Genginn var Sveifluháls til suðurs um Folaldadali, Arnarvatn, Hettu, Rauðuskriðu og Drumb.
Sveifluháls, eða Austurháls (Hálsar) eins og hann var nefndur, er hæstur um 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni og Folaldadali. Sunnan og austan í hálsinum er mikill jarðhiti. Hverasvæðið í Seltúni og Baðstofu eru kennd við Krýsuvík. Hæstu tindar á Sveifluhálsi eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur). Í síðustu FERLIRsferð um Sveifluháls, þann 17. júní 2000, skalf jörðin í tvígang, hálsinn gekk í bylgjum og grjót hrundi úr hlíðum (sjá meira HÉR).
Sveifluhálsinn er móbergstapi á gosrein. Ef allt er tiltekið (Undirhlíðarnar einnig, enda á sömu gosrein), er hann um 25 km langur þar sem nær frá Borgarhólum í suðri að Kaldárhnúkum í norðri. Að vísu heita hluta hans ýmsum nöfnum, en jarðfræðilega er um eitt og sama fyrirbæri að ræða. Hálsinn var fyrrum nefndur Austurháls til aðgreiningar frá Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi), einum af nokkrum bræðrum hans í vestri.
Þegar ákveðið var að ganga Sveifluháls enda á millum var um tvær leiðir að velja; þá auðveldari og þá erfiðari. Báðar hafa kosti umfram hina. Sú efri er erfiðari. Hún liggur með hábrúnum og yfir efstu tinda (sá hæsti er 396 m.y.s.), s.s. Hellutinda, Stapatinda, Miðdegishnúk, Arnarnýpu, Hnakk og Hettu. Víða er gengið á hryggjum, um gil, sandhlíðar, móbergsrennur, skorninga og mosabrattar hlíðar. Þessi leið er ekki fyrir lofthrædda – nema þokan sé þess meiri. Bergmyndanir á leiðinni eru hins vegar fáu öðru líkar hér á landi. Útsýnið er þó jafnan til austurs af hálsinum.
Neðri leiðin liggur um sand- og fínmalarhlíðar, niður með annars aflíðandi hlíðum, um sanddali, um ása og lágvaxna hóla. Þessi leið er ekki seinfarnari en sú efri, en svolítið lengri. Útsýnið til tindanna sem og beggja vegna af hálsinum er eitt hið stórbrotnasta á Reykjanesskaganum. Þá er augnkonfektið ekki síðra af því sem framundan er. Miðhluti Sveifluhálsins er tvískiptur og liggja fallegir dalir milli tindanna beggja vegna. Má þar nefna Folaldadali og ónefnds dals, sem ekki hefur, þrátt fyrir tilkomuheitin, ekki hlotið nafn (svo vitað sé).
Jarðsaga þessa náttúruundurs varð til löngu áður en maðurinn steig fæti sínum á þetta landssvæði (líklega um og eftir 600 e.Kr.). Ummerki eftir þá e.t.v. finna í rústum Ögmundarhrauns suðvestan við suðurenda hálsins. Það hraun, auk fleiri millum Sveifluhálsar og Núpshlíðarhálsar, varð til á gosrein um 1150.
Síðasta ísöld hófst fyrir um 2,8 milljónum ára og lauk fyrir um 10.000 – 11.000 árum. Það var þó ekki stanslaus vetrarkuldi allan þann tíma heldur skiptust á kuldaskeið og hlýskeið.
Eldgos voru síður óalgengari á ísöld en urðu eftir að henni lauk. Hins vegar eru uppi hugmyndir um að á því tímabili, þegar ísöld var að ganga í garð, hafi eldgosum fækkað vegna aukins þrýstings frá upphleðslu íss. Að sama skapi voru eldgos tíðari þegar ísöld lauk og þrýstiléttir varð vegna ísbráðnunar.
Í bók Þorleifs Einarssonar “Myndun og mótun lands” má lesa um eldvirkni á ísöld. Þar segir meðal annars:
“Þegar í upphafi ísaldar var eldvirknin einkum bundin við miðbik landsins og færðist, er á leið, á mjó belti suðvestan-, sunnan- og norðanlands og eru þar nú aðaljarðeldsvæði landsins. En auk þess voru allmikil eldsumbrot við utanverðan Skagafjörð og á Snæfellsnesi og hafa eldsumbrot haldist á síðarnefnda svæðinu fram á nútíma.”
