Færslur

Thermopylae

Í Sjómannablaðinu Víkingur 1973 er fjallar Skúli Magnússon um “Skipsstrand við Básenda árið 1881“:

“Flestir hafa hugmynd um að strönd Reykjanesskaga er mjög skerjótt og hættuleg skipum. Þau hafa ekki svo fá farist við þessa strönd þar sem úthafsaldan brotnar án afláts. Hér á eftir mun fara frásögn af einu skipsstrandinu er átti sér stað á Reykjanesskaga, nánar tiltekið skammt sunnan við Básenda, nálægt Þórshöfn, sem er smá vík eða vogur er skerst inn í landið, rétt utan við Ósabotna, þar sem þorpið Hafnir er.

Jamestown

Strandsstaður Jamestown, skammt v.m. við Hestaklett.

Um Básenda er það að segja að þar var til forna kaupstaður og sér þess enn sæmileg merki. Smá tanga er þar skagar út í sjóinn eru búðatóftir og forn garðbrot, þar munu húsin í verzlunarstaðnum hafa staðið. Ennfremur má sjá einn járnpolla allmikinn og sveran þar sem hann stendur uppúr klöppinni og kemur á þurrt við fjöru. Annar slíkur mun hafa verið hinum megin við víkina en nú sjást engin merki eftir hann lengur. Um Básenda hefur margt verið skráð og skilmerkilegust er frásögn sú er á sínum tíma birtist í Blöndu, tímariti Sögufélagsins. Þar segir gjörla frá ofviðri því er grandaði kaupstaðnum að fullu og öllu. Átti þetta sér stað í janúarbyrjun árið 1799. Eftir þetta hófst aldrei framar verzlun á þessum sögufræga stað, Keflavík varð aðalverzlunarstaður okkar Suðurnesjamanna og hefur verið alla tíð síðan.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Víkin Þórshöfn var einnig notuð til kaupskapar. Hennar er getið í sögu einokunarverzlunarinnr eftir Jón Aðils. Var verzlað þar á tímum hinnar illræmdu umdæmaverzlunar eða jafnvel fyrr, um 1500 eða þar um bil. Hafa þar vafalaust verið Þjóðverjar á ferð eða Englendingar.
Sama er uppá teningnum um Keflavík, þar hófst verzlun sennilega um svipað leyti, kannski fyrr, en um það höfum við nú engar áreiðanlegar heimildir. Þó er til eitt örnefni á Vatnsnesi við Keflavík, er það Þýzkavör, og liggur hún í Vatnsnesvík, sem er suður af sjálfri Keflavíkinni, en Vatnsnes liggur á milli. Höfnin er í dag í Vatnsnesvík.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Árin um og eftir 1880 munu verða minnisstæð í Íslandssögunni fyrir þrennt, hallæri, ísa og Vesturheimsferðir. Sumir lögðu árar í bát og létu ginnast af gylliboðum hinna kanadísku agenta, um allslags dásemdir í Vesturheimi, hinni nýju og framfarasinnuðu veröld, því þar hafði hvorki verið aðall, kóngar, né kirkjuveldi til að drepa niður framfaraviðleitni samfélagsins. En margir þraukuðu samt enn á gamla Fróni og aðrir sneru úr dýrðinni vestra og settust aftur að í landinu.
Fáir munu hafa farið vestur úr Keflavík og frá Suðurnesjum, það var sjávarútvegurinn sem hélt líftórunni í mönnum, og sem dæmi um það má nefna að í hallærum inni í landi streymdi fólk til sjávarbyggðanna í leit að mat og skjóli. Hér má því segja að sjórinn hafi gefið vel þó hins verði ekki síður getið að hann tók sinn skatt af auðæfum sínum.

Sigurður B. Sívertsen

Sigurður B. Sívertsen.

Eftirfarandi ritar merkisklerkurinn og fræðimaðurinn sr. Sigurður Br. Sívertsen í Suðurnesjaannál sinn árið 1881: „Fór nú sjóinn óðum að leggja, með því líka, að stórar íshellur bárust að landi að ofan og innan. Var nú gengið yfir Stakksfjörð fyrir utan Keflavík og inn að Keilisnesi á Vatnsleysuströnd, og hefi ég ekki lesið, að slíkt hafi viðborið, síðan árið 1699. Sjófuglar fundust dauðir með sjónum.
Ekki veit ég hvort nógar matvörur hafi flutzt til landsins, a.m.k. var svo á Norðurlandi, að þangað barst lítil sem engin björg frá útlöndum enda allt ófært af hafís, sem lá inn á fjörðum fram eftir öllu sumri. Sama hlýtur að hafa verið hér Sunnanlands, eftir því sem annállinn segir. Og um timburflutninginn veit ég lítið með vissu, en allavega skeði nú atburður, sem átti eftir að hleypa mönnum nokkuð upp hér á Rosmhvalanesi, en það var skipsstrand. Mun ég hér eftir tína sitthvað uppúr Suðurnesjaannál varðandi strand þetta, því það er merkilegt fyrir byggingasögu okkar Suðurnesjamanna.
Árið 1881 segir sr. Sigurður í annál sínum (Suðurnesjaannáli er prentaður í Rauðskinnu VII-VIII heftum og kom út 1953):

Jamestown

Jamestown.

„Með stórtíðindum má á þessu ári telja þann viðburð, að sunnudagsmorguninn 26. júní, rak að landi afarstórt farmskip, hlaðið af trjáviði, nálægt Þórshöfn á Suðurnesjum (skammt sunnan við Básenda) og stóð þar á flúð eða skeri, mannlaust, þrímastrað með þrem þilförum. Hafði þriðja mastrið verið höggvið í sundur áður en skipsfólkið hafði farið af því, að líkindum um leið og það hefir á hliðina farið, en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gengndi, og svo að menn höfðu eigið trúað,
ef menn hefðu eigi séð. Eftir því sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar að digurð, akkerin á að gizka, hver af þremur 1000 skippund, eða 3000.
Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns tilborðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið af öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligjörð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar, var allt fúið.
S

James Town

James Town, nýlenda landnema við Jamesá í Ameríku 1607.

amt er óvíst, hve lengi það hefur verið í sjó eða hvenær því hefur borist á. En að því var komist, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitir það „James Town”, sem líka er staðarnafn all nærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo vel var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Þegar þetta tröllskip barst þarna að landi, þar sem svo var brimasamt og illt við að eiga, hugðu menn úr þessum og nærliggjandi hreppum, að óhugsandi og ógjörlegt væri að eiga nokkuð við uppskipun og björgun að svo stöddu, og gerðu sér líka þær vonir, að sýslumaður mundi í einu boði, selja þetta mikla rekald.
Fyrir því að þetta mætti álítast vonarpening, hugðu margir að geta hlotið hin beztu kaup, ef allir fjórir næstu hreppar gengju í félag undir eins manns ábyrgð, og var af öllum kosinn til þess kaupmaður Duus í Keflavík. En nú brást þeim illa sú ætlun sín, og máttu þó sjálfum sér um kenna eða hreppstjóranum, eftir áeggjan annarra, því þegar vandræði eða ráðaleysi viðkomanda bárust héðan, hófst félag eitt í Reykjavík, og tókst á hendur að fengnu einkaleyfi frá amtmanni, að bjarga eða skipa upp svo miklu af trjáfarmi þessum, sem framast væri þeim mögulegt, mót 2/3 fyrir fyrirhöfn og ómak.
Tóku þeir þegar til óspilltra mála, sem svo ágætlega vel hepnaðist þeim, að þeir, eftir hart nær þriggja vikna vinnu, voru búnir að skipa í land mest öllum farmi af efsta þilfari sem eftir ágizkun mun hafa orðið 15.000 plankar.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Frá upphafi og leikslokum með fleiru hér að lútandi skal seinna verða nákvæmar sagt.
Þegar seinna var brotið upp milliþilfarið, sem innihélt ekki minni trjávið en hið efra, og ekki þótti sjá högg á vatni, þó haldið væri með kappi áfram uppskipunni, var enn að nýju fengið amtsleyfi fyrir héraðsmenn að skipa nú upp til helminga, en þó að margar hendur ynnu hér að úr fjórum nærliggjandi hreppum, var ekki búið að ljúka uppskipuninni af milliþilfari, þegar sýslumaður hélt uppboð, miðvikudaginn þann 10. ágúst.

Duus

Duus – bryggjuhús.

Varð hið vægasta verð að kalla mátti gjafverð á öllum plönkum og timbri. Taldist svo til, að hver planki seldist á 50 aura, 6 álna, eða 8 aura alinin, en þó tók út yfir góðkaupin, þegar skipið með fullri hleðslu á neðsta þilfari með fullum farmi o.s.frv. seldist fyrir 330 krónur, en fyrir þá skuld var ekki boðið hærra, að hlutaðeigandi félagsmenn voru búnir að semja sín á milli, ekki aðeins að ljúka ekki upp munni sínum, heldur stuðla til með samtökum, og sjá um, að aðrir spilltu ekki góðum málum. Varð svo herra Duus hæstbjóðandi eftir áðurgjörðum samningi.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn, vagnvegurinn, ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.

Hér á eftir fóru menn úr öllum áttum á skipum, og í flotum að ná heim til sín hinu keypta timbri, en þó að veðurblíðan héldist áfram, var þó minna en helmingur ósóttur. Því næst fóru allir úr öllum hreppum að vinna að uppskipun á því, sem hafði orðið eftir á miðþilfari, en þó að allvel gengi, hugðu flestir, að ekki væri hugsandi að halda áfram með neðsta þilfar, ef veður breyttist. En þá bar svo við, að mánudaginn þann 9. sept. gekk í landsunnan sterkviðri og stórbrim um stórstraumsflóð, svo að allur skipsskrokkurinn liðaðist í sundur á þremur tímum, og bárust að landi plankar og skipsflekar. Var það ógrynni og feikn saman komið, að meira var en nokkurn tíma fyrir uppboðið.

Jamestown

Jamestown – opinber auglýsing um strandið.

Eins og þetta mikla strand er og verður fáheyrt, ekki aðeins hér sunnanlands, heldur í landssögunni, að annað eins timbur hafi komið á einn stað af einu skipi, eins og þetta, má kalla hið mesta happ fyrir öll Suðurnes og nærliggjandi hreppa, sem Drottinn allsherjar rétt hefir mönnum upp í hendur án mikillar fyrirhafnar eða kostnaðar, og án þess að neinar slysfarir hafi þar af orsakast eða tjón. Eins yrði það
óafmáanlegur blettur eða svívirðing í sögu Suðurnesja, ef menn skyldu á endanum ekki koma sér saman um réttsýn skipti meðal félagsmanna sín á milli”.
Þetta hefur sr. Sigurður að segja um þessa stóru skútu. Síðar við sama ár í annál sínum (1881) segir klerkur:

Garður

Unuhús í Garði, eitt margra húsa byggt upp úr standgóssi Jamestown.

„Eftir að félagsmenn hins strandaða skips, James Town, höfðu lengi verið búnir að vinna að uppburði timbursins af skipinu, voru þá í nóvember tekin fyrir skiptin í 4 aðalhluti eins og til stóð og fóru þó ekki eins og til var ætlast skiptin fram á þeim helmingi skipsins, sem þessum hrepp var fyrirhugað, því að vissir menn vildu þar öllu ráða, svo að óánægja varð af, þó að allt væri íátið kyrrt liggja, með því að allir félagsmenn, fengu svo mikið í sinn hlut, að þeim mátti nægja, og ekki fyrir neinn ójöfnuð annarra þess vert að láta verða úr misklíð. Plankarnir töldust í allt rúm 16000, svo að í hvern fjórða part komu 4000. Skipsflekum var eigi skipt, sem mjög mikill slægur var í, en voru þó komnir uppá þurrt land, og einn þeirra, önnur hliðin, var mæld 40 fet á lengd.” Það kom sér mjög vel fyrir alþýðu manna, hve ódýrt timbur var úr skipinu, eða 50 aura plankinn. Með því móti gátu margir fengið gnótt viðar og notað til margs konar smíða og bygginga.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri, byggðir að hluta úr rekaviði  úr Jamestown.

