Selatangar

“Við vorum á leið suður á Reykjanesskaga, ætluðum að koma við hjá Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni, þeirri kempu. Ferðinni var heitið að Selatöngum, þar sem gamlar búðatóttir standa enn og vitna um lífsbaráttu fólks með seltu í blóði. Nú hafa þeir safnazt til feðra sinna, sem fundu kröftum sínum viðnám í Tangasundi.
magnus haflidason-223„Þarna er Þorbjörn,” sagði Eyjólfur, „fjall þeirra Grindvíkinga.”
„Þá er nú Esja tilkomumeiri,” sagði ég.
„Ég reri eina vertíð í Grindavík,” hélt Eyjólfur áfram, „þú varst þar líka, Jóhannes.”
„Já, ég reri þaðan eina vertíð. Það gekk ágætlega. Eg reri frá Nesi – það hefur verið 1927. Við höfðum útræði um Járngerðarstaðastund. Það gat verið varasamt á opnum árabátum.”
„Hvenær rerir þú frá Grindavík, Eyjólfur?”
„Ég man það nú ekki, jú, það hefur líklega verið 1904. Eg reri úr Þórkötlustaðahverfinu.”
„Það var aldrei stórbrim þessa vertíð,” sagði Jóhannes.
„Ekki man ég heldur eftir því,” sagði Eyjólfur.
„Eyjólfur sagði: „Eg þekkti vel Gísla, bróður Magnúsar á Hrauni, og Margréti konu hans Jónsdóttur frá Einlandi. Þetta var ágætisfólk. Ég var heimilisvinur á Einlandi. Við strákarnir vorum allir skotnir í Möggu.”
„Þau eru bæði dáin,” sagði Jóhannes.
„Já, þau Gísli eru bæði farin,” sagði Eyjólfur og bætti við: „Hún var glæsileg stúlka. Ég hélt að Margrímur Gíslason ætlaði að ná í hana. Hann varð seinna lögregluþjónn í Reykjavík, mesti myndarmaður. Þá datt engum í hug að keppa við hann. En hún giftist Gísla.”
Jóhannes sagði: „Þeir bjuggu báðir á Hrauni, bræðurnir Gísli og Magnús. Hafliði, faðir þeirra, var lengi formaður.”
selatangar-224„Hann var eftirminnilegur karl,” sagði Eyjólfur. „Eitt sinn þegar gefin voru saman hjón, bæði ósköp lítil fyrir mann að sjá, var Hafliði svaramaður. Þegar prestur snýr sér að konunni og spyr, hvort hún vilji manninn, svarar hún ekki. Þá er sagt að Hafliði hafi hnippt í hana og sagt: „Segðu já – segðu já – segðu bara já.”
Og hún álpaðist til að segja já.”
„Ætli þetta hafi verið Hákon í Bakka,” sagði Jóhannes. „Það var kot í túnjaðrinum á Hrauni. Ég held að rústirnar standi ennþá. Hákon reri hjá Hafliða og síðan hjá Magnúsi. Eg held þeir hafi naumast róið nema Hákon væri með.”
Við vorum komnir að Hrauni. Ég snaraðist út úr bílnum, gekk upp tröppurnar og bankaði. Magnús kom til dyra. Hann var ekki eins hress og oft áður. Þegar ég hafði hitt hann, var hann alltaf nýr eins og Passíusálmarnir.
„Nú erum við komnir,” sagði ég.
„Komnir, hverjir?”
„Eg er með tvo gamla sjómenn úr Grindavík, Eyjólf Eyfells og Jóhannes Kolbeinsson.”
„Jæja,” sagði Magnús.
„Við erum að fara að Selatöngum. Þú ferð með.”
„Það efast ég um. Það er víst einhver illska hlaupin í mig. Læknirinn segir að það sé eitthvað í öðru nýranu.”
selatangar-226„Nú, finnurðu til,” spurði ég.
„Onei, ég hef aldrei fundið til.”
„Þetta eru skemmtilegir karlar,” sagði ég.
„Ha, já er það,” sagði Magnús og klóraði sér á hvirflinum. Svo strauk hann yfirskeggið og fór í gúmmískóna. Eyjólfur kom í gættina. Þeir heilsuðust. Magnús virti hann fyrir sér. Þeir tóku tal saman. Það var selta í Eyjólfi, hann var ekkert blávatn. Það hefur Magnús fundið. Einu sinni munaði mjóu að Eyjólfur drukknaði í Loftsstaðasundi.
