Tag Archive for: Helgadalshellar

Helgadalur

Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Gígurinn er aðeins einn og rís 180 m y.s., hlaðinn úr gjalli og hraunkleprum. Hraunið frá honum nefnist einu nafni Búrfellshraun en einstakir hlutar þess hafa sérnöfn;

Helgadalur

Helgadalshellar – uppdráttur ÓSÁ.

•Smyrlabúðarhraun
•Gráhelluhraun
•Lækjarbotnahraun
•Urriðakotshraun
•Hafnarfjarðarhraun
•Garðahraun
•Gálgahraun

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli til sjávar.
1. Sú stærsta fór niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog.
2. Önnur tunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði.
3. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum.

Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir nú. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á Búrfellshrauni.

Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem nær allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.

Helgadalur

Í Helgadalshellum.

Hraunið er talið um 24 km2 að flatarmáli en um þriðjungur þess er hulinn yngri hraunum. Rúmmálið er um 0,5 km3. Það er um 8000 ára og með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu.

Hrauntjarnir og -traðir mynduðust í hrauninu meðan á gosi stóð. Þær stærstu nefnast Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið. Hrauntjarnir mynduðust t.d. í Kringlótturgjá og í Gjánum við Kaldársel, en hraunið, Helgadalshraun / Kaldárhraun, rann úr þeim, bæði neðanjarðar er mynduðu hraunrásir er síðan urðu að hellum líkt og sjá má í Helgadal. Stærstu hrauntraðirnar, auk Búrfellsgjár og Selgjár, eru Lambagjá og Vesturgjá.

Margir hraunhellar, auk hellanna í Helgadal, eru í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir (Skátahellir) yfir 200 m langur, en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk.

Hér má sjá MYNDIR úr Helgadalshellunum.

Helgadalur

Helgadalshellar – uppdráttur ÓSÁ.

Rauðshellir

Haldið í hellana norðan Helgadals. Dagurinn var annar í jólum. Frostkyrrð og enginn maður á ferð. Hálfrökkvað, en stjörnunar glitruðu í snjónum. Smáfuglarnir sátu hljóðir fremst í smáskútum og biðu. Mýsnar höfðu greinilega verið að leita matar undir gjárbarminum, en refurinn virtist eiga nóg í greninu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var inn í Rauðshelli hlýnaði og ljósið frá lugtinni laðaði fram rauða litinn úr veggjum og gólfi. Í þessu umhverfi er listaverk náttúrunnar merkilegra og margbreytilegra en nokkurt listaverk uppi á stofuvegg eða á borðum. Ljóslifandi list án þess að nokkur hafi gætt hana lífi. Klakakerti hékk úr lofti og neðst í því hélt sér dropi. Óþarfi að sleppa sér of fljótt niður í óvissuna.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Yfirgefið þrastarhreiður á syllu. Ungarnir, sem það hýsti í sumar, voru nú orðnir fullfærir um að sjá sér farborða. Dropahljóð í þögninni. Litskrúðugt umhverfi í myrkrinu.
Aðkoman í Hundraðmetrarhellinn er ekkí ólíkt því er birtist gestum Maríu og Jóseps í fjárhúsinu forðum; garðar beggja vegna. Gangurinn liðast inn eftir hellinum og virðist enda í rökkrinu. En líkt og lífið – þar sem virðist endir er áframhald. Þrengsli, skrið og síðan nóg rými til að halda auðveldlega áfram. Komið var út á milli stórra steina í jarðfallinu nokkru austar. Haldið var áfram til hægri, inn í hvelfingu Fosshellis. Mikið hrun er í hvelfingunni. Líklegt má telja að rásin haldi áfram til vesturs á bak við það, en talsvert verk er að forfæra grjótið til að komast megi að því.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Hraunfossinn er fallegur. Fyrir nokkrum þúsundum ára var lækurinn lifandi rennsli. Birtan frá honum lýsti upp rásina og sló fagurlituðum bjarma á umhverfið. Síðan hjaðnaði fæðan og efnið leitaði jafnvægir. Umhverfið varð stöðugt og hefur verið það síðan. Eftir stendur flórinn, áhugaverðar hraunmyndanir og frásögnin af því hvernig þetta allt gekk fyrir sig í upphafi. Hana má lesa af veggjunum. Þótt rásin sé ekki löng segir hún frá hringrás efnisins, viðleytninni og átökunum við að komast upp á yfirborðið á ný, kraftaverkunum á leiðinni, lögmálum jarðarinnar og óendanleika alls upphafs. Lífið er samsvarandi þótt í minna mæli sé, bæði í rúmi og í tíma.
Myrkrið breytir litlu við hellaskoðanir.

Rauðshellir

Rauðshellir – uppdráttur ÓSÁ.

Tag Archive for: Helgadalshellar