T.d. getur prestur þess í annálum, að timbrið hafi mjög víða verið notað í húsbyggingar. Og víst er, að mörg hús hér í Keflavík voru byggð úr timbrinu úr James Town. Sum þeirra eru nú horfin af sjónarsviðinu, önnur allmikið breytt frá fyrri tíð.
Meðal húsa hér að lútandi má nefna Þorvarðarhús, sem stendur svo til óbreytt hið ytra. Hús Þórðar héraðslæknis Thoroddsen (sem stóð hér við Hafnargötu) var víst líka byggt úr timbri hins strandaða skips. Þórður var fyrsti læknir sem settist að hér í Keflavík og var upphafsmaður að mörgu, t. d. aðaldriffjöðrin í stúkunni Vonin nr 15, stofnaði Kaupfélag Rosmhvalaneshrepps árið 1889, stofnaði sparisjóð Rosmhvalaneshvepps um 1890. Á Thoroddsensheimilinu ríkti mikill menningarbragur. Því má við bæta að Emil pianóleikari er einmitt sonur Þórðar, og er fæddur hér í Keflavík. Sjálft Thoroddsenshús mun hafa verið rifið að mestu um 1930 er Eyjólfur Ásberg byggði hús sitt á sama stað við Hafnargötu. Þar varð síðar greiðasala, verzlun og bakarí.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

En það var ýmislegt fleira, er leiddi af strandi James Town, en annállinn fræðir okkur um. Um það mál fáum við nokkra vitneskju í blaðinu Þjóðólfi, vorið og sumarið 1884, en þá var Jón Ólafsson, alþingismaður, ritstjóri blaðsins.
Svo er mál með vexti, að í 7. og 8. tölublöðum Þjóðólfs þetta ár, ræðir Guðmundur Guðmundsson, bóndi og hreppstjóri í Landakoti á Vatnsleysuströnd um fiskveiðasamþykktina fyrir Faxaflóa. Þeir Útskálafélagar, prestarnir Sigurður og Helgi Sívertsen, senda Guðmundi síðan svargrein í 9. tbl. sama blaðs. Ekki ætla ég samt að ræða það mál nánar hér, enda er það tómt persónulegt pex. (Síðar getur samt svo verið að ég muni gera hér fiskveiðasamþykktir að umtalsefni, en ennþá hef ég þó ekki nægar heimildir undir höndum varðandi það efni). En málið var þar með ekki úr sögunni.
Í 11. tölubl. Suðra, sem Gestur Pálsson var ritstjóri fyrir, svara „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps” greinum Guðmundar, svo hann neyðist til að taka aftur til pennans og svara, enda var dróttað að honum persónulega í grein þessari. Við skulum nú grípa niður í svargreinar Guðmundar frá Landakoti, en þær birtust í 20. og 33. tbl. Þjóðólfs. Ræðir þar um strand skipsins James Town.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Í 20. tbl. er inngangur eftir ritstjórann (J.Ó.) með fyrirsögninni: „Uppljóstur á stórþjófnaði”. Ræðir þar um fyrri greinar Guðmundar og þeirra Útskálafeðga og allt það persónulega pex, sem þar birtist. Síðan segir: „Þegar vér nú tökum eftirfylgjandi svargrein frá hr. Guðmundi Guðmundsyni, þá er það af því, að hér er orðið um alveg nýtt mál að ræða — það mál, sem ekki má þegjandi niður falla.
Þegar eins merkur maður og hr. Guðmundur ber fram svo stórvægilega sakargift um stórþjófnað, þá er sú sakargift svo vaxin, að yfirvöld geta ekki og mega ekki ganga þegjandi fram hjá henni — og gjöra það nú vonandi því síður, sem orðrómurinn um þetta athæfi er fyrir löngu hljóðbær orðinn”.
Jamestown
Þá kemur grein Guðmundar sem hefur að inngangi: „Þann ég kalla að þekkja lítt þekkir ei sjálfan sig”. Hann skýrir nú frá því, að „nokkrir íbúar Rosmhvalaneshrepps” hafi í Suðra svarað greinum sínum er birtust í Þjóðólfi. Síðan segir orðrétt: „Þeir minnast, þessir göfugu greinasmiðir, á félagseignina í James Fown (?) er þeir nefna svo, það er líklega timbrið á Stafnesfjörum, sem þeir meina, þó skipsnafnið sé ekki sem allra réttast (okkur mun vera hollast að gefa okkur ekki mikið út í það að rita ensku, samt hafa aðrir sett ,,T”, þar sem þeir setja „F” í skipsnafnið) og lítur helzt út fyrir að þeir vilji telja lesendum Suðra trú um, að ég hafi við það tækifæri sýnt mig í óráðvendni, og jafnvel komið einhverjum kunningjum mínum til að vera mér til aðstoðar í því. Þessu ætla ég ekki að svara með öðru en því, að segja söguna svo sanna og rétta, sem mér er unnt, en sannanir fyrir henni mun ég geta framlagt síðar, ef með þarf, þó ég, að líkindum ekki sæki þær í uppboðsbók Rosmhvalaneshrepps….” .

Jamestown

Ankeri Jamestown í Höfnum.

Þá getur Guðmundur um það, að menn úr Höfnum hafi verið viðstaddir er hann kom að ná í sinn ákveðin timburpart og hafi hann sagt á þá leið við þá, að þeir vissu að hann ætlaði að taka nokkrar spýtur til að fylla þilskip sitt er hann var þangað (að Þórshöfn) kominn á. Hann skyldi greiða andvirði þeirra seinna við tækifæri. Þetta tóku allir gott og gilt og Guðmundur hélt heim með farminn.
Eftir þessa frásögn sína segir Guðmundur: „En ef íbúar Rosmhvalaneshrepps (að undanskildum Keflavíkurmönnum) eiga jafnhægt með að gjöra grein fyrir, að allar aðferðir þeirra á Stafnesfjörum þessi ár hafi verið leyfilegar og lögmætar, eins og mér veitir hægt að sanna framanritaða sögu mína, þá er of miklu upp á þá logið. Að þessir piltar skuli vera svo fífldjarfir að minnast á samvizku í plankamálinu, það er hrein furða, hún hefur þó að líkindum ekki ónáðað þá eða sveitunga þeirra suma hverja í undanfarin 2 ár, en máske hún sé að bregða blundi hjá einhverjum þeirra. Gott ef svo væri”.
Og litlu síðar kemur þetta:

Jamestown

Jamestown – silfurberg.

„Skal ég þá leyfa mér að spyrja þá (þ. e. íbúa Rosmhvalaneshrepps) að, hverja skilagrein þeir hafi gjört fyrir koparhúð þeirri sem þeir heimildarlaust bæði nótt og dag rifu utan af skipsflekunum? Hafa þeir samkvæmt áskorun og skipun þeirra manna, sem áttu koparinn með þeim, skilað honum á þá staði, sem þeim var boðið?”
Guðmundur getur þess að þeir Strandarmenn hafi ekkert fengið af koparnum, sem þeir þó áttu að fá í sinn hlut, svo sem aðrir þeir, er unnu að björgun timbursins úr skipinu.
Enn segir Guðmundur: Timburhvarfið ætla ég sem minnst að minnast að tala um í þetta sinn, það tekur svo út yfir allan ósóma, að flestir, sem kunnugir eru því máli, þykjast vissir um, að síðan Suðurland byggist muni ekki hér í sýslu hafa verið framin annar eins stórþjófnaður og sá, sem þessi ár hefir átt sér stað þar syðra, og ef íbúar Rosmhvalaneshrepps vilja brýna okkur Strandarmenn, þá er ekki víst að við þurfum að hafa fyrir að tína saman tvo eða þrjá gemsa þaðan úr hreppnum, sem yfirvaldið þyrfti og ætti að ná í lagðinn á, það er ekki ómögulegt, úr því tveir eða þrír væru handsamaðir, að hópurinn kynni að stækka”.
Og að endingu segir Guðmundur þessi orð í grein sinni: Vilji íbúar Rosmhvalaneshrepps róta betur upp í þeim saur, sem þeir eru nú byrjaðir að moka, þá vildi ég með aðstoð kunnugra manna vera þeim til liðveizlu, en ekki get ég að því gjört, þó af honum leggi fýlu.”

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Enn er málinu þó ekki lokið, því í Þjóðólfi, 12. júlí 1884, ymprar ritstjórinn, Jón Ólafsson, enn á því að rannsókn þurfi endilega að fara fram á málinu. En Guðmundur í Landakoti ritar ein grein enn og er það svar við grein sem Jón ritaði í blað sitt 12. ágúst þar sem hann segir að Guðmundur sé of hægur á sér að birta ástæðurnar fyrir þjófnaðium. Guðmundur tekur það fram eins og til að forða frekari misskilningi að þeir Útskálafeðgar, Helgi Sívertsen og faðir hans, sr. Sigurður, séu ekkert við málið riðnir, og sömuleiðis Keflvíkingar en það tekur hann reyndar fram áður.. .
Landakot
Guðmundur segir svo í grein sinni (12. júlí í 33. tbl.): „Síðasta og 3. ástæðan (þ.e. fyrir því að hann birtir ekki sannanir fyrr í málinu) er sú, að ég vissi til þess, að einn heiðvirðasti maðurinn þar í Rosmhvalaneshreppi, sá, sem mest hafði að segja yfir félagseigninni, lét í fyrra sumar semja kæru eður kvörtun til sýslumanns út af timbur- og koparmissinum, bjóst ég því við að réttarrannsókn yrði þá og þegar hafin, og að opinber málssókn mundi, þegar minnst varði, gjósa upp, en verkanirnar af áminnstri kæru hefi ég ekki orðið var við. Ég held helzt að hún hafi aldrei komizt til sýslumannsins”.
Og að endingu segir Guðmundur: „Aðaltilgangur minn var aldrei sá, að verða þess valdandi að nokkur maður þar syðra yrði sakfelldur, en ég þykist hafa unnið Rosmhvalahreppi gott verk og þarft, ef þeir menn, sem oftast hafa unnið sér óráðvendisorð við hvert strand, sem þar hefur komið fyrir, bæta nú svo ráð sitt, fyrir þá hreyfingu, sem komin er á málið út af grein minni, að þeir framvegis leitist við að sýna sig, sem heiðvirða og vandaða menn við slík tækifæri. Þá hefi ég náð tilgangi mínum, og þá vona ég að allir þar í hreppi, sem nokkurs meta gott mannorð, þakki mér fyrir þetta nauðsynlega og holla læknislyf, þó sumum þyki það súrt á bragðið”. Svo mörg voru orð Guðmundar í Landakoti.
Lýkur hér með að segja frá strandi þessu þó hins vegar viðbúið sé að hér hafi ekki öll kurl um þetta mál til grafar komið.”

Í Eyjafréttum 2017 tók Ómar Garðarsson viðtal við Theódór Ólafsson undir fyrirsögninni “Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum“:

Jamestown

Jamestown – keðjuminningin í Vestmannaeyjum. Kári Bjarnarson og Theódór Ólafsson.

“Þann níunda september 1919 skrifar Þorvaldur Bjarnason, Höfnum á Reykjanesi bréf til hafnarnefndar Vestmannaeyja og segist hafa til sölu akkeri og keðjur sem séu mjög hentug sem öflug legufæri. „Keðjan er að stærð, hver hlekkur tólf þumlungar að lengd og sjö að breidd og lengd keðjunnar er ellefu liðir,“ segir í bréfinu þar sem kemur fram að akkerið sé um tvö tonn að þyngd. Verðið er 450 krónur á lið eða 5950 krónur þar sem keðjan var niðurkomin við Hafnir. Eftir bréfa- og skeytasendingar var niðurstaðan sú að keðjan var keypt til Eyja og var hún notuð sem legufæri í áratugi en akkerið var ekki keypt.
Þetta á sér merkilega forsögu því keðjan er úr bandarísku skipi sem rak mannlaust um Norður Atlantshaf og strandaði að lokum þann 26. júní 1881 á milli Hestakletts og Þórshafnar í Rosmhvalaneshreppi, síðar Miðneshreppi á Suðurnesjum. Það var, samkvæmt seinni tíma mælingum um fjögur þúsund tonn og að líkindum meðal stærstu skipa sem komið höfðu til Íslands á þeim tíma.