Karlarnir gengu út í bílinn. Ég á eftir. Svo héldum við af stað.
„Eg var hrifinn af Margréti mágkonu þinni á Einlandi, þegar ég var á vertíð hér strákur,” sagði Eyjólfur.
„Hún hefur verið ung þá,” sagði Magnús.
„Já, um fermingu,” sagði Eyjólfur.
„Og varstu skotinn í henni strax,” sagði Magnús og hló.
Við ókum sem leið lá að Selatöngum.
„Ég sé ekki betur en þú sért sæmilegur til heilsunnar, Magnús,” sagði ég. Því að nú kjaftaði á honum hver tuska, ekki síður en okkur hinum.
„Ég er alveg stálhraustur,” fullvissaði hann okkur og sjálfan sig, „mér hefur aldrei orðið misdægurt. En ég á að fara í rannsókn til Snorra Hallgrímssonar. Það er gott að eiga góða menn að. Við hófum farið í rjúpu saman.”
selatangar-226„Þú varst oft á sjó með Hákoni á Bakka,” sagði ég.
„Ojá,” sagði Magnús. „En af hverju dettur þér hann í hug?”
„Þeir muna eftir því, þegar hann var giftur.”
„Ha? Hann giftist aldrei.”
„Hvað segirðu?”
Og nú sperrtu Jóhannes og Eyjólfur eyrun.
„Nei, hann bjó með konu, en þau voru aldrei gefin saman í hjónaband.” Eyjólfur segir honum nú söguna um giftingu litlu hjónanna. Magnús slær á lær sér: „En þetta er ekki rétt. Það voru gift þarna hjón, en þau sögðu bæði nei.”
„Ha?”
„Eg sagði að þau hefðu bæði sagt nei.”
„Nú, og hver voru þau,” spurði Eyjólfur.
„Það voru Einar Árnason póstur og Katrín Þorkelsdóttir.”
„Var sú gifting ekki ólögleg?”
„Nei, nei. Þetta var látið duga í þá daga. Menn voru ekki að gera veður út af öllum hlutum. Það þótti skrítið. En Hákon bjó með konu sem hét Guðmunda Gísladóttir, þau komust vel af.”
Fagradalsfjall blasti við okkur. Þangað höfðum við Magnús eitt sinn farið, gengið upp á fjallið, litazt um eins og landnámsmenn. Eg benti í áttina þangað.
„Það dregur undir sig,” sagði Magnús. „Þetta er lengri leið en maður heldur.”
selatangar-228Mig rak minni til þess.
„Einar póstur og Katrín, voru þau lítil,” spurði Eyjólfur hugsi.
„Já,” sagði Magnús.
„En Hákon og Guðmunda?”
„Guðmunda var há kona og snör. Hún var köttur þrifinn, og prýðilega útlítandi baðstofan, þó hún væri lítil. En þau Einar bjuggu í moldarkofa.”
„Það hefur þá ekki verið Hákon,” sagði Eyjólfur. „Það hafa verið Einar og Katrín.”
„Það hafa verið þau,” sagði Magnús.
„Er Einland uppistandandi?” spurði Eyjólfur.
„Já, þekkirðu ekki Ísleif Jónsson, verkfræðing í Reykjavík?”
„Við erum skyldir,” sagði Eyjólfur.
„Jæja,” sagði Magnús og virti Eyjólf fyrir sér. „Nú sé ég, að það er sami bjarti svipurinn. Hann er að skinna Einlandið upp,” bætti hann við.
„Já, einmitt,” sagði Eyjólfur.
Við ókum fram hjá Ísólfsskála, Selatangar eru skammt þar fyrir austan.
Á leiðinni töluðu þeir um sitthvað. Og það var engu líkara en maður væri kominn hálfa öld aftur í tímann. Þeir töluðu um karl einn sem „þótti gott að smakka það”, um fólk, sem „hafði orðið bráðkvatt”.
selatangar-229Og margt fleira skröfuðu þeir, sem ómögulegt var fyrir ókunnugan að henda reiður á. Magnús minntist á konu, sem hafði átt hálfsystur, „og hún varð sama sem bráðkvödd líka.” Og síðan barst talið að Jóni heitnum á Einlandi, föður Margrétar, og hann varð einnig bráðkvaddur.
