Kálfatjörn

Kálfatjörn hefur verið kirkjustaður líklega frá upphafi kristins siðar hér á landi.

GoðhóllKálfatjarnarland var, eins og gera má ráð fyrir um kirkjustað, allmikið. Kringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll, einnig önnur, er ekki nutu hlunninda. Þau voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Aðallífsframfæri hafði þetta fólk, sem við sjóinn bjó, af sjávargangi. Hverju býli var úthlutað fjöruparti þar sem skera mátti þang. Það var notað til eldiviðar, einnig þönglar. Um rétta leytið var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða, líka var hirt og þurrkað það þang sem rak á fjöru utan þess tíma, sem þangað var. Þegar þangið var þurrt var því hlaðið í stakka.

Kálfatjörn

Landabrunnur við Kálfatjörn. Ólafur Erlendsson við brunninn ásamt Selvogs Jóa.

Rétt við túngarðinn á Kálfatjörn er vatnsból á sléttum bala. Kallast það Landabrunnur. Þar þrýtur sjaldan vatn. Sjávargata kallast slóðin til sjávar niður í naustin og lendinguna. Niður með sjávargötunni og fast við hana, um 70 m frá hlaðvarpanum, er brunnurinn, vatnsból, sem enn er notað, og var það fyrsta á Vatnsleysuströnd, sem grafið var svo djúpt í jörð að þar gætti flóðs og fjöru. Slíkt var kallað flæðivatn. Síðar þegar sprengiefni kom til sögunnar var þessi brunnur dýpkaður, svo ekki þryti vatn um stórstraumsfjörur. Þá voru teknir brunnar á flestum býlum smám saman, en áður hafði verið notast við vatn, er safnaðist í holur og sprungur á klöppum og voru kölluð vatnsstæði eða brunnar og þá gjarnan kennd við bæina. Þessi brunnur er fallega hlaðinn með með heillegri á svæðinu. Væri vert að skoða hvort hægt væri að endurbyggja yfir hann vindu og lok. Færi það væntanlega vel við hugmyndir fólks um að byggja þarna upp minjasvæði.

Hólskot

Hólskot – brunnur.

Á sumrum, einum er þurrkasamt var, voru hin mestu vandræði með neysluvatn uns flæðibrunnarnir komu. Var þá gripið til þess ráðs að sækja í fjöruvötn, en svo voru kallaðar uppsprettur, er komu í ljós þegar út fjaraði. Voru þau all víða. Þessar uppsprettur voru oft kenndar við bæina, til dæmis Bakkavötn. Við þau var þvegin ull og þvottur. Var þá gerð stýfla úr steinum og þangi. Myndaðist þá dálítið lón sem skola mátti.
Flæðibrunnar voru gerðir við flesta bæi og kot á Reykjanesi. FERLIR hefur skoðað um 90 slíka.

Staður

Brunnur við Stað.

Sumir eru djúpir, rúmgóðir og fallega hlaðnir, s.s. brunnurinn á Stað við Grindavík, sem nú er verið að gera upp (hlaðinn árið 1914), brunninn á Stóra-Hólmi við Garð, Kotvogsbrunninn í Höfnum, brunnana í Flekkuvík og Norðurkotsbrunninn. Marga brunna hefur verið fyllt upp í til að afstýra hættum, s.s. brunninn á Þórkötlustöðum og á Selatöngum. Sumir brunnanna eru upprunanlegir og standa enn vel fyrir sínu, s.s. brunnurinn við kot Hólmfasts í Njarðvíkum og brunnurinn í Merkinesi, sem gengið er niður í og inn í, líkt og gamli brunnurinn við Reykjanesvita (1872) sem og brunnurinn við Nes í Selvogi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Brunnarnir eru oft það eina, sem eftir er af minjum sumra kotanna. Ofan við Gufuskála er fallegt vatnsstæði, sem hlaðið hefur verið í kringum. Vatnsstæðið eða brunnurinn er í raun lind, sem kemur undan klöppunum. Ekki er ólíklegt að þessi lind hafi verið ástæðan fyrir því að Steinunn gamla setti niður bæ sinn á Rosmhvalanesi.

Heimild:
-Úr örnefnalýsingu fyrir Kálfatjarnarhverfi, Ólafur Erlendsson, 18.11.1976, skráð af Kristjáni Eiríkssyni.

Norðurkotsbrunnur

Norðurkotsbrunnur.