Færslur

Helgadalur

Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Gígurinn er aðeins einn og rís 180 m y.s., hlaðinn úr gjalli og hraunkleprum. Hraunið frá honum nefnist einu nafni Búrfellshraun en einstakir hlutar þess hafa sérnöfn;

Helgadalur

Helgadalshellar – uppdráttur ÓSÁ.

•Smyrlabúðarhraun
•Gráhelluhraun
•Lækjarbotnahraun
•Urriðakotshraun
•Hafnarfjarðarhraun
•Garðahraun
•Gálgahraun

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli til sjávar.
1. Sú stærsta fór niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog.
2. Önnur tunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði.
3. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum.

Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir nú. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á Búrfellshrauni.

Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem nær allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.

Helgadalur

Í Helgadalshellum.

Hraunið er talið um 24 km2 að flatarmáli en um þriðjungur þess er hulinn yngri hraunum. Rúmmálið er um 0,5 km3. Það er um 8000 ára og með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu.

Hrauntjarnir og -traðir mynduðust í hrauninu meðan á gosi stóð. Þær stærstu nefnast Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið. Hrauntjarnir mynduðust t.d. í Kringlótturgjá og í Gjánum við Kaldársel, en hraunið, Helgadalshraun / Kaldárhraun, rann úr þeim, bæði neðanjarðar er mynduðu hraunrásir er síðan urðu að hellum líkt og sjá má í Helgadal. Stærstu hrauntraðirnar, auk Búrfellsgjár og Selgjár, eru Lambagjá og Vesturgjá.

Margir hraunhellar, auk hellanna í Helgadal, eru í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir (Skátahellir) yfir 200 m langur, en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk.

Hér má sjá MYNDIR úr Helgadalshellunum.

Helgadalur

Helgadalshellar – uppdráttur ÓSÁ.

Fosshellir

Farið var að Sandfelli við Þrengslaveg undir röggsamri stjórn JS, vestur yfir Þúfnavelli, nokkuð slétta grasvelli norðaustan Geitafells, og áfram vestur með norðanverðu fellinu. Farið var hægt og rólega, en ekki var látið staðar numið fyrr en komið var að slóðaenda við vesturhorn fellsins, ferð sem Meðaljón á minna en 38” hefði ekki treyst sér í. Frá endastöð sást vel suður yfir Kálfahvamm og Selsvelli fyrir neðan.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Í suðvestur, ofan við Réttargjá, sást í jarðfall. Gengið var þangað og var þá komið að opi Fosshellis. Gatið er mót suðri og rás þar innan við. Hún er stutt og lokast fljótlega með hruni. Efra opið er hins leið inn í mikla hraunrás. Mikil hrauná hefur runnið þar niður og má sjá einstaklega fallegar hraunmyndanir á börmum hennar. Hrauntröðin inni í rásinni er há og mikil. Fara þarf upp á brún hennar og fylgja henni áfram inn eftir rásinni. Á einum stað hangir u.þ.b. 30 metra langt hraunstrá niður úr loftinu. Allnokkurt hrun er úr loftinu niður í rásina, en víða má sjá fallegar hraunmyndanir og tauma liggja niður með veggjum. Innst inni, en hellirinn er um 80 metra langur, er hár, mjór og mikill hraunfoss. Erfitt er að mynda hann allan nema með sérstökum ljósmyndabúnaði. Í góðu ljósi sést vel hversu tilkomumikill hann er. Ofarlega á veggjunum neðan við hann eru mjög fallegar myndanir. Þótt Fosshellir sé ekki langur er full ástæða til að gera sér ferð til að skoða hann.
Frábært veður.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Rauðshellir