Áhugi Theódórs vaknar
Jamestown
Þessa sögu þekkja fáir betur en Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður á Sæbjörgu VE. Hefur Theódór aflað sér gagna um skipið, sögu þess og örlög. Líka hvað varð um akkeriskeðjurnar sem hafa enst ótrúlega vel. Skipið flutti verðmætan timburfarm frá Bandaríkjunum sem átti að fara til Liverpool á Englandi en lenti í aftakaveðri undan vesturströnd Írlands. Skemmdist mikið og var skipverjum bjargað um borð í annað skip og settir á land í Glasgow í Skotlandi. Jamestown rak stjórnlaust um Norður Atlantshafið í fjóra mánuði þangað til það strandaði við Ísland.
Ein ástæðan fyrir áhuga Theódórs á Jamestown er tenging hans við Stafnes og að hluti akkeriskeðjunnar hafnaði í Vestmannaeyjum.
„Teddi hefur ekki setið auðum höndum þótt hann sé hættur að vinna. Hann hefur lagst í ýmiss konar grúsk,“ segir Sigurgeir Jónsson um Theódór í viðtali sem hann tók við hann og birtist í Fréttum. Þá hafði hann barist við krabbamein í tvö ár. Lýsir hann því einnig hvernig kona hans, Margrét Sigurbjörnsdóttir sem er frá Stafnesi, stóð við hlið hans í veikindunum og greinilegt að hann kann að meta það. Tilheyrði fjaran þar sem Jamestown strandaði Stafnesbæjunum og er Margrét frá Vestur Stafnesi.

Jamestown var alvöru skip

Jamestown

Eyjahöfnin – Bólið 1930.

„Í þessum veikindum mínum átti ég oft erfitt með svefn og fór þá að láta hugann reika, ekki síst að hugsa um þau skipsströnd sem ég hef sjálfur lent í og kannski ekki síður öðrum skipsströndum. Fór síðan að lesa mér til um hin ýmsu strönd. Þar á meðal skipsströnd við Stafnesið, úti fyrir æskuheimili Margrétar. Þar strandaði t.d. Jón forseti, fyrsti togarinn í eigu Íslendinga og fórust fimmtán skipverjar en tíu tókst að bjarga. Sigurbjörn, faðir Margrétar, var einn af björgunarmönnum þar,“ segir Theódór.
En svo var það eitt skipsstrand sem vakti sérstaka athygli mína. Það var þegar ameríska skútan Jamestown strandaði ekki langt frá Stafnesi árið 1881. Þessar amerísku skútur voru flutningaskip, stærstu skútur í heimi og hétu allar eftir bandarískum borgum. Þessi skúta var, samkvæmt okkar mælingum í dag, um 2000 tonn, var hundrað metra löng og 16 metra breið. Í henni voru fjögur þilför og fjögur möstur, sem sagt alvöru skip.
Jamestown fór frá Bandaríkjunum á leið til Englands, fullhlaðið af smíðatimbri sem átti að fara í undirstöður fyrir járnbrautarteina.

Silfurgrjót

Silfurgrjót.

Áður hafði skipið verið ballestað með silfurgrýti. Þegar skipið átti eftir um 600 mílur í Írland lenti það í ofsaveðri og stýrisbúnaður þess brotnaði. Lítið gufuskip gerði tilraunir til að taka Jamestown í tog en þær tilraunir mistókust þar sem tógið slitnaði alltaf. Þá var ákveðið að áhöfnin yfirgæfi skipið. Þetta gerðist í mars 1881 og síðan rak skipið stjórnlaust norður eftir Atlantshafi, upp að Íslandsströndum, fyrir Reykjanes og strandaði.“
Meira að segja Eyjamenn nutu góðs af rekanum. Þannig lýsir Theódór þessari síðustu ferð þessa glæsilega skips, Jamestown sem strandaði á Hestakletti þann 17. júní 1881, mannlaust. Varð að vonum uppi fótur og fit á Stafnesbæjunum. Hafist var handa við að koma timbrinu í land og gekk það vel um sumarið eða þar til gerði stórviðri um haustið og skipið brotnaði. Mikið af timbri rak á land víðs vegar um land, m.a. í Vestmannaeyjum og Þorsteinn Jónsson í Laufási minnist í bók sinni á plankarekadaginn mikla. „Ég held að flest hús í Sandgerði á þessum tíma hafi verið byggð úr timbri úr Jamestown og mörg hús í öðrum byggðarlögum. Og þegar ráðist var í endurbætur á Menntaskólanum í Reykjavík, árið 1883, þá var notað timbur úr þessum farmi,” segir Teddi.

Mikil vinna

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Gamla-Kirkjuvogs.

Landeigendur vildu eigna sér strandið og stóðu forráðamenn hreppsins fyrir því en landsstjórnin var á öðru máli og yfirtók skipið og það sem í því var. „Hún útvegaði menn, vélstjóra, vélsmið og mann sem sá um peningamálin og þrír komu af svæðinu. Þeir leigðu litla skútu og vildu fá fleira fólk í nágrenninu til að koma að verkinu með sér. Það var ekki tilbúið fyrr en því var lofað vikulegri greiðslu í gulli í hverri viku. Þá slógu menn til, enda ekki algengt að fá greitt í peningum á þessu árum,“ segir Theódór.
Skútan er fyllt af viði og siglt til Reykjavíkur en verkinu er haldið áfram og því sem kom úr skipinu staflað í stæður uppi á landi. „Þannig gekk þetta en að lokum voru stæðurnar boðnar upp og gat hver sem er keypt. Það nýttu sér margir sem þarna bjuggu.“
Þarna er akkerið og keðjurnar komnar við sögu því eitt þeirra var fest í landi og keðjan strekt til að varna því að skipið losnaði af strandstað. Það hafði þó lítið að segja í stórviðrinu þegar það brotnaði um haustið.
Það er svo 38 árum síðar að maður sem var unglingur þegar Jamestown strandaði sagðist muna hvar keðjan lá og vildi ná henni upp. Hann hafði ekki leyfi en keypti keðjurnar í sjónum á tvær krónur af ríkisstjórninni. „Hann hét Sigurður og smíðaður var fleki sem notaður var við að ná keðjunum upp. Á hverri stórstraumsfjöru var farið niður að keðjunni og hún fest við flekann sem var svo dreginn á land á flóðinu. Þannig tóku þeir einn og einn lið í einu,“ segir Theódór.

Keðjurnar góðu

Jamestown

Jamestown – ankerið í Höfnum.

Það líða fjörtíu ár og aftur kemur Jamestown við sögu í Vestmannaeyjum og nú eru það akkeriskeðjan sem Vestmannaeyjahöfn keypti. Mikil vandræði voru með báta í höfninni og oft skaðar þegar aldan gekk óbrotin inn höfnina. Þorsteinn í Laufási var þá í hafnarstjórn og frétti að því að akkeriskeðjan úr Jamestown væri enn um borð í skipinu á strandstað. Hann fór til Sandgerðis og keypti keðjurnar en ekki akkerið sem heimamenn vildu einnig selja Eyjamönnum. Minna akkerið stendur nú við kirkjuna í Höfnum en stóra akkerið er í Sandgerði.
En aðalerindi Þorsteins var að festa kaup á akkeriskeðjunni úr Jamestown sem hann gerði. Dugði hún í þrjár lagnir og gátu 50 til 60 bátar legið við hana.

Hluti af sögunni
Keðjurnar luku sínu hlutverki og Theódór Ólafsson, vélstjóri og fyrrum útgerðarmaður lagðist í grúsk þegar hann kom í land.
Þegar dýpkun hófst í höfninni voru þær teknar upp. Ekki var hugað að því að hér væru merkar sögulegar minjar og lágu keðjurnar lengi vel uppi við Sorpu. Þær týndu tölunni þegar útgerðarmenn fóru að nota hlekkina til að þyngja flottroll. Eftir að Theódór fór að kanna sögu þeirra fann hann þrjá hlekki við FES-ið sem eru til skrauts í garði hans í Bessahrauninu.
„Þetta er stokkakeðja og hlekkirnir eru sjö kg að þyngd. Aftur á móti voru endahlekkirnir mun stærri og þyngri, eða um 50 kg. Hvað merkilegast finnst mér, hvað þeir eru enn heillegir og óskemmdir, eftir að hafa legið í 40 ár í sjó við Stafnesið og síðan í 50 ár í höfninni í Vestmannaeyjum. En ég vil endilega að þeir sem enn eru með þessa hlekki í fórum sínum sjái um að koma þeim á viðeigandi stað. Þeir eiga heima í Sandgerði, til minja um þetta strand og svo auðvitað líka á Byggðasafninu í Vestmannaeyjum, en ekki í ruslahaugum einhvers staðar,” segir Teddi um þetta áhugamál sitt og greinilegt að hugur fylgir máli. Sérstaka athygli hans hefur vakið endingin á keðjunni og að þeir skuli enn vera heilir og engin tæring sjáanleg.

Mikill happafengur

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Skipið þótti mikill happafengur á Íslandi enda erfitt að verða sér úti um timbur hérlendis. Voru plankarnir notaðir í brúargerð og húsagerð og enn stendur að minnsta kosti eitt hús sem smíðað er úr viði úr Jamestown, húsið Efra Sandgerði, heimili Lionsklúbbsins í Sandgerði. Einnig var „gamla“ húsið að Krókskoti í Sandgerði byggt úr Jamestown timbri. Timbrið úr því húsi var síðan notað í „nýja“ húsið að Krókskoti og stendur það enn þá.
Árið 2002 fannst annað akkeri skipsins undan Höfnum, og hinn 24. júní 2008 var það híft upp af meðlimum umhverfisverndarsamtakanna Blái Herinn og því komið fyrir við húsið Efra Sandgerði. Áður hafði hitt akkerið fundist og er það fyrir utan kirkjuna í Höfnum. Þetta kemur fram í grein eftir Leó M. Jónsson sem birtist upphaflega í tímaritinu Skildi 2001. Segir að við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því.

Með stærstu seglskipum

Jamestown

Jamestown.

Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 16 m á breidd, til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90 til 100 m á lengd.
Jamestown var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879 og, að sögn Dan Conlin, er það horfið af skránni yfir amerísk og erlend skip upp úr 1880 og fyrir 1884. Hann segir að fjöldi smærri seglskipa hafi borið nafnið Jamestown eða James Town og verið á skrá um þetta leyti en hægt sé að útiloka þau öll þar sem ekkert þeirra hafi verið yfir 200 tonnum að stærð og öll styttri en 100 fet. Dan sagðist einnig hafa athugað skipaskrá Lloyds (Lloyd’s Register of Shipping) frá þessum tíma og ekki fundið þar neitt annað skip jafnstórt og Jamestown frá Richmond.

Glæsilegustu skipin á höfunum

Jamestown

Jamestown.

Stóru seglskipin sem voru í langferðum á milli heimsálfa á 19. öld og fram yfir 1900 voru tilkomumikil sjón á höfunum þar sem þau skriðu undir fullum seglum, iðulega framúr gufuskipum. Frægust langferðaskipanna voru bresku Cutty Sark og Thermopylae (sem fór á 28 dögum frá Newcastle á Englandi til Shanghai í Kína – met sem stóð lengi) en þau voru rétt innan við 1000 tonn að stærð (þess tíma mæling) og þau amerísku ,,Yankee clippers” á borð við Young America og hið fræga breska Lightning (kennt við Macey) sem fór reglulega með póst á milli Bretlands og Ástralíu árum saman.”

Í Útvarpinu, Sumarmálum á Rás 1 árið 2020, er fjallað um “Mörg hús á Íslandi smíðuð úr mannlausu draugaskipi” í viðtali við Tómas Knútsson:

Jamestown

Ólafur Ketilsson.

“Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann því dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist mikil sneypuför. „Þetta var svona Titanic-dæmi,“ segir Tómas Knútsson um Jamestown-strandið. Mannlaust skipið rak á land við Hafnir á Reykjanesskaga árið 1881.
Þann 26. júní árið 1881 varð sá óvenjulegi atburður í Höfnum á Reykjanesskaga stórt og voldugt seglskip rak þar á land í aftakaveðri. Jamestown hafði rekið um höfin í fjóra mánuði og var mannlaust. Það reyndist að miklu leyti gæfa fyrir Íslendinga að skipið skyldi reka á fjörur landsins því það var smekkfullt af brúklegum harðviði sem átti eftir að nýtast landsmönnum til bygginga næstu árin.