Gosbergið varð ólíkt að ytri gerð eftir því hvort það kom upp á auðu landi á hlýskeiðum eða undir jökli á jökulskeiðum þótt kvikan væri hin sama. Þessar umbreytingar má glögglega sjá bæði á Sveifluhálsinum og utan í honum. Á hlýskeiðum runnu grágrýtishraun langar leiðir og oft langt út fyrir gosbeltin. Þessi hraun komu ýmist frá gossprungum, eldkeilum eða dyngjum.
Á kuldaskeiðum ísaldar mynduðustu hins vegar móbergsfjöll við gos undir jökli, ýmist fyrrnefndir móbergshryggir, sem hljóðust upp á sprungum, en náðu yfirleitt ekki upp úr jöklinum, eða móbergsstapar sem hlóðust upp úr jöklinum. Þessi fjöll setja mikinn svip á landslagið enn þann dag í dag. Sem dæmi um þessa móbergshryggi má einmitt nefna Sveifluhálsinn og Jarlhettur, en önnur dæmi um móbergsstapa eru Hlöðufell og Herðubreið.
Það má skipta bergtegundum, bæði nútíma og eldri bergmyndanna, á Reykjanesskaga í þrjá meginflokka eftir
samsetningu þeirra. Landslag á Reykjanesskaga hefur að nokkru leyti mótast af þessum flokkum. Sýni, úr eldri bergmyndunum frá jökultíma og síðjökultíma, benda til þess að engin breyting hafi orðið á eldvirkninni á
Reykjanesskaga frá myndun hans og til dagsins í dag. Erfitt er þó að segja til um hvort skipst hafi á tímabil með dyngjugosum og önnur með sprungugosum eins og komið hefur í ljós um eldvirknina á nútíma. Sprungugosin, sem áttu sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust.
Þegar farin er efri leiðin um tindana er Kleifarvatn áberandi láglendis. Vatnið er það stærsta á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m. Það hefur lítið aðrennsli en ekkert frárennsli. Sögur eru til um að í vatninu leynist vatnaskrímsli. Við suðvestanvert vatnið eru elstu fornminjar á svæðinu, leifar bæjarins Kaldrana.
Þegar lýsa á efri leiðinni til suðurs er rétt að stikkla á stóru; frá Vatnsskarði er leiðin greið upp um eftir malarási. Jeppaökumenn og síðar torfærutækjaökumenn hafa markað slóða, sem auðvelt er að fylgja uppfyrir norðurbrún Folaldadala. Þar liggur slóðinn niður hlíðina og í dalina. Framundan eru Hellutindar. Áður en komið er það eru grannir berggangar hvað eftirtektarverðastir, einkum einn hluti þeirra, er stendur stakur upp úr og er yfir mannhæða hár. Þegar komið er inn fyrir svæðið austan Folaldadalshnúka er farið yfir malarás, niður móbergsbera afhlíð og lengar niður bratta sandhlíð. Auðveldara er þó að fylgja háum móbergsvegg á vinstri hönd. Þá er komið niður í Hulstur. Móbergsveggur er á austurbrúnum, en framundan er skarð utan í næsta tindi. Uppleiðin er greiðfær. Þegar upp er komið að ofanverðum Huldum. Gengið er niður móbergsaflíðandi brekku og síðan niður sandhlíð. Svipuð ásýnd er þarna og í Hustrum; móbergsbergveggir og áframhaldandi ágangur. Annars er hulstur þetta sérstakt fyrir það að móbergið að norðanverðu er mun ljósara en annars staðar á leiðinni.
Feta þarf mosavaxna hlíð upp á við og síðan fara með bröttum brúnum yfir að norðanverðum hnúk. Þar á millum eru leifar af ryðguðum krossi, sem settur var þar til minningar um átta menn er fórust þar með kanadískri Consoflugvél 19. desember 1944. Ef vel er gáð má enn sjá leifar af vélinni í hlíðinni.
Þegar komið er yfir tindinn er um tvennt að velja; fara erfiðari leiðina til vinstri með syðsta Stapatindinum, eða niður hlíðina til hægri. Ef erfiðari leiðin er valin verður gil til að torvelda hana, en að því sigruðu er eftirleiðin auðveld.