Haldið í hellana norðan Helgadals. Dagurinn var annar í jólum. Frostkyrrð og enginn maður á ferð. Hálfrökkvað, en stjörnunar glitruðu í snjónum. Smáfuglarnir sátu hljóðir fremst í smáskútum og biðu. Mýsnar höfðu greinilega verið að leita matar undir gjárbarminum, en refurinn virtist eiga nóg í greninu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var inn í Rauðshelli hlýnaði og ljósið frá lugtinni laðaði fram rauða litinn úr veggjum og gólfi. Í þessu umhverfi er listaverk náttúrunnar merkilegra og margbreytilegra en nokkurt listaverk uppi á stofuvegg eða á borðum. Ljóslifandi list án þess að nokkur hafi gætt hana lífi. Klakakerti hékk úr lofti og neðst í því hélt sér dropi. Óþarfi að sleppa sér of fljótt niður í óvissuna.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Yfirgefið þrastarhreiður á syllu. Ungarnir, sem það hýsti í sumar, voru nú orðnir fullfærir um að sjá sér farborða. Dropahljóð í þögninni. Litskrúðugt umhverfi í myrkrinu.
Aðkoman í Hundraðmetrarhellinn er ekkí ólíkt því er birtist gestum Maríu og Jóseps í fjárhúsinu forðum; garðar beggja vegna. Gangurinn liðast inn eftir hellinum og virðist enda í rökkrinu. En líkt og lífið – þar sem virðist endir er áframhald. Þrengsli, skrið og síðan nóg rými til að halda auðveldlega áfram. Komið var út á milli stórra steina í jarðfallinu nokkru austar. Haldið var áfram til hægri, inn í hvelfingu Fosshellis. Mikið hrun er í hvelfingunni. Líklegt má telja að rásin haldi áfram til vesturs á bak við það, en talsvert verk er að forfæra grjótið til að komast megi að því.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Hraunfossinn er fallegur. Fyrir nokkrum þúsundum ára var lækurinn lifandi rennsli. Birtan frá honum lýsti upp rásina og sló fagurlituðum bjarma á umhverfið. Síðan hjaðnaði fæðan og efnið leitaði jafnvægir. Umhverfið varð stöðugt og hefur verið það síðan. Eftir stendur flórinn, áhugaverðar hraunmyndanir og frásögnin af því hvernig þetta allt gekk fyrir sig í upphafi. Hana má lesa af veggjunum. Þótt rásin sé ekki löng segir hún frá hringrás efnisins, viðleytninni og átökunum við að komast upp á yfirborðið á ný, kraftaverkunum á leiðinni, lögmálum jarðarinnar og óendanleika alls upphafs. Lífið er samsvarandi þótt í minna mæli sé, bæði í rúmi og í tíma.
Myrkrið breytir litlu við hellaskoðanir.

Rauðshellir

Rauðshellir – uppdráttur ÓSÁ.

Helgadalur

Gengið var frá Kaldárseli að hellunum austan Kaldársels, s.s. 90 metra helli, Vatnshelli, Gjáhelli, Rauðshelli, 100 m helli, Fosshelli o.fl. Á leiðinni var gamla vatssleiðsluhleðslan skoðuð. Frá hellunum var gengið yfir að Rjúpnadalahrauni og refagildran undir norðurhorni Húsfells skoðuð. Þá var leitað að gömlu fjárskjóli í Húsfelli, sem sagnir eru til um. Það fannst eftir nokkra leit. Framan við það eru gamlar hleðslur. Frá fjárskjólinu var gengið um gjárnar norðvestan Húsfells, um Mygludali og í Valaból.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Þegar komið var niður í Helgadal var ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, skoðað í dalnum. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.

Kaldá

Kaldá.

Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Gengið var á Kaldárhnjúka og Kaldárbotnar skoðaðir áður en ferðin endaði við Kaldá.
Ferðin tók nákvæmlega 2 klst í ágætu veðri.

Helgadalur

Í Rauðshelli.

Níutíumetrahellir

Gengið var frá Kaldá að Níutíumetrahellinum. Nokkrir duglegir krakkar voru með í för. Þótt opið gefi ekki til kynna að þarna sé langur hellir er hann nú samt sem áður jafn langur og nafnið gefur til kynna.

Helgadalshellar

Í Fosshelli.

