Þórkötlustaðir

Ætlunin var að afhjúpa örnefna- og söguskilti í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Skilti í Þórkötlustaðahverfi

Á árinu 2006 var afhjúpað sambærilegt skilti í Járngerðarstaðahverfi með sérstaka áherslu á sögusvið “Tyrkjaránsins” 1627. Austustu einingu þeirra þriggja stoða er Grindavík hefur byggt afkomu sína á í gegnum aldir verður nú gerð skil í máli og myndum. Markmiðið er að áhugasömum bæjarbúum og gestum verði gert auðveldara um vik að rata skýrðar sagnaslóðir hverfisins og njóta þess sem íbúarnir hafa skapað frá upphafi landnáms. Ef vel er að gáð má vel greina landnámsskála, minjar um forna vætti, dysjar, dæmi um átrúnað, þjósagnakennda staði, gamlar markaðar götur, garða, útræði og búskap jafnt sem aðra landnotkun á þessu annars afmarkaða svæði í þjóðleið atvinnusköpunnar um aldir – allt til þessa dags.
Skiltið verið afhjúpuð kl. 11:01 að staðartíma við Þórkötlustaðaréttina. Í kjölfar þess mun verða gengið um hluta svæðins og staðhættir skoðaðir og kynntir af staðkunnugum.
Kort af ÞórkötlustaðahverfiSpáð hafði verið vonskuveðri, en því hafði verið breytt í blíðskaparveður í tilefni dagsins.
Byrjað var á upphafsstað, við örnefna- og söguskiltið, sem héðan í frá mun standa á Klapparhólnum austan við Þórkötlustaðaréttina. Á standinum má berja augum kort af svæðinu sem og stutt yfirlit um sögu þess. Í textanum stendur m.a.: “Þú stendur við réttina í Þórkötlustaðahverfi. Réttin var hlaðin um aldamótin 1900. Hún hefur síðan verið endurbætt. Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli. Hætt var að nota hana um 1950. Rétt suðaustan við Bæjarfellið í Krýsuvík var vorrétt. Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu bændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efralands. Þar var Gamla-réttin.
Hér á eftir er að finna nánari upplýsingar um hús, örnefni og örlítið um þróun byggðar á svæðinu. Uppdrátturinn byggir á örnefnalýsingu Lofts Jónssonar, Garðbæ, frá árinu 1976, frásögnum hans sem og Ingeyjar Arnkelsdóttur, Buðlungu, Margrétar Sigðardóttur, Hofi, Ólafs Guðbjartssonar, Bjarmalandi, Sigurðar Gíslasonar, Hrauni, og fleirri er þekkja til staðhátta. Heimildir eru m.a. fengnar úr Sögu Grindavíkur, Jarðabók ÁM 1703, Fornleifaskráningu í Grindavík, Þjóðsögum JÁ og Landnámu. Hafa ber í huga að heiti túnbletta og einstakra húsa hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars.
Þórkötlustaðahverfið

Gengið um söguslóðir Þórkötlustaðahverfis

Í Grindavík hefur verið hverfabyggð frá ómunatíð. Hverfin voru þrjú; Staðarhverfið er vestast og Járngerðarstaðahverfi í miðið. Það austasta er hér, Þórkötlusstaðahverfið. Í byrjun 19. aldar voru íbúar allra hverfanna 185 talsins.

Þjóðsagan segir að Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. „Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi.” Segja fróðir menn að það hafi gengið eftir. Leiði kvennanna má sjá í hvoru hverfi. Þorkötluleiði mun vera á túninu austan Þórkötlustaðavegar nr. 11 sem og dysjar hunds og smala.

