góð. Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og stjórnarmanni í Alcan, sagði í fréttum stöðvarinnar að Keilisnes væri einn möguleikanna. Nýjustu fréttir gefa Hafnfirðingum þó von um að álverið verði um kyrrt á sínum stað næstu nálæga áratugina.”

Coot

Keilisnesið er í Flekkuvíkurlandi. “Ríkið á land á Keilisnesi, sem fyrr sagði, og eignaðist það raunar vegna hugmynda um álver á nesinu, á tímum Viðeyjarstjórnarinnar. Lóðin þar er skilgreind sem iðnaðarlóð í aðalskipulagi Voga á Vatnsleysuströnd. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum, segir að verið sé að endurskoða aðalskipulagið og að það hafi komið til tals í bæjarstjórn, að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði. Það verði þó ekki gert án samráðs við landeigandann. Fram kom í könnun Gallups að meirihluti landsmanna vill gera hlé á stóriðju næstu fimm árin; 2/3 kvenna og helmingur karla. Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur sagt að ekki sé farsælt að stíga á bremsuna í þessum efnum.” Þótt afstaða formannsins hafi verið raunhæf með hliðsjón af þróun þjóðarbúskapsins virtist hún úr takt við viðhorfs fólks er bar umhyggju fyrir náttúru og umhverfi landsins.
Á Keilisnesi dagaði fyrsti togari Íslendinga, Coot, uppi.
“Í marsmánuði (þann 6. mars) árið 1905 kom fyrsti togarinn í eigu Íslendinga, sem stofnað höfðu Fiskiveiðahlutafélag Faxaflóa árinu áður, til heimahafnar í Hafnarfirði. Skipið var breskur gufutogari sem hét Coot, þ.e. blesönd, en skipið var smíðað í Glasgow árið 1892 og mældist 141,5 brl. Útgerðin gekk brösuglega í fyrstu en síðan batnaði afkoman og síðustu árin var ágætis hagnaður af útgerð togarans, en skipið strandaði í desember 1908 við Keilisnes og náðist ekki á flot aftur. Togarinn Coot var ekki stórt skip, jafnvel á sínum tíma, og var ekki eiginlegur úthafstogari heldur ætlaður til veiða á innsævi og veiddi hann því aðallega í Faxaflóanum.

Frímerki

Togarinn gekk fyrir gufuaflsvél. Sá sem stuðlaði að því að Coot var keyptur til Íslands var útgerðarmaðurinn Einar Þorgilsson. Landsmenn vildu banna botnvörpur en svartsýni þeirra hvarf þegar þeir sáu hvað útgerðin gekk vel.
Á Coot var tólf manna áhöfn, allt Íslendingar. Útgerðin gekk oftast vel og skilaði miklum hagnaði til eigendanna.  Erfiðlega gekk að gera togarann út fyrsta árið en betur þegar á leið og útgerðin skilaði miklum hagnaði eða alveg þangað til Coot strandaði við Keilisnes árið 1908, en það urðu endalok útgerðarinnar. Nú eru engin ummerki eftir strandið á Ströndinni, en ketillinn úr togaranum var tekin þaðan og settur upp við minjasafnið í Hafnarfirði.
Næst á eftir Coot kom togarinn Jón forseti árið 1907.  Hann var á vegum útgerðarfélagsins Alliance.  Eftir það kom hver togarinn á fætur öðrum til landsins og árið 1912 voru þeir orðnir tuttugu talsins á öllu landinu.  Ketillinn
Í lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu eftir Skúla Magnússon er fjallað um Kálfatjarnarsókn. Þar eru sagðar 18 jarðir og eigi konungur 15 þeirra, en hinar 3 á Kálfatjarnarprestakall. “Mannfjöldi var árið 1703 [er] 401, en árið 1781 464. Engjar eru sagðar engar og eigi annar heyskapur en sá er fæst af túnunum og er ekki hægt að stækka þau. Frá flestum bæjum eru selstöður upp til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið besta land til sauðfjárræktar, þar er Skúli hefur séð á Íslandi á fjögurra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur (danskar) frá sjónum upp að háfjöllunum sem greina Gullbringusýslu frá Árnessýslu. Þannig tekur þetta svæði yfir 8 fermílur.
Segir svo að á milli Kálfatjarnarsóknar og Garðasóknar sé hálent hraunsvæði, sem Almenningur nefnist. Er það 2 mílur að breidd og þriggja mílna langt frá sjónum upp að fjöllunum. Landslag og gróður er þar með sama hætti, sem fyrr segir um Kálfatjarnarþingsókn; þó er þarna meira smáhrís og lyng. Undir þessu hrauni er bærinn Lónakot, sem eyddist fyrir skömmu af sjávargangi (það er að sjóflóð árið 1776 reif bæði burtu grassvörðinn af túninu og fyllti húsin og vörina grjóti og möl).”
Meira er fjallað um Vatnsleysustrandarbæi, minjar og sagnir annars staðar á vefsíðunni.
Ásláksstaðir

