Coot

Stundum er gaman að fylgjast með störfum fornleifafræðinga – og heyra hvað þeir hafa að segja um ólíklegustu hluti. Hafa ber þó jafnan í huga að þeir eru bara mannlegir eins og allir aðrir þegar störf þeirra og orð eru metin.

Coot

Coot.

Ágætt dæmi um þetta er Coot, fyrsti togarinn, sem Íslendingar eignuðust. Hann kom til heimahafnar í Hafnarfirði þann 5. mars árið 1905. Þann 8. desember 1908 strandaði togarinn við Keilisnes. Mannbjörg varð, en ekki reyndist unnt að ná togaranum aftur á flot. Brak úr honum má enn finna á Keilisnesi. Gufuketill og stýri voru t.a.m. flutt til Hafnarfjarðar þar sem hvorutveggja hefur staðið við horn Strandgötu og Vesturgötu, skammt frá Byggðasafninu, sem verðugur minnisvarði um þennan fyrsta togara landsins.
Þegar spil var nýlega tekið úr leifum Coot á strandstað og flutt í Sjóminjasafn Íslands hefur án efa legið fyrir heimild frá Fornleifavernd ríkisins eða sú stofnun fylgst mjög náið með þeirri framkvæmd frá upphafi sbr. lagaákvæði þar að lútandi.
Samkvæmt gildandi Þjóðminjalögum teljast munir, sem náð hafa 100 ára aldri, til fornleifa. Með ákvæðum laganna njóta þeir þar með sérstakrar verndar.
Spurningin í þessu tilviki er; hvenær varð gufuketillinn úr Coot fornleif? Fornleifafræðingur einn svaraði því til fyrir skömmu, aðspurður, að ketillinn væri í raun ekki fornleif. Hann yrði það ekki fyrr en árið 2008, talið frá og með árinu sem togarinn strandaði við Keilisnes.

Coot

Skoðum þetta svolítið nánar. Torgarinn kom til landsins árið 1905. Þá var hann a.m.k. til sem slíkur, og ketillinn þar með. Ef betur er að gáð kemur í ljós að togarinn var smíðaður í Glaskow árið 1892. Þá var gufuketillinn settur í hann. Ketillinn er því a.m.k. frá þeim tíma og því óneitanlega orðinn fornleif. Og ekki er hægt að halda því fram með góðum rökum að einungis gripir eða minjar, sem búnir hafa verið til innanlands, gætu með réttu talist til fornleifa, hafi þeir náð 100 ára aldri. Hvað þá með alla þá gripi, sem fundist hafa og sannarlega verið innfluttir?
 Nei, þrátt fyrir framangreint svar, er gufuketillinn úr Coot löngu orðin fornleif og hefði átt að meðhöndlast sem slík.
Enska orðið “Coot” þýðir blesönd á íslensku. Heimsfræg önd er sömu tegundar, þ.e. Andrés Önd og fjölskylda.
Saga Coots varð ekki löng, en þýðingarmikil fyrir íslenskt þjóðarbú. Það voru Íslendingar er stofnað höfðu Fiskiveiðahlutafélag Faxaflóa árinu áður sem keyptu og fluttu togarann til heimahafnar í Hafnarfirði.
“Iðnbyltingin” á Íslandi á heimastjórnartímanum var fólgin í vélvæðingu og aukinni tæknivæðingu atvinnulífsins, en einkum þó við fiskveiðar og fiskverkun. Þilskipin sem farið var að nota á síðustu áratugum 19. aldar höfðu eflt sjávarútveginn og sjávarbyggðirnar, en þeim voru takmörk sett enda seglskip með fábrotin veiðarfæri. Notkun véla í fiskiskipum kynntust Íslendingar fyrst á tíunda áratug 19. aldar þegar breskir togarar (eða botnvörpungar eins og þeir voru nefndir vegna veiðarfærisins, botnvörpunnar) knúnir gufuafli úr kolum fóru að venja komur sínar á fiskimiðin við landið. En fyrirmyndir að fyrstu vélunum í íslenska báta voru þó sóttar til Danmerkur og í stað gufuvéla var notast við sprengihreyfla sem brenndu steinolíu.

Ketillinn

Er vélaöld í íslenskum sjávarútvegi yfirleitt talin hefjast árið 1902 þegar vél var sett í árabátinn Stanley á Ísafirði. Tóku útgerðarmenn og sjómenn um land allt þessari nýjung fagnandi enda skapaði hún möguleika á stórauknum fiskafla. Voru vélbátar orðnir vel á fjórða hundraðið aðeins tíu árum síðar.  Fyrsti íslenski togarinn, knúinn gufuvél, kom sem fyrr sagði, árið 1905 til Hafnarfjarðar. Var hann keyptur á Englandi og nefndur Coot. Útgerðin heppnaðist nema hvað skipið strandaði þremur árum síðar og var úr sögunni. Með Coot var ísinn brotinn og í kjölfarið fylgdi togararinn Jón forseti (1907) á vegum útgerðarfélagsins Alliance. Var hann sérsmíðaður utanlands. Er sagt að útgerðin hafi gengið svo vel að smíðaverðið hafi verið að fullu greitt á þremur árum. Næstu árin kom síðan hver togarinn á fætur öðrum til landsins. Voru þeir orðnir sex árið 1910 og tuttugu árið 1917. Vélbátar og gufutogarar leiddu til þess að miklu meiri fiskafli en nokkru sinni fyrr kom á land, og skapaði þar vinnu og síðan auknar útflutningstekjur.
Togarinn Coot var ekki stórt skip, jafnvel á sínum tíma, og var ekki eiginlegur úthafstogari heldur ætlaður til veiða á innsævi og veiddi hann því aðallega í Faxaflóanum, uns hann endaði “ævi” sína við Keilisnesið á norðanverðum Reykjanesskaganum, líkt og Kópanesið og Haukurinn mörgum árum síðar.
En gufuketillinn úr Coot er sem sagt fornleif – hvað sem hver segir.

Heimildir m.a.:
-http://heimastjorn.is/heimastjornartiminn/atvinnulif/nr/19

Coot

Ketillinn úr Coot.