Þá blasir Miðdegishnúkur við, teinréttur í allri sinni dýrð. Vestan hans sameinast efri og neðri leiðin.
Þegar farin er neðri leiðin er haldið niður í Folaldadali eftir að nyrstu Hellutindum er náð. Dalurinn, sem er gróðurlaus að mestu, er um kílómeters langur (tilvalinn staður fyrir torfærutækjaökumenn því vetrarveðrin afmá för þeirra jafnóðum).
Syðst í dalnum er gengið upp ás og síðan niður aftur þar sem lækjarfarvegur liggur um gilskorninga að Hofmannaflöt. Riddarinn, móbergshraunstrýta er efst í norðanverðri brúninni (og fylgist vel með öllu). Upp ásinn sunnanverðan liggur gömul gata frá flötinni, nú útspóluð af nýmóðisökumönnunum. Þegar upp á ásinn er komið blasir Miðdegishnúkurinn við – þar sem leiðirnar sameinast.
Mosavaxin hæð framundan á hægri hönd er fallegasti útsýnisstaðurinn á Sveifluhálsi. Þaðan má horfa yfir hinn ónafngreinda sanddal og alla leið yfir að Arnarvatni og Hettu.
Auðvelt er að ganga beint af hæðinni niður í dalinn og fylgja honum upp að Ketilsstíg, sem liggur þar þvert yfir hálsinn, frá Móhálsadal yfir að Seltúni.
Seltúnissvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufu- og leirhverum. Jarðhitavatnið er lítið salt og hefur hitinn mælst 230-260°C sem er mjög ákjósanlegur hiti til gufuframleiðslu.
Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum. Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir.
Árið 1941 fékk Hafnarfjarðarbær afsal fyrir jörðinni Krýsuvík ásamt hitaréttindum. Sama ár voru boraðar þrjár tilraunaholur við sunnanvert Kleifarvatn. Ætlunin var að komast að því hvort þar mætti fá gufu til að framleiða rafmagn fyrir Hafnarfjarðarbæ. Það varð þó ekki raunin því ekki fékkst nægt vatn eða gufa úr holunum. Hafnfirðingar gáfust þó ekki upp og árin 1945 og 1946 var ráðist í nýjar boranir. Tilgangurinn var sem fyrr að fá gufu til að framleiða rafmagn en einnig að virkja jarðhitann til upphitunar gróður- og íbúðarhúsa á jörðinni. Í þetta skiptið gekk aðeins betur og fékkst meiri gufa en í borununum árið 1941. Gufan var nýtt til upphitunar í Krýsuvík en ekki var ráðist í gerð jarðgufustöðvar eins og staðið hafði til og streymdi því gufan út í loftið, engum til gagns. Enn sem komið er hefur ekki orðið neitt úr framkvæmdum um nýtingu jarðhitans í Krýsuvík til rafmagnsframleiðslu og upphitunar en það er þó ekki ólíklegt að jarðhitinn á svæðinu verði nýttur í framtíðinni til upphitunar á höfuðborgarsvæðinu eða iðnaðarframleiðslu. Orkustofnun hefur einnig látið bora rannsóknarholur og gert víðtækar rannsóknir á svæðinu í gegnum tíðina.
Eftirparturinn er tilölulega auðveldur, en virðist lengri en ætla mætti. Ástæðan er væntanlega sú að þá breytir landslagið um svip, verður gróðursafaríkara og ávalara en forgangan. Fallegar gróðurskálar og, hellumyndanir og aukið víðsýni gefur þó tilefni til vangaveltna – einkum um forsöguna og tilurð hinna nýrri hraunmyndana.
Frábært veður. Gangan, hvor leiðin sem valin er með vönum leiðsögumanni, tekur 6 klst og 6 mín.
Heimildir m.a.:
-Halldór Ármannsson og Sverrir Þórhallsson, 1996: Krýsuvík, Yfirlit um fyrri rannsóknir og nýtingarmöguleika ásamt tillögum um viðbótarrannsóknir. Orkustofnun, OS-96012/JHD-06 B. 25 bls.
-Sveinn Þórðarson, 1998: Auður úr iðrum jarðar. Í: Ásgeir Ásgeirsson (ritstj), Safn til Iðnsögu Íslendinga XII. bindi (ritröð). Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 656 bls.