Fuglaþúfa
Gengið var um Flekkuvíkurheiði um Miðmundarhóla, Arnarvörðu, Tvívörðuhól og áfram niður og norðvestur heiðina áleiðis að Réttartöngum vestan Keilisness. Gróðureyðingin er nokkur á heiðinni, en þó má víða sjá geldingarhnapp, blóðberg og lambagras vera að festa rætur í moldardældum á vindsorfnum melum. Það sem vekur mesta athygli á þessu svæði eru reglulegar fuglaþúfur, háar og stæðilegar. Þær gefa til kynna að þarna hafi verið kjörlendi mófugla um allnokkurt skeið. Þúfurnar hafa löngum verið yfirlitsstaðir spóa, kjóa, stelks, tjalds og smærri fugla, en auk þess hefur mávurinn nýtt sér aðstöðuna í heiðinni. Stundum hafa þúfur þessar verið nefndar hundaþúfur af einhverri ástæðu.

Keilisnes

Keilisnes – fornleifayfirlit.

Hundaþúfur voru vel kunnar víða. Sennilega er nafnið til komið vegna merkingaráráttu hunda, en fuglaþúfur eru oft hæstu og jafnvel einu kennileitin í móum og á heiðum.
Miðmundarhólar eru skammt ofan við afleggjarann að Flekkuvík. Þetta er rismikil og falleg hólaþyrping er ber við himinn. Hólarnir eru líklega eyktarmark frá Flekkuvíkurbæjum og ofan þeirra eru Miðmundarlágar. Í þeim er Mundastekkur. Á háheiðinni norðvestur af Miðmundarhólum, nær Strandarveginum, er Arnarvarða, eða hluti hennar, á hól, en við hólinn norðanverðan liggur gamli Almenningsvegurinn. Arnarvarða er á mörkum Flekkuvíkur og Kálftjarnar.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Tvívörðuhóll heitir hóllinn rétt niður og vestur af Arnarvörðu, fast við Strandarveginn. Vestan undir honum er Mundastekkur, sem líklega er frá Flekkuvík. Á hól fast upp af og við Tvívörðuhól er braggagrunnur af einni varðstöð stríðsáranna og að henni liggur greinilegur vegarslóði. Tvívörðuhæð er hæðin þarna kölluð, en Tvívörður voru neðan Strandarvegar. Skammt vestan Tvívörðuhóls eru fallnar hleðslur á tveimur stöðum á lágum klapparhól. Þar sem hæðin er hæst skammt vestar er kallað Hæðin. Á henni er Stefánsvarða, neðan vegar. Í línu til norðurs austan í Hæðinni eru þrjár lágar hæðir. Á hverri þeirra eru fallegar fuglaþúfur. Í línu við þær er hrunin varða á lágri klapparhæð. Hún er í línu við aðra vörðu á hæð ofan Strandarvegar með stefnu í Flekkuvíkurvörina. Keilisnesið er ysta nesið til norðurs, en Réttartangar eru vestar, skammt austan við tóftir Borgarkots.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Í skýrslu, sem Jóhann Óli Hilmarsson vann fyrir Hönnun h.f. í mars 2001, “Fuglalíf við Reykjanesbrautina”, segir m.a. að “geta má eins náttúrufyrirbæris, sem tengist fuglum og er alláberandi víða á vegarstæðinu. Þetta eru fuglaþúfur (sbr. Guðrún Á. Jónsdóttir 2001). Fuglaþúfur einkenna íslenskt landslag og þekkjast hvergi annars staðar svo nokkru nemi. Ekki hefur
verið gerð nein sérstök úttekt á þeim við Reykjanesbraut, dreifingu né öðru, en þær eru sérstaklega áberandi nærri Vogaafleggjara, þar sem ein umferðarbrúin mun rísa.”
Skýrslan fjallar m.a. um fuglalíf á svæðinu, fugla í útrýmingarhættu og fjölda fugla á ákveðnum stöðum. Þá er ljóst að ástæða hefur verið til að tiltaka fuglaþúfur sérstaklega, sem aftur bendir til sérstöðu, eða öllu heldur ásýnd þeirra á heildarmynd umhverfisins á þessu svæði.