„Þetta er guðsgjöf, allt þetta timbur“

Jamestown

Jamestown – ankeri.

Jamestown var með stærri seglskipum sem smíðuð höfðu verið á þessum tíma. Það var drekkhlaðið af viði og var á leið til Englands til að setja viðinn undir járnbrautarteina. Skipið lagði af stað með farminn frá Ameríku og var búið að vera í vandræðum þegar það lendir í miklu óviðri á Norður-Atlantshafi með þeim afleiðingum að stýrið brotnar. „Þá kemur skip og bjargar áhöfninni en svo er meiningin að bjarga skipinu en þá finnur enginn skipið,“ segir Tómas Knútsson sem er í hópi áhugafólks um Jamestown-strandið. Þegar skipið loks fannst við Íslandsstrendur hafði það eigrað stefnu- og mannlaust um höfin mánuðum saman. „Svo gerir suðvestan hvell og skipið mölbrotnar og rekur á land svo það var hægt að bjarga öllu úr skipinu sem var nýtt til agna,“ segir Tómas. „Þetta var náttúrulega guðsgjöf, allt þetta timbur.“

Dóttir skipstjórans með í för
Skipið var mannlaust því áhöfninni var bjargað við illan leik. Ferðin átti að vera sú síðasta sem skipstjórinn færi með skipinu og tók hann dóttur sína með sér. Lokaferðin reyndist svo mun ævintýralegri en skipstjórinn hafði viljað. „Þetta var svona Titanic-dæmi. Þetta voru endalokin hjá þessu stóra mikla fyrirtæki sem skipstjórinn hafði unnið fyrir alla sína ævi og þá fer hann í svona sneypuför,“ segir Tómas.

Svíta skipstjórans varð predikunarstóll í Hvalneskirkju

Hvalsnes

Hvalsneskirkja.

Áhugahópurinn sem hefur einbeitt sér að örlögum skipsins síðustu ár hittist tvisvar, þrisvar á ári og hefur haldið tvær sýningar þar sem munir úr skipinu sem fundist hafa í hafinu eru til sýnis. „Við höfum látið Byggðasafnið hafa þetta allt saman eins og til dæmis seglvindu, svaka flott hjól og svo er akkerið.“

Hópurinn hefur staðið í ströngu við það síðustu ár að kortleggja þau hús á Íslandi sem byggð hafa verið úr timbri úr skipinu. „Gröndalshús í Reykjavík er eitt og brúargólfið í Elliðárbrúnni,“ segir Tómas. „Þetta fór um allt Suðurland og Suðurnes, það eru nokkur hús í Keflavík, nokkur í Sandgerði, eitt hús í Höfnum, einhver í Hafnarfirði, Vatnleysuströnd og það er eitthvað í Grindavík líka. Predikunarstóllinn í Hvalsneskirkju er úr mahóní sem kom úr svítu skipstjórans.“

Heimildir:
-Sjómannablaðið Víkingur, 3. tbl. 01.03.1973, Skipsstrand við Básenda árið 1881 – Skúli Magnússon, bls. 68-71.
-Eyjafréttir, 23. tbl. 08.06.2017, Akkeriskeðjur úr bandarísku skipi sem rak á land enduðu sem legufæri í Eyjum – viðtal við Theódór Ólafsson, bls. 22-23.
-https://www.ruv.is/frett/2020/08/09/morg-hus-a-islandi-smidud-ur-mannlausu-draugaskipi

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Brúin

Í Brúnni árið 1930 er fjallað um “Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930”. Frásögnin er hluti greinar Ólafs Ketilssonar í Höfnum í Ægi sama ár. Þar eru tíunduð skipströndin á nefndu tímabili, en í Brúnni er einungis fjallað um þann hluta er lítur að strandi Jamestown:

Brúin“[Í síðustu tölublöð „Ægis” (Ægir 01.11.1930 og 01.12.1930) skrifar Ólafur Ketilsson, hreppstjóri að Óslandi í Höfnum, langa og mjög fróðlega grein um skipströnd í Hafnahreppi á síðustu 130 árum. Er greinin bráðskemtilega skrifuð, svo sem Ólafs er von og vísa, því að hann segir manna best frá. Leyfir Brúin sjer að birta hjer kafla úr greininni. Er hann um 4. strandið, “Jamestown” eða „stóra strandið”, sem Ólafur kallar.].

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun, rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki. Var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinurri, að það myndi mannlaust með öllu.
Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á „Þórshöfn” skamt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverslun í Keflavík. Skipstjórinn hjet Petersen; sagði hann okkur strax sem skipið var strandað, að það væri ameríkst timburskip, fult stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofan dekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefir skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hjer við land.

Jamestown

Skip líkt og Jamestown.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist varð um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið! Og aldrei gleymi jeg þeirri stund, þegar jeg, 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inni á þilfari „Jamestown”, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma skipsbákn! Set jeg hjer stutta lýsingu af „Jamestown”, hinu stærsta skipi, sem strandað hefir við Ísland, síðan landið byggðist.
„Jamestown” var þrimastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man jeg ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því. Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiftur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn pá eftir 50 ár blasir við augum mínum hinn óskaplegi geimur, efsta lestin, pegar búið er loks að tæma hana, 60 faðma langa og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, má af því nokkurn veginn gera sjer grein fyrjr, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri í Hraunum voru byggðir úr timbri Jamestown.

Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn millum aftasta og mið siglutrjes, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða rjettara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefir að öllum líkindum verið forðabúr [skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m.m., og hrannir af spítnabraki, póleruðu mahoní, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangað úr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita og mahoníþiljur voru sumsstaðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru eða minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skift í svefnherhergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar af borðbúnaði, eða neitt því, sem verðmæti væri í.

Jamestown

Hafnir og nágrenni – kort,

Af öllu því tröllasmíði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrent sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutrjeð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afar sverum járngjörðum, annað undirbugspjótið, sem kallað er, 36 þml. ákant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get jeg ekki gert neina ágiskun um, en jeg vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hjekk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). — Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hann úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brent brjef hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mjelaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæfa af landinu, kom um sumarið til þess að að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokkskipsins.

Jamestown

Annað ankeri ásamt keðju við Kirkjuvogskirkju í Höfnum.

Eftir að „Jamestown” strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja, Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu Suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál. Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem ennþá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir fjelagar mikið af verkafólki hjer, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun; þótti það óheyrilega hátt kaup, og alt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskveldi!

Hestaklettur

Hestaklettur – strandstaður Jamestown.

Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur í uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af Suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þektust ekki tálsnörur nútímans bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!
Hvað margir “Loggortu”-farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man jeg ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum ílotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft fra 12 — 20 plankar á hvern mann, í helmingaskiftum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnan stormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600 — 800 st. í einu! Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn (vagnvegurinn) ofan Ósa. Hefur eflaust tengst strandinu mikla skammt vestar.

Í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt i sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10 — 20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd, 6—11 tom.
Kristján sál. Jónsson, hæstarjettardómari, var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og hjelt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25 — 50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú.
Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr., en í skipið sjálft með öllu timbri sem í því var í mið- og neðslu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 300,00, er hann bauð í það fyrir föður minn og aðra Suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.
Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi, og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og alt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Jeg minnist pess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hjet Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíu lesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Alt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kgr. til Englands af kopar. Það eina; sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af Suðurnesjabændum söfnuðu að sjer af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hefði verið tekið.

Silfurgrjót

Silfurgrjót.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afarmikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt ennþá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti pessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei sjeð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.
Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var jeg oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sogast fram í briminu og hvolft þar úr sjer á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hinsvegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa í þessi 50 ár. Það eina, sem mjer er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður sál. Ólafsson, bóndi í Merkinesi, náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola.
Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fjekk af silfri veit jeg ekki, því jeg sá það aldrei.
Jeg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótalmargt sje enn þá ósagt, en sökum þess að mjer er ekki kunnugt um að nokkur maður, alt til þessa, hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi jeg ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo að jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi”.

Heimildir:
-Brúin, 97. tbl. 31.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, bls. 1-4.
-Ægir, 11. tbl. 01.11.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 137-240.
-Ægir, 12. tbl. 01.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 273-277.

Hafnir

Hafnir um og eftir 1900.

Staðarhverfi

Í Lesbók Morgunblaðsins 1965 er grein séra Gísla Brynjólfssonar undir fyrirsögninni “Úttekt á Stað”:

Gervallt segir fjær og nær:
sjáið sigur lífsins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta gæti verið bæði lag og texti í söng þessa dags, fyrsta fardags vorsins 1965, —þriðja júní. Vor og sól og siguröfl gróandans hvarvetna að taka völdin á landinu okkar kalda, sem ljómar í gullnum geislum morgunsins, er „glófaxið steypist um haga og tún“. Sjá “Lífið hefur dauðann deytt“.
En þótt undarlegt sé, er það samt svo, þegar maður er staddur hér, á hinu gamla prestssetri, Stað í Grindavík, þennan vormorgun, þá finnst manni það vera dauðinn, sem hafi svo óeðlilega mikil völd mitt í ríki lífsins og ljóssins, því að þessi bær er nú af öllum yfirgefinn nema hinum framliðnu.
Kirkjan er löngu ofan tekin og reist á öðrum stað. Presturinn er fluttur burtu fyrir mörgum áratugum. Bóndinn er dáinn og enginn kominn til að taka við jörð og búi. En kirkjugarðurinn er enn í notkun.
Og þegar dauðinn hefur barið að dyrum á einhverju heimili í söfnuði Grindvíkinga, og hinn látni hefur verið kvaddur í kirkjunni austur í Járngerðarstaðahverfi, þá er kistunni ekið um klungróttan hraunveginn út að Stað, þar sem grafreiturinn bíður og sendin mold Suðurnesja tekur hana í sinn opna faðm.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Þetta er fallegur kirkjugarður, vel girtur og vel hirtur svo sem sæmir þessu efnaða myndarplássi — Grindavík. Vestan til í honum miðjum — trúega á þeim stað þar sem kirkjan stóð; hefur verið reistur klukkuturn.
Hann ljómar rauður og hvítur í sól morgunsins. Niður úr honum hangir klukkustrengurinn. — Nei, það er bezt að taka ekki í hann. Það væri synd gegn heilögum anda vorsins og lífsins ao rjúfa kyrrð þessa dags með líkhringingu. Það yrði næsta hjáróma hljómur í þeirri symfoniu gleðinnar og gróskunnar, sem maður finnur að fyllir loftið. En skaðlaust er nú að skoða þessa líkaböng Grindvíkinga. Skyldi þetta vera einhver forngripur? Eða skyldi hún bara vera skipklukka úr einhverju strandinu? Jú, ekki ber á öðru. Klukkan hefur þessa áletrun: — S.S. Anlaby — 1898 — Hull.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.

Hún er úr brezkum togara, sem strandaði hér við svokallaða Jónsbásarkletta í ársbyrjun 1902. Frá því segir Guðsteinn hreppstjóri Einarsson í bókinni „Frá Suðurnesjum”, á þessa leið: „Þetta strand mátti heita nokkuð sögulegt. Skipið hét Anlaby, og skipstjórinn á því var einn rómaðasti landhelgisbrjótur, sem verið hefir hér við land fyrr og síðar á enskum togurum, og er þá nokkuð mikið sagt. En hann var með togara þann, er rétt um aldamótin varð þremur mönnum að bana vestur á Dýrafirði. Hannes Hafstein, þáverandi sýslumaður, fór um borð í togarann, sem var að veiðum uppi í landsteinum. Var grunur á, að sleppt hefði verið vír úr tolla á togaranum, sem hefði hvolft bátnum. Ekki hafði verið sýnd tilraun frá togaranum að bjarga mönnum þeim, sem voru að hrekjast í sjónum, svo hér hefir verið um verulegan þrjót að ræða. Ekki var hann tekinn þarna, en kæra hafði verið send út af verknaði þessum til hinna dönsku yfirvalda í Kaupmannahöfn. En sennilega hefði það ekki komið að miklu gagni, ef þessi sami skipstjóri hefði ekki svo víða komið við, en hann var tekinn í landhelgi við Jótlandsstrendur ekki “löngu seinna, og fyrir þá tilviljun mun hann hafa fengið dóm fyrir þennan verknað sinn í Dýrafirði. Sagt var, að hann hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og verið í sinni fyrstu för hingað til landsins eftir að hafa tekið út sína fangelsisvist.
Skipstjóri þessi hafði heitið Carl Nilson og verið kallaður Sænski Carl. Það voru og sagnir um, að hann hefði verið búinn að heita því að velgja Íslendingum undir uggum, þegar hann kæmi þar á miðin aftur, en hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna í Jónsbásarklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna.
Svo sem oft vill verða í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta.

