Kastið

Gengið var um Fagradalsfjall með það að markmiði að finna og skoða þrjú flugvélaflög, sem þar eiga að vera.

kastid-213

Hluti braksins í Kastinu.

Gengið var frá Siglubergshálsi og gengið um Lyngbrekkur og upp með Langahrygg að austanverðu. Þaðan er gott útsýni yfir að Skála-Mælifelli. Flugvélabrak frá því á stríðsárunum liggur norðaustan í hryggnum (6352353-2215459). Tólf menn fórust, Bretar og Bandaríkjamenn. Stutta stund tók að finna brakið. Það er efst í hryggnum og í brekkunni þar fyrir neðan. Hluti braksins er í gili undir brekkunni.

Haldið var yfir að Langhól. Þar fórst önnur vél í stríðinu, Sunderland flugbátur. Ekki er ljóst með mannskaða. Brakið er norðaustan í hólnum, nokkuð ofarlega (6354282-2216012). Áður en komið vara ð barkinu var gengið fram á vatnsketil þar í hlíðinni og var þó svolítið vatn í honum. Vel gekk að finna brakið. Gengið var svo til beint á það.

Langhóll

Langhóll – brak.

Eftir að hafa skoðað svæðið var gengið upp á hæsta punkt Langhóls (391 m.y.s.). Þar er gott útsýni yfir hinar fögru og blómlegu byggðir Suðurnesja og Útnesja. Brak af flugvél er ofarlega undir Langhól í norðaustur.
Frá Langhól var haldið í Kastið, en þar er þriðja flugvélabrakið. Það er af Liberator-flugvél Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu, en hann fórst þarna 3. maí 1943. Fjórtán fórust og einn komst lífs af í þessu slysi.
Eftir að hafa skoðað brakið í Kastinu var haldið sem leið lá að upphafsstað.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 5 mín. Átján km voru lagðir að baki.

kastid-212

Kastið í Fagradalsfjalli.