Fyrst er komið niður í nokkurs konar lágan forsal, sem þrengist síðan smám saman uns fara þarf niður á fjóra fætur. Sem betur fer var moldin á botninum frosin svoauðveldara var að feta sig áfram inn eftir hellinum. Eftir spölkorn vítkar hann á ný, en þó aldrei verulega. Svo virðist sem hellirinn beygi í áttina að Lambagjá, sem er þarna norðvestan við opið. Sennilega er þessi rás ein af nokkrum, sem runnið hafa í gjána á sínum tíma og myndað þá miklu hraunelfur, sem runnið hefur niður hana til norðvesturs og síðan til vesturs í átt að Kaldárseli.
Þá var haldið niður í Helgadal við horn vatnsverndargirðingarinnar. Þar í brekkunni er Vatnshellir, op niður í misgengi, hægra megin við stíginn. Annað op á helli, ofan í sama misgengið. Gæta þarf sín vel þegar farið er ofan í Vatnshelli. Opið er tiltölulega lítið, en þegar komið er niður virðist leiðin greið til vesturs. Svo er þó ekki því kristaltært vatnið er þarna alldjúp. Það sést hins vegar ekki fyrr en stigið er í það. Ef komast á áfram þarf bát. Það fer þó eftir vatnshæðinni, en vatnið í Kaldárbotnum stöðvast þarna við misgengið á leið sinni til sjávar. Það er ástæðan fyrir tilvist vatnsbóls Hafnfirðinga þarna skammt vestar, undir Kaldárhnúkum.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Áður en haldið var inn í Hundraðmetrahellinn, sem opnast innan úr sprungu, var gengið að Rauðshelli, sem er þar skammt norðvestar. Einhvern tímann hefur hluti hellisins verið notaður sem fjárskjól, a.m.k. gróið jarðfallið við annað op hans. Gömul sögn er til af Rauðshelli, en hellirinn fékk síðar nafnið Pólverjahellir eftir að skipshöfn leitaði þar skjóls. Sjá má bælið við stærra opið. Hellirinn sjálfur er rúmgóður og lítið sem ekkert hrun í honum. Hægt er að ganga svo til uppréttur inn eftir honum, en í heildina er hellirinn hátt í hundrað metra langur. Hann beygir til hægri þegar inn er komið og síðan til vinstri. Fremst í hellinum eru fallegar hraunsyllur. Skammt norðar er forn stekkur. Hann er ekki á fornminjaskrá.

Vatnshellir

Í Vatnshelli.

Þegar komið er niður í sprunguna þar sem Hundraðmetrahellirinn er sést op til norðvesturs. Sá hluti nær einungis nokkra metra. Fallegir steinbekkir eftir storknaðan flór er með veggjum rásinnar er liggur til suðausturs. Hún þrengist smám saman og lækkar uns skríða þarf áfram. Loks lokast hellirinn svo til alveg. Hrunið hefur úr loftinu. Áður fyrr var hægt að skríða áfram og koma upp á milli steina í jarðfalli nokkru austar, en nú þarf grannan mann til ef það á að vera hægt. Mjög erfitt er að finna leiðina í hellinn þeim megin.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Þá var haldið inn í stóra rás við eystri op Hundraðmetrahellis, sem er í rauninni hluti af þeirri fyrri, og inn í Fosshellinn. Í geyminum áður en komið er að fossinum er komið að miklu hruni. Ekki er óhugsandi að rás kunni að leynast efst og norðvestast í hruninu ef nokkrir steinar væru færðir til. Fossinn kemur úr rás í u.þ.b. þriggja metra hæð. Hefur hann storknað þar í þessari fallegu hraunmyndun. Farið var upp í rásina. Fallegur flór sést þar í henni. Gengið var upp eftir honum og áfram út úr rásinni skammt austan fjárgirðingar, sem þar er. Annað op er skammt vestar, en ekki var farið inn í það að þessu sinni. Fosshellirinn gæti verið um 40 metra langur.

Músarhellir

Í Músarhelli.