Keilisnes

Keilisnes – fuglaþúfa.

Til fróðleiks er þess getið að færuskrúfur vex oft í skjóli fuglnaþúfna. Hann er útbreiddur um allt land, þó algengari á Norðurlandi en á Suðurlandi. Hæruskrúfurinn vex gjarnan á jarðvegsþöktum klettum eða steinum, oft við vörður eða fuglaþúfur. Héluvorblóm vex þar einnig. Það er smávaxin jurt með hélugrá stofnblöð, vegna stjörnuhára sem þekja yfirborð blaðanna. Það vex mjög strjált um landið og vex gjarnan uppi á hæðum, hólkollum eða fjöllum, oft við vörður eða fuglaþúfur.
Í nefndri skýrslu kemur fram að “á válista eru skráðir þeir varpfuglar, sem eru í hættu af ýmsum ástæðum
(Náttúrufræðistofnun 2000). Ernir urpu fyrrum í Arnarkletti í Vatnsleysuvík og Afstapahraun mun hafa heitið Arnstapahraun fram eftir 18. öld, þegar nafn þess breyttist. Ekki er nákvæmlega vitað hvar Arnstapinn var og hvort hann stendur enn (Haukur Jóhannesson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson, munnl. uppl.). Ernir hafa smátt og smátt verið að nema land á gömlum varpstöðum og hafa sést á allra síðustu árum, m.a. í
Kúagerði, en sennilega er óróleiki of mikill á þessum slóðum fyrir hina styggu fugla.

Borgarkot

Borgarkot – rétt.

Hrafnar verpa á nokkrum stöðum nærri Reykjanesbraut. Sá staður sem næstur er brautinni er Virkishólar. Tvö hrafnasetur eru í Hrafnagjá og tvö í Vogastapa. (Kristinn H. Skarphéðinsson o.fl. 1990).
Aðrar válistategundir, sem nefndar hafa verið hér á undan á hugsanlegu áhrifasvæði Reykjanesbrautar eru himbrimi, grágæs, fálki, fjöruspói og svartbakur. Ekki þykir ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum fuglum.”

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Ljóst er að vargurinn hefur tekið sér örugga bólfestu í heiðinni ofan við Borgarkot. Leifar af tveimur hlöðnum refagildrum gefa tilefni til að íhuga hvort ekki væri ástæða til að gefa skolla gamla á nýjan leik tímabundinn séns á svæðinu.
Heiðin ofan við Keilisnes virðist hrá og líflaus, en sá sem gengur um hana að kvöldlagi í sól og stillu verður annarrar skoðunar.
Við Borgarkot eru fjölmargar minjar og sumar hverjar einstakar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-http://216.239.59.104/search?
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.
-http://www.natmus.is/thjodminjar/

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Coot

Stundum er gaman að fylgjast með störfum fornleifafræðinga – og heyra hvað þeir hafa að segja um ólíklegustu hluti. Hafa ber þó jafnan í huga að þeir eru bara mannlegir eins og allir aðrir þegar störf þeirra og orð eru metin.

Coot

Coot.

Ágætt dæmi um þetta er Coot, fyrsti togarinn, sem Íslendingar eignuðust. Hann kom til heimahafnar í Hafnarfirði þann 5. mars árið 1905. Þann 8. desember 1908 strandaði togarinn við Keilisnes. Mannbjörg varð, en ekki reyndist unnt að ná togaranum aftur á flot. Brak úr honum má enn finna á Keilisnesi. Gufuketill og stýri voru t.a.m. flutt til Hafnarfjarðar þar sem hvorutveggja hefur staðið við horn Strandgötu og Vesturgötu, skammt frá Byggðasafninu, sem verðugur minnisvarði um þennan fyrsta togara landsins.
Þegar spil var nýlega tekið úr leifum Coot á strandstað og flutt í Sjóminjasafn Íslands hefur án efa legið fyrir heimild frá Fornleifavernd ríkisins eða sú stofnun fylgst mjög náið með þeirri framkvæmd frá upphafi sbr. lagaákvæði þar að lútandi.
Samkvæmt gildandi Þjóðminjalögum teljast munir, sem náð hafa 100 ára aldri, til fornleifa. Með ákvæðum laganna njóta þeir þar með sérstakrar verndar.
Spurningin í þessu tilviki er; hvenær varð gufuketillinn úr Coot fornleif? Fornleifafræðingur einn svaraði því til fyrir skömmu, aðspurður, að ketillinn væri í raun ekki fornleif. Hann yrði það ekki fyrr en árið 2008, talið frá og með árinu sem togarinn strandaði við Keilisnes.

