Ætlunin var að finna og skoða Mælifellsgrenin og Arnarsetursgrenin í Ögmundarhrauni.
Gengið var suður með austurkanti Ögmundarhrauns uns komið var að grónu gerði utan í hraunkantinum. Uppi á hraunbrúninni skammt sunnar er há varða. Frá henni liggur stígur vestur í mosahraunið, að stórri vörðu, sem þar er. Þegar komið var að þeirri vörðu var aðara að sjá skammt vestar. Við hana eru Mælifellsgrenin, þrjú að tölu. Við eitt þeirra er hlaðið u.þ.b. metershár veggur fyrir lítinn skúta. Þar er greinilegt bæli refskyttu. Einnig mátti sjá aðrar hleðslur við grenin. Til suðvesturs liggur óljós stígur niður í hraunið. Eftir u.þ.b. kílómeter var komið að Arnarsetursgrenjunum. Við þau eru einnig hleðslur, en minni. Frá þessu greni mátti sjá Brúnavörðurnar í suðvestri, en handan þeirra eru Miðrekagrenin. Ekki var farið í þau að þessu sinni.
Annars er Ögmundarhraun ágætt dæmi um nútímahraun.
Ögmundarhraun er undir Núpshlíðarhálsi, milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Líklega rann þetta hraun á 11. öld eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið.
Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells.
Frábært veður – og ágætur síðdegisgöngutúr (1 klst og 11 mín).