Staður

Staður fyrrum.

Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax. Draumurinn var á þá leið að henni þótti vera knúið dyra og einhver fara fram, sem kallað var, en koma aftur og segja, að hópur manna sé úti, sem vilji fá að tala við hana. Hún fór fram og þarna stóðu, að hún hélt, 9 eða 10 menn. Þeir báru upp erindið, og var það að fá hjá henni gistingu. Eitthvað leizt henni illa á að hýsa svona stóran hóp manna og færðist undan því, en þeir sóttu fast á og sögðu á þá leið, að þeir yrðu að fá gistingu á Stað. Þá þóttist hún segja, að hún vissi ekki, hvernig hún hefði rúm handa þeirn öllum, en þeir þá svarað, að hún þyrfti ekki að hugsa um þau, því hann Einar mundi sjá um það. Ekki var draumur þessi lengri, en þótti passa við strandið, því Einar Jónsson, hreppstjóri á Húsatóftum, sá um alla björgun og einnig um útför mannanna.
Úr skipinu rak tíu lík á rúmri viku. Þá var lítið um húsrými, og voru líkin öll flutt í Staðarkirkju og lögð þar til á bekkjum í kórnum. Um leið og þau voru þvegin, var leitað eftir öllum merkjum, tattoveringu, hringum og öllu, sem sérkenndi og var það gert samkvæmt beiðni. Þegar sjö lík voru rekin og búið að ganga frá þeim, eins og áður er lýst, vildi það til snemma morguns, að maður kom til Einars hreppstjóra. Sá hét Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari, að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, þannig, að hann hefði vaknað á milli. Draumurinn var þannig, að Bjarna þótti maður koma til sín og biðja sig að fara til Einars hreppstjóra og segja honum, að hann vilji fá aftur það, sem tekið hafi verið frá sér, og að hann sé norðast í kórnum. Bjarni vissi ekkert, hvað um gæti verið að ræða, en setti drauminn þó í samband við hina drukknuðu menn. Einar hreppstjóri tók draum þennan bókstaflega, því einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum að norðanverðu, og var hann látinn á það aftur.
Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og send höfðu verið merki og lýsingar á líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði, væri skipstjórinn; sjálfur, Carl Nilson”.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið, “rautt og hvítt”, h.m.

Við látum þessa fróðlegu og skilmerki legu frásögn hins kunnuga manns nægja um hinztu för Sænska Carls á Íslandsmið. Við látum hugsunina um hann ekki tefja okkur frá úttektargerðinni eða draga skugga upp á heiðríkju þessa bjarta dags. Á þessari stund á það ekki við að vera með neinar slíkar umþenkingar. Hinn dauði hefur sinn dóm með sér.

Útihúsin hér á Stað eru mjög fornfáleg og farin að láta á sjá. Hér hafa ekki verið hafðar aðrar skepnur en sauðfé síðustu árin. Það borgar sig bezt, því að hér er féð létt á fóðrum. Snjór liggur hér aldrei á, svo að alltaf næst til jarðar og aldrei bregzt beit í fjörunni þar sem sjálft Atlantshafið fellur á strönd Reykjanesskaga — og ber þarann upp í stórar hrannir. Ærnar eru á beit á grænu túninu og una sér vel með lömbum sínum, sem eru farin að verða bústin, enda þau yngstu nokkurra daga gömul. Við göngum í húsin og lítum inn í hvern kofa. Inni í einum þeirra er hvít ær með lambi sínu. Þegar við komum í dyrnar stappar hún dálítið frekjulega niður öðrum framfæti og segir: Menn! Hvað eruð þið að gera hér? Þið vilduð ekki búa á þessum Stað og skilduð okkur sauðkindurnar einar eftir. Hvaða erindi eigið þið hingað nú? Viljið þið ekki bara gera svo vel að láta okkur í friði.

Þórkötlustaðarétt

Hermann í Stakkavík, bóndi á Stað, og Birgir á Hópi í Þórkötlustaðarréttum.

Við finnum það, að þessi kind hefur mikið til síns máls, svo að við treystum okkur ekki til að taka upp neinar rökræður við hana um rétt okkar til þessa Staðar, sem mennirnir hafa yfirgefið — gengið frá eftir 1000 ára búskap.
Aðrar skepnur en ærnar og lömbin fyrirfinnast hér ekki. Jú annars. Ekki er vert að fullyrða of mikið strax. Nú koma í ljós fram undan kirkjugarðinum tvö följörp hross og veifa svörtum töglum sínum til að verjast flugum loftsins í sólarhitanum. Einhver spyr: Hver á þessi hross? En það veit enginn hver á þau. Hér vekja hestar ekki neina interessu. Þeir eru víst bara til af gömlum vana, því að útreiðarmanían hefur ekki enn haldið innreið sína í Grindavík. Fiskur og fé eru þær lífverur, sem fólkið sinnir, enda eru það þær, sem ásamt fáum kúm hafa haldið lífinu í því frá upphafi byggðar hér.
Já. Fiskurinn og sjórinn — sjórinn og Suðurnes — það eru eins og tvær hliðar á sama hlutnum — líka hér í Staðarhverfinu. Og það var eins og við manninn mælt; þegar hætt var að stunda sjóinn héðan var byggðin vitanlega búin að vera.

Staðarvör

Staðarvör – flóruð.

Frammi á kampinum sjáum við leifar af fornri frægð í útgerð þessa pláss — varirnar, sem eru hálforpnar grjóti, því að nú eru margir áratugir síðan skipi var ráðið þar til hlunns. Hér hefur fyrir eina tíð verið byggð bryggja með skjólgarði sjávarmegin. Auðsjáanlega allgjörvulegt mannvirki á sínum tíma. En ekki þætti þetta beysið bólverk nú fyrir hinn glæsilega fiskiflota Grindvíkinga. Upp að þessari bryggju leggst heldur aldrei nein fleyta, því að héðan er aldrei róið á sjó. Fyrir ofan kampinn hvolfa bátarnir, sem eitt sinn sigldu stoltir á miðin í Grindavíkursjó og færðu hina miklu lífsbjörg í bú fólksins í Staðarhverfi. Undir aflabrögðunum var öll afkoma þess komin. Hér hvolfa þessi gömlu skip og bíða þess eins að fúna niður og forganga.
Svo var úttekt lokið eins og lög gera ráð fyrir.
Og nú eru fardagar löngu liðnir. Vor þessa árs að baki og sumarið, þetta blessaða bjarta sumar, næstum líka á enda runnið. Haustgrá ský hafa hellt þungum regnskúrum síðsumarsins yfir úfin hraunin kringum Grindavík, og punturinn í túninu á Stað hefur tekið á sig fölan lit sinunnar. Það var enginn bóndi á Stað í vor.
Jörðin var leigð ungum Grindvíkingi, sem stundar fjárbúskap með fiskvinnunni og íbúðarhúsið tóku Reykvíkingar á leigu — skrifstofumenn, sem ætla að fara þangað til að fá sér ferskt loft í lungun þegar kontórvinnunni er lokið. Og eins og myndin ber með sér, er þetta myndarlegt hús, með fannhvíta veggi og fagurrautt, nýmálað þak, því að félagarnir í Lions-klúbbnum í Grindavík tóku sig til og máluðu það eitt kvöld í sumar eftir vinnutíma. Það var drengilega gert í virðingarskyni við hinn helga reit og af ræktarsemi við Staðinn, sem var prestssetur Grindavíkur um aldaraðir. – G. Br.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 17.10.1965, Úttekt á Stað, séra Gísli Brynjólfsson, bls. 8-9 og 14.

Staður

Staður – nýja klukknaportið. Síðasta íbúðarhúsið “með hvannvíta veggi” – byggt um 1930.

Staður

Í Morgunblaðinu 1970 er grein; ” Í Staðarkirkjugarði” eftir séra Gísla Brynjólfsson. Þar fjallar hann um klukkuna í Staðarkirkjugarði og aðdraganda að komu hennar við strendur Grindavíkur:

Klukkan í Staðarkirkjugarði –
Þetta er klukka dauðans.”

Jónsbásar

Jónsbás.

“Það er hún, þessi gamla, kopargræna skipsklukka í litla turninum í kirkjugarðinum á Stað, sem hringir líkhringinguna út yfir leiðin í þessum grafreit Suðurnesja. Ómar hennar eru síðasta kveðja lífsins til látinna.
Hún á sína sögu, þessi klukka.
-Sú saga minnir líka á dauðann, ekki síðnur en núverandi notkun hennar. Það er dapurleg saga um mannlega villu og synd og sviplegan dauða. — Þegar maður les hina stuttorðu áletrun: S.S. ANLABY – 1896 – Hull, þá mun sumum ef til vill koma í hug þessi orð postuans í Rómverjabréfinu: “Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn“.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Anlaby var brezkur togari, sem strandaði dimma óveðursnótt vestan við Jónsbásskletta á Húsatóftafjöru í Grindavík 14. janúar 1902. Áhöfnin var 11 manns og fórust þeir allir. Skipstjórinn var enginn annar en hinn alræmdi landhelgisbrjótur Carl Nilsson, eða Sænski Carl, eins og sumir kölluðu hann.
Hann var skipstjóri á togaranum Royalist nr. 423 frá Hull, sem sökkti bátnum undir Hannesi Hafstein á Dýrafirði 10. október 1899 og varð þrem mönnum að bana. Fyrir það ódæði var hann síðar dæmdur í fangelsi í Danmörku. Er hann hafði lokið refsivist sinni hélt hann á Anlaby á Íslandsmið, sagður alráðinn í því að hefna ófara sinna á Íslendingum og velgja þeim undir uggum. „En hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna undir Jónsbássklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna, “eins og Guðsteinn Einarsson kemst að orði í ritgerð sinni í bókinni: Frá Suðurnesjum.

Jónsbásar

Jónsbássklettar.

Daginn áður en Anlaby strandaði, var veður gott, næstum logn en dimmt í lofti. Þennan dag var Sæmundur á Járngerðarstöðum, þá 13 ára, gendur út með sjó að huga að kindum. Sá hann þá marga togara að veiðum skammt frá landi. Það var sorgleg sjón, en því miður alltof algeng á þeim árum, því lítt fengu landsmenn reist rönd við yfirgangi útlendra veiðiþjófa.
Um nóttina gerði versta veður. Næsta dag var Björn, vinnumaður Einars í Garðhúsum að ganga til kinda á þessum sömu slóðum. Þegar hann kom út í Hvalvík, sem er skammt austan Jónsbásskletta, fann hann þar mannslík nokkru ofan við flæðarmál. Maðurinn hafði bundið sig við belg og var auðséð, að hann hafði komizt lifandi í land þótt ótrúlegt væri í slíku hafróti. Hann hafði farið úr öðru stígvélinu og lá það við hlið hans. Alls rak 10 lík af Anlaby.

Staður

Staður.

Hreppstjóri Grindvíkinga, Einar Jónsson á Húsatóftum, sendi þegar hraðboða til Hafnarfjarðar á fund Pál sýslumanns Einarssonar með tilkynningu um strandið. Skrifaði sýslumaður hreppstjóra með sendimanni til baka, bað hann bjarga því, sem ræki úr skipinu og láta leita fjörur að líkum hinna drukknuðu, og ef þau fyndust, þá að láta jarða þau að kristnum sið.
Jafnframt ráðfærði sýslumaður sig, pr. telefon, við enska consulatið í Reykjavík og hafði samráð við það um allar framkvæmdir í sambandi við strandið. Þann 20. lagði sýslumaður af stað til Grindavíkur, en sakir illviðra og annarra tálmana náði hann ekki þangað fyrr en á 3ja degi. Voru þá fundin 4 lík og næsta dag fundust önnur fjögur, segir sýslumaður í skýrslu sinni.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið h.m.