Þorkötludys

Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið Grindavík, líklega um 934. Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Líklegt má telja að byggðin hafi horfið um tíma. Um 1150 var mikið gos austan (Ögmundarhraun) við Grindavík og aftur um 1188. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að vestanverðu. Um 1211 færðist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Arnarseturshraun ógnuðu byggðinni.
Þórkötlustaða er fyrst getið í heimildum í rekaskrá Skálholtsstaðar frá 1270. Staðsetningin freistaði stólsins einkum vegna nálægðar við góð fiskimið. Hér þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum. Minjar fiskverkunar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. í Slokahrauni hér austan Þórkötlustaðahverfis og í Strýthólahrauni hér úti á Þórkötlustaðanesi. Landamerki Þórkötlustaða og Hrauns liggja um Slokahraun. Þar eru leifar margra fiskigarða (Hraungarðar). Garðarnir liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið mynstur. Hleðsluhæðin er milli 0,5-1,0 m.
 

Hermann gefur á garðann í Buðlungu

Í gömlum heimildum er getið um „gömlu Hraunsvör”. Á hún að hafa horfið er bænhús á Hrauni var lagt af skömmu eftir 1600. Kirkja mun hafa verið þar jafnvel frá því um 1200. Á 19. öld reru Hraunsmenn frá Nesi, en um 1840 hóf Jón Jónsson hreppsstjóri að láta gera vör sunnan undan túninu við bæinn. Enn má sjá hluta að gömlum hlöðnum túngörðum á Hrauni, en fyrir þá fékk Jón m.a. Dannebrogsorðuna.
Norðan vegarins ofan við Hraun er hóll og á honum hleðsla; Hraunsdysin. Þar segja kunnugir að hafi verið dysjaðir „Tyrkir” er drápust eftir að þeir gengu á land ásamt félögum sínum utan við Hraun 1627. Segir sagan að strákur frá Ísólfsskála hafi reynt að komast undan þeim á rauðri meri, þeir náð í taglið á henni en sú rauða þá sett hófana í þá með þeim afleiðingum að báðir drápust.

Árið 1703 voru Þórkötlustaðir enn eign Skálholtsstaðar. Bærinn hafði selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. Hjáleigur voru; Eyvindarhús, Ormshús, Eingland (Einland), Klöpp, Buðlunga og tómthúsið Borgarkot. Ekki er vitað hvar Ormshús eða Borgarkot voru. Áður var hjáleigan kölluð Lundun. Árið 1847 hafði hjáleigan Lambúskot bæst við, en 1787 voru Þórkötlustaðir komnir í þrjá hluta (austurpart, vesturpart og miðpart). Þríbýli var á Þórkötlustöðum lengst af á 19. öldinni. Heimræði var árið um kring. Sjávargötunar þrjár (Traðirnar) liggja niður að sjó milli bæjanna. Lending var dágóð á Þórkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi voru í Nesinu, m.a. selalátur. Sjórinn gekk á túnin og braut land að framan. Árið 1840 náðu þau rétt upp fyrir Þórkötlustaðaveginn, sem nú er. Þorkötludysin var þá utan garðs. Flestar túnbæturnar ofar í hverfinu eru tiltölulega nýlegar.

Þórkötlustaðagata í Slokahrauni

Nú eru Þórkötlustaðabæirnir tveir, Miðbær og Vestari-Vesturbær. Áður voru þarna einnig Vesturbær, sem stóð á milli Miðbæjar og Vestri-Vesturbæjar, og síðan Austurbær og Eystri-Austurbær, sem báðir stóðu austan við Miðbæinn.
Þórkötlustaðbrunninn sést á túnakorti frá 1918, norðan Miðbæjar. Hann var fallega hlaðinn, en síðar fylltur möl.
Álagasteinninn Heródes er innan garðs Vesturbæjar. Sagnir eru um að steininn megi hvorki færa né raska á nokkurn hátt. Fornar rúnir eða tákn er markað á hlið steinsins.
Þórkötlustaðir - hinn forni bæjarhóllÍ rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902 segir Brynjúlfur Jónsson að á Þórkötlustöðum átti að byggja heyhlöðu í bæjarhúsaröðinni. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Eldfjallaska ofan á gólfskálinni benti til þess að bærinn hafi lagst í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Samkvæmt hugmynd Brynjúlfs virðist þarna hafa verið um fornaldaskála að ræða. Nú er hlaðan horfin.
Tóftir bæja og gamlir kálgarðar eru allt um kring. Tóftir elstu Klappar og gömlu Klappar eru t.a.m. enn greinilegar.
Hleðslur úr torfi og grjóti sýna torfbæ eins og hann var allt fram á 20. öld. Tóftir Hraunkots eru austast í túninu, við túngarðinn. Mikið flóð 1925 tók af nokkur hús á svæðinu austast í Þorkötlustaðahverfi og voru bæirnir í framhaldi af því færðir ofar.
RanCap Fagnetdeiðarstígur (Eyrargata) var gata milli Hrauns og Þórkötlustaða með ströndinni. Ofar í Slokahrauni sést enn móta fyrir Hraunkotsgötu og Þórkötlustaðagötu. Hraunkot byggðist frá Hrauni og reri ábúandinn þaðan.