„Hann var dugandi sjósóknari,” sagði Magnús, ,,-áður en hann varð bráðkvaddur.”
„Já og myndarmaður,” sagði Eyjólfur.
„Og aðsækinn við sjó,” bætti Magnús við. „En viljið þið ekki sjá leiðið hans Ögmundar, sem hraunið er kennt við. Það stendur norðan við veginn.”
„Förum fyrst niður að Selatöngum.”
„Heyrðu Eyjólfur, lenturðu nokkurn tíma í Stokkseyrardraugnum,” spurði Magnús.
„Nei, ég var svo ungur. Þegar við strákarnir heyrðum fyrst af honum, treystum við á, að hann kæmist ekki yfir mýrarnar, því að þær voru á ís og flughálar.”
„Hvað ætli þetta hafi verið?” spurði Magnús.
„Þetta voru engir aumingjar, sem urðu fyrir barðinu á draugnum,” skaut Jóhannes inn í samtalið. „Fólk var með margvíslegar skýringar,” sagði Eyjólfur. „Sumir töluðu um kolsýrueitrun í andrúmsloftinu, en það veit enginn.” „Það flýðu allir úr einni verbúðinni,” sagði Jóhannes, um leið og bíllinn stöðvaðist við Selatanga.
selatangar-230Við lituðumst um. „Hvar er Magnús?”
„Hann skrapp niður á kampinn að tala við veiðibjölluna,” sagði Jóhannes.
„Þeir þekkjast, mávurinn og Magnús. Hann er búinn að skjóta þá svo marga um dagana.”
„Honum er ekki fisjað saman,” sagði Eyjólfur. „Hann er líkur föður sínum, kempukarl.”
Við skoðuðum tóttirnar af verbúðunum og fiskhjöllunum. Í fyrravor var jörðin algræn, þar sem fiskurinn hafði legið við byrgin.
Tólf til fimmtán menn hafa verið við hvern bát, hafði ég lesið mér til. Bragur er til um alla útróðrarmenn, sem eitt sinn voru á Selatöngum, og eru þeir taldir með nafni og hafa þá verið yfir 60. Tóttirnar eru litlar og ég gizkaði á, að þrír til fjórir hefðu verið í hverri verbúð. Þeir sögðu það hefðu minnsta kosti verið sjö, ef ekki fleiri. Af tóttarbrotunum að dæma er hver búð um fimm metrar að lengd og tveir á breidd. Sumar búðirnar hafa jafnvel verið minni. Kannski þeir hafi haft verbúðirnar svona litlar til að halda á sér hita, datt mér í hug. Þarna sáum við einnig hellisskúta. Jóhannes sagði að hellarnir væru reyndar tveir, og hefði annar verið kallaður Sögunarkór, þar sem var smíðað, en hinn Mölunarkór, þar var malað korn.
selatangar-231Selatangar eru skarð eða afdrep í Ögmundarhrauni. Þar fundu Krýsuvíkurmenn hentugt athafnasvæði eftir hraunflóðið mikla.
Dákon var hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum. Í honum voru landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Næst austan við Dákon er Vestrihlein, en þá Eystrihlein. Sundið hefur líklega verið vestan undir Eystrihlein og uppsátrið þar beint upp af. Þar upp með hleininni voru bátarnir settir undan sjó. Vegalengdin frá Krýsuvík á Selatanga er um 6-7 km, og um þriðjungur þess vegar apalhraun, svo það hefur ekki verið skipsganga, sem kallað var, að fara þá leið kvölds og morgna. Þess vegna hafa verbúðirnar verið reistar þar. Og enn tala þær sínu máli.
Magnús var kominn í leitirnar. Við horfðum yfir kampinn og sundið. Ólög riðu yfir hleinarnar, en ekki á sundið. Það var hreint.
„Þeir þekktu sjóina, karlarnir,” sagði Magnús.
„Ungt fólk nú á dögum mundi líklega deyja af einni saman tilhugsuninni að eiga að sofa í svona hreysum,” sagði ég og virti fyrir mér tóttarbrotin.
„Manneskjan gerir það, sem hún verður að gera,” sögðu þeir.
„Verbúðirnar hafa verið vindþéttar,” sagði Eyjólfur.