Það sem rekið hafði úr skipinu var aðallega timbur, allt brotið í spón. Skipið hafð brotnað í þrennt, framstafninn og skutinn hafði rekið á land, en sjálfur skrokkurinn var spölkörn frá landi, alltaf í kafi. Og enn í dag má um stórstraumsfjöru, sjá vélina úr Anlaby standa þangi vaxna langt frammi á Húsatóftafjöru.
Allt strandið, einnig skrokkurinn, var selt á uppboði 23. janúar. Síðar, eða 17. febrúar var svo haldið annað uppboð á ýmsu rekaldi sem þá hafði borizt á land, ennfremur talsverðu af fatnaði skipverja, sem hirtur hafði verið og rækilega sótthreinsaðir af „fagmanni” undir umsjón hreppstjóra.

Alls nam andvirði seldra muna á þessum uppboðum 728 krónum og 35 aurum. Hins vegar voru gjöldin heldur meiri, eða 743 krónur og 18 aurar svo það vantaði nœstum 15 krónur á að skipveriar á Anlaby ættu fyrir útför sinni.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.

Frá líkfundunum og útför skipverja greinir prestsþjónustubók Staðarsóknar á þessa leið:
Í janúr 1902 fundust níu lík af sjó rekin af botnvörpuskipinu Anlaby, sem brotnaði í spón á Húsatóftafjörum 14. janúar. Voru 4 líkin greftruð 24. janúar og fimm líkin greftruð 27. janúar. Í febrúar rak upp 10. líkið og var það greftrað 6. febrúar.”
Þá vantaði það ellefta. Hver var hann? Um það segir Guðsteinn frá Húsatóftium í fyrrnefndri ritgerð:
„Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og sendar höfðu verið lýsingar af líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði væri skipstjórinn sjálfur, Carl Nilsson.”
En þótt þessi lítt þokkaði brezk-sænski skipstjóri næði ekki að fá leg í íslenzkri mold, Sét hann sig hér ekki án vitnisburðar. Á þessum tíma var vinnukona á Stað í Grindavík, sem átti von á barni. Hennar vitjaði Sænski-Carl í draumi oftar en einu sinni. Hún mun haía skilið heimsóknir hans á þá leið að hann væri að biðja hana að koma upp nafni sínu ef hún mundi son ala.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Og svo varð. Vinnukonan á Stað fæddi dreng 31. júlí um sumarið. Þann 5. ágúst var hann vatni ausinn og hlaut nafnið Karl Nilson.
Þannig má segja að skipstjórinn á Anlaby hafi á vissan hátt „náð landi” í Grindavík þótt hann hlyti hina votu gröf í hafrátinu við Jónsbásskletta, lítt harmaður af því fólki, sem jafnan mun líta á hann sem holdi klæddan ofstopa og yfirgang gegn varnarlausri þjóð, sem var að leita réttar síns á eigin fiski miðum og verja lífsbjörg sína. – G. Br.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær.

Í Þjóðviljanum 1902 segir: “Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar”:
“Enskt botnvörpuskip, Anlaby að nafni, strandaði í Grindavík fyrir skömmu, og brotnaði i spón.
Skipstjóri á „Anlaby” var Nilsson sænski, er olli manndauðanum í Dýrafirði haustið 1899.
Hann var ný sloppinn úr betrunarhúsinu, eptir að hafa tekið þar út hegninguna, og réðst þegar, sem skipstjóri á „Anlaby” og lagði af stað frá Hull í fyrstu veiðiferð sina, á jóladagsmorguninn.
Enginn vafi getur á því leikið, að skipshöfnin á „Anlaby” hefir öll drukknað, enda voru tvö lík rekin í Grindavíkinni, er síðast fréttist.
Svo er að sjá, sem þeir félagar hafi verið að ólöglegum botnvörpuveiðum, því að botnvarpan var í sjó, en þá orðið of nærri landi, sakir þoku eða myrkurs, og skipið steytt á steini, og liðazt þar sundur, en skipverjar eigi fengið borgið sér til lands, sakir brims. Brottför Nilsson’s úr heimi þessum hefur því orðið all-kynleg og svaðaleg, — að drukkna þannig, er hann leitaði landsins aptur, fyrsta skipti, og var tekinn til fyrri iðju sinnar, ólöglegra landhelgisveiða.”

Fréttin var endurskrifuð í Heimskringlu sama ár.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 131. tbl. 14.06.1970, Í Staðarkirkjugarði, séra Gísli brynjólfsson, bls. 6.
-Þjóðviljinn, Þjóðviljinn ungi, 4.-5. tbl. 28.01.1902, Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar, bls. 29.
-Heimskringla, 22. tbl. 13.03.1902, Sænski Nilson drukknar, bls. 1.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Ása

Í Þjóðmálum, 2. hefti 01.06.2015, er fjallað um “Ásustrandið 1926” utan við Járngerðarstaði í Grindavík, en það mun hafa verið upphafið að endalokum Duus-verslunar í Keflavík. Enn í dag má sjá ketilinn úr togaranum á fjöru í Stórubót, auk þess enn má bera augum skipsbjölluna sögulegu á veitingastaðnum Bryggjunni í Grindavík.

Duus

Hús Duusverslunar í Keflavík.

“Peter Duus og kona hans, Ásta Tómasdóttir Beck, stofnuðu útgerðar- og verslunarfélagið H.P. DUUS árið 1848. Það var starfrækt í Keflavík til ársins 1920 þegar starfsemin var flutt til Reykjavíkur. Árið 1904 keypti H.P. Duus, eða Duusverslun, tæplega níutíu tonna kútter sem bar nafnið Ása. Kútter Ása strandaði við Hvalsnes 10. október 1917. Þrátt fyrir erfið skilyrði bjargaðist áhöfnin í land og varð ekki manntjón. Skipið var á leið til útlanda með saltfiskfarm, veðrið var ágætt en skyggni lítið vegna þoku.
H.P. Duus lét óhappið ekki slá sig út af laginu og uppfærði hinn ónýta kútter þegar í almennilegan togara úr járni. Sá hét áður Vínland en fékk nú nafnið Ása. Hann var var ríflega þrjú hundruð tonn, smíðaður í Hollandi 1917 og talinn hið ágætasta skip.
Útgerðin gekk ágætlega næstu árin, allt fram að því að Ása strandaði á Víkurflúðum undan Malarrifi í desember 1925. Togarinn eyðilagðist á strandstað en áhöfnin bjargaðist eftir nokkra hrakninga, líkt og gerðist þegar kútterinn Ása strandaði við Hvalsnes. Rétt eins og þá var það var talið sérstakt happ að áhöfnin skyldi sleppa ósködduð úr strandi á þessum stað í slæmu veðri.
Fram að þessu strandi hafði verið nokkur völlur á Duus-verslun. Hún átti í byggingu nýjan togara í Englandi hjá skipasmíðastöðinni Smiths Dock Co. Ltd. Þrátt fyrir að strand Ásu við Malarrif skekkti nokkuð fjárhag fyrirtækisins var nýsmíðinni haldið áfram og og var nýi togarinn sjósettur í febrúar 1926. Mánuði síðar kom skipið til Reykjavíkur í fyrsta sinn, nefnt Ása RE 18, þrátt fyrir fyrri áföll tveggja skipa með því nafni.

ÁsaDuus-verslun átti allt sitt undir útgerð þessa skips. Það var vel vandað að allri gerð og talið eitt glæsilegasta og best búna skip togaraflotans.  Skipið fór í sínu fyrstu veiðiferð á svonefndum Grunnhalla á Selvogsbanka. Þar fékkst fullfermi og upp úr miðnætti 2. apríl 1926 var haldið af stað til Reykjavíkur.
Klukkan að ganga fjögur um morguninn varð fólk í Grindavík þess vart að skip var strandað á Flúðum austan Járngerðarstaðahverfis. Skipverjar sendu belg í land með orðsendingu þess efnis að þeir myndu halda kyrru fyrir í skipinu uns fjaraði út. Með orðsendingunni fengu Grindvíkingar að vita um hvaða skip var um að ræða.
Um hádegisbil lét áhöfn Ásu björgunarhring með línu reka í land. Björgunarmenn drógu síðan togvír á línunni og festu í landi. Áhöfnin sagaði í sundur tunnu og útbjó björgunarstól og einnig bjuggu skipverjar til dragreipi.

Ása

Ketill Ásu í Stórubót – h.m.

Á þessum tímum voru ekki komin björgunartæki sem nú eru til, enda var erfitt að koma á sambandi milli skips og lands. Það var álandsvindur á suðaustan og nokkur stormur en í land var löng leið því að þarna er útgrynni. Fyrst vildi línan festast í botni þar til haft var nógu stutt á milli flotholta á henni, þá fékkst hún til að reka vestur á Stórubót. Á lága sjónum var hægt að fara á bát út á Bótina og ná þannig í belginn. Þá var eftir að bera línuna þangað sem styst var í land frá skipinu en það var í Eystri-Hestaklettinum. Eftir að það hafði tekist var fljótlega gengið frá tækjum svo að hægt væri að draga mennina í land. Það gekk vel og allir björguðust.
Þar sem hér var um nýtt skip að ræða var mikið gert til að ná því út aftur. Meðal annars var fengið til þess danskt björgunarskip, Uffe. Það mun hafa verið í maímánuði sem Uffe byrjaði á björgunarstarfinu og var við það nokkuð fram í júnímánuð. Mestur tíminn mun hafa farið í að létta Ásu og steypa í göt sem komin voru á botninn og einnig að slétta fjöruna sem draga átti skipið eftir.
ÁsaÞegar þessum undirbúningi var lokið var á stórstraumsflóði farið að taka í skipið og var það dregið 2–3 lengdir sínar út. Af einhverri ástæðu var þá hætt að draga skipið þannig út, með afturendann á undan, og farið að snúa því þarna í fjörunni. En þegar skipið var komið nokkurn veginn þversum, þ.e. lá flatt fyrir sjónum, hreyfðist það ekki meira — og þannig var skilið við það litlu seinna. Það hélt margur hlutlaus áhorfandinn að hægara hefði verið að snúa skipinu þegar það hefði verið komið á flot en að gera það meðan það lá í fjörunni.
Fyrstu dagana í júlí gerði storm og brim. Á einu flóðinu hvarf Ása algerlega svo að ekkert sást eftir nema brak í fjörunni og ketillinn þar sem skipið hafði verið. Svo virðist að það verki eins og dínamítsprengja þegar brimsjór fellur ofan í skip með opnar lúgur, krafturinn er svo mikill á sjónum ásamt því að samþjappað loft er inni í skipinu. Jafnvel þótt um járnskip sé að ræða geta þau tæst í sundur undan nokkrum sjóum.
En þótt brimaldan brjóti skipskrokka, gamla sem nýja, eru nokkrir hlutir um borð í togurum sem brim nær ekki að mala. Togspil, gufuketill og aðalvél eru svo gegnsterk að þótt allt annað hverfi standa þau af sér stórsjóina til áratuga og verða eins konar minnismerki um liðna atburði og hálfgleymda. Þannig er einmitt um ketil og aðalvél Ásu RE 18 sem enn má sjá á fjöru neðan við Stórubót vestan Grindavíkur.

Ása

Ása – bjallan á Bryggjunni.

