Ofan við Hóp í Grindavík er heilleg og falleg hlaðin refagildra, sú 59. í röðinni, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanesskaganum (sjá meira um refagildrur HÉR).
Svo er að sjá, að notkun slíkra veiðitækja, hafi verið mun algengari hér áður fyrr en áætlað hefur verið. Mjög lítið hefur verið skrifað um gildrurnar, sennilega aðallega af tveimur ástæðum; notkun og staðsetning þeirra var á fárra vitorði og því lítið um þær talað. Veiðiaðferðin hefur líklega ekki heldur þótt í frásögu færandi því refurinn, sem létt ginnast, svalt venjulega í hel þar sem hann var fastur í þröngri rásinni eftir að fallhellan hafði lokað hann inni.
Lítið sem ekkert er getið um hlaðnar refagildrur í örnefnalýsingum, en nokkur örnefni þeim tengdum er þó þar að finna, s.s. Gildruholt.
Þegar svæðið ofan við Hóp var skoðað mátti glögglega sjá að þar væri að finna “minjasafn” mannvistarleifa eftir refaveiðar; hlaðin byrgi og hlaðin skjól fyrir refaskyttur, merkingar á grenjum og svo áðurnefnd refagildra, sem líklega er elsta mannvirkið á svæðinu. Talið er að fyrirmynda að gerð gildranna megi leita til landnáms-manna. Minjarnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og ætti að reyna að varðveita það sem líkt.
Refagildran, sem um ræðir, er með op til suðurs og norðurs. Fallhellur eru við bæði opin. Í þessari gildru má enn sjá uppbyggingu slíkra mannvirkja, auk þess sem staðsetningin gefur vel til kynna að lágfóta fór ekki með brúnum heldur “lægðirnar smjó”, eins og segir í kvæðinu.
“Svæðið fyrir ofan veginn ofan við Hóp er nefnt einu nafni Hópsheiði. Það hækkar smátt og smátt. Rétt ofan við veginn er hraunklapparhóll, sem heitir Strandarhóll. Þar austur af er hæðarbrekka, sem heitir Hestabrekkur. Hún er ofan við utasta húsið.
Þar ofan við veg (Bræðratungu) utan í Hestabrekkum er komið tún nú. Uppi á þeim er varða, sem heitir Heiðarvarða. Varða þessi er innsiglingarmerki. Þar ofar uppi á brekkunum er holt, sem heitir Bláberjaholt. Skammt þar ofar er gamall eldgígur, sem heitir Melhóll. Þangað er sóttur ofaníburður. Vestur af Melhól er lægð, sem Grindavíkurvegurinn liggur yfir.”
Þegar svæðið var skoðað nánar kom í ljós enn ein refagildran, að öllum líkindum mun eldri en sú fyrrnefnda. Þessi stendur upp á lágum hól. Í hana er ágætt útsýni frá Þórkötlustaðabæjunum. Enn má sjá grunninn í hleðslunni, en að öðru leyti hefur gildrunni verið spillt. Gróið er að mestu yfir hana, en vel má sjá hleðslurnar, sem fyrr segir.
Sjá ennmeira um refagildur HÉR.
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Hóp