Ég hryllti mig ósjálfrátt í herðunum. „Þeir hafa sótt í þetta hey og mosa,” sagði Magnús.
selatangar-234Svo benti hann út á sundið. „Þeir hafa lent eitthvað eftir áttum,” sagði hann. „Í útsynningi hafa þeir lent vestar, en austar í landnyrðingnum. Það er ekki mikil lá við hleinina núna. Þeir hefðu lent í svona sjó. Þarna er eystri hleinin og þarna sú vestri. Þeir lentu á milli hleinanna, í Tangasundi. Og nú er Dákon horfinn.”
„Það er talsvert brim núna,” sagði ég. „Þú segir að þeir hefðu lent í þessu.”
„Ætli ekki það, þetta er svaði,” sagði Magnús. „Þeir kunnu svo sem að bíða eftir lagi. En hafið þið ekki heyrt að hér átti að vera draugur,” og hann sneri sér að Eyjólfi.
„Jú,” sögðu þeir.
„Hann var kallaður Tanga-Tómas,” sagði Magnús.
„Hefurðu séð hann Eyjólfur?” spurði ég.
„Nei,” sagði Eyjólfur, „séð hann – nei, nei.”
„Þú ættir að spyrja hann Þórarin Einarsson um hann,” sagði Magnús. „Hann býr í Höfða á Vatnsleysuströnd. Hann er sonur seinasta formannsins hér á Seljatöngum. Þórarinn er faðir Þorvalds Þórarinssonar, lögfræðings í Reykjavík, svo hann á ekki langt að sækja það, að vera þéttur fyrir!

selatangar-236

Einar, faðir Þórarins, var óbágur að segja frá Tanga-Tómasi. Einu sinni var Einar að smíða ausur úr rótarkylfum hjá okkur á Hrauni, þá sagði hann okkur þessa sögu: Guðmundur, bróðir hans, svaf fyrir framan hann og lá með höfuðið útaf koddanum, en sneri sér við í svefnrofunum, og færðist upp á koddann, en í sömu andránni kom vatnskúturinn, sem þeir höfðu með sér á sjóinn en geymdur var í verbúðinni, af alefli þar sem Guðmundur hafði legið með höfuðið. Þetta bjargaði auðvitað lífi hans.”
„Það var gott að draugurinn drap ekki Guðmund,” sagði Jóhannes. „Hann átti eftir að eignast 18 börn.”
„Nei, það var ekki hann, þú átt við Guðmund í Nýja Bæ,” sagði Magnús.
„Já,” sagði Jóhannes, og áttaði sig. „Guðmundur í Nýja Bæ var Jónsson, hann reri 1917 úr Húshólma, en þeir urðu að lenda hér á Töngunum.”
„Guðmundur í Nýja Bæ var skírleikskarl,” sagði Magnús, „það var gaman að vera með honum einum. En þegar fleiri voru, varð hann öfgafullur. Lífsbaráttan varð honum þung í skauti, hann varð að treysta á útigang. Tvö barna hans dóu í vetur.”
Við vorum komnir upp á þjóðveginn aftur, og ætluðum sem snöggvast að skreppa að gröf Ögmundar. Á leiðinni þangað segir Magnús allt í einu: „Þessi klettur þarna í hrauninu heitir Latur.”
„Hvers vegna,” spurði ég.
„Það gekk erfiðlega að miða hann – hann gekk illa fyrir, eins og sagt var. Hann bar lengi í sama stað.”
Og nú blasti við Ögmundarhraun milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og fyllir hálfan dalinn. Niður við sjó stóð bærinn Krýsuvík, en uppi í dalnum Vigdísarvellir, fjallajörð í hvammi með hlíðinni norðvestan við Mælifell. Þar sjást tóttir.
„Ég man vel eftir byggð þar,” sagði Magnús. „Gömul sögn segir, að smali hafi, þegar hraunið brann, bjargazt upp í Óbrennishólma, sunnarlega í hrauninu, vestan við Húshólma.”
Jóhannes sagði að þjóðsagan um Ögmund væri á þá leið, að hann hafi átt að vinna sér það til kvonfangs að ryðja veg yfir hraunið, en var drepinn að verki loknu. Aðstandendur konunnar treystu sér víst ekki til að vinna á honum fyrr en hann var orðinn örmagna af þreytu. Þá hertu þeir upp hugann og drápu hann. „Ögmundur sofnaði við hraunbrún, þar sem leiðið er og þar drápu þeir hann,” bætti Magnús um frásögn Jóhannesar. „Nú er hrunið úr leiðinu. Þeir ættu að varðveita það betur. Ég er að vísu ekki fylgjandi því að raska ró þeirra dauðu, en það mætti vel ganga betur um leiðið.”