Vel má gera sér í hugarlund það áfall sem eigendurnir urðu fyrir þegar hinni nýju Ásu tókst ekki einu sinni að ljúka sinni fyrstu veiðiferð. Það hafði aldrei verið landað afla úr skipinu en það var að fara í land, sem fyrr segir, með fullfermi úr sinni fyrstu veiðiferð.
Sú saga gekk á sínum tíma manna á meðal að upphaf endaloka Duus-verslunar hafi verið þegar hún hóf byggingu fiskhúss við Kaplaskjól í Reykjavík árið 1917. Þar sem húsið átti að standa var fyrir hóll. Þegar farið var að grafa fyrir grunni hússins dreymdi stúlku eina í nágrenninu að til hennar kæmi kona. Hún bað stúlkuna að fara til Duus og segja honum að hún byggi í hólnum og biðja hann að byggja hús sitt annars staðar. Stúlkan gerði svo sem fyrir hana var lagt. En hún talaði fyrir daufum eyrum. Duus hafði ekki trú á draumnum og lét halda áfram byggingunni. Konan hélt áfram að birtast stúlkunni í draumi og varð því þungbúnari sem byggingunni miðaði áfram. Að endingu lét hún svo um mælt að verk þetta skyldi marka endalok velgengni Duus-verslunar.
Hvort sem marka má drauminn eður ei reið hvert áfallið af öðru yfir Duusverslun upp frá þessu og þrjá skipstapa á nokkrum árum — síðast strand hinnar nýju Ásu — þoldi fyrirtækið ekki.
Eitt af því sem varðveittist í Ásu-strandinu við Grindavík 1926 var skipsbjallan. Líklega hefur Einar Einarsson, útgerðarmaður og stórkaupmaður í Grindavík, eignast bjölluna eftir strandið. Næstyngsti sonur Einars, Hlöðver Einarsson, seldi bjölluna síðar Davíð Sch. Thorsteinssyni iðnrekenda og athafnamanni. Haustið 2014 gaf Davíð Jóhannesi Einarssyni, einum af yfirmönnum Cargolux í Lúxemborg, síðar ræðismanni Íslands í Mónakó, bjölluna, en Jóhannes er yngri sonur Einars Sigurjóns Jóhannessonar sem var fyrsti vélstjóri á Ásu.”
Bjallan framangreinda hangir nú á veitingastaðnum Bryggjunni við höfnina í Grindavík þar sem meðfylgjandi mynd var tekin.

Heimild:
-Þjóðmál. 2. hefti 01.06.2015 – Ásu-strandið 1926, bls. 52-55.

Ása

Ása – skipsbjallan á Bryggjunni.

Jamestown

Í Ægi árið 1930 er m.a. fjallað um “Reykjanesstrandið mikla” utan við Valahnúksmöl á Reykjanesi og “Stóra strand” Jamestown við Hvalvík utan við Ósa, gegnt Höfnum:

“Hr. hreppstjóri Ólafur Ketilsson á Óslandi í Höfnum: hefur sent »Ægi« ágæta grein um skipströnd þar syðra. Með því hér er um langt mál að ræða, en rúm í «Ægi« af skornum skammti, er eigi unnt að birta greinina í einu lagi, en þar eð hún er bæði ítarleg og skemmtileg, verður hún að birtast í pörtum eftir því sem rúm leyfir.

Valahnúksmöl (Reykjanesstrandið mikla).

Valahnúkur

Valahnúkur og Valahnúskmöl.

Á fyrsta tug 19. aldarinnar, rak á land á svo nefndri Valahnúkamöl á Reykjanesi, geysilega stór timburfloti; var flotinn benslaður með sverum járnböndum þversum og langsum. Í flota þessum voru mörg hundruð ferköntuð tré frá 12—18 álna löng, og frá 12—18 þml. á kant. Flest voru trén úr furu — Pitch-pine, og svo nokkur eikartré. Um stærð flotans má nokkuð marka af því, að 18 al. löng trén stóðu upp á endann, sem bindingur til og frá í flotanum, og svo haganlega var hann byggður, að hvergi var hægt að fela hönd á millum trjánna, en fleiri þúsund smá eikarbútar frá 1—3 al. voru líka í flotanum, kallaðir tylftarstykki, til uppfyllingar í allar holur millum trjánna. Sagt var að floti þessi hefði átt að fara til Englands frá Ameríku, en að skipið hefði farist, sem hafði hann í drætti en sennilega hefur skipið verið komið upp undir Reykjanes er það fórst, því mikið af fataræflum og öðru dóti var á flotanum, sem sýndi að menn höfðu verið á honum, fyrir skemmstu, áður en hann bar að landi.
Uppboð var haldið á öllum trjánum, eftir að búið var að bjarga öllu undan sjó, en um verð á trjánum er mér ekki vel kunnugt, en dýrasta tréð fór á 12 dali (24 kr.) og keypti það Brandur heitinn Guðmundsson langafi Björns Þórðarsonar kaupmanns á Laugavegi 46.
Tugi ára var svo verið að saga niður í borðvið öll þessi tré, sem keypt voru mestmegnis af Vatnsleysustrandar, Rosmhvalaness, Grindavíkur og Hafnahreppsbúum; var allt reitt á hestum, þegar búið var að koma því í borð. Aðeins Hafnahreppsmenn fluttu flest trén heil sjóveg, höfðu stundum 5—6 tré aftan í skipinu í einu; var þá lagt á stað frá Reykjanesi um stórstraumsfjöru, og norðurstraumurinn svo látinn hjálpa til með róðrinum. Síðustu tré Hafnamanna voru sótt 1852, af Gunnari sál. Halldórssyni, föður séra Brynjólfs sál. mágs mín, sem var prestur að Stað í Grindavík.*

Jamestown (stóra strandið).

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki, var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinum, að það mundi mannlaust með öllu. Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á »Þórshöfn« skammt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverzlun í Keflavík, Skipstjórinn hét Petersen; sagði hann okkur strax, sem skipið var strandað, að það væri amerískt timburskip, fullt stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra, sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofandekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefur skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hér við land.

Jamestown

Ólafur Ketilsson við ankeri af Jamestown.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist var um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið! og aldrei gleymi ég þeirri stund, þegar ég, þá 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inn á þilfari »Jamestown«, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma langa skipsbákn 1 Set ég hér stutta lýsingu á »Jamestown« hinu stærsta skipi, sem strandað hefur við Ísland, síðan landið byggðist.
»Jamestown« var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man ég ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því.
Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiptur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn þá eftir 50 ár blasir við augum mínum einn óskaplegi geimur, efsta lestin, þegar búið var loks að tæma hana, 60 faðma langa, og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, á af því nokkurn veginn gera sér grein fyrir, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.
Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn Willum aftasta og mið siglutrés, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða réttara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefur að öllum líkindum verið forðabúr skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m. m., og hrannir af spýtnabraki, póleruðu mahoni, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangaðúr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita, og mahoníþiljur voru sums staðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru og minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skipt í svefnherbergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar afborðbúnaði, eða neinu því, sem verðmæti var í.
Af öllu því tröllasmiði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrennt, sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutréð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afarsverumjárngjörðum, annað undirbugtspjótið, sem kallað er, 36 þml. á kant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get ég ekki gert neina ágiskun um, en ég vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hékk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). — Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hana úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brennt bréf hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mélaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæva af landinu, kom um sumarið til þess að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur ! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokk skipsins.
Eftir að »Jamestown« strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem enn þá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir félagar mikið af verkafólki hér, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun, þótti þá óheyrilega hátt kaup, og allt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskvöldi. Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur i uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þekktust ekki tálsnörur núlímans, bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!

JamestownHvað margir »Loggortu«farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man ég ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum flotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft frá 12—20 plankar á hvern mann, í helmingaskiptum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnanstormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600—800 st. í einu!
Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu. í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt í sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10—20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd 6—11 tom. Kristján sál. Jónsson, hæstaréttardómari, var þá sýslumaður i Gullbringusýslu, og hélt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25—50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú. Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr„ en skipið sjáltt með öllu timbri sem í því var í mið og neðstu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 301,00, en hann bauð í það fyrir föður minn og aðra suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.

Jamestown

Grjót úr ballest Jamestown.

Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og allt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Ég minnist þess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hét Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíulesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Allt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kg. til Englands af kopar. Það eina, sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af suðurnesjabændunum söfnuðu að sér af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eflir, að á hafði verið tekið.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir í Hraunu. Húsið var að mestu byggt úr viðum Jamestown.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afar mikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt enn þá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti þessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei séð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.

Jamestown

Ankeri úr Jamestown. Viktor Guðmundsson stendur hjá.

Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var ég oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sagast fram í briminu og hvolft þar úr sér á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hins vegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa i þessi 50 ár. Það eina, sem mér er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður Ólafsson, bóndi í Merkinesi náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola. Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fékk af silfri veit ég ekki, því ég sá það aldrei.
Eg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótal margt sé enn þá ósagt, en sökum þess að mér er ekki kunnugt um, að nokkur maður, allt til þessa hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi ég ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi.”
Sjá meira um Reimleika í Valahnúkshelli í tengslum við “Reykjanesstrandið mikla og einnig meira um Jamestown-strandið.

Heimildir:
-Ægir – 11. Tölublað (01.11.1930) – bls. 138-140.
-Ægir – 12. Tölublað (01.12.1930) – bls. 273-275.

Ásláksstaðir


Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd eru að mestu byggðir um viðum Jamestown.

Grindavík

Þessi “Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850—1927, byrtist í Ægi árið 1927:
1. „Delphin”, frönsk loggorta, strandaði á Kasalóni laust eftir 1850. -Menn björguðust allir. Skip þetta var tekið út sumarið eftir. Keyptu það Sveinbjörn Ólafsson kaupmaður í Keflavík o. fl.
Glitner-2312. „Beta”, dönsk jakt lítil. Rak hún á land í Hrólfsvík, en skipshöfn mun hafa druknað í hafi. Var skipið á leið til Búða með vörur.
3. „Kapracius”, frönsk skonnorta, strandaði á Þorkötlustaðabót. -Menn björguðust allir.
4. „Vega” 30. apríl 1885, þýsk skonnerta, með saltfarm til Reykavíkur, strandaði á Þorkötlustaðnesi. -Menn björguðust allir.
5. „Brise”, frönsk skonnerta, standaði á Arfadal. Skip þetta hafði orðið fyrir ásiglingu á hafi úti og sigldi upp vegna leka, um bjartan dag.
6. „Lonaine”, frönsk skonnerta. Strandaði 28. apríl 1885 á Hraunssandi og var leka um kent. -Menn björguðust allir.
7. „Petit Jean”, frönsk skonnerta. Rak upp á Hraunsfjörur og varð ekki vart við neinn mann. Hafa því að líkindum allir drukknað áður en skipið kom að landi.
8. „Glitner”, norskur galeas. Rak á land á Járngerðarstaðvík 11. júlí 1896. -Menn björguðust allir.
9. „Fortuna”, dönsk skonnerta. Rak á land á Járngerðarstaðavík 29. júlí 1897. -Allir björguðust.
10. „Flora”, norskur galeas. Rak á land á Járngerðarstaðavík 7. júlí 1903. -Menn björguðust.
11. „Oddur”, gufubátur frá Eyrarbakka. Rak á land á Járngerðarstaðavík. -Menn björguðust.
12. „Minna”, þýsk skonnerta. Rak á land á Járngerðarstaðavík 17. júlí 1906. -Mannbjörg.
einar g. einarsson-23113. „Henrij Rheid”, mótorbátur frá Hafnarfirði, Rak á land á Járngerðarstaðavík 16. febrúar 1907. -Mannbjörg.
14. „Engjanes”, botnvörpuskip frá Vídalínsútgerðinni í Hafnarfirði. Strandaði á flúðum utan við Járngerðarstaði, aðfaranótt 3. okt. 1899. Kent um óþektum straum og truflun á áttavita. -Menn björguðust allir.
15. „Rapid”, norskt flutningagufuskip, strandaði á sama stað og nr. 14. Strandið kent, að sést hafi ljós í glugga, er yfirmenn álitu að væri Reykjanesviti, einnig skekkju á áttavita. Þetta skeði 15. nóv. 1899, kl. 3 árdegis. -Menn björguðust.
16. „Anglaby”, enskur togari, strandaði á tanga austan við Karfabás 14. jan. 1902. Drukknuðu þar allir. Skipstjórinn var Nelson, hinn alþekti landhelgislagabrjótur,
17. „Sheldon Abbey”, ensk skonnerta, strandaði á Þorkötlustaðanesi. Var með salt og tunnufarm til Reykjavíkur. -Menn björguðust.
18. „Varonell”, enskur togari, strandaði á flúðum, utan við Járngerðarstaði
20. janúar 1913. Þrír menn druknuðu, en hinum tókst að bjarga.
19. „Karl Markmann”, þýskur togari. Rakst á sker, líklega Þorkötlustaðanes, en losnaði aftur og sökk skipið skamt undan landi 8. des. 1913. —Menn björguðust á skipsbátnum og náðu landi á Sandvík vestan við Reykjanesvita.
20. „Resolut”, mótorkútter frá Reykjavík, strandaði vestan við Hásteina 10. spet. 1916. Hafði stýri bilað. — Mannbjörg.
21. „Schlutrup”, þýskur togari. Strandaði við Stekkjarnef. -Menn björguðust allir.
22. „Anna”, færeyskur kútter, strandaði austan við Staðarberg 3.—4. apríl 1924. Týndust allir menn 15 að tölu; ráku 9 á land og voru jarðsungnir hér í Reykjavík 11. apríl. („Anna” hét áður „Sléttanes” og var keypt héðan).
23. „Ása”, togari H. P. Duus verslunar í Reykjavík. Strandaði á flúðum vestan við Járngerðarstaði. Áttavitaskekkju kent um. -Allir björguðust. (Skipið nýtt).
24. „Hákon”, mótorkútter frá Reykjavík. Strandaði við Skarfatanga 9. maí 1926. Sigldi á land í svörtum bil. -Menn björguðust í skipsbátnum.