Frá Fosshelli var gengið upp í Valaból og komið við í Músarhelli. Hann er í rauninni rúmgóður skúti, sem hlaðið hefur verið framan við og gert rammað hurðargat á. Bekkur er þar inni og gestabók. Farfuglar gerðu afdrep þetta á sínum tíma, en síðan hafa skátar og fleiri nýtt sér það af og til. Í Valabóli er fallegur og skjólsæll trjálundur með sléttum grasblettum. Valahnúkar gnæfa yfir með fallegum bergmyndunum.
Veður var ágætt – lygnt, en fremur skuggsýnt. Það kom þó ekki að sök því góð leiðarljós lýstu veginn.
Gangan tók um 2 klst. Frábært veður.

Valaból

Valaból.

Lambagjá

Farið var í hellana sunnan Þverhlíðar norðan Sléttuhlíðar, haldið í Náttaga norðan Kaldársels og þaðan austur yfir hraunið í Kaldárselsfjárhellana gegnt Smalaskála.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Gengið var um Lambagjá, skoðuð hleðslan undir vatnsleiðsluna frá Kaldárbotnum. Farið var undir haftið í Lambagjá og upp í Áttatíumetrahellirinn, litið í hellana í norðanverðum Helgadal (Vatnshelli) og síðan gengið að Hundraðmetrahellinum og hann skoðaður. Ekki var farið í Rauðshelli að þessu sinni, en skammt frá honum er forn hlaðinn stekkur. Líklegt er að Rauðshellir hafi verið notaður sem aðhald eða jafnvel selstaða fyrrum. Hleðslur eru bæði fyrir opum hans og inni í honum. Vel gróið á milli opa. Kæmi ekki á óvart ef þar leyndust minjar undir. Gengið var í gegnum Fosshellirinn, en hann er einn sá allra fallegasti á svæðinu. Í bakaleiðinni var litið aftur í Rauðshelli og skoðuð bælin, sem þar eru og áletrun á norðanverðum barmi opsins. Þá var gamla Selvogsgatan gengin niður að Kershelli og Hvatshelli. Þeir hellar voru skoðaðir, auk þess sem gengið var um Setbergs-og Hamarkotssel og farið í gegnum Ketshelli áður en hringnum var lokað.
Gangan tók 2 ½ klst. Frábært veður.

Helgadalshellar

Rauðshellir.

Fosshellir

Farið var að Sandfelli við Þrengslaveg og síðan haldið sem leið lá vestur yfir Þúfnavelli austan Geitafells, yfir Ólafsskarðsveg og vestur með fellinu norðanverðu.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ekki var látið staðar numið fyrr en komið var að rótum vesturhorns fellsins. Þaðan sást vel suður yfir Kálfahvamm og Selvelli fyrir neðan.

Í suðvestur, ofan við Réttargjá sást í stórt jarðfall. Þegar þangað var komið sáust rásir liggja inn til beggja enda. Rásin til suðurs var fremur stutt og lokast með hruni, en rásin til norðurs, mót Heiðinni há, var lengri og opnari. Fyrir innan er mikil hraunrás með háum bálkum beggja vegna. Mikil hrauná hefur runnið þarna niður og mátti sjá einstaklega fallegar hraunmyndanir á börmum hennar. Á einum stað hangir u.þ.b. 30 sentimetra langt hraunstrá niður úr loftinu. Allnokkurt hrun er úr loftinu niður í rásina, en víða mátti sjá fallegar hraunmyndanir og tauma liggja niður með veggjum.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ganga þurfti uppi á hægri bálknum inn með rásinni fyrir neðan, en innst inni í þessum 80 metra langa helli er hann heill og rúmgóður. Hátt er til lofts þar sem fyrir er mjór og hár hraunfoss. Hann kemur úr úr veggnum í allnokkurri hæð og hefur storknað utan í veggnum á leið sinni niður. Ofarlega á veggjunum neðan við fossinn eru mjög fallegar hraunmyndanir. Erfitt er að mynda fossinn nema með mjög góðum ljósabúnaði.
Þótt Fosshellir sé ekki langur er full ástæða til að gera sér ferð til að skoða hann. Hellirinn er bæði aðgengilegur og auðfundinn, og ekki skemmir hið fallega umhverfi á heiðinni fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Fosshellir

Fossinn í Fosshelli.

Portfolio Items