Við Skarfatanga hafa orðið tvö skipsströnd svo sögur fara af. Hinn 9. maí 1926 strandaði kútter Hákon frá Reykjavík norðan undir tanganum. Skipverjar björguðust. Franski togarinn Cap Fagnet strandaði þar aðfararnótt 24. mars 1932. Þá varð einnig mannbjörg, en strandið varð frægt í sögu björgunarsveitarinnar í Grindavík, vegna þess að þá voru í fyrsta skipti notuð fluglínutæki hér á landi. Þrjátíu og átta mönnum var bjargað í land.
Ofan hverfisins má sjá mikla steingarða til austurs. Þá hlóð að miklu leiti Þorsteinn Þorsteinsson frá Einlandi um 1930. Þeir hafa haldist nokkuð vel og verið haldið við.
Aðrar áhugaverðir minjastaðir eru og við hverfið, s.s. „Tyrkjahellir” utan í Vatnsheiði, hlaðnar refagildur ofan við Hraun, hlaðnir brunnar og kapella frá miðöldum á Þórkötlustaðabæirnir fyrr á 20. öldinniHraunssandi.”
Í ferðinni miðluðu nokkrir innfæddir Þórkötlustaðabúar af þekkingu sinni og reynslu. Ólafur Rúnar Sigurðsson sagði t.a.m. frá uppvaxtarminningum sínum í Austurbænum, þær stöllur Anna og Sólveig að Þórkötlustöðum 3 (vestari Vesturbænum) buðu gestum orkusnakk og leyfðu þeim að skoða álagasteininn Heródes sem stendur í garði þeirra. Fram kom í samtali stuttu síðar eftirfarandi fróðleikskorn. “Kunnugur á svæðinu kom einhverju sinni að Vesturbæ með tvo ferðamenn. Hann langaði til að sýna þeim Heródes. Áður
 hafði hann átt samræður við steininn, sem jafnan hafi sýnt honum inn í óorðna atburði. Þessu sinni þagði steinninn. Aðkomumaður vék frá, en kom aftur að steininum skömmu síðar. Þegar hann beygði sig niður að steininum og snart hann sá hann hvar hann hafði litla biblíu í brjótsvasanum. Tók hann bókina úr vasanum og náði þá þegar sambandi við steininn. Sagði sá að þá þegar hafi Hekla gosið. Þau undur og stórmerki áttu og að hafa gerst að gosið færði vatn það er átti að hafa verið á fjallinu upp með gosstróknum í heilu lagi svo sá undir botninn. Slíkur væri kraftur steinsins.