Coot

Skoðum þetta svolítið nánar. Torgarinn kom til landsins árið 1905. Þá var hann a.m.k. til sem slíkur, og ketillinn þar með. Ef betur er að gáð kemur í ljós að togarinn var smíðaður í Glaskow árið 1892. Þá var gufuketillinn settur í hann. Ketillinn er því a.m.k. frá þeim tíma og því óneitanlega orðinn fornleif. Og ekki er hægt að halda því fram með góðum rökum að einungis gripir eða minjar, sem búnir hafa verið til innanlands, gætu með réttu talist til fornleifa, hafi þeir náð 100 ára aldri. Hvað þá með alla þá gripi, sem fundist hafa og sannarlega verið innfluttir?
 Nei, þrátt fyrir framangreint svar, er gufuketillinn úr Coot löngu orðin fornleif og hefði átt að meðhöndlast sem slík.
Enska orðið “Coot” þýðir blesönd á íslensku. Heimsfræg önd er sömu tegundar, þ.e. Andrés Önd og fjölskylda.
Saga Coots varð ekki löng, en þýðingarmikil fyrir íslenskt þjóðarbú. Það voru Íslendingar er stofnað höfðu Fiskiveiðahlutafélag Faxaflóa árinu áður sem keyptu og fluttu togarann til heimahafnar í Hafnarfirði.
“Iðnbyltingin” á Íslandi á heimastjórnartímanum var fólgin í vélvæðingu og aukinni tæknivæðingu atvinnulífsins, en einkum þó við fiskveiðar og fiskverkun. Þilskipin sem farið var að nota á síðustu áratugum 19. aldar höfðu eflt sjávarútveginn og sjávarbyggðirnar, en þeim voru takmörk sett enda seglskip með fábrotin veiðarfæri. Notkun véla í fiskiskipum kynntust Íslendingar fyrst á tíunda áratug 19. aldar þegar breskir togarar (eða botnvörpungar eins og þeir voru nefndir vegna veiðarfærisins, botnvörpunnar) knúnir gufuafli úr kolum fóru að venja komur sínar á fiskimiðin við landið. En fyrirmyndir að fyrstu vélunum í íslenska báta voru þó sóttar til Danmerkur og í stað gufuvéla var notast við sprengihreyfla sem brenndu steinolíu.

Ketillinn

Er vélaöld í íslenskum sjávarútvegi yfirleitt talin hefjast árið 1902 þegar vél var sett í árabátinn Stanley á Ísafirði. Tóku útgerðarmenn og sjómenn um land allt þessari nýjung fagnandi enda skapaði hún möguleika á stórauknum fiskafla. Voru vélbátar orðnir vel á fjórða hundraðið aðeins tíu árum síðar.  Fyrsti íslenski togarinn, knúinn gufuvél, kom sem fyrr sagði, árið 1905 til Hafnarfjarðar. Var hann keyptur á Englandi og nefndur Coot. Útgerðin heppnaðist nema hvað skipið strandaði þremur árum síðar og var úr sögunni. Með Coot var ísinn brotinn og í kjölfarið fylgdi togararinn Jón forseti (1907) á vegum útgerðarfélagsins Alliance. Var hann sérsmíðaður utanlands. Er sagt að útgerðin hafi gengið svo vel að smíðaverðið hafi verið að fullu greitt á þremur árum. Næstu árin kom síðan hver togarinn á fætur öðrum til landsins. Voru þeir orðnir sex árið 1910 og tuttugu árið 1917. Vélbátar og gufutogarar leiddu til þess að miklu meiri fiskafli en nokkru sinni fyrr kom á land, og skapaði þar vinnu og síðan auknar útflutningstekjur.
Togarinn Coot var ekki stórt skip, jafnvel á sínum tíma, og var ekki eiginlegur úthafstogari heldur ætlaður til veiða á innsævi og veiddi hann því aðallega í Faxaflóanum, uns hann endaði “ævi” sína við Keilisnesið á norðanverðum Reykjanesskaganum, líkt og Kópanesið og Haukurinn mörgum árum síðar.
En gufuketillinn úr Coot er sem sagt fornleif – hvað sem hver segir.

Heimildir m.a.:
-http://heimastjorn.is/heimastjornartiminn/atvinnulif/nr/19

Coot

Ketillinn úr Coot.