Selvogsgata

Í úrskurði Óbyggðanefndar (mál nr. 6/2004) er m.a. fjallað um Herdísarvík í Ölfusi:

Herdísarvík

Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpaði minja- og örnefnakort FERLIRs af Herdísarvík.

“Herdísarvíkur er getið í rekaskrá Strandarkirkju í Selvogi sem er talin vera frá árinu 1275. Í máldaga Krýsuvíkurkirkju sem einnig er talinn frá því um 1275 kemur fram að Herdísarvík tilheyri kirkjunni í Krýsuvík.
Hinn 28. júní 1448 útnefndi Steinmóður Viðeyjarábóti og officialis Skálholtskirkju tólf presta dóm á prestastefnu í Skálholti. Jón Oddsson prestur á Þingvöllum hafði kært töku á sjöttungi hvals er rekið hafði í Herdísarvík. Þessi dómur fjallar eingöngu um rekarétt og skógarítak og er því ekki tekinn upp.

Herdísarvík

Herdísarvík – herforingjaráðskort.

Hinn 27. september 1563 lagði Páll Stígsson hirðstjóri niður sóknarkirkju í Krýsuvík að undirlagi Gísla biskups Jónssonar. Við það færðust bæði Krýsuvík og Herdísarvík undir forræði Skálholts.
Krýsuvík er að finna í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar þó svo að kirkjan hafi verið lögð niður árið 1563. Þar segir sem fyrr að Herdísarvík tilheyri kirkjunni í Krýsuvík.
Jarðabók Árna og Páls yfir Selvog var tekin saman árið 1706. Þar er að finna eftirfarandi umsögn um Herdísarvík: “Skóg á jörðin lítinn og þó er hann nýttur til kolgjörðar heimabónda, hvorki er hann til að ljá nje selja, en mjög til að bjarga kvikfje í heyskorti. Sami skógur brúkast og til eldiviðar.
Lýngrif brúkast og til eldiviðar. Berjalestur hefur stundum til nokkurs hagnaðar verið.” …

Herdísarvík

Herdísarvík og Stakkavík – kort.

Herdísarvík var seld með Krýsuvík undan Skálholtsstóli 8. ágúst 1787.
Í lýsingu séra Jóns Vestmanns í Vogsósum á Selvogsþingum frá 1840 koma meðal annars eftirfarandi upplýsingar fram um Herdísarvík: “Hlíðar, Stakkavíkur og Herdísarvíkur hagar mæta stórum áföllum af grjótkasti og skriðum úr fjallinu, því þeir allir bæir eiga þar land, en hafa þó flatlendishaga ásamt. Á öllum nútöldum bæjum er heyskapur mikið lítill, … en útigangshagar samt so góðir, að trúa má þeim fyrir skepnunum, þegar jörð er auð”.
Herdísarvík, sem var áður stólsjörð, var eign Krísuvíkurkirkju samkvæmt Jarðatali Johnsens frá 1847.
Í jarðamatinu frá 1849 er að finna svohljóðandi lýsingu á jörðinni Herdísarvík: “Uthagar miklir og góðir til fjalls og fjöru og skógur til egin þarfa og nokkurrar miðlunar. Vetrarbeit góð. … smalamennska fremur hæg og dýrbítur mikill”.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ. Gamla og nýja landamerkjalínan sjást á uppdrættinum.

Skýrslan sýnir einnig jarðamatið, þar sem meðal annars stendur: “Dýrbítur er einúngis þessari jörð til galla og slægiuleysi; allt annað er henni vel gefið, og bætist slægiuleysið upp af vetrarbeitinni, sem aldrei bregðst”. …
Hinn 20. nóvember 1886 var skrifað undir landamerkjalýsingu Herdísarvíkur.
Lýsingin, sem var þinglesin 3. júní 1889, er svohljóðandi: “Maríu kirkja í Krísuvík á í Arnessýslu samkvæmt máldögum jörðina Herdísarvík”.