Heródes

Gamla ljósmyndin af Þórkötlustaðatorfunni er tekin á bilinu 1943-8. Fremst má sjá Austurbæinn, en austari Austurbærinn er til hægri og utan myndarinnar. Sjá má hrútakofann við enda bæjarins, gamla Miðbæinn og þá Miðbæinn, sem enn stendur. Þá tekur við Vesturbærinn, sem nú er horfinn og vestari Vesturbærinn. Að handan sést í Sólbakka. Milli hans og vestari Vesturbæjar (t.v.) er fjárhús frá Austurbæ. Þá bjuggu í Austurbænum þau Ólafur Þorleifsson og Ragnheiður Jónsdóttir. Fyrri kona Ólafs, Þórlaug, ljósmóðir, var þá látin. Þau áttu saman Láru, en börn Ólafs og Ragnheiðar voru Þórlaug, Kristinn og Jón. Ólafur, sonur Þórlaugar, kom einmitt þessari ljósmynd á framfæri við FERLIR, en hún er einstök fyrir margra hluta sakir; í fyrsta lagi sýnir hún gömlu Þórkötlustaðatorfuna utan austari Austurbæ og í örðu lagi sýnir hún aftakendur torfhúsa landans frá fyrstu tíð. Þau voru óeinöngruð, með einfalt gler í gluggum og segja má að baðstofumenningin fyrrum hafi verið flutt svo til óbreytt inn í þau nýju híbýli. Í húsunum var eldhús með kamínu þar sem fyrir var viður og hrossatað (og besta falli kol) til upphitunar, búr innan af (yfirleitt úr torfi og grjót) og síðan baðstofa sem sameinaði borðstofu, setustofu og svefnaðstöðu. Fólk sat áfram á fletum sínum og mataðist uns birtu þraut. Skepnukofar voru samfastir húsunum, svo sem heyra mátti dag og nótt.
Líklegt má telja að steinninn með tákninu tengist fyrrnefndum fornmannatóftum á bæjarhólnum að Þórkötlustöðum sem og Þórkötludysinni ofan garðs (fyrrum).
Loftur Jónsson lýsti örnefnum eins og hann væri að lýsa einföldum mataruppkriftum – svo vel þekkir hann til staðhátta á svæðinu, kvótakóngurinn og fjárbóndinn Dagbjartur Einarsson upplýsti viðstadda um heildarfjáreign Grindarvíkurbænda á vetrarfóðrum, en hún mun nú vera 524 um þessar mundir og er þá allt meðtalið. Erling Einarsson sagði frá fyrstu minningum sínum í kjallarnum á Eyvindarstöðum, sem nú hafa verið flutt í heilu lagi út í Járngerðarstaðarhverfi líkt og nokkur önnur hús á torfunni. Þá mátti litlu muna að hann missti ekki verri handlegginn í þvottavélavindunni, en ekki er langt um liðið að hann missti næstum betri handlegginn í kollbyltu á Selfjalli ofan við Brúsastaði í Þingvallasveit.
Hinir miklu túngarðar í ÞórkötlustaðahverfiLoftur sagði frá verslun Þórkötlustaðahverfinga; Kron og Kötlu sem og Pöntunarfélagi Hraðfrystihúss Þórkötlustaðahverfis og hversu áræðnir hverfingar voru að brjótast undan verslunaráhrifum Járngerðishverfinga. Á leiðinni bauð Hermann Ólafsson í Stakkavík þátttakendum í fjárhús sín við Buðlungu og fengu allir þeir er enn teldu sig vera börn að gefa uppáhöldunum brauð á garðann. Margir voru til kallaðir, enda fjárhúslyktin flestum hverfisbúum ómeðvitað í blóð borin. Þess má geta til gamans að talið er að fjárhirslan við Buðlungu sem og það, sem Stakkavíkurbændur eiga í Staðarhverfi, geti vel verið útibú frá Seðlabankanum. Lengi hefur verið leitað að fjárgeninu í bændum landsins, en líklega væri fljótvirkasta og vænlegasta leiðin að leita þess hjá Grindavíkurbændum.
Loftur, helsti ráðgjafi og þekkjari staðhátta á svæðinu, gat þess að lokum að jafnan hafi Grindavíkurbændur verið handgengnir útvegnum; sótt sjóinn, átt nokkrar kindur og 2-3 kýr. Þeir hafi jafnan unað glaðir við sitt og því væri varla frá miklu meira að segja, en hér hefur komið fram.
Að endalokum bauð Báruverslunar-Björn (afkomandi Hafur-Björns) og Didda til mikillar kjötsúpuveislu að Auðsholti, að gömlum réttardagslegum sið. Fyrir það ber að þakka.

Gangan tók 1 klst og 41 mín.

Þórkötlustaðahverfi