Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Gígurinn er aðeins einn og rís 180 m y.s., hlaðinn úr gjalli og hraunkleprum. Hraunið frá honum nefnist einu nafni Búrfellshraun en einstakir hlutar þess hafa sérnöfn;
•Smyrlabúðarhraun
•Gráhelluhraun
•Lækjarbotnahraun
•Urriðakotshraun
•Hafnarfjarðarhraun
•Garðahraun
•Gálgahraun
Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli til sjávar.
1. Sú stærsta fór niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog.
2. Önnur tunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði.
3. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum.
Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir nú. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á Búrfellshrauni.
Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem nær allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.
Hraunið er talið um 24 km2 að flatarmáli en um þriðjungur þess er hulinn yngri hraunum. Rúmmálið er um 0,5 km3. Það er um 8000 ára og með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu.
Hrauntjarnir og -traðir mynduðust í hrauninu meðan á gosi stóð. Þær stærstu nefnast Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið. Hrauntjarnir mynduðust t.d. í Kringlótturgjá og í Gjánum við Kaldársel, en hraunið, Helgadalshraun / Kaldárhraun, rann úr þeim, bæði neðanjarðar er mynduðu hraunrásir er síðan urðu að hellum líkt og sjá má í Helgadal. Stærstu hrauntraðirnar, auk Búrfellsgjár og Selgjár, eru Lambagjá og Vesturgjá.
Margir hraunhellar, auk hellanna í Helgadal, eru í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir (Skátahellir) yfir 200 m langur, en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk.
Hér má sjá MYNDIR úr Helgadalshellunum.