Krýsuvík

Um 1930 var erfitt að stunda búskap í kringum Hafnarfjörð, bæjarbúar voru sjálfum sér ekki nógir um neyslumjólk og beitiland vantaði fyrir sauðfé. Ekki fékkst aukið ræktarland úr Garða-kirkjulandi og var þá farið að svipast um eftir öðrum jörðum nærri bænum.
Vinnuskóladrengir við störfKrýsuvík þótti álitlegust og ritaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar Einari Benedikts-syni bréf í janúar 1933 og spurðist fyrir um hvort jarðeignir hans í Krýsuvík eða Herdísarvík væru fáanlegar til kaups.
Tveimur árum síðar átti bærinn kost á að kaupa Krýsuvík fyrir 50.000 krónur og tók jörðina á leigu á fardögum 1935 til eins árs, með það í huga að kaupa hana síðan með gögnum og gæðum. Með lögum nr. 11, 1. febrúar 1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnar-umdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Eftir það upphófst mikið málaþras um væntanleg kaup bæjarins á jörðum Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og afnotaréttinn. Gekk á þessu í nokkur ár þar til lögunum var breytt og tóku lög nr. 101, gildi 14. maí 1940. Þar sagði að Gullbringusýsla skyldi fá í sinn hlut lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar til sumarbeitar fyrir sauðfé samkvæmt skiptagerð frá 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fengi jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem þeim fylgdu og fylgja bæri, að undanteknum námuréttindum. Hinn 20. febrúar 1941 gaf Dóms- og kirkjumálaráðuneytið út afsal fyrir Krýsuvík til Hafnarfjarðar.
Gönguferð við SeltúnÁrið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík.
Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960. Eftir það voru húsin leigð til einstaklinga sem ráku þar ýmiskonar starfsemi, þar á meðal gróðurhús, svínabú og refabú svo fátt eitt sé talið.
Bústjórahúsið var reist árið 1948 fyrir Jens Hólmgeirsson sem átti að stjórna kúabúinu í Krýsuvík. Hann flutti aldrei í húsið og aldrei kom til þess að kýr yrðu bundnar á bása í fjósinu. Árið 1952 sagði Jens stöðu sinni lausri og eftir það var húsið notað í stuttan tíma fyrir stjórnendur vinnu-skólans í Krýsuvík.
Sumarið 1953 var tekin upp sú nýbreytni, að Hafnarfjarðarbær kom á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Milli 40 og 50 drengir dvöldust að öllu leyti í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Þeir héldu til í íbúðarhúsum Krýsuvíkurbúsins. Þessi Unnið við gerð sundlaugar á Bleikhólssandistarfsemi naut mikilla vinsælda meða almennings í Hafnarfirði, enda bætti hún úr brýnni þörf. Færri drengir komust að en vildu. Þeir lærðu ýmiss hagnýt vinnubrögð, voru undir góðum aga og var kennt að meta gildi vinnunnar. Meðal verkefna, sem drengirnir unnu á fyrstu árin, má nefna lagfæringu og snyrtingu á lóð íbúðarhúsanna, vinnu í gróðurhúsunum, ræktun kartaflna, aðstoð við ræktunarframkvæmdir og  heyskap, viðgerðrir á girðingum og margt fleira. Auk vinnunnar stunduðu þeir íþróttir og leiki og fóru í gönguferðir.
Fyrstu forstöðumenn vinnuskólans voru kennarnir Eyjólfur Guðmunundsson og Snorri Jónsson. Á árunum eftir 1960 voru drengirnir í vinnuskólanum í Krýsuvík á aldrinum 8-12 ára. Var þá lögð sérstök áhersla á leiki, og var drengjunum t.d. veitt sérstök tilsögn í knattspyrnu. Nutu þá fleiri drengir dvalar en áður, því starfað var í tveimur flokkum, og dvaldi hvor flokkur fimm vikur í Krýsuvík. rúmlega 50 drengir voru í hvorum flokki. Þeir unnu venjulega fimm til sex stundir á dag, og var vinnan sem áður fyrst og fremst í þágu búsins og gróðrarstöðvarinnar í Krýsuvík. Sumrin 1959 og 1960 unnu drengirnir í unglingavinnunni í Krýsuvík að skógrækt í skógræktargirðingunni í Undirhlíðum og settu þar niður samtals Gönguferð við Arnarvatn50.000 trjáplöntur. Þessi skógræktarstörf voru unnin í samvinnu við Skóg-ræktarfélag Hafnarfjarðar. Unglingavinnan var síðast í Krýsuvík sumarið 1964. Umsjón með starfseminni þar seinni árin höfu kennarnir Haukur Helgason og Helgi Jónasson.