Breiðabás

Í Breiðabás

Landamerki Herdísarvíkur eru þau er nú skal greina: “Að austanverðu, milli tjeðrar jarðar og kirkjujarðarinnar Stakkavíkur: bein stefna úr Breiðabás (= Helli samkvæmt máldögunum) sem er fjöruvik nokkurt ekki allskamt fyrir austan Herdísarvík, með litlum hellisskúta í hrauninu fyrir ofan, í Kongsfell, sem er gömul, ekki há, grámosavaxin eldborg umhverfis aflangan djúpan gíg, til hægri handar við þjóðveg úr Selvogi til Hafnarfjarðar góðan spöl fyrir austan Kerlingarskarð, nálægt veginum.
Að vestanverðu, milli Herdísarvíkur og Krísuvíkur ræður mörkum stefnulína frá áður nefndu Kongsfelli í Seljabótarnef lágan hraunhnúk, vestast í Seljabót, við sjó fram”.
Kirkjan á þriðjung hvalreka og allann annann reka fyrir landi jarðarinnar frá Breiðabás að Seljabótarnefi og sömuleiðis allar landsnytjar innan hjer taldra ummerkja, með þeim takmörkunum, er síðar greinir (sbr. No 2). Ítök sem aðrir eiga í jörðinni Herdísarvík eru þessi:

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – náma.

1. Tveir þriðjungar hvalreka … eign Strandakirkju í Selvogi.
2. Allir brennisteinsnámar sem finnast í landi jarðarinnar með öllum þeim „málmjarðartegundum“ öðrum er námarnir kunna að geyma, hagagöngu fyrir hross í „vanalegum bithögum og áfangastöðum“ rjetti til vegagjörða og húsabygginga með „hæfilegum maturtagarði“ sem „nauðsynlegt“ er til þess að geta yrkt námana o. sv. fr. allt samkvæmt afsalsbrjefi 30. september og 4. Októb. 1858. Ítak þetta tilheyrir þrotabúi hins íslenzka brennisteins og koparfjelags. Undir lýsinguna skrifa Á. Gíslason og E. Sigfússon prestur í Vogsósum.
Í fasteignamatinu 1916-1918 segir um Herdísarvík: “Landamerki vafalaus. …
Beitilandið er víðlent, fjalllendi, hraun og heiði, mjög kjarngott, snjólétt, skjólgott, ágætt vetrarland fyrir sauðfé … Smalamenska erfið”.
Um Herdísarvík segir meðal annars í fasteignamatinu 1932:
“Beitiland jarðarinnar er talið nokkuð gott og í meðallagi víðlent. Einnig kemur fram að jörðin eigi rétt til uppreksturs í afrétt sveitarinnar. Jörðin verður fyrir ágangi afréttarfjár. Hvað varðar landamerki Herdísarvíkur þá greinir skýrsluhöfundur frá því að þar sem hann sé nýfluttur á jörðina þá hafi hann ekki ennþá fengið útskrift úr landamerkjaskrá sýslunnar. Hann veit hins vegar ekki til þess að neinn ágreiningur sé varðandi jörðina.

Herdísarvík

Gamla girðingin úr Seljabót í Lyngskjöld. Í landamerkjalýsingu Herdísarvíkur 1886 og Krýsuvíkur 1890, í Litla-Kóngsfell lá ekki um svonefndan Sýslustein sem sýslumenn Gullbringu- og Kjósarsýslu og Árnessýslu höfðu árið 1832 ákveðið sem sýslumörk. Sýslusteinn er ekki nefndur í landamerkjabréfunum.

Háskóli Íslands, eigandi Herdísarvíkur, fór fram á það árið 1979(?) að landamerki Herdísarvíkur og Krýsuvíkur yrðu ákvörðuð. Við vettvangsferð 6. júní 1979 kom í ljós að sjónhending úr Seljabótarnefi, sem er kennileiti í landamerkjalýsingu Herdísarvíkur 1886 og Krýsuvíkur 1890, í Litla-Kóngsfell lá ekki um svonefndan Sýslustein sem sýslumenn Gullbringu- og Kjósarsýslu og Árnessýslu höfðu árið 1832 ákveðið sem sýslumörk. Sýslusteinn er ekki nefndur í landamerkjabréfunum. Í greinargerð 25. júní 1979 lagði sýslumaður Gullbringusýslu til að mörk Krýsuvíkur yrðu ákveðin þannig: Bein lína úr Seljabótarnefi í Sýslustein, þaðan bein lína í Litla-Kóngsfell.”

Selvogsgata

Litla-Kóngsfell.

Aðilar málsins, annars vegar sýslunefnd Árnessýslu vegna sýslufélagsins, hreppsnefnd Selvogshrepps vegna sveitarfélagsins og Háskóli Íslands, sem eigandi Herdísarvíkur, og hins vegar bæjarstjórn Grindavíkurkaupstaðar vegna bæjarfélagsins, sýslunefnd Gullbringusýslu, fyrir hönd sýslufélagsins sem eiganda Krýsuvíkurlands að mörkum Árnessýslu, og loks landbúnaðarráðuneytið fyrir hönd ríkisins, sem eiganda ýmissa réttinda í Krýsuvíkurlandi, komu sér saman um eftirfarandi:
1. Mörk milli Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar eru bein lína úr hápunkti Litla Kóngsfells sunnan við Grindaskörð í Sýslustein undir Geitahlíðum og önnur bein lína úr Sýslusteini til sjávar um hraunstrýtu á Seljabótarnefi. …
Staðsetning (hnit) samkvæmt mælikerfi Landmælinga Íslands er þessi:
Litla Kóngsfell: X-682760,0 Y-390000.0
Sýslusteinn: X-692533,8 Y-378925,4.
Seljabóta<r>nef: X-692603,2 Y-376523,0.
2. Hreppamörk Selvogshrepps falla saman við sýslumörkin.
3. Mörk jarðanna Herdísarvíkur og Krýsuvíkur falla einnig saman við mörk Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar. …
Landamerkjabréfið var undirritað af málsaðilum 25. og 29. janúar og 16. febrúar 1980 og staðfest af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

[Framangreind ákvörðun er arfavitlaus].
Í kröfulýsingu vegna Herdísarvíkur, dags. 1. júní 2004, er vegna landamerkjalýsinga vestustu jarða í Selvogi vísað til lýsingar Almenningsskóga Álftanesshrepps frá 21. júní 1849, sem þinglesin var 22. sama mánaðar. Lýsingin er svohljóðandi:
“Með því mjer er á hendur falið í brjefi til mín af 19 Juni næstliðið ár frá viðkomandi herra sýslumanni [T. Guðmundsen, yfirstrikað] að boði Stiftamtsins umsjón þess almennings, sem er að finna í Alptaneshrepp, þá orsakast jeg til að lysa þess almennings takmörkum fyrir alþyðu á manntalsfundinum í Görðum innan sama hrepps, sem jeg veit glöggast fráskilið annara eignum og er því að álíta sjerskilið almennings sameignar land gamlra lögbílisjarða í Alptaneshrepp, hvers takmörk eru þessi. Fyrst milli Garðakirkju fjall<l>lands, ur steinhusi suður í Markagil á Marraka eður undirhlíðum þaðan á Hæðstaholt, á Dauðadölum á annan veg ur Dauðadölum norður í Húsfell af Húsfelli upp á Þríhnjuka þaðan á suðurenda Blafella, á milli afrjetta Alptanes og se<l>tjarnarneshreppa. A milli Gullbríngu og Arnessyslna af Bláfjöllum vestur á Kistufell. A milli Alptaneshrepps og almennings og Krísivíkur landa af Kistufelli niður á syðra Horn á Fagradals brún þaðan í Marrakagil, so í þúfu á fjallinu eina þaðan í Helguflöt norðaná Buðarhólum. A milli jarðanna Heimalands og afrjettar af Buðarhólum eptir Buðarhólagjá, þaðan aptur í Steinhús. Þetta ofantalið afrjettar og almennings land, sem er að finna fráskilið annara eignum lísi jeg til rjettarins fullkomnari úrskurðar gamallra lögbylisjarðajarða afrjettar að öðru nafni almenníngsland í Alptaneshrepp með öllum þeim herlegheitum sem þar er að finna. Eptir hverri rjettarins skipan hjer ofantaldri eg skyldast að fyrirbjóða og aðvara hvern þann mann sem ekki hefur fullkomið tilkall til almenningsítaks alla brukun hverju nafni sem heitir, innan ofantaldra takmarka að vitni þíngvitnanna og allra þeirra er orð mín heyra.”

Þrætugrenið var fyrrum á landamerkjum Árnessýslu og Gullbringusýslu. Um það liggur gamla girðingin upp úr Seljabót, sem nú er að mestu horfin.

Heimildir:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 6/2004; Ölfus – Herdísarvík.
-https://obyggdanefnd.is/wp-content/uploads/04_2004-6_urskurdur.pdf

Lyngskjöldur

Lyngskjöldur – þrætugrenið.