Ég ætlaði eitthvað að fara að minnast frekar á Ögmund, en þeir fóru þá að tala um sjómennsku í gamla daga og ég komst ekki upp með moðreyk. Það var eins og bíllinn breyttist skyndilega í gamlar verbúðir. Það er munur að róa nú eða áður, sögðu þeir.
ogmundardys-231„Þá var alltaf andæft á árunum,” sagði Magnús til að uppfræða mig.
„Þá var línan tvö til þrjú pund og geysisterk og vont að draga hana. Einhverjum hefði minnsta kosti þótt það sárt í dag. Sumir fengu blöðrur.
„Betur á bak og báðum áfram” var sagt þegar austanátt var og vesturfall, og þegar línan festist sló alltaf á bakborðið. Það þurfti alltaf manni meira á bakborða í andófi. Þess vegna var sagt, Betur á bak, þá þurfti að nota árarnar til að róa að línunni.” Og svona héldu þeir áfram að tala saman um löngu liðna daga. Ögmundur var gleymdur. Eg var að hugsa um að koma við hjá Þórarni gamla í Höfða.
Eyjólfur hafði, okkur öllum á óvart, komið með flösku af líkjör.
Hann var farinn að hvessa, eða setja í, eins og karlarnir hefðu sagt. Eg sá verbúðirnar gömlu fyrir mér, og skinnklædda karlana. Eg hugsaði um það sem Magnús hafði sagt: „Það er ekki mikil lá við hleinina; það heitir öðru nafni: sogadráttur og þar er lending stórháskaleg. Eg mundi vel eftir lýsingum Magnúsar Þórarinssonar, sem oft kom niður á Morgunblað, á meðan hann var og hét. Hann var einbeittur og ákveðinn, með auga á hverjum fingri. Hann var fyrsti mótorbátsformaður í Sandgerði. Það var eins og sjór og reynsla hefðu lagzt á eitt um að tálga persónu hans inn að hörðum kjarnanum.
Magnús tók saman bók, sem heitir „Frá Suðurnesjum”. Merkisrit. Þar segir, að ef skip tók niður að framan, þegar mikil lá var, stóð það strax svo fast, að ómögulegt var að ýta því út aftur, svo þungu. Sogaði þá óðara undan, svo að skipið varð á þurru og lagðist á hliðina. Næsta aðsog fyllti þá skipið, og allt var í voða. Það varð því sífellt að halda þeim á floti og ýta frá fyrir hvert útsog, en halda í kollubandið. Næsta ólag kom svo með skipið aftur, en þrekmennin settu axlirnar við, svo að ekki tæki niður; stóðu þeir oft í þessum stympingum, þó að sjór væri undir hendur eða í axlir, en klofbundnir voru þeir oftast, er þetta starf höfðu.
Þetta hugsaði ég um og myndin skýrðist í huga mínum. Eg sá karlana standa í kampinum á Selatöngum í brók og skinnstakk, hvorttveggja heima saumað úr íslenzkum skinnum. Brókin upp á síður, en stakkurinn niður á læri. Mátti vel svalka í sjó þannig búinn án þess að verða brókarfullur, eins og kallað var ef ofan í brókina rann. Stundum kom fyrir að láin var svo mikil að ólendandi var á venjulegan hátt. Þá var fiskurinn seilaður úti á lóninu, seilarnar bundnar saman og færi hnýtt við, en einum manni falið að gefa út færið og annast seilarnar að óllu leyti.

Dagon-231

Og svo var beðið eftir lagi til að lenda skipinu tómu, tóku þá allir til ára eftir skipun formanns, á þriðju stóröldunni, sem var jafnan hin síðasta í ólaginu, eftir hana kom dálítið hlé á í stórbrotum; var það kallað lag. Þá var róið með fullum krafti, árar lagðar inn í skipið í fljótheitum. Þegar krakaði niður, hlupu allir útbyrðis og brýndu skipinu upp úr sjó, áður en næsta ólag kæmi.
Stundum komu aðrir, sem tækifæri höfðu og hjálpuðu til. Þannig stóðu Selatangar mér fyrir sjónum. Hver myndin tók við af annarri, reis og hneig í huga mínum eins og úthafsaldan við ströndina.
„Ég var oftast aðeins með eitt skinn,” sagði Magnús upp úr þurru.
„Jæja,” sagði Eyjólfur.
„Ég var oft holdvotur,” sagði Magnús.
„Það vorum við aldrei fyrir austan,”sagði Eyjólfur.
„Ojú, maður var oft þvalur, þetta var helvítis vosbúð,” sagði Magnús. Aftur hljóp í mig hrollur.
Ég var farinn að hlakka til að koma heim og leggjast eins og hundur við sjónvarpið.
selatangar-240Við höfðum ekið fram hjá Ísólfsskála á heimleið. Körlunum hafði ekki orðið orðs vant. Nú töluðu þeir um Guðmund á Háeyri.
Magnús sagði: „„Rólegir drengir, ekki liggur mér á,” sagði hann þegar var að verða ófært, hann vissi hvað það gilti.”
Eyjólfur sagði: „Guðmundur var kominn að Eyrarbakkasundi og búið að flagga frá, talið ófært. Þá sagði hann: „Við skulum stöðva snöggvast hér rétt utan við sundið,” og stendur upp og horfir þegjandi fram á brimgarðinn og segir svo enn: „Nei, sko andskotans brimið” – og rétt í sömu svifum: „Takið brimróður inn,” og þeir höfðu lífið. Hann umgekkst ólögin eins og leikföng. En þau voru það ekki fyrir óvana,” bætti Eyjólfur við og vissi af eigin reynslu, hvað hann söng.
Magnús sagði að Guðmundur hefði stundum hikað við að fara inn af ótta við að önnur skip kæmu kannski á eftir og mundu ekki hafa það. Þá segir Eyjólfur: „Jón Sturlaugsson á Stokkseyri hikaði stundum líka, vegna þess að hann bjóst við að aðrir mundu fylgja sér eftir. Hann var einnig afbragðs sjómaður. Og honum var ekki heldur fisjað saman, honum Hafiiða föður þínum. „0, þetta er bara þurraslydda, þurraslydda,
sagði hann…
selatangar-241„Þetta hefur þú heyrt,” sagði Magnús og glaðnaði við.
Svona göntuðust karlarnir, meðan myrkrið datt á. Þeir töluðu um Berg í Kálfhaga og söðgu, að Guðmundur á Háeyri hefði haft hann handa körlunum sínum til að grínast með. Einhvern tíma segir Bergur, „það er óhætt upp á lífið að róa hjá Guðmundi á Háeyri, en aðköllin ósköpin.” „Róðu nú Bergur, róðu nú Bergur, og róðu nú helvítið þitt Bergur,” sagði Guðmundur víst eitt sinn í róðri.
Og í annað skipti bar það til tíðinda, eins og oft var, að bóndi ofan úr sveit fékk að róa hjá Guðmundi tfl að fá í soðið fyrir heimfli sitt. Þegar þeir höfðu ýtt á flot var venja að taka ofan sjóhattinn og lesa sjóferðabæn. Bóndinn hafði bundið á sig hattinn og átti erfitt með að ná honum af sér. Þá kallar Guðmundur formaður og segir: „Ég held þú getir lesið Andrarímur eða einhvern andskotann, þó þú sért með helvítis kúfinn á hausnum.”
Og nú blasir við Hraun. Þarna á ströndinni hafa orðið skipstapar. Magnús hefur áður sagt mér af þeim: Franska togararnum Cap Fagnet, sem strandaði sunnan undir Skarfatöngum aðfaranótt 24. marz 1931, og St. Louis, enskum togara, sem strandaði senmma í janúar 1940 í Vondu fjöru. Öll skipshöfnin var dregin í land í björgunarstól, nema skipstjórinn. Hann kom ekki út úr brúnni nærri strax. Björgunarmenn biðu eftir honum í allt að 10 mínútur áður en hann sást á brúarvængnum. Hann fetaði sig niður á dekkið og fram að vantinum. En þegar hann var kominn að björgunarstólnum, féll hann allt í einu aftur yfir sig og ofan í ólgandi brimlöðrið. Þar varð hann til.
Magús á Hrauni hefur margt séð og margt lifað. Hann hefur marga fjöruna sopið.”

Heimild:
-Morgunblaðið 3. janúar 2000, Matthías Johannessen bls. 95-98.

Selatangar

Sjóbúð og byrgi á Selatöngum.