Krýsuvíkursamtökin fengu síðar afnot af starfsmanna-húsinu er hýst hafði vinnuskóladrengina. Og enn liðu áin, bústjórahúsið grotnaði niður og var mjög illa farið þegar Sveinn Björnsson listmálari fékk það til afnota 1974. Hann gerði húsið upp, flutti þangað málaratrönur, pensla, liti og húsbúnað og kom sér upp vistlegri vinnustofu. Sveinn hafði tekið þátt í að reisa þaksperrurnar á fjósinu í Krýsuvík á sínum tíma og þekkti því staðhætti. Þarna starfaði hann að list sinni þar til hann lést 1997. Húsið ber þess merki að þar hefur listamaður verið að störfum. Sveinn skreytti loft, veggi og hurðir hússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Nú kallast bláa húsið með rauða þakinu ekki lengur Bústjórahúsið heldur Sveinshús eftir listmálaranum og rannsóknar-lögreglumanninum Sveini Björnssyni, sem sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft, heldur öðlaðist virðulegan sess sem listasetur.
Þegar vinnuskólinn var í Krýsuvík dvöldust drengirnir 40-50 í fimm herbergjum á fyrstu hæðinni, 8-12 saman í herbergi og undu hag sínum vel. Þá voru engin þrengsli, en ef aðstaðan er skoðuð í dag má telja ótrúlegt að hægt hafi verið að Indíáninn í Kleifarvatnikoma svo mörgum drengjum fyrir í þessum herbergjum. Tvílyftar kojur voru með veggjum, en öðrum húsgögnum var ekki til að dreifa.
Jafnan var upphafið það að mætt var á planið við Lækjarskólann. Þar komu drengirnir með föt sín fyrir dvölina, stígvéli, regngalla og önnur þarfaþing í pappakössum, í besta falli snjáðum ferðatöskum. Eftir að rútan lagði af stað var þögn fyrst um sinn því söknuðurinn var mikill, a.m.k. þegar farið var fyrsta sinni. Margir báru síðar gæfu til þess að fá að fara aftur og aftur í Krýsuvíkina og það jafnvel í bæði hollin. Þegar komið var upp fyrir Vatnsskarðið var tekið til við söng og á móts við Indíánann ráku allir upp öskur að hætti hússins. Þá var ekki aftur snúið. Við tók annar heimur. Kapphlaupið um að komast í tiltekið herbergi og jafnvel tiltekna koju hófst um leið og rútan stöðvaðist á planinu vestan við starfsmannahúsið. Að því búnu var hafist handa við að koma farangrinum fyrir og búa um rúmin. Héðan í frá þurfi hver og einn að sjá um sig, þvo af sér, þrífa, skúra o.s.frv.
Vinnudagurinn hófst með morgunkaffi. Síðan var yfirleitt unnið í flokkum hálfan daginn. Einn varð verkstjóri er hélt öðrum að vinnu og skráði hjá sér verðskulduð laun hvers og eins, allt eftir dugnaði og ástundun. Um var að ræða afkastahvetjandi launakerfi. Eftir hádegisverð var farið í langar Unnið í gróðurhúsinugönguferðir um fjöll og fyrnindi, skipulega leiki eða íþrótta-keppni haldin. Auk þess var alltaf einhver tími til stíflugerðar eða kofabygginga. Um helgar var t. a.m. gengið upp að Arnarvatni, yfir að Víti í Kálfadölum, niður að Heiðnabergi eða farið að veiða í Kleifarvatni. Leikir fólust í að rata eftir vísbendingum, ná herfangi, leysa þrautir eða bara slást þar sem líf hvers og eins hékk á einni teygju um arminn. Knattspyrnukeppnir milli herbergja voru teknar mjög alvarlega, en yfirleitt fóru drengir úr fjórðaherbergi með sigur af hólmi á þeim vettvangi.
Á kvöldin, fyrir kvöldkaffið, voru kvöldvökur eða kvikmyndasýningar á ganginum á fyrstu hæðinni. Síðasti móhíkaninn varð ógleymanlegur. Fyrir svefninn var farið með Faðirvorið. Allir áttu auðvelt með svefn eftir erfiðan dag.
Starfsfólk vinnuskólans var í einu orði sagt frábært. Það hafði utanumhald um hlutina, hélt uppi hæfilegum aga en veitti jafnfram nægan stuðning ef á þurftu að halda. Það var leiðbeinandi og gerði kröfur, en það verðlaunaði alla þá er áttu það skilið með eftirminnilegum hætti. Þannig eiga flestir þátttakendur vinnuskólans enn a.m.k. einn handunnið viðurkenningaskjal, sem þeir fengu fyrir hvaðanæva það er þeir gerðu vel – í lok hvers tímabils.
Söknuðurinn þegar haldið var til baka áleiðis til Hafnarfjarðar eftir sumardvölina var ekki minni en þegar farið var af stað úr bænum í upphafi dvalarinnar.

Heimild m.a.:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar – Krýsuvík.
-Saga Hafnarfjarðar.
-Myndir tók Haukur Helgason.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn.