Rauðshellir

Haldið í hellana norðan Helgadals. Dagurinn var annar í jólum. Frostkyrrð og enginn maður á ferð. Hálfrökkvað, en stjörnunar glitruðu í snjónum. Smáfuglarnir sátu hljóðir fremst í smáskútum og biðu. Mýsnar höfðu greinilega verið að leita matar undir gjárbarminum, en refurinn virtist eiga nóg í greninu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var inn í Rauðshelli hlýnaði og ljósið frá lugtinni laðaði fram rauða litinn úr veggjum og gólfi. Í þessu umhverfi er listaverk náttúrunnar merkilegra og margbreytilegra en nokkurt listaverk uppi á stofuvegg eða á borðum. Ljóslifandi list án þess að nokkur hafi gætt hana lífi. Klakakerti hékk úr lofti og neðst í því hélt sér dropi. Óþarfi að sleppa sér of fljótt niður í óvissuna.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Yfirgefið þrastarhreiður á syllu. Ungarnir, sem það hýsti í sumar, voru nú orðnir fullfærir um að sjá sér farborða. Dropahljóð í þögninni. Litskrúðugt umhverfi í myrkrinu.
Aðkoman í Hundraðmetrarhellinn er ekkí ólíkt því er birtist gestum Maríu og Jóseps í fjárhúsinu forðum; garðar beggja vegna. Gangurinn liðast inn eftir hellinum og virðist enda í rökkrinu. En líkt og lífið – þar sem virðist endir er áframhald. Þrengsli, skrið og síðan nóg rými til að halda auðveldlega áfram. Komið var út á milli stórra steina í jarðfallinu nokkru austar. Haldið var áfram til hægri, inn í hvelfingu Fosshellis. Mikið hrun er í hvelfingunni. Líklegt má telja að rásin haldi áfram til vesturs á bak við það, en talsvert verk er að forfæra grjótið til að komast megi að því.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Hraunfossinn er fallegur. Fyrir nokkrum þúsundum ára var lækurinn lifandi rennsli. Birtan frá honum lýsti upp rásina og sló fagurlituðum bjarma á umhverfið. Síðan hjaðnaði fæðan og efnið leitaði jafnvægir. Umhverfið varð stöðugt og hefur verið það síðan. Eftir stendur flórinn, áhugaverðar hraunmyndanir og frásögnin af því hvernig þetta allt gekk fyrir sig í upphafi. Hana má lesa af veggjunum. Þótt rásin sé ekki löng segir hún frá hringrás efnisins, viðleytninni og átökunum við að komast upp á yfirborðið á ný, kraftaverkunum á leiðinni, lögmálum jarðarinnar og óendanleika alls upphafs. Lífið er samsvarandi þótt í minna mæli sé, bæði í rúmi og í tíma.
Myrkrið breytir litlu við hellaskoðanir.

Rauðshellir

Rauðshellir – uppdráttur ÓSÁ.