Sjóslys

Sjóslys.

 Þessa skýrslu um skipaströnd hefir hr. kaupmaður Einar G. Einarsson í Garðhúsum tekið saman eftir beiðni, og bætir eftirfarandi við:
„Til skýringar skýrslu þessari vil ég taka þetta fram, að hún er skrifuð eftir minni og ekki þar stuðst við nein heimildarrit eða minnisbækur og vegna þess er flestum ártölum slept, samt geri ég ráð fyr að hún sé í öllum aðalatriðum rétt og að ekki sé neitt skip rangtalið, sem hér hefir strandað á þessu timabili.
En frekari upplýsingar um þetta má eflaust fá í Þjóðvinafélagsalmanakinu, yfir þann tíma, sem það nær, svo og í bókum Gullbringusýslu, þvi fram til síðustu tíma voru öll skipströnd meðhöndluð af sýslumönnum.
5 skip eða nr. 8—12 í skýrslunni, hafa slitnað upp á Járngerðarstaðavík. 2 skip, nr. 2 og 7 hafa sennilega rekið mannlaus á land, skipshafnir verið búnar að skilja við þau, eða hafa druknað á rúmsjó, og 2 skipin, nr. 5 og 6, líklega siglt viljandi á land.

Sjóslys

Sjóslys.

Öll hin skipin, 15 að tölu, hafa strandað af einhverjum atvikum, sem menn ekki hafa getað ráðið við, og þá líklega í mörgum tilfellum, að einhverju leyti, af skekkju á áttavitum. Í því sambandi mætti ef til vill geta sér til, að hraunið hér, sem alstaðar liggur út í sjó, kunni að vera mengað þeim efnum (járni), er hafi áhrif á áttavitana.

Garðhúsum 27. júní 1927. (Sign.) Einar G .Einarsson.

Skýrslan og skýringar þessar eru settar í „Ægi” til þess að benda á, að hér muni eigi vanþörf að vita verði hið bráðasta komið upp. Síðasta Alþingi hafði þetta með höndum og munu undirtektir hafa verið hinar bestu og að sögn vitamálastjóra, mun viti verða reistur á Hópsnesi á komandi sumri.

Sjóslys

Sjóslys.

Til áréttingar því, sem hr. Einar G. Einarsson segir um áttavitaskekkju á þessum slóðum, sem sjómenn hafa orðið varir við, geta þar einnig verið óreglulegir straumar, sem mönnum er það ekki hulið, að vegna jarðskjálfta, hefir komið fyrir að Reykjanesviti hefir ekki logað þegar hann átti að gjöra það. Er því brýn nauðsyn, að fyrirhugaður viti í Grindavík, sendi frá sér ljós, sem sé vel aðgreint frá Reykjanesljósinu, svo aldrei komi það fyrir, að skip, sem úr hafi koma, geti vilst á þeim. Hafi orðið að slökkva ljósið á Reykjanesvitanum i fyrra vegna jarðskjálfta, getur hið sama orðið í ár og önnur ár. Enginn segir fyrir, hvenær skip þurfi a Reykjanesvita að halda; getur það orðið jafnt í jarðskjálfta, þegar ekki er auðið að sýna ljós, og þegar alt er í lagi; en sökum þessa mikla ókosts Reykjaness fyrir sjófarendur, virðist svo, sem brýn nauðsyn heimti, að Grindavíkurvitinn verði góður viti vegna þess, að svo getur viljað til, að hann verði eini landtökuvitinn á þessum hættulegu slóðum.
(Ég hef bætt ártölum og mánaðardögum inn í skýrslu Einars eftir föngum).

Reykjavík, 15. okt. 1927. Sveinbjörn Egilson”

Heimild:
-Ægir, 20. árg. 1927, bls. 220-222.

Grindavík

Grindavíkurbrim.

Brim

“Á þessum 25 árum hafa hjer orðið alls 237 skipströnd. Það er að meðaltali um 9 skip á ári, sem hafa farist eða brotnað.
sjor-231Af þessum 237 skipum hafa 98 skip verið undir seglum, er þeim barst á, 103 hefur rekið á land úr legu, og um 36 veit enginn, þau hafa horfið, og enginn komið fram til að segja hvernig.
Flest hafa skipströndin orðið á vesturströnd Íslands, þ. e. 43 á Reykjanesskaganum og sunnanverðum Faxaftóa, á norðurströnd landsins 59, á austurströndinni 33, og suðurströnd 55, og fara þar vaxandi, og eru flest á svæðinu frá Skaftárós að Kúðafljóti.
11. september 1884 var afspyrnurok á útsunnan um allt land. Þá rak 14 skip á land við Hrísey í Eyjafirði, og vita menn eigi til, að slíkt hafi hent svo mörg skip, hvorki fyrr nje síðar. Flest voru þessi skip norsk. Í norðanveðrinu 2. maí 1907 rak 5 skip á land við Höfn hjá Horni — öll voru þau fiskiskip.
Farist og strandað hafa:
1879—1883 alls 42 skip
1884—1888  —  55 —
1889—1893  —  35 —
1894—1898  —  50 —
1899—1903  —  55 —
2016 menn hafa komist lífs af frá þessum skipströndum og gegnir það furðu, þar sem engin björgunartæki hafa verið fyrir hendi, og mörg ströndin orðið á versta tíma árs í dimmu, hríðum og frosti. – Ægir.”

Heimild:
-Vísir, 30. júní 1914, bls. 2.

Grindavíkurbrim

Grindavíkurbrim.

Kalmannstjörn

Um skipstapann frá Galmannstjörn 10. þ. mán. (Eptir kandid. Odd V. Gíslason).
Hafnir-spil-221Þann 10. þ. m. milli dagmála og hádegis, fórst skip á Gálmatjörn í Hafnahrepp með 15 manns, af hverjnm að 7 náðust lifandi, en 8 drukknuðu og vorn þeir: 1. Formaðurinn Þorgils Eiríksson frá Kambi í Holtum, 2. Hannes Ólafsson, vinnumaður á Gálmatjörn, 3. Ólafr Snjólfsson vinnumaður á Gálmatjörn, 4. og 5. bræðurnir Sigurður og Ísleifur Árnasynir vinnum. frá Garðsauka í Hvolhrepp, 6. Guðmundur Sigurðsson frá Götu í Holtum, 7. Jón Hinriksson frá Ölversholti í Holtum, 8. Jón Vigfússon vinnumaður í Miðkrika í Hvolhrepp. Allir þessir menn voru í bezta aldri frá 20 — 50 ára og voru allir ókvæntir.
Skipstapinn orsakaðist þannig, að sjó tók að brima, og þegar á sund það kom, sem farið var inn um á lendingu, varð frákastið að norðanverðu svo mikið í ólaginu að eigi neitti stjórnar og barst skipið að nefinu, sem er að sunnanverðu við sundið, stóð þar og hvolfdi allt í einu; komust nokkrir á kjöl, og nokkrum varð náð úr landi og á áttæring sem fram var settur, því eigi höfðu aðrir róið þennan dag, og náðust allir.
Þeir sem dauðir voru, voru bornir heim að bæ og var nú óðar sent til Vilhjálms bónda Hákonarsonar í Kirkjuvogi, og brá hann við snögglega, þótt hann væri sjálfur nýkominn úr skinnklæðunum, hljóp suður að Gálmatjörn og að hans tilstuðlan var allt það reynt sem unnt var, til að endurlífga hina drukknuðu, opnuð æð á handlegg, lagðir á tunnur til þess að ná úr þeim sjónum; þarnæst voru spenntir handleggir þeirra fram og upp með höfðinu og svo niður aptur til þess að hleypa lopti í lungun, burstaðir á fótinn, handleggjum og herðum og var þessum tilraunum haldið áfram allan daginn en allt til einskis. Ekki varð vart við nokkurt lífsmark.”

Heimild:
-Þjóðólfur, 18. árg. 1865-1866, bls. 103.

Junkaragerði

Junkaragerði og Kalmanstjörn.

Hans Hedtoft

Í Morgunblaðinu árið 1959 er sagt frá bjarghring úr Hans Hedtoft er rak í Grindavík, en farið hafði farist við Grænland fyrr á árinu:
Hans Hedtoft“Aðfaranótt miðvikudags rak bjarghring úr danska Grænlandsfarinu Hans Hedtoft á land í Grindavík. Mun ekkert annað hafa fundizt svo öruggt sé úr Grænlandsfarinu, sem fórst með farþegum og allri áhöfn [95 manns] SA af Hvarfi á Grænlandi 31. janúar sl. vetur. Er bjarghringurinn óskemmdur og greinilega merktur Hans Hedtoft, Köbenhavn. Er Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni, sem er austasti bær í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík, kom út á miðvikudagsmorgun og niður á tún, sá hann hvar glampaði á eitthvað hvítt úti í fjörunni. Um nóttina hafði verið mikið rok á suðaustan og brim, en um morguninn var komið logn. Gekk hann út með fjörunni og fann óskemmdan bjarghring uppi í malarkambinum.

magnus haflida-221

Tók hann hring inn heim með sér og um kvöldið hafði hann orð á því við Árna Eiríksson, bílstjóra á áætlunarbíl Grindvíkinga, að hann hefði fundið hring merktan Köbenhavn. Árni athugaði hringinn nánar og sá að hann var af Hans Hedtofi. Er hann kom til Reykjavíkur í gær, gerði hann Henry Hálfdánarsyni, framkvæmdastjóra Slysavarnafélags-ins aðvart. Hringdi Henry til Magnúsar bónda og bað hann um að halda á hringnum með sér er hann kæmi næst í bæinn. Sennilega leystur frá skipinu eins og áður er getið, sér nær ekkert á bjarghringnum þó hann hafi hrakizt i sjó í 9 mánuði. Svolitlar skellur eru komnar í rauða litinn, en áletrunin er alveg óskemmd og greinileg. Á tveimur stöðum er eins og eitthvað hafi höggvizt í hringinn og aðeins er að byrja að koma skeljungur á kaðalinn, sem er alveg heill. Enginn spotti er i hringnum og tóið hvergi slitið, svo engu er líkara en að hringurinn hafi verið leystur af skipinu, en ekki slitnað frá því.
Fréttamaður Mbl. átti í gær tal við Magnús bónda á Hrauni. Hann er 68 ára gamall, fæddur og uppalinn á Hrauni og því oft búinn að ganga f jöruna neðan við bæinn. Sagði hann að þar ræki oft ýmislegt, einkum hefði borizt mikið dót á land þar á stríðsárunum, enda væri þetta fyrir opnu hafi. Sagði Magnús að þarna ræki oft brot úr bjarghringum, en þeir ‘væru oftast of illa farnir til að þekkjast.

hans hedtoft - hringur

Við hliðina á hringnum af Hans Hedtoft lá einmitt eitt slíkt brot.
Bjarghringir eru ákaflega léttir og telur Magnús líklegt að hringurinn af Hans Hedtoft hafi borizt fyrir vindi, fyrst suðurum undan norðanáttinni í vetur. þá upp undir Suðurlandið í vestanáttinni og loks hafi honum skolað upp í Grindavík undan suðaustanrokinu, sem staðið hefur nú um langan tíma. Annars er ómögulegt að segja hvað svona léttir, fljótandi hlutir geta flækst, sagði Magnús að lokum.”
Bjarghringurinn nú er varðveittur í kapellunni í Qaqortog eða Julianehåb á Grænlandi.

Heimild:
-Morgunblaðið 9. október 1959, bls. 24.

Hans Hedtoft

Hans Hedtoft.